Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Þau eru að kyrkja Grindavík

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skelfileg staða er uppi í Grindavík þar sem stjórnvöld hafa smám saman verið að kyrkja byggðarlagið með aðgerðum sem allar eru í þá veru að loka öllu á staðnum og drepa vonir íbúanna um að geta nokkru sinni snúið aftur. Frelsi einstaklinga í Grindavík er fótum troðið.

Taugaveiklun ræður för þar sem ákvarðanir um algjöra lokun á staðnum ráða för. Íbúum er haldið frá staðnum með lögregluvaldi og sérsveitin fer um með tilheyrandi skaki. Án þess að tilefni sé til er öllu skellt í lás. Atvinnurekendum og heimafólki er bannað að starfa í bænum. Hönd dauðans hvílir yfir öllu. Nú er staðan sú að stórfyrirtæki eru á flótta og í óða önn að koma sér fyrir í öðrum sveitarfélögum. Áður blómlegasta sveitarfélag Suðurnesja er komið að dauðamörkum af mannavöldum ekki síður en náttúrunnar.

Rétt hefur verið staðið að rekstri Bláa lónsins

Hið rétta í stöðunni hefði verið að leyfa fólki og fyrirtækjum að búa og starfa áfram á svæðum sem eru örugg. Loka mætti þeim svæðum sem standa á sprungum eða í næsta nágrenni við þær en halda lífi í þeim svæðum sem eru utan beinnar hættu. Vísindamenn eiga auðvelt með að lesa í aðstæður og sjá fyrir um gos sem eru heilt yfir hættulítil. Þannig má rýma bæinn þegar ástæða er til í stað þess að viðhalda markvisst þeirri stefnu að breyta gjöfulu sjávarþorpi í eyðibyggð. Í stað þess að láta hættuna eyða byggðinni þarf að lifa með jarðhræringum og eldgosunum og rýma þegar það á við.

Rétt hefur verið staðið að rekstri Bláa lónsins. Þar hefur starfsemi verið haldið úti með hléum í stað algjörrar lokunar. Þetta fyrirkomulag getur átt við víðar í Grindavík í stað þess eyðibyggðarstefnunnar þar sem einblínt er á uppkaup í stað þess að viðhalda byggð. Eðlilegt er að gefa fólki kost á uppkaupum en jafnframt að leyfa þeim sem vilja að búa á staðnum gegn skilyrðum. Leiðarljósið þarf að vera að sá tími mun koma að Grindavík kemst aftur í jafnvægi.

Þjóðin hefur reynsluna af því að sveitarfélög hafa orðið fyrir hrikalegum áföllum. Snjóflóð rústuðu Neskaupstað, Súðavík og Flateyri. Fæstum datt í hug að leggja af byggð á þessum stöðum. Þess í stað var gripið til þeirra varna sem hægt er til að tryggja mannlífið sem best. Sama var uppi á teningnum í Vestmannaeyjum þar sem eldgos eyðilagði stóran hluta byggðarinnar. Í stað þess að leggja af byggð var uppbygging hafin hið bráðasta. Leiðarljósið í öllum þessum tilvikum hefur verið að tryggja sem best öryggi fólks og bygginga á svæðum þar sem ekkert er í raun öruggt. Þessi sjónarmið eru ekki uppi í Grindavík þar sem hvert klúðrið rekur annað og riddararar réttlætis og ofstjórnar láta finna fyrir valdi sínu.

Skráning sögunnar bönnuð

Eldgosið sem seinast gekk yfir við Grindavík var það sjötta í röðinni á undanförnum árum. Þegar fyrstu gosin í Geldingadölum og Meradölum gengu yfir var almenningi gefinn kostur á að nálgast gossvæðin. Leiðir voru stikaðar og björgunarsveitir stóðu vaktina. Þetta breyttist allt þegar gaus við Sundhnúka og Sýlingafell. Þá var öllu lokað og umferð bönnuð með öllu. Grindvíkingum var aðeins leyft að fara heim undir eftirliti og aðeins um skamma stund. Fjölmiðlum var bannað að fara um svæðið nema í lögreglufylgd. Skráning sögunnar bönnuð að þessu marki. Ofstopafullir lögreglumenn gættu þess vandlega að fjölmiðlar athöfnuðu sig ekki á Reykjanesbrautinni í tæplega 10 kílómetra fjarlægð frá hættusvæðinu. Varðskýli voru sett upp við allar leiðir að Grindavík. Ofstjórnin blasti við öllum.

- Auglýsing -

Ef rétt er að málum staðið á Grindavík mikla möguleika á því að lifa og dafna að nýju þrátt fyrir eldsumbrot í nágrenninu. Til þess að það gangi eftir þarf að viðhalda byggð og atvinnu eins og kostur er og tryggja öryggi fólk sem best. Verja þarf innviði og yfirvöld þurfa að hafa vit fyrir eigendum HS Orku sem ber ábyrgð á handónýtum innviðum sem ógna öryggi þeirra 30 þúsund sem búa að Reykjanesi. Víst er að svæðið með jarðsögu sinni mun draga að sér ferðamenn í framtíðinni.

Engin leið er til að spá fyrir um hvenær eldsumbrotunum á Reykjanesi lýkur. Ólíklegt er að Grindavíkurbær verði miðja þeirrra til lengri tíma og líklegra að þau muni færast utar á Reykjaneskaga og Eldvörpin muni taka við sér að nýju. Á meðan þetta skýrist allt verður fólk að halda ró sinni og leggja áherslu á að verja byggðina og innviðina á svæðinu. Grindavík mun lifa ef misvitur yfirvöld verða ekki til þess að kyrkja byggðarlagið. Munum að ekkert undir sólinni er öruggt og engin leið til að tryggja að ekkert fari úrskleiðis í landi elds og ísa.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -