Síðast en ekki síst
Höfundur / Steinunn Stefánsdóttir
Ekki þarf að kynna Gretu Thunsberg, skólastúlkuna frá Svíþjóð sem hratt af stað loftslagsverkföllum barna og ungmenna sem nú standa hvern föstudag víðsvegar um heimsbyggðina. Í dag er til dæmis loftslagsverkfall íslenskra skólabarna og ungmenna haldið tíunda föstudaginn í röð.
Krafa unga fólksins er einföld, að jörðin verði áfram byggileg. Að ekki verði haldið áfram að ganga á jörðina og andrúmsloftið þannig að ekkert verði eftir fyrir komandi kynslóðir. Það þýðir að efnaðasti hluti mannkyns þarf að skrúfa niður neyslu sína og ferðalög, sem sagt láta frá sér venjur sem hafa flokkast sem lífsgæði.
Það er erfitt að láta frá sér gæði. Í því sambandi er þó vert að hafa í huga að þessi gæði standa aðeins broti mannkyns til boða, sömuleiðis að þetta neyslumynstur hefur aðeins staðið í fáeina áratugi, örstutt tímabil í stóra samhenginu. En það er líka mikilvægt að vera meðvituð um að gríðarlega sterk og valdamikil peningaöfl eiga mikilla hagsmuna að gæta varðandi það að neysla aukist fremur en minnki.
Í vikunni las ég bókina sem fjölskylda Gretu Thunsberg gaf út um líf sitt og baráttu í fyrra, Scenar ur hjärtat eða Þættir frá hjartanu. Þessi bók átti að fjalla um baráttu fjölskyldunnar við að koma lífi dætra sinna sem báðar glíma við raskanir á einhverfurófi úr ógöngum.
Verkefnið vatt upp á sig og bókin er auk þess ákall um að fólk horfist í augu við það neyðarástand sem hefur skapast vegna umhverfisáhrifa lífsstíls efnaðasta hluta mannkyns og bregðist við því. Reyndar eru í bókinni færð rök fyrir því að þetta tvennt tengist, þ.e. að með því að draga úr neyslu, ferðalögum og hraða verði samfélagið aðgengilegra fyrir fólk sem svipar til þeirra systra, Gretu og Beötu, og raunar telja höfundarnir að með því að draga úr hraða og neyslu þá verði heimurinn betri fyrir alla.
Ákall fjölskyldunnar í bókarlok hljómar eitthvað á þessa leið:
Baksviðs er Móðir jörð tilbúin.
Tjöldin verða dregin frá á hverri stundu.
Okkur er nauðsynlegt að fara að tala um hvernig okkur líður.
Vegna þess að nú er það undir okkur sjálfum komið.
Þetta erum við gegn myrkrinu.
Frá munni til munns, frá borg til borgar, frá landi til lands.
Skipuleggið ykkur.
Grípið til aðgerða.
Látið vatnið gárast.
Það er pláss á sviðinu.