Halla Hrund Logadóttir safnaði fyrir bílprófinu með því að þvo af fjölskyldunni. Hún segir að það sé nauðsynlegt að dansa annað slagið og sér rómantíkina í hversdagsleikanum. Þá er hún sólgin í harðfisk.
Uppáhaldsstaður á Íslandi?
Sveitin mín á Síðu, þó að landið okkar í heild sé gersemi.
Á forseti að sitja lengur en tvö kjörtímabil?
Ég myndi telja tvö til fjögur kjörtímabili ákjósanlegan tíma fyrir forseta Íslands.
Hvaða breytingar viltu sjá á stjórnskipan Íslands?
Það er forsetans að fara eftir leikreglunum, en ekki setja þær. Alþingi Íslendinga setur reglurnar í umboði þjóðarinnar og þaðan kemur valdið. Ég sé ekki fyrir mér neinar grundvallarbreytingar í þeim efnum. Við þurfum hins vegar sem sem samfélag að takast reglulega á við breytingar sem kunna að kalla á viðbrögð. Eitt af því sem við þurfum til að mynda að taka samtal um eru auðlindir þjóðarinnar og finna þeim stað í stjórnarskránni. Það er mín skoðun sem ég fer ekki leynt með, þótt forsetinn sé ekki í framsætinu varðandi slíkar breytingar.
Hver er þinn uppáhalds forseti?
Allir forsetar hafa lagt hönd á plóg og ég á fyrirmyndir í þeim öllum að einhverju leyti.
Finnst þér að gera eigi kröfu um fleiri fjölda meðmælenda frambjóðenda til embættis forseta Íslands?
Mér finnst eðlilegt að fjöldi meðmælenda endurspegli þróun mannfjölda landsins.
Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?
Mamma og pabbi, ásamt ömmum mínum og öfum heitnum.
Hver er uppáhaldstónlist þín?
Ég elska tónlist sem fer vel með stormasömum vetrarkvöldum eins og Ásgeir Trausta, Unu Torfa og fleiri. En líka sönglög sem hægt er að syngja saman á björtum sumarkvöldum í útilegu (allt frá Sálinni yfir í Ellý Vilhjálms). Síðan er skylda að dansa af og til og þá verður að vera eitthvað fjörugt í boði, íslenskir og erlendir smellir.
Hefurðu neytt ólöglegra fíkniefna?
Nei.
Gerði Ólafur Ragnar Grímsson rétt með því að beita neitunarvaldinu á sínum tíma?
Já.
Hver var stærsta stundin í lífi þínu?
Fæðing dætra minna.
Hver eru mestu vonbrigðin?
Að missa æskuvinkonu mína langt fyrir aldur fram.
Fallegasta ljóðið?
Það sem talar við tilfinningarnar hverju sinni.
Besta skáldsagan?
Salka Valka, Ungfrú Ísland og Flugdrekahlauparinn hittu allar í mark.
Hvað er það besta við Ísland?
Ferska loftið, matgæðin, jarðhitinn og fólkið.
Kanntu á þvottavél?
Heldur betur. Ég lærði snemma á hana til að þvo hestafötin og vann mér inn fyrir bílprófið með því að þvo af fjölskyldunni.
Ef þú ættir eina ósk, Íslendingum til hagsbóta, hver væri hún?
Að allir Íslendingar geti notið góðrar heilsu og jafnra tækifæra til að láta drauma sína rætast, samfélaginu til heilla.
Að þínu mati, hvert er helsta hlutverk forseta Íslands?
Að magna tækifæri Íslendinga um allt land heima, og að heiman, og tala fyrir hagsmunum okkar og gildum á alþjóðavettvangi.
Borðarðu þorramat?
Já, á Þorrablótum. Ég er þó sólgin í harðfisk allt árið um kring!
Ertu rómantísk/ur?
Rómantíkin er að mínu mati í hversdagsleikanum. Kertaljós á vetrarkvöldi eða fjallganga að sumri.
Í stuttu máli: hvers vegna ætti að kjósa þig til embættis forseta Íslands?
Ég brenn fyrir Íslandi, hagsmunum almennings, náttúru og samfélagi.
Mannlíf lagði spurningalista fyrir forsetaframbjóðendur , svo þjóðin fái að kynnast þeim betur. Munu svör þeirra frambjóðendanna sem ekki hafa verið nú þegar verið birt, birtast á næstu vikum.