Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Vonda stjúpan

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 31 tölublaði Vikunnar

Þær voru hrollvekjandi og grimmar stjúpurnar í Grimms-ævintýrunum. Vondu drottningarnar í sögunum af Mjallhvíti og Öskubusku og hin miskunnarlausa nýja eiginkona föður Hans og Grétu voru sannarlega engin lömb að leika sér við. Manni fannst stjúpu Mjallhvítar réttilega refsað með að láta hana dansa í sjóðheitum járnskóm þar til hún sprakk og svo óumræðilega göfugt af Öskubusku að fyrirgefa allt. Og mikill var feginleikinn að þegar Hans og Gréta sneru aftur var stjúpan dauð og þau gátu notið áhyggjulausrar æsku með föður sínum. Auður nornarinnar sá til þess. En þessar sögur sáðu ýmsu í frjóan barnshuga og skildu eftir sig meira en léttan spennuhroll, nefnilega þá sannfæringu að stjúpmæður gætu ekki elskað börn manna sinna.

Okkur finnst iðulega að við séum að uppgötva hjólið, að aldrei í sögunni hafi verið svipaðar aðstæður. En þegar meðalaldur fólks var í kringum 50 ár var algengt að menn og konur giftust aftur eftir lát maka. Þeim fylgdu börn á öllum aldri í hjónabandið og stjúpinn og stjúpan náðu misgóðum tengslum við þau. Hins vegar höfum við náð þeim skilningi að ekki er alltaf auðvelt að blanda saman börnunum mínum og krökkunum hans eða hennar. Til þess að úr verði fjölskylda þarf næmni, tillitssemi og umfram allt vinnu. Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi hefur mikinn áhuga á þessum málum og í raun mætti segja að hún hafi sérhæft sig í þeim. Hún heldur úti vefsíðunni stjuptengsl.is en þar er að finna ótal góð ráð og upplýsingar.

Valgerður hefur sjálf reynslu af að hrista saman blandaða fjölskyldu og jarðbundið viðhorf hennar til þessara mála er svo einstaklega hjálplegt. Þegar togstreita og deilur lita samskipti er svo auðvelt að týna sér í tilfinningunum, missa yfirsýnina og þar með glata stöðu sinni sem hinn ábyrgi fullorðni aðili gagnvart barni. Það er líka svo ótalmargt að gerast. Ég man til dæmis eftir stjúpu sem um tíma tengdist barni í minni fjölskyldu sem þurfti tíma með nýja elskhuga sínum og fannst sjálfsagt að það væri á kostnað barnanna hans. Ég þekkti líka stjúpa sem taldi að algjört afskiptaleysi væri langbesta aðferðin við uppeldi stjúpsonar síns. Hvorugt þeirra skildi hvers vegna börnunum var illa við þau. Í fyrra tilfellinu fannst börnunum að sjálfsögðu að verið væri að taka pabba þeirra frá þeim og í hinu seinna upplifði drengurinn ekkert nema kulda og andúð. Afskiptaleysi er nefnilega ekki hlutleysi, það er vanræksla. En meðalvegurinn er vandrataður því enginn vill heldur taka yfir hlutverk blóðforeldris barnsins.

Þegar Valgerður segir að þegar upp sé staðið græði allir á góðum tengslum er ekki hægt annað en að vera sammála. Til þess að það megi heppnast er nauðsynlegt að bæta samskiptatækni sína, skoða málin frá sjónarhóli annarra og umfram allt hafa vilja til að læra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -