Sunnudagur 12. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Siðblindir skúrkar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarnir mánuðir hafa verið þolraun fyrir einstaklinga ekki síður en fyrirtæki. Þúsundir einstaklinga standa frammi fyrir atvinnuleysi og afkomu sem sem valdið getur miklum erfiðleikum og tilheyrandi harmleikjum. Ríkisstjórn Íslands undir forystu Katrínar Jakobsdóttur hefur unnið gott starf í því að minnka það högg sem þegar hefur lent á stórum hluta samfélagsins. Að mörgu leyti eru aðgerðir á borð við hlutabótaleiðina til mikilla bóta og mun örugglega tryggja störf launþega og líf einhverra fyrirtækja. Ljóta hliðin á þessu er að forrík fyrirtæki hafa í taumlítilli græðgi sinni hrifsað til sín þetta neyðarbrauð sem er öðrum lífsspursmál. Sum fyrirtækjanna hafa greitt út arð til eigenda sinn með annarri hendinni en síðan krafsað til sín neyðarhjálp úr sjóðum almennings með hinni hendinni. Hér eru menn dæmdir í fangelsi fyrir að stela smáaurum. Þessi framganga er ekki þjófnaður en getur ekki flokkast öðruvísi en sem siðleysi og jafnvel siðblinda í einhverjum tilvikum.

Þegar er ljóst að faraldurinn mun verða allri heimsbyggðinni dýrkeyptur í efnahagslegum skilningi. Þetta á ekki síst við um íslenska þjóð. Ríkissjóður mun standa mjög tæpt þegar við komumst út úr kófinu. Þar munar um hverja krónu sem ekki fór í varginn. Það er öfugsnúið og ekki minnsta ástæða til þess að almenningur rétti hinum ríku ölmusu. Staðan getur ekki orðið önnur eftir að faraldrinum linnir að allir hafi tapað peningum. Stærsta tjónið bera þeir sem missa vinnuna eða verða fyrir kjaraskerðingu. Hinir ríku verða að láta af græðginni og bíta á jaxlinn og bera tjónið hjálparlaust. Flestir hljóta að vera sammála um að rétta þeim fátæku hjálparhönd. Þar eigum við ekki að spara sjóði samfélagsins og reyna að gera sem mest og best með hverja krónu.

Nokkur þeirra ríku fyrirtækja sem tóku til sín fjármuni úr opinberum sjóðum á fölskum forsendum hafa drattast til að skila peningunum aftur. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri í Skagafirði, skikkaði eitt dótturfyrirtækja sinna til að endurgreiða Vinnumálastofnun 17 milljónir króna. Fleiri hafa iðrast og endurgreitt. Sumir hafa aðeins greitt hluta góssins til baka. Almenningur í landinu á að hafa það hugfast hverjir seildust í sjóðina og refsa þeim með þeim hætti að skipta ekki við þá. Fólk á að lesa listann frá Vinnumálstofnun og meta svo hverjir höfðu raunverulega þörf fyrir neyðaraðstoðina.

Aðra hlið á græðgi er að finna hjá fyrirtækjum á borð við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum sem krafið hefur ríkissjóð um himinháar upphæðir vegna úthlutunar á makrílkvóta. Vinnslustöðin telur sig eiga fiskinn í sjónum og að sjávarútvegsráðherra, í umboði almennings, hafi ekki afhent þeim kvóta sem þeim bar. Upphaflega voru sjö útgerðir með þessa kröfu á íslenska þjóð. Fimm þeirra hrukku frá lögsókn eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fordæmdu ásókn þeirra í sjóði almennings. Í fisveiðilögunum stendur skýrum stöfum að fiskistofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta mættu eigendur Vinnslustöðvarinnar hafa hugfast áður en lengra er haldið í herförinni sem beinist gegn öllum almenningi.

Við lifum á þeim tímum að nauðsynlegt er sem aldrei fyrr að gæta aðhalds og halda spillingu og græðgi af umræddu tagi í lágmarki. Kórónuveiran með allri sinni bölvun má gjarnan verða til góðs að því marki að við verðum betra og heiðarlegra samfélag og fækkum þeim siðblindu skúrkum sem virða ekki mörkin og seilast í fé almennings.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -