Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Sóun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Henry Alexander Henrysson

Um daginn tók ég þátt í skemmtilegu samstarfsverkefni á vegum Landverndar, Listháskóla Íslands og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þetta var lítill síðdegisviðburður undir yfirskriftinni „sóun“. Ég fékk það hlutverk að vera með hugleiðingar um þetta sérlega áhugaverða siðfræðilega viðfangsefni. Sóun getur bæði átt við það að við nýtum hluti illa en einnig við tilgangslausa notkun þar sem jafnvel ágæt nýting hráefnis réttlætir ekki athafnir okkar.

Eins og oft þegar maður reynir að finna flöt á málefni kom innblásturinn fyrir hugleiðingarnar úr óvæntri átt. Í þetta sinn var það myndaskrítla í The New Yorker sem kom mér af stað. Í henni sést Guð hugleiða hvernig hann geti refsað mannkyninu fyrir það hvernig farið hefur verið með náttúru jarðar. Refsingin sem honum kemur í hug er að festa litla, tilgangslausa, óþolandi límmiða á ávexti. Ég gat ekki annað en skellt upp úr þar sem ég sat við tölvuna og horfði á ávaxtaskál þar sem svona límmiða mátti finna á bönunum, mandarínum og eplum. Hvílík sóun.

Það færði manni svo sem einnig ágætis innblástur að sóunarhátíðin Hrekkjavakan var enn í fersku minni. Hvernig svo marklaus neysluhátíð einnota skreytinga og sælgætis sem að lokum endar í ruslinu vex ár frá ári hlýtur að teljast áhyggjuefni. Það er ein af þversögnum samtímans hvernig neysla okkar á drasli og óhollustu getur aukist um leið og vitund um sjálfbærni og heilsu eflist. Og ég held að það þurfi ekki djúpar eða miklar hugleiðingar til þess að við gerum okkur grein fyrir hvenær neysla okkar telst vera sóun og að sú sóun sé röng. Sóun getur ekki verið jákvætt fyrirbæri. Hugtakið er ekki notað til að lýsa siðferðilegu álitamáli. Við notum það til að lýsa því sem er ámælisvert.

Saga heimspekinnar er frjór grundvöllur hugleiðinga um sóun. Og þær hugleiðingar varpa ljósi á hvernig sóun getur haldið áfram að kalla á vangaveltur þótt við séum öll sammála um að hún standi fyrir eitthvað slæmt. Við þurfum nefnilega að ræða sóun og greina fyrirbærið til þess að geta svarað mikilvægum spurningum um hvers vegna sóun sé röng og hvers vegna mikilvægt sé að koma í veg fyrir hana. Í heimspeki hefur sóun líklega oftast komið fyrir varðandi óáþreifanleg fyrirbæri eins og tíma eða hæfileika. Að sóa lífi sínu hefur löngum verið talið dapurlegt og alls ekki eftirsóknarvert hlutskipti. Í samtímanum erum við hins vegar uppteknari af sóun efnisheimsins. Og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af slíkri sóun.

Vissulega notum við orðið „sóun“ mest sem viðskeyti og reynum þannig að greina á milli um hvers konar sóun sé að ræða. Við ræðum um matarsóun, tímasóun og svo framvegis. Mig grunar að það gæti einnig reynst mikilvægt að við settum okkur annars konar greiningarramma. Það mætti til dæmis reyna að láta umræðu byggjast á aðgreiningu í tíma, það er að segja hvort sóun tengist framleiðslu sem þegar hefur átt sér stað (fortíð), neyslu okkar (nútíð) eða áformum og skorti á sjálfbærni (framtíð). Slík greining gæti mögulega komið í veg fyrir að mikilvæg umræða þvælist og leiði ekki til þess að fólk upplýsist betur um hvað sé í húfi.

- Auglýsing -

Í hugleiðingum mínum um daginn á viðburðinum í Listaháskóla Íslands reyndi ég að draga fram hvernig þessi nýja umræða gæti litið út. Hér gefst ekki rými til að útskýra það í smáatriðum en vert er að draga fram nokkur atriði. Á þessum árstíma er til dæmis mikilvægast að hugsa um sóun í tengslum við neyslu. Þótt sóun geti ekki talist samheiti við fyrirbæri eins og sorp eða neyslu má segja að ekki sé hægt að ræða sóun án þess að það sé gert í tengslum við sorp, úrgang og neyslu. Og þar blasir tvennt við sem gæti útskýrt hvers vegna við tökum sóun ekki nægilega alvarlega. Annars vegar hverfur sorp of auðveldlega úr augsýn okkar. Við gerum okkur enga grein fyrir umfangi þess. Hins vegar kemur raunkostnaður neyslu okkar ekki nægilega fram. Hann er iðulega falinn með því að hráefnis-, flutnings- og vinnukostnaður er keyrður niður.

Það er að mínu viti engin spurning að okkar bíður mikið verkefni í samtímanum að skapa orðræðu um sóun sem nær yfir þau nýju siðferðisviðmið sem eru að verða til í umhverfismálum. Þegar kemur að sóun snýst verkefnið einmitt ekki um að hamra á því að sóun sé neikvætt fyrirbæri. Hún er það þegar í hugum okkar allra. Verkefnið felst í að láta siðferðilegar geðshræringar eins og samviskubit ekki leiða til aðgerðaleysis og kaldhæðni. Og verkefnið felst ekki síst í að finna leiðir til að láta afstöðu almennings um að sóun sé ámælisverð falla að lýðræðislegum vilja samfélagsins. Stóra spurningin er hvernig við getum sannfært hvort annað um að það að minnka sóun fari saman við sanngirni og réttlæti, til dæmis að aðgerðirnar bitni ekki fyrst og fremst á þeim sem standa höllum fæti og eru háð ódýrum og aðgengilegum varningi?

Mér sýnist að við höfum sætt okkur við sóun þar sem við höfum sannfært okkur um að hún sé nauðsynlegur, en vissulega neikvæður, fylgifiskur þess að við getum haft það bærilegt. Sem betur fer er til fjölmargt fólk sem hefur skorað þá pælingu á hólm. Landvernd er dæmi um félagsskap sem hefur gert það af myndarskap og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð er að verða stöðugt öflugri rödd í íslensku samfélagi. Ég sannfærðist á viðburðinum um daginn að listamenn og hönnuðir þurfi að koma af meiri krafti í þessa umræðu. Siðfræði hefur ekki einkarétt á að greina, vakta og bæta siðferði í samfélaginu. Þar gegna skapandi greinar ekki síður mikilvægu hlutverki.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -