Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Það er ekkert víst að þetta klikki

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 34 tbl. Vikunnar

„Aðeins þeir sem taka áhættuna á að ganga of langt geta mögulega komist að því hversu langt þeir komast.“ T.S. Eliot

Alltaf dáist ég að fólki sem er óhrætt við að stökkva út í djúpu laugina, þiggur boð um að hitta fólk sem það varla þekkir yfir kaffibolla og eignast kannski fallega vináttu út frá því, fólk sem á ekki erfitt með að biðja um aðstoð og þiggja aðstoð sem er boðin, fólk sem sér tækifæri í minnstu hlutum og lætur á þá reyna, fólk sem óttast ekki alltaf verstu útkomuna … Þóra Bergný Guðmundsdóttir er ein þeirra sem er óhrædd við að grípa þá bolta sem lífið kastar til hennar, eins og hún segir sjálf í forsíðuviðtalinu. Hún hafi verið lagin við að kynnast góðu fólki og treysta því fyrir sér og sínu.

Mörg okkar eru oft svo hrædd við að láta bara vaða og taka minnstu áhættu. Óttumst að allt klikki og fari á versta veg. Erum jafnvel búin að gera ráð fyrir því fyrir fram að allt fari norður og niður. Þorum ekki að treysta fólki og viljum ekki þiggja hjálp, hvað þá biðja um hana. Höldum kannski að á bak við hjálpsemina leynist önnur og verri hvöt. Síðustu árin hef ég reynt að taka mér óhrædda fólkið til fyrirmyndar.

Áður var ég ein af þeim sem gerði varla neitt án þess að ég væri búin að setja það upp í Excel-skjali og gera ráð fyrir öllum mögulegum og ómögulegum útkomum. Ég óttaðist alltaf að klúðra málunum og sitja í súpunni. Hefði ég þegið kaffibolla með ókunnugri manneskju fyrir nokkrum árum? Nei, aldrei! En svo lengi lærir sem lifir og nú opna ég ekki Excel-forritið nema það tengist vinnunni. Ég er farin að þagga niður í óttanum sem reynir stundum að yfirgnæfa hugsanir mínar þegar mig langar til dæmis að spyrja einhvern einhvers þar sem ég veit að svarið gæti verið það sem ég vildi ekki heyra. Ég er líka búin að drekka ófáa kaffibolla með fólki sem ég þekkti lítið sem ekkert áður og út úr því hefur komið margt skemmtilegt og jafnvel falleg vinátta. Ég er líka búin að komast að því að ég get svo ótalmargt sem ég hélt að ég gæti ekki áður.

Mér finnst gott að reyna að hafa hugfast að maður getur ekki haft stjórn á öllum hlutum, stundum þarf maður bara að slaka á og treysta því að hlutirnir fari nákvæmlega eins og þeim er ætlað að fara. Við þurfum ekki alltaf að hafa niðurnjörvaða áætlun. Kannski er kominn tími til að þú hættir að vera hrædd/ur og látir bara vaða. Það er ekkert víst að þetta klikki.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -