Eftir / Jóhannes Þór Skúlason
Á undanförnum tíu árum hefur ein atvinnugrein haft afar mikil áhrif til þess að breyta ýmsum grunnþáttum í íslensku efnahagslífi og samfélagi. Í kjölfar bankahruns og Eyjafjallajökulsgossins tók ferðaþjónusta að vaxa á Íslandi, áhugi á áfangastaðnum jókst og hugmyndaríkt markaðsátak skilaði árangri. Þessa sögu þekkja flestir vel, segja má að ferðamannasprenging hafi orðið á Íslandi með tugprósenta aukningu milli ára mörg ár í röð.
Íslendingar tóku á móti þessari óvæntu sprengju með klassísku hugarfari, það var gengið í málið, ermar brettar upp, fyrirtæki stofnuð, hótel byggð, tæki keypt, afþreying þróuð, hráefni nýtt og þannig með gríðarlegu átaki voru verðmætin borin í hús. Um allt land spruttu upp fyrirtæki á grunni góðra hugmynda og þekkingar sem bjuggu til reynslu, viðskiptasambönd og atvinnu fyrir fólk og tóku að skila miklum peningum í beinar skatttekjur til samfélagsins árlega, allt upp í 65 milljarða u.þ.b. króna á ári.
Og efnahagurinn gjörbreyttist. Erlendur gjaldeyrir sem gestir báru með sér varð að gjaldeyristekjum fyrir þjóðarbúið, meiri en slíkar tekjur af fiski og áli samanlagt, og safnaðist saman í álitlega bólginn sjóð í skúffum Seðlabankans sem studdi við meiri stöðugleika krónunnar.
Allt leiddi þetta gerbreytta umhverfi til þess að hægt var að hækka laun á Íslandi um tugi prósenta án þess að verðbólga æti þau upp og kaupmáttur fólks í samfélaginu jókst og jókst og varð sá hæsti frá upphafi mælinga. Lífskjör fólks á Íslandi tóku stakkaskiptum á mun styttri tíma en nokkur hafði getað búist við árið 2010.
Og það er það sem við þurfum að verja núna. Lífskjörin.
Við viljum ekki að samfélagið verði drepið í dróma atvinnuleysis og samfélagslegs vanda um margra ára skeið. Við viljum ekki að kaupmáttur dragist niður á ný til frambúðar og atvinnulíf á landsbyggðinni verði fátæklegra á ný. Við viljum ekki að sú reynsla, hugvit, þekking og fjárfesting sem fólk hefur byggt upp á undanförnum 10 árum hverfi út í buskann og með því möguleikar okkar til að byggja upp lífskjörin á ný.
Við viljum öll að Ísland komist upp úr skurðinum á undan öðrum. Við höfum gert það áður og við getum gert það aftur. Við viljum að þetta skelfilega ástand standi eins stutt yfir og mögulegt er og við viljum að það skerði lífskjör okkar allra eins lítið og hægt er. Við viljum verja það sem við höfum byggt upp og þannig geta búið enn betur í haginn fyrir framtíðina.
Það er betra að taka út kostnað núna í stað þess að taka út meiri efnahagslegan og samfélagslegan kostnað síðar í lengri og dýpri kreppu. Langvinnara atvinnuleysi. Meiri samfélagslegan kostnað. Lægri kaupmátt. Lakari lífskjör.
Þess vegna eru aðgerðir stjórnvalda til að aðstoða ferðaþjónustuna svo mikilvægar núna. Til þess að þegar þessu tímabili lýkur getum við aftur gengið í málið, brett upp ermar, skapað verðmæti og skilað samfélaginu gjaldeyri og skatttekjum. Gert það sem við gerum best. Varið lífskjörin.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu. >