Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Your own personal Jesus

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bæklingur sem ég rakst á um ópíóda sem Lyfjafræðingafélag Íslands vann í samvinnu við Landlæknisembættið er alveg kostulegur. Hann er mjög vel unnin og allt er upp á borðum ólíkt því hvernig ástandið var fyrir 20 árum síðan. Þá var til dæmis Oxycodone kynnt sem ó-ávanabindandi ópióði og læknar með trega díluðu og víluðu á meðan menn í glansskóm hoppuðu hæð sína af kæti.

Í grein­ingu Was­hington Post frá því árið 2019 sem fjallaði um ópíóða­far­ald­ur­inn kom fram að Act­a­vis hafi verið næst stærsti fram­leið­andi ópíóða­lyfja á banda­rískum mark­aði á árunum 2006 til 2014. Á þessu tíma­bili nam mark­aðs­hlut­deild Act­a­vis 32 pró­sentum en félagið seldi 32 millj­arða pilla á tíma­bil­inu.

Bandaríska lyfjaeftirlitið nálgaðist Actavis í október 2012 og óskaði eftir því að það myndi minnka framleiðslu sína á ópíóíða lyfinu oxycodone um 30 til 40 prósent til að minnka magn þess í umferð.

Stjórnendur Actavis urðu ekki við því og gáfu stjórnendur út að fyrirtækið bæri ekki á ábyrgð á misnotkun lyfjanna. Þó alríkislög þar í landi skyldi fyrirtækin til að fylgjast með mynstri, tíðni og magni lyfjapantana, þá geti Actavis ekki stjórnað því hvernig lyf þeirra væru á endanum notuð. Það voru skilaboðin.

Actavis sem var keypt árið 2016 af Ísraelska lyfjarisanum Teva var í eigu Íslendinga þegar faraldurinn stóð sem hæst. Róbert Wessman var forstjóri fyrirtækisins en Björgólfur Thor eignaðist það árið 2007. Þegar íslensku útrásar hetjurnar seldu lágu mörg hundrað þúsund í valnum en þeim var fagnað og baðaðir í konfetti.

Rétt fyrir jól lenti ég í því að deila flugvél með einum svona lyfja-smákóng. Við vorum á leiðinni til London en í röðinni fyrir framan mig í ranann sagði hann við kunningja sinn sem hann hitti í röðinni að hann myndi örugglega eyða jólunum í Frakklandi og ég skil það vel því ég las að þar ætti hann kastala. Í Gucci frá toppi til táar var aðalmaðurinn, útrásarvíkingurinn á leið í kastalann sinn.

- Auglýsing -

Við fáum fréttir þegar þeir græða og þegar þeir tapa. Við lesum um þá þegar þeir hringja bjöllum í kauphöllum, það rignir yfir þá glimmer sem flýtur í hálffullum kampavínsglösunum, skiptir engu, því er bara hellt í vaskinn, þeir eiga nefnilega vínekrur þessir gæjar.

Bjarni hringdi í mig byrjun 2017 viku áður en hann var myrtur. Hann var á einhverju hótelherbergi í slæmu ástandi. Hann hafði oft hringt í mig þrátt fyrir ungan aldur, hann var bara tvítugur. Hann sagði við mig í símann að honum vantaði hjálp, hann gæti ekki meira en ég hafði heyrt þetta svo oft og svo var föstudagur og ég á kafi í vinnu og heil vinnuhelgi framundan í skóla dóttur minnar svo ég hafði engan tíma til að díla við Bjarna. Ég bauð honum að ég gæti tekið hann með í vinnu á mánudeginum og hann þáði það. Ég sagðist samt ætla að hringja í hann þegar ég væri búin að vinna en ég gerði það ekki og mun alltaf sjá eftir því. Ég fann fyrir svo miklum vanmætti, mér fannst ég ekkert getað gert, ópíóðafíkn er bara rugl, maður getur ekkert gert, þeir deyja bara. Ég hringdi ekki í hann og hann hringdi ekki í mig og vikan leið og svo sé hann bara í dánartilkynningum meðan ég slafraði í mig Cherrios viku eftir að við töluðum saman. Hann hafði dáið á laugardagsmorgni, ópíóðar drápu hann á meðan einn eignaðist vínekru og ég hljóp á hamstrahjóli.

Ég hef nokkrar svona sögur, farið í nokkrar svona jarðarfarir þar sem mæðrum er rúllað inn í hjólastólum. Þær eru lamaðar af sorg, í taugaáföllum. Meira að segja Jónas Oddur vinur minn til margra ára, hann var klettur og með mikið lyfjaþol, ég hélt að hann væri sá síðasti sem myndir hverfa þrátt fyrir að hann hafði dílað við ópíóðafíkn í örugglega 20 ár. Inn og út úr meðferðum og hann náði meira að segja að verða edrú nokkrum sinnum í nokkra mánuði og ár þess vegna. Þegar að hann hjálpaði mér með að grafa fyrir sólpallinum heima hjá mér var hann búin að vera edrú í smá tíma. Jónas var sjúklega duglegur, sjúklega fyndin og ógeðslega klár en hann var ópíóíða fíkill og eftir að hafa verið edrú í sirka ár stakk hann sig í handlegginn og hvarf.

- Auglýsing -

Ógeðslega skrítið þegar vinir manns hverfa svona, einn daginn sækir maður þá á fundi eða bíó og þeir sýna mér myndir af börnum og gæludýrum og allt í blóma og svo bara nokkrum vikum seinna eru þeir horfnir og skilja eftir sig ástvini í molum.

Á Íslandi eru tugir íslendinga myrtir af ópíóðum og framleiðendum þeirra á hverju ári. Þessar tölur fara hækkandi með hverju ári þrátt fyrir alla fína bæklingana sem gefnir eru út. Bæklingar sem segja að ópíóðar séu sjúklega ávanabindandi og stórhættulegt efni. Bæklingar sem segja að sé ekkert annað í boði hvað varðar verkjastýringju nema ópíóðar, pilates og núvitund.

Við veltum vöngum eins og hauslausar hænur yfir vanmætti okkar gagnvart ópíódafaraldri en horfum ekki á það augljósa. Ópíóðafaraldurinn er í boði skattgreiðanda, við kjósum þetta yfir okkur á meðan jakkafataklæddir menn á H.G.H hringja bjöllum, baðaðir í smjaðri og glimmer.

Útrásarvíkingar og fjármála-hetjur út um allan heim með ósýnilegt blóð undir vel snyrtum nöglun.

Höfundur: Gunnar Dan Wiium
Starfar sem verslunarstjóri, hlaðvarpsstjórnandi Þvottahússins og umboðsmaður

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -