Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Vilja sóttkví undir pilsinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari Mannlífs 6. mars 2020

Það er dálítið merkilegt hvað meintir talsmenn einkaframtaksins og hins frjálsa markaðar hjá Samtökum atvinnulífsins eru fljótir að benda á hið opinbera þegar útgjöld standa fyrir dyrum. Flesta daga ársins á „báknið“ helst að innheimta sem lægstan skatt og viðhafa mjög takmarkað eftirlit og afskipti. Þegar kemur að því að skrifa undir óútfylltan tékka kveður hins vegar við annan tón.

„Atvinnulífið er ekki eyland í íslensku samfélagi,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í pistli sem birtist í Mannlífi í síðustu viku. Þar greindi hann frá því að fulltrúar SA hefðu átt fund með sóttvarnarlækni vegna Covid-19, enda hefðu samtökin hlutverki að gegna þegar heimsfaraldrar gengju yfir. Þá hvatti hann til „yfirvegunar í máli og gjörðum“ og sagði jafnframt að á SA hvíldi sú ábyrgð „að bregðast við þegar reynir á í samfélaginu, kalla eftir samtakamætti atvinnurekanda og ábyrgri afstöðu og aðgerðum.“

Fjórir dagar líða. Smitum fjölgar. Þá stígur Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA, fram í fjölmiðlum og segir sóttkví sambærilega ófærð; fjarvistin sé réttmæt en launalaus af hálfu atvinnurekandans. Jafnvel þó að um sé að ræða fyrirskipun frá heilbrigðisyfirvöldum, samfélaginu til heilla, þá sé það ekki fyrirtækjanna að koma til móts við starfsmenn í þessu tilviki. Framlag þeirra er að sýna því skilning að fólk sé frá vinnu. Ef það eigi að tryggja að fólk sé ekki tekjulaust í hálfan mánuð sé það stjórnvalda að borga brúsann.

Þrátt fyrir faguryrði framkvæmdastjóra SA er það sem sagt hið opinbera sem á að axla alla ábyrgðina á krísunni, þ.e. skattgreiðendur sjálfir. Málið verður enn fáránlega þegar horft er til þess að á sama tíma og atvinnulífið vill ekki borga laun í sóttkví og vill heldur að bætur séu sóttar í ríkiskassann, þá vilja menn síður láta örlátlega í kassann sjálfir. Það væri kannski allt í góðu, ef þeir sýndu raunverulega hina „ábyrgu afstöðu og aðgerðir“ sem formaðurinn ræddi um, til dæmis með því að greiða laun í sóttkví og leggja til mögru áranna en hvorugt virðist raunin.

Hið opinbera á nefnilega ekki bara að bæta launalausum starfsmönnum í sóttkví bætur, heldur á það einnig að koma til móts við atvinnulífið, segja forsvarsmenn SA. Davíð sagði í samtali við fjölmiðla að Seðlabankinn þyrfti að gera sitt, já og svo ríkisstjórnin. Til að koma fyrirtækjunum til bjargar í þessum öldusjó Covid-19 þyrftu stjórnvöld að standa við mikla innviðafjárfestingu í fjármálaáætlun og ráðast í aðgerðir til að örva hagvöxt.

- Auglýsing -

Það kveður þarna við kunnuglegt stef. Í kjaraviðræðum er mikið talað um ábyrgð og skynsemi; atvinnulífið hvatt til að koma til móts við launþega og launþegar hvattir til að gæta hófs í kröfum sínum. Gjarnan kastast í kekki áður en aðilar ná sáttum, og oft er það ekki fyrr en þeir hafa náð fallegum samhljóm yfir samningaborðið um nauðsyn þess að hið opinbera komi að málum. Þegar öllu er á botninn hvolft liggur ábyrgðin nefnilega alltaf þar. Þrátt fyrir að mamma sé hundleiðinleg með sín boð og sín bönn, leitar krakkinn alltaf undir pilsfaldinn þegar eitthvað bjátar á.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -