- Auglýsing -
Kærkomið er að þær Agnes og Drífa skuli vera svo vinsamlegar að útvega okkur; bláeygum, sauðsvörtum og vesælum almúganum, afþreyingarefni nú um hásláttinn, þegar lítill tími gefst til annars er að skoða yfirskriftir frétta á yfirborðskenndan hátt. Hafi þær þökk fyrir þetta blessaðar.
Ég hafði nú reyndar bloggað um málið í janúar s.l. og reynst sannspár eins og Nostradamus, því margir munu efast um lögmæti þess máls sem um ræðir, nefnilega umboð áðurnefndra sómakvenna til að ákvarða um hluti sísvona.
Mér virðist stefna í að sú síðarnefnda verði flengd af fyrrnefndri, fyrir það eitt að hafa tjáð sig eins og hún gerir. Þessi atburður mun þá, ef af honum verður, verða færður til bókar af annálaritara kirkjuskandala og síðar meir verða hausverkur þeim sem um kirkjusögu munu fjalla, – ef einhver kirkja verður eftir í landinu nótabene.
Sóknarnefndarformaður einn eystra kallaði mál Agnesar „enn eina himnasendinguna“ ef ég man rétt, og má segja að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Hljómsveitin „Nýdönsk“ átti um árið slagarann „himnasending“, og er líklegt að formaðurinn hafi haft þann texta í huga þegar orðin féllu. Björn Jörundur stendur alltaf fyrir sínu.
Sá sem þetta ritar er sprenglærður í kirkjusögu og gæti sett mál Agnesar og Drífu í sögulegt samhengi, en það verður að bíða betri tíma því nú þarf ég að rjúka út í heyskap, nota glýjuna til að bjarga stráum, og má ekkert vera að því að pæla í biskupsmálum eða kirkjuþingsköpum.
Áfram munu þær stöllur þó sennilega kýta, Agnes og Drífa, okkur til afþreyingar.
Var einhver að minnast á að Karþagó yrði lögð í eyði í den…
Greinin er aðsend. Höfundur er Skírnir Garðarsson.