Mánudagur 18. nóvember, 2024
-4 C
Reykjavik

Átján ára seglbrettamaður lést við köfun – Stefndi á Ólympíuleikana

J.J.

Jackson James „J.J.“ Rice, bandarískur seglbrettamaður sem stefndi á ólympíuleikana, lést í köfunarslysi við strendur Tonga (áður Vináttueyjar), en faðir hans, Darren Rice, staðfesti fregnirnar. J.J. var einungis 18 ára gamall.

J.J. var fríköfun frá báti 15. júní þegar hann lést en talið er að hann hafi misst meðvitund í grunnu vatninu (e. shallow water blackout), samkvæmt föður hans. Að sögn föðursins fannst lík hans á hafsbotni undir bátnum af öðrum köfurum en tilraunir til að endurlífga hann mistókust.

Hinn efnilegi íþróttamaður fæddist í Bandaríkjunum en ólst upp í eyjaklasanum Ha’apai, á Tonga en faðir hans og móðir, Nina Rice, eiga Matafonua Island Lodge gistiheimilið og veitingastaðinn. J.J. sem var með tongóskan ríkisborgararétt, keppti fyrir hönd landsins í seglbrettaíþróttinni á alþjóðlegum mótum í gegnum árin. Hafði hann vonast til að komast á Ólympíuleikana í París 2024.

Systir J.J., Lily Rice skrifaði nokkur orð á samfélagsmiðlana eftir að andlátið bar að:

„Ég var blessuð með ótrúlegasta bróður í öllum heiminum og það er sárt að þurfa að segja að hann sé látinn,“ skrifaði hún á Facebook. „Hann var ótrúlegur seglbrettamaður og hann hefði komist á Ólympíuleikana og endað með stóra glansandi medalíu … hann eignaðist svo marga ótrúlega vini um allan heim.

Hún hélt áfram, „Ég mun reyna mitt besta til að nota það sem hann kenndi mér til að vera jafnvel bara pínulítið eins ótrúleg og hann var. Síðast þegar ég sá hann gaf hann mér stórt faðmlag og ég vildi að ég hefði haldið í lengur.“

Samkvæmt Matangi Tonga fréttamiðlinum, minntist Darren, faðir J.J. þau skipti þegar sonur hans hafði á óeigingjarnan hátt lagt sig í lífshættu til að bjarga öðrum – fyrst þegar hann var 15 ára en þá synti hann út til að bjarga farþegum um borð í ferju sem hvolfdi undan Faleloa árið 2021, og aftur þegar hann synti út til að bjarga og koma í land tveimur stúlkum sem höfðu sópast af sandrifi út á sjó.

Í maí keppti J.J. á Last Chance Reggata-keppninni í Hyères, Frakklandi þar sem hann vonaðist til að vinna sér inn sæti á Ólympíuleikunum 2024. Fréttir herma að J.J. hafi verið að undirbúa þátttöku á Ólympíuleikunum í ár, en í kjölfar keppninnar skrifaði hinn 18 ára gamli afreksmaður á Instagram að vonirnar um Olympíuleikana í þetta skiptið, væri lokið.

Ragnheiður slasaðist illa fyrir sex árum: „Seinustu sex árin hafa vægast sagt verið hryllingur“

Ragnheiður Pétursdóttir Ljósmynd: Aðsend

Ragnheiður Pétursdóttir hefur haft það mjög erfitt síðustu sex árin en hún hefur verið búsett í Danmörku síðan 2004. Ragnheiður slasaðist illa í vinnunni árið 2018 en hefur síðan þurft að heyja baráttu við danska heilbrigðiskerfið.

„Seinustu sex árin hafa vægast sagt verið hryllingur. Ég slasaðist í vinnunni í maí 2018. Ég hrasaði og afleiðingar þess hafa verið ofboðslega erfiðar. Í janúar fékk ég loksins endanlega greiningu eftir nær 6 ára baráttu við heilbrigðiskerfið hér í Danmörku,“ segir Ragnheiður í viðtali við Mannlíf og útskýrir svo hvað hrjáir hana:

„Ég er með það sem heitir Cranio cervical instability og atlanto axial instability CCI/AAI. Hægra axlar liðbandið sem heldur efstu liðunum á réttum stað er eyðilagt ásamt fleiru. Greininguna fékk ég hjá virtum taugaskurðlækni á Spáni.“

Ragnheiður segir að kostnaðurinn hafi verið gríðarlega mikill en enga hjálp er að finna fyrir hana í danska heilbrigðiskerfinu. „Bara á þessu ári er kostnaður við skannanir, lækna og sjúkraþjálfara langt yfir 3 milljónum íslenskra króna. Ég fæ enga hjálp í danska heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir ótal margar skannanir og skýrslur frá hátt metnum sérfræðingum í Evrópu vill kerfið hérna ekki samþykkja að ég hafi slasast svona alvarlega. Ég á það á hættu að lamast eða missa lífið vegna þess að liðirnir er lausir. Þetta hefur áhrif á allt taugakerfið og heilastofninn.“

Segir Ragnheiður að baráttan við tryggingakerfið hafi einnig verið afar erfið.

„Ég er mjög illa farin eftir ranga meðhöndlun, vöntun á meðhöndlun, vöntun á að viðurkenningu á alvarlegum skaða. Þetta hefur verið hræðilega erfið barátta við tryggingakerfi, þrátt fyrir að þetta er vinnuslys og èg var vel tryggð hef èg fengið samtals 0 krónur út úr þeim. Heilbrigðiskerfið hefur gjörsamlega brugðist mér. Ég hef staðið í ströngu við að ná því að komast á örorku sem og að fá viðeigandi hjálp hér heima sem og hjálpartæki.“

Vegna ástandins hefur hún að mestu haldið sig heima og það rúmliggjandi að mestu.

„Ég er mest megnis föst hér heima, oftast rúmliggjandi, á erfitt með að nota hendurnar, er óstöðug á fótum. Taugatruflanir, svimi, skert heilastarfsemi, sjónin er flöktandi, yfirlið, verkir, hjartsláttartruflanir og erfiðleikar með öndun. Þetta ástand er og hefur verið hreinn hryllingur að ganga í gegnum, ekki bara fyrir mig heldur líka manninn minn og son minn sem er í dag 12 ára. “

Segir Ragnheiður að ótrúlegt sé að hún haldi enn geðheilsu enda hafi hún verið beitt rosalegu óréttlæti.

„Ég á auðveldara með að tala enn að skrifa. Ég hef verið beitt þvílíku óréttlæti og oft verið mikil gaslýsing í gangi. Og það er með ólíkindum að èg hef haldið geðheilsu í þessu ömurlega og erfiða ferli.“

Í dag stendur Ragnheiður frammi fyrir erfiðri ákvörðun en möguleiki er á einhvers konar bata fyrir hana en áhættan er mikil.

„Ég er í augnablikinu að búa mig undir að taka ákvörðun um hvort èg láti skera mig eða ekki. Erfið ákvörðun bæði vegna áhættu í aðgerð, afleiðingum eftir aðgerðina og ekki minnst þarf ég sjálf að finna fjármagnið sem verður langt yfir 100.00 evrum með ferðakostnaði, kostnaði við aðstoðarmenn og síðar endurhæfingu. Èg hef stiklað á mjög stóru hérna en væri alveg til í að fá að segja þér betur frá mínum aðstæðum. Það er svo óréttlátt að fara í vinnuna, hrasa um illa lagða gangstéttarhellu, örkumlast og fá enga hjálp.“

„Hrein og klár forréttindablinda ef aukið aðgengi að áfengi verður samþykkt á Alþingi“

Gunnar Hersveinn.

Rithöfundurinn Gunnar Hersveinn skrifar afar áhugaverða grein.

Hann kemur inn á að „við öll höfum rétt til að verða frjálsar manneskjur. Hugtakið frelsi hefur ekki fullgerða merkingu nema í samhengi við annað. Við þurfum ekki frelsi til að geta keypt vín alla daga og nætur. Alkóhól eykur ekki frelsi heldur dregur úr viljamætti og dómgreind, það takmarkar frelsi til að hugsa og taka heillavænlegar ákvarðanir.“

Gunnar bætir því við að „frjálshyggjumaður sem boðar frelsi til að kaupa áfengi hvarvetna misskilur frelsishugtakið og samhengið alvarlega. Hugtakið frelsi breytist oft við notkun í klisju, aðallega vegna þess að það er misnotað til að réttlæta hvaðeina og þá gleymist að taka tillit til annarra. Takmarkað aðgengi að áfengi er ákjósanlegt – takmarkalítið verslunarfrelsi til að kaupa áfengi dregur úr frelsi í fjölskyldum og í samfélaginu, það eykur líkur á ofbeldi, röngum ákvörðunum, slysum, og fyllir sjúkrahúsin af sjúklingum.“

Bætir við:

„Takmarkað aðgengi að áfengi er því ákjósanlegt. Skuggahliðin á bak við verslunarfrelsi með áfengi er augljós, einföld og margsönnuð: aukið aðgengi, aukin neysla, fleiri veikjast og deyja, fleiri vandamál fyrir fjölskyldur og dýrara heilbrigðiskerfi. Einfaldlega vegna þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf.“

Gunnar ljær máls á því að það sé „réttur barna að búa í farsælu umhverfi, það veitir þeim frelsi. Mikilvægt er að markaðsöflin virði það því ofneysla áfengis getur farið illa með fjölskyldur og meðvirkni í fjölskyldum er líka vandi sem þarf að hafa í huga.“

Að mati Gunnars er „markaðurinn gildislaus; gleymum því aldrei. Honum er sama um hamingju í fjölskyldum, við verðum því að treysta á löggjafann sem hefur völd til að takmarka aðgengi. Ekki treysta á ólöglegan vínsala á netinu. Það er í raun ótrúlegt hve slæm áhrif alkóhóls eru miðað við vinsældir þess og hve mikil áhætta fylgir drykkjunni, meðal annars að verða alvarlega háður alkóhóli. Sókn eftir áfengi getur valdið óhamingju en það gerir val á vínlausum lífsstíl ekki, styðjum það, ekki hitt. Hrósið þeim sem drekka ekki áfengi!“

Gunnar kann vel við það að nota „hugtakið frelsi. Ég vil vera frjáls andspænis ánetjandi efnum, alltaf, alla daga. Frelsið mitt er ekki hending. Áhættan sem felst í því að verða háður fíkniefnum, er ekki í neinu samræmi við ávinninginn!“

Bætir þessu við:

„Það flokkast sem hrein og klár forréttindablinda ef aukið aðgengi að áfengi verður samþykkt á Alþingi. Víndrykkja er nú þegar almenn í samfélaginu og hvarvetna er boðið upp á áfengi. Verkefnið er því ekki að gera það aðgengilegra. Það er ekki falleg gjöf til þjóðarinnar á 80 ára lýðveldisafmæli, að auka aðgengi að áfengi í nafni verslunarfrelsis til að breyta vínmenningu. Æ sér gjöf til gjalda hjá hagsmunaaðilum sem búast þá við fleiri neytendum.“

Gunnar kemur inn á að vínlaust fólk „þarf oft að útskýra hvers vegna það vilji skera sig úr og er oft stimplað sem alkóhólistar, fíklar eða ófært um að hafa stjórn á sér. Í stað þess að fá hrós fyrir sjálfsaga, styrkleika og að nýta valkostinn, er það dæmt fyrir veikleikann sem felst í löngun til að drekka áfengi. Myndinni er snúið við eða hvor er alkinn, sá sem aldrei getur flotinu neitað eða sá sem velur að vera alltaf allsgáður?“

Gunnar spyr um aukið aðgengi að áfengu – frelsi fyrir hverja?

„Við þurfum að læra að greina á milli hvað er gjöf og hvað er ekki gjöf. Ofneysla hefur áhrif á líðan allra í fjölskyldunni og litar félagsleg samskipti. Hún ýtir undir óeðlilega þætti og meðvirknin eykur streitu og kvíða. Einstaklingar glata frelsi sínu og hætta að hafa full tök á lífi sínu. Fæstir átta sig á þessu mynstri sem skapast í kringum einstaklinga með vímuefnaröskun, en það er lúmsk staðreynd. Þetta er spurning um ákvörðun um frelsi til frambúðar og farsældar.“

Gunnar segir að lokum að „án sjálfsaga og hófsemdar og taumhalds verður ekkert frelsi. Hversu oft þarf að segja það: Áfengi er ekki venjuleg vara! Hver þarf áfengi ef markmiðið er: Skýr hugur, skapandi hjarta, hraustur heili.“

Jón Gnarr kominn með glænýtt húðflúr: „Þetta er í raun bara veggjakrot“

Jón Gnarr er kominn með nýtt húðflúr.

Leikarinn og fyrrum forsetaframbjóðandinn Jón Gnarr er kominn með glænýtt húðflúr og það af dýrari kantinum. Í dag, á þjóðhátíðardegi Íslendinga birti Jón ljósmynd af nýju tattúi, sem passar heldur betur við daginn. Við myndina birti hann eftirfarandi texta:

„Til hamingju með daginn elsku vinir. Elsta ritaða heimild þar sem orðið Ísland kemur fyrir er á þessum rúnasteini á Gotlandi og er talinn ristur fyrir um 1000 árum. Þetta er yngra fúþark. Þetta er í raun bara veggjakrot. Úlfur og Ormiga (nafn sem fengist víst seint samþykkt) nefna þarna nokkra staði sem þeir hafa líklega komið til; Serkland, Jórsalir og Ísland (Íslat).

Fékk mér Íslenska hlutann sem flúr

Njótið dagsins !“

Hér má svo sjá rúnasteininn fræga og svo hið glæsilega húðflúr:

Íslands-tattúið hans Jóns.
Ljósmynd: Facebook

Sameinuðu þjóðirnar: „Gaza er hættulegasti staður í heimi fyrir hjálparstarfsmenn“

Alls hafa 193 starfsfmenn Hjálparstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir palestínska flóttamenn (UNRWA) verið drepnir í árásum Ísraelshers frá 7. október 2023. Aldrei áður hafa svo margir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna fallið í árásum.

„Gaza er hættulegasti staður í heimi fyrir hjálparstarfsmenn. Síðan stríðið hófst hafa 193 starfsmenn UNRWA verið drepnir – Hæsta mannfall í sögu Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir þetta halda samstarfsmenn okkar áfram að vinna að því að styðja fjölskyldur og veita aðstoð í hinni skelfilegu mannúðarkreppu,“ segir UNRWA á X-inu.

Auk þess að drepa starfsmenn UNRWA hafa árásir Ísraela á mannvirki sem UNRWA hefur rekið á Gaza, drepið að minnsta kosti 497 manns á flótta sem leituðu skjóls þar, samkvæmt nýjustu ástandsuppfærslu stofnunarinnar.

Dísella, Fannar bæjarstjóri og Þórhallur Sigurðsson fengu fálkaorðuna

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sæmdi í síðasta skipti, hópi Íslendinga fálkaorðuna í dag.

Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, 17. júní 2024, sæmdi forseti Íslands  16 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þau eru:

  1. Dísella Lárusdóttir óperusöngkona, riddarakross fyrir framlag til sönglistar.  
  2. Eiríkur Jónsson yfirlæknir, riddarakross fyrir framlag til þvagfæraskurðlækninga og  heilbrigðisþjónustu.  
  3. Fannar Jónasson bæjarstjóri, riddarakross fyrir þjónustu í þágu samfélagsins á  tímum hamfara.  
  4. Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og sagnfræðingur, riddarakross fyrir  rannsóknir, miðlun og varðveislu menningar sem tenjast íslenskum þjóðbúningum.  
  5. Jóna Dóra Karlsdóttir, stofnandi og fyrrverandi formaður Nýrrar dögunar,  riddarakross fyrir frumkvöðlastarf til stuðnings syrgjendum og fyrir að stuðla að  opinni umræðu um sorg og sorgarviðbrögð.  
  6. Margrét Vilborg Bjarnadóttir, verkfræðingur og stofnandi PayAnalytics,  riddarakross fyrir framlag til nýsköpunar á sviði hugbúnaðar í þágu jafnlaunastefnu.  
  7. Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi skátahöfðingi,  riddarakross fyrir störf í þágu skátahreyfingarinnar.  
  8. Ómar Einarsson, fyrrverandi sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, riddarakross fyrir  framlag og frumkvæði í íþrótta-, tómstunda- og velferðarmálum.  
  9. Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur, riddarakross fyrir framlag til vísinda  og krabbameinsrannsókna.  
  10. Sigrún Steinarsdóttir Ellertsen, stofnandi og umsjónarmaður Matargjafa,  riddarakross fyrir framlag til mannúðarmála í heimabyggð.  
  11. Stefán Baldvin Sigurðsson, fyrrverandi háskólarektor, riddarakross fyrir störf í þágu  menntunar, vísinda og félagsmála.  
  12. Svanur Ingvarsson, kennari og húsasmíðameistari, riddarakross fyrir framlag í þágu  íþróttastarfs fatlaðra.  
  13. Þorvaldur Jónsson bóndi, riddarakross fyrir félags- og menningarstörf í héraði.  
  14. Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, riddarakross fyrir frumkvöðlastarf og  nýsköpun á vettvangi sjávarútvegs.  
  15. Þórey S. Kemp Guðmundsdóttir íþróttakennari, riddarakross fyrir framlag til  íþróttaiðkunar kvenna og heilsueflingar aldraðra.  
  16. Þórhallur Sigurðsson, leikari og leikstjóri, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar  leiklistar og brautryðjendastarf í barnaleikhúsi. 

KALEO gefur út Sofðu unga ástin mín: „Viss um að þetta er fyrsta lagið sem ég heyrði“

Jökull Júlíusson Ljósmynd: Aðsend

KALEO gefur út lagið Sofðu unga ástin mín þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Sofðu unga ástin mín er angurvær vögguvísa sem flest börn þekkja. Ljóðið sem kom út árið 1912 er eftir Jóhann Sigurjónsson og var samið fyrir leikritið Fjalla Eyvind. Sofðu unga ástin mín er jafnframt merkilegt fyrir þær sakir að það er eitt fárra þjóðlaga sem enginn veit hver samdi.  Vögguvísan Sofðu unga ástin mín er því vísun í þjóðsögu.

Jökull Júlíusson segir:

„Mér hefur alltaf fundist þessi vögguvísa vera ákaflega falleg með sínum dapurlega undirtón og hefur hún alltaf haft mikla þýðingu fyrir mig. Móðir mín söng þetta lag fyrir mig sem barn og ég er nokkuð viss um að þetta er fyrsta lagið sem ég heyrði.  Mig langaði því að gefa lagið út á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga enda er þessi vögguvísa eins íslensk og þær geta orðið.“

„Þrátt fyrir augljós brot eigenda hefur Mast ekki varið velferð umræddra dýra“ – NÝJAR MYNDIR

Kind dregur á eftir sér nokkurra metra langa ull.

Ástandið á ágangskindunum frá Höfða í Borgarfirði hefur ekki batnað, ef marka má ljósmyndir sem Mannlíf tók í gær. Kindur, hreyfihamlaðar vegna margfaldra reifa, halda til í túninu. Dæmi voru um haltar og veikar kindur. Talsvert var einnig um fé utan girðinga

Steinunn Árnadóttir, orgelleikari og baráttukona, hefur verið afar dugleg við að vekja athygli á skelfilegu ástandi kinda af bóndabænum Höfða í Borgarfirði. Kindurnar ganga um Þverárhlíð og nágrenni, þó nokkrar í margföldum reifum, með ýmsar sýkingar og bólgur og lömbin fæðast úti þar sem hrafnar og refir bíða átekta.

MAST hefur haft einhver afskipti og eftirlit með kindunum en yfirlæknir stofnunarinnar hefur sagt að ástandið sé ekki eins slæmt og haldið hefur verið fram en sitt sýnist hverjum um þá fullyrðingu.

Kind frá Höfða sem Steinunn Árnadóttir tók ljósmynd af fyrir nokkrum dögum.

Eftirfarandi ályktun Dýraverndarsambands Íslands sem birt var fyrir viku má lesa hér:

Dýraverndarsamband Íslands skorar á stjórnvöld að endurskoða eftirlit með velferð dýra.

-Neðangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi Dýraverndarsambandsins þann 16. maí 2024:
Það er hlutverk Matvælastofnunar að sjá til þess að lögum um velferð dýra og tilheyrandi reglugerðum sé framfylgt. Á bæ í Þverárhlíð í Borgarbyggð hafa mörg ákvæði reglugerðar um velferð sauðfjár og geitfjár greinilega verið brotin í áraraðir og varðar það við refsiábyrgð skv. lögunum. Þrátt fyrir augljós brot eigenda dýranna hefur Matvælastofnun ekki varið velferð umræddra dýra.
Það er óviðunandi að Dýraverndarsamband Íslands standi ítrekað í deilum við þá stofnun sem lögum samkvæmt hefur eftirlit með dýravelferð um hvort velferð dýra í ákveðnum málum sé uppfyllt eða ekki, þegar ljóst er að svo er ekki.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að endurskoða og breyta því fyrirkomulagi sem ríkir um eftirlit með velferð dýra án tafar og að þau sjái til þess að opinberar stofnanir sinni lögbundnum skyldum sínum gagnvart dýrum.

Mannlíf átti leið um Borgarfjörðinn í gær og tók nokkrar ljósmyndir af ástandinu sem sjá má hér fyrir neðan:

Kindur í margföldu reifi halda til á þessum haugi í túnfætinum á Höfða.

Netanyahu leysir upp herráðið – Tveir ráðherrar sögðu sig úr því fyrir viku

Benjamin Netanyahu

Benjamin Netanyahu hefur tilkynnt lok herráðs Ísraels, eftir að ráðherrarnir Benny Gantz og Gadi Eisenkot sögðu sig úr henni fyrir viku.

Forsætisráðherra Ísraels tilkynnti þetta á fundi stjórnmála-öryggisráðsins í gærkvöldi, að því er ísraelsku fréttasíðurnar Maariv og Ynet greindu frá.

Hins vegar er búist við að hann haldi áfram að halda „öryggissamráð“ um stríðið með helstu embættismönnum, þar á meðal þá sem höfðu verið í stríðsráðinu sem nú var leyst upp, að sögn Ynet.

 

Hæðist að viðskiptamógúl sem snuðaði dóttur hans: „Ég upptendraðist við að lesa um þennan guðdóm“

Guðmundur Brynjólfsson Ljósmynd: byggdasafn.is

Guðmundur Brynjólfsson skrifar um viðskiptamógúl sem snuðaði dóttur hans í nýlegri Facebook-færslu.

Rithöfundurinn og skáldið Guðmundur Brynjólfsson skrifaði nokkuð kaldhæða færslu nýverið á Facebook þar sem hann rifjar upp þegar dóttir hans, sem þá var unglingur vann hjá viðskiptajöfri sem nýlega var dásamaður í Viðskiptablaðinu en hún þurfti aðstoð Eflingar til að fá orlof sitt greitt hjá manninum. Tilefni færslu Guðmundar var „stóra læknisvottorðamálið“ sem vakti athygli á dögunum en Fiskikóngurinn hafði þá farið mikinn á Facebook þar sem hann kvartaði hástöfum yfir læknisvottorðum sem hann sagði lækna vera duglega að gefa starfsfólki.

„Læknisvottorð

Stóra læknisvottorðamálið skekur nú þjóðina. Læknar eru sakaðir um að skrifa út læknisvottorð eftir pöntunum en ekki eftir veikindum. Starfsfólk leggur inn þessi sömu læknisvottorð hjá atvinnurekendum, dauðfrískt, kapítalistunum til mikils tjóns og armæðu. Svona eru nú læknar í samkrulli við verkalýðinn og alþýðan í bland við heilsugæsluna miklir bévaðir rummungar og siðlausar skepnur.“ Þannig hefst færsla Guðmundar, sem löðrar af skemmtilegri kaldhæðni.

Í næstu andrá skrifar skáldið um minningargrein um lifandi mann:

„Víkur þá sögunni að minningargrein – sem reyndar var viðtal – sem ég las á dögunum

Fyrir einhverjum vikum las ég í einu viðskiptablaðanna minningargrein um mann sem þó er ódauður enn. Ég kalla það minningargrein því lofið var engu líkt, gæti helst ímyndað mér að þannig myndu eftirmælin um Guð almáttugan standa, væri hann ekki dauður – samkvæmt Nietzsche. Maður þessi sem þarna var talað við – og um – var atvinnurekandi og viðskiptamógúll af æðstu gráðu. Hafði hafist úr engu upp í það að eiga og veita forstöðu stórglæstum vinnustað með margar starfsstöðvar, og nú þegar hann hafði bundið kaupskip sitt við bryggju þótti tilhlýðilegt að leggja undir hann nokkrar blaðsíður og tíunda afrek hans og arfleifð alla – svo dást mætti að honum þó ekki væri nema úr fjarskanum sem liggur á milli stétta á Íslandi. Ég upptendraðist við að lesa um þennan guðdóm og þessa viðstöðulausu dásemdar sigurgöngu og þegar maður þannig andlega fírast upp þá fær maður jafnvel gleggra minni en manni er gefið dags daglega.“

Guðmundur rifjar því næst upp það þegar dóttir hans vann hjá téðum viðskiptamanni en þurfti hjálp frá Eflingu til að fá greitt það sem henni bar.

„Minningin

Dóttir mín, þá unglingur, vann hjá þessum manni um skeið; á einni af hans stórfenglegu stassjónum. Þar var gert slag í því að stela sýstematískt af henni orlofinu. Þar var henni helst aldrei borgað rétt kaup. Þar var stöðuglega reynt að snuða hana um næturvinnukaup og þar var reynt að praktísera eitthvað „jafnaðarkaup“ sem vel að merkja er óskapnaður sem ekki er til. Þurfti sjálfa Eflingu á endanum til að koma skikki á þessi mál – eftir þjark og hótanir. Það sem meira var, á þessum vinnustað voru menn reknir burt eins og hundar þegar djarfaði fyrir því að það þyrfti að veita þeim, samkvæmt kjarasamningum, launahækkanir vegna starfsaldurs.“

Að lokum kemst Guðmundur að eftirfarandi niðurstöðu:

„Niðurstaðan
Sem betur fer er til allt fullt af góðum atvinnurekendum, hellingur af fyrirmyndar læknum og ósköpin öll eru til af fólki sem vinnur vinnuna sína í friði og spekt og ágreiningslaust við Guð og menn alla daga jafnt.“

Helga Vala refsar Kristrúnu

Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi oddviti Samfylkingar í Reykjavík, er harðorð í garð Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingar og annnarra þingmanna flokksins, vegna hjásetu flokksins í útlendingamálinu á Alþingi.

Helga Vala brást við þegar Þorbjörg Þorvaldsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar í Garðabæ sagði sig úr flokknum. „Þetta er svo óendanlega ömurlegt bara, ég skil alls ekki neitt. Hvernig sér forysta Samfylkingarinnar fyrir sér að miðla málum í ríkisstjórn þegar öll grundvallarmálin eru fokin áður en í kosningarnar er komið?“ spyr Helga Vala og efast um að flokkurinn standi lengur fyrir mannúð, jöfnuði og samkennd með fólki í viðkvæmri stöðu.

Helga Vala sagði á sínum tíma af sér þingmennsku. Hún sagði fyrst frá ákvörðun sinni um afsögn í viðtali við Morgunblaðið en lét formann sinn vita skömmu áður en viðtalið birtist. Fáum sem til þekkja duldist að afsögnin var tilkomin vegna innbyrðis deilna hennar við nýjan formann, þótt hún hafi þrætt fyrir það. Nærtækt er að álykta sem svo að nú telji Helga Vala sinn tíma vera kominn og þess vegna mundi hún refsivöndinn gegn fyrrverandi samherjum.

„Samfylkingin er fátækari án baráttukonunnar Þorbjargar Þorvaldsdóttur,“ eru lokaorð Helgu Völu …

Eldur kviknaði í iðnaðarhúsi í Hafnarfirði í nótt – Partýglaðir borgarbúar höfðu hátt í heimahúsum

Myndin er samsett

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru í miklum partýgír í nótt en áberandi mikill fjöldi hávaðakvartana barst lögreglu vegna samkvæma í heimahúsum í nótt, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Rétt fyrir hálf þrjú í nótt barst tilkynning um innbrot í heimahúsi í miðborginni en málið er enn í rannsókn.

Í Hafnarfirði var ökumaður stöðvaður grunaður um að keyra fullur. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli og sýnatöku. Var honum sleppt að því loknu.

Rétt fyrir fjögur í nótt var tilkynnt um eld í iðnaðarhúsnæði en mikinn svartan reyk barst frá einni byggingu fyrirtækisins. Samkvæmt slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru þrjár stöðvar sendar á vettvang en í ljós kom að eldur logaði innandyra í húsnæðinu. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en á meðan á því stóð barst annað útkall á svipuðum stað þar sem brunaviðvörunarkerfi hafði farið í gang en engan eld var að finna.

Slökkviliðið fór alls í 103 sjúkrafluttninga síðasta sólarhringinn, þar af 40 forgangsflutninga, sem telst mikið. Frá hálf átta í gærkvöldi fór slökkviliðið í 59 sjúkraflutninga, þannig að erilsöm helgi er nú að baki hjá slökkviliðinu.

Lögreglan sem starfar í Árbænum, Grafarholtinu, Grafarvoginum, Norðlingaholtinu, Mosfellsbænum, Kjósarhreppinum og á Kjalarnesinu stöðvaði tvo ökumenn ökufanta en sá sem keyrði hraðar mældist á 142 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.

Helga Vala sér á eftir Þorbjörgu: „Grundvallarmálin fokin áður en í kosningarnar er komið“

Helga Vala Helgadóttir.

Lögfræðingurinn og stjórnmálakonan Helga Vala Helgadóttir er ekki sátt við flokk sinn, Samfylkinguna. Sérstaklega eftir að Þorbjörg Þorvaldsóttir ákvað að yfirgefa Samfylkinguna.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir.
Mynd: Samtökin 78.

„Ég hef ekki leng­ur áhuga á því að hlusta á flokks­fé­laga mína rétt­læta þessa stefnu­breyt­ingu og segja mér að hún hafi ekki orðið. En staðan er greini­lega sú að það virðist vera orðið of rót­tækt fyr­ir Sam­fylk­ing­una að tala skýrt fyr­ir mann­rétt­ind­um,“ sagði Þor­björg Þorvaldsdóttir í til­kynn­ingu á Face­book. Hún var afar ósátt við þing­flokk Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, er sat hjá í at­kvæðagreiðslu um út­lend­inga­frum­varpið er samþykkt var 14. júní síðastliðinn.

Helga Vala segir:

„Elsku besta baráttusystir mín Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Þetta er svo óendanlega ömurlegt bara, ég skil alls ekki neitt. Hvernig sér forysta Samfylkingarinnar fyrir sér að miðla málum í ríkisstjórn þegar öll grundvallarmálin eru fokin áður en í kosningarnar er komið? Hvernig getur flokkur sem fyrir örstuttu síðan stóð fyrir mannúð, jöfnuði og samkennd með fólki í viðkvæmri stöðu sleppt því að taka afstöðu í svona grundvallarmáli?“

Bætir þessu við:

Kristrún Frostadóttir.

„Hvað munum við þá sjá þegar flokkurinn þarf raunverulega að fara í málamiðlanir? Er forysta flokksins kannski bara með þessar skoðanir? Að útlendingastefna Mette Fredriksen, sú harðasta í norður- Evrópu, sem forystufólk flokksins gagnrýndi harkalega fyrir örstuttu síðan, sé kannski bara hin eina rétta stefna?“

Spyr:

Kristrún Frostadóttir og Mette Frederiksen á góðri stundu.

„Hvernig getur sama fólk snúist svona í skoðunum sínum? Hvað breyttist í heiminum annað en að það varð stríð í næsta nágranni og fólk á flótta hefur aldrei verið fleira? Er stríðshrjáð fólk, sem leitar verndar á Íslandi í minni neyð en áður?“

Helga Vala spyr einnig að þessu:

Hussein Hussein fluttur með hörku úr hjólastól og inn í bíl í skugga nætur.

Telur þingfólk sem sat hjá að réttlætanlegt sé að íþyngja Útlendingastofnun með tilhæfulausum umsóknum um endurnýjun dvalarleyfa þegar stríð geysar enn sem fyrr víða um heim svo málin safnast enn hraðar upp á borðum Útlendingastofnunar? Telur hjásetufólk að fólk sem fengið hefur vernd verði betri borgarar hér á landi með því að fá að bíða í áratug eftir börnum sínum og mökum og var það þess vegna sem það sat hjá í atkvæðagreiðslunni því það gat ekki tekið afstöðu gegn þeirri aðgerð og öllum hinum.“

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.

Segir að lokum:

„Samfylkingin er fátækari án baráttukonunnar Þorbjargar Þorvaldsdóttur.“

Ertu að deyja eða ertu að lifa?

Það er satt að okkur öllum sem lifum fylgir einnig dauði þó að við vitum ekki hvar, hvernig og hvenær hann mun heilsa okkur. Flest fólk lifir sennilega þannig að það spáir ekki sérstaklega í því. Þó er sumt fólk sem hefur verið snert af dauðanum á óþægilegan hátt eða óþarflega mikið. Hvort sem það er vegna þess það hefur misst einhvern náinn sér skyndilega eða ekki skyndilega, upplifað stríðshörmungar og massadauða í kringum sig þá er dauðinn orðinn raunverulegur lífsförunautur. Hann er stöðugt nálægur í minningum um ástvini og hvernig þeir eru ekki lengur og jafnvel í hugarangri spurninga um af hverju þeir séu ekki lengur. Dauðinn svarar okkur hins vegar ekki alltaf með skýrum svörum sem við erum vön úr fræðibókum skólans.

Við sem höfum þekkingu og skilning á lífinu vitum samt að það er víst að við deyjum.

Okkur er kennt að dauðinn er partur af lífinu. 

Bara ein önnur leið sem við þurfum öll að fara að lokum. 

Ég sé fyrir mér krossgötur með götuskilti á milli tveggja átta. Leið til hægri er lífið og leið til vinstri er dauði. Þegar kemur að þessum krossgötum trúi ég því að ég muni velja lífið. Mér finnst alltaf eins og það sé eitthvað sem ég get gert, bætt við mig og upplifað. Ég elska lífið það mikið þannig af hverju ætti ég að velja hina leiðina? Þarna kemur óhuggulega staðreyndin og myndin upp í hugann um mann sem stendur við krossgöturnar og neyðir mig til að fara hina leiðina. En ég vil það ekki. Það skiptir ekki máli hvað ég vil lengur. Hann er mættur. Togar í mig ákveðið á meðan ég rígheld mér í götuskiltið, öskrandi á hitt fólkið sem gengur lífsleiðina. Hann þvingar mig og dregur mig á á eftir sér þó ég reyni að klóra mig frá honum með fingrunum í mölinni. Ekki beint falleg eða uppörvandi mynd.

Hingað til hef ég farið mínar eigin leiðir í lífinu. Mér hefur einnig verið gert það ljóst að það sé göfugur eiginleiki að efla mig sjálfan sem einstakling. Vera fullur af metnaði, hugmyndum, dugnaði, manngæsku og framtakssemi. Þess vegna hef ég tekið lífið í mínar eigin hendur. Margt hefur orðið á vegi mínum, stundum ég sjálfur og stundum aðrir eða aðstæður. Vissulega hafa verið hindranir. En vegna þess hve stjórnsamur ég er orðinn gagnvart lífinu þá held ég áfram, stundum á hnefanum. Hef engan tíma til að vera fórnarlamb lífs míns. Draumar og þrár eru vísbendingar um eitthvað sem ég verð að gera en ekki bara hugsa. Ég get varla fengið hugmyndir að einhverju án þess að athuga hvort ég geti gert eitthvað með þær.

Og svona lifi ég eða lifði ég öllu heldur því sumt hefur breyst undanfarið og nýlega.

Fyrir rúmum tveimur árum var nefnilega ein manneskja sem sneri öllu upp, niður, til hliðar og á hvolf í mínu lífi. Hún ætlaði ekki að gera það og vildi það sennilega alls ekki. Þessi manneskja kom að krossgötunum og var tekin.

Yngri en ég. Full af hugmyndum, í fullri sjálfsvinnu og styrk. Einstaklingur í uppbyggingu eins og ég. Ég vaknaði upp við martröð. Hvað var eiginlega í gangi? Er þetta bara svona. Búið. Bless og ekki meir sama hve mikið ég spyr?

Vitneskjan mín um dauðann raskaðist. Það brenglaðist eitthvað. Ég varð að fórnarlambi óttans. Ég var alltaf smá hvattur áfram af ótta við að hafa ekki tíma síðar því hvað ef dauði minn bæri að. En ég trúði því ekki innilega heldur notaði sem innspýtingu til þess að drífa hlutum í gang. Aldrei grunaði mig að það væri í raun fyrirstaða til þess að hugsa svona í bókstaflegum skilningi.

Síðustu tvö ár hefur dauðinn verið með mér. Hann hefur eiginlega verið stærri hluti af mér en lífið. 

Í öllum þögnum birtist hann, í fuglasöng, í vindinum, í haföldunum, á fjöllunum, í tónlistinni og stundum meira að segja í dansinum. Hann lætur mig ekki vera. Og ég er svo hræddur og ég er reiður. Af hverju má ég ekki lifa í friði? Togstreitan innra með mér og reiðin er orðin svo mikil að ég finn fyrir öllum líkamsbreytingum. Er uppspenntur í öllum líkamanum með óútskýrða liðverki og meltingarverki. Fer í allar rannsóknir og myndatökur. 

Því ég ætla sko að finna hann! Ég ætla sko að finna dauðann áður en hann finnur mig! Því ef ég finn hann fyrst þá ræð ég ennþá. Þá vel ég leiðina. Þá stjórna ég.

Lífið mitt er þess vegna búið að snúast um þetta. Að deyja. Að vera hræddur við að deyja.

Ég er samt að gefast upp núna. Ég er í raun að fatta að þegar ég er í þögninni og held að dauðinn sé að banka að þá er það raunverulega LÍFIÐ að banka. Þegar fuglinn syngur, vindurinn þýtur, aldan rís, fjallið kallar, tónlistin ómar, dansinn dunar í hjartanu.

Líf í hjartanu. Ég var að misskilja það sem gerðist. Þetta átti að kenna mér að sleppa óttanum en ekki halda í hann. Jú það er rétt að hugsa að við höfum ekki tíma en það á ekki að vekja með okkur ótta heldur hvetja okkur til að fanga tímann sem einfaldlega er og líður með okkur. Hvetja okkur til að lifa.

Yin og Yang. Svart og hvítt. Ljós og myrkur. Já dauðinn er ein hlið á teningnum.

En teningurinn er lífið.

Það sem ég er að reyna læra og auðga er lífið. Því ég er á lífi núna í dag. Á meðan ég skrifa þetta. Það er vinna fyrir mig að snúa systeminu við sem ég er orðinn vanur. Vinna fyrir hugann minn og líkama minn að skilja.

Það sem þetta snýst um er að velja lífið á hverjum degi. Sleppa takinu á dauðanum. Sleppa takinu á að reyna stjórna dauðanum. Hann er og verður þarna. Hann er óþekkt barn. Hann er ótaminn villtur hestur. Vill vera frjáls. Á að vera frjáls.

En þó lífið sé endanlegt þá er það líka frjálst á meðan það er. 

Og góði guð hvað það er mikil gjöf að fá að eiga frjálst líf, líkama og huga til að sinna því.

Ég vil lifa á meðan ég er á lífi. Ekki telja niður í dauðann sem svo kannski kemur aldrei þegar ég á von á honum. Frænka mín hafði ekki hugmynd um hann. En hún lifði bara eins fallega og hún kunni þangað til. Ég ætla að breyta því sem áfallið kenndi mér yfir í það sem lífið hennar kenndi mér. Það snýst um val á hugsunum. Að velja það sem lífið gefur en ekki það sem dauðinn tekur.

Ertu að lifa eða ertu að deyja?

 Friðrik Agni Árnason

 

Amerískur hermaður skaut Gunnar í hnakkann í gegnum bílrúðu – Í tveimur tilfellum voru börn myrt

Hermenn eru þjálfaðir til að drepa, eðli málsins samkvæmt, en það er munur á drápi á óvinum og morði. Þar til nýlega var talið að hermenn hefðu myrt þrjá Íslendinga á tímum hersetunnar, en nú þykir ljóst að morðin voru fjögur. Í tveimur tilfellum voru börn myrt, en í hinum tveimur voru það karlmenn sem urðu fyrir barðinu á hermönnum. Hér verða málin rifjuð upp með hjálp gamalla frétta af málunum.

Rifrildi sem gekk of langt

Hermaður varð ungum manni að bana í Hafnarfirði. Nokkrum hermönnum hafði lent saman við hóp Íslendinga og enduðu þau mál á því að tveir hermannanna hófu að skjóta á Íslendingana með skammbyssum sínum. Eftir skothríðina lá einn í valnum og tveir slasaðir. Svo virðist sem lætin hafi byrjað þegar fórnarlambið gætti ekki að því hvar hann gekk.

Strandgata 4
Ljósmynd: fjardarfrettir.is skjáskot

Þetta gerðist þann 8. nóvember árið 1941. Alþýðublaðið sagði svo frá málinu á mánudeginum 10. nóvember:

Ameríkskir hermenn skjóta á hóp manna í Hafnarfirði

Þrír af mönnunum særðust og einn þeirra mjög hættulega.
Skýrsla bæiarfógetafulltrúans í Hafnarflrði.

SÍÐASTLIÐIÐ LAUGARDAGSKVÖLD kl 10.30 gjörðist sá atburður, að tveir hermenn úr Bandaríkjahernum á Íslandi skutu með skammbyssu á hóp íslenzkra manna fyrir utan húsið Strandgötu 4 í Hafnarfirði. Skutu þeir 5—6 skotum áður en þeir hlupu burt vestur Vesturgötu. Tveir menn urðu fyrir skotum: Þórður Sigurðsson, Austurgötu 27 sem fékk kúluskot í gegnum magan og liggur hann nú á St. Jósepsspítala þungt haldinn.

Sigurður L. Eiríksson Krosseyrarveg 2 varð einnig fyrir skoti. Fór kúla upp um sólann á skó á vinstra fæti og marðist fóturinn og kom á hann smáskeina. Auk þess var hann marinn á lófa á vinstri hönd, að því er virðist eftir kúlu, sem hafði strokist með lófanum. Margir menn veittu hermönnunum eftirför vestur götuna. Þegar komið var vestur fyrir sölubúð
F. Hansens skaut annar hermaðurinn enn einu skoti á þá, sem eltu hann. Annar hermaðurinn var handsamaður uppi á Kirkjuvegi og afhentur lögreglunni. Hinn hermaðurinn hljóp vestur Kirkjuveginn og skaut þá enn einu skoti á Sigurgeir Gíslason, Austurgötu 21, sem veitti honum eftirför, og straukst kúlan við fremsta lið á þumalfingri á vinstri hendi, og kom skeina á fingurinn. Þessi hermaður náðist ekki.

Aðdragandi að þessum atburði er sá, að margt manna var saman komið inni á veitingastofu við Strandgötu 6 og þar á meðal 4 Bandaríkjahermenn, sem sátu þar við borð og voru að drekka öl. Á gólfinu stóð Þórður Sigurðssen með ölflösku í hendinni og var að tala við annan mann. Snéri Þórður baki að hermönnunum. Steig Þórður eitt eða tvö skref aftur á bak og mun þá hafa komið við einn af Bandaríkjahermönnunum; tók hann samstundis upp skammbyssu úr frakkavasa sínum og otaði henni að Þórði. Reiddi Þórður þá upp ölflöskuna sem hann hafði í hendinni, og skipaði hermanninum að láta byssuna niður, og stakk hann henni tafarlaust í frakkavasann aftur. Stuttu síðar stóðu hermennirnir upp og fóru út. Um leið og þeir fóru út, munu þeir hafa sagt Þórði að koma út með sér. Fór hann út á eftir þeim og flestir þeir, sem höfðu verið inni á veitingastofunni. Hermennimir gengu vestur Strandgötu og Þórður og hinir mennirnir í humátt á eftir þeim.

Þegar hermennirnir höfðu gengið lítinn spotta snéru tveir þeirra sér allt í einu við og hófu skothríð á mennina og skutu sennilega 4—5 skotum þarna. Þegar stothríðin hófst, var Þórður Sigurðsson í um tveggja faðma fjarlægð frá hermönnunum. Miðaði annar þeirra skammbyssunni á hann og skaut á hann. Þórður hljóp þegar á hermanninn og hafði að hrista skammbyssuna úr hendinni á honum. Um leið hlupu margir þeir, sem staddir voru
þama nálægt, af stað til þess að hjálpa Þórði, en áður en þeir komu til þeirra, hafði hermaðurinn losað sig og hlaupið burtu, vestur götuna. Þeir tveir hermenn sem voru með þeim, er að skothríðinni stóðu, hlupu einnig burtu, og náðust ekki. Af Þórði hefir enn ekki verið hægt að taka skýrslu sökum þess, að hann liggur þungt haidinn á St. Josephs spítala.
Þetta er samkvæmt skýrslu frá fulltrúa bæjarfógetans í Hafnarfirði. Samkvæmt öðrum heimildum hefir blaðið frétt um áverka Þórðar, að kúlan hafi farið inn í magann hægra megin og út vinstra megin.

Þórður Sigurðsson er 22 ára að aldri.“

Þórður Sigurðsson
Ljósmynd: Alþýðublaðið skjáskot

Nokkrum dögum síðar lést Þórður af sárum sínum. Samkvæmt blaðinu Vesturland brutust út slagsmál milli hermannanna og Íslendinganna sem lauk með skotárás Bandaríkjamannanna. Sagt er frá málinu í Vesturlandi hér að neðan:

Íslenzkur maður skotinn til bana af amerískum hermanni

Síðastl. laugardag urðu skærur milli íslendinga og amerískra hermanna á veitingahúsi í Hafnarfirði. Bárust áflogin siðan út á götu, fyrir framan veitingahúsið. Er sagt, að amerísku hermennirnir hafi beðið þar lægri hlut. Tóku þeir þá til skotvopna. Var einn Íslendinganna, Þórður Sigurðsson, skotinn i kviðinn, en annar i ristina. Ameríska herlögreglu bar þá að þarna og flutti hermennina burt, en Þórður var tafarlaust fluttur i sjúkrahús og lá þar þungt haldinn, þar til að hann andaðist s. l. miðvikudagskvöld af völdum skotsársins. Yfirhershöfðingi ameríska setuliðsins og sendiherra Bandaríkjanna hafa tjáð forsætisráðherra afsökun sína út af þessum atburðum og lýst því yfir, að hinir amerísku hermenn hafi borið vopn í leyfisleysi og verði ríkt gengið eftir þvi framvegis að slíkt komi ekki fyrir.“

Hermennirnir hlutu fimm ára fangelsisdóm fyrir morðið.

Skotinn í hnakkann

Laugardaginn 14. mars árið 1942 gerðist sá hroðalegi atburður að amerískur hermaður skaut Gunnar Einarsson í hnakkann í gegnum bílrúðu í bifreið sem Gunnar var farþegi í. Gunnar lést af sárum sínum.

Gunnar Einarsson

Dagblaðið Verkamaðurinn skrifaði harðorða frétt, viku seinna, þann 21. mars, enda vakti málið óhug og reiði Íslendinga um allt land.

„Hroðalegur glæpur.

Amerískur hermaður myrðir íslenzkan mann.

S.l. laugardagskvöld gerðist sá atburður í Sogamýri við Reykjavík, að amerískur varðmaður skaut Gunnar Einarsson, starfsmann hjá Kol & Salt h.f., til bana, þar sem hann var á ferð, í bíl, með kunningja sínum, Magnúsi Einarssyni, framkvæmdastjóra Dósaverksmiðjunnar.
Fara hér á eftir helstu atriðin úr skýrslu, sem Magnús Einarsson hefir gefið sakadómara um þetta mál.

Gunnar Einarsson var staddur hjá Magnúsi, á laugardagskvöldið, en hann býr að Sogamýrarbletti 54. Kl. 10.15 ætlaði Magnús að aka Gunnari heim í bifreiðinni R 1183, en hún er með hægri handar stýri. Ók Magnús bifreiðinni, en Gunnar sat við hlið hans. Þeir ætluðu að koma við í Laufskálum á leiðinni, en þeir liggja við Engjaveg, en að honum liggur
tröðningur frá Suðurlandsbrautinni. Liggur troðningurinn rétt vestan við herbúðirnar „Hálogaland Camp“, en þar dvelja amerískir hermenn. Rétt fyrir norðan þann stað, þar
sem beygt er út af Suðurlandsbrautinni voru þeir stöðvaðir af amerískum varðmanni. Kom hann hægra megin að bílnum — þeim megin er Magnús sat — og inti þá eftir hvert förinni væri heitið. Svöruðu báðir samtímis, en Magnús segir, að hann skilji ekki vel ensku og tók hann því ekki vel eftir, hvað þeim Gunnari og varðmanninum fór á milli, en því lauk á þann veg, að varðmaðurinn sagði „all right“ og leyfði þeim að halda áfram. En þegar þeir höfðu ekið um fjórar bifreiðalengdir stöðvaði annar varðmaður þá og kom hann vinstra megin að bílnum — Gunnars megin — og talaði við hann. Sögðu þeir þrjár til fjórar setningar hvor, og fór varðmaðurinn síðan frá bílnum, svo ekki var hægt að skilja þetta öðru vísi, en að þeir mættu halda leiðar sinnar með samþykki hans. Ók Magnús þá af stað, en þegar hann hafði ekið um 3—4 bílalengdir kvað við skot. Áleit hann að það væri þeim óviðkomandi, en
stöðvaði þó bifreiðina til vonar og vara. Tók hann þá eftir því að framrúða bílsins var mölbrotin og í sama mund hné höfuð Gunnars á vinstri öxl hans. Leit hann þá framan í Gunnar og sá, að blóð streymdi úr vitum hans, og þegar hann þreifaði á höfði hans fann
hann skotsár á hnakkanum. Fór Magnús strax úr bílnum, en í því bili kom hópur Bandaríkjahermanna þarna að og tóku þeir Gunnar út úr bílnum. Virtist Magnúsi hann þá látinn, en hann mun ekki hafa andast fyr en um klukkan 3 um nóttina.

Þessi atburður hefir vakið hrylling og viðbjóð um allt land. Ameríski herinn hefir áður framið hér óhæfuverk, en nú er gengið feti framar og virtist mönnum þó áður nóg komið af óhappaverkum „verndara“ okkar. Enginn íslendingur fær skilið, að ameríska hernum sé nauðsynlegt að myrða íslenska menn til þess að vernda öryggi ameríska hersins. Vér fáum ekki séð, að öryggi ameríska hersins sé stefnt í hættu, þó látið sé vera að beita skotvopnum gegn vopnlausum Islendingum. Reynsla bretska setuliðsins hér á landi bendir ekki til þess að nauðsynlegt sé að beita glæpamannaaðferðum í umgengni við þá menn, sem eru undir „vernd“ ensku og amerísku setuliðanna. Það væri betur, að ameríski herinn sýndi meiri dugnað, í baráttunni gegn Japönum, en að skjóta vopnlausa íslendinga aftan
frá. Slíkur atburður, sem þessi má ekki endurtaka sig. íslenska þjóðin krefst þess, að gerðar verði tafarlaust ráðstafanir til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Ríkisstjórnin verður að halda fast og skörulega á rétti íslendinga í þessu máli, og ekki láta þann málflutning niður falla fyr en trygt er að amerísku hermennirnir komi fram í viðskiftum sínum við íslendinga,
sem fulltrúar siðmenningarþjóðar en ekki sem fyrirlitlegir glæpamenn. Á þann eina hátt verður best borgið öryggi íslendinga og öryggi og sæmd ameríska hersins.“

Hermaðurinn var sýknaður af herrétti en ökumaður bifreiðarinnar hafði ekki hlýtt skipun hermannsins um að stöðva.

Hinn kolsvarti hvítasunnudagur

Það er hvítasunnudagur. Tveir drengir leika sér við varðstöð Bandaríkjahers við Hallveigarstíg og annar þeirra fer upp í bíl á vegum hersins og startar bílnum. Hermaður sem hafði haft afskipti af þeim rétt áður, rekur drenginn út úr bílnum og drengurinn hlýðir. Hermaðurinn gengur upp að drengnum og leggur byssuhlaup við gagnauga hans. Og tekur í gikkinn. Lífvana drengurinn dettur í jörðina. Þessi hvítasunnudagur er orðinn kolsvartur. Þetta var árið 1942.

Jón H. Benediktsson

Í blaðinu Íslendingur er atvikinu svo lýst:

„Á hvítasunnudag kl. 11 árdegis gerðist sá óheyrilegi atburður í Reykjavík, að amerískur hermaður skaut 12 ára dreng til bana, er var að leik með öðrum dreng nálægt
varðstöðvum hermannsins. Þetta furðulega glæpaverk gerði hvítasunnuhátíðina að sorgardegi í Reykjavík og annarsstaðar, er fregnin spurðist. Drengurinn hét Jón Hinrik Benediktsson og átti heima aö Ingólfsstræti 21 í Reykjavík. Hermaðurinn og yfirmenn hans
voru óðar handteknir, en herstjórn og sendiherra Bandaríkjanna lýstu yfir harmi sínum yfir þessum atburði. Málið er enn ekki upplýst að fullu, en frekari upplýsingar hljóta að varða gefnar mjög bráðlega.“

Í Morgunblaðinu var fjallað ítarlega um málið en meðal þess sem fram kom þar voru frásagnir nokkurra vitna.

Ein frásögnin kemur frá leikbróður Jóns, Guðmundi.

„Fyrir hádegi í dag hitti jeg leikbróðir minn, Jón Hinrik Benediktsson. Hann ætlaði að
kaupa sjer filmu í myndavjel og fór jeg með honum í Lyfjabúðirnar Ingólfs Apótek,
Reykjavíkur Apótek og Lauga-,vegs i Apótek, én hvergi var filmu að fá. Þegar við komum
úr Laugavegs Apóteki gengum við suður Bergstaðastræti óg niður Hallveigarstíg, framhjá
herstöðinni, sem er þar norðanmegin götunnar. Við stoppuðum móts við hermann, sem stóð á verði á Hallveigarstígnum, móts við herbúðirnar. Svo kom hermaður og festi upp auglýsingu í varðmannsskýlið. Við Jón fórum að skýlinu og lásum auglýsinguna. Svo gengum við niður með girðingunni, niður að Ingólfsstræti. Jeg var með skammbyssu, tálgaða úr trje. Jón kippti af mjer byssunni og henti henni yfir girðinguna inn á milli herbúðanna. Jón stökk svo aftur upp á móts við varðmanninn og jeg sagði honum
að ná í byssuna. Um sama leyti tók hermaður byssuna og kastaði henni út fyrir girðinguna og greip hana þá lítill strákur, sem var þar fyrir utan. Jón hljóp inn um hliðið á girðingunni, framhjá varðmanninum. Varðmaðurinn kallaði þá til hans og, að mjer skildist, skipaði honum að koma út og hlýddi Jón því strax. Jeg var með dolk í slíðri, sem var fest í strenginn á buxunum mínum og tók jeg nú dolkinn og fór að kasta honum í ljósastaur, sem stendur skamt frá stað þeim, sem varðmaðurinn stóð á og var jeg að reyna að láta oddinn stingast í staurinn. Jeg lánaði svo Jóni dolkinn og hann gerði það sama og jeg, kastaði honum í staurinn og reyndi að láta oddinn stingast í trjeð. Þar næst fór Jón upp í lítinn bíl, sem stóð við girðinguna, rjett hjá varðmanninum. Jón fiktaði við stýrið á bifreiðinni, en gerði ekki annað. Varðmaðurinn kom þá út úr skýlinu og kallaði til Jóns og fór Jón þá niður úr bílnum.

Þá vildi jeg fara heim, en Jón sagði að við skyldum bíða til kl. 12, því þá mundu hermennirnir gefa okkur epli, það væri hátíðisdagur hjá þeim í dag. Jeg var til með að bíða. Við stóðum svo þarna á götunni og töluðum eitthvað saman. Svo fór Jón aftur upp í sama bílinn og áður og fór þá að ,starta’ bílnum. Varðmaðurinn kom þá aftur út úr byrginu, gekk að bílnum og skipaði honum út úr bílnum, að því er mjer skildist.Jón hlýddi því strax og fór út úr bílnum. Jón fór svo upp að girðingunni bak við bílinn og jeg kom þangað til hans. Varðmaðurinn var með stóra byssu, jeg heyrði og sá að hann spenti byssuna upp. Þá var hann götumegin við bílinn. Svo gekk hann að Jóni og beindi byssuhlaupinu að höfðinu á honum, svo reið skotið af, Jón fjell í götuna og jeg sá að blóð rann úr vitum hans. Varðmaðurinn gekk svo í burtu án þess að hreyfa neitt við Jóni, en jeg hljóp í burtu
niður á Ingólfsstræti og svo skemstu leið heim til mín.“

Gunnlaugur Magnússon skrifstofumaður var eitt af vitnunum.

„Jeg bý á fyrstu hæð hússins Hallveigarstíg 2, og er þar herbergi mitt austan megin við for-
stofuinnganginn og snýr herbergisglugginn út að Hallveigarstígnum. 1 morgun, þegar jeg
var að klæða mig, varð mjer litið út um herbergisgluggann og sá þá hermenn standa við endann á bifreið, sem stóð rjett fyrir vestan varðmannsskýlið. Hermaðurinn beindi byssu að
dreng, sem stóð þar fyrir framan hann upp við girðinguna. Á næsta augnabliki heyrði jeg
skothvell og drengurinn datt niður í götuna og lenti með höfuðið ofan í litlum vatnspolli, sem var þar á götunni á milli girðingarinnar og bílsins. Hermaðurinn gekk svo í burtu og inn í herbúðirnar, en nokkrir hermenn komu út í girðingarhliðið og einn hermaður gekk að
drengnum með teppi og breiddi yfir hann. Alveg rjett á eftir komu tveir hermenn með börur og báru drenginn inn í herbúðirnar. Jeg heyrði ekki nema einn skothvell.“

Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á stríðsárunum hét Lincoln MacVeagh en hann sendi yfirlýsingu á alla helstu fjölmiðla landsins þar sem hann harmaði atburðinn.

„Það hefir fengið mjög á alla sanna Bandaríkjamenn við frjettirnar um hinn sorglega atburð. Við erum hjer á íslandi sem vinir íslands til að gera gott en ekki ilt og við óskum að hjálpa landinu á allan mögulegan hátt. Við lítum á það sem heiður fyrir okkur að dvelja hjer, og okkur er það sjerstakur harmur að við skulum vera valdir að sorg hjer á landi. Verið er að rannsaka þetta mál, en það er hægt að segja það strax, að það er sjerstaklega hræðilegt í augum Bandaríkjamanna sem elska börn, að drengurinn skuli hafa verið skotinn til bana. Hin harmi lostna fjölskylda og allir sorgmæddir Islendingar mega vera vissir um, að óteljandi Bandaríkjamenn syrgja með þeim af heilum hug.“

Málið vakti skiljanlega mikinn óhug á Íslandi enda ekki á hverjum degi sem morð var framið á landinu, hvað þá á barni. Hermaðurinn sagði skotið hafa verið slysaskot, en hann fór fyrir herrétt í Bandaríkjunum. Alþýðublaðið sagði svo frá úrskurðinum í málinu:

„Mál litla drengsins, Jóns Benediktssonar, sem skotinn var til bana af ameríkskum hermanni síðastliðinn hvítasunnudagsmorgun: Hermaðurinn reyndist sjúkur af brjálsemi. Var hann
sendur í geðveikrahæli í Bandaríkjunum.“

Morðið á Steinunni

Þökk sé Gísla Jökli Gíslasyni lögreglumanns, hefur nú komið í ljós með nokkuð óyggjandi hætti að hin þrettán ára Steinunn Sigurðardóttir lést ekki úr heilahimnubólgu 19. apríl 1945, líkt og skráð er í dánarvottorði hennar, heldur vegna höfuðhöggs sem hún hlaut í árás hermanns, þremur mánuðum áður.

Steinunn Sigurðardóttir
Ljósmynd: Andvari

Gísli Jökull var í viðtali hjá Rúv á dögunum þar sem hann sagðist hafa birt færslu á Facebook-hópnum Gamlar ljósmyndir, þar sem hann fjallar um þau morð sem hermenn frömdu hér á landi á stríðsárunum. Þá hafi Herdís Dögg Sigurðardóttir skrifað athugasemd og bent honum á að hann hefði gleymt frænku hennar, Steinunni Sigurðardóttur eða Lillu líkt og vinir og ættingjar kölluðu hana jafnan. Og þannig fór boltinn að rúlla. Ekki voru til miklar heimildir um árásina en eina frétt fann Gísli, minningargrein og gamla dagbókarfærslu lögreglunnar. Sagði hann í viðtali við RÚV að allar líkur væru á að Steinunn hefði hlotið höfuðhögg í árásinni, sem síðan hafi dregið hana til dauða, þremur mánuðum síðar. „Hún hefur án efa fengið höfuðhögg, því að þær lýsingar eru til hjá fjölskyldunni að hún var eiginlega ófær um nokkuð eftir þetta,“ sagði Gísli. „Hún var alltaf rúmliggjandi, með mikinn höfuðverk, og svo deyr hún nokkrum mánuðum seinna.“ Bætti hann við: „Heilahimnubólga og alvarlegur höfuðáverki eru með mjög lík einkenni.“

Hér má sjá frétt Alþýðublaðsins um árásina:

„Ný árás:Hermaður ræðst á 13 ára telpu á Laugarnessvegi.

Það lítur svo út, sem óhæfuverk hermannsins sem réðst á stúlkuna á Ásvallagötunni á sunnudagskvöldið hafi smitað út frá sér, því í fyrrakvöld var önnur árás gerð af hermanni, á 13 ára telpu inn á Laugarnesvegi, og særðist stúlkan á hníf, sem hermaðurinn otaði að henni.

Klukkan um hálfellefu á mánudagskvöldið var lögreglan kvödd inn á Laugarnesveg og hitti hún þar telpuna, sem skýrði frá því, að hermaður hefði ráðist á sig og otað að sér hníf, er hún hefði ekkí viljað fylgjast með honum. Kvaðst hún hafa verið á gangi suður Laugarnesveginn og hermaður veitt sér eftirför, og ávarpað sig, en hún gaf því engan gaum — og hélt áfram. Veit hún þá ekki fyrri til, en hermaðurinn ræðst á hana og ætlar að draga hana út fyrir veginn, en hún streyttist á móti. Tók þá hermaðurinn upp hníf og otar að henni, en hún ber að sér lagið, en hlýtur við það skurð á hægri hendi. Ennfremur meiddist telpan á hné í viðureigninni.

Rétt í þessu ók bifreið um. veginn og staðnæmdist rétt hjá þeim. Við það brast hetjuna móðinn og tók til fóta sinna og flýði í burt, en telpan fór inn í næsta hús, og var þar gert að sárum hennar, og fór hún því næst heim til sín.“

ÚR dagbók lögreglunnar um árásina.
Skjáskot af RÚV.

Kennari Steinunnar skrifaði hjartnæma minningargrein um hana í Morgunblaðinu sem má lesa hér að neðan:

„ÞAÐ ER dimmur vetrardagur. Litlu skólabörnin, 7 ára gömul, lúta yfir verkefnin sín: fyrstu söguna — fyrstu heilu bókina, sem þau eiga að skila. Hæglát og prúð stúlka stendur fyrst á fætur, gengur til kennarans og rjettir fram bókina sína. Jú, þarna er alt eins og um var beðið: Sagan fyllir út bókina, 4 blaðsíður, 2 línur á hverri, hreinlega skrifað. Og með gleðiblik í augum, svo hógvært, að það sjest aðeins ef vel er að gætt, segir litla stúlkan: „Jeg truflaðist aldrei“. — Þetta var Steinunn Sigurðardóttir, sem foreldrar og nánustu vinir kölluðu Lillu. Sex ár hafa liðið. Lilla stundaði námið í sama hópnum — með ljúflyndi og prúðmensku, sem aldrei truflaðist. Jeg minnist þess ekki, að bekkjarsystkini hennar ættu nokkurntíma við hana misklíðarefni. Kurteis og mild var hún öllum hugþekk. Á fyrstu sólskinsstund þessa sumars, er öll íslensk börn halda sína persónulegu fagnaðarhátíð, barst okkur fregnin um andlát Lillu. Á fyrsta fullnaðarprófs degi sínum fengu bekkjarsystkini hennar öll að vita, að Lilla hafði þegar •— fyrst okkar allra — lokið þyngsta fullnaðarprófi lífsins. Lokið því með sinni hlýju, traustu hógværð — án þess að truflast. Og minningarnar fögru og hlýju í hjörtum foreldra hennar, systkina og allra vina munu heldur ekki truflast. — Við vonum öll að fá síðar að fagna henni í þeim heimi, þar sem viðkvæmni og blíða er meira metin en oft vill verða í þeim heimi, sem við nú lifum í.
J.E.“

Þetta samansafn Baksýnisspegla birtist í fimmta tölublaði Mannlífs sem kom út í apríl 2023 og má lesa hér.

„Hver þarf svefntöflu þegar horft er á Ítali spila fótbolta?“

Glúmur Baldvinsson hefur áhuga á fótbolta og veit ýmislegt um þá göfugu íþrótt. Hefur skoðanir og tjáir þær:

Glúmur Baldvinsson.

„Hver þarf svefntöflu þegar horft er á Ítali spila fótbolta?“

Glúmur hélt sér ekki vakandi yfir leik Ítala og Albana á EM sem fram fer í Þýskalandi þessa dagana og vikurnar:

„Sjálfur hrýt ég og dotta sem er afar ólíkt mér þegar kemur að fótbolta.“

Glúmur segir það afar óvenjulegt:

„Þá er ég undir öllum eðlilegum kringumstæðum trylltur og í froðufellandi geðrofi.“

 

Glúmur segir Ítalina vera leiðinlegri en heilan þingflokk hér á landi:

„En ó nei, ekki þegar Ítalir mæta til leiks. Leiðinlegri en allur þingflokkur Pírata talandi samtímis.“

Bílastæðasjóður blæs út og bólgnar – Stækkun á gjaldsvæði 1 við Háskóla Íslands

Breytingar verða innleiddar á gjaldsvæðum bílastæða í Reykjavík innan tíðar; einkum er hér um að ræða stækkun á gjaldsvæði 2 – en talningar frá því í árslok 2023 sýna fram á mikla og stöðuga nýtingu bílastæða á jöðrum núverandi gjaldsvæða, en þetta kemur fram á vefsíðunni eirikurjonsson.is.

Kemur fram að breytingarnar voru samþykktar; samþykktar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Þá verður stækkun á gjaldsvæði 1 við Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands.

Um er að ræða stækkanir á eftirfarandi gjaldsvæðum:

Gjaldsvæði 1: Sturlugata 2.

Gjaldsvæði 2: Aragata Egilsgata, bílaplan við Hallgrímskirkju Eiríksgata, bílaplan við Hallgrímskirkju Oddagata Seljavegur Sæmundargata Vesturgata milli Ánanausta og Stýrimannastígs.

Sandra var dæmd fyrir að myrða bókasafnsvörð – Sat saklaus í fangelsi í 43 ár

Sandra Hemme.

Bandarísk kona að nafni Sandra Hemme – sem setið hefur í fangelsi í heil 43 ár fyrir morð –  hefur nú verið látin laus; dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að hún væri alsaklaus.

Sandra var árið 1980 dæmd fyrir að morðið á bókasafnsverðinum Patriciu Jeschke.

Í dag er staðan allt önnur. Og betri. Fyrir Söndru.

Dómstóll í ríkinu Missouri í Bandaríkjunum segir að nú séu komin fram ný gögn sem afsanna að Sandra hafi myrt Patriciu.

En hver myrti hana þá?

Vísbendingar eru nú til staðar um að sá seki sé mögulega lögreglumaður er síðar var fangelsaður fyrir annað brot: Hann nú látinn.

Sandra var einungis tvítug að aldri er hún var handtekin; hún var þá undir áhrifum áfengis og annarra fíkniefna, og gaf misvísandi svör um manndrápið.

Nú er hún loksins laus úr haldi.

Egill Helgason spyr: „Er ekki eðlilegt að sendiráðið sé á Tene eða í Torrevieja frekar en Madrid?“

Egill Helgason.

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason er ávallt með puttann á púlsi samfélagsins og er ófeiminn við að viðra skoðanir sínar.

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands á Spáni.

Egill segir að það sé í undirbúningi hjá ríkisstjórninni að opna sendiráð á Spáni.

Ríkisstjórn Íslands 2024.

Og Egill er með það á hreinu hvar sendiráð þetta eigi að rísa – eða því sem næst:

Frá Tene.

„Það stendur til að opna sendiráð Íslands á Spáni. Mun vera mikið álag á ræðismönnum. En er ekki eðlilegt að sendiráðið sé á Tene eða í Torrevieja frekar en Madrid?“

Tjónið í Kringlunni er gríðarlega mikið – Slökkviliðið þurfti að rjúfa hluta af þakinu

Mynd: Skjáskot af mbl.is.

Slökkviliðið lauk ekki störf­um við Kringl­una fyrr en um klukk­an eitt í nótt, en eins og hefur áður komið fram þá – á fjórða tím­an­um í gær – braust út eld­ur í þaki í aust­ur­hluta bygg­ing­ar­inn­ar. Nú er alveg ljóst er að tjónið er mikið.

Í samtali við mbl.is sagði Jónas­ Árna­son­, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins, að síðustu bíl­ar slökkviliðsins hafi horfið af vett­vangi um klukk­an eitt í nótt; áætl­ar Jónas að ábilinu 50 til 60 manns hafi tekið þátt í slökkvi­starf­inu í Kringlunni.

Jón­as telur að tjónið vegna eldsvoðans sé gríðarlega mikið; af völd­um vatns og reyks; fram und­an sé afar mik­il vinna eft­ir slökkvi­starfið.

Kemur fram að slökkviliðið þurfti að rjúfa hluta af þaki Kringlunnar í gær­kvöld til að tryggja að eng­inn eld­ur logaði í eld­hreiðrum.

Eins og kom fram á Mannlífi í gær þá voru iðnaðar­menn voru við störf á þak­inu þegar eld­ur­inn kviknaði og er talið lík­legt að hann hafi kviknað þegar verið var að bræða þakpappa.

Átján ára seglbrettamaður lést við köfun – Stefndi á Ólympíuleikana

J.J.

Jackson James „J.J.“ Rice, bandarískur seglbrettamaður sem stefndi á ólympíuleikana, lést í köfunarslysi við strendur Tonga (áður Vináttueyjar), en faðir hans, Darren Rice, staðfesti fregnirnar. J.J. var einungis 18 ára gamall.

J.J. var fríköfun frá báti 15. júní þegar hann lést en talið er að hann hafi misst meðvitund í grunnu vatninu (e. shallow water blackout), samkvæmt föður hans. Að sögn föðursins fannst lík hans á hafsbotni undir bátnum af öðrum köfurum en tilraunir til að endurlífga hann mistókust.

Hinn efnilegi íþróttamaður fæddist í Bandaríkjunum en ólst upp í eyjaklasanum Ha’apai, á Tonga en faðir hans og móðir, Nina Rice, eiga Matafonua Island Lodge gistiheimilið og veitingastaðinn. J.J. sem var með tongóskan ríkisborgararétt, keppti fyrir hönd landsins í seglbrettaíþróttinni á alþjóðlegum mótum í gegnum árin. Hafði hann vonast til að komast á Ólympíuleikana í París 2024.

Systir J.J., Lily Rice skrifaði nokkur orð á samfélagsmiðlana eftir að andlátið bar að:

„Ég var blessuð með ótrúlegasta bróður í öllum heiminum og það er sárt að þurfa að segja að hann sé látinn,“ skrifaði hún á Facebook. „Hann var ótrúlegur seglbrettamaður og hann hefði komist á Ólympíuleikana og endað með stóra glansandi medalíu … hann eignaðist svo marga ótrúlega vini um allan heim.

Hún hélt áfram, „Ég mun reyna mitt besta til að nota það sem hann kenndi mér til að vera jafnvel bara pínulítið eins ótrúleg og hann var. Síðast þegar ég sá hann gaf hann mér stórt faðmlag og ég vildi að ég hefði haldið í lengur.“

Samkvæmt Matangi Tonga fréttamiðlinum, minntist Darren, faðir J.J. þau skipti þegar sonur hans hafði á óeigingjarnan hátt lagt sig í lífshættu til að bjarga öðrum – fyrst þegar hann var 15 ára en þá synti hann út til að bjarga farþegum um borð í ferju sem hvolfdi undan Faleloa árið 2021, og aftur þegar hann synti út til að bjarga og koma í land tveimur stúlkum sem höfðu sópast af sandrifi út á sjó.

Í maí keppti J.J. á Last Chance Reggata-keppninni í Hyères, Frakklandi þar sem hann vonaðist til að vinna sér inn sæti á Ólympíuleikunum 2024. Fréttir herma að J.J. hafi verið að undirbúa þátttöku á Ólympíuleikunum í ár, en í kjölfar keppninnar skrifaði hinn 18 ára gamli afreksmaður á Instagram að vonirnar um Olympíuleikana í þetta skiptið, væri lokið.

Ragnheiður slasaðist illa fyrir sex árum: „Seinustu sex árin hafa vægast sagt verið hryllingur“

Ragnheiður Pétursdóttir Ljósmynd: Aðsend

Ragnheiður Pétursdóttir hefur haft það mjög erfitt síðustu sex árin en hún hefur verið búsett í Danmörku síðan 2004. Ragnheiður slasaðist illa í vinnunni árið 2018 en hefur síðan þurft að heyja baráttu við danska heilbrigðiskerfið.

„Seinustu sex árin hafa vægast sagt verið hryllingur. Ég slasaðist í vinnunni í maí 2018. Ég hrasaði og afleiðingar þess hafa verið ofboðslega erfiðar. Í janúar fékk ég loksins endanlega greiningu eftir nær 6 ára baráttu við heilbrigðiskerfið hér í Danmörku,“ segir Ragnheiður í viðtali við Mannlíf og útskýrir svo hvað hrjáir hana:

„Ég er með það sem heitir Cranio cervical instability og atlanto axial instability CCI/AAI. Hægra axlar liðbandið sem heldur efstu liðunum á réttum stað er eyðilagt ásamt fleiru. Greininguna fékk ég hjá virtum taugaskurðlækni á Spáni.“

Ragnheiður segir að kostnaðurinn hafi verið gríðarlega mikill en enga hjálp er að finna fyrir hana í danska heilbrigðiskerfinu. „Bara á þessu ári er kostnaður við skannanir, lækna og sjúkraþjálfara langt yfir 3 milljónum íslenskra króna. Ég fæ enga hjálp í danska heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir ótal margar skannanir og skýrslur frá hátt metnum sérfræðingum í Evrópu vill kerfið hérna ekki samþykkja að ég hafi slasast svona alvarlega. Ég á það á hættu að lamast eða missa lífið vegna þess að liðirnir er lausir. Þetta hefur áhrif á allt taugakerfið og heilastofninn.“

Segir Ragnheiður að baráttan við tryggingakerfið hafi einnig verið afar erfið.

„Ég er mjög illa farin eftir ranga meðhöndlun, vöntun á meðhöndlun, vöntun á að viðurkenningu á alvarlegum skaða. Þetta hefur verið hræðilega erfið barátta við tryggingakerfi, þrátt fyrir að þetta er vinnuslys og èg var vel tryggð hef èg fengið samtals 0 krónur út úr þeim. Heilbrigðiskerfið hefur gjörsamlega brugðist mér. Ég hef staðið í ströngu við að ná því að komast á örorku sem og að fá viðeigandi hjálp hér heima sem og hjálpartæki.“

Vegna ástandins hefur hún að mestu haldið sig heima og það rúmliggjandi að mestu.

„Ég er mest megnis föst hér heima, oftast rúmliggjandi, á erfitt með að nota hendurnar, er óstöðug á fótum. Taugatruflanir, svimi, skert heilastarfsemi, sjónin er flöktandi, yfirlið, verkir, hjartsláttartruflanir og erfiðleikar með öndun. Þetta ástand er og hefur verið hreinn hryllingur að ganga í gegnum, ekki bara fyrir mig heldur líka manninn minn og son minn sem er í dag 12 ára. “

Segir Ragnheiður að ótrúlegt sé að hún haldi enn geðheilsu enda hafi hún verið beitt rosalegu óréttlæti.

„Ég á auðveldara með að tala enn að skrifa. Ég hef verið beitt þvílíku óréttlæti og oft verið mikil gaslýsing í gangi. Og það er með ólíkindum að èg hef haldið geðheilsu í þessu ömurlega og erfiða ferli.“

Í dag stendur Ragnheiður frammi fyrir erfiðri ákvörðun en möguleiki er á einhvers konar bata fyrir hana en áhættan er mikil.

„Ég er í augnablikinu að búa mig undir að taka ákvörðun um hvort èg láti skera mig eða ekki. Erfið ákvörðun bæði vegna áhættu í aðgerð, afleiðingum eftir aðgerðina og ekki minnst þarf ég sjálf að finna fjármagnið sem verður langt yfir 100.00 evrum með ferðakostnaði, kostnaði við aðstoðarmenn og síðar endurhæfingu. Èg hef stiklað á mjög stóru hérna en væri alveg til í að fá að segja þér betur frá mínum aðstæðum. Það er svo óréttlátt að fara í vinnuna, hrasa um illa lagða gangstéttarhellu, örkumlast og fá enga hjálp.“

„Hrein og klár forréttindablinda ef aukið aðgengi að áfengi verður samþykkt á Alþingi“

Gunnar Hersveinn.

Rithöfundurinn Gunnar Hersveinn skrifar afar áhugaverða grein.

Hann kemur inn á að „við öll höfum rétt til að verða frjálsar manneskjur. Hugtakið frelsi hefur ekki fullgerða merkingu nema í samhengi við annað. Við þurfum ekki frelsi til að geta keypt vín alla daga og nætur. Alkóhól eykur ekki frelsi heldur dregur úr viljamætti og dómgreind, það takmarkar frelsi til að hugsa og taka heillavænlegar ákvarðanir.“

Gunnar bætir því við að „frjálshyggjumaður sem boðar frelsi til að kaupa áfengi hvarvetna misskilur frelsishugtakið og samhengið alvarlega. Hugtakið frelsi breytist oft við notkun í klisju, aðallega vegna þess að það er misnotað til að réttlæta hvaðeina og þá gleymist að taka tillit til annarra. Takmarkað aðgengi að áfengi er ákjósanlegt – takmarkalítið verslunarfrelsi til að kaupa áfengi dregur úr frelsi í fjölskyldum og í samfélaginu, það eykur líkur á ofbeldi, röngum ákvörðunum, slysum, og fyllir sjúkrahúsin af sjúklingum.“

Bætir við:

„Takmarkað aðgengi að áfengi er því ákjósanlegt. Skuggahliðin á bak við verslunarfrelsi með áfengi er augljós, einföld og margsönnuð: aukið aðgengi, aukin neysla, fleiri veikjast og deyja, fleiri vandamál fyrir fjölskyldur og dýrara heilbrigðiskerfi. Einfaldlega vegna þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf.“

Gunnar ljær máls á því að það sé „réttur barna að búa í farsælu umhverfi, það veitir þeim frelsi. Mikilvægt er að markaðsöflin virði það því ofneysla áfengis getur farið illa með fjölskyldur og meðvirkni í fjölskyldum er líka vandi sem þarf að hafa í huga.“

Að mati Gunnars er „markaðurinn gildislaus; gleymum því aldrei. Honum er sama um hamingju í fjölskyldum, við verðum því að treysta á löggjafann sem hefur völd til að takmarka aðgengi. Ekki treysta á ólöglegan vínsala á netinu. Það er í raun ótrúlegt hve slæm áhrif alkóhóls eru miðað við vinsældir þess og hve mikil áhætta fylgir drykkjunni, meðal annars að verða alvarlega háður alkóhóli. Sókn eftir áfengi getur valdið óhamingju en það gerir val á vínlausum lífsstíl ekki, styðjum það, ekki hitt. Hrósið þeim sem drekka ekki áfengi!“

Gunnar kann vel við það að nota „hugtakið frelsi. Ég vil vera frjáls andspænis ánetjandi efnum, alltaf, alla daga. Frelsið mitt er ekki hending. Áhættan sem felst í því að verða háður fíkniefnum, er ekki í neinu samræmi við ávinninginn!“

Bætir þessu við:

„Það flokkast sem hrein og klár forréttindablinda ef aukið aðgengi að áfengi verður samþykkt á Alþingi. Víndrykkja er nú þegar almenn í samfélaginu og hvarvetna er boðið upp á áfengi. Verkefnið er því ekki að gera það aðgengilegra. Það er ekki falleg gjöf til þjóðarinnar á 80 ára lýðveldisafmæli, að auka aðgengi að áfengi í nafni verslunarfrelsis til að breyta vínmenningu. Æ sér gjöf til gjalda hjá hagsmunaaðilum sem búast þá við fleiri neytendum.“

Gunnar kemur inn á að vínlaust fólk „þarf oft að útskýra hvers vegna það vilji skera sig úr og er oft stimplað sem alkóhólistar, fíklar eða ófært um að hafa stjórn á sér. Í stað þess að fá hrós fyrir sjálfsaga, styrkleika og að nýta valkostinn, er það dæmt fyrir veikleikann sem felst í löngun til að drekka áfengi. Myndinni er snúið við eða hvor er alkinn, sá sem aldrei getur flotinu neitað eða sá sem velur að vera alltaf allsgáður?“

Gunnar spyr um aukið aðgengi að áfengu – frelsi fyrir hverja?

„Við þurfum að læra að greina á milli hvað er gjöf og hvað er ekki gjöf. Ofneysla hefur áhrif á líðan allra í fjölskyldunni og litar félagsleg samskipti. Hún ýtir undir óeðlilega þætti og meðvirknin eykur streitu og kvíða. Einstaklingar glata frelsi sínu og hætta að hafa full tök á lífi sínu. Fæstir átta sig á þessu mynstri sem skapast í kringum einstaklinga með vímuefnaröskun, en það er lúmsk staðreynd. Þetta er spurning um ákvörðun um frelsi til frambúðar og farsældar.“

Gunnar segir að lokum að „án sjálfsaga og hófsemdar og taumhalds verður ekkert frelsi. Hversu oft þarf að segja það: Áfengi er ekki venjuleg vara! Hver þarf áfengi ef markmiðið er: Skýr hugur, skapandi hjarta, hraustur heili.“

Jón Gnarr kominn með glænýtt húðflúr: „Þetta er í raun bara veggjakrot“

Jón Gnarr er kominn með nýtt húðflúr.

Leikarinn og fyrrum forsetaframbjóðandinn Jón Gnarr er kominn með glænýtt húðflúr og það af dýrari kantinum. Í dag, á þjóðhátíðardegi Íslendinga birti Jón ljósmynd af nýju tattúi, sem passar heldur betur við daginn. Við myndina birti hann eftirfarandi texta:

„Til hamingju með daginn elsku vinir. Elsta ritaða heimild þar sem orðið Ísland kemur fyrir er á þessum rúnasteini á Gotlandi og er talinn ristur fyrir um 1000 árum. Þetta er yngra fúþark. Þetta er í raun bara veggjakrot. Úlfur og Ormiga (nafn sem fengist víst seint samþykkt) nefna þarna nokkra staði sem þeir hafa líklega komið til; Serkland, Jórsalir og Ísland (Íslat).

Fékk mér Íslenska hlutann sem flúr

Njótið dagsins !“

Hér má svo sjá rúnasteininn fræga og svo hið glæsilega húðflúr:

Íslands-tattúið hans Jóns.
Ljósmynd: Facebook

Sameinuðu þjóðirnar: „Gaza er hættulegasti staður í heimi fyrir hjálparstarfsmenn“

Alls hafa 193 starfsfmenn Hjálparstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir palestínska flóttamenn (UNRWA) verið drepnir í árásum Ísraelshers frá 7. október 2023. Aldrei áður hafa svo margir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna fallið í árásum.

„Gaza er hættulegasti staður í heimi fyrir hjálparstarfsmenn. Síðan stríðið hófst hafa 193 starfsmenn UNRWA verið drepnir – Hæsta mannfall í sögu Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir þetta halda samstarfsmenn okkar áfram að vinna að því að styðja fjölskyldur og veita aðstoð í hinni skelfilegu mannúðarkreppu,“ segir UNRWA á X-inu.

Auk þess að drepa starfsmenn UNRWA hafa árásir Ísraela á mannvirki sem UNRWA hefur rekið á Gaza, drepið að minnsta kosti 497 manns á flótta sem leituðu skjóls þar, samkvæmt nýjustu ástandsuppfærslu stofnunarinnar.

Dísella, Fannar bæjarstjóri og Þórhallur Sigurðsson fengu fálkaorðuna

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sæmdi í síðasta skipti, hópi Íslendinga fálkaorðuna í dag.

Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, 17. júní 2024, sæmdi forseti Íslands  16 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þau eru:

  1. Dísella Lárusdóttir óperusöngkona, riddarakross fyrir framlag til sönglistar.  
  2. Eiríkur Jónsson yfirlæknir, riddarakross fyrir framlag til þvagfæraskurðlækninga og  heilbrigðisþjónustu.  
  3. Fannar Jónasson bæjarstjóri, riddarakross fyrir þjónustu í þágu samfélagsins á  tímum hamfara.  
  4. Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og sagnfræðingur, riddarakross fyrir  rannsóknir, miðlun og varðveislu menningar sem tenjast íslenskum þjóðbúningum.  
  5. Jóna Dóra Karlsdóttir, stofnandi og fyrrverandi formaður Nýrrar dögunar,  riddarakross fyrir frumkvöðlastarf til stuðnings syrgjendum og fyrir að stuðla að  opinni umræðu um sorg og sorgarviðbrögð.  
  6. Margrét Vilborg Bjarnadóttir, verkfræðingur og stofnandi PayAnalytics,  riddarakross fyrir framlag til nýsköpunar á sviði hugbúnaðar í þágu jafnlaunastefnu.  
  7. Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi skátahöfðingi,  riddarakross fyrir störf í þágu skátahreyfingarinnar.  
  8. Ómar Einarsson, fyrrverandi sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, riddarakross fyrir  framlag og frumkvæði í íþrótta-, tómstunda- og velferðarmálum.  
  9. Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur, riddarakross fyrir framlag til vísinda  og krabbameinsrannsókna.  
  10. Sigrún Steinarsdóttir Ellertsen, stofnandi og umsjónarmaður Matargjafa,  riddarakross fyrir framlag til mannúðarmála í heimabyggð.  
  11. Stefán Baldvin Sigurðsson, fyrrverandi háskólarektor, riddarakross fyrir störf í þágu  menntunar, vísinda og félagsmála.  
  12. Svanur Ingvarsson, kennari og húsasmíðameistari, riddarakross fyrir framlag í þágu  íþróttastarfs fatlaðra.  
  13. Þorvaldur Jónsson bóndi, riddarakross fyrir félags- og menningarstörf í héraði.  
  14. Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, riddarakross fyrir frumkvöðlastarf og  nýsköpun á vettvangi sjávarútvegs.  
  15. Þórey S. Kemp Guðmundsdóttir íþróttakennari, riddarakross fyrir framlag til  íþróttaiðkunar kvenna og heilsueflingar aldraðra.  
  16. Þórhallur Sigurðsson, leikari og leikstjóri, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar  leiklistar og brautryðjendastarf í barnaleikhúsi. 

KALEO gefur út Sofðu unga ástin mín: „Viss um að þetta er fyrsta lagið sem ég heyrði“

Jökull Júlíusson Ljósmynd: Aðsend

KALEO gefur út lagið Sofðu unga ástin mín þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Sofðu unga ástin mín er angurvær vögguvísa sem flest börn þekkja. Ljóðið sem kom út árið 1912 er eftir Jóhann Sigurjónsson og var samið fyrir leikritið Fjalla Eyvind. Sofðu unga ástin mín er jafnframt merkilegt fyrir þær sakir að það er eitt fárra þjóðlaga sem enginn veit hver samdi.  Vögguvísan Sofðu unga ástin mín er því vísun í þjóðsögu.

Jökull Júlíusson segir:

„Mér hefur alltaf fundist þessi vögguvísa vera ákaflega falleg með sínum dapurlega undirtón og hefur hún alltaf haft mikla þýðingu fyrir mig. Móðir mín söng þetta lag fyrir mig sem barn og ég er nokkuð viss um að þetta er fyrsta lagið sem ég heyrði.  Mig langaði því að gefa lagið út á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga enda er þessi vögguvísa eins íslensk og þær geta orðið.“

„Þrátt fyrir augljós brot eigenda hefur Mast ekki varið velferð umræddra dýra“ – NÝJAR MYNDIR

Kind dregur á eftir sér nokkurra metra langa ull.

Ástandið á ágangskindunum frá Höfða í Borgarfirði hefur ekki batnað, ef marka má ljósmyndir sem Mannlíf tók í gær. Kindur, hreyfihamlaðar vegna margfaldra reifa, halda til í túninu. Dæmi voru um haltar og veikar kindur. Talsvert var einnig um fé utan girðinga

Steinunn Árnadóttir, orgelleikari og baráttukona, hefur verið afar dugleg við að vekja athygli á skelfilegu ástandi kinda af bóndabænum Höfða í Borgarfirði. Kindurnar ganga um Þverárhlíð og nágrenni, þó nokkrar í margföldum reifum, með ýmsar sýkingar og bólgur og lömbin fæðast úti þar sem hrafnar og refir bíða átekta.

MAST hefur haft einhver afskipti og eftirlit með kindunum en yfirlæknir stofnunarinnar hefur sagt að ástandið sé ekki eins slæmt og haldið hefur verið fram en sitt sýnist hverjum um þá fullyrðingu.

Kind frá Höfða sem Steinunn Árnadóttir tók ljósmynd af fyrir nokkrum dögum.

Eftirfarandi ályktun Dýraverndarsambands Íslands sem birt var fyrir viku má lesa hér:

Dýraverndarsamband Íslands skorar á stjórnvöld að endurskoða eftirlit með velferð dýra.

-Neðangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi Dýraverndarsambandsins þann 16. maí 2024:
Það er hlutverk Matvælastofnunar að sjá til þess að lögum um velferð dýra og tilheyrandi reglugerðum sé framfylgt. Á bæ í Þverárhlíð í Borgarbyggð hafa mörg ákvæði reglugerðar um velferð sauðfjár og geitfjár greinilega verið brotin í áraraðir og varðar það við refsiábyrgð skv. lögunum. Þrátt fyrir augljós brot eigenda dýranna hefur Matvælastofnun ekki varið velferð umræddra dýra.
Það er óviðunandi að Dýraverndarsamband Íslands standi ítrekað í deilum við þá stofnun sem lögum samkvæmt hefur eftirlit með dýravelferð um hvort velferð dýra í ákveðnum málum sé uppfyllt eða ekki, þegar ljóst er að svo er ekki.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að endurskoða og breyta því fyrirkomulagi sem ríkir um eftirlit með velferð dýra án tafar og að þau sjái til þess að opinberar stofnanir sinni lögbundnum skyldum sínum gagnvart dýrum.

Mannlíf átti leið um Borgarfjörðinn í gær og tók nokkrar ljósmyndir af ástandinu sem sjá má hér fyrir neðan:

Kindur í margföldu reifi halda til á þessum haugi í túnfætinum á Höfða.

Netanyahu leysir upp herráðið – Tveir ráðherrar sögðu sig úr því fyrir viku

Benjamin Netanyahu

Benjamin Netanyahu hefur tilkynnt lok herráðs Ísraels, eftir að ráðherrarnir Benny Gantz og Gadi Eisenkot sögðu sig úr henni fyrir viku.

Forsætisráðherra Ísraels tilkynnti þetta á fundi stjórnmála-öryggisráðsins í gærkvöldi, að því er ísraelsku fréttasíðurnar Maariv og Ynet greindu frá.

Hins vegar er búist við að hann haldi áfram að halda „öryggissamráð“ um stríðið með helstu embættismönnum, þar á meðal þá sem höfðu verið í stríðsráðinu sem nú var leyst upp, að sögn Ynet.

 

Hæðist að viðskiptamógúl sem snuðaði dóttur hans: „Ég upptendraðist við að lesa um þennan guðdóm“

Guðmundur Brynjólfsson Ljósmynd: byggdasafn.is

Guðmundur Brynjólfsson skrifar um viðskiptamógúl sem snuðaði dóttur hans í nýlegri Facebook-færslu.

Rithöfundurinn og skáldið Guðmundur Brynjólfsson skrifaði nokkuð kaldhæða færslu nýverið á Facebook þar sem hann rifjar upp þegar dóttir hans, sem þá var unglingur vann hjá viðskiptajöfri sem nýlega var dásamaður í Viðskiptablaðinu en hún þurfti aðstoð Eflingar til að fá orlof sitt greitt hjá manninum. Tilefni færslu Guðmundar var „stóra læknisvottorðamálið“ sem vakti athygli á dögunum en Fiskikóngurinn hafði þá farið mikinn á Facebook þar sem hann kvartaði hástöfum yfir læknisvottorðum sem hann sagði lækna vera duglega að gefa starfsfólki.

„Læknisvottorð

Stóra læknisvottorðamálið skekur nú þjóðina. Læknar eru sakaðir um að skrifa út læknisvottorð eftir pöntunum en ekki eftir veikindum. Starfsfólk leggur inn þessi sömu læknisvottorð hjá atvinnurekendum, dauðfrískt, kapítalistunum til mikils tjóns og armæðu. Svona eru nú læknar í samkrulli við verkalýðinn og alþýðan í bland við heilsugæsluna miklir bévaðir rummungar og siðlausar skepnur.“ Þannig hefst færsla Guðmundar, sem löðrar af skemmtilegri kaldhæðni.

Í næstu andrá skrifar skáldið um minningargrein um lifandi mann:

„Víkur þá sögunni að minningargrein – sem reyndar var viðtal – sem ég las á dögunum

Fyrir einhverjum vikum las ég í einu viðskiptablaðanna minningargrein um mann sem þó er ódauður enn. Ég kalla það minningargrein því lofið var engu líkt, gæti helst ímyndað mér að þannig myndu eftirmælin um Guð almáttugan standa, væri hann ekki dauður – samkvæmt Nietzsche. Maður þessi sem þarna var talað við – og um – var atvinnurekandi og viðskiptamógúll af æðstu gráðu. Hafði hafist úr engu upp í það að eiga og veita forstöðu stórglæstum vinnustað með margar starfsstöðvar, og nú þegar hann hafði bundið kaupskip sitt við bryggju þótti tilhlýðilegt að leggja undir hann nokkrar blaðsíður og tíunda afrek hans og arfleifð alla – svo dást mætti að honum þó ekki væri nema úr fjarskanum sem liggur á milli stétta á Íslandi. Ég upptendraðist við að lesa um þennan guðdóm og þessa viðstöðulausu dásemdar sigurgöngu og þegar maður þannig andlega fírast upp þá fær maður jafnvel gleggra minni en manni er gefið dags daglega.“

Guðmundur rifjar því næst upp það þegar dóttir hans vann hjá téðum viðskiptamanni en þurfti hjálp frá Eflingu til að fá greitt það sem henni bar.

„Minningin

Dóttir mín, þá unglingur, vann hjá þessum manni um skeið; á einni af hans stórfenglegu stassjónum. Þar var gert slag í því að stela sýstematískt af henni orlofinu. Þar var henni helst aldrei borgað rétt kaup. Þar var stöðuglega reynt að snuða hana um næturvinnukaup og þar var reynt að praktísera eitthvað „jafnaðarkaup“ sem vel að merkja er óskapnaður sem ekki er til. Þurfti sjálfa Eflingu á endanum til að koma skikki á þessi mál – eftir þjark og hótanir. Það sem meira var, á þessum vinnustað voru menn reknir burt eins og hundar þegar djarfaði fyrir því að það þyrfti að veita þeim, samkvæmt kjarasamningum, launahækkanir vegna starfsaldurs.“

Að lokum kemst Guðmundur að eftirfarandi niðurstöðu:

„Niðurstaðan
Sem betur fer er til allt fullt af góðum atvinnurekendum, hellingur af fyrirmyndar læknum og ósköpin öll eru til af fólki sem vinnur vinnuna sína í friði og spekt og ágreiningslaust við Guð og menn alla daga jafnt.“

Helga Vala refsar Kristrúnu

Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi oddviti Samfylkingar í Reykjavík, er harðorð í garð Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingar og annnarra þingmanna flokksins, vegna hjásetu flokksins í útlendingamálinu á Alþingi.

Helga Vala brást við þegar Þorbjörg Þorvaldsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar í Garðabæ sagði sig úr flokknum. „Þetta er svo óendanlega ömurlegt bara, ég skil alls ekki neitt. Hvernig sér forysta Samfylkingarinnar fyrir sér að miðla málum í ríkisstjórn þegar öll grundvallarmálin eru fokin áður en í kosningarnar er komið?“ spyr Helga Vala og efast um að flokkurinn standi lengur fyrir mannúð, jöfnuði og samkennd með fólki í viðkvæmri stöðu.

Helga Vala sagði á sínum tíma af sér þingmennsku. Hún sagði fyrst frá ákvörðun sinni um afsögn í viðtali við Morgunblaðið en lét formann sinn vita skömmu áður en viðtalið birtist. Fáum sem til þekkja duldist að afsögnin var tilkomin vegna innbyrðis deilna hennar við nýjan formann, þótt hún hafi þrætt fyrir það. Nærtækt er að álykta sem svo að nú telji Helga Vala sinn tíma vera kominn og þess vegna mundi hún refsivöndinn gegn fyrrverandi samherjum.

„Samfylkingin er fátækari án baráttukonunnar Þorbjargar Þorvaldsdóttur,“ eru lokaorð Helgu Völu …

Eldur kviknaði í iðnaðarhúsi í Hafnarfirði í nótt – Partýglaðir borgarbúar höfðu hátt í heimahúsum

Myndin er samsett

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru í miklum partýgír í nótt en áberandi mikill fjöldi hávaðakvartana barst lögreglu vegna samkvæma í heimahúsum í nótt, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Rétt fyrir hálf þrjú í nótt barst tilkynning um innbrot í heimahúsi í miðborginni en málið er enn í rannsókn.

Í Hafnarfirði var ökumaður stöðvaður grunaður um að keyra fullur. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli og sýnatöku. Var honum sleppt að því loknu.

Rétt fyrir fjögur í nótt var tilkynnt um eld í iðnaðarhúsnæði en mikinn svartan reyk barst frá einni byggingu fyrirtækisins. Samkvæmt slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru þrjár stöðvar sendar á vettvang en í ljós kom að eldur logaði innandyra í húsnæðinu. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en á meðan á því stóð barst annað útkall á svipuðum stað þar sem brunaviðvörunarkerfi hafði farið í gang en engan eld var að finna.

Slökkviliðið fór alls í 103 sjúkrafluttninga síðasta sólarhringinn, þar af 40 forgangsflutninga, sem telst mikið. Frá hálf átta í gærkvöldi fór slökkviliðið í 59 sjúkraflutninga, þannig að erilsöm helgi er nú að baki hjá slökkviliðinu.

Lögreglan sem starfar í Árbænum, Grafarholtinu, Grafarvoginum, Norðlingaholtinu, Mosfellsbænum, Kjósarhreppinum og á Kjalarnesinu stöðvaði tvo ökumenn ökufanta en sá sem keyrði hraðar mældist á 142 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.

Helga Vala sér á eftir Þorbjörgu: „Grundvallarmálin fokin áður en í kosningarnar er komið“

Helga Vala Helgadóttir.

Lögfræðingurinn og stjórnmálakonan Helga Vala Helgadóttir er ekki sátt við flokk sinn, Samfylkinguna. Sérstaklega eftir að Þorbjörg Þorvaldsóttir ákvað að yfirgefa Samfylkinguna.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir.
Mynd: Samtökin 78.

„Ég hef ekki leng­ur áhuga á því að hlusta á flokks­fé­laga mína rétt­læta þessa stefnu­breyt­ingu og segja mér að hún hafi ekki orðið. En staðan er greini­lega sú að það virðist vera orðið of rót­tækt fyr­ir Sam­fylk­ing­una að tala skýrt fyr­ir mann­rétt­ind­um,“ sagði Þor­björg Þorvaldsdóttir í til­kynn­ingu á Face­book. Hún var afar ósátt við þing­flokk Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, er sat hjá í at­kvæðagreiðslu um út­lend­inga­frum­varpið er samþykkt var 14. júní síðastliðinn.

Helga Vala segir:

„Elsku besta baráttusystir mín Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Þetta er svo óendanlega ömurlegt bara, ég skil alls ekki neitt. Hvernig sér forysta Samfylkingarinnar fyrir sér að miðla málum í ríkisstjórn þegar öll grundvallarmálin eru fokin áður en í kosningarnar er komið? Hvernig getur flokkur sem fyrir örstuttu síðan stóð fyrir mannúð, jöfnuði og samkennd með fólki í viðkvæmri stöðu sleppt því að taka afstöðu í svona grundvallarmáli?“

Bætir þessu við:

Kristrún Frostadóttir.

„Hvað munum við þá sjá þegar flokkurinn þarf raunverulega að fara í málamiðlanir? Er forysta flokksins kannski bara með þessar skoðanir? Að útlendingastefna Mette Fredriksen, sú harðasta í norður- Evrópu, sem forystufólk flokksins gagnrýndi harkalega fyrir örstuttu síðan, sé kannski bara hin eina rétta stefna?“

Spyr:

Kristrún Frostadóttir og Mette Frederiksen á góðri stundu.

„Hvernig getur sama fólk snúist svona í skoðunum sínum? Hvað breyttist í heiminum annað en að það varð stríð í næsta nágranni og fólk á flótta hefur aldrei verið fleira? Er stríðshrjáð fólk, sem leitar verndar á Íslandi í minni neyð en áður?“

Helga Vala spyr einnig að þessu:

Hussein Hussein fluttur með hörku úr hjólastól og inn í bíl í skugga nætur.

Telur þingfólk sem sat hjá að réttlætanlegt sé að íþyngja Útlendingastofnun með tilhæfulausum umsóknum um endurnýjun dvalarleyfa þegar stríð geysar enn sem fyrr víða um heim svo málin safnast enn hraðar upp á borðum Útlendingastofnunar? Telur hjásetufólk að fólk sem fengið hefur vernd verði betri borgarar hér á landi með því að fá að bíða í áratug eftir börnum sínum og mökum og var það þess vegna sem það sat hjá í atkvæðagreiðslunni því það gat ekki tekið afstöðu gegn þeirri aðgerð og öllum hinum.“

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.

Segir að lokum:

„Samfylkingin er fátækari án baráttukonunnar Þorbjargar Þorvaldsdóttur.“

Ertu að deyja eða ertu að lifa?

Það er satt að okkur öllum sem lifum fylgir einnig dauði þó að við vitum ekki hvar, hvernig og hvenær hann mun heilsa okkur. Flest fólk lifir sennilega þannig að það spáir ekki sérstaklega í því. Þó er sumt fólk sem hefur verið snert af dauðanum á óþægilegan hátt eða óþarflega mikið. Hvort sem það er vegna þess það hefur misst einhvern náinn sér skyndilega eða ekki skyndilega, upplifað stríðshörmungar og massadauða í kringum sig þá er dauðinn orðinn raunverulegur lífsförunautur. Hann er stöðugt nálægur í minningum um ástvini og hvernig þeir eru ekki lengur og jafnvel í hugarangri spurninga um af hverju þeir séu ekki lengur. Dauðinn svarar okkur hins vegar ekki alltaf með skýrum svörum sem við erum vön úr fræðibókum skólans.

Við sem höfum þekkingu og skilning á lífinu vitum samt að það er víst að við deyjum.

Okkur er kennt að dauðinn er partur af lífinu. 

Bara ein önnur leið sem við þurfum öll að fara að lokum. 

Ég sé fyrir mér krossgötur með götuskilti á milli tveggja átta. Leið til hægri er lífið og leið til vinstri er dauði. Þegar kemur að þessum krossgötum trúi ég því að ég muni velja lífið. Mér finnst alltaf eins og það sé eitthvað sem ég get gert, bætt við mig og upplifað. Ég elska lífið það mikið þannig af hverju ætti ég að velja hina leiðina? Þarna kemur óhuggulega staðreyndin og myndin upp í hugann um mann sem stendur við krossgöturnar og neyðir mig til að fara hina leiðina. En ég vil það ekki. Það skiptir ekki máli hvað ég vil lengur. Hann er mættur. Togar í mig ákveðið á meðan ég rígheld mér í götuskiltið, öskrandi á hitt fólkið sem gengur lífsleiðina. Hann þvingar mig og dregur mig á á eftir sér þó ég reyni að klóra mig frá honum með fingrunum í mölinni. Ekki beint falleg eða uppörvandi mynd.

Hingað til hef ég farið mínar eigin leiðir í lífinu. Mér hefur einnig verið gert það ljóst að það sé göfugur eiginleiki að efla mig sjálfan sem einstakling. Vera fullur af metnaði, hugmyndum, dugnaði, manngæsku og framtakssemi. Þess vegna hef ég tekið lífið í mínar eigin hendur. Margt hefur orðið á vegi mínum, stundum ég sjálfur og stundum aðrir eða aðstæður. Vissulega hafa verið hindranir. En vegna þess hve stjórnsamur ég er orðinn gagnvart lífinu þá held ég áfram, stundum á hnefanum. Hef engan tíma til að vera fórnarlamb lífs míns. Draumar og þrár eru vísbendingar um eitthvað sem ég verð að gera en ekki bara hugsa. Ég get varla fengið hugmyndir að einhverju án þess að athuga hvort ég geti gert eitthvað með þær.

Og svona lifi ég eða lifði ég öllu heldur því sumt hefur breyst undanfarið og nýlega.

Fyrir rúmum tveimur árum var nefnilega ein manneskja sem sneri öllu upp, niður, til hliðar og á hvolf í mínu lífi. Hún ætlaði ekki að gera það og vildi það sennilega alls ekki. Þessi manneskja kom að krossgötunum og var tekin.

Yngri en ég. Full af hugmyndum, í fullri sjálfsvinnu og styrk. Einstaklingur í uppbyggingu eins og ég. Ég vaknaði upp við martröð. Hvað var eiginlega í gangi? Er þetta bara svona. Búið. Bless og ekki meir sama hve mikið ég spyr?

Vitneskjan mín um dauðann raskaðist. Það brenglaðist eitthvað. Ég varð að fórnarlambi óttans. Ég var alltaf smá hvattur áfram af ótta við að hafa ekki tíma síðar því hvað ef dauði minn bæri að. En ég trúði því ekki innilega heldur notaði sem innspýtingu til þess að drífa hlutum í gang. Aldrei grunaði mig að það væri í raun fyrirstaða til þess að hugsa svona í bókstaflegum skilningi.

Síðustu tvö ár hefur dauðinn verið með mér. Hann hefur eiginlega verið stærri hluti af mér en lífið. 

Í öllum þögnum birtist hann, í fuglasöng, í vindinum, í haföldunum, á fjöllunum, í tónlistinni og stundum meira að segja í dansinum. Hann lætur mig ekki vera. Og ég er svo hræddur og ég er reiður. Af hverju má ég ekki lifa í friði? Togstreitan innra með mér og reiðin er orðin svo mikil að ég finn fyrir öllum líkamsbreytingum. Er uppspenntur í öllum líkamanum með óútskýrða liðverki og meltingarverki. Fer í allar rannsóknir og myndatökur. 

Því ég ætla sko að finna hann! Ég ætla sko að finna dauðann áður en hann finnur mig! Því ef ég finn hann fyrst þá ræð ég ennþá. Þá vel ég leiðina. Þá stjórna ég.

Lífið mitt er þess vegna búið að snúast um þetta. Að deyja. Að vera hræddur við að deyja.

Ég er samt að gefast upp núna. Ég er í raun að fatta að þegar ég er í þögninni og held að dauðinn sé að banka að þá er það raunverulega LÍFIÐ að banka. Þegar fuglinn syngur, vindurinn þýtur, aldan rís, fjallið kallar, tónlistin ómar, dansinn dunar í hjartanu.

Líf í hjartanu. Ég var að misskilja það sem gerðist. Þetta átti að kenna mér að sleppa óttanum en ekki halda í hann. Jú það er rétt að hugsa að við höfum ekki tíma en það á ekki að vekja með okkur ótta heldur hvetja okkur til að fanga tímann sem einfaldlega er og líður með okkur. Hvetja okkur til að lifa.

Yin og Yang. Svart og hvítt. Ljós og myrkur. Já dauðinn er ein hlið á teningnum.

En teningurinn er lífið.

Það sem ég er að reyna læra og auðga er lífið. Því ég er á lífi núna í dag. Á meðan ég skrifa þetta. Það er vinna fyrir mig að snúa systeminu við sem ég er orðinn vanur. Vinna fyrir hugann minn og líkama minn að skilja.

Það sem þetta snýst um er að velja lífið á hverjum degi. Sleppa takinu á dauðanum. Sleppa takinu á að reyna stjórna dauðanum. Hann er og verður þarna. Hann er óþekkt barn. Hann er ótaminn villtur hestur. Vill vera frjáls. Á að vera frjáls.

En þó lífið sé endanlegt þá er það líka frjálst á meðan það er. 

Og góði guð hvað það er mikil gjöf að fá að eiga frjálst líf, líkama og huga til að sinna því.

Ég vil lifa á meðan ég er á lífi. Ekki telja niður í dauðann sem svo kannski kemur aldrei þegar ég á von á honum. Frænka mín hafði ekki hugmynd um hann. En hún lifði bara eins fallega og hún kunni þangað til. Ég ætla að breyta því sem áfallið kenndi mér yfir í það sem lífið hennar kenndi mér. Það snýst um val á hugsunum. Að velja það sem lífið gefur en ekki það sem dauðinn tekur.

Ertu að lifa eða ertu að deyja?

 Friðrik Agni Árnason

 

Amerískur hermaður skaut Gunnar í hnakkann í gegnum bílrúðu – Í tveimur tilfellum voru börn myrt

Hermenn eru þjálfaðir til að drepa, eðli málsins samkvæmt, en það er munur á drápi á óvinum og morði. Þar til nýlega var talið að hermenn hefðu myrt þrjá Íslendinga á tímum hersetunnar, en nú þykir ljóst að morðin voru fjögur. Í tveimur tilfellum voru börn myrt, en í hinum tveimur voru það karlmenn sem urðu fyrir barðinu á hermönnum. Hér verða málin rifjuð upp með hjálp gamalla frétta af málunum.

Rifrildi sem gekk of langt

Hermaður varð ungum manni að bana í Hafnarfirði. Nokkrum hermönnum hafði lent saman við hóp Íslendinga og enduðu þau mál á því að tveir hermannanna hófu að skjóta á Íslendingana með skammbyssum sínum. Eftir skothríðina lá einn í valnum og tveir slasaðir. Svo virðist sem lætin hafi byrjað þegar fórnarlambið gætti ekki að því hvar hann gekk.

Strandgata 4
Ljósmynd: fjardarfrettir.is skjáskot

Þetta gerðist þann 8. nóvember árið 1941. Alþýðublaðið sagði svo frá málinu á mánudeginum 10. nóvember:

Ameríkskir hermenn skjóta á hóp manna í Hafnarfirði

Þrír af mönnunum særðust og einn þeirra mjög hættulega.
Skýrsla bæiarfógetafulltrúans í Hafnarflrði.

SÍÐASTLIÐIÐ LAUGARDAGSKVÖLD kl 10.30 gjörðist sá atburður, að tveir hermenn úr Bandaríkjahernum á Íslandi skutu með skammbyssu á hóp íslenzkra manna fyrir utan húsið Strandgötu 4 í Hafnarfirði. Skutu þeir 5—6 skotum áður en þeir hlupu burt vestur Vesturgötu. Tveir menn urðu fyrir skotum: Þórður Sigurðsson, Austurgötu 27 sem fékk kúluskot í gegnum magan og liggur hann nú á St. Jósepsspítala þungt haldinn.

Sigurður L. Eiríksson Krosseyrarveg 2 varð einnig fyrir skoti. Fór kúla upp um sólann á skó á vinstra fæti og marðist fóturinn og kom á hann smáskeina. Auk þess var hann marinn á lófa á vinstri hönd, að því er virðist eftir kúlu, sem hafði strokist með lófanum. Margir menn veittu hermönnunum eftirför vestur götuna. Þegar komið var vestur fyrir sölubúð
F. Hansens skaut annar hermaðurinn enn einu skoti á þá, sem eltu hann. Annar hermaðurinn var handsamaður uppi á Kirkjuvegi og afhentur lögreglunni. Hinn hermaðurinn hljóp vestur Kirkjuveginn og skaut þá enn einu skoti á Sigurgeir Gíslason, Austurgötu 21, sem veitti honum eftirför, og straukst kúlan við fremsta lið á þumalfingri á vinstri hendi, og kom skeina á fingurinn. Þessi hermaður náðist ekki.

Aðdragandi að þessum atburði er sá, að margt manna var saman komið inni á veitingastofu við Strandgötu 6 og þar á meðal 4 Bandaríkjahermenn, sem sátu þar við borð og voru að drekka öl. Á gólfinu stóð Þórður Sigurðssen með ölflösku í hendinni og var að tala við annan mann. Snéri Þórður baki að hermönnunum. Steig Þórður eitt eða tvö skref aftur á bak og mun þá hafa komið við einn af Bandaríkjahermönnunum; tók hann samstundis upp skammbyssu úr frakkavasa sínum og otaði henni að Þórði. Reiddi Þórður þá upp ölflöskuna sem hann hafði í hendinni, og skipaði hermanninum að láta byssuna niður, og stakk hann henni tafarlaust í frakkavasann aftur. Stuttu síðar stóðu hermennirnir upp og fóru út. Um leið og þeir fóru út, munu þeir hafa sagt Þórði að koma út með sér. Fór hann út á eftir þeim og flestir þeir, sem höfðu verið inni á veitingastofunni. Hermennimir gengu vestur Strandgötu og Þórður og hinir mennirnir í humátt á eftir þeim.

Þegar hermennirnir höfðu gengið lítinn spotta snéru tveir þeirra sér allt í einu við og hófu skothríð á mennina og skutu sennilega 4—5 skotum þarna. Þegar stothríðin hófst, var Þórður Sigurðsson í um tveggja faðma fjarlægð frá hermönnunum. Miðaði annar þeirra skammbyssunni á hann og skaut á hann. Þórður hljóp þegar á hermanninn og hafði að hrista skammbyssuna úr hendinni á honum. Um leið hlupu margir þeir, sem staddir voru
þama nálægt, af stað til þess að hjálpa Þórði, en áður en þeir komu til þeirra, hafði hermaðurinn losað sig og hlaupið burtu, vestur götuna. Þeir tveir hermenn sem voru með þeim, er að skothríðinni stóðu, hlupu einnig burtu, og náðust ekki. Af Þórði hefir enn ekki verið hægt að taka skýrslu sökum þess, að hann liggur þungt haidinn á St. Josephs spítala.
Þetta er samkvæmt skýrslu frá fulltrúa bæjarfógetans í Hafnarfirði. Samkvæmt öðrum heimildum hefir blaðið frétt um áverka Þórðar, að kúlan hafi farið inn í magann hægra megin og út vinstra megin.

Þórður Sigurðsson er 22 ára að aldri.“

Þórður Sigurðsson
Ljósmynd: Alþýðublaðið skjáskot

Nokkrum dögum síðar lést Þórður af sárum sínum. Samkvæmt blaðinu Vesturland brutust út slagsmál milli hermannanna og Íslendinganna sem lauk með skotárás Bandaríkjamannanna. Sagt er frá málinu í Vesturlandi hér að neðan:

Íslenzkur maður skotinn til bana af amerískum hermanni

Síðastl. laugardag urðu skærur milli íslendinga og amerískra hermanna á veitingahúsi í Hafnarfirði. Bárust áflogin siðan út á götu, fyrir framan veitingahúsið. Er sagt, að amerísku hermennirnir hafi beðið þar lægri hlut. Tóku þeir þá til skotvopna. Var einn Íslendinganna, Þórður Sigurðsson, skotinn i kviðinn, en annar i ristina. Ameríska herlögreglu bar þá að þarna og flutti hermennina burt, en Þórður var tafarlaust fluttur i sjúkrahús og lá þar þungt haldinn, þar til að hann andaðist s. l. miðvikudagskvöld af völdum skotsársins. Yfirhershöfðingi ameríska setuliðsins og sendiherra Bandaríkjanna hafa tjáð forsætisráðherra afsökun sína út af þessum atburðum og lýst því yfir, að hinir amerísku hermenn hafi borið vopn í leyfisleysi og verði ríkt gengið eftir þvi framvegis að slíkt komi ekki fyrir.“

Hermennirnir hlutu fimm ára fangelsisdóm fyrir morðið.

Skotinn í hnakkann

Laugardaginn 14. mars árið 1942 gerðist sá hroðalegi atburður að amerískur hermaður skaut Gunnar Einarsson í hnakkann í gegnum bílrúðu í bifreið sem Gunnar var farþegi í. Gunnar lést af sárum sínum.

Gunnar Einarsson

Dagblaðið Verkamaðurinn skrifaði harðorða frétt, viku seinna, þann 21. mars, enda vakti málið óhug og reiði Íslendinga um allt land.

„Hroðalegur glæpur.

Amerískur hermaður myrðir íslenzkan mann.

S.l. laugardagskvöld gerðist sá atburður í Sogamýri við Reykjavík, að amerískur varðmaður skaut Gunnar Einarsson, starfsmann hjá Kol & Salt h.f., til bana, þar sem hann var á ferð, í bíl, með kunningja sínum, Magnúsi Einarssyni, framkvæmdastjóra Dósaverksmiðjunnar.
Fara hér á eftir helstu atriðin úr skýrslu, sem Magnús Einarsson hefir gefið sakadómara um þetta mál.

Gunnar Einarsson var staddur hjá Magnúsi, á laugardagskvöldið, en hann býr að Sogamýrarbletti 54. Kl. 10.15 ætlaði Magnús að aka Gunnari heim í bifreiðinni R 1183, en hún er með hægri handar stýri. Ók Magnús bifreiðinni, en Gunnar sat við hlið hans. Þeir ætluðu að koma við í Laufskálum á leiðinni, en þeir liggja við Engjaveg, en að honum liggur
tröðningur frá Suðurlandsbrautinni. Liggur troðningurinn rétt vestan við herbúðirnar „Hálogaland Camp“, en þar dvelja amerískir hermenn. Rétt fyrir norðan þann stað, þar
sem beygt er út af Suðurlandsbrautinni voru þeir stöðvaðir af amerískum varðmanni. Kom hann hægra megin að bílnum — þeim megin er Magnús sat — og inti þá eftir hvert förinni væri heitið. Svöruðu báðir samtímis, en Magnús segir, að hann skilji ekki vel ensku og tók hann því ekki vel eftir, hvað þeim Gunnari og varðmanninum fór á milli, en því lauk á þann veg, að varðmaðurinn sagði „all right“ og leyfði þeim að halda áfram. En þegar þeir höfðu ekið um fjórar bifreiðalengdir stöðvaði annar varðmaður þá og kom hann vinstra megin að bílnum — Gunnars megin — og talaði við hann. Sögðu þeir þrjár til fjórar setningar hvor, og fór varðmaðurinn síðan frá bílnum, svo ekki var hægt að skilja þetta öðru vísi, en að þeir mættu halda leiðar sinnar með samþykki hans. Ók Magnús þá af stað, en þegar hann hafði ekið um 3—4 bílalengdir kvað við skot. Áleit hann að það væri þeim óviðkomandi, en
stöðvaði þó bifreiðina til vonar og vara. Tók hann þá eftir því að framrúða bílsins var mölbrotin og í sama mund hné höfuð Gunnars á vinstri öxl hans. Leit hann þá framan í Gunnar og sá, að blóð streymdi úr vitum hans, og þegar hann þreifaði á höfði hans fann
hann skotsár á hnakkanum. Fór Magnús strax úr bílnum, en í því bili kom hópur Bandaríkjahermanna þarna að og tóku þeir Gunnar út úr bílnum. Virtist Magnúsi hann þá látinn, en hann mun ekki hafa andast fyr en um klukkan 3 um nóttina.

Þessi atburður hefir vakið hrylling og viðbjóð um allt land. Ameríski herinn hefir áður framið hér óhæfuverk, en nú er gengið feti framar og virtist mönnum þó áður nóg komið af óhappaverkum „verndara“ okkar. Enginn íslendingur fær skilið, að ameríska hernum sé nauðsynlegt að myrða íslenska menn til þess að vernda öryggi ameríska hersins. Vér fáum ekki séð, að öryggi ameríska hersins sé stefnt í hættu, þó látið sé vera að beita skotvopnum gegn vopnlausum Islendingum. Reynsla bretska setuliðsins hér á landi bendir ekki til þess að nauðsynlegt sé að beita glæpamannaaðferðum í umgengni við þá menn, sem eru undir „vernd“ ensku og amerísku setuliðanna. Það væri betur, að ameríski herinn sýndi meiri dugnað, í baráttunni gegn Japönum, en að skjóta vopnlausa íslendinga aftan
frá. Slíkur atburður, sem þessi má ekki endurtaka sig. íslenska þjóðin krefst þess, að gerðar verði tafarlaust ráðstafanir til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Ríkisstjórnin verður að halda fast og skörulega á rétti íslendinga í þessu máli, og ekki láta þann málflutning niður falla fyr en trygt er að amerísku hermennirnir komi fram í viðskiftum sínum við íslendinga,
sem fulltrúar siðmenningarþjóðar en ekki sem fyrirlitlegir glæpamenn. Á þann eina hátt verður best borgið öryggi íslendinga og öryggi og sæmd ameríska hersins.“

Hermaðurinn var sýknaður af herrétti en ökumaður bifreiðarinnar hafði ekki hlýtt skipun hermannsins um að stöðva.

Hinn kolsvarti hvítasunnudagur

Það er hvítasunnudagur. Tveir drengir leika sér við varðstöð Bandaríkjahers við Hallveigarstíg og annar þeirra fer upp í bíl á vegum hersins og startar bílnum. Hermaður sem hafði haft afskipti af þeim rétt áður, rekur drenginn út úr bílnum og drengurinn hlýðir. Hermaðurinn gengur upp að drengnum og leggur byssuhlaup við gagnauga hans. Og tekur í gikkinn. Lífvana drengurinn dettur í jörðina. Þessi hvítasunnudagur er orðinn kolsvartur. Þetta var árið 1942.

Jón H. Benediktsson

Í blaðinu Íslendingur er atvikinu svo lýst:

„Á hvítasunnudag kl. 11 árdegis gerðist sá óheyrilegi atburður í Reykjavík, að amerískur hermaður skaut 12 ára dreng til bana, er var að leik með öðrum dreng nálægt
varðstöðvum hermannsins. Þetta furðulega glæpaverk gerði hvítasunnuhátíðina að sorgardegi í Reykjavík og annarsstaðar, er fregnin spurðist. Drengurinn hét Jón Hinrik Benediktsson og átti heima aö Ingólfsstræti 21 í Reykjavík. Hermaðurinn og yfirmenn hans
voru óðar handteknir, en herstjórn og sendiherra Bandaríkjanna lýstu yfir harmi sínum yfir þessum atburði. Málið er enn ekki upplýst að fullu, en frekari upplýsingar hljóta að varða gefnar mjög bráðlega.“

Í Morgunblaðinu var fjallað ítarlega um málið en meðal þess sem fram kom þar voru frásagnir nokkurra vitna.

Ein frásögnin kemur frá leikbróður Jóns, Guðmundi.

„Fyrir hádegi í dag hitti jeg leikbróðir minn, Jón Hinrik Benediktsson. Hann ætlaði að
kaupa sjer filmu í myndavjel og fór jeg með honum í Lyfjabúðirnar Ingólfs Apótek,
Reykjavíkur Apótek og Lauga-,vegs i Apótek, én hvergi var filmu að fá. Þegar við komum
úr Laugavegs Apóteki gengum við suður Bergstaðastræti óg niður Hallveigarstíg, framhjá
herstöðinni, sem er þar norðanmegin götunnar. Við stoppuðum móts við hermann, sem stóð á verði á Hallveigarstígnum, móts við herbúðirnar. Svo kom hermaður og festi upp auglýsingu í varðmannsskýlið. Við Jón fórum að skýlinu og lásum auglýsinguna. Svo gengum við niður með girðingunni, niður að Ingólfsstræti. Jeg var með skammbyssu, tálgaða úr trje. Jón kippti af mjer byssunni og henti henni yfir girðinguna inn á milli herbúðanna. Jón stökk svo aftur upp á móts við varðmanninn og jeg sagði honum
að ná í byssuna. Um sama leyti tók hermaður byssuna og kastaði henni út fyrir girðinguna og greip hana þá lítill strákur, sem var þar fyrir utan. Jón hljóp inn um hliðið á girðingunni, framhjá varðmanninum. Varðmaðurinn kallaði þá til hans og, að mjer skildist, skipaði honum að koma út og hlýddi Jón því strax. Jeg var með dolk í slíðri, sem var fest í strenginn á buxunum mínum og tók jeg nú dolkinn og fór að kasta honum í ljósastaur, sem stendur skamt frá stað þeim, sem varðmaðurinn stóð á og var jeg að reyna að láta oddinn stingast í staurinn. Jeg lánaði svo Jóni dolkinn og hann gerði það sama og jeg, kastaði honum í staurinn og reyndi að láta oddinn stingast í trjeð. Þar næst fór Jón upp í lítinn bíl, sem stóð við girðinguna, rjett hjá varðmanninum. Jón fiktaði við stýrið á bifreiðinni, en gerði ekki annað. Varðmaðurinn kom þá út úr skýlinu og kallaði til Jóns og fór Jón þá niður úr bílnum.

Þá vildi jeg fara heim, en Jón sagði að við skyldum bíða til kl. 12, því þá mundu hermennirnir gefa okkur epli, það væri hátíðisdagur hjá þeim í dag. Jeg var til með að bíða. Við stóðum svo þarna á götunni og töluðum eitthvað saman. Svo fór Jón aftur upp í sama bílinn og áður og fór þá að ,starta’ bílnum. Varðmaðurinn kom þá aftur út úr byrginu, gekk að bílnum og skipaði honum út úr bílnum, að því er mjer skildist.Jón hlýddi því strax og fór út úr bílnum. Jón fór svo upp að girðingunni bak við bílinn og jeg kom þangað til hans. Varðmaðurinn var með stóra byssu, jeg heyrði og sá að hann spenti byssuna upp. Þá var hann götumegin við bílinn. Svo gekk hann að Jóni og beindi byssuhlaupinu að höfðinu á honum, svo reið skotið af, Jón fjell í götuna og jeg sá að blóð rann úr vitum hans. Varðmaðurinn gekk svo í burtu án þess að hreyfa neitt við Jóni, en jeg hljóp í burtu
niður á Ingólfsstræti og svo skemstu leið heim til mín.“

Gunnlaugur Magnússon skrifstofumaður var eitt af vitnunum.

„Jeg bý á fyrstu hæð hússins Hallveigarstíg 2, og er þar herbergi mitt austan megin við for-
stofuinnganginn og snýr herbergisglugginn út að Hallveigarstígnum. 1 morgun, þegar jeg
var að klæða mig, varð mjer litið út um herbergisgluggann og sá þá hermenn standa við endann á bifreið, sem stóð rjett fyrir vestan varðmannsskýlið. Hermaðurinn beindi byssu að
dreng, sem stóð þar fyrir framan hann upp við girðinguna. Á næsta augnabliki heyrði jeg
skothvell og drengurinn datt niður í götuna og lenti með höfuðið ofan í litlum vatnspolli, sem var þar á götunni á milli girðingarinnar og bílsins. Hermaðurinn gekk svo í burtu og inn í herbúðirnar, en nokkrir hermenn komu út í girðingarhliðið og einn hermaður gekk að
drengnum með teppi og breiddi yfir hann. Alveg rjett á eftir komu tveir hermenn með börur og báru drenginn inn í herbúðirnar. Jeg heyrði ekki nema einn skothvell.“

Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á stríðsárunum hét Lincoln MacVeagh en hann sendi yfirlýsingu á alla helstu fjölmiðla landsins þar sem hann harmaði atburðinn.

„Það hefir fengið mjög á alla sanna Bandaríkjamenn við frjettirnar um hinn sorglega atburð. Við erum hjer á íslandi sem vinir íslands til að gera gott en ekki ilt og við óskum að hjálpa landinu á allan mögulegan hátt. Við lítum á það sem heiður fyrir okkur að dvelja hjer, og okkur er það sjerstakur harmur að við skulum vera valdir að sorg hjer á landi. Verið er að rannsaka þetta mál, en það er hægt að segja það strax, að það er sjerstaklega hræðilegt í augum Bandaríkjamanna sem elska börn, að drengurinn skuli hafa verið skotinn til bana. Hin harmi lostna fjölskylda og allir sorgmæddir Islendingar mega vera vissir um, að óteljandi Bandaríkjamenn syrgja með þeim af heilum hug.“

Málið vakti skiljanlega mikinn óhug á Íslandi enda ekki á hverjum degi sem morð var framið á landinu, hvað þá á barni. Hermaðurinn sagði skotið hafa verið slysaskot, en hann fór fyrir herrétt í Bandaríkjunum. Alþýðublaðið sagði svo frá úrskurðinum í málinu:

„Mál litla drengsins, Jóns Benediktssonar, sem skotinn var til bana af ameríkskum hermanni síðastliðinn hvítasunnudagsmorgun: Hermaðurinn reyndist sjúkur af brjálsemi. Var hann
sendur í geðveikrahæli í Bandaríkjunum.“

Morðið á Steinunni

Þökk sé Gísla Jökli Gíslasyni lögreglumanns, hefur nú komið í ljós með nokkuð óyggjandi hætti að hin þrettán ára Steinunn Sigurðardóttir lést ekki úr heilahimnubólgu 19. apríl 1945, líkt og skráð er í dánarvottorði hennar, heldur vegna höfuðhöggs sem hún hlaut í árás hermanns, þremur mánuðum áður.

Steinunn Sigurðardóttir
Ljósmynd: Andvari

Gísli Jökull var í viðtali hjá Rúv á dögunum þar sem hann sagðist hafa birt færslu á Facebook-hópnum Gamlar ljósmyndir, þar sem hann fjallar um þau morð sem hermenn frömdu hér á landi á stríðsárunum. Þá hafi Herdís Dögg Sigurðardóttir skrifað athugasemd og bent honum á að hann hefði gleymt frænku hennar, Steinunni Sigurðardóttur eða Lillu líkt og vinir og ættingjar kölluðu hana jafnan. Og þannig fór boltinn að rúlla. Ekki voru til miklar heimildir um árásina en eina frétt fann Gísli, minningargrein og gamla dagbókarfærslu lögreglunnar. Sagði hann í viðtali við RÚV að allar líkur væru á að Steinunn hefði hlotið höfuðhögg í árásinni, sem síðan hafi dregið hana til dauða, þremur mánuðum síðar. „Hún hefur án efa fengið höfuðhögg, því að þær lýsingar eru til hjá fjölskyldunni að hún var eiginlega ófær um nokkuð eftir þetta,“ sagði Gísli. „Hún var alltaf rúmliggjandi, með mikinn höfuðverk, og svo deyr hún nokkrum mánuðum seinna.“ Bætti hann við: „Heilahimnubólga og alvarlegur höfuðáverki eru með mjög lík einkenni.“

Hér má sjá frétt Alþýðublaðsins um árásina:

„Ný árás:Hermaður ræðst á 13 ára telpu á Laugarnessvegi.

Það lítur svo út, sem óhæfuverk hermannsins sem réðst á stúlkuna á Ásvallagötunni á sunnudagskvöldið hafi smitað út frá sér, því í fyrrakvöld var önnur árás gerð af hermanni, á 13 ára telpu inn á Laugarnesvegi, og særðist stúlkan á hníf, sem hermaðurinn otaði að henni.

Klukkan um hálfellefu á mánudagskvöldið var lögreglan kvödd inn á Laugarnesveg og hitti hún þar telpuna, sem skýrði frá því, að hermaður hefði ráðist á sig og otað að sér hníf, er hún hefði ekkí viljað fylgjast með honum. Kvaðst hún hafa verið á gangi suður Laugarnesveginn og hermaður veitt sér eftirför, og ávarpað sig, en hún gaf því engan gaum — og hélt áfram. Veit hún þá ekki fyrri til, en hermaðurinn ræðst á hana og ætlar að draga hana út fyrir veginn, en hún streyttist á móti. Tók þá hermaðurinn upp hníf og otar að henni, en hún ber að sér lagið, en hlýtur við það skurð á hægri hendi. Ennfremur meiddist telpan á hné í viðureigninni.

Rétt í þessu ók bifreið um. veginn og staðnæmdist rétt hjá þeim. Við það brast hetjuna móðinn og tók til fóta sinna og flýði í burt, en telpan fór inn í næsta hús, og var þar gert að sárum hennar, og fór hún því næst heim til sín.“

ÚR dagbók lögreglunnar um árásina.
Skjáskot af RÚV.

Kennari Steinunnar skrifaði hjartnæma minningargrein um hana í Morgunblaðinu sem má lesa hér að neðan:

„ÞAÐ ER dimmur vetrardagur. Litlu skólabörnin, 7 ára gömul, lúta yfir verkefnin sín: fyrstu söguna — fyrstu heilu bókina, sem þau eiga að skila. Hæglát og prúð stúlka stendur fyrst á fætur, gengur til kennarans og rjettir fram bókina sína. Jú, þarna er alt eins og um var beðið: Sagan fyllir út bókina, 4 blaðsíður, 2 línur á hverri, hreinlega skrifað. Og með gleðiblik í augum, svo hógvært, að það sjest aðeins ef vel er að gætt, segir litla stúlkan: „Jeg truflaðist aldrei“. — Þetta var Steinunn Sigurðardóttir, sem foreldrar og nánustu vinir kölluðu Lillu. Sex ár hafa liðið. Lilla stundaði námið í sama hópnum — með ljúflyndi og prúðmensku, sem aldrei truflaðist. Jeg minnist þess ekki, að bekkjarsystkini hennar ættu nokkurntíma við hana misklíðarefni. Kurteis og mild var hún öllum hugþekk. Á fyrstu sólskinsstund þessa sumars, er öll íslensk börn halda sína persónulegu fagnaðarhátíð, barst okkur fregnin um andlát Lillu. Á fyrsta fullnaðarprófs degi sínum fengu bekkjarsystkini hennar öll að vita, að Lilla hafði þegar •— fyrst okkar allra — lokið þyngsta fullnaðarprófi lífsins. Lokið því með sinni hlýju, traustu hógværð — án þess að truflast. Og minningarnar fögru og hlýju í hjörtum foreldra hennar, systkina og allra vina munu heldur ekki truflast. — Við vonum öll að fá síðar að fagna henni í þeim heimi, þar sem viðkvæmni og blíða er meira metin en oft vill verða í þeim heimi, sem við nú lifum í.
J.E.“

Þetta samansafn Baksýnisspegla birtist í fimmta tölublaði Mannlífs sem kom út í apríl 2023 og má lesa hér.

„Hver þarf svefntöflu þegar horft er á Ítali spila fótbolta?“

Glúmur Baldvinsson hefur áhuga á fótbolta og veit ýmislegt um þá göfugu íþrótt. Hefur skoðanir og tjáir þær:

Glúmur Baldvinsson.

„Hver þarf svefntöflu þegar horft er á Ítali spila fótbolta?“

Glúmur hélt sér ekki vakandi yfir leik Ítala og Albana á EM sem fram fer í Þýskalandi þessa dagana og vikurnar:

„Sjálfur hrýt ég og dotta sem er afar ólíkt mér þegar kemur að fótbolta.“

Glúmur segir það afar óvenjulegt:

„Þá er ég undir öllum eðlilegum kringumstæðum trylltur og í froðufellandi geðrofi.“

 

Glúmur segir Ítalina vera leiðinlegri en heilan þingflokk hér á landi:

„En ó nei, ekki þegar Ítalir mæta til leiks. Leiðinlegri en allur þingflokkur Pírata talandi samtímis.“

Bílastæðasjóður blæs út og bólgnar – Stækkun á gjaldsvæði 1 við Háskóla Íslands

Breytingar verða innleiddar á gjaldsvæðum bílastæða í Reykjavík innan tíðar; einkum er hér um að ræða stækkun á gjaldsvæði 2 – en talningar frá því í árslok 2023 sýna fram á mikla og stöðuga nýtingu bílastæða á jöðrum núverandi gjaldsvæða, en þetta kemur fram á vefsíðunni eirikurjonsson.is.

Kemur fram að breytingarnar voru samþykktar; samþykktar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Þá verður stækkun á gjaldsvæði 1 við Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands.

Um er að ræða stækkanir á eftirfarandi gjaldsvæðum:

Gjaldsvæði 1: Sturlugata 2.

Gjaldsvæði 2: Aragata Egilsgata, bílaplan við Hallgrímskirkju Eiríksgata, bílaplan við Hallgrímskirkju Oddagata Seljavegur Sæmundargata Vesturgata milli Ánanausta og Stýrimannastígs.

Sandra var dæmd fyrir að myrða bókasafnsvörð – Sat saklaus í fangelsi í 43 ár

Sandra Hemme.

Bandarísk kona að nafni Sandra Hemme – sem setið hefur í fangelsi í heil 43 ár fyrir morð –  hefur nú verið látin laus; dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að hún væri alsaklaus.

Sandra var árið 1980 dæmd fyrir að morðið á bókasafnsverðinum Patriciu Jeschke.

Í dag er staðan allt önnur. Og betri. Fyrir Söndru.

Dómstóll í ríkinu Missouri í Bandaríkjunum segir að nú séu komin fram ný gögn sem afsanna að Sandra hafi myrt Patriciu.

En hver myrti hana þá?

Vísbendingar eru nú til staðar um að sá seki sé mögulega lögreglumaður er síðar var fangelsaður fyrir annað brot: Hann nú látinn.

Sandra var einungis tvítug að aldri er hún var handtekin; hún var þá undir áhrifum áfengis og annarra fíkniefna, og gaf misvísandi svör um manndrápið.

Nú er hún loksins laus úr haldi.

Egill Helgason spyr: „Er ekki eðlilegt að sendiráðið sé á Tene eða í Torrevieja frekar en Madrid?“

Egill Helgason.

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason er ávallt með puttann á púlsi samfélagsins og er ófeiminn við að viðra skoðanir sínar.

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands á Spáni.

Egill segir að það sé í undirbúningi hjá ríkisstjórninni að opna sendiráð á Spáni.

Ríkisstjórn Íslands 2024.

Og Egill er með það á hreinu hvar sendiráð þetta eigi að rísa – eða því sem næst:

Frá Tene.

„Það stendur til að opna sendiráð Íslands á Spáni. Mun vera mikið álag á ræðismönnum. En er ekki eðlilegt að sendiráðið sé á Tene eða í Torrevieja frekar en Madrid?“

Tjónið í Kringlunni er gríðarlega mikið – Slökkviliðið þurfti að rjúfa hluta af þakinu

Mynd: Skjáskot af mbl.is.

Slökkviliðið lauk ekki störf­um við Kringl­una fyrr en um klukk­an eitt í nótt, en eins og hefur áður komið fram þá – á fjórða tím­an­um í gær – braust út eld­ur í þaki í aust­ur­hluta bygg­ing­ar­inn­ar. Nú er alveg ljóst er að tjónið er mikið.

Í samtali við mbl.is sagði Jónas­ Árna­son­, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins, að síðustu bíl­ar slökkviliðsins hafi horfið af vett­vangi um klukk­an eitt í nótt; áætl­ar Jónas að ábilinu 50 til 60 manns hafi tekið þátt í slökkvi­starf­inu í Kringlunni.

Jón­as telur að tjónið vegna eldsvoðans sé gríðarlega mikið; af völd­um vatns og reyks; fram und­an sé afar mik­il vinna eft­ir slökkvi­starfið.

Kemur fram að slökkviliðið þurfti að rjúfa hluta af þaki Kringlunnar í gær­kvöld til að tryggja að eng­inn eld­ur logaði í eld­hreiðrum.

Eins og kom fram á Mannlífi í gær þá voru iðnaðar­menn voru við störf á þak­inu þegar eld­ur­inn kviknaði og er talið lík­legt að hann hafi kviknað þegar verið var að bræða þakpappa.

Raddir