Sunnudagur 19. janúar, 2025
0.5 C
Reykjavik

Til móts við framtíðina 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Eyþór Laxdal Arnalds

Tuttugasta og fyrsta öldin er tækniöld. Á fyrsta áratugnum komu snjallsímarnir og hafa þeir breytt ótrúlegustu hlutum á síðustu tíu árum. Í dag kaupa fáir sérstaka vekjaraklukku eða reiknivél. Smáforritin leysa þessi tæki af hólmi. Sama er að segja um geisladiska, bækur, leiki, myndavélar og jafnvel bankaútibú. Um þessar mundir er sambærileg bylting að eiga sér stað í samgöngum. Orkuskipti ganga hratt og eru Íslendingar að skipta hratt út jarðefnaeldsneyti fyrir hreint íslenskt rafmagn í bílum sínum. Á sama tíma eru bílar að verða eins konar snjallsímar á hjólum. Sjálfkeyrandi tækni er staðreynd og nú þurfa opinberir aðilar að tryggja að merkingar, götur og lagaumhverfi sé í lagi. Nýjar tegundir farartækja, svo sem fishjól, auka á fjölbreytnina auk þess sem gamla góða reiðhjólið er komið á skrið. Kostnaður við að eiga farartæki snarlækkar síðan verulega með deilihagkerfinu. Við Íslendingar höfum verið fljót að tileinka okkur tæknina. Má hér nefna tölvur, ljósleiðara, farsíma, erfðagreiningu og nú rafbíla. Það væri því eðlilegt að við værum í fararbroddi í samgöngubyltingunni.

„Borgin á að greiða götur fólks. Ekki að reyna að finna upp hjólið, heldur tryggja umhverfi sem best fyrir nýja tækni.“

Vandinn í hnotskurn

Í Reykjavík búa aðeins 131 þúsund manns, en engu að síður hefur orðið til umtalsverður samgönguvandi. Er hann að hluta til vegna þess að skipulagshalli borgarinnar veldur því að margir sækja vinnu til miðborgarinnar og er þung umferð til vesturs að morgni og til austurs síðdegis. Nær tómar akreinar í hina áttina sýna glöggt hvað nýtingin er slök. Þá er borgin „við sundin“ ekki með neinar hringtengingar líkt og borgir inni í landi. París, Madrid og London eru með hringtengingar. Stokkhólmur og Reykjavík eru með nes, eyjar og sund. Hugmyndir um Sundabraut og Skerjabraut hafa frestast um áratugi. Þetta hefur aukið á álagið við Kringlumýrarbraut, Miklubraut og Ártúnsbrekkuna. Þá er líkt og ljósastýringar í borginni séu fastar í viðjum síðustu aldar. Klukkustýring í stað snjallstýringar líkt og í þeim borgum sem við viljum miða okkur við. Allt þetta hefur búið til umferðarsultur langt umfram efni.

Lausnin liggur fyrir

Reykjavíkurborg á að vera í fararbroddi við snjallvæðingu í samgöngum. Tryggja að merkingar séu þannig að sjálfkeyrandi bílar komist klakklaust um borgina. Ljósastýringar séu með hreyfiskynjurum og snjalltækjavæddar. Hjólastígar séu aðskildir gangandi umferð. Og tæknin verði nýtt í almenningssamgöngum með snjöllum, minni einingum sem geta þá aukið ferðatíðni með lægri rekstrarkostnaði. Hugmyndir um stærri og þyngri vagna eru hvort tveggja í senn; dýrari og óumhverfisvænni leið. Heimila betri vegtengingar og fækka hættulegum ljósastýrðum gatnamótum. Borgin á að greiða götur fólks. Ekki að reyna að finna upp hjólið, heldur tryggja umhverfi sem best fyrir nýja tækni. Vinna með markaðinum og nýta tækifærin. Einmitt nú er stóra tækifærið að við nýtum okkur stóru samgöngubyltinguna og gerum borgina okkar betri.

- Auglýsing -

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -