Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Sprittgleði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Sólveig Jónsdóttir

Það er með nokkrum herkjum að ég næ að skrifa þennan pistil þar sem hendurnar á mér eru stífar, skraufþurrar og hrjúfar, ekki ósvipaðar grásleppu viðkomu. Enda er ég búin, eins og vonandi flestir landar mínir, að þvo mér um hendur og spritta þær kröftuglega undanfarnar vikur.

COVID-19 og viðbrögðin við útbreiðslu sjúkdómsins eru nokkuð sem ég hef ekki upplifað áður. Ég er því með ótal spurningar og velti hlutum og aðgerðum fyrir mér. Gúggla kannski eitthvað líka. En svo man ég allt í einu að ég er hvorki sérfræðingur í sóttvörnum, faraldurs- né læknisfræði. Hins vegar búum við svo vel að hafa þá hér og fá frá þeim reglulegar upplýsingar og tilmæli. Fyrir það er ég þakklát og treysti þeim fullkomlega. Þau búa nefnilega yfir sérþekkingu á þessu sviði. Ekki ég. Hins vegar má ávallt leita til mín ef fólk vantar góða uppskrift að heitum brauðrétti eða upplýsingar um sögu írska lýðveldishersins. Þar liggur nefnilega mín sérþekking.

Ég hef þótt nokkuð sprittglöð fyrir, eða í það minnsta eftir að ég fæddi dóttur inn í upphaf vetrarpestatímabilsins og gaf fólki ekki kost á að gogga í henni nema eftir góða þvotta- og sprittyfirhalningu. Sumum fannst þetta um of, öðrum pínu fyndið en aðrir skildu þetta vel. Ég var nefnilega að passa hana.

Flestir þekkja þessa tilfinningu – að passa upp á fólkið sitt. Nú þurfum við öll að víkka þessa skilgreiningu svolítið. Á þessum skrítnu tímum vona ég innilega að við getum sammælst um að passa upp á hvert annað og gera eins vel og við getum, hvert og eitt. Sama hvort okkur finnst að löngu ætti að vera búið að loka landinu eða hneykslumst yfir því hvers vegna allir eru að taka þetta svona alvarlega. Eins og annað mun þetta líða hjá. En þangað til, á meðan og á eftir skulum við passa upp á hvert annað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -