Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Töfrar jólanna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 47. tölublaði Mannlífs

Ein skemmtilegasta minning mín frá æskuárunum er þegar við systurnar byrjuðum að kíkja eftir jólaljósunum. Þegar gul, græn, rauð og blá ljós tóku að lýsa í gluggum, undir þakskeggjum, á grindverkum og í trjám, kviknaði fyrsta tifandi tilhlökkunarkitlið í maganum. Svo fór bökunarlyktin að fylla vitin og taka við hreingerningarilminum. Mamma byrjaði að hreingera strax í október og allt var tekið í gegn, veggir og loft skrúbbuð og raðað í skápa, skúffur, kassa og kirnur. Þetta hafði þann ótvíræða kost að aldrei safnaðist upp drasl. Það sem við vorum hætt að nota fór í endurnýtingu hjá öðrum.

Jólin eru gjafatími. Allir finna til örlætis og vilja gleðja sína nánustu sem mest og best. Flestir reyna líka að rétta þeim hjálparhönd sem minna mega sín og búa ekki við sama öryggi og þeir sjálfir. Þetta er það góða við jólin, hvernig þau opna hjörtun og pyngjurnar.

Í gömlum ævintýrum og í Biblíunni er margítrekaður sá boðskapur að örlæti skili sér ávallt aftur til þess er gefur. Karlsonur úr kotinu eða öskubuskan leggja af stað út í heim og hitta við götuna óhrjálega mannveru. Þeir sem gefa, hjálpa eða sinna þessari veru uppskera þakklæti hennar og ráð sem skila þeim prinsessu eða prinsi og hálfu konungsríkinu að auki. Mér þykir líka alltaf vænt um tilvitnun úr Predikaranum sem segir: „Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.“

Þetta höfðar til mín á svo marga vegu. Þegar ég heyrði þetta fyrst var ég níu ára og sá fyrir mér að endurnar á vatninu nytu góðs af brauðinu og þær launuðu fyrir sig rétt eins og hrafninn í íslensku þjóðsögunni sem leiddi stúlkuna frá bænum áður en skriða féll á hann í þakklætisskyni fyrir matargjafirnar um veturinn. Síðar fór ég að skilja þetta öðrum skilningi eða þeim að þótt langur tími liði gleymdist örlætisgerningur aldrei.

„Þegar mennskan verður meira virði en innstæða í bankanum verður eftirsóknarvert að varpa brauði sínu á vatnið fremur en að safna því í körfur heima.“

Mér finnst jólin komin þegar ég heyri rödd John Lennons hljóma í útvarpinu: „So This Is Christmas and What Have You Done?“ Í mínum huga er það boðskapur jólanna öðrum fremur, að líta til baka, vega og meta. Hvað hef ég gert? Hvernig hef ég lagt mitt lóð á vogarskálarnar? Hvað hefur áunnist og hvað staðið í stað er ávallt ígrundunarefni hvort sem maður skoðar eigið hugskot eða alheimsmálin eins og Lennon. „Stríðinu er lokið ef þú vilt það,“ segir hann í textanum og þannig er það. Við getum ákveðið að binda enda á allan ófrið og styðja hvert annað í litlu jafnt sem stóru. Ég trúi því hins vegar að friður verði aldrei tryggður með sprengjum, skotum og skriðdrekum. Á sama hátt mun aldrei verða hægt að útrýma fátækt fyrr en menn ná tökum á græðginni. Daginn sem peningar hætta að tryggja mönnum virðingu samfélagsins og ákveðinn ósnertanleika opnast leiðin að betra samfélagi. Þegar mennskan verður meira virði en innstæða í bankanum verður eftirsóknarvert að varpa brauði sínu á vatnið fremur en að safna því í körfur heima.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -