Mánudagur 18. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Lögreglan gerði húsleit á tveimur bóndabæjum nærri Hvolsvelli – Hasshundur þefaði upp vopnabúr

Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og lögreglan á Hvolsvelli komst heldur betur í feitt þegar gerð var húsleit á tveimur bæjum í nágrenni Hvolsvallar þriðjudaginn 22. nóvember 1994. Á öðrum bóndabænum fannst heilt vopnabúr og hellingur af ólöglegu bruggi.

Tveimur mánuðum áður hafði lögreglan hafið áták gegn bruggi og hafði lokað um tuttugu bruggverksmiðjum. En bruggararnir á þessum bóndabæ voru einnig afar vel vopnum búnir en þar fundust meðal annars tvær haglabyssur, lásbogi, gaddakylfa og rifill með hljóðdeyfi. Ábúandi bæjarins hafði oft komið við sögu lögreglu.

Á hinum bænum fannst einnig mikið magn af bruggi og sykri en konan sem bjó á bænum sagðist eiga við áfengisvanda að stríða og að sykurinn væri til sultugerðar. Var hún handtekin á staðnum en lögreglunni hafði borist upplýsingar um að landi væri framleiddur á bænum til dreifingar á höfuðborgarsvæðinu.

Hér má lesa frétt DV af málinu:

Húsleit á tveimur bæjum í nágrenni Hvolsvallar í gær:

Heilt vopnabúr fannst við leit í dóp- og bruggbæli

– lögregla lagði hald á bruggtæki og töluvert af landa

Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og lögreglan á Hvolsvelli gerðu húsleit á tveimur bæjum í nágrenni Hvolsvallar í gærdag. Á öðrum staðnum var lagt hald á mikinn fjölda vopna, um 20 lítra af landa, 100 lítra af gambra í suðu og eimingartæki. Einnig var lagt hald á áhöld til neyslu fíkniefna á sama stað og torkennilegt duft sem ekki hafði verið efnagreint í morgun.

Morðtól falin í hlöðu

Það var laust eftir hádegi sem lögreglan renndi í hlað á fyrri bænum en þar er takmarkaður hefðbundinn búskapur. Enginn var handtekinn en inni í húsinu fundust tvær haglabyssur, skotfæri, lásbogi og örvar, illa hirt kanabisplanta og, eins og fyrr sagði, landi, gambri og mörg áhöld til fíkniefnaneyslu. Við ítarlegri leit í hlöðu við bæinn fann hasshundur fíkniefnadeildar tösku sem í var fjöldi hnífa, gaddakylfa og byssur. Var hér um að ræða fjaðurhnífa, rakhnífa og veiðihnífa með allt að 30 sentímetra löngu blaði. Einnig var þar afsöguð haglabyssa og riffill með hljóðdeyfi fannst á milli heybagga.
Ábúandinn á bænum hefur oft komið við sögu fíkniefnalögreglu. Ekki er talið útilokað að eitthvað af heimilismunum séu þýfi úr innbrotum.

Kristján Ingi Kristjánsson, yfirmaður ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar, sagði í samtali við DV í gær að hann hefði orðið áhyggjur af aukinni vopnaeign í fíkniefnaheiminum sem gæti leitt til aukinnar hörku. Benti hann á þann fjölda vopna sem fannst við leitina í gær því til staðfestingar.

Sykur til sultugerðar

Síðdegis létu lögregluembættin svo til skarar skríða á öðrum bæ í nágrenninu. Upplýsingar höfðu borist um landa, eimaðan á bænum, í dreifingu á höfuðborgarsvæðinu.
Þar var kona á fertugsaldri handtekin og færð til yfirheyrslu eflir að öflug eimingartæki, landi og gambri fundust við húsleit á bænum. Um var að ræöa á annan tug lítra af áfengi og 100 lítra af gambra sem konan sagði að væri að hluta til í eigu systur sinnar en annars í sinni eigu. Í landann hafði verið blandað bragðefnum og honum tappað á hinar ýmsu tegundir af áfengisflöskum. Má þar nefna viskí, koníak, líkjöra, vodka og fleira. Við húsleit fannst einnig talsvert magn af sykri sem ætla mætti að væri til frekari áfengisgerðar en húsfreyjan á bænum sagði hann ætlaðan til sultugerðar. Áfengið kvað hún til eigin nota en engin óregla væri þó á heimilinu. Gott væri hins vegar að fá sér dreitil með kaffinu á kvöldin að loknu amstri dagsins.
Frá því að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar tók við rannsókn bruggmála fyrir um tveimur mánuðum hefur deildin upprætt vel á annan tug bruggverksmiðja í Reykjavík og nágrenni og á Suður- og Vesturlandi. Ýmist hefur hún verið ein á ferð eða í samvinnu við önnur embætti og einnig slökkviliðið. Er hér um verulega aukningu að ræða frá því sem áður var.

 

 

Slasaðir úr rútuslysinu á Öxnadalsheiði komnir til Akureyrar: – Þjóðvegur 1. er lokaður fram á nótt

Frá vettvangi rútuslyssins í Öxnadal. Mynd: Lögreglan.

Þjóðvegur 1 um Öxnadal er enn lokaður og verður eitthvað fram eftir kvöldi, jafnvel fram eftir nóttu, segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Alvarlegt rútuslys varð á Öxnadalsheiði laust eftir klukkan 17 í dag. 23 erlendir farþegar voru í rútunni sem valt. Margir þeirra eru slasaðir en ekki liggja fyrir upplýsingar um ástand farþeganna.

Lögreglan hvetur þá sem þurfa að komast á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar í kvöld að fara fyrir Tröllaskagann í gegnum Siglufjörð og Ólafsfjörð.

Flestir farþegar hafa nú verið fluttir af vettvangi og á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þar fer fram frekari greining og þá eru tvær sjúkraflugvélar klárar á Akureyri og þyrla Laandhelgisgæslunnar er komin til Akureyrar og mun flytja slasaða til Reykjavíkur.

Illugi hlær að nýrri bók um fjallkonuna: „Innflutt uppfinning nokkurra þjóðrembukalla“

Illugi Jökulsson

Illugi Jökulsson finnst fyndið að forsætisráðuneytið gefi nú þjóðinni út bókina Fjallkonan „Þú ert móðir vor kær“ í tilefni af 80 ára lýðveldisafmæli Íslands.

Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson segir það afar fyndið að árið 2024 eigi að „reyna að telja okkur trú um að „fjallkonan“ sé eða hafi verið eitthvert raunverulegt fyrirbæri í íslenskum hugarheimi fyrri alda en ekki innflutt uppfinning nokkurra þjóðrembukalla á ofanverðri 19. öld og upphafi þeirrar 20.“ Facebook-færsla Illuga, þar sem hann talar um fjallkonuna, hefur vakið gríðarlega mikla athygli en hátt í 500 manns hefur líkað við hana og yfir hundrað athugasemdir hafa verið skrifaðar við hana.

Hér má lesa heildarfærsluna:

„Þið fyrirgefið fjórtán sinnum en það er eiginlega alveg stórkostlega fyndið ef nú, árið 2024, á að reyna að telja okkur trú um að „fjallkonan“ sé eða hafi verið eitthvert raunverulegt fyrirbæri í íslenskum hugarheimi fyrri alda en ekki innflutt uppfinning nokkurra þjóðrembukalla á ofanverðri 19. öld og upphafi þeirrar 20. Ég hef unnið við það í bráðum 40 ár að garfa í íslenskum hugarheimi fyrri alda og lesið ókjörin öll af þjóðlegum fróðleik, þjóðsögum, kveðskap og æviminningum alls konar. Þessi fjallkona fyrirfinnst þar hvergi. Ég segi og skrifa: HVERGI og ALDREI.“

Sviptingar í lífi Katrínar Jakobsdóttur: „Hún féll í tvígang á prófi stjórnmálanna“

Katrín Jakobsdóttir. Ljósmynd: Instagram.
Björn Birgisson samfélagsrýnir skrifar um Katrínu Jakobsdóttur í nýrri Facebook-færslu.

Samfélagsrýnirinn og fyrrum ritstjórinn Björn Birgisson frá Grindavík, skrifar um þær miklu sviptingar í lífi Katrínar Jakobsdóttur, í nýrri Facebook-færslu. Tilefnið er fréttir af því að Katrín hafi leitt gesti um Þingvelli í tilefni af 80 ára lýðveldisafmæli Íslands.

„Katrín Jakobsdóttir leiddi gesti um Þingvelli.

**********
Sviptingarnar í hennar lífi eru að líkindum fordæmalausar.
Sem fyrrverandi efnilegur og farsæll stjórnmálamaður, formaður flokks, alþingismaður, forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, leiddi Katrín gesti og gangandi um Þingvelli í tilefni af því að 80 ár eru senn liðin frá stofnun lýðveldis Íslands á Þingvöllum.
Fyrrverandi allt þetta og orðin leiðsögumaður, tímabundið væntanlega, en Katrín er sérfróð um sögu Þingvalla og hvernig staðurinn er samofinn sögu landsins.
Margir töldu að Katrín yrði nánast sjálfkjörin í embætti forseta Íslands og hún hefur alla burði til að gegna því embætti með sóma.“

En Björn segir að Katrín hafi í tvígang fallið á „prófi stjórnmálanna“:

„En hún féll í tvígang á prófi stjórnmálanna.
Annars vegar haustið 2017 þegar hún gekk til samninga við hægri öflin í landinu og svo þegar hún skildi við stjórnmálin í vor með því að sjá til þess að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra þjóðarinnar þegar hún væri stokkin frá borði.
Vitnisburður um að þetta mat sé rétt er mælt fylgishrun Vinstri grænna og svo árangur Katrínar í forsetakosningunum.
Það hafa margir sem kenna sig við vinstrimennsku í stjórnmálum brennt sig á samstarfi til hægri.
Slíkt samstarf er alltaf talið til svika.“

Svart – ljóð

Svart kaffi Ljósmynd: Samer Daboul, pexels.com

svart

ég ætlaði
að laga kaffi
eftir enn eina
svefnvana nóttina

en eftir
að hafa vesenast
við það
um drykklausa
stund

áttaði ég mig
á því að
það var ekki kaffið
sem var of bragðdauft
heldur líf mitt

og það var ekki kaffið
sem var of svart
heldur sál mín

það var ekki kaffið
sem þurfti
að laga

Höfundur: Lubbi klettaskáld

Jón vill láta rannsaka meinta glæpi sína: „Þetta er hálfgert örþrifaráð“

Jón Jónsson. Ljósmynd: Reynir Traustason

Jón Jónsson þjóðfræðingur á Hólmavík á Ströndum hefur nú beðið sveitarstjórn Strandabyggðar um leyfi til að hefja undirskriftarsöfnun þar sem þess er krafist að rannsókn verði gerð á meintum glæpum Jóns, sem hann hefur verið sakaður um af starfsfólki Strandabyggðar. Eiginkona hans hefur sagt upp starfi sínu og vill flytja úr bæjarfélaginu vegna málsins.

Jón Jónsson.
Ljósmynd: Reynir Traustason

Þjóðfræðingurinn Jón Jónsson segist hafa setið undir ásökunum um stórfelldan þjófnað á fjármunum úr sjóðum Strandabyggðar, auk annarra glæpa, af hendi „lykilstarfsmanna“ sveitarfélagsins. Og nú vill hann að meintu glæpir hans verði rannsakaðir en meðal ásakana sem hann hefur fengið er stuldur upp á ríflega 61 milljónir króna. Jón skrifaði um málið á Facebook í gær:

„ÍBÚAKOSNING UM RANNSÓKN Á MEINTUM GLÆPUM

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók fyrir erindi frá mér á fundi sínum í vikunni. Þar var ég að tilkynna að ég ætla að standa fyrir undirskriftasöfnun og fara fram á íbúakosningu í sveitarfélaginu. Málið snýst um þær ásakanir frá lykilstarfsfólki Strandabyggðar sem ég sjálfur hef þurft að sitja undir, m.a. um sjálftöku fjármuna úr sjóðum sveitarfélagsins á meðan ég sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili. Einungis er miðað við þær skriflegu ásakanir sem bornar hafa verið fram af starfsfólki sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili. Ég vil semsagt að meintir glæpir mínir verði rannsakaðir af óháðum aðila og þessar ásakanir um leið. Það er allra hagur að öll þessi mál séu upplýst og ef um sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða á auðvitað að krefjast endurgreiðslu.“

Þannig hefst færsla Jóns en hann segist vera að þessu af því að hann sætti sig ekki við „þessa atlögu að mannorði“ sínu og að um „hrein ósannindi og rógburð sé að ræða“.

„Hvers vegna ertu að þessu? kann það fólk að spyrja, sem finnst betra að allt sé í ró og spekt og engum bát sé ruggað. Það er vegna þess að staðan hefur ekkert breyst frá því að þessar ásakanir voru bornar fram, síðasta haust. Ég sætti mig ekki við þessa atlögu að mannorði mínu og tel að um hrein ósannindi og rógburð sé að ræða.“

Jón segist hafa árangurslaust reynt að kalla eftir rökstuðningi við ásökunum en engin svör fengið.

„Ég hef árangurslaust kallað eftir rökstuðningi fyrir þessum ásökunum. Engin svör eða sönnunargögn hafa þó verið lögð fram, en sveitarstjórn ýjar að því að slík gögn séu fyrir hendi – „sem til er hjá sveitarfélaginu“, segir í fundargerð frá desember á síðasta ári. Ég óskaði skýringa á þessu orðalagi, en fékk heldur engin svör við því. Í framhaldinu óskaði ég svo eftir að fá afhent öll gögn sem tengjast mér á tilteknu tímabili úr skjalasafni Strandabyggðar, með tilvísun til upplýsingalaga (hver einstaklingur á rétt á gögnum í skjalasöfnum stjórnvalda þar sem um hann er fjallað). Þetta sendi ég inn í janúar síðastliðnum. Þar voru þó engin sönnunargögn um meintan glæpaferil minn.“

En ástæðan fyrir því að Jón vill gera eitthvað í málinu er líka önnur, eiginkona hans vill flytja úr Strandabyggð vegna málsins.

„Það er satt best að segja líka annað sem er að ýta á mig að rekast í þessu, en eingöngu eigin metnaður fyrir því að mannorð mitt sé í skikkanlegu ástandi og orðsporið sanngjarnt. Ester konan mín tapaði að nokkru leyti starfsgleðinni í tengslum við þessar ásakanir og illt umtal sem varð áberandi um fólk, félög og menningarstofnanir hér í sveit. Hún er búin að segja upp sínu góða starfi á Sauðfjársetrinu og ætlar að hætta í sumarlok. Umræðan fær þannig meira á suma en aðra og ekkert við því að segja. Ester vill flytja suður á bóginn, segir að það sé ómögulegt að búa í samfélagi þar sem forsvarsfólk sveitarfélagsins getur fullyrt hvað sem er um aðra, án þess svo að þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum eða sanna ásakanir. Mig langar að búa hér lengur og er í ansi skemmtilegu starfi. Það er kannski dálítið barnalegt af mér að halda að óháð rannsókn á þessum ásökunum geti breytt einhverju í þessum efnum, en ég held samt í vonina og er viss um að hún myndi hreinsa andrúmsloftið í samfélaginu dálítið.“

Málið var tekið fyrir á fundi hjá sveitarstjórninni á þriðjudag en ætlar hún að taka sér tíma til að skoða það með lögfræðingi. Einn meðlimur stjórnarinnar þurfti að víkja af fundinum á meðan mál þetta var rætt en það var Þorgeir Pálsson en Grettir Örn Ásmundsson tók sæti hans á meðan. Þorgeir kom svo aftur á fundinn þegar málið hafði verið tekið fyrir.

„Hreppsnefndinni tókst ekki að afgreiða málið á fundinum á þriðjudaginn, hún virtist ekki hafa undirbúið sig nógu vel. Þau ætla að taka sér tíma til að skoða málið með lögfræðingi, en niðurstaðan hlýtur þó að verða sú að leyfa undirskriftasöfnun í samræmi við lög og efna svo til íbúakosningar um rannsóknina í framhaldinu. Mér finnst augljóst að öll geti kosið með rannsókn, bæði þau sem trúa ásökunum um afbrot og líka hin sem halda að þær séu yfir strikið.“

Segir Jón að sveitastjórnin hafi frestað að taka afstöðu í málinu en verði að svara í síðasta lagi 4. júlí en þangað til megi hann ekki hefja undirskriftarsöfnunina. „Ég skil ekki af hverju málinu var slegið á frest, í staðinn fyrir að svara strax.“

Mannlíf ræddi stuttlega við Jón í síma. „Þetta er ein leiðin sem fólk hefur til að fá mál tekin fyrir ef það gengur ekkert annað. Þetta er hálfgert örþrifaráð,“ segir Jón í samtali við Mannlíf.

Hér fyrir neðan má lesa bréf Jóns til sveitastjórnarinnar:

TILKYNNING UM UNDIRSKRIFTARSÖFNUN Í SVEITARFÉLAGINU
Berist sveitarstjórn Strandabyggðar

Ég tilkynni hér með, með vísun til sveitarstjórnarlaga, um fyrirhugaða undirskriftasöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað verður eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðar sveitarfélagið. Ætlunin er safna undirskriftum til að kosið verði um þá kröfu til sveitarfélagsins að það standi fyrir því að gerð verði óháð rannsókn á ásökunum lykilstarfsmanna sveitarfélagsins, sveitarstjóra annars vegar og íþrótta- og tómstundafulltrúa hins vegar, í garð íbúa og fyrrverandi sveitarstjórnarmanns, Jóns Jónssonar kt. 050468-4969 þjóðfræðings á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð.

Sérstaklega verði skoðaðar ásakanir um meinta sjálftöku Jóns á fjármunum úr sveitarsjóði í eigin þágu að upphæð kr. 61.423.961.- árin fyrir síðustu kosningar, en einnig aðrar ávirðingar sem bornar hafa verið fram. Tekið skal skýrt fram að hér er eingöngu um að ræða ásakanir sem settar hafa verið fram skriflega af umræddu starfsfólki Strandabyggðar og á núverandi kjörtímabili, þannig að málið beinlínis hlýtur að eiga heima á borði núverandi sveitarstjórnar. Krafan snýr einnig að því að niðurstaða þessarar óháðu rannsóknar verði síðan birt opinberlega.

Hagmunir sveitarfélagsins af því að málið sé upplýst er augljós, enda er eðlilegt að gerð verði krafa um endurgreiðslu ef um slíka sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða. Sama gildir um hagsmuni þess sem fyrir þessum ásökunum hefur orðið, það hlýtur að vera öllum ljóst að öll þátttaka hans í samfélaginu veltur á því að upplýst verði hvort ásakanir byggi á raunveruleikanum eða séu rógburður og ósannindi. Slíkt skiptir í senn verulegu máli fyrir stöðu viðkomandi á vinnumarkaði, í félagsstörfum, daglegu lífi og við ákvarðanatöku fjölskyldunnar um áframhaldandi búsetu á svæðinu.

Ábyrgðarmaður:
Jón Jónsson, kt. 050468-4969, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Tvær aðrar undirskriftir einstaklinga með lögheimili í sveitarfélaginu (eins og vera ber):
Ester Sigfúsdóttir, 230369-4299, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Dagrún Ósk Jónsdóttir, kt. 131293-2329, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Með kveðju, Jón

Hjón fengu raflost í heitum potti á hóteli í Mexíkó – MYNDBAND

Hjónin á góðri stundu
Hjón sem fengu raflost í heitum potti við hótel í Mexíkó á dögunum, hafa verið nafngreind. Eiginmaðurinn lést en konan er enn þungt haldin á sjúkrahúsi.

Samkvæmt saksóknaraembættinu í Sonora-ríki í Mexíkó eru einstaklingarnir sem erlendir fjölmiðlar sögðu frá í fyrradag, en þau urðu fyrir raflosti í heitum potti á hóteli í Mexíkó, hjónin Jorge Guillen og Lizzette Zambrano.
Samkvæmt yfirvöldum á staðnum lést Jorge af völdum raflostsins sem þau urðu fyrir í heita pottinum og er Lizzette sögð illa haldin á sjúkrahúsi.

Hvað varðar það sem leiddi til þessa hræðilega slyss, segir skrifstofustjóri saksóknaraembættisins í Sonora að verið sé að rannsaka orsök raflostsins en samkvæmt skýrslum fullyrða vitni að kona hafi reynt að komast inn í heita pottinn á þriðjudagskvöld þegar hún sá Jorge og Lizzette meðvitundalaus í pottinum.

Þegar konan hafi reynt að komast að hjónunum hafi hún sjálf fengið raflost og kallaði á hjálp, sem varð til þess að nokkuð kaótísk ástand skapaðist á svæðinu, sem sést á meðfylgjandi myndbandi.

Fjölskyldur hjónanna hafa hafið söfnun GoFundMe fyrir Jorge og Lizzette en þegar þetta er ritað hefur tekist að safna 42.600 dollurum en takmarkið er 50.000. Í texta sem fylgir söfnuninni segir: „Jorga var með hjarta úr gulli og var alltaf til staðar fyrir fjölskyldu sína og vini. Ástin sem þau deildu var eilíf. Við erum að biðja ykkur um að hjálpa okkur að koma honum heim og hjálpa með reikninga fyrir læknaþjónustu fyrir hana.“

Embætti saksóknara í Sonora segist vera að rannsaka þetta frekar og mun birta niðurstöður sínar fljótlega.

Fréttin er unnin upp úr frétt TMZ.

Gugusar spókar sig í Spánarsólinni – MYNDIR

Gugusar Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Um þessar mundir keppast næpuhvítir Íslendingar við að birta ljósmyndir af sér á samfélagsmiðlunum á sólarströnd eða í einhverri flottri borg þar sem hitastigið fer yfir 15 gráðurnar. Söngkonan og skautadrottningin Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, oftast þekkt sem Gugusar, er þar engin undantekning.

Gugusar er dugleg að minna á sig á Instagram en frægðarsól hennar hefur verið á stöðugri uppleið frá því að hún gaf út sína fyrstu plötu, aðeins 16 ára gömul, Listen To This Twice, árið 2020. Tveimur árum síðar gaf hún út plötuna 12:48, sem var plata vikunnar á Rás 2. Nýlega samdi hún svo tónlistina í einleiknum vinsæla, Orð gegn orði í Þjóðleikhúsinu.

En nú um mundir er hún að njóta sín á Spáni með vinkonu sinni, líkt og sjá má á Instagram-reikningi hennar. Í gær birti hún sjóðandi heitar ljósmyndir af sér í bikini við sundlaugabakka og má bóka það að margir hafi orðið öfundsjúkir við að sjá myndirnar, þrátt fyrir að veðrið á landinu hafi verið sæmilegt að undanförnu.

Hér má sjá myndirnar:

Gugusar spókar sig við sundlaugabakkann.
Ljósmynd: Instagram-skjáskot
Gugusar í fríi.
Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Á tæpustu tungu

Eiríkur Örn Norðdahl

Í heiminum er ekki að finna neitt tæki jafn margslungið eða vel til þess búið að varðveita og fremja menningu – hugsun, bókmenntir, tilfinningar, lærdóm – og tungumálið. Í krafti tungumálsins gerum við allt og án þess ekkert. Engin reynsla er heldur jafn umbreytandi og sú að læra nýtt tungumál. Það opnar ekki bara á heilan nýjan menningarheim – nýja hugsun, nýjar bókmenntir, nýjar tilfinningar og nýjan lærdóm – heldur ryður það bókstaflega nýjar leiðir fyrir manns eigin hugsanir og gefur manni hlutdeild í samtalinu um framtíð þess tungumáls sem maður lærði, sem er í grunninn samtal um það hvað sé hægt að hugsa á jörðinni. Það er óendanlega dýrmætt, einsog gefur að skilja, og það er bæði þrekvirki og kraftaverk í hvert einasta sinn sem það á sér stað. Fólk sem heldur að aðrir geti bara hrist það fram úr erminni ætti að reyna það á sjálfu sér fyrst. 

En hinkrum samt aðeins við í háfleygninni – hvað er það að kunna tungumál? Erum við einu sinni sammála um það? Hvað þarf maður að kunna mörg orð áður en maður „kann tungumál“? Ég þekki fólk sem þýðir alvarlegar fagurbókmenntir og níðþunga heimspeki úr tungumálum sem það talar aldrei upphátt – þetta fólk gæti ekki sagt öðrum til vegar þótt líf þeirra lægi við. Og ég þekki líka fólk sem einfaldlega veður elginn á erlendum málum, mál þess úir og grúir kannski í málvillum, en það talar þó og tjáir sig – samt getur þetta fólk ekki lesið svo mikið sem dagblað á sama máli. Ég þekki þjóna erlendis sem lært hafa helstu kurteisiskveðjur og matseðilinn þar sem þeir vinna og komist þannig í gegnum vakt eftir vakt án þess að nokkur uppgötvaði að þeir kynnu ekkert annað í málinu. Ef það tekur enginn eftir því að þú kannt ekki íslensku – kanntu þá ekki íslensku? Ef þú leynir alla því að þú kannt íslensku – kanntu þá íslensku? Er nóg að kunna að stafsetja „Kringlumýrarbraut“ eða þarf líka að kunna að bera það fram? Þarf maður að geta bæði lesið Hallgrím Pétursson með upprunalegu stafsetningunni og skilið óðamála strákana í Æði? Og ef maður segir „ske“ – er maður þá alltíeinu að tala dönsku?

Ef ég væri krafinn svars? Það „kann“ aldrei neinn að tala neitt tungumál. Ekki einu sinni sitt eigið móðurmál. Maður lærir það bara. Lærir og lærir og lærir og lærir. 

Sem leiðir okkur að hinu. Sá sem segir ekki „takk“ úti í búð – hvort heldur sem viðkomandi er að stunda innkaup eða afgreiðslu – á augljóslega ekki í neinum „tungumálavandræðum“. Þá er eitthvað annað sem bjátar á. Það er ekkert erfitt við að segja „takk“ annað en auðmýktin sem í þakklætinu býr. Og sá sem þarf alltaf að segja „thank you“ hvar sem hann fer í heiminum er fyrst og fremst að sýna fjölbreytileika heimsins skeytingarleysi og þar með að missa af ferðalaginu sem hann hefur greitt fyrir dýrum dómum, einsog sá sem hengir (bara) upp auglýsingar og skilti á ensku er að sýna sinni eigin staðsetningu skeytingarleysi og raunar að einhverju leyti að ræna sína heimabyggð sérstöðunni, taka þátt í versta glæp glóbalismans: að gera alla staði nákvæmlega eins, staðlaða og staðnaða.

Það er alls ekki víst að þessi þjóð sé „þjóð“ án tungumálsins. Og svo allt sé uppá borðum er víst best að ég nefni það, að ég á persónulega allt mitt undir þessu máli: starf, sjálfsmynd, líf og hugsjón, og mér þætti satt best að segja afar vænt um að það færi ekki allt til andskotans. En tungumálið má ekki vera baggi, ekki áþján, ekki vopn, ekki skilyrðislaust skylduboð, ekki svipa til þess að beita á lánlaust lágstéttarfólk, ekki tæki til þess að draga fólk í dilka eða gefa þeim stig, draga af þeim stig, banna þeim þátttöku í leiknum, svipta þau réttindum eða gera þau tortryggileg. Við sem tölum þetta mál – líka þau sem kunna bara fáein orð – berum ábyrgð á þróun þess og það er í okkar höndum að sjá til þess að íslenskan taki vel á móti þeim sem vilja fást við að læra hana. Ef við mætum því fólki af offorsi þess sem kennir með því einu að slá reglustiku á fingur nemenda sinna verður það ekki bara til þess að stilla upp ósigri gagnvart tungumálinu heldur líka gagnvart okkar eigin mennsku. Sá sem lærir tungumál af nauðung lærir samtímis í hjarta sínu óbeit á því máli sem er þvingað ofan í hann. Það krefst þrautseigju að læra tungumál og ef uppspretta þeirrar þrautseigju er ekki gleði og von verður ávöxtur námsins aldrei annað en gremja: Hvert einasta orð fellur beiskt af vörum. Við verðum öll verra fólk og enginn lærir neitt. 

En við skulum horfast í augu við staðreyndir. Það er bjartsýni miðað við núverandi þróun að það verði enn töluð íslenska eftir 100 ár, nema til skrauts eða sem háskólaíþrótt – einsog latína í kirkju, danska á sunnudögum eða íslenska í Gimli. Viðnámið, að því marki sem nokkur hefur áhuga á viðnámi, snýst fyrst og fremst um að segja „takk“ en ekki „thank you“ – það hefur ekkert að segja að þýða tölvuleiki sem enginn ætlar að spila á íslensku, þýða stýrikerfi sem enginn ætlar að nota á íslensku, eða skrifa bækur á íslensku sem enginn undir fimmtugu les. Þetta er spurning um hugarfar. Að nógu margir – og nógu fjölbreyttur hópur – verði eftir sem vilji nota málið. Og misnota málið. Afbaka það. Leika sér með það. Breyta því, bæta það, stækka það. Það eina sem gæti hugsanlega verið verra en að málið hverfi er nefnilega að það verði „varðveitt einsog gersemi inni í stofu hjá okkur“ – einsog Kári Stefánsson stakk upp á í viðtali fyrir skemmstu. Ég get ekki talað fyrir aðra en mig langar ekki að búa á minjastofnun um íslenska tungu. Bara svo það sé nú sagt. Því tungumál sem ekki dansar við önnur og fær ekki að reyna á þolmörk sín staðnar og tungumál sem staðnar deyr ekki einsog Rómanoff keisari, fær ekki kúlu í hausinn, heldur einsog Lenín, þanið af smurolíu og formaldehýði, sótthreinsað og til sýnis í glerkassa, í kistulagningu sem aldrei tekur enda. Þá er betra að hverfa hratt og örugglega. 

Við búum í samfélagi fólks sem þolir ekki enskuslettur. Fólks sem þolir ekki pólskuslettur. Fólks sem þolir ekki dönskuslettur. Fólks sem þolir ekki kynhlutlaust mál. Fólks sem þolir ekki kynjað mál. Fólks sem þolir ekki þágufallssýki. Fólks sem þolir ekki þýdd fræðiheiti. Fólks sem þolir ekki fag- og fræðislettur. Fólks sem þolir ekki kansellístíl. Fólks sem þolir ekki krimmastíl. Fólks sem þolir ekki gamaldags orð. Fólks sem þolir ekki nýmóðins orð. Fólks sem þolir ekki Íslendingasagnastíl. Fólks sem þolir ekki annars konar stafsetníngu. Fólks sem óþolir alternatífa málfræði. Fólks sem þolir ekki tæknimál. Fólks sem þolir ekki barnamál. Fólks sem þolir ekki orðagrín. Fólks sem þolir ekki íslenskun erlendra borgarheita. Fólks sem þolir ekki sambreiskinga. Fólks sem þolir ekki orð sem það þekkir ekki. Fólks sem þolir ekki gullaldarmál. Fólks sem þolir ekki blótsyrði. Fólks sem þolir ekki nýtt slangur. Fólks sem þolir ekki gamalt slangur. Fólks sem þolir ekki löng orð eða langar setningar. Fólks sem þolir ekki stutt orð eða stuttar setningar. Fólks sem þolir ekki ritmál. Fólks sem þolir ekki talmál. Fólks sem þolir ekki anafórur. Fólks sem þolir ekki woke-orðin. Fólks sem þolir ekki ó-woke-orðin. Fólks sem þolir ekki tungumálahræring. Fólks sem þolir ekki hreintungustíl. 

Kannski er þetta til marks um einhvers konar væntumþykju – og sannarlega legg ég ekki til að við hættum að láta okkur málið varða – en þessi væntumþykja er líka kæfandi og frek. Tökumst á um málið en gleymum því ekki að þetta snýst ekki um að við tölum öll nákvæmlega eins. Hvert einasta orð er gjöf. Hver einasta ný rödd er kraftaverk. Og á meðan það hjarir: Takk fyrir mig.

Eiríkur Örn Norðdahl

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

 

Dregur Alþingi sundur og saman í háði: „Bein útsending úr Víti Dantes á Alþingisrásinni“

Alþingi Íslendinga
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir rífur Alþingi í ræmur með háði í nýrri Facebook-færslu. Kallar hún Alþingi „hysterískt heimilishald við Austurvöll“ sem komi engu í verk.

Leikkonan ástsæla og fyrrum forsetaframbjóðandinn Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er ekkert sérstaklega hrifin af Alþingi í augnablikinu. Nú standa yfir lokadagar þingsins fyrir sumarfrí en stjórnarandstæðan hefur lengt biðina eftir fríi aðeins, með ræðuhöldum.

Í færslu sem Steinunn birti á Facebook í gær og vitnar hún í gamla þjóðvísu og segir að það eigi að strýkja strákaling en myndin sem fylgir færslunni er af Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra.

„ÞAÐ Á AÐ STRÝKJA STRÁKALING

Andrúmsloftið á Alþingi hefur sjaldan verið furðulegra enda er ríkisstjórn Íslands nú í frjálsu falli. Alþingi Íslendinga, eða hvað á að kalla þetta hysteríska heimilishald við Austurvöll sem kemur engu í verk, er í upplausn. Það sjá landsmenn allir þótt RÚV flytji af þinginu engar fréttir eins og venjulega.
Í þingsal má nú sjá íslenska embættismenn engjast um af valdagræðginni einni saman. Bein útsending úr Víti Dantes á Alþingisrásinni.“

Þannig hefst færslan en því næst tekur Steinunn við að benda á ruglið sem þingmenn Íslands standa fyrir:

„Á meðan Katrín var við völd var yfirborðið eilítið settlegra en eftir að hún afhenti Bjarna lyklavöldin má segja að tjaldið hafi hreinlega fokið ofan af sirkusnum og út velta nú apar, trúðar og töframenn sem rífa og tæta og saga fólk í tvennt, ekki af misgáningi heldur af hreinum illvilja.
Hvað skal segja við hlátrasköllum Diljár Mistar í þættinum Sprengisandi um síðustu helgi? Er of seint fyrir hana að hefja nám í Hjallastefnunni? Tommi Tomm vill vera ber að ofan, eða vill hann bara vera í ermalausu? Er það þingmál? Hvað skal segja um hugarvíl Bjarkeyjar Ólsen sem þykist hafa kvalafulla sannfæringu en kvelst þó ekki nægjanlega til að gefa kvölum hvala nokkra merkingu. En þau undur og stórmerki gerðust þó að hún virðist nú hafa lesið Lagareldisfrumvarpið, sóðalegastu atlögu ,,náttúruverndar- og mannréttindasinnanna“ í VG að náttúru, lífríki og sjálfstæði landsins og komist að þeirri niðurstöðu að um ,,varasama atvinnustarfsemi“ sé að ræða. Þá þanka virðist hún samt ætla að geyma með sjálfri sér. Ég vona að hún vakni til þeirra þanka dag hvern héðan af.
Ég hef bullandi samúð með hvölum sem eru margfallt vitrari og langlífari skepnur en mannfólkið, en reyndar á Kristján Loftsson líka mína samúð nú um stundir því popúlískar fimleikaæfingar Svandísar áður og teygjustökk Bjarkeyjar nú, eru langt frá því að búa yfir nokkrum þokka né reisn.
Svandís, Svandís, Svandís hvað ertu að pæla, afhverju að voma yfir þessu ríkisstjórnarsamstarfi mikið lengur?
Þorgerður Katrín svona í alvöru, hvernig er að mæta í vinnuna?
Vitiði stelpur, það er engum til framdráttar að láta eins og þetta sleifarlag sé í lagi. Þið gerið þjóðinni og kynsystrum ykkar hreinan óleik og eruð ungum konum glataðar fyrirmyndir. – Ó, má ekki gagnrýna konur? Það ekki bara má heldur á að gagnrýna embættismenn af öllum kynjum ef nauðsyn krefur.
Ég myndi segja að það sé aðkallandi.“

Því næst snýr Steinunn Ólína hinu beitta spjóti sínu að forsætisráðherranum sjálfum:

„GRALLARINN ÚR GARÐABÆNUM
Hvað eigum við að gera við Bjarna? Gefa honum bara bankann og biðja hann svo lengstra orða að koma sér af landi brott? Ef við ætlum ekki að gefa honum bankann, bæinn og bithagann þá verðum við að koma honum frá sem fyrst, ekki með hornamali og svívirðingum heldur einurð, samheldni og aðgerðum.
Vill hann verða hershöfðingi? Leyfum honum það, kaupum handa honum búning og medalíur en frekari vopnakaup verður að stöðva. Sá samningur sem er í vinnslu milli Bjarna og leikarans Zelenský verður að taka eðlisbreytingum, burt með vopnakaup og vopnaflutninga úr ákvæðum hans, takk. Málið kemur okkur gríðarlega mikið við og þarf auðvitað að fá þinglega meðferð. Við höfum reynslu af því þegar ráðamenn taka af okkur völdin – ,,Viljugar þjóðir“ muniði? Við eigum ekki að bera skömm misviturra ráðamanna í svo alvarlegum málum. Íslendinga hafa lítinn áhuga á beinni þáttöku í hernaði og þar með vaxandi hernaðaræsingu sem breiðist hraðbyri um álfuna alla. Við erum friðelskandi þjóð.
Fjórir milljarðar árlega til Úkraínu næstu fjögur árin og 100 milljónir til Palestínu? Fyrrum fjármálaráðherra kann augljóslega ekki að reikna og þá síður eftirmaður hans Kolbrún Reykfjörð. Bjarni og Kolbrún þurfa stuðning við útreikninga og þjóðin þarf augljóslega að vera þeirra siðferðislegi áttaviti.
Þarf Svanhildur Hólm nýskipaður sendiherra að flytja til Washington? Getur Bjarni ekki bara farið þangað strax? Örlætið við Pentagon í orði og borði mun vonandi veita honum aðgengi að þeim kreðsum sem hann sækist eftir þegar við erum búin að losa okkur við hann.“

Steinunn Ólína tekur næst upp hanskann fyrir útlendingum, sem eiga undir högg að sækja á Íslandi um þessar mundir:

„HINIR RAUNVERULEGU ÓVINIR
Og í eitt skipti fyrir öll, það eru ekki útlendingar sem við eigum að hræðast heldur okkar eigið stjórnmálafólk! Það er ekki útlendingar sem setja hér lög sem heimila að hingað komi fólk til vinnu í gegnum vafasamar þrælaleigur.
Það er ekki útlendingum að kenna að fyrirtækjum er hér heimilt að nýta sér starfslið til skamms tíma í senn án þess að það njóti réttinda á vinnumarkaði. Það er ekki útlendingum að kenna að brotið er á erlendu vinuafli heldur því umhverfi sem stjórnvöld hafa skapað til að hámarka gróða fyrirtækja á kostnað mannréttinda vinnandi fólks.
Við komum fram við útlendinga eins og annars flokks manneskjur á Íslandi. Þessi örþjóð sem er með eilífan sleikjuskap við stórþjóðir hagar sér engu skár en lénsherrar stórþjóðanna.
Kannski ættum við einfaldlega að hætta að kvarta yfir því að erlent vinnuafl sem sinnir þjónustu og verslunarstörfum tali ekki íslensku. Fólk sem býr við lítil réttindi á skítalaunum og hýrist í misjöfnum húsakynnum og er hér bara stutta stund þarf ekkert að læra íslensku. Það er vanhugsuð frekja að ætlast til þess.
Ég ætla rétt að minnast á þann ,,vanda“ sem Íslendingum hefur verið talið trú um að koma flóttafólks til Íslands skapi. Sú þvæla er alfarið á ábyrgð þeirra sem farið hafa með völd í landinu síðasta tæpa áratug. Stjórnvalda sem hafa haft mannvonskuna og hentistefnuna að leiðarljósi í útlendingamálunum eins og öllu öðru. Framkoma íslenskra stjórnvalda í garð flóttafólks hefur skipað okkur í hóp þeirra sem ekki eru hæfir til að fylgja barni yfir götu án þess að henda því fyrir bíl stuttu síðar.“

Í lokaorðum sínum svarar Steinunn spurningu sinni um það hvað skuli gera við Bjarna Ben og vitnar í gömlu þjóðvísuna:

„Nú þarf þjóðin eins og ábyrgðarfullir foreldrar að taka í hönd Bjarna Benediktssonar, stinga honum oní kolabing, loka hann útí landsynning, láta hann hlaupa allt um kring.“

Silja þráir alvöru ást

Silja Rós gaf út lagið ...real love - Mynd: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Fátt er skemmtilegra en íslensk tónlist og það er vegna þess að Íslendingar eru ótrúlega hæfileikaríkir á þessu sviði. Eina sem er betra en íslensk tónlist er ný íslensk tónlist og hefur Mannlíf valið fimm nýleg íslensk lög sem allir þurfa að hlusta á um helgina.

Silja Rós – …real love
TÁR – Half Truths
Gummi B – SVARTHVÍTA HETJAN MÍN
Memm – Viltu vera memm
Vinyll – Dauðinn





„Hún Ellý mín hefur kvatt“

Ellý Katrín Guðmundsdóttir Mynd: Facebook.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarritari, er látin eftir erfiða baráttu við Alzheimersjúkdóminn sem hún tókst á við af miklu ærueysi. Hún var 51 árs þegar hún greindist fyrir átta árum. Eftirlifandi eiginmaður hennar, Magnús Karl Magnússon minnist konu sinnar á Facebook.

„Hún Ellý mín hefur kvatt þennan heim. Hún var einstök. Hennar fallegu eiginleikar lýstu í gegnum bæði skin og skúri í lífinu. Fyrir átta árum mætti óvæntur gestur inn í líf okkar, erfiður sjúkdómur. Ellý tók þeirri heimsókn af ótrúlegu æðruleysi og reisn. Við fjölskyldan höfum lært svo margt af Ellý okkar, enda var hún sönn fyrirmynd í öllu. Mín mesta huggun er að horfa á hæfileika hennar, persónu og útlit lifa áfram í börnunum. Þau eru einstök og hafa stutt mig í gegnum allt eins og fjölmargir ættingjar og vinir, “ skrifar Magnús Karl.

Ellý vakti mikla athygli þegar hún ræddi sjúkdóm sinn opinberlega. Þau hjónin mættu í viðtal við Stundina og ræddu þar líf sitt í skugga sjúkdómsins. Í lok færslu sinnar um Ellý skrifar Magnús: „Ellý talaði um Alzheimer og hún hélt áfram að lifa með sjúkdóminn með gleði í hjarta.“

Ellý var 59 ára þegar hún lést. Hún fæddist í Reykjavík 15. september árið 1964. Hún lést 6. júní s.l.

Bjarkey er vantreyst

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra er í stórvandræðum vegna framgöngu sinnar í hvalveiðimálinu. Þingmenn Miðflokksins undirbúa vantraust á ráðherrann og víst má telja að einhverjir stjórnarliða muni stökkva á vagninn með það fyrir augum að fella eina óvinsælustu ríkisstjórn allra tíma.

Órólega deildin innan ríkisstjórnar er sá hluti Sjálfstæðisflokksins sem ekki fylgir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra að málum. Þeir þingmenn horfa til þess að með því að vera fyrstur til að sprengja ríkisstjórnina muni þeir hagnast. Með því að standa með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Miðflokknum muni þeir sprengja ríkisstjórnina í loft upp og njóta ávinnings af líknardrápinu. Sjálfur vill Bjarni ólmur fá að sitja áfram í langþráðu embætti sem forsætisráðherra.

Fremur ólíklegt er þó að þetta gangi eftir með þessum hætti. Límið í ráðherrastólunum er sterkara en svo að almenn óeining í hvalamálinu nái að brjóta það upp. Líklegt er samt að kosningar verði í haust …

Veifaði byssu á svölunum og sérsveitin kölluð út – Dólgur barðist við lögreglumenn í miðborginni

Lögreglan, löggan
Lögregla að störfum. Mynd/Lára Garðarsdóttir

Lögreglan brá skjótt við þegar tilkynning barst um mann sem sagður var hafa veifað byssu fram af svölum. Í ljósi alvarleika málsins var óskað aðstoðar frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Eftir nokkra upplýsingaöflun og vettvangsvinnu kom í ljós að maðurinn var með leikfangabyssu og því engum hættulegur.

Ölvaður maður var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur fyrir að hafa með framkomu sinni og óspektum valdið hneykslan á almannafæri . Hann hafði veist að vegfarendum og látið öllum illum látum. Við handtöku streittist dólgurinn kröftuglega á móti en hafði ekkert í laganna verði að gera. Hann var læstur inni í fangaklefa þar til af honum rennur. Með nýjum degi fær hann skýrslu um gjörðir sínar og svarar til saka.

Tveir ökumenn voru handteknir á svæði Hafnarfjarðarlögreglunnar, grunaðir um akstur undir áhrifum. Annar var þess utan próflaus. Mennirnir voru fluttir á lögreglustöð í venjubundið ferli.

Tveir ökumenn stöðvaðir og staðnir að verki vegna aksturs án gildra ökuréttinda. Báðir reyndust vera á ótryggðum bifreiðum. Málin afgreidd með vettvangsskýrslu og mega þeir eiga von á sektum vegna þessa.

Einn ökumaður stöðvaður vegna hraðaksturs en sá mældist á 105 km hraða þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Afgreitt á vettvangi.

Verkfallsverðir hleyptu úr dekkjum og spreyjuðu ryðvarnarefni á rúður – Rúta keyrði á einn þeirra

Frá deilunum. Ljósmynd: DV

Mikið gekk á morguninn 15. janúar árið 1990, þegar þriggja daga verkfall Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis hófst en Landleiðir höfðu þá fengið menn til að ganga í störf þeirra rútubílsstjóra sem voru í verkfalli.

Litlu mátti muna að ekki færi verr þegar rútubílsstjórar á vegum Sleipnis mættu með verkfallsverði til að stöðva það sem þeir kölluðu verkfallsbrot. Hafði þá Landleiðir fengið menn í störf þeirra ökumanna sem voru í verkfalli. Kom það ekki til greina að mati Sleipnismanna en þeir hindruðu með öllum tiltækum ráðum að akstur gæti hafist. Hleyptu verkfallsverðir úr dekkjum bílanna, sprautuðu ryðvarnarefni á framrúðu þeirra og þá var jafnvel skorið á eitt dekkið. Versta tilfellið varð þó þegar ein leigurútan ætlaði að leggja af stað í Hafnarfirði, en verkfallsvörður gekk þá í veg fyrir rútuna og varð fyrir henni. Slasaðist hann ekki en lögreglan var kölluð á vettvang.

Hér má lesa um átökin en DV skrifaði frétt um málið á sínum tíma:

Verkfallsátök hjá Landleiðum í morgun: Hleypt úr dekkjum og ekið á verkfallsvörð – engar strætóferðir milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur

Í morgun hófst þriggja daga verkfall Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis sem í eru rútubifreiðastjórar. Og í morgun gekk mikið á bæði í Hafnarfirði og í Reykjavík þegar hefja átti ferðir á milli með Landleiðabifreiðum. Landleiðir höfðu fengið menn til að ganga í störf þeirra bifreiðastjóra sem lagt höfðu niður vinnu. Sleipnismenn voru hins vegar mættir með verkfallsverði og hindruðu með öllum ráðum að akstur gæti hafist. Að sögn Pálma Pálmasonar hjá Landleiðum hleyptu verkfallsverðir úr dekkjum bifreiðanna, sprautuðu ryðvarnarefni á framrúður þeirra og í einu tilfelli sagði hann að skorið hefði verið á dekk bifreiðar. Það var í Lækjargötunni, þar sem er endastöð Landleiðabifreiða sem ganga milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Landleiðir fengu líka leigurútur til að aka. Þegar ein slík ætlaði af stað, við endastöð í Hafnarfirði, gekk verkfallsvörður fram fyrir bílinn og var ekið á hann. Lögreglan var kölluð til og málið kært. Maðurinn mun ekkert hafa slasast. Hafsteinn Snæland, í verkfallsstjórn Sleipnis, sagðist ekki kannast við að dekk hefðu verið skorin. Aftur á móti að lofti hefði verið hleypt úr dekkjum og ryðvarnarefni sprautað á rúður. Hann sagði að allir bifreiðastjóra Landleiða væru í verkfalli en viðgerðarmenn og aðrir starfsmenn hefðu ætlað að ganga í störf þeirra. Það hefði verið stoppað og Sleipnismenn myndu halda uppi fullri verkfallsvörslu meðan verkfallið stæði yfir. Allar ferðir hjá Norðurleið hf„ milli Akureyrar og Reykjavíkur, liggja niðri. Sömuleiðis liggja niðri ferðir sem Kynnisferðir hf. annast, þar á meðal með farþega í millilandaflugi milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Nokkur rútufyrirtæki, eins og til að mynda Vestfjarðaleið, halda uppi áætlun á sínum leiðum þar sem um er að ræða fjölskyldufyrirtæki og eigendur eru ökumenn. 

 

Stjórn norrænu læknafélaganna álykta um ástandið á Gaza:„Dráp og limlestingar verða að hætta strax“

Börn á Gaza, slösuð á sál og líkama.

Stjórn norrænu læknafélaganna sendu í dag frá sér ályktun um ástandið á Gaza.

Í dag samþykkti stjórn norrænu læknafélaganna ályktun um ástandið á Gaza og sendu meðal annars á ríkisstjórn Íslands, Alþingismenn og fjölmiðla. Í ályktuninni er þess krafist að alþjóðlegum mannúðarlögum sé framfylgt á Gaza, án undantekninga.

Hér má lesa ályktunina í íslenskri þýðingu:

„Við, stjórn norrænu læknafélaganna, hvetjum ríkisstjórnir okkar til að krefjast þess að alþjóðlegum mannúðarlögum sé framfylgt án undantekninga á Gaza. Dráp og limlestingar óbreyttra borgara, þar á meðal heilbrigðisstarfsmanna, verða að hætta strax. Við hvetjum til vopnahlés án tafar og lausn allra gísla. Nægileg mannúðaraðstoð verður að berast til Gaza án tafar til að tryggja að engir almennir borgarar þjáist eða deyi vegna ofþornunar, hungurs eða skorts á skjóli eða heilsugæslu. Leita þarf allra leiða til að endurreisa starfhæft heilbrigðiskerfi.

Til viðbótar þessu viljum við ítreka stuðning okkar við ályktun ráðsins World Medical Associations (WMA) um vernd heilbrigðiskerfisins á Gaza, sem samþykkt var á 226. fundi WMA ráðsins í Seoul, Kóreu, 20. apríl 2024.“

Fyrir hönd félaga okkar,

Camilla Noelle Rathcke

Forseti Læknafélags Danmerkur

Niina Koivuviita

Forseti Læknafélags Finnlands

Steinunn Þórðardóttir

Forseti Læknafélags Íslands

Anne-Karin Rime

Forseti Læknafélags Noregs

Sofia Rydgren Stale

Forseti Læknafélags Svíþjóðar

 

 

Innsævi, menningar- og listahátíð Fjarðabyggðar hefst á laugardaginn

Málverk eftir Pál Ivan frá Eiðum

Innsævi, menningar- og listahátíð Fjarðabyggðar hefst næstkomandi laugardag og stendur til 20. júlí.

Um er að ræða tvíæring sem skipulagður er af Menningarstofu Fjarðabyggðar en þetta er í þriðja skipti sem hátíðin er haldin. Dagskráin í ár er afar fjölbreytt eins og sjá má á Facebook-síðu hátíðarinnar en nefna má til dæmis ljóðalestur, myndlistasýningar, tónleikar og svo margt, margt fleira en hátíðin fer fram víðs vegar um sveitarfélagið.

Myndrænt útlit hátíðarinnar var unnið af Þóri Georg en listaverkið málaði Páll Ivan.
Þá má einnig geta þess að auk Innsævi, er ýmislegt annað að gerast sem Menningarstofa kemur að í sumar eins og skapandi sumarstörf í Fjarðabyggð, listasmiðjur barna sem lokið hafa 3. – 7. bekk og tónlistardagskrá undir nafninu Tónaflug sem fer fram í Neskaupstað.

Bandarískur ferðamaður týndur á grískri eyju – Michael Mosley fannst látinn á nágranneyju

Eric Calibet

Björgunaraðgerðir eru hafnar á grísku eyjunni Amorgos eftir að bandarískur lögreglumaður á eftirlaunum hvarf á meðan hann var í gönguferð, nokkrum dögum eftir andlát sjónvarpslæknisins Michael Mosley við svipaðar aðstæður.

Eric Calibet (59), hafði verið í fríi á eyjunni en vinur hans tilkynnti hvarf hans seinni partinn í fyrradag.

Calibet fór í hina krefjandi fjögurra tíma gönguferð, frá Aegiali til Katapola um 7:00, samkvæmt staðbundnum fjölmiðlum. Vinur hans tilkynnti hvarfið til lögreglunnar á Amorgos eftir að hann var ekki kominn aftur átta tímum síðar. Yfirvöld hafa ekki getað haft samband við Calibet í gegnum annan hvorn tveggja farsíma hans.

Samkvæmt The Greek Reporter var síðasta skilaboðið sem maðurinn sendi, til systur hans og var mynd af slóðaskilti.

Björgunaraðgerð hófst síðdegis á þriðjudag og hófst aftur í gærmorgun með liðsauka frá Naxos-eyju í nágrenninu.

Lögreglan hefur óskað eftir gögnum frá farsímafyrirtækjum til að ákvarða síðasta þekktu staðsetningu Calibet á eyjunni, sem hefur um það bil 2.000 íbúa.

Hvarf bandaríska ferðamannsins gerðist nokkrum dögum eftir að þekkti sjónvarpslæknirinn Michael Mosley fannst látinn á nágrannaeyjunni Symi í Grikklandi eftir umfangsmikla fimm daga leit.

 

 

Gáfu Sjúkrahúsinu á Akureyri gjöf í minningu Svölu Tómasdóttur: „Þakklát fyrir velvild og hlýhug“

Sólveig er lengst til vinstri á myndinni, Sigríður M. Gamalíelsdóttir liggur í rúminu og til hægri er Sigurlína G Jónsdóttir.

Í dag barst Blóðskilunardeild Sjúkrahússins á Akureyri gjöf til minningar um Svölu Tómasdóttur en hún var í blóðskilun í rúm þrjú ár en hún lést 23. desember árið 2023.

Í frétt Akureyri.is segir að það hafi verið skólasystur Svölu frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði sem gáfu gjöfina. Gjöfin var vegleg en hún innihélt hitateppi fyrir skjólstæðinga og örbylgjuofn til að hita grjónapoka á axlirnar auk hitapúða fyrir axlir fyrir starfsfólk.

„Þessi gjöf mun nýtast okkar fólki mjög vel og erum þakklát fyrir velvild og hlýhug,“ segir Sólveig Tryggvadóttir, verkefnastjóri á blóðskilun, á vef SAk í dag.

Systur Ahmeds og börn þeirra í bráðri hættu á Gaza: „Hver króna skiptir máli“

Maria

Söfnun stendur nú yfir fyrir systur Palestínumannsins Ahmed Al-Mamlouk og börnum þeirra sem nú dvelja við afar krefjandi aðstæður á Gaza.

Ahmad Al-Mamlouk

Unnur Andrea Einarsdóttir og Katrín Harðardóttir standa fyrir, auk Ahmed, söfnun svo hjálpa megi systrum Ahmed Al-Mamlouk og börnum þeirra en sjálfur missti Ahmed eiginkonu sína og öll fjögur börn sín í loftárás Ísraelshers í desember síðastliðnum. Útlendingastofnun hefur ítrekað neitað honum um hæli hér á landi og bíður hann því eftir því að vera kastað úr landi.

Sjá einnig: Ahmed missti öll börn sín í sprengjuárás: „Pabbi, hvenær getum við spilað fótbolta á Íslandi?“
Sjá einnig: Hálft ár liðið síðan Ahmed missti fjölskylduna í árás Ísraelshers: „Hjarta mitt grætur blóði“

Systur Ahmed, þær Eslam, Abeer og Haneen og börn þeirra eru í sárri þörf fyrir mat, vatni, lyfjum og tjöldum, svo þau hafi eitthvað skjól. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er einungis eins mánaða gamall og þarfnast mjólkur og læknishjálpar.

Börnin:

Sami og Mariam
Maria
Alaa

Í texta sem fylgir söfnunarbeiðninni segir meðal annars:

„Hver króna skiptir máli og ef þið getið ekki gefið, vinsamlegast verið svo væn að deila þessu með vinum ykkar og fjölskyldu. Við þökkum þér frá innstu hjartarrótum!“

Hér má sjá plaggið:

Unnur Andrea skrifaði Facebook-færslu þar sem hún birtir myndskeið sem systir Ahmed tók eftir að sprengjuárás var gerð í um tveggja kílómetra fjarlægð frá dvalarstað hennar og fjölskyldu hennar. Hér má lesa færsluna í heild sinni, sjá reikningsupplýsingarnar og sjá myndskeiðið:

„Þetta myndband var tekið í gær systur af Ahmed Almamlouk, Abeer, en hún býr í Nuseirat flóttamannabúðunum á Gaza ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum hans, þar á meðal ungabarni og þremur börnum. Sprengingarnar sjást þarna í um það bil 2 km fjarlægð og tala látinna er núna komin í yfir 270. Ahmed missti nýlega konu sína og fjögur börn, en sem betur fer lifðu systkyni hans af árásina í gær.
Við viljum gera allt til að hjálpa þeim og hófum við nýlega á söfnun fyrir eftirlifandi fjölskyldu hans. Þetta mun vissulega ekki hlífa þeim fyrir sprengjum, en einsog þig sjáið þá sárvantar þeim almennilegt tjald og nauðsynjar sem mat, lyf, þurrmjólk o.fl.
Allt telur og ef þið getið ekki gefið, væri ég mjög þakklát ef þið gætuð dreift þessum pósti sem víðast! Kærar þakkir! 💖
Millifærsla:
Unnur Andrea Einarsdóttir
2200-26-113088 / kt: 150981-4769
Aur: 6916962“

Hafi einhver spurningar varðandi söfnunina má heyra í Unni Andreu en tölvupóstfang hennar er: [email protected]

Lögreglan gerði húsleit á tveimur bóndabæjum nærri Hvolsvelli – Hasshundur þefaði upp vopnabúr

Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og lögreglan á Hvolsvelli komst heldur betur í feitt þegar gerð var húsleit á tveimur bæjum í nágrenni Hvolsvallar þriðjudaginn 22. nóvember 1994. Á öðrum bóndabænum fannst heilt vopnabúr og hellingur af ólöglegu bruggi.

Tveimur mánuðum áður hafði lögreglan hafið áták gegn bruggi og hafði lokað um tuttugu bruggverksmiðjum. En bruggararnir á þessum bóndabæ voru einnig afar vel vopnum búnir en þar fundust meðal annars tvær haglabyssur, lásbogi, gaddakylfa og rifill með hljóðdeyfi. Ábúandi bæjarins hafði oft komið við sögu lögreglu.

Á hinum bænum fannst einnig mikið magn af bruggi og sykri en konan sem bjó á bænum sagðist eiga við áfengisvanda að stríða og að sykurinn væri til sultugerðar. Var hún handtekin á staðnum en lögreglunni hafði borist upplýsingar um að landi væri framleiddur á bænum til dreifingar á höfuðborgarsvæðinu.

Hér má lesa frétt DV af málinu:

Húsleit á tveimur bæjum í nágrenni Hvolsvallar í gær:

Heilt vopnabúr fannst við leit í dóp- og bruggbæli

– lögregla lagði hald á bruggtæki og töluvert af landa

Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og lögreglan á Hvolsvelli gerðu húsleit á tveimur bæjum í nágrenni Hvolsvallar í gærdag. Á öðrum staðnum var lagt hald á mikinn fjölda vopna, um 20 lítra af landa, 100 lítra af gambra í suðu og eimingartæki. Einnig var lagt hald á áhöld til neyslu fíkniefna á sama stað og torkennilegt duft sem ekki hafði verið efnagreint í morgun.

Morðtól falin í hlöðu

Það var laust eftir hádegi sem lögreglan renndi í hlað á fyrri bænum en þar er takmarkaður hefðbundinn búskapur. Enginn var handtekinn en inni í húsinu fundust tvær haglabyssur, skotfæri, lásbogi og örvar, illa hirt kanabisplanta og, eins og fyrr sagði, landi, gambri og mörg áhöld til fíkniefnaneyslu. Við ítarlegri leit í hlöðu við bæinn fann hasshundur fíkniefnadeildar tösku sem í var fjöldi hnífa, gaddakylfa og byssur. Var hér um að ræða fjaðurhnífa, rakhnífa og veiðihnífa með allt að 30 sentímetra löngu blaði. Einnig var þar afsöguð haglabyssa og riffill með hljóðdeyfi fannst á milli heybagga.
Ábúandinn á bænum hefur oft komið við sögu fíkniefnalögreglu. Ekki er talið útilokað að eitthvað af heimilismunum séu þýfi úr innbrotum.

Kristján Ingi Kristjánsson, yfirmaður ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar, sagði í samtali við DV í gær að hann hefði orðið áhyggjur af aukinni vopnaeign í fíkniefnaheiminum sem gæti leitt til aukinnar hörku. Benti hann á þann fjölda vopna sem fannst við leitina í gær því til staðfestingar.

Sykur til sultugerðar

Síðdegis létu lögregluembættin svo til skarar skríða á öðrum bæ í nágrenninu. Upplýsingar höfðu borist um landa, eimaðan á bænum, í dreifingu á höfuðborgarsvæðinu.
Þar var kona á fertugsaldri handtekin og færð til yfirheyrslu eflir að öflug eimingartæki, landi og gambri fundust við húsleit á bænum. Um var að ræöa á annan tug lítra af áfengi og 100 lítra af gambra sem konan sagði að væri að hluta til í eigu systur sinnar en annars í sinni eigu. Í landann hafði verið blandað bragðefnum og honum tappað á hinar ýmsu tegundir af áfengisflöskum. Má þar nefna viskí, koníak, líkjöra, vodka og fleira. Við húsleit fannst einnig talsvert magn af sykri sem ætla mætti að væri til frekari áfengisgerðar en húsfreyjan á bænum sagði hann ætlaðan til sultugerðar. Áfengið kvað hún til eigin nota en engin óregla væri þó á heimilinu. Gott væri hins vegar að fá sér dreitil með kaffinu á kvöldin að loknu amstri dagsins.
Frá því að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar tók við rannsókn bruggmála fyrir um tveimur mánuðum hefur deildin upprætt vel á annan tug bruggverksmiðja í Reykjavík og nágrenni og á Suður- og Vesturlandi. Ýmist hefur hún verið ein á ferð eða í samvinnu við önnur embætti og einnig slökkviliðið. Er hér um verulega aukningu að ræða frá því sem áður var.

 

 

Slasaðir úr rútuslysinu á Öxnadalsheiði komnir til Akureyrar: – Þjóðvegur 1. er lokaður fram á nótt

Frá vettvangi rútuslyssins í Öxnadal. Mynd: Lögreglan.

Þjóðvegur 1 um Öxnadal er enn lokaður og verður eitthvað fram eftir kvöldi, jafnvel fram eftir nóttu, segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Alvarlegt rútuslys varð á Öxnadalsheiði laust eftir klukkan 17 í dag. 23 erlendir farþegar voru í rútunni sem valt. Margir þeirra eru slasaðir en ekki liggja fyrir upplýsingar um ástand farþeganna.

Lögreglan hvetur þá sem þurfa að komast á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar í kvöld að fara fyrir Tröllaskagann í gegnum Siglufjörð og Ólafsfjörð.

Flestir farþegar hafa nú verið fluttir af vettvangi og á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þar fer fram frekari greining og þá eru tvær sjúkraflugvélar klárar á Akureyri og þyrla Laandhelgisgæslunnar er komin til Akureyrar og mun flytja slasaða til Reykjavíkur.

Illugi hlær að nýrri bók um fjallkonuna: „Innflutt uppfinning nokkurra þjóðrembukalla“

Illugi Jökulsson

Illugi Jökulsson finnst fyndið að forsætisráðuneytið gefi nú þjóðinni út bókina Fjallkonan „Þú ert móðir vor kær“ í tilefni af 80 ára lýðveldisafmæli Íslands.

Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson segir það afar fyndið að árið 2024 eigi að „reyna að telja okkur trú um að „fjallkonan“ sé eða hafi verið eitthvert raunverulegt fyrirbæri í íslenskum hugarheimi fyrri alda en ekki innflutt uppfinning nokkurra þjóðrembukalla á ofanverðri 19. öld og upphafi þeirrar 20.“ Facebook-færsla Illuga, þar sem hann talar um fjallkonuna, hefur vakið gríðarlega mikla athygli en hátt í 500 manns hefur líkað við hana og yfir hundrað athugasemdir hafa verið skrifaðar við hana.

Hér má lesa heildarfærsluna:

„Þið fyrirgefið fjórtán sinnum en það er eiginlega alveg stórkostlega fyndið ef nú, árið 2024, á að reyna að telja okkur trú um að „fjallkonan“ sé eða hafi verið eitthvert raunverulegt fyrirbæri í íslenskum hugarheimi fyrri alda en ekki innflutt uppfinning nokkurra þjóðrembukalla á ofanverðri 19. öld og upphafi þeirrar 20. Ég hef unnið við það í bráðum 40 ár að garfa í íslenskum hugarheimi fyrri alda og lesið ókjörin öll af þjóðlegum fróðleik, þjóðsögum, kveðskap og æviminningum alls konar. Þessi fjallkona fyrirfinnst þar hvergi. Ég segi og skrifa: HVERGI og ALDREI.“

Sviptingar í lífi Katrínar Jakobsdóttur: „Hún féll í tvígang á prófi stjórnmálanna“

Katrín Jakobsdóttir. Ljósmynd: Instagram.
Björn Birgisson samfélagsrýnir skrifar um Katrínu Jakobsdóttur í nýrri Facebook-færslu.

Samfélagsrýnirinn og fyrrum ritstjórinn Björn Birgisson frá Grindavík, skrifar um þær miklu sviptingar í lífi Katrínar Jakobsdóttur, í nýrri Facebook-færslu. Tilefnið er fréttir af því að Katrín hafi leitt gesti um Þingvelli í tilefni af 80 ára lýðveldisafmæli Íslands.

„Katrín Jakobsdóttir leiddi gesti um Þingvelli.

**********
Sviptingarnar í hennar lífi eru að líkindum fordæmalausar.
Sem fyrrverandi efnilegur og farsæll stjórnmálamaður, formaður flokks, alþingismaður, forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, leiddi Katrín gesti og gangandi um Þingvelli í tilefni af því að 80 ár eru senn liðin frá stofnun lýðveldis Íslands á Þingvöllum.
Fyrrverandi allt þetta og orðin leiðsögumaður, tímabundið væntanlega, en Katrín er sérfróð um sögu Þingvalla og hvernig staðurinn er samofinn sögu landsins.
Margir töldu að Katrín yrði nánast sjálfkjörin í embætti forseta Íslands og hún hefur alla burði til að gegna því embætti með sóma.“

En Björn segir að Katrín hafi í tvígang fallið á „prófi stjórnmálanna“:

„En hún féll í tvígang á prófi stjórnmálanna.
Annars vegar haustið 2017 þegar hún gekk til samninga við hægri öflin í landinu og svo þegar hún skildi við stjórnmálin í vor með því að sjá til þess að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra þjóðarinnar þegar hún væri stokkin frá borði.
Vitnisburður um að þetta mat sé rétt er mælt fylgishrun Vinstri grænna og svo árangur Katrínar í forsetakosningunum.
Það hafa margir sem kenna sig við vinstrimennsku í stjórnmálum brennt sig á samstarfi til hægri.
Slíkt samstarf er alltaf talið til svika.“

Svart – ljóð

Svart kaffi Ljósmynd: Samer Daboul, pexels.com

svart

ég ætlaði
að laga kaffi
eftir enn eina
svefnvana nóttina

en eftir
að hafa vesenast
við það
um drykklausa
stund

áttaði ég mig
á því að
það var ekki kaffið
sem var of bragðdauft
heldur líf mitt

og það var ekki kaffið
sem var of svart
heldur sál mín

það var ekki kaffið
sem þurfti
að laga

Höfundur: Lubbi klettaskáld

Jón vill láta rannsaka meinta glæpi sína: „Þetta er hálfgert örþrifaráð“

Jón Jónsson. Ljósmynd: Reynir Traustason

Jón Jónsson þjóðfræðingur á Hólmavík á Ströndum hefur nú beðið sveitarstjórn Strandabyggðar um leyfi til að hefja undirskriftarsöfnun þar sem þess er krafist að rannsókn verði gerð á meintum glæpum Jóns, sem hann hefur verið sakaður um af starfsfólki Strandabyggðar. Eiginkona hans hefur sagt upp starfi sínu og vill flytja úr bæjarfélaginu vegna málsins.

Jón Jónsson.
Ljósmynd: Reynir Traustason

Þjóðfræðingurinn Jón Jónsson segist hafa setið undir ásökunum um stórfelldan þjófnað á fjármunum úr sjóðum Strandabyggðar, auk annarra glæpa, af hendi „lykilstarfsmanna“ sveitarfélagsins. Og nú vill hann að meintu glæpir hans verði rannsakaðir en meðal ásakana sem hann hefur fengið er stuldur upp á ríflega 61 milljónir króna. Jón skrifaði um málið á Facebook í gær:

„ÍBÚAKOSNING UM RANNSÓKN Á MEINTUM GLÆPUM

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók fyrir erindi frá mér á fundi sínum í vikunni. Þar var ég að tilkynna að ég ætla að standa fyrir undirskriftasöfnun og fara fram á íbúakosningu í sveitarfélaginu. Málið snýst um þær ásakanir frá lykilstarfsfólki Strandabyggðar sem ég sjálfur hef þurft að sitja undir, m.a. um sjálftöku fjármuna úr sjóðum sveitarfélagsins á meðan ég sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili. Einungis er miðað við þær skriflegu ásakanir sem bornar hafa verið fram af starfsfólki sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili. Ég vil semsagt að meintir glæpir mínir verði rannsakaðir af óháðum aðila og þessar ásakanir um leið. Það er allra hagur að öll þessi mál séu upplýst og ef um sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða á auðvitað að krefjast endurgreiðslu.“

Þannig hefst færsla Jóns en hann segist vera að þessu af því að hann sætti sig ekki við „þessa atlögu að mannorði“ sínu og að um „hrein ósannindi og rógburð sé að ræða“.

„Hvers vegna ertu að þessu? kann það fólk að spyrja, sem finnst betra að allt sé í ró og spekt og engum bát sé ruggað. Það er vegna þess að staðan hefur ekkert breyst frá því að þessar ásakanir voru bornar fram, síðasta haust. Ég sætti mig ekki við þessa atlögu að mannorði mínu og tel að um hrein ósannindi og rógburð sé að ræða.“

Jón segist hafa árangurslaust reynt að kalla eftir rökstuðningi við ásökunum en engin svör fengið.

„Ég hef árangurslaust kallað eftir rökstuðningi fyrir þessum ásökunum. Engin svör eða sönnunargögn hafa þó verið lögð fram, en sveitarstjórn ýjar að því að slík gögn séu fyrir hendi – „sem til er hjá sveitarfélaginu“, segir í fundargerð frá desember á síðasta ári. Ég óskaði skýringa á þessu orðalagi, en fékk heldur engin svör við því. Í framhaldinu óskaði ég svo eftir að fá afhent öll gögn sem tengjast mér á tilteknu tímabili úr skjalasafni Strandabyggðar, með tilvísun til upplýsingalaga (hver einstaklingur á rétt á gögnum í skjalasöfnum stjórnvalda þar sem um hann er fjallað). Þetta sendi ég inn í janúar síðastliðnum. Þar voru þó engin sönnunargögn um meintan glæpaferil minn.“

En ástæðan fyrir því að Jón vill gera eitthvað í málinu er líka önnur, eiginkona hans vill flytja úr Strandabyggð vegna málsins.

„Það er satt best að segja líka annað sem er að ýta á mig að rekast í þessu, en eingöngu eigin metnaður fyrir því að mannorð mitt sé í skikkanlegu ástandi og orðsporið sanngjarnt. Ester konan mín tapaði að nokkru leyti starfsgleðinni í tengslum við þessar ásakanir og illt umtal sem varð áberandi um fólk, félög og menningarstofnanir hér í sveit. Hún er búin að segja upp sínu góða starfi á Sauðfjársetrinu og ætlar að hætta í sumarlok. Umræðan fær þannig meira á suma en aðra og ekkert við því að segja. Ester vill flytja suður á bóginn, segir að það sé ómögulegt að búa í samfélagi þar sem forsvarsfólk sveitarfélagsins getur fullyrt hvað sem er um aðra, án þess svo að þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum eða sanna ásakanir. Mig langar að búa hér lengur og er í ansi skemmtilegu starfi. Það er kannski dálítið barnalegt af mér að halda að óháð rannsókn á þessum ásökunum geti breytt einhverju í þessum efnum, en ég held samt í vonina og er viss um að hún myndi hreinsa andrúmsloftið í samfélaginu dálítið.“

Málið var tekið fyrir á fundi hjá sveitarstjórninni á þriðjudag en ætlar hún að taka sér tíma til að skoða það með lögfræðingi. Einn meðlimur stjórnarinnar þurfti að víkja af fundinum á meðan mál þetta var rætt en það var Þorgeir Pálsson en Grettir Örn Ásmundsson tók sæti hans á meðan. Þorgeir kom svo aftur á fundinn þegar málið hafði verið tekið fyrir.

„Hreppsnefndinni tókst ekki að afgreiða málið á fundinum á þriðjudaginn, hún virtist ekki hafa undirbúið sig nógu vel. Þau ætla að taka sér tíma til að skoða málið með lögfræðingi, en niðurstaðan hlýtur þó að verða sú að leyfa undirskriftasöfnun í samræmi við lög og efna svo til íbúakosningar um rannsóknina í framhaldinu. Mér finnst augljóst að öll geti kosið með rannsókn, bæði þau sem trúa ásökunum um afbrot og líka hin sem halda að þær séu yfir strikið.“

Segir Jón að sveitastjórnin hafi frestað að taka afstöðu í málinu en verði að svara í síðasta lagi 4. júlí en þangað til megi hann ekki hefja undirskriftarsöfnunina. „Ég skil ekki af hverju málinu var slegið á frest, í staðinn fyrir að svara strax.“

Mannlíf ræddi stuttlega við Jón í síma. „Þetta er ein leiðin sem fólk hefur til að fá mál tekin fyrir ef það gengur ekkert annað. Þetta er hálfgert örþrifaráð,“ segir Jón í samtali við Mannlíf.

Hér fyrir neðan má lesa bréf Jóns til sveitastjórnarinnar:

TILKYNNING UM UNDIRSKRIFTARSÖFNUN Í SVEITARFÉLAGINU
Berist sveitarstjórn Strandabyggðar

Ég tilkynni hér með, með vísun til sveitarstjórnarlaga, um fyrirhugaða undirskriftasöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað verður eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðar sveitarfélagið. Ætlunin er safna undirskriftum til að kosið verði um þá kröfu til sveitarfélagsins að það standi fyrir því að gerð verði óháð rannsókn á ásökunum lykilstarfsmanna sveitarfélagsins, sveitarstjóra annars vegar og íþrótta- og tómstundafulltrúa hins vegar, í garð íbúa og fyrrverandi sveitarstjórnarmanns, Jóns Jónssonar kt. 050468-4969 þjóðfræðings á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð.

Sérstaklega verði skoðaðar ásakanir um meinta sjálftöku Jóns á fjármunum úr sveitarsjóði í eigin þágu að upphæð kr. 61.423.961.- árin fyrir síðustu kosningar, en einnig aðrar ávirðingar sem bornar hafa verið fram. Tekið skal skýrt fram að hér er eingöngu um að ræða ásakanir sem settar hafa verið fram skriflega af umræddu starfsfólki Strandabyggðar og á núverandi kjörtímabili, þannig að málið beinlínis hlýtur að eiga heima á borði núverandi sveitarstjórnar. Krafan snýr einnig að því að niðurstaða þessarar óháðu rannsóknar verði síðan birt opinberlega.

Hagmunir sveitarfélagsins af því að málið sé upplýst er augljós, enda er eðlilegt að gerð verði krafa um endurgreiðslu ef um slíka sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða. Sama gildir um hagsmuni þess sem fyrir þessum ásökunum hefur orðið, það hlýtur að vera öllum ljóst að öll þátttaka hans í samfélaginu veltur á því að upplýst verði hvort ásakanir byggi á raunveruleikanum eða séu rógburður og ósannindi. Slíkt skiptir í senn verulegu máli fyrir stöðu viðkomandi á vinnumarkaði, í félagsstörfum, daglegu lífi og við ákvarðanatöku fjölskyldunnar um áframhaldandi búsetu á svæðinu.

Ábyrgðarmaður:
Jón Jónsson, kt. 050468-4969, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Tvær aðrar undirskriftir einstaklinga með lögheimili í sveitarfélaginu (eins og vera ber):
Ester Sigfúsdóttir, 230369-4299, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Dagrún Ósk Jónsdóttir, kt. 131293-2329, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Með kveðju, Jón

Hjón fengu raflost í heitum potti á hóteli í Mexíkó – MYNDBAND

Hjónin á góðri stundu
Hjón sem fengu raflost í heitum potti við hótel í Mexíkó á dögunum, hafa verið nafngreind. Eiginmaðurinn lést en konan er enn þungt haldin á sjúkrahúsi.

Samkvæmt saksóknaraembættinu í Sonora-ríki í Mexíkó eru einstaklingarnir sem erlendir fjölmiðlar sögðu frá í fyrradag, en þau urðu fyrir raflosti í heitum potti á hóteli í Mexíkó, hjónin Jorge Guillen og Lizzette Zambrano.
Samkvæmt yfirvöldum á staðnum lést Jorge af völdum raflostsins sem þau urðu fyrir í heita pottinum og er Lizzette sögð illa haldin á sjúkrahúsi.

Hvað varðar það sem leiddi til þessa hræðilega slyss, segir skrifstofustjóri saksóknaraembættisins í Sonora að verið sé að rannsaka orsök raflostsins en samkvæmt skýrslum fullyrða vitni að kona hafi reynt að komast inn í heita pottinn á þriðjudagskvöld þegar hún sá Jorge og Lizzette meðvitundalaus í pottinum.

Þegar konan hafi reynt að komast að hjónunum hafi hún sjálf fengið raflost og kallaði á hjálp, sem varð til þess að nokkuð kaótísk ástand skapaðist á svæðinu, sem sést á meðfylgjandi myndbandi.

Fjölskyldur hjónanna hafa hafið söfnun GoFundMe fyrir Jorge og Lizzette en þegar þetta er ritað hefur tekist að safna 42.600 dollurum en takmarkið er 50.000. Í texta sem fylgir söfnuninni segir: „Jorga var með hjarta úr gulli og var alltaf til staðar fyrir fjölskyldu sína og vini. Ástin sem þau deildu var eilíf. Við erum að biðja ykkur um að hjálpa okkur að koma honum heim og hjálpa með reikninga fyrir læknaþjónustu fyrir hana.“

Embætti saksóknara í Sonora segist vera að rannsaka þetta frekar og mun birta niðurstöður sínar fljótlega.

Fréttin er unnin upp úr frétt TMZ.

Gugusar spókar sig í Spánarsólinni – MYNDIR

Gugusar Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Um þessar mundir keppast næpuhvítir Íslendingar við að birta ljósmyndir af sér á samfélagsmiðlunum á sólarströnd eða í einhverri flottri borg þar sem hitastigið fer yfir 15 gráðurnar. Söngkonan og skautadrottningin Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, oftast þekkt sem Gugusar, er þar engin undantekning.

Gugusar er dugleg að minna á sig á Instagram en frægðarsól hennar hefur verið á stöðugri uppleið frá því að hún gaf út sína fyrstu plötu, aðeins 16 ára gömul, Listen To This Twice, árið 2020. Tveimur árum síðar gaf hún út plötuna 12:48, sem var plata vikunnar á Rás 2. Nýlega samdi hún svo tónlistina í einleiknum vinsæla, Orð gegn orði í Þjóðleikhúsinu.

En nú um mundir er hún að njóta sín á Spáni með vinkonu sinni, líkt og sjá má á Instagram-reikningi hennar. Í gær birti hún sjóðandi heitar ljósmyndir af sér í bikini við sundlaugabakka og má bóka það að margir hafi orðið öfundsjúkir við að sjá myndirnar, þrátt fyrir að veðrið á landinu hafi verið sæmilegt að undanförnu.

Hér má sjá myndirnar:

Gugusar spókar sig við sundlaugabakkann.
Ljósmynd: Instagram-skjáskot
Gugusar í fríi.
Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Á tæpustu tungu

Eiríkur Örn Norðdahl

Í heiminum er ekki að finna neitt tæki jafn margslungið eða vel til þess búið að varðveita og fremja menningu – hugsun, bókmenntir, tilfinningar, lærdóm – og tungumálið. Í krafti tungumálsins gerum við allt og án þess ekkert. Engin reynsla er heldur jafn umbreytandi og sú að læra nýtt tungumál. Það opnar ekki bara á heilan nýjan menningarheim – nýja hugsun, nýjar bókmenntir, nýjar tilfinningar og nýjan lærdóm – heldur ryður það bókstaflega nýjar leiðir fyrir manns eigin hugsanir og gefur manni hlutdeild í samtalinu um framtíð þess tungumáls sem maður lærði, sem er í grunninn samtal um það hvað sé hægt að hugsa á jörðinni. Það er óendanlega dýrmætt, einsog gefur að skilja, og það er bæði þrekvirki og kraftaverk í hvert einasta sinn sem það á sér stað. Fólk sem heldur að aðrir geti bara hrist það fram úr erminni ætti að reyna það á sjálfu sér fyrst. 

En hinkrum samt aðeins við í háfleygninni – hvað er það að kunna tungumál? Erum við einu sinni sammála um það? Hvað þarf maður að kunna mörg orð áður en maður „kann tungumál“? Ég þekki fólk sem þýðir alvarlegar fagurbókmenntir og níðþunga heimspeki úr tungumálum sem það talar aldrei upphátt – þetta fólk gæti ekki sagt öðrum til vegar þótt líf þeirra lægi við. Og ég þekki líka fólk sem einfaldlega veður elginn á erlendum málum, mál þess úir og grúir kannski í málvillum, en það talar þó og tjáir sig – samt getur þetta fólk ekki lesið svo mikið sem dagblað á sama máli. Ég þekki þjóna erlendis sem lært hafa helstu kurteisiskveðjur og matseðilinn þar sem þeir vinna og komist þannig í gegnum vakt eftir vakt án þess að nokkur uppgötvaði að þeir kynnu ekkert annað í málinu. Ef það tekur enginn eftir því að þú kannt ekki íslensku – kanntu þá ekki íslensku? Ef þú leynir alla því að þú kannt íslensku – kanntu þá íslensku? Er nóg að kunna að stafsetja „Kringlumýrarbraut“ eða þarf líka að kunna að bera það fram? Þarf maður að geta bæði lesið Hallgrím Pétursson með upprunalegu stafsetningunni og skilið óðamála strákana í Æði? Og ef maður segir „ske“ – er maður þá alltíeinu að tala dönsku?

Ef ég væri krafinn svars? Það „kann“ aldrei neinn að tala neitt tungumál. Ekki einu sinni sitt eigið móðurmál. Maður lærir það bara. Lærir og lærir og lærir og lærir. 

Sem leiðir okkur að hinu. Sá sem segir ekki „takk“ úti í búð – hvort heldur sem viðkomandi er að stunda innkaup eða afgreiðslu – á augljóslega ekki í neinum „tungumálavandræðum“. Þá er eitthvað annað sem bjátar á. Það er ekkert erfitt við að segja „takk“ annað en auðmýktin sem í þakklætinu býr. Og sá sem þarf alltaf að segja „thank you“ hvar sem hann fer í heiminum er fyrst og fremst að sýna fjölbreytileika heimsins skeytingarleysi og þar með að missa af ferðalaginu sem hann hefur greitt fyrir dýrum dómum, einsog sá sem hengir (bara) upp auglýsingar og skilti á ensku er að sýna sinni eigin staðsetningu skeytingarleysi og raunar að einhverju leyti að ræna sína heimabyggð sérstöðunni, taka þátt í versta glæp glóbalismans: að gera alla staði nákvæmlega eins, staðlaða og staðnaða.

Það er alls ekki víst að þessi þjóð sé „þjóð“ án tungumálsins. Og svo allt sé uppá borðum er víst best að ég nefni það, að ég á persónulega allt mitt undir þessu máli: starf, sjálfsmynd, líf og hugsjón, og mér þætti satt best að segja afar vænt um að það færi ekki allt til andskotans. En tungumálið má ekki vera baggi, ekki áþján, ekki vopn, ekki skilyrðislaust skylduboð, ekki svipa til þess að beita á lánlaust lágstéttarfólk, ekki tæki til þess að draga fólk í dilka eða gefa þeim stig, draga af þeim stig, banna þeim þátttöku í leiknum, svipta þau réttindum eða gera þau tortryggileg. Við sem tölum þetta mál – líka þau sem kunna bara fáein orð – berum ábyrgð á þróun þess og það er í okkar höndum að sjá til þess að íslenskan taki vel á móti þeim sem vilja fást við að læra hana. Ef við mætum því fólki af offorsi þess sem kennir með því einu að slá reglustiku á fingur nemenda sinna verður það ekki bara til þess að stilla upp ósigri gagnvart tungumálinu heldur líka gagnvart okkar eigin mennsku. Sá sem lærir tungumál af nauðung lærir samtímis í hjarta sínu óbeit á því máli sem er þvingað ofan í hann. Það krefst þrautseigju að læra tungumál og ef uppspretta þeirrar þrautseigju er ekki gleði og von verður ávöxtur námsins aldrei annað en gremja: Hvert einasta orð fellur beiskt af vörum. Við verðum öll verra fólk og enginn lærir neitt. 

En við skulum horfast í augu við staðreyndir. Það er bjartsýni miðað við núverandi þróun að það verði enn töluð íslenska eftir 100 ár, nema til skrauts eða sem háskólaíþrótt – einsog latína í kirkju, danska á sunnudögum eða íslenska í Gimli. Viðnámið, að því marki sem nokkur hefur áhuga á viðnámi, snýst fyrst og fremst um að segja „takk“ en ekki „thank you“ – það hefur ekkert að segja að þýða tölvuleiki sem enginn ætlar að spila á íslensku, þýða stýrikerfi sem enginn ætlar að nota á íslensku, eða skrifa bækur á íslensku sem enginn undir fimmtugu les. Þetta er spurning um hugarfar. Að nógu margir – og nógu fjölbreyttur hópur – verði eftir sem vilji nota málið. Og misnota málið. Afbaka það. Leika sér með það. Breyta því, bæta það, stækka það. Það eina sem gæti hugsanlega verið verra en að málið hverfi er nefnilega að það verði „varðveitt einsog gersemi inni í stofu hjá okkur“ – einsog Kári Stefánsson stakk upp á í viðtali fyrir skemmstu. Ég get ekki talað fyrir aðra en mig langar ekki að búa á minjastofnun um íslenska tungu. Bara svo það sé nú sagt. Því tungumál sem ekki dansar við önnur og fær ekki að reyna á þolmörk sín staðnar og tungumál sem staðnar deyr ekki einsog Rómanoff keisari, fær ekki kúlu í hausinn, heldur einsog Lenín, þanið af smurolíu og formaldehýði, sótthreinsað og til sýnis í glerkassa, í kistulagningu sem aldrei tekur enda. Þá er betra að hverfa hratt og örugglega. 

Við búum í samfélagi fólks sem þolir ekki enskuslettur. Fólks sem þolir ekki pólskuslettur. Fólks sem þolir ekki dönskuslettur. Fólks sem þolir ekki kynhlutlaust mál. Fólks sem þolir ekki kynjað mál. Fólks sem þolir ekki þágufallssýki. Fólks sem þolir ekki þýdd fræðiheiti. Fólks sem þolir ekki fag- og fræðislettur. Fólks sem þolir ekki kansellístíl. Fólks sem þolir ekki krimmastíl. Fólks sem þolir ekki gamaldags orð. Fólks sem þolir ekki nýmóðins orð. Fólks sem þolir ekki Íslendingasagnastíl. Fólks sem þolir ekki annars konar stafsetníngu. Fólks sem óþolir alternatífa málfræði. Fólks sem þolir ekki tæknimál. Fólks sem þolir ekki barnamál. Fólks sem þolir ekki orðagrín. Fólks sem þolir ekki íslenskun erlendra borgarheita. Fólks sem þolir ekki sambreiskinga. Fólks sem þolir ekki orð sem það þekkir ekki. Fólks sem þolir ekki gullaldarmál. Fólks sem þolir ekki blótsyrði. Fólks sem þolir ekki nýtt slangur. Fólks sem þolir ekki gamalt slangur. Fólks sem þolir ekki löng orð eða langar setningar. Fólks sem þolir ekki stutt orð eða stuttar setningar. Fólks sem þolir ekki ritmál. Fólks sem þolir ekki talmál. Fólks sem þolir ekki anafórur. Fólks sem þolir ekki woke-orðin. Fólks sem þolir ekki ó-woke-orðin. Fólks sem þolir ekki tungumálahræring. Fólks sem þolir ekki hreintungustíl. 

Kannski er þetta til marks um einhvers konar væntumþykju – og sannarlega legg ég ekki til að við hættum að láta okkur málið varða – en þessi væntumþykja er líka kæfandi og frek. Tökumst á um málið en gleymum því ekki að þetta snýst ekki um að við tölum öll nákvæmlega eins. Hvert einasta orð er gjöf. Hver einasta ný rödd er kraftaverk. Og á meðan það hjarir: Takk fyrir mig.

Eiríkur Örn Norðdahl

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

 

Dregur Alþingi sundur og saman í háði: „Bein útsending úr Víti Dantes á Alþingisrásinni“

Alþingi Íslendinga
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir rífur Alþingi í ræmur með háði í nýrri Facebook-færslu. Kallar hún Alþingi „hysterískt heimilishald við Austurvöll“ sem komi engu í verk.

Leikkonan ástsæla og fyrrum forsetaframbjóðandinn Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er ekkert sérstaklega hrifin af Alþingi í augnablikinu. Nú standa yfir lokadagar þingsins fyrir sumarfrí en stjórnarandstæðan hefur lengt biðina eftir fríi aðeins, með ræðuhöldum.

Í færslu sem Steinunn birti á Facebook í gær og vitnar hún í gamla þjóðvísu og segir að það eigi að strýkja strákaling en myndin sem fylgir færslunni er af Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra.

„ÞAÐ Á AÐ STRÝKJA STRÁKALING

Andrúmsloftið á Alþingi hefur sjaldan verið furðulegra enda er ríkisstjórn Íslands nú í frjálsu falli. Alþingi Íslendinga, eða hvað á að kalla þetta hysteríska heimilishald við Austurvöll sem kemur engu í verk, er í upplausn. Það sjá landsmenn allir þótt RÚV flytji af þinginu engar fréttir eins og venjulega.
Í þingsal má nú sjá íslenska embættismenn engjast um af valdagræðginni einni saman. Bein útsending úr Víti Dantes á Alþingisrásinni.“

Þannig hefst færslan en því næst tekur Steinunn við að benda á ruglið sem þingmenn Íslands standa fyrir:

„Á meðan Katrín var við völd var yfirborðið eilítið settlegra en eftir að hún afhenti Bjarna lyklavöldin má segja að tjaldið hafi hreinlega fokið ofan af sirkusnum og út velta nú apar, trúðar og töframenn sem rífa og tæta og saga fólk í tvennt, ekki af misgáningi heldur af hreinum illvilja.
Hvað skal segja við hlátrasköllum Diljár Mistar í þættinum Sprengisandi um síðustu helgi? Er of seint fyrir hana að hefja nám í Hjallastefnunni? Tommi Tomm vill vera ber að ofan, eða vill hann bara vera í ermalausu? Er það þingmál? Hvað skal segja um hugarvíl Bjarkeyjar Ólsen sem þykist hafa kvalafulla sannfæringu en kvelst þó ekki nægjanlega til að gefa kvölum hvala nokkra merkingu. En þau undur og stórmerki gerðust þó að hún virðist nú hafa lesið Lagareldisfrumvarpið, sóðalegastu atlögu ,,náttúruverndar- og mannréttindasinnanna“ í VG að náttúru, lífríki og sjálfstæði landsins og komist að þeirri niðurstöðu að um ,,varasama atvinnustarfsemi“ sé að ræða. Þá þanka virðist hún samt ætla að geyma með sjálfri sér. Ég vona að hún vakni til þeirra þanka dag hvern héðan af.
Ég hef bullandi samúð með hvölum sem eru margfallt vitrari og langlífari skepnur en mannfólkið, en reyndar á Kristján Loftsson líka mína samúð nú um stundir því popúlískar fimleikaæfingar Svandísar áður og teygjustökk Bjarkeyjar nú, eru langt frá því að búa yfir nokkrum þokka né reisn.
Svandís, Svandís, Svandís hvað ertu að pæla, afhverju að voma yfir þessu ríkisstjórnarsamstarfi mikið lengur?
Þorgerður Katrín svona í alvöru, hvernig er að mæta í vinnuna?
Vitiði stelpur, það er engum til framdráttar að láta eins og þetta sleifarlag sé í lagi. Þið gerið þjóðinni og kynsystrum ykkar hreinan óleik og eruð ungum konum glataðar fyrirmyndir. – Ó, má ekki gagnrýna konur? Það ekki bara má heldur á að gagnrýna embættismenn af öllum kynjum ef nauðsyn krefur.
Ég myndi segja að það sé aðkallandi.“

Því næst snýr Steinunn Ólína hinu beitta spjóti sínu að forsætisráðherranum sjálfum:

„GRALLARINN ÚR GARÐABÆNUM
Hvað eigum við að gera við Bjarna? Gefa honum bara bankann og biðja hann svo lengstra orða að koma sér af landi brott? Ef við ætlum ekki að gefa honum bankann, bæinn og bithagann þá verðum við að koma honum frá sem fyrst, ekki með hornamali og svívirðingum heldur einurð, samheldni og aðgerðum.
Vill hann verða hershöfðingi? Leyfum honum það, kaupum handa honum búning og medalíur en frekari vopnakaup verður að stöðva. Sá samningur sem er í vinnslu milli Bjarna og leikarans Zelenský verður að taka eðlisbreytingum, burt með vopnakaup og vopnaflutninga úr ákvæðum hans, takk. Málið kemur okkur gríðarlega mikið við og þarf auðvitað að fá þinglega meðferð. Við höfum reynslu af því þegar ráðamenn taka af okkur völdin – ,,Viljugar þjóðir“ muniði? Við eigum ekki að bera skömm misviturra ráðamanna í svo alvarlegum málum. Íslendinga hafa lítinn áhuga á beinni þáttöku í hernaði og þar með vaxandi hernaðaræsingu sem breiðist hraðbyri um álfuna alla. Við erum friðelskandi þjóð.
Fjórir milljarðar árlega til Úkraínu næstu fjögur árin og 100 milljónir til Palestínu? Fyrrum fjármálaráðherra kann augljóslega ekki að reikna og þá síður eftirmaður hans Kolbrún Reykfjörð. Bjarni og Kolbrún þurfa stuðning við útreikninga og þjóðin þarf augljóslega að vera þeirra siðferðislegi áttaviti.
Þarf Svanhildur Hólm nýskipaður sendiherra að flytja til Washington? Getur Bjarni ekki bara farið þangað strax? Örlætið við Pentagon í orði og borði mun vonandi veita honum aðgengi að þeim kreðsum sem hann sækist eftir þegar við erum búin að losa okkur við hann.“

Steinunn Ólína tekur næst upp hanskann fyrir útlendingum, sem eiga undir högg að sækja á Íslandi um þessar mundir:

„HINIR RAUNVERULEGU ÓVINIR
Og í eitt skipti fyrir öll, það eru ekki útlendingar sem við eigum að hræðast heldur okkar eigið stjórnmálafólk! Það er ekki útlendingar sem setja hér lög sem heimila að hingað komi fólk til vinnu í gegnum vafasamar þrælaleigur.
Það er ekki útlendingum að kenna að fyrirtækjum er hér heimilt að nýta sér starfslið til skamms tíma í senn án þess að það njóti réttinda á vinnumarkaði. Það er ekki útlendingum að kenna að brotið er á erlendu vinuafli heldur því umhverfi sem stjórnvöld hafa skapað til að hámarka gróða fyrirtækja á kostnað mannréttinda vinnandi fólks.
Við komum fram við útlendinga eins og annars flokks manneskjur á Íslandi. Þessi örþjóð sem er með eilífan sleikjuskap við stórþjóðir hagar sér engu skár en lénsherrar stórþjóðanna.
Kannski ættum við einfaldlega að hætta að kvarta yfir því að erlent vinnuafl sem sinnir þjónustu og verslunarstörfum tali ekki íslensku. Fólk sem býr við lítil réttindi á skítalaunum og hýrist í misjöfnum húsakynnum og er hér bara stutta stund þarf ekkert að læra íslensku. Það er vanhugsuð frekja að ætlast til þess.
Ég ætla rétt að minnast á þann ,,vanda“ sem Íslendingum hefur verið talið trú um að koma flóttafólks til Íslands skapi. Sú þvæla er alfarið á ábyrgð þeirra sem farið hafa með völd í landinu síðasta tæpa áratug. Stjórnvalda sem hafa haft mannvonskuna og hentistefnuna að leiðarljósi í útlendingamálunum eins og öllu öðru. Framkoma íslenskra stjórnvalda í garð flóttafólks hefur skipað okkur í hóp þeirra sem ekki eru hæfir til að fylgja barni yfir götu án þess að henda því fyrir bíl stuttu síðar.“

Í lokaorðum sínum svarar Steinunn spurningu sinni um það hvað skuli gera við Bjarna Ben og vitnar í gömlu þjóðvísuna:

„Nú þarf þjóðin eins og ábyrgðarfullir foreldrar að taka í hönd Bjarna Benediktssonar, stinga honum oní kolabing, loka hann útí landsynning, láta hann hlaupa allt um kring.“

Silja þráir alvöru ást

Silja Rós gaf út lagið ...real love - Mynd: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Fátt er skemmtilegra en íslensk tónlist og það er vegna þess að Íslendingar eru ótrúlega hæfileikaríkir á þessu sviði. Eina sem er betra en íslensk tónlist er ný íslensk tónlist og hefur Mannlíf valið fimm nýleg íslensk lög sem allir þurfa að hlusta á um helgina.

Silja Rós – …real love
TÁR – Half Truths
Gummi B – SVARTHVÍTA HETJAN MÍN
Memm – Viltu vera memm
Vinyll – Dauðinn





„Hún Ellý mín hefur kvatt“

Ellý Katrín Guðmundsdóttir Mynd: Facebook.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarritari, er látin eftir erfiða baráttu við Alzheimersjúkdóminn sem hún tókst á við af miklu ærueysi. Hún var 51 árs þegar hún greindist fyrir átta árum. Eftirlifandi eiginmaður hennar, Magnús Karl Magnússon minnist konu sinnar á Facebook.

„Hún Ellý mín hefur kvatt þennan heim. Hún var einstök. Hennar fallegu eiginleikar lýstu í gegnum bæði skin og skúri í lífinu. Fyrir átta árum mætti óvæntur gestur inn í líf okkar, erfiður sjúkdómur. Ellý tók þeirri heimsókn af ótrúlegu æðruleysi og reisn. Við fjölskyldan höfum lært svo margt af Ellý okkar, enda var hún sönn fyrirmynd í öllu. Mín mesta huggun er að horfa á hæfileika hennar, persónu og útlit lifa áfram í börnunum. Þau eru einstök og hafa stutt mig í gegnum allt eins og fjölmargir ættingjar og vinir, “ skrifar Magnús Karl.

Ellý vakti mikla athygli þegar hún ræddi sjúkdóm sinn opinberlega. Þau hjónin mættu í viðtal við Stundina og ræddu þar líf sitt í skugga sjúkdómsins. Í lok færslu sinnar um Ellý skrifar Magnús: „Ellý talaði um Alzheimer og hún hélt áfram að lifa með sjúkdóminn með gleði í hjarta.“

Ellý var 59 ára þegar hún lést. Hún fæddist í Reykjavík 15. september árið 1964. Hún lést 6. júní s.l.

Bjarkey er vantreyst

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra er í stórvandræðum vegna framgöngu sinnar í hvalveiðimálinu. Þingmenn Miðflokksins undirbúa vantraust á ráðherrann og víst má telja að einhverjir stjórnarliða muni stökkva á vagninn með það fyrir augum að fella eina óvinsælustu ríkisstjórn allra tíma.

Órólega deildin innan ríkisstjórnar er sá hluti Sjálfstæðisflokksins sem ekki fylgir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra að málum. Þeir þingmenn horfa til þess að með því að vera fyrstur til að sprengja ríkisstjórnina muni þeir hagnast. Með því að standa með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Miðflokknum muni þeir sprengja ríkisstjórnina í loft upp og njóta ávinnings af líknardrápinu. Sjálfur vill Bjarni ólmur fá að sitja áfram í langþráðu embætti sem forsætisráðherra.

Fremur ólíklegt er þó að þetta gangi eftir með þessum hætti. Límið í ráðherrastólunum er sterkara en svo að almenn óeining í hvalamálinu nái að brjóta það upp. Líklegt er samt að kosningar verði í haust …

Veifaði byssu á svölunum og sérsveitin kölluð út – Dólgur barðist við lögreglumenn í miðborginni

Lögreglan, löggan
Lögregla að störfum. Mynd/Lára Garðarsdóttir

Lögreglan brá skjótt við þegar tilkynning barst um mann sem sagður var hafa veifað byssu fram af svölum. Í ljósi alvarleika málsins var óskað aðstoðar frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Eftir nokkra upplýsingaöflun og vettvangsvinnu kom í ljós að maðurinn var með leikfangabyssu og því engum hættulegur.

Ölvaður maður var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur fyrir að hafa með framkomu sinni og óspektum valdið hneykslan á almannafæri . Hann hafði veist að vegfarendum og látið öllum illum látum. Við handtöku streittist dólgurinn kröftuglega á móti en hafði ekkert í laganna verði að gera. Hann var læstur inni í fangaklefa þar til af honum rennur. Með nýjum degi fær hann skýrslu um gjörðir sínar og svarar til saka.

Tveir ökumenn voru handteknir á svæði Hafnarfjarðarlögreglunnar, grunaðir um akstur undir áhrifum. Annar var þess utan próflaus. Mennirnir voru fluttir á lögreglustöð í venjubundið ferli.

Tveir ökumenn stöðvaðir og staðnir að verki vegna aksturs án gildra ökuréttinda. Báðir reyndust vera á ótryggðum bifreiðum. Málin afgreidd með vettvangsskýrslu og mega þeir eiga von á sektum vegna þessa.

Einn ökumaður stöðvaður vegna hraðaksturs en sá mældist á 105 km hraða þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Afgreitt á vettvangi.

Verkfallsverðir hleyptu úr dekkjum og spreyjuðu ryðvarnarefni á rúður – Rúta keyrði á einn þeirra

Frá deilunum. Ljósmynd: DV

Mikið gekk á morguninn 15. janúar árið 1990, þegar þriggja daga verkfall Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis hófst en Landleiðir höfðu þá fengið menn til að ganga í störf þeirra rútubílsstjóra sem voru í verkfalli.

Litlu mátti muna að ekki færi verr þegar rútubílsstjórar á vegum Sleipnis mættu með verkfallsverði til að stöðva það sem þeir kölluðu verkfallsbrot. Hafði þá Landleiðir fengið menn í störf þeirra ökumanna sem voru í verkfalli. Kom það ekki til greina að mati Sleipnismanna en þeir hindruðu með öllum tiltækum ráðum að akstur gæti hafist. Hleyptu verkfallsverðir úr dekkjum bílanna, sprautuðu ryðvarnarefni á framrúðu þeirra og þá var jafnvel skorið á eitt dekkið. Versta tilfellið varð þó þegar ein leigurútan ætlaði að leggja af stað í Hafnarfirði, en verkfallsvörður gekk þá í veg fyrir rútuna og varð fyrir henni. Slasaðist hann ekki en lögreglan var kölluð á vettvang.

Hér má lesa um átökin en DV skrifaði frétt um málið á sínum tíma:

Verkfallsátök hjá Landleiðum í morgun: Hleypt úr dekkjum og ekið á verkfallsvörð – engar strætóferðir milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur

Í morgun hófst þriggja daga verkfall Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis sem í eru rútubifreiðastjórar. Og í morgun gekk mikið á bæði í Hafnarfirði og í Reykjavík þegar hefja átti ferðir á milli með Landleiðabifreiðum. Landleiðir höfðu fengið menn til að ganga í störf þeirra bifreiðastjóra sem lagt höfðu niður vinnu. Sleipnismenn voru hins vegar mættir með verkfallsverði og hindruðu með öllum ráðum að akstur gæti hafist. Að sögn Pálma Pálmasonar hjá Landleiðum hleyptu verkfallsverðir úr dekkjum bifreiðanna, sprautuðu ryðvarnarefni á framrúður þeirra og í einu tilfelli sagði hann að skorið hefði verið á dekk bifreiðar. Það var í Lækjargötunni, þar sem er endastöð Landleiðabifreiða sem ganga milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Landleiðir fengu líka leigurútur til að aka. Þegar ein slík ætlaði af stað, við endastöð í Hafnarfirði, gekk verkfallsvörður fram fyrir bílinn og var ekið á hann. Lögreglan var kölluð til og málið kært. Maðurinn mun ekkert hafa slasast. Hafsteinn Snæland, í verkfallsstjórn Sleipnis, sagðist ekki kannast við að dekk hefðu verið skorin. Aftur á móti að lofti hefði verið hleypt úr dekkjum og ryðvarnarefni sprautað á rúður. Hann sagði að allir bifreiðastjóra Landleiða væru í verkfalli en viðgerðarmenn og aðrir starfsmenn hefðu ætlað að ganga í störf þeirra. Það hefði verið stoppað og Sleipnismenn myndu halda uppi fullri verkfallsvörslu meðan verkfallið stæði yfir. Allar ferðir hjá Norðurleið hf„ milli Akureyrar og Reykjavíkur, liggja niðri. Sömuleiðis liggja niðri ferðir sem Kynnisferðir hf. annast, þar á meðal með farþega í millilandaflugi milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Nokkur rútufyrirtæki, eins og til að mynda Vestfjarðaleið, halda uppi áætlun á sínum leiðum þar sem um er að ræða fjölskyldufyrirtæki og eigendur eru ökumenn. 

 

Stjórn norrænu læknafélaganna álykta um ástandið á Gaza:„Dráp og limlestingar verða að hætta strax“

Börn á Gaza, slösuð á sál og líkama.

Stjórn norrænu læknafélaganna sendu í dag frá sér ályktun um ástandið á Gaza.

Í dag samþykkti stjórn norrænu læknafélaganna ályktun um ástandið á Gaza og sendu meðal annars á ríkisstjórn Íslands, Alþingismenn og fjölmiðla. Í ályktuninni er þess krafist að alþjóðlegum mannúðarlögum sé framfylgt á Gaza, án undantekninga.

Hér má lesa ályktunina í íslenskri þýðingu:

„Við, stjórn norrænu læknafélaganna, hvetjum ríkisstjórnir okkar til að krefjast þess að alþjóðlegum mannúðarlögum sé framfylgt án undantekninga á Gaza. Dráp og limlestingar óbreyttra borgara, þar á meðal heilbrigðisstarfsmanna, verða að hætta strax. Við hvetjum til vopnahlés án tafar og lausn allra gísla. Nægileg mannúðaraðstoð verður að berast til Gaza án tafar til að tryggja að engir almennir borgarar þjáist eða deyi vegna ofþornunar, hungurs eða skorts á skjóli eða heilsugæslu. Leita þarf allra leiða til að endurreisa starfhæft heilbrigðiskerfi.

Til viðbótar þessu viljum við ítreka stuðning okkar við ályktun ráðsins World Medical Associations (WMA) um vernd heilbrigðiskerfisins á Gaza, sem samþykkt var á 226. fundi WMA ráðsins í Seoul, Kóreu, 20. apríl 2024.“

Fyrir hönd félaga okkar,

Camilla Noelle Rathcke

Forseti Læknafélags Danmerkur

Niina Koivuviita

Forseti Læknafélags Finnlands

Steinunn Þórðardóttir

Forseti Læknafélags Íslands

Anne-Karin Rime

Forseti Læknafélags Noregs

Sofia Rydgren Stale

Forseti Læknafélags Svíþjóðar

 

 

Innsævi, menningar- og listahátíð Fjarðabyggðar hefst á laugardaginn

Málverk eftir Pál Ivan frá Eiðum

Innsævi, menningar- og listahátíð Fjarðabyggðar hefst næstkomandi laugardag og stendur til 20. júlí.

Um er að ræða tvíæring sem skipulagður er af Menningarstofu Fjarðabyggðar en þetta er í þriðja skipti sem hátíðin er haldin. Dagskráin í ár er afar fjölbreytt eins og sjá má á Facebook-síðu hátíðarinnar en nefna má til dæmis ljóðalestur, myndlistasýningar, tónleikar og svo margt, margt fleira en hátíðin fer fram víðs vegar um sveitarfélagið.

Myndrænt útlit hátíðarinnar var unnið af Þóri Georg en listaverkið málaði Páll Ivan.
Þá má einnig geta þess að auk Innsævi, er ýmislegt annað að gerast sem Menningarstofa kemur að í sumar eins og skapandi sumarstörf í Fjarðabyggð, listasmiðjur barna sem lokið hafa 3. – 7. bekk og tónlistardagskrá undir nafninu Tónaflug sem fer fram í Neskaupstað.

Bandarískur ferðamaður týndur á grískri eyju – Michael Mosley fannst látinn á nágranneyju

Eric Calibet

Björgunaraðgerðir eru hafnar á grísku eyjunni Amorgos eftir að bandarískur lögreglumaður á eftirlaunum hvarf á meðan hann var í gönguferð, nokkrum dögum eftir andlát sjónvarpslæknisins Michael Mosley við svipaðar aðstæður.

Eric Calibet (59), hafði verið í fríi á eyjunni en vinur hans tilkynnti hvarf hans seinni partinn í fyrradag.

Calibet fór í hina krefjandi fjögurra tíma gönguferð, frá Aegiali til Katapola um 7:00, samkvæmt staðbundnum fjölmiðlum. Vinur hans tilkynnti hvarfið til lögreglunnar á Amorgos eftir að hann var ekki kominn aftur átta tímum síðar. Yfirvöld hafa ekki getað haft samband við Calibet í gegnum annan hvorn tveggja farsíma hans.

Samkvæmt The Greek Reporter var síðasta skilaboðið sem maðurinn sendi, til systur hans og var mynd af slóðaskilti.

Björgunaraðgerð hófst síðdegis á þriðjudag og hófst aftur í gærmorgun með liðsauka frá Naxos-eyju í nágrenninu.

Lögreglan hefur óskað eftir gögnum frá farsímafyrirtækjum til að ákvarða síðasta þekktu staðsetningu Calibet á eyjunni, sem hefur um það bil 2.000 íbúa.

Hvarf bandaríska ferðamannsins gerðist nokkrum dögum eftir að þekkti sjónvarpslæknirinn Michael Mosley fannst látinn á nágrannaeyjunni Symi í Grikklandi eftir umfangsmikla fimm daga leit.

 

 

Gáfu Sjúkrahúsinu á Akureyri gjöf í minningu Svölu Tómasdóttur: „Þakklát fyrir velvild og hlýhug“

Sólveig er lengst til vinstri á myndinni, Sigríður M. Gamalíelsdóttir liggur í rúminu og til hægri er Sigurlína G Jónsdóttir.

Í dag barst Blóðskilunardeild Sjúkrahússins á Akureyri gjöf til minningar um Svölu Tómasdóttur en hún var í blóðskilun í rúm þrjú ár en hún lést 23. desember árið 2023.

Í frétt Akureyri.is segir að það hafi verið skólasystur Svölu frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði sem gáfu gjöfina. Gjöfin var vegleg en hún innihélt hitateppi fyrir skjólstæðinga og örbylgjuofn til að hita grjónapoka á axlirnar auk hitapúða fyrir axlir fyrir starfsfólk.

„Þessi gjöf mun nýtast okkar fólki mjög vel og erum þakklát fyrir velvild og hlýhug,“ segir Sólveig Tryggvadóttir, verkefnastjóri á blóðskilun, á vef SAk í dag.

Systur Ahmeds og börn þeirra í bráðri hættu á Gaza: „Hver króna skiptir máli“

Maria

Söfnun stendur nú yfir fyrir systur Palestínumannsins Ahmed Al-Mamlouk og börnum þeirra sem nú dvelja við afar krefjandi aðstæður á Gaza.

Ahmad Al-Mamlouk

Unnur Andrea Einarsdóttir og Katrín Harðardóttir standa fyrir, auk Ahmed, söfnun svo hjálpa megi systrum Ahmed Al-Mamlouk og börnum þeirra en sjálfur missti Ahmed eiginkonu sína og öll fjögur börn sín í loftárás Ísraelshers í desember síðastliðnum. Útlendingastofnun hefur ítrekað neitað honum um hæli hér á landi og bíður hann því eftir því að vera kastað úr landi.

Sjá einnig: Ahmed missti öll börn sín í sprengjuárás: „Pabbi, hvenær getum við spilað fótbolta á Íslandi?“
Sjá einnig: Hálft ár liðið síðan Ahmed missti fjölskylduna í árás Ísraelshers: „Hjarta mitt grætur blóði“

Systur Ahmed, þær Eslam, Abeer og Haneen og börn þeirra eru í sárri þörf fyrir mat, vatni, lyfjum og tjöldum, svo þau hafi eitthvað skjól. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er einungis eins mánaða gamall og þarfnast mjólkur og læknishjálpar.

Börnin:

Sami og Mariam
Maria
Alaa

Í texta sem fylgir söfnunarbeiðninni segir meðal annars:

„Hver króna skiptir máli og ef þið getið ekki gefið, vinsamlegast verið svo væn að deila þessu með vinum ykkar og fjölskyldu. Við þökkum þér frá innstu hjartarrótum!“

Hér má sjá plaggið:

Unnur Andrea skrifaði Facebook-færslu þar sem hún birtir myndskeið sem systir Ahmed tók eftir að sprengjuárás var gerð í um tveggja kílómetra fjarlægð frá dvalarstað hennar og fjölskyldu hennar. Hér má lesa færsluna í heild sinni, sjá reikningsupplýsingarnar og sjá myndskeiðið:

„Þetta myndband var tekið í gær systur af Ahmed Almamlouk, Abeer, en hún býr í Nuseirat flóttamannabúðunum á Gaza ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum hans, þar á meðal ungabarni og þremur börnum. Sprengingarnar sjást þarna í um það bil 2 km fjarlægð og tala látinna er núna komin í yfir 270. Ahmed missti nýlega konu sína og fjögur börn, en sem betur fer lifðu systkyni hans af árásina í gær.
Við viljum gera allt til að hjálpa þeim og hófum við nýlega á söfnun fyrir eftirlifandi fjölskyldu hans. Þetta mun vissulega ekki hlífa þeim fyrir sprengjum, en einsog þig sjáið þá sárvantar þeim almennilegt tjald og nauðsynjar sem mat, lyf, þurrmjólk o.fl.
Allt telur og ef þið getið ekki gefið, væri ég mjög þakklát ef þið gætuð dreift þessum pósti sem víðast! Kærar þakkir! 💖
Millifærsla:
Unnur Andrea Einarsdóttir
2200-26-113088 / kt: 150981-4769
Aur: 6916962“

Hafi einhver spurningar varðandi söfnunina má heyra í Unni Andreu en tölvupóstfang hennar er: [email protected]

Raddir