Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Þegar vágestur bankar á dyr

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 39. tölublaði Vikunnar

Að standa frammi fyrir því að vera með alvarlegan sjúkdóm, jafnvel ólæknandi, er án efa stórt og erfitt verkefni. Sjálfsagt eru fæstir að velta því fyrir sér dagsdaglega hvernig maður myndi taka slíkum fréttum og það gæti líklega ært óstöðugan að velta sér mikið upp úr því að ástæðulausu. Minn stærsti ótti í lífinu, fyrir utan að eitthvað hræðilegt komi fyrir börnin mín, er að ég fái ekki tækifæri til að fylgja börnunum mínum í gegnum lífið. Jú, ég óttast líka drukknun á hafi úti, jarðskjálfta og geðvonda geitunga en þetta fyrrnefnda óttast ég meira og ég vil eiginlega ekki hugsa þá hugsun til enda.

Elín Sandra Skúladóttir stóð frammi fyrir þeirri hugsun í raunveruleikanum þegar hún fékk þær ógnvænlegu fréttir að hún væri með brjóstakrabbamein; tvö hraðvaxandi og illkynja æxli. Maður hennar hafði áður misst konu sína úr krabbameini og fóstursonur hennar móður sína. Elín var staðráðin í að gera allt sem í hennar valdi stæði til að fá að lifa lengur. Minnug orða frænda síns, sem var matvælafræðingur og lést eftir að hafa fengið heilaæxli, að mjólkurvörur og sykur ætti engin manneskja að borða vegna áhrifa þess á krabbamein ákvað Elín að gjörbreyta mataræðinu. Hún fór hraust í gegnum lyfjameðferðina og í miðri meðferð fékk hún þá hugmynd að halda ráðstefnu sem verður að veruleika í Hörpu 16. október næstkomandi.

„Elín var staðráðin í að gera allt sem í hennar valdi stæði til að fá að lifa lengur.“

Elín vill með ráðstefnunni fræða fólk svo það geti tekið upplýsta ákvörðun og sýna því hvernig eigi að gera svona stórar breytingar en þannig að þær séu líka hollar. Hún vill hjálpa þeim sem eru búnir að breyta lífsháttum sínum og vilja vera heilsusamlegir í breytingunum en hún segist líka hugsa þetta fyrir þá sem eru veikir og vilji gefa sjálfum sér forskot. Það sem keyri hana þó líklega mest áfram segir hún að séu þeir sem séu ekki veikir, því forvarnirnar séu mikilvægar. Hún óski engum þess að fá krabbamein, það sé andstyggð.

Mér finnst vel við hæfi að Elín prýði forsíðu Vikunnar sem að þessu sinni er tileinkuð Bleiku slaufunni, tákni Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Mig langar líka að tileinka blaðið öllum þeim sem hafa þurft að takast á við þann óvægna andstæðing sem krabbamein getur verið; öllum þeim sem eru að berjast, þeim sem hafa haft betur í glímunni og öllum þeim sem urðu að lokum að játa sig sigraða.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -