Föstudagur 24. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Ráðuneyti skugganna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst

 

Líklega er ég ekki ein um að leiða hugann að stjórnmálum í Bretlandi þessa dagana. Um þau má hugsa út frá ótal sjónarhornum, hvort heldur sem er frá alþjóðlegum vinkli eða hvaða þýðingar nýjustu vendingar koma til með að hafa innanlands.

Sjálf hef ég líka velt því fyrir mér hvort Theresa May og eiginmaður hennar skipti heimilisstörfunum jafnt á milli sín þegar þau koma heim úr vinnunni, eða hvort hún fái kannski að sleppa við að raða í uppþvottavélina og Philip geri það bara þessa dagana.

Að horfa á umræður í breska þinginu er ákveðið rannsóknarefni út af fyrir sig. Þetta er eitt af fáum þingum í heiminum sem ekki er byggt í formi hálfhrings eða skeifu heldur eru stjórn og stjórnarandstaða bókstaflega hvor á móti annarri. Öskurhlátur, baul og tilþrif sem án efa hafa verið æfð á naríunum fyrir framan spegilinn fyrr um morguninn. En hér á landi erum við kannski ekki í aðstöðu til að gagnrýni starfsemi annarra þjóðþinga og háttalag þeirra sem þar starfa. Að minnsta kosti ekki út frá þeirri vinnustaðamenningu sem virðist hafa ríkt og ríkir enn á Alþingi Íslendinga.

Hins vegar er ákveðinn háttur á fyrirkomulagi Breta sem mér þykir vera til eftirbreytni. Þar skipa meðlimir stjórnarandstöðunnar svokölluð skuggaráðuneyti. Skugga-utanríkisráðuneyti, Skugga-menntamálaráðuneyti o.s.frv. sem fylgjast náið með því sem fram fer í hverju ráðuneyti fyrir sig og störfum ráðherranna. Fylgja þeim eins og skugginn.

Á þann hátt skapast ef til vill grundvöllur fyrir því að finna þeim ekki bara allt til foráttu, einfaldlega vegna þess að málin koma frá meirihlutanum, heldur koma með alvörutillögur um  hvernig mætti standa betur að málum. Gera hlutina öðruvísi í krafti þekkingar á málaflokknum. Þetta er bara tillaga. Einhver pæling til þess að eitthvað fari kannski að gerast í mörgum brýnum málum hér á landi sem bíða afgreiðslu. Því það hefur ekki mikið gerst að undanförnu. Eða í það minnsta skuggalega lítið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -