Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Silkihúfur ríkisins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Staða einkafyrirtækja og almennings er hrikaleg um þessar mundir. Kórónuveiran hefur valdið tímabundinni lömun með tilheyrandi erfiðleikum fyrir fólkið í landinu. Tugþúsundir einstaklinga hafa misst atvinnu sína og eru háðir opinberri aðstoð. Ríkið hefur brugðist við og reynt að taka sem flesta í fangið. En vandinn er gríðarlegur og til lengri tíma. Ríkið er ekkert annað en fólkið í landinu. Tekjur fást að mestu leyti með því að skattleggja fólk og fyrirtæki. Ríkið sjálft skapar ekki arð. Fólk og fyrirtæki gera það. Mörg undanfarin ár hefur ríkið blásið út, jafnvel undir forystu stjórnmálaflokka sem þykjast vilja halda niðri ríkisrekstri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið einstaklega duglegur við að fjölga á ríkisjötunni og stækka hana. Yfirlýsingar flokksins um mikilvægi einkaframtaks er dæmi um fals og atkvæðaveiðar. Ríkisútvarpið, lengst af á forræði Sjálfstæðismanna, er talandi dæmi um slíkt. Útblásinn rekstur á framfæri þjóðar og í samkeppni við einkarekna fjölmiðla. Skólabókardæmi um þensluna og skynsemisskortinn er það háttalag stjórnmálamanna að fjölga silkihúfum í eigin hópi að hlaða í kringum sig aðstoðarmönnum.

Örríkið Ísland er með 63 þingmenn á háum launum sem margir hverjir hafa aðstoðarmenn á alls konar furðulegum forsendum. Skynsamlegt væri að fækka þeim um helming. Ráðherrar eru umvafðir starfsliði. Dæmi eru um að einn ráðherra hafi allt að þrjá aðstoðarmenn sem kosta, hver og einn ekki undir milljón krónum á mánuði. Ritari fylgir svo ráðherranum og einkabílstjóri. Við bætist svo allt ráðuneytið, hlaðið embættismönnum, sem drekka í sig dagpeninga á sumpart ónauðsynlegum ferðalögum. Umsetningin lýsir þeirri firringu sem átt hefur sér stað í ríkisgeiranum. Flottræfilshátturinn er algjör. Hvað er svona merkilegt við það að vera ráðherra? Hvers vegna í ósköpunum geta ráðherrar ekki ekið sjálfir eða tekið leigubíl í undantekningartilvikum eins og allt venjulegt og heilbrigt fólk gerir? Ríkisstarfsmenn hafa elt frjálsa markaðinn í launum en sæta sjaldnast ábyrgð í samdrætti þegar kreppir að. Leið sumra ríkisstarfsmanna í launum er að fara upp með frjálsa markaðnum og njóta svo þeirra hlunninda sem fylgja því að vera á spenanum.

Sveitarstjórnarstigið er með sama brag og ríkið. Bæjarstjórar í röðum með milljónir króna í mánaðarlaun, umkringdir aðstoðarmönnum og aðstoðarmönnum aðstoðarmanna. Í  stjórnum sveitarfélaga situr svo fólk, oft og tíðum með himinhá laun fyrir sáralítið framlag. Ekki er til svo aumur hreppur að hann hafi ekki gæðinga á fóðrum. Dæmi eru um sveitarfélög með 40 íbúa skráða en aðgerðalausan oddvita með há laun og bílastyrki. Oddvitinn tekur til sín persónulega meira en allar útsvarstekjur sveitarfélagsins. Glórulaust. Undir sveitarstjórnum eru skólastjórar sem þurfa aðstoðarskólastjóra og sviðsstjóra. Gamli góði kennarinn er svo neðst í goggunarröðinni. Hver húfan er upp af annarri. Undir ruglinu standa síðan útsvarstekjur. Því miður er íslenska samfélagið einkennandi fyrir það sem nefnt er Parkinsonlögmálið. Píramídinn fer smám saman á hvolf og stöðugt færri þurfa að standa undir fleiri ónytjungum. Augljóst er að menn þurfa að taka til hendinni og aðlaga rekstur ríkisins að þeim veruleika sem blasir við. Menn verða að skera niður og koma flottræflum niður á jörðina. Einstakir ráðherrar ættu að sýna gott fordæmi og losa sig við einkabílstjóra og fækka aðstoðarmönnum til að sýna fordæmi. Við verðum að straumlínulaga ríkisreksturinn og létta þar með launafólki og almenningi róðurinn. Annars liggur í loftinu að stórfelldar skattahækkanir dynji á almenningi til þess að viðhalda uppblásnum og ofvöxnum ríkisrekstri. Þegar samdráttur í einkageiranum er orðinn að veruleika er verkefnið að taka til hjá ríki og sveitarfélögum. Annars blasir við að launafólk verði blóðmjólkað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -