Nýlega var framkvæmdastjóri Sorpu rekinn frá störfum. Allir vita að ástæðan er óábyrg fjármálastjórnun við byggingu nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar. Innri endurskoðun borgarinnar gerði alvarlegar athugasemdir við upplýsingagjöf og áætlanagerð framkvæmdastjórans. Á svipuðum tíma dúkkaði bragginn dýri og fíni í Nauthólsvík aftur upp í umræðunni og borgarstjóri benti fréttamönnum á að allir sem komið hefðu að endurbyggingu hans væru hættir störfum. Afsakar það stjórnlaust bruðlið og brot á reglum borgarinnar um hvernig framkvæmdum skuli háttað? Spyr sá sem ekki veit. Á sama tíma getur borgarstjóri ekki hækkað laun ófaglærðs starfsfólks á leikskólum og í umönnun á vegum borgarinnar. Til þess er ekki hægt að finna neina fjármuni.
Óneitanlega vekur þetta ákveðin hugrenningatengsl. Eftir síðari heimstyrjöld urðu yfirgefnir herbraggar húsnæði efnalítils fólks er flutti á mölina í von um betra líf. Þá, eins og nú, var gríðarleg húsnæðisekla í Reykjavík og húsaleiga hærri en svo að fátæklingar réðu við það. Braggarnir voru misjafnir en allir kaldir og illa innréttaðir. Sumir dvöldu stutt í saggafullum, óþéttum og þröngum bröggunum en aðrir döguðu þar uppi í algjörri neyð. Það skýtur því nokkuð skökku við að braggi sé orðið eitt dýrasta hús landsins, sérstaklega í ljósi þess að stærstur hluti launa þeirra sem Dagur getur ekki hækkað fer í að greiða húsaleigu. Bragginn í Nauthólsvík var svo verðmæt menningararfleifð að hægt var að veita milljörðum í að gera hann upp en ekki til þess að þar fengi inni fátækt fólk heldur til að vellaunaðir borgarbúar gætu sest þar niður og etið og drukkið.
Einnig stendur til að koma fyrir fimm pálmatrjám í glerhjúpum í nýrri íbúðabyggð í Laugardal. Þetta er hugsað sem listaverk tilvonandi kaupendum til yndisauka og verður ábyggilega sönn prýði á hverfinu. Líklega munu fáir starfsmenn á leikskólum hafa efni á að kaupa eða leigja sér íbúð í nágrenni við herlegheitin þótt þeir muni án efa kunna vel að meta suðræna pálma. Aðeins um 140 milljónir kostar að koma þeim upp en engar kostnaðaráætlanir liggja fyrir um viðhald þeirra og umhirðu. Hugsanlega eiga þær tölur eftir að birtast síðar en menningarsnautt viðrini eins og ég getur ekki varist þeirri hugsun að kannski væri peningunum betur varið í að hækka laun verðmætra starfsmanna og einfaldlega leyfa pálmatrjám að festa rætur og vaxa á heitari svæðum jarðarinnar.
Það er alveg hugsanlegt að þau kunni bara alls ekki við sig í glerhjúpi og vilji frekar vera úti undir beru lofti. En ég get ekki ætlað mér þá dul að vita hvað pálmatré hugsa, ekki fremur en ég get lesið í huga borgarstjóra sem telur í lagi að lama dögum saman starfsemi sem snýr að umönnun aldraðra og barna vegna þess að hann finnur hvergi í sjóðum peninga til að leiðrétta kjör þeirra.