Föstudagur 15. nóvember, 2024
-2 C
Reykjavik

Þegar maður neyðist til að brjóta lög

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýlega birtist áhugavert viðtal í Morgunblaðinu við Þorgrím Smára Ólafsson, framkvæmdastjóra Fram, en þar ræðir Þorgrímur vandamál sem félagið glímir við. Stuðningsmenn Fram og liða sem keppa við Fram leggja bílum sínum ólöglega á gangstígum og grasbökkum nærri heimavelli liðsins í Úlfarsárdal. Þorgrímur telur að ástæða þess sé vegna þess að ekki gert hafi verið ráð fyrir öllum þeim fjölda sem sækir heimaleiki liðsins.

Þó ég sé að vissu leyti sammála Þorgrími, sennilega hefði átt að gera ráð fyrir fleiri bílastæðum, þá er vandamálið sem Fram glímir við ekki skortur á bílastæðum heldur fólk sem brýtur lög. Eins og ég nefndi í pistli sem ég skrifaði fyrr á árinu þá er ég tíður gestur í Dalslaug en hún er staðsett við hliðina á heimavelli Fram. Um nánast hverja einustu helgi fer ég með fjölskyldu minni í sund fyrir hádegi og er nóg af bílastæðum að fá við sundlaugina og heimavöll Fram á þessu tíma en þrátt fyrir það eru 5-15 bílum lagt ólöglega til þess að vera 100-300 metrum nær sundlauginni en ef viðkomandi hefðu lagt löglega í bílastæði.

Þetta vandamál þó er ekki bundið við Framara eða Úlfarsárdal.

Öllum bílunum á myndinni er lagt ólöglega

Það er nákvæmlega sama að frétta úr Árbænum, þar sem ég ólst upp. Í stað þess að leggja hjá Árbæjarskóla, Árbæjarkirkju og Krónunni, sem er allt í göngufjarlægð, leggur fólk upp á gangstéttum og grasbökkum þegar Fylkir keppir heimaleiki sína. Þannig hefur það verið undanfarin 30 ár, hið minnsta.

Nú bý ég hins vegar í Laugardalnum, nærri Laugardalshöll. Þar eru reglulega haldnar sýningar, útskriftir og tónleikar. Þrátt fyrir að vera við hliðina á einu stærsta ókeypis bílastæði landsins ákveður fólk frekar að leggja á gangstéttum og grasbökkum. Það er í raun kómískt að sjá bíla sem leggja upp á grasinu hjá bílastæði Þróttar vera í 20 metra fjarlægð frá löglegu og tómu bílastæði Laugardalsvallar.

Svo má líka minnast á bílastæði World Class í Laugardalnum en á því svæði er gata þar sem aðeins neyðarbílar og bílar með vörusendingar mega keyra inn. Þar leggur fólk þrátt fyrir fjölda skilta sem banna það. Þetta er fólk sem er að fara á svæðið í heilsueflingartilgangi en of er latt til að leggja hjá Laugardalsvelli. Kaldhæðnin er yfirþyrmandi.

Bílum lagt ólöglega við World Class

Á einhverjum tímapunkti þurfum við að horfast í augu við það að það er ekki bílastæðaskortur á Íslandi heldur eru margir Íslendingar einfaldlega of latir til að labba meira en 100 metra úr bílum sínum. Ég verð að viðurkenna að ég er frekar spenntur að sjá hvað gestir væntanlegrar sundlaugar í Fossvoginum munu gera þegar þeir komast að því að það verða aðeins bílastæði fyrir hreyfihamlaða við laugina. Sennilega mun fólkið segjast hafa verið tilneytt til að brjóta lögin en vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Nú hafa einhverjar stórborgir tekið upp á því að biðja borgarbúa um að hjálpa sér að takast á við þetta vandamál en þar geta vegfarendur tekið myndir og myndbönd af bílum sem leggja ólöglega og sent þær áfram til yfirvalda með þar til gerðu appi. Það er síðan metið af yfirvöldum hvort um brot sé að ræða og sé það samþykkt sem brot fær eigandi bílsins sekt og einstaklingurinn sem tók myndina fær lítinn hluta af þessari sekt í sinn vasa. Það gæti verið kominn tími til að taka upp þetta kerfi á höfuðborgarsvæðinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -