Höfundur pistils er Adam Lárus Sigurðarson.
Lýðræði er gott.
Þetta er eitthvað sem okkur er talin trú um frá unga aldri. Þetta er eitthvað sem við eigum að vita og er þetta nefnt í aðalnámskrá grunnskóla sem og aðalnámskrá framhaldsskóla.
Í þeim plöggum er lögð áhersla á mikilvægi þess að nemendur fái þá menntun að geta tekið þátt í lýðræðislegu samfélagi. Þess vegna eru það þvílík vonbrigði að þingmenn hafi í gær dæmt gegn lýðræðinu og þar með sett lýðræðið á Íslandi í ruslflokk.
Hvernig kom þessi staða upp og hvernig eigum við að bregðast við þessu?
Áður en ég svara spurningunni sem varpað var fram í upphaf þessa pistils er gott að ræða aðeins fyrst um hugtakið lýðræði og hvers vegna það sé gott.
Lýðræði er það stjórnarfar þar sem lýðurinn eða borgarar landsins ráða yfir landinu. Ísland er land þar sem lýðræði er við lýði og er það talið gott. En margir hafa stoppað og spurt sig, af hverju það sé gott? Af hverju er gott að hafa land sem er stjórnað af fólkinu sjálfu?
Svarið við því er margþætt.
Til eru mörg stjórnarkerfi og hafa þau alla sína kosti og galla.
Í einræði er ein manneskja sem hefur öll völdin. Þar er ákvarðanataka stjórnvaldsins fljót og allt gengur fljótar fyrir sig. Hins vegar er þá einfalt fyrir þá manneskju að ákveða að kúga þegna sína og getur enginn stoppað einvaldinn því hann hefur öll völdin. Það hefur oft gerst í gegnum mannkynssöguna og er fólk því almennt sammála um að einveldi sé ekki gott. Fámennisveldi er svipað, nema þá að í því þá hefur ákveðinn fámennur hópur fólks allt valdið, og aftur þá er einfaldara fyrir þegnana að verða fyrir kúgun.
Til eru tvær megintegundir af lýðræði, en það eru beint lýðræði og fulltrúalýðræði.
Í beinu lýðræði eru allar ákvarðanir teknar beint af borgurunum. Í þessu stjórnarfyrirkomulagi geta allir borgarar kosið um öll málefni. Þetta hefur ýmsa kosti en gallarnir eru þeir að allir borgarar þurfa sífellt að setja sig inn í öll málefni og það hafa ekki allir tíma til þess.
Hin gerðin af lýðræði er fulltrúalýðræði. Í þannig lýðræði kýs lýðurinn fulltrúa sem fara með stjórnina. Í þessari gerð lýðræðis á hver og einn að kjósa þá fulltrúa sem þeir treysta til þess að fari eftir þeirra vilja þegar þeir taka ákvarðanir. Ef ég myndi til að mynda vilja að hart væri tekið á umhverfismálum þá kysi ég þá aðila sem ég teldi að myndu setja það í forgang.
Það er lykilatriði, gjörsamlega lykilatriði, þessarar gerðar lýðræðis að kosningarnar séu áreiðanlegar því þær úrskurða um hverjir fara með vald lýðsins. Ef þær eru illa framkvæmdar geta borgarnir ekki treyst því að fulltrúarnir séu í raun og veru fulltrúarnir sem voru kosnir.
Til að mynda þá myndi enginn telja kosningar gildar ef öll atkvæðin væru talin af fimm ára krökkum sem kunna ekki að telja upp í meira en hundrað. Einnig myndi engin taka kosningar gildar ef bara fulltrúar eins og bara eins flokks mættu telja atkvæðin.
Kosningalögin þurfa að vera með þeim hætti að fólk geti treyst að atkvæðið sem maður sjálfur, sem og allir aðrir greiddu, séu talin rétt og séu gild.
Til þess að sjá til þess eru ákveðnar reglur.
Á Íslandi er það svo að fólk setur atkvæði í kassa. Þegar kjöri lýkur eru þeir innsiglaðir til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að fjarlægja atkvæði eða jafnvel bæta í. Svo eru kassar fluttir á talningarstaði og þar eru atkvæðin talin. Þegar atkvæði eru talin geta fulltrúar flokka sem eru í framboði verið þarna til þess að athuga að sé talið rétt. Þetta er nauðsynlegt því þau sem eru að telja gætu til að mynda öll fyrirlitið einn flokk og ákveðið að telja ekki þau atkvæði. Þess vegna er mikilvægt að allir flokkar hafi fulltrúa þarna inni. Bæði til að fylgjast með talningarmönnum og hvor öðrum.
Þegar búin er að telja atkvæði eiga kassar að vera innsiglaðir aftur; á meðan þau eru ekki innsigluð; á meðan þau eru ekki varin, þá er lítið mál að hafa áhrif á þau. Það er til að mynda ekki flóknara en svo að einn einasti óprúttni aðili með penna í hendi getur krotað á seðla til þess að ógilda þá.
Kæru vinir. Fyrir rúmlega tveimur mánuðum voru þessi kosningalög þverbrotin í Norðvesturkjördæmi. Kjörgögn voru ekki innsigluð. Kjörgögn voru inni í rými sem þó nokkuð af fólki hafði aðgang að. Gögnin voru geymd yfir nótt og hafist var handa við endurtalningu áður en eftirlitsmenn komu á staðinn. Og hvað gerðist svo? Úrslit Alþingiskosninga breyttust. Fimm manneskjur duttu af þingi og fimm aðrar komu inn.
Augljóslega var þetta kært. Augljóslega voru lög brotin. En hvar á að dæma um þetta mál? Hver á að dæma hvort lagabrotið eigi að ógilda kosningar. Er það lýðurinn sjálfur? Nei. En kannski dómarar sem hafa enga sérstaka hagsmuni af þessu?
Nei.
Heldur eru það alþingismennirnir sjálfir sem sjá um að ákveða hvort ógilda skuli kosningarnar eða ekki. Á meðal þeirra sem fá að taka ákvörðun eru þeir sem voru kosnir inn þrátt fyrir þessa annmarka. Þannig að mögulegt ólöglegt Alþingi fékk að kjósa um það hvort það væri löglegt eða ekki. Það er algerlega galið. En okkar blessaða stjórnarskrá leggur blessun sína yfir þetta. Það ætti nú að vera ljóst hverjum viti bornum manni að hún er ekki bara úrelt heldur hættulega úrelt.
Eins og ég sagði áður, þá er það grundvallaratriði í fulltrúalýðræði að kosningar á fulltrúunum sé fullkomlega áreiðanleg. Í ár var hún það ekki. Það hefði átt að þýða að kosið væri aftur. Ef liggur á vafi hvort kosningarnar séu gildar eða ekki myndi maður halda að það væri borðliggjandi að kjósa skyldi aftur.
En hvað var það sem gerðist? Það var valin nefnd til þess að rannsaka málið. Sem er nú allt gott og blessað. Gott að sjá að málið sé nú rannsakað.
Í átta vikur var málið rannsakað. Átta! Og það var ljóst strax á fyrsta degi að kosningarnar voru gallaðar og það var enn ljósara vikuna á eftir og enn ljósara vikurnar þar á eftir. En ferlið tók átta vikur. Á þessum vikum var ekkert starfhæft Alþingi, á þessum átta vikum gafst lýðnum tækifæri til þess að róa sig niður og hætta að vera reið yfir af hverju þetta gerðist. Á þessum átta vikum minnkaði sá tími sem fengist til að afgreiða fjárlög og önnur mikilvæg málefni. Átta vikur var alltof langur tími.
Að tveimur mánuðum liðnum frá kosningum komu Alþingismenn saman og ræddu þetta á löngum fundi. Á þessum tíma hafði nefndin skilað af sér niðurstöðu úr rannsókninni og kom þá bersýnilega í ljós hvað það voru margir gallar á talningunni. En þrátt fyrir þetta vildi meirihluti nefndarinnar ekki að kosið yrði aftur.
Ég spyr, hvers vegna ekki?
Þau sögðu að það hafði ekki sannast að brotin á kosningalögunum hefði haft áhrif á niðurstöðurnar. En hvernig gátu þau verið 100% viss um það? Þau vissu að það var mögulegt fyrir fólk að komast inn þar sem kjörgögn voru geymd. Þau vissu að það voru mannaferðir þarna. Þau vissu að kjörgögnin voru berskjölduð og síðast en ekki síst, þau vissu að niðurstöðurnar breyttust milli kosninga. Þau vildu fá 100% sönnun á að svindl hefði átt sér stað. Þau vildu eflaust sjá upptöku af einhverjum krota á seðlana eða færa þá á milli bunka. En þegar kemur að hinu mikilvægasta atriði í lýðræðissamfélagi, kosningum. Á þá ekki að þurfa 100% vissu um að ómögulegt sé að kosningalögbrotin ætli megi að hafi haft áhrif.
Svo var ekki þeirra túlkun.
Þau vildu gefa sér það að engin vildi svindla. Þau gefa sér það að öllum starfsmönnum hótelsins sé treystandi. En þótt Birgir Ármannsson formaður nefndarinnar og hans fólk treystir fólki í Borgarnesi fullkomlega finnst mér ekki að við hin í landinu eigum bara að gera það.
Túlkun Birgis á 120. grein um „Lög um kosningar til Alþingis“ er undarleg. Greinin hljómar svo „[…}Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda[…]”.
Hér er orðalagið „ætla má að hafi haft“ túlkað sem „við þurfum að vera alveg klár á því að líklegt sé að annmarkar hafi haft áhrif á niðurstöðu“. Eðlilegra er að túlka þetta sem „það sem mætti telja að hafi haft áhrif“ eða „það sem mögulega gæti hafa haft áhrif“ og samkvæmt seinni túlkunum er augljóst að það ætti að kjósa aftur.
En nú er ég enginn lögfræðingur, en þó verður að vera ljóst að túlkun mín sé líka ákjósanleg túlkun og miðað við hvað það er mikilvægt lýðræðinu að kosningar séu gerðar á réttan máta þá þykir mér undarlegt að það hafi ekki verið túlkað þannig.
Kæru vinir. Í gær kaus mögulegt ólöglegt Alþingi það að það væri löglegt. Þar á meðal þeir þingmenn sem mestur vafi lék á um að væri löglegir, en þar má til að mynda nefna hann Bergþór Ólason. Ég verð að segja að það olli mér miklum vonbrigðum að Alþingi Íslendinga hafi með þessu lagt blessun sína yfir talninguna í Norðvesturkjördæmi, sem voru með öllu ólögleg og ólýðræðisleg. Ég segi fyrir mitt leyti að með þessu hefur Alþingi misst allt mitt traust og segi ég að með þessu athæfi hafi gæði íslensks lýðræðis hrapað niður í ruslflokk.
Það sem mér þykir samt merkilegast við allt þetta er að svo virðist sem viðbrögðin við þessu hafi ekki verið sterk. Engin mótmæli hafa verið boðuð. Samfélagsmiðlar loga ekki af reiði (allavega ekki í mínum bergmálshelli). Hvers vegna er það svo? Er mikið af fólki á Íslandi sem er ekki lengur annt um lýðræðið, eru fáir reiðir því það bjuggust allir við þessu?
Ekki þekki ég eina einustu manneskju sem þótti þetta koma á óvart. En er það ekki merkilegt? Er ekki merkilegt að það komi engum á óvart að blessun hafi verið lögð yfir meingallaðar kosningar? Mögulega höfum við þegar misst alla trú á lýðræðinu? Mögulega eru flestir of uppteknir til þess að setja sig inn í svona mikilvæg mál. Ég veit ekki hvers vegna viðbrögðin hafa verið svona lítil, en ég segi að fyrir mitt leyti að það eru vonbrigði.
Ég mun nú skrá hjá mér lista allra þeirra þingmanna sem kusu gegn uppkosningu. Þau mun ég aldrei kjósa. Ef ég kýs flokk sem þau eru á mun ég strika þau út. Þetta er fólkið sem kaus gegn góðu lýðræðislegu ferli og þetta er fólkið sem mun að öllum líkindum þurfa að lifa með það á samviskunni að Mannréttindardómstóll Evrópu mun ávíta Ísland fyrir svona léleg vinnubrögð. Þau eru lýðræðinu til skammar.
Þetta var mat mitt á þessu öllu saman.
Ég átta mig vel á að margir verða mér ekki sammála. En ég get ekki séð svona hluti gerast án þess að tjá mig um þá. Ég vil líka að það verði einhverjar afleiðingar. Ég vil fá einhver viðbrögð.
Auðvitað þætti mér best að þeir sem kusu gegn góðum lýðræðiskosningum segi af sér en ég er nú ekki svo bjartsýnn. En eitthvað þarf að gera. Við þurfum að fá einhverja fullvissu um að svona gerist ekki aftur. Við hljótum að geta sammælst um að svona gengur þetta ekki. Það þarf að breyta stjórnarskránni. Það þarf að gera heljarinnar úttekt á kjörstöðum. Við þurfum að krefjast breytinga og að þær þurfa að gerast sem fyrst, en ekki láta fresta því fram í lok kjörtímabilsins og sleppa því svo.
Þangað til að róttækar breytingar eiga sér stað verður íslenskt lýðræði í ruslflokki og allir sem láta sér ekki annt um þetta málefni, og allir þeir sem finnst þetta ekki skipta máli eru þar með að styðja beint eða óbeint við slíka flokkun.
Höfum hátt, krefjumst breytinga.
Adam Lárus Sigurðarson
ES: Hér er listi þeirra sem kusu gegn uppkosningu í Norðvesturkjördæmi og í hvaða flokkum þau eru
Anna Kolbrún Árnadóttir (M), Ágúst Bjarni Garðarsson (B), Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (D), Ásmundur Einar Daðason (B), Ásmundur Friðriksson (D), Ásthildur Lóa Þórsdóttir (F), Berglind Ósk Guðmundsdóttir (D), Bergþór Ólason (M), Birgir Ármannsson (D), Birgir Þórarinsson (D), Bjarni Benediktsson (D), Bjarni Jónsson (V), Bryndís Haraldsdóttir (D), Diljá Mist Einarsdóttir (D), Eyjólfur Ármannsson (F), Guðmundur Ingi Kristinsson (F), Guðrún Hafsteinsdóttir (D), Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (B), Halla Signý Kristjánsdóttir (B), Haraldur Benediktsson (D), Hildur Sverrisdóttir (D), Inga Sæland (F), Ingibjörg Ólöf Isaksen (B), Jakob Frímann Magnússon (F), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Jón Gunnarsson (D), Katrín Jakobsdóttir (V), Kári Gautason (V), Kjartan Magnússon (D), Lilja Alfreðsdóttir (B), Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B), Líneik Anna Sævarsdóttir (B), Njáll Trausti Friðbertsson (D), Líneik Anna Sævarsdóttir (B), Njáll Trausti Friðbertsson (D), Óli Björn Kárason (D), Sigurður Ingi Jóhannsson (B), Stefán Vagn Stefánsson (B), Steinunn Þóra Árnadóttir (V), Tómas A. Tómasson (F), Vilhjálmur Árnason (D), Willum Þór Þórsson (B), Þórarinn Ingi Pétursson (B) og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir (D).