Landsmenn þurfa að bíða eftir sumarsólinni enn um hríð. Veðurstofan spáir norðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu í dag. Rigning verður um landið suðaustan- og síðar austanvert, en skýjað og úrkomulítið vestanlands. Hiti fimm til fjórtán stig. Hlýjast verður suðvestanlands.
Næstu dagar munu bera í skauti sér svipað veður þar sem norðaustan átt verður ríkjandi. Helgin verður ekkert sérstök í veðurfarslegu tilliti. Allt að 13 metrar á sekúndu verða norðvestan til á landinu á morgun. Rigning verður með köflum, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti fimm til tólf stig.
Á sunnudag er útlit fyrir ákveðna suðvestan- og vestanátt með skúrum, einkum um landið vestanvert. Hiti sjö til sextán stig. Hlýjast verður fyrir austan. Sólarglennur verða inn á milli og það stefnir í rjómablíðu á Austfjörðum á miðvikudaginn.