Eftir / Ásmund Daða Einarsson
Íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir stórum áskorunum vegna COVID-19 faraldursins. Baráttan við veiruna sjálfa hefur gengið mjög vel og er að mestu lokið hér á landi, í bili að minnsta kosti. Önnur barátta er hins vegar rétt að hefjast og hún snýr að efnahagslegum áhrifum veirunnar. Efnahagslegra áhrifa faraldursins gætir í flestum atvinnugreinum og við Íslendingar stöndum frammi fyrir dýpstu kreppu sem við höfum séð í langan tíma. Það er ljóst að í slíku árferði verður minna um tímabundin störf í sumar, en það eru störf sem námsmenn hafa sinnt á sumrin.
Við munum verja um 2,2 milljörðum króna í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í fyrstu atrennu. Markmiðið er að með átakinu verði til 3.400 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga. Um er að ræða fjórum sinnum stærra átak en ráðist var í eftir hrunið, sumrin 2010 og 2011, og er ég mjög bjartsýnn á að við getum fjölgað sumarstörfunum umfram þau 3.400 sem við höfum þegar tilkynnt á næstu vikum.
Fókus á börnin
Börn eru einn viðkvæmasti hópur samfélagsins á óvissutímum, hvort sem er vegna náttúruhamfara, efnahagslegra niðursveiflna eða heilsufarsógna, á borð við COVID-19 faraldurinn, sem við höfum glímt við. Þótt veiran herji, samkvæmt heimildum, ekki á börn með sama hætti og ýmsa aðra hópa skapar sú óvissa og álag sem henni fylgir aukna hættu er varðar öryggi og velferð barna. Í ljósi þessa hef ég sett af stað vinnu í ráðuneyti mínu sem miðar að því að efla og styðja við börn og foreldra sem eru í viðkvæmri stöðu. Meðal aðgerða sem við ætlum að ráðast í er stuðningur við tómstundir barna af lágtekjuheimilum þar sem við ætlum að tryggja jöfn tækifæri þeirra til íþrótta- og tómstundastarfs.
Fjölþættar aðgerðir fyrir fatlaða einstaklinga
Þá ráðumst við í margvíslegar aðgerðir sem miða að því að auka þjónustu við bæði langveik og fötluð börn, og fullorðna einstaklinga sem glíma við fötlun. Má þar nefna sumardvöl, eða ævintýrabúðir, fyrir langveik og fötluð börn sem verða í boði bæði á suð-vesturhorninu og á Norðurlandi. Um er að ræða tvennar sumarbúðir og munu þær bjóða upp á dvöl fyrir 10-15 börn á hverjum stað á hverjum tíma, í eina viku í senn. Einnig má nefna að landshlutateymi fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra verður komið á fót á Suðurnesjum sem tilraunaverkefni, og stuðningur við fötluð börn innflytjenda og foreldra aukinn.
Við vitum að viðkvæmir hópar verða fyrir miklum áhrifum vegna COVID-19 faraldursins. Aðgerðirnar sem við erum að ráðast í núna eru hluti af félagslegum aðgerðapakka þar sem við ætlum að grípa þá hópa sem verða fyrir miklum áhrifum vegna faraldursins.
Höfundur er félags- og barnamálaráðherra.
Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.