„Það á að bera virðingu fyrir allri vinnu, öllum störfum, af hvaða tegund sem er,“ sagði fóstra mín oft og tíðum. Iðjuleysi var eitur í hennar beinum, en samt gekk hún ekki svo langt að hún segði að „betra væri illt að gera, en ekkert.“ Fóstra mín var hins vegar gallhörð á því að gera ætti hlutina almennilega eða sleppa því. Þessi einfalda sýn fóstru minnar á þennan þátt mannlegrar tilveru hefur verið mér veganesti allt fram á þennan dag. Maður vinnur til að afla sér lífsviðurværis, gerir það vel og samviskusamlega og leyfir sér að vera upplitsdjarfur fyrir vikið. Maður fer ekki í hrokagírinn þegar ekki er til salt í grautinn og afþakkar starf á þeim forsendum að maður sé of góður fyrir það, of menntaður til að inna það af hendi, of vel gefinn til að sjást með skóflu í hönd – svo dæmi sé tekið.
Lesa meira hér