Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Skólaus í ósamstæðum sokkum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Linda Björg Árnadóttir, hönnuður og lektor við Listaháskóla Íslands.

 Fréttir bárust af því nýlega að fjármálaráðherra hefði gert tilraun til þess að smána og gera lítið úr þingmanni Pírata og málflutningi hans vegna þess að hann tók til máls í þinginu skólaus og í ósamstæðum sokkum.

Getur klæðnaður, hegðun, tjáning einstaklings og frávik frá reglum samræmingar (conformity) í klæðnaði gengisfellt málflutning eða trúverðugleika mannneskju?

Getur verið að jafnsaklaus gjörningur og að taka af sér skóna (væntanlega vegna þess að þeir voru óþægilegir og/eða óþarfir) sé svona skaðlegur fyrir einstaklinga að það sé hægt að efast um að þeir séu marktækir?

Ef einhver spyr mig þá finnst mér einfaldlega skynsamlegt að fara úr skónum þegar fólk vinnur innanhúss, þannig bætir það líðan sína á skömmum tíma. Ég fer oft úr skónum, til dæmis í flugvél þegar kyrrsetan þreytir, og það er einfaldlega ekkert vit fólgið í því að gera það ekki. Skór eru yfirleitt ekki nauðsynlegir innanhúss á Íslandi. Þegar fólki líður vel vinnur það betur og ég vil að þingmennirnir okkar vinni vel. Varðandi ósamstæða sokka eru samstæðir sokkar fyrirsjáanlegir og fyrirsjáanlegt er leiðinlegt. Þarna eru skynsemi og hefðir orðnar andstæður einu sinni enn.

Það kemur reglulega fyrir að íhaldssamt fólk reyni að smána frjálslyndari einstaklinga með því að benda á að viðkomandi sé ekki samræmdur (conformed) þegar kemur að klæðnaði eða tísku.

- Auglýsing -

Klaustursmenn reyndu til dæmis í tali sínu á barnum að niðurlægja Loga Einarsson, þingmann Samfylkingarinnar, með því að benda á að hann hefði einhvern tímann verið lítið klæddur, eða „á typpinu“ þegar hann kom fram á tónleikum með Skriðjöklum fyrr á árum.

Samflokksmaður dómsmálaráðherra reyndi fyrir nokkrum árum að smána hana fyrir að hafa birt mynd af sér á samfélagsmiðlum þar sem að hún virðist ekki hafa verið nógu vel greidd, að honum fannst. Þetta fannst honum vera nóg til þess að telja hana óhæfa og/eða ótrúverðuga í því starfi sem henni hafði verið falið.

Ég myndi skilja þetta ef landið væri Saudi-Arabía og verið væri að fylgja Sjaríalögum.

- Auglýsing -

Samræming (conformity) einstaklinga í klæðnaði og skoðunum er augljós andstæða gagnrýnnar hugsunar og frelsis einstaklingsins og afleiðingin er sjálfsblekking og afneitun.

Það hefur mikið verið skrifað um „conformity“ og „non-conformity“ í hinum ýmsu greinum, þar á meðal tísku. Viljum við vera einstaklingar með sjálfstæða hugsun, klæðnað og gjörðir eða viljum við falla í hópinn, samræmast og gera eins og hinir, hugsunarlaust?

Ég ætla að ljúka þessu með því að vitna í einn góðan:

         „Conformity is the jailer of freedom and the enemy of growth.“ John F. Kennedy.

Það er ekkert flóknara. Áfram ósamræmi í hugsun, hegðun og klæðnaði. Allt annað er vont.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu. > 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -