Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Sá heimur sem kemur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun
Eftir / Helgu Völu Helgadóttur

Við lifum á fordæmalausum tímum. Þessi setning hefur verið sögð og rituð oftar á undanförnum vikum og mánuðum en við getum talið en þessir fordæmalausu tímar þurfa ekki eingöngu að vera neikvæðir. Við getum og eigum að horfa upp úr viðjum vanans og skoða hvað við getum gert til að breyta samfélaginu og heiminum öllum til batnaðar.

Einhverjir eiga mjög erfitt með hvers konar breytingar. Telja mikilvægara að halda heiminum í föstum skorðum, hvort sem slíkt er til góðs eða ills fyrir meginþorra fólks. En ég vil þá hvetja þá hina sömu til að opna hugann, leyfa forvitninni að taka yfir og skoða hvað við getum gert til að bæta heiminn.

Við getum nefnilega bætt ýmislegt ef við bara þorum að opna hugann, eins og lítið barn sem kannar heiminn. Það er staðreynd að hvers kyns misskipting er samfélagslega óhagkvæm. Þar sem meiri jöfnuður ríkir þar birtist okkur einnig aukin hagsæld. Hagsældin verður svo ekki eingöngu metin í fleiri krónum í ríkiskassanum heldur verður að meta hana út frá vellíðan, farsæld, samfélagslegum kostnaði við velsældina og fórnarkostnaði. Með því að horfa á framtíðina með þessum augum jöfnuðar er ég þess fullviss að við getum saman leitt landið inn í nýja tíma.

Það sem mögulega hefur mistekist áður, þarf ekki að vera vond hugmynd í dag. Það sem áður var góð hugmynd, þarf ekki að henta í dag. Ef við viljum sjá hér breytingar til batnaðar í þágu íslensks og alþjóðlegs samfélags þá er tíminn núna. Það eru þess háttar tímar að þeir beinlínis hrópa á að við gerum breytingar á samfélaginu. Við stöndum frammi fyrir dýpstu kreppu í heila öld og getum ekki látið eins og það eitt og sér kalli ekki á neinar samfélagsbreytingar því í aðdraganda þessarar kreppu stóðum við frammi fyrir því að jörðin var beinlínis að brenna og misskipting hér heima og um heim allan að aukast.

„Ef við viljum sjá hér breytingar til batnaðar í þágu íslensks og alþjóðlegs samfélags þá er tíminn núna. Það eru þess háttar tímar að þeir beinlínis hrópa á að við gerum breytingar á samfélaginu.“

Þær breytingar sem ég tel mikilvægast að farið verði í er að auka jöfnuð hvort sem er meðal mannfólks en einnig meðal lífvera. Við verðum að gæta hófs í okkar lifnaðarháttum og hugsa um samfélagið í heild í stað þess að hugsa bara um okkur sjálf. Ef við byrjum á efnahagslegum jöfnuði þá liggur beinast við að spyrja okkur hverjir hagnist mest á því að hér á landi ríki efnahagslegur ójöfnuður? Það hagnast enginn á því. Slíkur ójöfnuður eykur óstöðugleika í samfélaginu, leiðir til heilsuleysis og hvers kyns samfélagslegs kostnaðar. Það er ekkert náttúrulögmál sem leiðir til þess að þeir sem sinna umönnunarstörfum, hvaða nafni sem þau nefnast, séu sjálfkrafa á lægri launum en þeir sem sinna störfum er lúta að fjármagni eða eignum. Það er heldur ekkert náttúrulögmál að þeir sem heilsu sinnar vegna geta ekki verið á vinnumarkaði þurfi að búa við fátækt. Það er mannanna verk að haga því þannig að grunnlaun umönnunarstétta er langt undir grunnlaunum þeirra sem sýsla með dauða hluti. Það er líka mannanna verk að hola okkar samfélagslega kerfi svo niður að það ræður illa við að styðja við grunnþarfir okkar.

- Auglýsing -

Á fordæmalausum uppgangstímum í íslensku samfélagi, þökk sé meðal annars ferðamönnum sem streymdu hingað til lands, var tekin sú ákvörðun að setja ónógt fjármagn í heilbrigðiskerfið, löggæslu, samgöngukerfið, félagslega kerfið okkar og síðast en ekki síst eftirlitskerfið hvort sem um er að ræða eftirit með nýtingu auðlinda eða eftirlit með fjármunum, samkeppni og skattgreiðslum. Þegar verkefnin aukast langt umfram fjármagn þá blasir vandinn við. Þessi vandi var til staðar þegar veiran skæða flæddi yfir heiminn og frammi fyrir þessu stöndum við núna. Þess vegna verðum við að taka ákvörðun saman um þá framtíð sem við viljum skapa okkur hér á landi. Hvernig viljum við hafa þetta til að hámarka velsæld fyrir flesta? Viljum við áfram að þeir sem fá að nýta auðlindir okkar hagnist umtalsvert án þess að deila þeim hagnaði með eigendum auðlindarinnar? Viljum við áfram haga málum þannig að þeir sem velja að færa tekjur sínar úr landi án þess að greiða hluta þeirra í okkar sameiginlegu sjóði, komist upp með slíkt án afskipta skattyfirvalda? Viljum við áfram haga málum þannig að þeir sem ráða hingað til lands erlent starfsfólk í hundruðatali og greiða þeim laun langt undir taxta, og brjóta gróflega á þeirra réttindum, fái áfram að gera slíkt til að viðhalda ólífrænum rekstri sínum? Viljum við að hér á landi búi hópur fólks, þar á meðal meira en 6000 börn við sárafátækt? Nei, nú er lag til að breyta okkar samfélagi til hins betra en til þess þarf bæði opinn huga og hugrekki til að breyta til hins betra. Núna er tíminn og við verðum að stökkva á hann.

Höfundur er þingmaður Samfylkingar.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -