Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-7.8 C
Reykjavik

Rauði varalitur Rósu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

ÉG ER KONA.

Ég lét letra orðin þessi á legstein móður minnar og valdi forsíðumynd ævisögu hennar sem postulínsminni og blasa bæði við gestum og gangandi í Fossvogsgarðinum. Klippt og skorið.

Orðin lét hún falla í áramótaskaupi RÚV í upphafi níunda áratugarins og gerði þar meðal annars stólpagrín að sjálfri sér, íklædd loðfeldi og með eldrauðan varalit.

„Ég er kona“ – sagði hún daðursleg á svip og dró seiminn; brosti ísmeygilega mót myndavélinni.

„Ég er líka kona!“ – æpti þá önnur kona jarmandi rómi með krambúlerað andlit og úfið hár út í myrkrað stúdíóið meðan á tökum stóð.

Já, fólk hafði enn húmor fyrir jafnréttisbaráttunni í þá daga og handritshöfundar Skaupsins það árið fóru fram með kyndilbera þeirra tíma í opinberri umræðu um stöðu og hlutverk kynjanna. Og húmor hafði konan hún móðir mín fyrir lífinu og tilverunni. Óhrædd við að gera grín að sjálfri sér og gagnrýna málstað annarra ef svo bar undir. Samkvæm sjálfri sér var hún og innrætti mér slíkt hið sama. Hún tönnlaðist á mætti viljans við mig alla mína tíð, hún hvatti mig til að vera fylgin sjálfri mér og það var hún sem kenndi mér að gefa ekki þumlung eftir þegar á móti blési.

- Auglýsing -

Það var einmitt hún sem líka kenndi mér meðan ég var enn á grunnskólaaldri að hættulegastur umhverfinu væri sá maður sem hefði allsendis engan húmor fyrir sjálfum sér.

„Þá fyrst þegar fólk er farið að taka sig of hátíðlega er hættan vís,“ var mamma vön að segja.

Vil ég með þessu meina að ég hafi, staðföst á svip og einkar sannfærð, skellt húmorísk upp úr við andlát móður minnar? Að ég hafi í kjölfarið ákveðið að slást í hóp með nú öldruðum handritshöfundum Áramótaskaupsins forðum daga, blaðrandi um heilandi mátt hreystilegrar kímnigáfu og dagsins hugðarefni við grandalausa starfsmenn legsteinagerðar í Kópavogi, sem eiga heiður skilið fyrir hlýja framkomu og metnað til góðra verka?

- Auglýsing -

Þvert á móti. Mér var síður en svo hlátur í huga þegar ég valdi hinstu kveðjuna til mömmu.

Móðir mín var kona fram í fingurgóma og trú eigin sannfæringu til síðasta dags.

Orðunum sem ég lét letra á legstein mömmu er ætlað að hnykkja á og heiðra linnulaust ævistarf einnar mögnuðustu konu sem ég hef augum borið um ævina; bestu vinkonu minnar, baráttufélaga, þokkagyðju og fagurkera. Ólátabelgurinn, móðirin og listamaðurinn Rósa Ingólfsdóttir var stórbrotin kona og orðin sem letruð eru á legstein hennar varða magnaðan fjölmiðlaferil og lífsleið hennar, baráttuþrek, persónustyrk og óbilandi staðfestu til síðasta dags.

Þessar fallegu svipmyndir frá mögnuðum listferli mömmu völdu fjölmiðlar m.a. að birta við andlát hennar

Andlát mömmu og dánartilkynning mín á Facebook rataði í blöðin og ekki nema von og vísa, móðir mín var merkur listamaður og hárbeittur þjóðfélagsrýnir sem fór ekki í launkofa með sannfæringu sína. Umfjöllunin rataði í framhaldinu inn í hóp Fjölmiðlanörda á Facebook og einhver galgopinn steig þar fram í athugasemdakerfinu þar sem orðin: „Er þetta ekki fullósmekkleg mynd af Rósu? Er þetta viðeigandi myndbirting þar sem konan er dáin?“ minnir mig að ég hafi að lokum lesið.

Ekki einu sinni í dauðanum fengum við frið fyrir andófsmönnum rauða varalitsins.

Umfjallanirnar voru dásamlegar, mér klökknaði um augun og ég er svo hreykin af mömmu.

En þessi orð. Hvort ekki væri ósmekklegt að birta ljósmynd af vel tilhafðri, þá nýlátinni konu, meðan hún enn dró andann. Rétt eins og mamma ætti að vera örlítið hokin á þeim myndum sem fylgdu umfjöllun um andlátið. Helst niðurbrotin bara á mynd. Þessi galgopi sem lét allt flakka. Því átti ég erfitt með að trúa.

Fegurstu myndirnar af móður minni birti ég í sálmaskrá og þykja mér þær allar geisla af einkar viðeigandi kynþokka

Blaðamenn þeir sem ritað höfðu fréttir af andláti móður minnar, stigu hálfundrandi fram í framhaldinu í athugasemdakerfinu og ég þurfti sjálf að lokum að skerast í leikinn. Svaraði ég umræddum galgopa svo að mér þætti myndin fögur, að ljósmyndin prýddi ævisögu Rósa og að fjölmiðlafólk hefði farið vönduðum, fallegum og einkar nærandi orðum um lífshlaup og ævistarf móður minnar.

Ég er hreykin af mömmu. Þakklát kollegum mínum úr heimi fjölmiðla sem vottuðu móður minni virðingu sína og auðsýndu mér samúð vegna fráfalls hennar. Galgopanum sem ritaði athugasemdina í Fjölmiðlanörda forðum daga á ég hins vegar erfitt með að átta mig á; vel tilhöfð kona með rauðan varalit getur varla talist ósmekkleg á ljósmynd ef hún er nýlátin? Hefði galgopanum þótt fremur viðeigandi að ég, dóttir hennar, kysi að birta mynd af móður minni með hornspangargleraugu og skeyta bindi inn á myndina?

Móðir mín, lífsförunautur, sálufélagi og sannarlega kona fram í fingurgóma, eilífðarstúlkan sem steig langvinnan og lýjandi tangó við dauðann í ein ellefu ár áður en hún hneig friðsæl að lokum í fang ferjumannsins, hefur lagt aftur augun í síðasta sinn. Ég trúi því staðfastlega að sál hennar dansi léttstíg á öðru vitundarstigi, hvar sem handanlífið kann að vera að finna. Að hún brosi við mér frá himnum og hvísli að mér heilræðum gegnum þokumistur draumfara og ylvolgra tebolla að morgni.

Móðir mín átti sannarlega rauðan varalit og kona var hún Guðmunda Rósa.

Því þótti mér allra mest viðeigandi að velja ljósmynd af einni fegurstu konu sem ég hef augum litið á ævi minni; í sínu fínasta pússi á merkasta degi ævinnar. Ég valdi henni sjálfa forsíðumyndina sem prýðir ævisöguna RÓSAMÁL. Ég kaus líka að birta ljósmyndir við opinbera dánartilkynningu hennar úr rósaviðtalinu sem Bjarni Brynjólfsson skráði við mömmu meðan ég var enn á unglingsaldri og gerði, vissulega eins og allt sem blessuð konan tók sér fyrir hendur, allt vitlaust.

Þessa fallegu ljósmynd af mömmu tók Grímur Bjarnason fyrir ævisöguna RÓSAMÁL sem Jónína Leósdóttir ritaði

Orðin sem ég lét letra á legstein móður minnar sem hvílir í Fossvogskirkjugarðinum og svo ljósmyndin fagra sem prentuð er á postulín eru minnisvarðar þeir sem ég get látið henni í té um ókomna framtíð. Orðin munu standa löngu eftir minn dag og glæða grafreit hennar kvenlegum ljóma einlægri hugsjón konunnar sem fæddi mig í þennan heim.

Rekist ég á fallegar myndir af móður minni og sér í lagi ef svipmyndir frá korsettárum hennar ber upp mun ég hreykin deila þeim með öllum þeim sem vilja augu bera. Reyndar á ég nóg af þeim myndunum og flestar prýða þær viðtöl frá liðnum árum og marka uppvöxt minn.

Nei, ég tek þessar gagnrýnisraddir ekkert nærri mér og hef aldrei gert.

Er ég þá sammála móður minni í einu og öllu? Alls ekki. Við höfum aldrei verið á sama máli í einu og öllu, enda væri slíkt óeðlilegt og í raun áhyggjuefni, gæfi til kynna að ég væri ófær um að mynda mér sjálfstæðar skoðanir og að móðir mín hefði beitt kerfisbundnum heilaþvotti.

Við tvær vorum hins vegar gæddar þeim skemmtilega eiginleika að geta borið eðlilega virðingu fyrir skoðunum hverrar annarrar og þeir eru ófáir kaffibollarnir sem við höfum flissað ofan í. Eitt er nefnilega alveg víst og því gleðst ég í einlægni yfir. Og það er þessi skemmtilega staðreynd sem varla fer hjá neinum þegar hér er komið sögu.

Ég, rétt eins og krambúleruð kynsystir móður minnar í Skaupinu sagði sællar minningar hér forðum daga, er nefnilega líka kona.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -