Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Rafvæðum dómstólana

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Í laganámi var grínast með það, að dómsmál væru munaður sem venjulegir Íslendingar gætu hugsanlega leyft sér einu sinni eða tvisvar á lífsleiðinni. Ástæðan er að sjálfsögðu sú, að dómsmálum fylgir alla jafna gríðarlegur kostnaður, sem ekki er á færi venjulegs launafólks að bera sjálft. Af þeim sökum ratar venjulegt fólk ekki inn í réttarsali Íslands, nema eitt af tvennu komi til: Það er brotið á því og það ákveður að sækja rétt sinn af prinsipp-ástæðum; eða hitt, einhverjum samferðarmanninum er misboðin hegðun manns og dregur mann fyrir dóm.

Nema hvað. Án þess að ég sé sérstakur talsmaður þess að dómsmálum fjölgi, þá er það mér kappsmál að kostnaðurinn sem þeim er samfara minnki. Það kann að hljóma sérkennilega, komandi frá lögmanni, en auðvitað er það þannig, að minni kostnaður eykur öryggi réttarríkisins og gefur fólki kost á því að stíga fastar niður þegar því misbýður.

Ferlið við einfalt hefðbundið dómsmál er þetta: Einstaklingur leitar til lögmanns með verkefni. Lögmaður reynir að sætta málið, enda mögur sátt alltaf betri en feitur dómur. Takist sættir ekki, stefnir lögmaðurinn málinu inn. Strax hérna er kostnaðurinn mögulega farinn að hlaupa á hundruðum þúsunda.

Þegar málinu er stefnt inn, fær lögmaðurinn stefnuvott til þess að birta gagnaðila stefnuna. Málið er svo þingfest stuttu síðar og þarf lögmaður að mæta í þingfestinguna. Áætla má allt að eina klukkustund í þingfestingu, auk kostnaðar við akstur. Í kjölfarið fær gagnaðili tækifæri til þess að skila greinargerð. Þegar henni er svo skilað þarf lögmaður aftur að mæta. Í kjölfarið er málinu svo úthlutað til dómara, sem tekur málið aftur fyrir. Þá vilja lögmenn aðila hugsanlega leggja fram frekari gögn, til stuðnings sínum málatilbúnaði. Þá kann gagnframlagning lögmanns að kalla á frekari gagnaframlagningu gagnaðila og svo koll af kolli. Allt kann þetta að vinda upp á sig, ansi hratt. Að endingu lýsa lögmenn svo gagnaöflun lokið og ákveðinn er tími fyrir aðalmeðferð.

Allt þetta, sem að ofan er lýst fram að aðalmeðferð, er nokkuð sem auðvitað ætti að vera hægt að gera á netinu. Ef dómstólarnir tækju í sína notkun rafræna gagnagátt, sem heimilaði mönnum að afhenda gögn í tilteknu dómsmálum, mætti straumlínulaga þetta ferli heilmikið og draga verulega úr kostnaði fyrir borgaranna. Þá myndi þetta líka minnka kostnað fyrir ríkið (sem er auðvitað bara við, borgararnir), því sambærilegt og það sem að ofan er lýst á sér stað í rekstri sakamála.

- Auglýsing -

Tæknileg útfærsla svona kerfa er þegar til. Þannig má nefna kerfi sem heitir Justikal sem uppfyllir þá öryggisstaðla sem til slíkra kerfa eru gerðir. Og svo er vafalaust til hellingur af öðrum sambærilegum lausnum. Það liggur því beinast við að spyrja: Eftir hverju erum við að bíða?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -