Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Svanlaug missti litla drenginn sinn: „Sársaukinn sem fylgir því að missa barn yfirtók líkamann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Svanlaug Jóhannsdóttir söngkona og eiginmaður hennar, Örn Helgason, áttu von á sínu þriðja barni, syni, fyrir sex árum og bjó fjölskyldan þá á Spáni.

„Það kom fljótlega í ljós á meðgöngunni að það var ekki allt í lagi með hjarta drengsins okkar. Okkur var sagt að hugsanlega myndi hann ekki vinna til ólympíuverðlauna í spretthlaupi en líklega væri þetta samt allt í lagi – alveg 99 prósent. Okkur var þó boðið að skoða möguleikann á að enda meðgönguna. Okkur fannst 99 prósent líkur alveg yfirdrifið nóg, í rauninni veit maður aldrei neitt 100 prósent. Þá fannst mér svo eftirminnilegt það sem læknirinn sagði: „Já, en fyrir þetta 1 prósent er dauðinn 100 prósent.“ Það var góð áminning um að lífið er ekki til í neinum hlutföllum. Það er annaðhvort líf eða ekki líf.

Við bjuggum í fallegri spænskri sveit því að maðurinn minn var þar í frábærri vinnu. Ég var að ljúka masternámi frá Listaháskóla Íslands í fjarnámi og fékk tækifæri til þess að syngja reglulega með sinfóníuhljómsveit tónlist í ýmsum stílum. Ég fékk tækifæri til að eignast stóra og góða kjóla, en líka bara njóta þess að vera með fjölskyldunni í sveitasælunni. Þar var gott að vera, lífsgæði frábær, leikskólinn ókeypis og engir biðlistar. Þar ól ég upp börnin okkar tvö. Sá þriðji hafði hins vegar önnur plön.“

Drengurinn kom svo í heiminn, en líf hans varð ekki langt og lést hann mánaðargamall. Hann var síðan jarðaður á Íslandi mánuði síðar.

„Sársaukinn sem fylgir því að missa barn yfirtók líkamann algerlega og það var engin leið til þess að minnka hann á nokkurn hátt, ekki bæla hann niður og ekki fela hann. Það var mikilvægara en ég hélt að fá að halda jarðarför á Íslandi. Mér fannst fyrst að við ættum ekkert að bjóða í jarðarför en það reyndist miklu þýðingarmeira en ég hélt. Það kom fjöldi fólks, foreldrar okkar, ættingjar og vinir; allir sem skildu hvað missirinn var mikill og sorgin stór. Það skipti miklu máli fyrir okkur að hafa þau þarna og ég held að það hafi líka skipt fólkið miklu máli að fá að koma og standa með okkur; ekki síst af því að þá er því aflokið, maður hefur fengið að horfast í augu og finna fyrir hinni manneskjunni. Maður er ekki sama manneskja fyrir og eftir að missa barn, ekki frekar en maður er sama manneskjan áður en maður eignast barn. Fólk vill fá að sýna að það skilur það. Það er endalaust verðmætt. Ég sá hins vegar sorgina og álagið sem fylgdi því hve lítið var hægt að gera fyrir okkur. Ég sá vini og fjölskyldu með alla hlýjuna og ástina í augunum finna fyrir aukasorg út af því að þau gátu ekkert sagt og ekkert gert til þess að gera líf okkar aftur betra.“

Sársaukinn sem fylgir því að missa barn yfirtók líkamann algerlega og það var engin leið til þess að minnka hann á nokkurn hátt, ekki bæla hann niður og ekki fela hann.

Svanlaug segist sjálf hafa upplifað það að vera orðvana þegar hefur komið að því að styðja vini og ástvini á erfiðum tímum. „Þegar einhver nástaddur manni greinist með krabbamein þá er ósköp lítið sem maður getur sagt. Alls kyns hugmyndir sem maður hefur um hvernig maður geti verið uppörvandi og til staðar fyrir fólkið sitt geta farið þveröfugt í þá sem á að hjálpa, sumt kannski virkar stundum en alls ekki næsta dag. Allt eftir því hvernig maður hittir á fólkið sitt.“

- Auglýsing -

Hvað með dauðann? Hvað er hann í huga móður sem missti barn sitt? „Þetta með dauðann er svo skrýtið. Hann er eina upplifunin sem við vitum fyrir víst að við eigum sameiginlegt á lífsleiðinni. Samt eigum við svo erfitt með að tala um hann; hann er svo endanlegur.“

Svanlaug segist vera sátt í dag. „Ég fékk tíma til að dvelja með sorginni og þegar mér fannst hún orðin ásættanleg í huganum en sitja eftir í líkamanum fékk ég heilmikla lausn með EMDR-meðferð sem hjálpar fólki að vinna áföll úr taugakerfinu. Ég á dásamlega fjölskyldu og það var aldrei hægt að leggja árar í bát; börnin mín tvö þurftu ást á hverjum morgni. Það eru forréttindi sem ég þakka fyrir á hverjum degi.“

Ég fékk tíma til að dvelja með sorginni Svanlaug Jóhannsdóttir

 

- Auglýsing -

Líf og dauði

Svanlaug segir að barnsmissirinn hafi fengið hana til að skoða hvernig aðrar þjóðir hugsa og tala um dauðann. Hún eignaðist góða, mexíkóska vinkonu, Cristina Padilla, sem hún segir að hafi kennt henni mikið um hvernig Mexíkóar hugsa um dauðann og hvernig þeir tala um þá látnu. Hún nefnir í þessu sambandi „Dag hinna dauðu“ eða „Día de los muertos“ í Mexíkó.

„Dagur hinna dauðu er hjá þeim hátíð til þess að fagna allri þessari ást sem við höfum enn þó að fólkið okkar sem er látið sé ekki lengur hjá okkur. Mér finnst það svo áhugavert, því að algerlega óháð trúarbrögðum þá vitum við að ástin okkar og væntumþykja hverfur alls ekki þó að einhver falli frá.

Smám saman urðu þessar pælingar að tónleikunum „Líf og dauði“ sem ég held á föstudaginn í Gamla bíói. Við Cristina settum upp tónleikana saman fyrir tveimur árum í minna sniði. Umgerðin er létt og litrík þó að umræðuefnið sé svo sem ekkert léttmeti, en er hins vegar innihaldsríkt. Þó að sum dauðsföll séu dramatísk þá eru bara sum mjög gleðileg. Afi minn var til dæmis alger snillingur og ég elska að hugsa til þess hvernig hann lifði lífinu; afkastasamur og alltaf að hrinda einhverju í verk. Þegar fólk fær að fara eftir gott líf og jafnvel eftir erfið átök við veikindi þá er það svo gott.“

Svanlaug Jóhannsdóttir

Svanlaug segist vinna með frábæru listafólki. „Erla Lilliendahl sér um sviðshönnun og hún er frábær listamaður og ég kynntist henni í gegnum verkin hennar, erlaart.com. Fyrir tilviljun kynntist ég Guillaume Heurtebize tónlistarstjóra, sem er Frakki og nýfluttur til Íslands. Í bandinu með honum eru Andri Ólafsson bassaleikari, Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir fiðluleikari og Eiríkur Rafn Stefánsson trompetleikari. Þau eru magnaður hópur og lúxus fyrir söngkonuna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -