Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Undir fölsku flaggi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stjórnmálaflokkar á Íslandi sigla margir hverjir undir fölsku flaggi. Hið pólitíska litróf sem spannar frá hægri til vinstri um miðjuna er fyrir löngu orðið bjagað og úr sér gengið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af verið kenndur við einstaklingsframtak og frelsi til heilbrigðra athafna. Stefna flokksins er að draga sem mest úr ríkisafskiptum og fækka þeim sem eru á spena ríkisins. Ef fortíðin er skoðuð kemur allt annað á daginn.

Langvarandi seta á valdastólum sýnir helst að flokkurinn gerir lítið með að draga úr ríkisafskiptum. Ríkisútvarpið er talandi dæmi um það. Þar er haldið úti skemmtiefni í útvarpi og sjónvarpi í samkeppni við miðla í einstaklingseigu. Rás 2 er á kafi í sukki og veitir fyrirtækjum aðgang gegn gjaldi. Margt sem á þeirri rás er að finna er innihaldslaus froða í boði ríkisins. Innhringjendur fá gjafir frá sumum fyrirtækjum en öðrum ekki.

Undantekningar er að finna þar sem boðlegt efni er á dagskrá. Sjónvarp allra landsmanna er að talsverðu leyti froða sem hefur engan menningarlegan tilgang og ætti ekki að hafa botnlausan aðgang að almannafé. Rás 1 er undantekningin frá þessu. Þar er að finna efni sem mun skila sér til komandi kynslóða. Loforð Sjálfstæðisflokksins hafa gengið út á að einfalda rekstur RÚV og halda stofnuninni við menningarlega þáttinn og víkja fyrirbærinu af auglýsingamarkaði. Öll þessi loforð hafa verið svikin þótt flokkurinn hafi staðið vaktina í menntamálaráðuneytinu lengur en aðrir.

„Spillingarára er yfir flokknum.“

Vandinn er sá að það sem flokkurinn hefur einkavætt af eigum almennings er gjarnan í þoku vinavæðingar og frændhygli. Spillingarára er yfir flokknum og fæstir treysta honum til að stuðla að frelsi allra. Sumir eru á beit og njóta sérstaks aðgangs að eigum almennings.

Vinstrihreyfingin grænt framboð er á villigötum líkt og Sjálfstæðisflokkurinn. Ætlunin er sú að nafnið Vinstri grænir lýsi áherslum flokksins sem vinni fyrir þá verst settu í samfélaginu og standi með náttúru landsins. En það er öðru nær. Flokkurinn er á kafi í stóriðjusukki og fjarri því að veita náttúrunni skjól. Kísilmálmverksmiðjan á Húsavík sem kostað hefur lífeyrissjóði milljarðatap, var reist með velþóknun Steingríms Jóhanns Sigfússonar, stofnanda VG. Einhver skyldi ætla að róttækasti náttúruverndarflokkur á Íslandi myndi spyrna við fótum áður en slíku fyrirbæri yrði plantað í eina fegurstu náttúru landsins. En flokkurinn dansaði í kringum kísilkálfinn.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, leiðtogi VG í Norðvesturkjördæmi, er leynt og ljóst einn helsti talsmaður fiskeldis í sjó. Norðmenn eru stórtækir í fiskeldi inni á vestfirskum fjörðum. Þessu fylgir mikið rask, skítahaugar á hafsbotni og mengun sjávar og fiskistofna án þess að VG geri neitt til að spyrna við fótum. Þvert á móti. Það hlýtur að vera flokknum áhyggjuefni að Samfylkingin er orðin róttækari til vinstri hvað varðar náttúruvernd. Að sama skapi er það umhugsunarefni að Miðflokkurinn er kominn til hægri við Sjálfstæðisflokkinn með sinn þjóðernispopúlisma. Þar er eitt sagt og annað hugsað.

- Auglýsing -

Báðir þessir flokkar á hægri og vinstri kantinum sigla sama sjó undir fölsku flaggi. Því skal þó haldið til haga að umhverfisráðherra VG hefur að mörgu leyti staðið sig vel í embætti og náð fram þjóðþrifum þar sem kemur að útblæstri og friðun viðkvæmra svæða.

Vandi kjósenda er augljós. Ekki er hægt að treysta þessum flokkum til að vinna að framgangi þeirra mála sem þeir setja á oddinn hverju sinni. Sjálfstæðisflokkurinn er kominn óravegu frá boðuðum hugsjónunum rétt eins og Vinstri grænir. Fyrir kjósendur er engin leið að átta sig á vegferð þeirra. Það er nauðsynlegt að skerpa línur í íslenskri pólitík og krefjast þess að flokkar standi við yfirlýsta stefnu sína.

 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -