Höfundur / María Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi og sáttamiðlari hjá Samskiptastöðinni
Árekstrar í samskiptum eru óhjákvæmilegir. Við getum lent í samskiptaerfiðleikum við fjölskyldumeðlimi, vini eða í samskiptum við vinnufélagana. Oft koma upp samskiptaerfiðleikar þegar fólk hefur mismunandi aðferðir við að gera hlutina. Sumir vilja vinna verkin hratt og klára þau sem fyrst. Aðrir vilja taka sér meiri tíma. Enn aðrir bíða með að framkvæma verkið fram á síðustu stundu. Það er engin ein leið réttari en önnur en mismunandi aðferðir geta leitt til árekstra í samskiptum okkar við aðra.
Fólk notar mismunandi leiðir til þess að takast á við árekstra. Margir reyna að forðast þá og koma sér undan því að takast á við erfið samskipti. Aðrir bregðast við með árásargirni og reiði og svara jafnvel með skætingi. Afneitun er einnig algeng birtingarmynd, að viðurkenna hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum að ágreiningur hafi komið upp sem þarf að ræða um.
Árekstrar og ágreiningur eru hluti af daglegu lífi okkar allra, hvort sem er í samskiptum við ættingja, vini eða á vinnustaðnum. Það skiptir miklu máli að vera vakandi fyrir árekstrum í samskiptum og bregðast við sem fyrst með því að ræða málin. Þá getur verið gott að taka frá stund og stað og hafa gott næði.
Nokkur ráð til að eiga góð samskipti:
- Hlustaðu vel – hlustun er lykilatriði í góðum samskiptum, að virkilega hlusta á hvað hinn hefur að segja, spyrja spurninga ef eitthvað er óskýrt og jafnvel umorða til þess að vera viss um að þú hafir ekki misskilið neitt.
- Skýr samskipti – til þess að koma í veg fyrir misskilning er gott að vera skýr í samskiptum. Það getur verið gagnlegt að hafa setningar stuttar og segja aðalatriðin sem þú vilt að komist til skila.
- Sýndu samkennd – hlustaðu eftir því hvaða tilfinningar viðmælandi þinn upplifir og hvaða þarfir hann hefur. Vertu til staðar.
- Sýndu virðingu – ef við virðum hugmyndir og skoðanir annarra er líklegra að þeir vilji eiga góð samskipti við okkur.
- Gættu að líkamstjáningunni – við segjum margt með líkamstjáningu okkar, hreyfingum, augnsambandi, handahreyfingum og tón sem getur haft áhrif á hvernig skilaboðin okkar komast til skila. Að vera rólegur og með vingjarnlegan tón getur verið mjög hjálplegt.
- Hrósaðu – vertu duglegur að hrósa fyrir það sem er vel gert, hrósaðu fjölskyldumeðlimum, vinum og vinnufélögum og ekki gleyma að hrósa sjálfum þér líka.
- Sýndu áhuga, jákvæðni og gleði – sýndu áhuga á því sem hinn hefur að segja. Neikvæðni og fýlusvipur geta haft mikil áhrif á samskiptin og það geta jákvæðni og bros líka