Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Samrómur – samstarfsverkefni þjóðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Raddstýring tölva og snjalltækja er komin til að vera, enda er talað mál eðlilegasti samskiptamáti mannsins. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að ekki er hægt, enn sem komið er, að eiga samskipti við tölvur og tæki með því að tala íslensku.

 

Samskipti við og í gegnum tæki skipa æ stærri sess í daglegu lífi okkar en þau samskipti fara fram á erlendum málum. Ef tungumál er ekki notað á svo stórum sviðum daglegs lífs deyr það stafrænum dauða.

Í máltækni mætast tölvutækni og tungumál í þeim hagnýta tilgangi að þróa kerfi sem geta unnið með og skilið náttúruleg tungumál. Máltækniáætlun fyrir íslensku hefur meðal annars það markmið að þróa talgreini, talgervil, vélrænar þýðingar og sjálfvirkar villuleiðréttingar fyrir íslensku.

Talgreinir er forrit sem getur túlkað eðlilegt tal á íslensku en það geta fyrirtæki til að mynda hagnýtt í tölvukerfum bíla, við móttöku fyrirspurna viðskiptavina í sjálfvirkri spurningasvörun í þjónustuverum og til að veita þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Talgervill mun aftur á móti geta lesið upp texta á íslensku, með skýrum auðskiljanlegum framburði og í eðlilegu tónfalli, og þannig vera meðal annars nýttur til að svara spurningum viðskiptavina í þjónustuverum. Við vélrænar þýðingar eru tölvur notaðar til að þýða texta úr einu tungumáli yfir á annað, sem getur flýtt verulega fyrir störfum þýðenda, minnkað þýðingarkostnað og um leið styrkt stöðu lítils málsvæðis á borð við Ísland. Sjálfvirkar villuleiðréttingar munu síðan hjálpa verulega til við leiðréttingar á stafsetningu og málfari og geta þannig auðveldað til dæmis íslenskukennslu.

„Samskipti við og í gegnum tæki skipa æ stærri sess í daglegu lífi okkar en þau samskipti fara fram á erlendum málum. Ef tungumál er ekki notað á svo stórum sviðum daglegs lífs deyr það stafrænum dauða.“

Talgreinir, talgervill, vélrænar þýðingar og sjálfvirkar villuleiðréttingar eru grunnur áframhaldandi nýsköpunar og þróunar í máltækni á íslensku. Þessar kjarnalausnir verða gefnar út undir opnum leyfum, þannig að endurgjaldslaus hagnýting þeirra er heimil. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geta því notað lausnirnar án þess að greiða fyrir. Þannig verður hverjum sem er heimilt að nýta talgreini, talgervil, vélrænar þýðingar og sjálfvirkar villuleiðréttingar í þróun hugbúnaðarlausna fyrir almennan markað.

Framtíð íslenskunnar er eitt stærsta samstarfsverkefni íslensku þjóðarinnar. Á vefsíðunni samromur.is getur fólk lesið inn nokkrar setningar og gefið sína rödd í þágu þróunar máltækni fyrir íslensku. Þróun máltækni fyrir íslensku er samstarfsverkefni fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og íslensku þjóðarinnar og hefur það lokamarkmið að íslenskur almenningur geti notað móðurmálið í samskiptum við fyrirtæki og stofnanir, tölvur og tæki. Gefum íslenskunni nokkrar mínútur. Þannig sjáum við til þess að tungumálið eigi framhaldslíf í stafrænum heimi.

- Auglýsing -

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni

 

 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -