Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Rottugerpi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarin 2-3 ár hefur verið mikið tal í íslenskri knattspyrnu um að nú sé komin alvöru fagmennska í boltann í fyrsta skiptið. Forráðamenn knattspyrnuliða, ÍTF, stjórnarmeðlimir og formenn KSÍ og fleiri góðir hafa klappað sér duglega á bakið og sagt að nú geti íslenska þjóðin loks verið stolt af öllu frá toppi til táar. Nýtt nafn, nýr bikar (eða réttara sagt skjöldur) og nýtt leikjafyrirkomulag.

Ný ímynd var sköpuð.

En það líða varla tvær vikur án þess að fólk sjái í gegnum þá tálsýn sem reynt hefur verið að skapa. Fagmennskan er verulega takmörkuð hvert sem litið er.

Í vikunni áttust við lið HK og Vestra í Bestu deildinni og eins og gengur og gerist í knattspyrnuleikjum voru stuðningsmenn beggja liða ósátt við ýmislegt. Það er ekkert nýtt. Stuðningsmenn segja margt og mikið og sumir hreinlega vita ekki betur. Einn einstaklingur sem hefði átt að vita betur er Samúel Samúelsson, forráðamaður Vestra, en hann ákvað að kalla leikmann HK rottu á samfélagsmiðlum, eins og ekkert væri eðlilegra. Manni eiginlega fallast hendur.

Mig langar svo að rifja upp nokkur mál sem öll hafa komið upp á árinu en munum að aðeins fjórir mánuðir eru liðnir af þessu blessaða ári.

Fyrst ber auðvitað að nefna þáttöku Alberts Guðmundssonar í landsleikjum Íslands við Ísrael og Úkraínu. Reglur KSÍ segja skýrt að sæti leikmaður rannsókn eins og Albert gerði þegar landsleikirnir fóru fram megi hann ekki spila fyrir hönd Íslands. Það er hægt að ræða sanngirni þess að slíkar reglur séu til fram í rauðan dauðann en KSÍ fór þarna markvisst og viljandi gegn eigin reglum til þess að fá mögulega mörg hundruð milljónir inn á bankabókina. Svo væri eflaust hægt skrifa bók um allt fíaskóið í kringum landsleikinn við Ísrael.

Svo má ekki gleyma því að Kjartan Henry Finnbogason, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og núverandi aðstoðarþjálfari FH, kallaði landsliðsmenn Úkraínu gerpi í beinni útsendingu þegar hann var lýsa landsleik Íslands við Úkraínu.

Snemma árs birtist auglýsing í Facebook-hópi fyrir aukaleikara þar sem var auglýst fyrir hönd ÍTF eftir fólki sem væri til að leika ókeypis í auglýsingu fyrir Bestu deildina. Slíkt þykir gífurlega illa séð í kvikmyndagerð á Íslandi og nánast óþekkt við auglýsingagerð og greinilegt þegar auglýsingin birtist að nægur peningur var til í kassanum.

- Auglýsing -

Í febrúar var ný stjórn KSÍ kosin ásamt nýjum formanni og maður velti fyrir sér hvort að það myndi færast aukin fagmennska í störf stjórnar en svo fer maður á heimasíðu KSÍ og sér að svo er ekki. Það að stjórnarmeðlimir KSÍ séu með netföng á borð við [email protected], [email protected] og [email protected] er í besta falli vandræðalegt og svo sannarlega ekkert faglegt þar á ferðinni.

Nú í apríl voru svo tveir þjálfarar liða í þriðju deild karla dæmdir í þrjá mánaða bann af KSÍ. Fyrir hvað? Nú auðvitað að falsa leikskýrslur hjá liðum sínum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að þarna eru þjálfarar liða í þriðju deild og kannski ekki hægt að ætlast til þess að fagmennskan hjá slíkum félögum sé á sama stigi og hjá liðum í efstu deild en þetta hjálpar svo sannarlega ekki neinum.

Þessi upptalning mín er alls ekki tæmandi og ég viðurkenni fúslega að þetta nokkuð neikvætt „take“ hjá mér. Það er fullt af góðum og skemmtilegum hlutum að gerast íslenskum fótbolta en það þarf aðeins að róa niður allt fagmennskuhrósið sem menn veita sjálfum sér á sama tíma hreyfingin stendur og fellur með sjálfboðaliðum og leikmenn liða þurfa ráða lögmenn til að fá launin sín greidd.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -