Laugardagur 21. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Vinarminning um Guðberg Guðnason, Bíla-Berg: „Svona maður verður aldrei til aftur“ 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í dag verður gerð útför Guðbergs Guðnasonar, Bíla-Bergs frá Flateyri. Athöfnin verður í Fossvogskirkju. Það eru þung spor að fara á þessa kveðjustund. 

Bergur var engum líkur, flest sem hann gerði var sveipað ævintýraljóma og þá ekki síður hann sjálfur. 

Fyrst og fremst varð hann þekktur sem bílstjóri sem lét sér ekkert fyrir brjósti brenna. Það sem einkenndi Berg var einkum þrennt, hjálpsemi, glaðværð og prakkaraskapur.

Þegar ég var púki var Bergur í dýrlingatölu og hvarvetna verið að segja af honum sögur. Hann var örugglega með ADHDX2.

Guðni faðir hans var jarðýtustjóri og sat Bergur jafnan í hjá honum líkt og púkarnir gerðu síðar með Berg. Sitja á geymakassanum og upplifa allskyns ævintýr á jarðýtu. En allt um það Bergur vissi hvernig ætti að gera til að koma svona ýtu af stað og einhverju sinni kom hann að ýtu í gangi ofan við Flateyri og auðvitað ákvað hann að prófa. Ýtan var með herfi aftan í þannig að túnin urðu að moldarflagi meðal annars tún hreppsstjórans en þetta slapp, engum datt í hug að hann barnið hefði gert þetta.

Hvítasunnukirkjan var með trúboð um árabil á Flateyri, þangað var Bergur sendur eins og önnur börn í þorpinu. Eitthvað gekk honum illa að skilja þau fræði sem þar voru á borð borin og hagaði sér ekki eftir ströngum aga trúboðsins.

- Auglýsing -

Ester Nilsen sem var forstöðukona þessa starfs ákvað að ná óþekktinni úr drengnum í eitt skipti fyrir öll, fór með hann fram á bað og lét vatn renna í baðkerið. Stakk síðan höfði barnsins á kaf og reif hann svo upp á hárinu og spurði hvort hann hefði séð hvíta dúfu. En Bergur sá bara hrafn og þeim fjölgað hröfnunum í hverri dýfingu.

Söfnuðurinn átti litla skellinöðru af Husqvarna gerð. Bergur keypti hjólið af Ester vinkonu sinni og náði að sendast helling fyrir hana og fá borgað fyrir þannig að akstur varð snemma tekjulind hjá honum.

Það var ótrúlegt hvað var hægt að spóla á nýbónuðum flísunum

En hæst náði dásemd þessa hjóls þegar hann brunaði í gegnum Kaupfélagið. Tveir inngangar voru í nýju kaupfélagsbúðina á Flateyri og voru hurðarnar gjarnan bundnar upp á gátt ef hlýtt var í veðri. Fyrir utan búðina hitti Bergur Kitta Kitt, sem ég hygg að sé afi Samherja, Kitti bauð honum álitlega upphæð ef hann færi á hjólinu í gegn.

- Auglýsing -

„Það var ótrúlegt hvað var hægt að spóla á nýbónuðum flísunum,“ sagði Bergur mér löngu seinna. En um miðja búð mætti hann Trausta kaupfélagsstjóra sem vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið en Bergur var löngu horfinn á braut þegar Trausti áttaði sig.

Fermingarsumarið fór Bergur að vinna á vöktum á móti pabba sínum á jarðýtu þegar verið var að gera flugvöllinn í Holti. „Það var gaman þegar þeir komu frá Flugmálastjórn og sáu mig á ýtunni. Ég var svo lítill og asnalegur með alltof stór eyru. Þeir héldu að ég væri að fikta eitthvað en ég sagði þeim að ég væri að gera flugvöll og hefði ekki tíma til að stoppa lengur. Þeir voru líka alveg ánægðir með vinnubrögðin,“ sagði hann

Ári áður en Bergur fékk bílpróf keypti hann sér Fiat 2100 sem ævinlega var bara kallaður græni Fíatinn. 

Með þessum bíl upphófst eitt allsherjar þjóðvegarallý sem stóð í áratugi. Frægt var þegar málari var að setja lit á nýbyggingu Pósts og síma á Flateyri. Aumingjans maðurinn var upp í stiga að mála uppundir þakskeggið. Allt í einu kemur bíll brunandi á seinna hundraðinu og undir stigann. Málarinn missti fötuna en það breytti engu Bergur var löngu horfinn af vettvangi. Það þurfti að hjálpa aumingjans manninum niður stigann og skal engan undra.

Fíatinn fékk að finna fyrir áhuga Bergs á vetraríþróttum hvergi var sá skafl að hann reyndi sig ekki við hann. Frægt var þegar sr. Lárus, sóknarprestur í Holti, hringdi í Magnús Guðmundsson í Tröð til að forvitnast um færðina fyrir Önundarfjörð. Magnús kvaðst ekki vita það en vissi þó að Bergur hafi farið um fyrir skömmu á Fíatinum. „Ég var akki að spyrja um það, ég var meina hvort ég kæmist á jeppanum“ svaraði Lárus.

Þessi Fíat var auðvitað gerður flottari en aðrir slíkir flottast fannst okkur púkunum að hann var með plötuspilara sem voru fyrstu hljómflutningstæki sem til voru í bíla á eftir útvörpunum.

Man ekki á hvaða bíl það var en Skarphéðin Njálsson sem um langt árabil var í vegalöggunni sagði mér eitt sinn frá því þegar þeir ætluðu að ná Berg sem var að keyra inn Seljalandsveginn á leið frá Ísafirði. Þeir byrjuðu að elta ákveðnir í að ná honum. „Ég get sagt þér það Guðmundur að hann Bergur var ekki að klára að borða þegar við komum á Flateyri, hann var búinn að því og var að klára grautinn“ 

Að því kom að akstur varð full vinna, hann keypti sér Bedford vörubíl og það var alveg ótrúlegt hvað hann gat gert á þessum litla bíl. Í vegavinnu í Djúpinu ók hann með sama hlass og 10 hjóla bílarnir og á sama gjaldi þannig að bíllinn borgaði sig fljótt og vel.

Ótrúlegt var þegar hann fór gamlan línuveg með rafmagnskefli í loftlínu upp Klofningsdal Hreinn Ólafsson hjá Orkubúi Vestfjarða sagði að það hafi verið göldrum líkast og fullvissaði mig um að enginn annar hefði getað gert þetta. 

Bílar Bergs báru venjulega af öðrum bílum hvað varðaði viðhald og snyrtimennsku. Man eftir því þegar hann var eitt sinn að þvo á Bíldudal kom maður sem horfði á hann nokkra stund og spurði svo hvort hann ætlaði að þvo þannig að það þyrfti aldrei aftur. Honum fannst nákvæmnin nokkur.

Samhliða vörubílaútgerðinni var hann með rútur og Rússajeppa til fólksflutninga. Allan veturinn var eilíf barátta við snjóinn, ýta, moka, gera við slitnar keðjur hópurinn kaldur en frískur skafl eftir skafl.

Reykspólað á hallærisplaninu

Mér er minnisstætt þegar við fórum nokkrir með honum í bíó á Ísafjörð í hléinu hafði hann orð á því að sér litist ekki á útlitið. Spurði hvort við værum til í að við færum heim núna. 

Ef einhver var glöggur á útlit þá var það hann þannig að við drifum okkur heim á leið. Þegar við komum í Kinnina á Breiðadalsheiðinni brast á þreifandi andskotans bylur svo maður sá ekki sína nánustu. Spáin hélt samt áfram að vera fín.

Um miðja Kinn byrjaði mokstur keðjur að slitna og allt sem fylgir svona færi. Bens-kálfurinn komst samt ótrúlega á einföldu og keðjum undan brekkunni.

Það var nokkuð stöðugur mokstur til byggða, á leið okkar niður heiðina komum við að Rússa jeppa með 14 farþega og blauta vél. Farþegarnir sem voru skólakrakkar úr Súðavík voru færðir yfir í rútukálfinn en jeppinn hengdur aftan í rútuna þar sem við vorum að komast á auðan kafla. Þar fundum við Land Rover jeppa með brotinn millikassa, farþegarnir voru allir færðir úr honum og hann hengdur aftan í Rússann og við vorum komnir með tvo bíla í tog og 20 aukafarþega. Samt jagaðist þetta jafnt og þétt þar til að þriðji jeppinn bættist við með blauta vél. Farþegarnir voru færðir á milli og hann hengdur aftan í.

Þannig komumst við nokkurn spöl en svo varð ljóst að þetta væri bara della að vera með alla þessa bíla í togi.

Enda veðrið orðið þannig að við höfðum nóg með að moka kálfinn í gegn. Það segir sitt um veðrið að Bergur leyfði farþegum sem ekki lögðu í að fara út, að pissa í tröppuna við hurðina. 

Það var einhvern veginn með hann Berg að hann komst meira og fljótar en aðrir.

Á þessum rútukálfi náði Bergur að reykspóla á Hallærisplaninu.Það urðu margir undrandi þegar fór að rjúka úr afturdekkjunum á kyrrstæðum rútubílnum sem spólaði bara á vinstri afturhjólunum.

Bílatöffararnir komu hver á eftir öðrum til að sjá þetta undur gerast. Þetta hafði enginn séð áður og líklega ekki síðan, þetta gerir ekki hver sem er.

Þegar hann eignaðist þriggja drifa 10 sílindra Bens vörubíl hófust sýningar sem gaman var að. Hann fór í reiptog við stóra hjólaskóflu og dró hana létt á eftir sér. Þá var prófað að hnýta í sjöu sem er nokkuð stór jarðýta. Þar var jafntefli, bæði bíllinn og ýtan spóluðu en hvorugt hreyfðist.

Jafntefli gat gengið en honum líkaði ekki að tapa. Einhverju sinni þegar hann átti stórt mótorhjól reyndi hann sig á kappakstri við stelpu sem matráðskona í brúarflokki inn í Önundarfirði. Strákarnir höfðu tekið eftir að þetta var fönguleg kona sem væri alveg óhætt að komast í kynni við, þeir höfðu líka tekið eftir því að hún virti lítt hámarkshraðann. 

Hún kom reglulega út eftir til að kaupa kost í Kaupfélaginu. Eftir að allt var komið í bílinn var sett á fulla ferð og mótorhjól fylgdi á eftir. Nú átti að sýna stelpunni hver Bíla-Bergur væri. Félagar Bergs fylgdu í humátt á eftir og urðu hissa þegar þeir sáu hjólið út í kanti innan við bæinn Hvilft og búið að rífa allar hlífar af því. Bilað sagði kappinn en eitthvað var óljóst með bilunina. Alltént var hjólinu ekið til baka og það á fullri ferð.

Mögulega er þetta eina skiptið sem Bergur hefur tapað kappakstri.

En aftur að stóra vörubílnum sem Mogginn kallaði þróttmesta vörubíl norðan Alpafjalla. Sem fyrr var sport að fara á Ísafjörð í bíó og heilsa upp á allar þær skemmtilegu stelpur sem bærinn ól af sér. Húsið á Bensanum var bara fyrir þrjá þannig að þegar fleiri voru með var settur fólksbíll á pallinn fyrir aukafarþega svo var skemmtilegra að rúnta um Ísafjörð á fólksbíl en trukknum stóra.

Ofan við vegamótin af Breiðadalsheiðinni yfir á Botnsheiði kom alltaf helvíti stór skafl. Strákarnir, sem síðar stofnuðu Allrahanda, voru ásamt fleirum í fólksbílnum á pallinum þegar Bergur ákveður að taka skaflinn á ferðinni.

Mælaborðið í Bensanum logaði, það var búið að splitta allt þvers og langs og allir 10 sílindranir fengu að hafa fyrir lífinu.

Þegar bíllinn stoppaði í skaflinum var snjórinn það djúpur að strákarnir á pallinum urðu að skríða út um glugga á fólksbílnum, snjórinn var slíkur. Það tók stund að moka bílinn upp með þremur skóflum.

En almennt fór þessi bíll allt.

Berg verða ekki gerð skil til hlítar í einni grein. Hann seldi Bensann, flutti til Reykjavíkur, gifti sig og eignaðist börn og bílskúr.

Hann starfaði akstur sem fyrr og var meðal annars lengi hjá þeim félögum sínum í Allrahanda en þeir smituðust af rútudellu af Berg.   

Bergur gat aldrei verið kyrr hann var alltaf á ferðinni ef hann var ekki að gera við fyrir einhvern í bílskúrnum sínum.

Hann fór um allt land á húsbílnum sínum og meira og minna um alla Evrópu. Ef einhversstaðar var eitthvað að gerast var Bergur þar. Ævintýrin löðuðust að honum. Mannlíf sagði frá því þegar ferjan Baldur bilaði að auðvitað var Bergur um borð. Mannlíf sagði líka frá þeim hryggðarviðburði þegar ofbeldisfólk réðst á hann fyrir að hlusta á Helga Björns. en ekkert beit á kallinum fyrr en covitið kom.

Hann sem hafði hugsað sér að verja meiri tíma með dætrunum þremur og barnabörnunum. Tvær dætur búa í útlöndum og hann talaði um heimsækja þær meira núna í ellinni. En það fór eins og það fór.

Ég vil senda dætrum Bergs og Öldu systur hans samúðarkveðjur. Barnabörnin eiga bara eftir að heyra sögur af því hvað þau áttu skemmtilegan afa litríkan og skemmtilegan.

Kæri Bergur því verður vart lýst hvað þú hefur gert lífið miklu skemmtilegra en það hefði orðið án þín.

Það var mér mikið happ að verða vinur þinn. Skarð þitt mun aldrei verða fyllt, svona maður verður aldrei til aftur. 

Ég veit að þú ert farinn að þurrka af fyrir handan og strjúka með bónklútnum þar sem við á.

Svo get ég sagt þér það hraðaksturskappi að ég varð að fara í hraðpróf til að mega kveðja þig. Hraðinn fylgir þér út yfir gröf og dauða minn kæri góði vinur.

Far vel á þínum hraða.

Guðmundur Jón Sigurðsson.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -