Fimmtudagur 12. desember, 2024
6.8 C
Reykjavik

Sá lifir leiðu lífi sem lifir aðeins fyrir sig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Kjartan Sigurðsson

Ég lauk fjórtán daga sóttkví í gær. Einkennalaus með öllu gat ég ekki beðið eftir að komast á stjá og öðlast frelsið á nýjan leik!

Ég hlýði Víði og ég vil eins og allir vera almannavarnir en það er áskorun fyrir úthverfan einstakling eins og mig að vera fjötraður niður. Geta ekki knúsað stelpurnar mínar og kysst konuna mína, sofið í rúminu mínu eða borðað kvöldmat með fjölskyldunni.

Sumir gætu haldið því fram að frí frá þátttöku í heimilislífinu væri kærkomin hvíld en ég upplifði vanmátt og stundum leiða. Ég lærði að þátttaka í heimilislífinu er ótrúlega mikils virði og átti þar vel við málshátturinn: „Sá lifir leiðu lífi sem lifir aðeins fyrir sig.“

En nú var ég laus úr prísundinni. Hvað gat ég gert af mér? Fyrsta verkefnið var að fara út í búð og kaupa í matinn. Ég var spenntur, mér leið eins og belju að fara út úr fjósinu í fyrsta sinn að vori eftir vetrardvöl. Þegar út í búð var komið helltist hins vegar yfir mig alveg ný tilfinning. Hræðsla við snertingu og fjarlægðarþörf við aðra. Vorið var greinilega annað en ég átti von á og mig langaði mest aftur heim. Þörfin var ekki lengur á að leita út fyrir heimilið að upplifun eða örvun heldur nærveran með fjölskyldunni og öryggið með henni undir sama þaki.

COVID-19 hefur breytt lífinu eins og við þekkjum það. Flest okkar geta ekki beðið eftir því að þessi tími samfélagslegrar einangrunar líði hjá. Munum við minnast þessa tíma í sögunni eða verður hann fjarlæg minning? Verður þetta tími C- (orona) kynslóðarinnar sem setti fæðingadeildir heimsins á hliðina um jól og áramót 2020? Tíminn sem frumkvöðlar fengu andrými til að blómstra og sprotafyrirtæki urðu til?

- Auglýsing -

Mörg börn eiga eftir að muna eftir tímanum með mömmu og pabba að leika við sig í dúkkó eða í fótbolta á ganginum heima. Tímanum sem við vorum hér og nú og upplifðum heiminn beint í núvitund. Tíminn þegar við fórum á stefnumót í stofunni, lærðum aftur að elda saman, skemmtum okkur yfir TikTok-myndböndum, huguðum að heilsunni og ræktuðum vináttuna á samfélagsmiðlum. Við gengum í gegnum þennan tíma saman, við lærðum að vera þakklát fyrir það sem við áttum og þakklát alvöruhetjunum sem stóðu vaktina í heilbrigðiskerfinu þegar mest á reyndi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -