Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Sólargeisli á Ströndum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Byggð í Árneshreppi á Ströndum hangir bókstaflega á hálmstrái. Aðeins er rúmlega tugur manns með vetursetu í hreppnum. Fleiri búa þar á sumrin þegar vegir eru færir og sólin hátt á lofti. Byggðinni hefur stöðugt hnignað frá þeim tíma á síðustu öld þegar hundruð manna lifðu þar af sjósókn, fiskvinnslu og landbúnaði. Seinustu árin hafa ráðamenn hreppsins einblínt á virkjun Hvalár og eyðileggingu stórra svæða á Ófeigsfjarðarheiði sem lífsbjörg. Hreppurinn hefur verið sem í heljargreipum orkurisa á Suðurnesjum sem fóðraði fyrirtækið Vesturverk til að standa undir framkvæmdum. Til að vinna hjörtu heimamanna hefur Vesturverk lofað öllu fögru. Betri vegir, tryggara fjarskiptasamband, hitaveita og málning á skólann. Öllu var lofað. Og Vesturverk gerði samning við Vegagerðina um að bæta og viðhalda veginum um Ingólfsfjörð og í Ófeigsfjörð.

Hvalárvirkjun átti upphaflega að verða rennslisvirkjun sem legði til rafmagn fyrir sveitina og hefði sáralítil umhverfisáhrif. En mikill vill meira. Hugmyndin stækkaði og ákveðið var að koma upp miðlunarlóni á Ófeigsfjarðarheiði og sökkva að minnsta kosti fjórum heiðarvötnum, Hvalárvötnum og Vatnalautarvötnum. Sumarbóndi í Ófeigsfirði gerði samning við orkufyrirtækið um vatnsréttindin. Risunum fyrir sunnan fannst þetta ekki nóg. Þá var horft til norðurs. Ítalskur ævintýramaður hafði eignast Eyvindarfjörð að hluta. Sá vildi að sögn varðveita ósnortna fegurðina en gekk í björg virkjunaraflanna ásamt sumarbóndanum handan ár og gerður var samningur um vatnsréttindi Eyvindarfjarðarár og undirritaður þannig dauðadómur fagurra fossa.

Nú er staðan gjörbreytt. Vesturverk hefur sagt sig frá viðhaldi á veginum í Ófeigsfjörð og velt því verkefni yfir á almenning. Fyrirtækið hefur verið svipt framkvæmdaleyfi og flest bendir til þess að virkjunaráform heyri sögunni til. Horfnir eru skúrkar með fulla vasa af gulli. Það er vel.

„Norður á Ströndum ríkir nú dauðans kyrrstaða.“

Eftir standa áleitnar spurningar um það samkrull sem átti sér stað milli oddvita sveitarstjórnar og Vesturverks. Elías Kristinsson, einn eigenda Dranga, hefur krafist þess að rannsókn fari fram á tengslunum og hvað Vesturverk lagði hreppnum til. Spurt er um stjórnsýslulög í því samhengi. Norður á Ströndum ríkir nú dauðans kyrrstaða. Þó að undanskildum þeim sólargeisla að Hrafn Jökulsson, rithöfundur og skákfrömuður, stendur í þeim stórræðum að hreinsa Kolgrafarvík, þar sem plast og annað aðskotaefni þekur fjörur. Þetta framtak Hrafns mætti gjarnan verða fleirum hvatning til að leggja hrjáðri byggð lið og efna til stórátaks til að snúa við þróuninni.

Það er þjóðhagslega hagkvæmt að viðhalda sauðfjárbúskap á svæðinu og bjarga litla þorpinu í Norðurfirði. Þar er kjörsvæði til smábátaútgerðar. Landið er vannýtt og grasið úr sér vaxið og engum til gagns á sama tíma og ofbeit er víða annars staðar á landinu. Þá er svæðið sjúkdómalaust og þess vegna tilvalið til sauðfjárræktar. Þetta ætti að styrkja samhliða því að úthluta byggðarkvóta á svæðið til að tryggja útgerð og vinnslu allt árið. Hugmyndin um þjóðgarð er sem fyrr gulls ígildi og myndi tryggja umsvif í ferðamennsku og ákveðna fjölgun íbúa.

Þarna geta stjórnvöld komið til skjalanna með litlum kostnaði en miklum árangri. Aðalatriðið er samstillt átak til að tryggja áframhaldandi byggð í Árneshreppi. Við megum ekki horfa á byggðina deyja út án þess að grípa til aðgerða. Fylgjum fordæmi Hrafns og stuðlum að fallegu mannlífi. Virkjum sólargeislann til að bera birtu og yl í Árneshrepp.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -