Sunnudagur 12. janúar, 2025
4.8 C
Reykjavik

Úlfarsfell geymir mörg ævintýri – Stærsta stund Ragga Bjarna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Úlfarsfell er það fjall sem langflestir ættu að prófa að ganga á, jafnt að vetri sem sumri. Fjallið er nokkurn veginn miðsvæðis á áhrifasvæði höfuðborgarinnar. Allt frá Seltjarnarnesi og til Hafnarfjarðar er í mesta lagi hálftíma akstur að rótum fjallsins. Gangan sjálf tekur svo á bilinu 1-3 klukkustundir. Fjallið er einstaklega þægilegt uppgöngu, víðast hvar. Þar skal þó undanskilið hamrabeltið sem blasir við ofan við skógræktina í Mosfellsbæ. Þangað skyldi enginn fara að gamni sínu. Fyrir nokkrum árum lenti faðir með börn sín í sjálfheldu þar og þurfti aðstoð björgunarsveitar. Slys eða óhöpp á fjallinu eru annars fátíð.

Úlfarsfell er til helminga í eigu Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar. Það er reyndar sláandi munur á umgengni á fjallinu eftir því hvorum megin það lendir. Mosfellsbær hefur af alúð lagt merkta og vandaða stíga upp fjallið frá skógræktinni og Skarhólabraut. Þá hafa bæjaryfirvöld gætt þess að loka leiðum sem þola illa átroðning.

Stjörnur og stórhríð

Reykjavíkurmegin er ekki sömu sögu að segja. Engar merkingar eru á göngustígum og tilviljun hefur ráðið því hvernig stígarnir myndast. Undantekning er þó vandaður stígur sem gerður var fyrir fjallahjólafólk austast í fjallinu, áleiðis á Litlahnúk. Gönguleiðirnar upp frá Úlfarsárdal eru annars grófir ómerktir slóðar og vegur sem liggur langleiðina upp á Stóra-hnúk. Leiðirnar upp fjallið sunnanvert eru dæmi um það skeytingarleysi og skort á umhirðu sem Reykjavík sýnir af sér. Þrátt fyrir það er gönguferð upp Úlfarsfell aldrei eins og alltaf gefandi. Vetrarganga með höfuðljós undir stjörnubjörtum himni og dansandi norðurljósum er eins rómantísk og útivist gerist. Ganga í stormi og stórhríð hefur einnig sinn sjarma.

Um er að ræða að minnsta kosti þrjár leiðir upp sunnanvert fjallið. Algengast er að fara frá stóra bílastæðinu í Úlfarsárdal og ganga sem leið liggur upp á Hákinn og þaðan yfir á Stóra-hnúk, þar sem er að finna vandaðan útsýnispall við hlið þess forljóta masturs sem fjarskiptafyrirtækin hafa komið upp. Önnur aðalleið er upp malarveg á austanverðu fjallinu. Þá enda menn gjarnan á Stórahnúki. Mitt á milli þessara tveggja leiða er undurfagur slóði um gil með fram lækjarfarvegi. Alls konar tilbrigði eru síðan við þessar leiðir, þvers og kruss.

Ævintýri í skógi

Gönguferð frá Mosfellsbæ um skóginn og upp á Hákinn er líkt og að ganga í gegnum ævintýri. Að sumri er það kyrrð í bland við fuglasöng þar sem sólargeislarnir sáldrast á milli trjánna og eru sem geislaregn. Að vetri til eru smáfuglarnir horfnir og frostið bítur kinn. Snjóflyksur í trjánum skapa stemmingu um þennan ævintýraheim. Eftir að skóginum sleppir taka við brattar götur áleiðis á tindinn. Tilvalið er að staldra við í miðjum hlíðum og horfa á nýjan kirkjugarð í fæðingu sem kúrir undir vesturenda fjallsins. Eftir bratta kafla og snarpa hækkun um gilskorning birtist Hákinn. Þaðan er útsýni vítt og breitt þótt þessi tindur sé örlítið lægri en Stórihnúkur sem rís 305 metra upp frá sjávarmáli.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á efsta tindi Úlfarsfells.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á efsta tindi Úlfarsfells.

Gangi fólk leiðina frá Skarhólastíg vekur strax athygli göngustígurinn sem nostrað hefur verið við í hvívetna. Undirlagið er úr gúmmímottum sem möl hefur verið borin í. Tröppur hafa verið gerðar á bröttustu köflunum. Þessi ganga hefst í skógi og endar á Hátindi. Stígur liggur frá Hátindi á Hákinn. Sú leið er vinsæl ekki síður en hinar fjölbreyttu gönguleiðir upp fjallið.

- Auglýsing -

Áttan er áskorun

Ein af leiðunum sem farnar eru um Úlfarsfell er kölluð Áttan. Þar er um að ræða talsverða áskorun sem felst í því að ganga skáhallt yfir fjallið frá Reykjavík til Mosfellsbæjar. Gangan hefst gjarnan á stóra bílastæðinu í Úlfarsárdal, tekinn er sveigur til vesturs og síðan haldið upp vesturenda fjallsins og upp á Hákinn. Þaðan er sveigt austur yfir fjallið áleiðis að Stórahnúk og farið niður stíginn að Skarhólabraut. Tilvalið er að taka kaffipásu í skógarlundi áður en haldið er af stað með fram hitaveitustokknum til vesturs  að skógræktinni í Mosfellsbæ. Farin hefðbundin leið um skóginn og upp undir Hákinn þaðan sem, gengið er á Stórahnúk. Þar bíður göngufólksins stórfenglegt útsýni sem nær um höfuðborgarsvæðið og Reykjanes að Snæfellsjökli í norðri og suður að Hlöðufelli. Eina sem truflar er forljótt mastur fjarskiptafyrirtækjanna sem að ósekju hefði mátt vera annars staðar en á þessari perlu höfuðborgarsvæðisins. Leiðin um Áttuna heldur áfram eftir dýrðarstund á toppnum. Haldið er til austurs niður af tindinum og gengið á Litlahnúk sem kúrir við hlið stóra bróður. Þaðan er tekinn mjúkur sveigur og komið niður á eystra bílastæðið undir fellinu og gengið með fjallsrótum þar sem Áttan lokast eftir um 8 kílómetra göngu og 450 metra hækkun.

 

Félagar úr Næsta skrefi Ferðafélags Íslands. Mynd rt

Margir fastagestir eru á fjallinu. Þeir líta á göngurnar sem sína heilsurækt. Sumir mæta daglega en aðrir sjaldnar. Þó nokkrir hafa farið yfir 1.000 sinnum á fjallið og njóta heilsuræktar í faðmi þessarar perlu höfuðborgarsvæðisins. Metið á hann Sigmundur Stefánsson sem hefur farið rúmlega 3.263 ferðir á fjallið fagra. Hann fer gjarnan 200 ferðir á ári og er í fullu fjöri 76 ára. Sigmundur á örugglega Íslandsmet sem seint verður slegið.

- Auglýsing -
Sigmundur Stefánsson hefur farið yfir 3.200 sinnum á Úlfarsfell.
Mynd: Reynir Traustason.

Fjallið geymir áhugaverða sögu. Á stríðsárunum var það notað sem æfingasvæði fyrir hermenn og lokað öllum almenningi. Það truflaði hugsanlega ekki fólk þar sem fjallgöngur nutu ekki almannahylli á þeim tíma. Fólk fór helst ekki að nauðsynjalausu á fjöll. Erindið var ýmist að smala kindum eða tína ber eða fjallagrös. Annað var óþarfi. Nútíminn er aftur á móti sá að fólk hefur lært að meta dásemdina sem felst í því að standa á efsta tindi, njóta útsýnis og styrkja sál og líkama.

Greinarhöfundur með forseta Íslands á Úlfarsfelli
Greinarhöfundur með forseta Íslands á Úlfarsfelli.

Fjölmargir eiga minningar frá fjallinu. Undanfarin ár hefur Ferðafélag Íslands gjarnan verið með tónleika á Úlfarsfelli í samvinnu við Fjallakofann og World Class. Á þriðja þúsund manns gengu á fjallið þegar Stuðmenn og Raggi Bjarna skemmtu ásamt Bjartmari, Valdimar og fleirum. Það var stór stund þegar Raggi kom svífandi með þyrlu Landhelgisgæslunnar og söng Vorkvöld í Reykjavík. Ein stærsta stundin í lífi söngvarans, sagði hann eftir tónleikana. Fyrr á þessu ári mætti Helgi Björns með Reiðmönnum vindanna og Sölku Sól. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, söng þá Vertu þú sjálfur með Helga. Myndskeið af atburðinum fór um með leifturhraða og þjóðin hreifst. Svo eru það allir leynigestirnir sem hafa gengið á fjallið með Skrefum Ferðafélags Íslands. Mörgum er í fersku minni þegar Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra braust í gegnum stórhríð með hópnum og flutti snjalla ræðu í kappi við hávaðann í veðrinu. Yrsa Sigurðardóttir mætti til að segja draugasögur og Sóli Hólm var með uppistand. Á dögunum mætti svo Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og sýndi sína bestu takta og sagði frá leyndarmálum að tjaldabaki. Allt að gerast á fjallinu.

Yrsa Sigurðardóttir með umsjónarmönnum Fyrsta skrefsins á Úlfarsfelli.

Ferðafélag Íslands heldur úti reglubundnum göngum fyrir félagsfólk á miðvikudögum kl. 18 undir merki gönguhópa Skrefanna. Göngurnar eru öllum opnar og þær gera öllum gott til sálar og líkama.

Höfundur á að  baki 1.800 ferðir á Úlfarsfell.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -