Miðvikudagur 22. janúar, 2025
0.5 C
Reykjavik

Sumarvinnublús

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir / Stefán Pálsson

Meira en fimm þúsund nemendur hafa skráð sig í sumarnám í háskólum landsins, sem hróflað var upp með nánast engum fyrirvara. Ástæðuna þekkja allir. COVID-faraldurinn hefur bitnað hart á fjölda fyrirtækja, einkum í ferðaþjónustu, atvinnuleysi rýkur upp og sumarstörfum fækkar til muna. Vonandi reynist þetta ástand skammlíft og kreppan stutt, en um leið gæti þetta reynst ágætt tilefni til að hugsa upp á nýtt um skipulag háskólanáms hér á landi.

Í nágrannalöndunum er yfirleitt litið á háskólanám eins og hverja aðra vinnu. Stúdentar framfleyta sér með námsstyrkjum eða –lánum, stunda nám í ellefu mánuði og taka svo stutt sumarfrí eins og aðrir. Í þessu efni, eins og svo mörgum öðrum, höfum við þróað okkar séríslensku leið.

Íslenska leiðin átti frábærlega við árið 1965. Námslán voru varla upp í nös á ketti, enda lét enginn sig dreyma um að lifa á þeim. Hins vegar fengu stúdentar margra mánaða sumarleyfi til að skella sér á sjóinn eða í vegagerð úti á landi, púluðu frá morgni til kvölds í góða veðrinu og fengu sand af seðlum sem fleytti þeim í gegnum næsta vetur.

Þessi rómantíska mynd var líklega aldrei fyllilega raunsæ, en í dag er hún löngu úrelt. Hálaunuð sumarstörf eru að mestu úr sögunni. Atvinnulífið er ekki lengur skipulagt á sama hátt og þarf ekki jafnmikið á þessari innspýtingu vinnuafls að halda. Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir reyna að raða sumarleyfum starfsfólks síns niður á sem skemmst tímabil, sem minnkar enn þörfina á afleysingafólki. Til að bregðast við þessari þróun fer sífellt meiri orka í að búa til sumarverkefni á lágmarkslaunum fyrir skólafólk. Verkefni sem vissulega gefa oft góða reynslu, en hjálpa lítið til við framfærsluna.

Er ekki tímabært að huga nú að því að færa háskólaárið okkar til sama horfs og annars staðar í Evrópu í stað þess að hanga í voninni um að árið 1965 snúi aftur?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -