Björgunarþyrlur eru mikilvægustu öryggistæki Íslendinga. Fjölmörgum mannslífum hefur verið bjargað frá því Íslendingar eignuðust fyrstu þyrluna eftir langa baráttu. Sjómenn á hafi úti og fólk í háska í óbyggðum hefur notið góðs af þessu öryggistæki. Allir þekkja sögur um bjargvættina sem koma úr háloftunum og bjarga fólki í annars vonlausri stöðu. Hundruð manna eiga þyrlunni og áhöfn hennar líf að launa. Björgunarþyrlan er gjarnan kölluð sjúkrabíll sjómannsins. Nú er uppi sú skelfilega staða að þyrlur Landhelgisgæslunnar eru fastar á jörðu niðri. Ástæðan er launadeila manna sem eiga að sinna viðhaldi vélanna. Hugsið ykkur að allir sjúkrabílar landsins væru stopp vegna þess að bifvélavirkjar væru í verkfalli. Hjartaáfall í Hafnarfirði gæti þýtt dauða vegna þess ástands og að tekist er á um krónur. Það kemst enginn til lífshjálpar vegna þess að rifist er um laun.
Nú er staðan sú að í sjávarháska er ekki lengur hægt að treysta á björgun úr lofti. Sú staða er ekki útilokuð að launadeila flugvirkja gæti kostað fjölda mannslífa. Þegar er öryggisleysið ríkjandi. Bátur var í hættu út af Garðskaga í nótt. Sjómennirnir voru við öllu búnir og komnir í flotgalla. Vandinn var hins vegar sá að ef allt hefði farið á versta veg þá var engin þyrla. Þeir hefðu getað dáið Drottni sínum vegna þess að flugvirkjar eru að slást um laun og sinna ekki viðhaldi. Bjargvættirnir eru ekki til staðar.
Slys gera aldrei boð á undan sér. Togaraáhöfn á Halamiðum eru aðra stundina í fullkomnu jafnvægi en þá næstu er háski á ferðum og sökkvandi skip. Vandinn er sá að þetta er aldrei fyrirsjáanlegt. Áhöfn björgunarþyrlunnar þarf alltaf að vera í viðbragðsstöðu til að geta komið til hjálpar. Það er búið að rjúfa þessa keðju og óvissan um neyðarhjálp er ríkjandi.
Stjórnvöld bera þunga ábyrgð á ástandinu. Það er óviðunandi að þyrlur Gæslunnar séu lamaðar á jörðu niðri. Hver ætlar að axla ábyrgð ef fólk þarf að deyja vegna þess að bjargvættir eru bundnir í báða skó og enginn getur svarað neyðarkallinu? Ætlar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra að axla ábyrgð ef þessi rússneska rúlletta endar með ósköpum. Ætlar kannski ríkisstjórnin öll að svara fyrir ástand sem er óboðlegt og siðlaust?
Ekki skal efast um að flugvirkjar Gæslunnar eru ekki ofhaldnir í launum. Vafalaust eru rök til þess að lagfæra laun þeirra umfram alla aðra í samfélaginu. Aðalatriðið er að þetta ástand má ekki vara lengur. Nokkrar stéttir í samfélaginu eru lífsnauðsynlegar í orðsins fyllstu merkingu. Verkfallsvopnið má ekki verða til þess að fólk í háska láti lífið. Af þeirri ástæðu þarf að grípa strax inn í launadeiluna hjá Landhelgisgæslunni. Ef ekki tekst að semja í frjálsum samningum verður að setja lög á deiluna. Það átti að gerast í gær. Í dag gæti skaðinn vera skeður. Kannski sleppur þetta fyrir horn en fólk gæti farist vegna ástandsins. Nú er þetta aðeins spurning um heppni.