Föstudagur 22. nóvember, 2024
-1.6 C
Reykjavik

Traust og ásýnd

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur/ Henry Alexander Henrysson, heimspekingur

Við áramót eru viðtöl við stjórnmálaleiðtoga og blaðagreinar þeirra áberandi. Ég veit ekki um neina betri texta til að kynnast því hvað þetta fólk er að hugsa. Þegar kemur að kosningum er búið að hnoða hugsunina of mikið til.

Nú geta kosningar svo sem brostið á með litlum fyrirvara. Næsta hneykslismál í íslenskum stjórnmálum þarf til dæmis ekki að bíða til hausts. En ef langt líður á árið þá hvet ég fólk til að fara aftur yfir orð forystufólks í upphafi árs. Það sem liggur því raunverulega á hjarta er sjaldan jafntært.

Eitt þeirra viðtala sem mér fannst sérstaklega áhugavert í upphafi árs var við forsætisráðherra í Silfrinu. Það var gaman að hlusta á hana greina og fara yfir árangur ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu („árangur“ var áberandi hugtak í máli hennar). Sitt sýnist hverjum auðvitað um hvort þessi ríkisstjórn hafi komið réttum málum í gegn en mér fannst yfirferðin hjálpleg og laus við kosningarembing.

Undir lok viðtalsins var Katrín hins vegar spurð út í Samherjamálið. Reyndar var hún ekki spurð út í það almennt heldur var hún spurð beint út í stöðu sjávarútvegsráðherra í ljósi þessa máls. Tvisvar vék hún sér frá því að svara en ræddi um eftirlit með fyrirtækjum. Þegar á hana var gengið sagði hún nokkuð sem hefur setið í mér. Forsætisráðherra sagði um stöðu sjávarútvegsráðherra að „ekki væri hægt að dæma hann eingöngu út frá ásýndinni“. Hún bætti svo við að ekkert benti til að hann hafi haft vitneskju um málið. Hvoru tveggja var annaðhvort tilraun til að þvæla umræðuna og varpa ryki í augu áhorfenda eða dæmi um djúpstætt skilningsleysi um hvað málið snýst.

Forsætisráðuneytið hefur á undanförnum árum viljað gefa þá ásýnd að því sé annt um traust almennings til kjörinna fulltrúa og stjórnsýslu. Skýrsluskrif og samningur við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hafa verið dæmi um viðleitni til þess að gefa þá ásýnd að skref séu tekin í rétta átt. En ásýndin er ekki nóg, eins og Katrín sagði. Maður getur hlaðið í kringum sig ráðgjöf en hún skiptir ekki miklu ef ekkert bendir til að maður fari eftir henni.

- Auglýsing -

Vandamál íslenskra stjórnmála felst í tvennu. Annars vegar færa kjörnir fulltrúar ekki fórnir, ef svo má að orði komast. Kastljósinu er alltaf beint að rétti viðkomandi. Gagnrýnni umræða samtímans krefst þess að traust sé eflt með því að fólk geri sér grein fyrir eðli hlutverk síns og þeim skyldum sem því fylgja. Í öðru lagi eru kjósendur leiðir á algjörum viðsnúningi í meginviðhorfum eftir því hvort kjörnir fulltrúar sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu. Í Silfrinu var beinlínis pínlegt að sjá forsætisráðherra láta eins og hún hefði verið sátt við stöðu sjávarútvegsráðherra ef hún sæti í stjórnarandstöðu. Traust sprettur af heilindum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -