Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Úrslitaleikur – Taka 2

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Bjarni Þór Pétursson

Dominos deildin. Oddaleikur. Lokaútkall. Hinsti dansinn. Tólfta lotan. Bæði lið í köðlunum – Rocky style! Ekkert eftir líkamlega einungis spurning um hörkuna og viljann til að ná markmiðinu. Megi mátturinn vera með þér. Í alvörunni May the 4th be with you! Stórkostleg dagsetning á oddaleik. Upp með geislasverðin. Epískur endir á þessu ævintýri. 6peat eða 6feet…under? Líklega bæði.

Besta einvígi í sögu íslenskra íþrótta? Engin spurning.

Í fullkomnum heimi þá væri oddaleikurinn færður á parketlagðan Laugardalsvöll. Spilað undir berum himni fyrir framan 30 þús manns. Hinn möguleikinn væri að gera út um einvígið með street ball leik á Klambratúni. Í raunveruleikanum, þeim sem við verðum að “sætta okkur við” er geggjaður leikur í vændum. Ótrúlegar andstæður tveggja liða, eins og ég hef þegar rakið og þvílíkir íþróttamenn. Líkamlega en fyrst og fremst þó andlega. Þvílík Dominosveisla, nýi þjóðarréttur Íslendinga, fyrir allan peninginn og markaðsdeildin hlær alla leiðina í bankann.
Körfubolti orðinn stærsta íþróttin innanlands? Engin spurning.

Laugardagur. Leikdagur. Vor í lofti. Grilllykt í lofti. Latte angan berst af Kaffi Vest. Gufan stígur til himins frá Vesturbæjarlauginni á þessum heiðskíra degi. Fuglasöngur og einstaka sinnum fagur hljómur frá bjöllu á borgarhjóli sem rennur greiðlega meðfram götunni. Búið að loka Hofsvallagötunni fyrir bílaumferð. Kælirinn kominn í samband í ÁTVR Eiðistorgi. Hlæjandi Blazer pjakkar með rósavín í glasinu og aldrei litlir í sér. Alltaf öruggt. Sigurhátíð í Vesturbænum. Níu geitum með KR trefla sleppt lausum í DHL höllinni og gleðiganga að því loknu. Börnin prúðbúin og til fyrirmyndar. Engir sósuputtar, klístruð munnvik né tyggjó í hári. Einungis fullkomin áreynslulaus gleði í Frostaskjólinu. Andlegu íþróttarisarnir að ríða inn í sólarlagið eftir hinstu 40 mínúturnar sínar á parketinu við undirleik sinfó.
Viðeigandi? Engin spurning.

Innst inni þá þráum við öll þennan endi. Innst inni þráum við ekki að lífið hermi eftir listinni heldur Hollywood klisjunni. Þar sem hetjan lifir hamingjusöm til æviloka. Hvernig fáum við annars Ryan Gosling til að leika Jón Arnór Stefánsson í KR myndinni, ef að hann er svo niðurlægður af syngjandi hommahatandi bullum úr Breiðholtinu? Hver er endirinn á öllum Yann Tiersen tribute myndböndunum ef þeir klúðra þriðja heimaleiknum í röð og síðasta leiknum á ferlinum?

- Auglýsing -

Er kannski tímabært að hafa áhyggjur? Ég hef ekki svarið við því.

Ég hef ekki svar við því hver sigrar en ég hef svar við öðru. Mannréttindi eru alltaf í 1.sæti hjá mér. Tryggð við íþróttafélag, hverfi, ættbálk eða hvað eina koma þar langt á eftir. Þar er engin keppni á milli, bara niðurlægjandi heimaskítsmát. Það er synd að nokkrir drukknir einstaklingar skuli á lokametrunum smyrja svörtum blett á þetta stórbrotna einvígi og þó til bóta að þeir hafi beðist afsökunar og félagið sjálft tekið skýra afstöðu til þess að þetta atvik, fordómar og jaðarsetningar séu ekki í anda félagsins. Ég hef raunar engar áhyggjur af þessu, því að ég er 100% vissum að skólastjórinn sjálfur (andlegur fyrirliði Ghetto hooligans) hafi lagt mönnum lífsreglurnar eftir þessa uppákomu og forði allir góðir menn þeim frá afleiðingunum sem þeir verða fyrir ef þeir hlýða ekki þeim föðurlegu ráðleggingum. Ef einhver er enn í vafa, í hvaða aðstæðum sem er, þá er svarið alltaf einfalt: Ekki vera fáviti!

Njótið dagsins. Njótið lífsins. Njótið þess að horfa á síðustu andartök margra af bestu körfuboltaleikmönnum Íslandssögunnar. Njótið þess að horfa á eitt mesta underdog lið allra tíma. Njótið hvers augnabliks sem eftir er af þessum ótrúlega fagra gjörningi. Og að því loknu, sama hvernig fer, gerið þá eitthvað jafn fallegt fyrir ykkur sjálf, þá sem þið elskið og náungann.

- Auglýsing -

Er lífið ekki dásamlegt? Engin spurning.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -