Laugardagur 23. nóvember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Sláturhúsafnykur, Channel N°5 og Dubonnet – uppskrift að fullkomnu eldhúsi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Hönnu Ingibjörg Arnarsdóttur

Mikilvægasta herbergi hvers húss er án efa eldhúsið enda er tilgangur þess að þjóna einni af okkar grunnþörfum, að nærast. Oft er því fleygt fram að hjartað á heimilinu sé einmitt í eldhúsinu og kannski ekki að ósekju þar sem svo margt annað fer þar fram. Í þessu rými kemur fjölskyldan oft saman til að spjalla, vinna, læra eða snæða svo eitthvað sé nefnt. Til að eldhús þjóni þessum fjölbreytta tilgangi þarf að huga vel að hönnuninni bæði hvað varðar praktísk atriði í eldamennskunni en einnig þarf að útfæra gott seturými, eða eldhúskrók eins og stundum er sagt, og svo þurfa eldhús að vera notaleg, afslöppuð og persónuleg. Ég sveiflast svolítið á milli gamaldags hönnunar og nýtískulegrar. Í raun finnst mér opin eldhús með barstólum, þar sem lokaðir skápar ná til lofts og eldhústækin eru falin inn í skápum, mjög töff. Slík hönnun er líka praktísk. En mér líður betur í lokuðu eldhúsi þar sem pottar og pönnur hanga upp á veggjum og fallegu leirtaui hefur verið stillt upp í hillur. Eldhús af slíkri gerð krefjast þess aftur á móti að oftar sé þurrkað af og gengið jafnóðum frá svo hvorugt er í raun fullkomið. En er til fullkomið eldhús?

Fyrir mér er sannarlega til fullkomið eldhús og það var hjá ömmu minni og afa í Drápuhlíðinni. Þar var einstaklega notalegt eldhúshorn með hringlaga borði og hillum fyrir hverskyns fallega eldhúsmuni. Skáparnir voru lokaðir en náðu þó ekki til lofts og einn stór franskur gluggi var andspænis eldhúskróknum. Brún viðarklukka með pendúl hékk á veggnum yfir eldhúsborðinu sem sló á kortersfresti með mismunandi klukknahljómi allt eftir því hvert vísarnir bentu og það var alltaf til jóla- eða möndlukaka í gömlu kremlituðu álboxi með dökkbláu loki. Í þessu eldhúsi sat ég oft og hlustaði á ömmu segja sögur af sinni æsku og stundum spiluðum við líka og lögðum kapal. Ég man eftir sígarettureyknum sem liðaðist um loftið og blandaðist við sólargeislana sem smeygðu sér inn um gluggann á meðan ég sporðrenndi köku og mjólk. Í eldhúsinu hjá ömmu og afa var aldrei stress þótt oft hafi verið handagangur í öskjunni sérstaklega þegar amma var í uppsveiflu og bakaði tíu sortir af smákökum á einum degi, fægði silfrið og þreif gluggatjöldin.

Kvenleggurinn í fjölskyldunni mætti svo á hverju hausti í litskrúðugum nælonsloppum úr Hagkaup til að taka slátur og sulta; keppir voru saumaðir og úttroðnir með mör og blóði, hausar voru sviðnir og settir í fötur og rabarbarinn skorinn og soðinn í risastórum potti. Það var algerlega mögnuð stemning í eldhúsinu, þetta var ævintýri. Ég man enn eftir lyktinni, sláturhúsafnykur í bland við Channel-N°5 ilmvatnið hennar ömmu og Dubonnet-vínið sem henni fannst gott að dreypa á þegar mikið stóð til en afi bölvaði svolítið yfir því enda hættur að drekka. En þegar lambalæri með brúnuðum kartöflum, rauðkáli og heimagerðri rabarbarasultu var borið á borð hýrnaði yfir honum enda mikill sælkeri sem borðaði alltaf með fermingarsilfurhnífapörunum sínum en þau voru sko ekkert slor og pössuðu vel við handmálaða sparistellið, Bláa blómið frá Royal Copenhagen. Það var allt fullkomið í þessu eldhúsi; skipulagið, búsáhöldin, fólkið, stemningin, maturinn og sögurnar. Hið fullkomna eldhús er nefnilega ekki grátt, hvítt eða svart heldur miðstöð heimilisins þar sem skapast rými fyrir samræður, sögur og góðar stundir sem skilja eftir sig minningar, því tíminn líður, klukkan tifar og hjartað slær … í eldhúsinu.

Leiðari úr nýjasta tölublaði Húsa og híbýla.
Höfundur er ritstjóri.

Tryggðu þér áskrift að Hús og híbýli í vefverslun

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -