Þriðjudagur 25. febrúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Áhugaverðir jólamarkaðir í nágrenni Frankfurt

|||
|||

Þjóðverjar og fjöldinn allur af ferðamönnum gera sér árlega glaðan dag á jólamörkuðum í Þýskalandi. Slíkir markaðir er sagðir hafa verið hluti af aðventunni þar í landi í meira en 500 ár.

Jólamarkaðurinn í Dresden er sagður vera einna elstur eða frá árinu 1434. Flestir markaðirnir ganga út á það sama en það er að bjóða upp á margskonar hefðbundinn þýskan mat og fallegan og vandaðan söluvarning. Byggð eru upp heilu þorpin af sölubásum og kofum sem mikið er lagt í að reisa og skreyta. Afar hátíðlegt er að ganga um ljósum prýdda miðbæina og torgin á aðventunni. Þjóðverjarnir sjálfir sækja markaðina til að fá sér heitt jólaglögg (Glühwein) borða Reibekuchen sem eru djúpsteiktir kartöfluklattar, Flammkuchen sem eru einskonar þunnar pizzur með svínakjötsáleggi og svo að sjálfsögðu Bratwurst-pylsur sem vinsælar eru í Þýskalandi. Ferðamennirnir smakka að sjálfsögðu líka matinn en eru meira að kaupa jólaskrautið og fínu hlutina sem eru til sölu. Sterk angan af ristuðum heitum kastaníuhnetum og ristuðum sætum og krydduðum möndlum er einkennandi fyrir markaðina og afar jólalegt að upplifa. Einnig er rík hefð fyrir vönduðu handgerðu viðarjólaskrauti eins og fjárhúsinu í Betlehem með Jesúbarninu og ýmsum öðrum vönduðum jólavörum.

Jólamarkaðir

Frankfurt jólamarkaðurinn á sér langa sögu eða allt frá 14. öld sem gerir hann einn af eldri jólamörkuðum Þýskalands. Markaðurinn nær yfir stórt svæði í miðbænum eða frá Friedrich-stoltze-platz úr norðri og Paulsplatz og Römerberg úr suðri. Markaðurinn er einn af þeim stærstu og vinsælustu í Þýskalandi og fólk frá öllum heimshornum heimsækir hann enda mörg flugfélög sem fljúga þangað og því hægt um vik. Básarnir þykja frumlegir og glæsilegir. Risastórt jólatré er sett upp við markaðinn ár hvert sem einkennir hann. Mikið líf er í Frankfurt á þessum tíma og tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi, versla, heimsækja góða veitingastaði og þennan stóra mikla jólamarkað í miðbænum.

Heidelberg er ein þeirra borga í Þýskalandi sem þykir hvað fallegust. Að standa á jólamarkaðnum með útsýni yfir gamla bæinn og kastalann sem stendur hátt og gnæfir yfir bæinn þykir mörgum með því fallegasta í Þýskalandi. Kastalinn hefur mikið aðdráttarafl ferðamanna enda afar fallegur. Á Karlsplatz er skautasvell og þaðan er frábært útsýni yfir Heidelberg-kastala. Markaðurinn er opinn frá 26. nóvember til 22. desember og er staðsettur í gamla bænum. Í bakgrunni blasir kastalinn við. Það tekur um klukkutíma að keyra frá Frankfurt til Heidelberg og svipað langan tíma að fara með lest.

Köln Það eru yfirleitt sjö jólamarkaðir í þessari milljón manna borg. Það er erfitt að ímynda sér að borgin hafi nánast verið jöfnuð við jörðu í seinni heimsstyrjöldinni og aðeins lítill hluti gamla borgarhlutans stóð eftir. Ein af þeim byggingum sem skemmdist ekki er þekktasta og næsthæsta dómkirkja Þýskalands, en hún er mest sótti ferðamannastaður Þýskalands og alveg þess virði að skoða hana og kynna sér sögu hennar. Jólamarkaðirnir eru staðsettir allt í kringum kirkjuna og í næsta nágrenni. Vinsælasti jólamarkaðurinn er við Rudolfplatz. Einungis klukkustund tekur að fara með lest til Kölnar frá Frankfurt.

Wurzburg á Marienkapelle-torginu, ríkir mikil jólastemning á hverju ári og þykir markaðurinn þar með þeim fallegri í Þýskalandi. Þangað koma margir ferðamenn á aðventunni og bærinn fyllist af lífi. Jólamarkaðurinn er haldinn á markaðstorginu þar sem sögulegar byggingar mynda fallegan bakgrunn við jólaskreytingar sölubásana. Würzburg liggur við bakka árinnar Main og er þekkt fyrir fallega miðbæinn sinn sem í eru hvorki meira né minna en 40 kirkjur og margar sögulegar byggingar. Fjöldi bygginga hefur verið endurbyggður frá því í stríðinu. Ekki nema um 130.000 íbúar eru í borginni og umhverfis hana eru vínhéruð og mikið er um vínkjallara. Markaðurinn er opinn frá 30. nóv. til 23 des. Það tekur um klst. með lest að fara frá Frankfurt til borgarinnar.

Ofurbrauð – eintóm hollusta

|
|

Þetta brauð er ekki fyrir nýgræðinga í grófum brauðum. Mjög þétt og þungt brauð án hveitis og lyftiefna, gríðarlega næringarríkt og ótrúlega hollt og gott fyrir okkur.

3 dl sólblómafræ
1 dl graskersfræ
2 dl heslihnetuflögur
6 dl tröllahafrar
2 dl hörfræ
1 dl husk (psylluium fræskurn/gróft duft)
½ dl chia-fræ
½ dl hlynsíróp
⅔ dl ólífuolía
½ lítri vatn

Ristið sólblómafræ og graskersfræ á pönnu. Setjið í skál. Léttristið heslihnetuflögurnar og blandið saman við. Setjið þá restina af hráefnunum saman við í skálina og blandið vel saman. Það er ágætt að nota hendurnar til þess að kreista deigið saman þannig að það þéttist. Smyrjið stórt formkökuform með olíu og jafnið deiginu í það. Setjið filmu yfir og látið þetta standa í nokkrar klst. við stofuhita, eða í kæliskáp yfir nótt. Hitið ofn í 190°C. Bakið í u.þ.b. klst. Látið brauðið kólna alveg áður en það er skorið, annars er hætta á að það detti í sundur.

Athugið: Best er að skera þetta brauð frekar þunnt. Brauðið geymist vel í frysti niðurskorið. Husk hefur fengist í matvöruverslunum, en ef það fæst ekki þar má finna það í apótekum og heilsubúðum.

Texti og stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Nýja Ísland: Nokkrir stórir leikendur í íslensku viðskiptalífi

||||
|Svanhildur Nanna .|Guðrún Lárusdóttir.|Helgi Magnússon.|Hreggviður Jónsson.

Hér innanlands er hins vegar að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira. Hér eru nokkrir stórir leikendur.

Lítill sem enginn áhugi virðist vera erlendis frá á mikilli fjárfestingu hérlendis, eins og sást ljóslega þegar bindiskylda var lækkuð niður í núll fyrr á þessu ári, aðgerð sem var til þess fallin að reyna að örva erlenda fjárfestingu. Síðan það var gert hefur erlend fjárfesting verið minni en hún var á sama tíma í fyrra. Þetta er hið nýja Ísland.

Eftir stendur markaður sem þarf þá virkilega á nýju blóði að halda en virðist í erfiðleikum með að trekkja að nýja fjárfestingu. Hér innanlands er hins vegar að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir.

Töluvert hefur farið fyrir hópnum sem ráðið hefur í tryggingafélaginu VÍS á undanförnum árum. Þar er um að ræða hjónin Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmund Örn Þórðarson, sem eiga 7,25 prósent hlut í VÍS, 6,93 prósent í Kviku banka og hlut í Kortaþjónustunni í gegnum félag sitt K2B ehf. Innan VÍS hafa þau myndað blokk með nokkrum öðrum einkafjárfestum, meðal annars Óskabeinshópnum, sem á 2,48 prósent í VÍS, og er í eigu Gests Breiðfjörð Gestssonar, Sigurðar Gísla Björnssonar, Andra Gunnarssonar og Fannars Ólafssonar.

Brimgarðar, félag í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna, er nokkuð umfangsmikið í skráðum eignum, sérstaklega í fasteignafélögum. Það á í Eik (6,9 prósent), Reitum (2,1 prósent), í Reginn (2,73 prósent) og Heimavöllum (3,01 prósent). Brimgarðar hafa líka átt hlut í Icelandair. Eigið fé Brimgarða nam 2.959 milljónum króna í lok síðasta árs en á sama tíma átti félagið eignir upp á 10.998 milljónir króna.

Hreggviður Jónsson.

Félagið Stormtré er að stærstu leyti í eigu Hreggviðs Jónssonar. Það er aðaleigandi Veritas Capital sem á meðal annars Vistor, sem flytur inn til Íslands lyf og aðrar tengdar vörur. Auk þess á Stormtré 2,5 prósent hlut í smásölufélaginu Festi.
Eigið fé Stormtrés var 6,8 milljarðar króna í lok síðasta árs.

Snæból er fjárfestingafélag í jafnri eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur. Það á stóran hlut í Sjóvá (8,64 prósent), í Heimavöllum (7,47 prósent) auk þess sem það á þrjú prósent hlut í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel. Alls átti Snæból um tíu milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót.

Guðrún Lárusdóttir.

Stálskip var stofnað sem útvegsfyrirtæki árið 1970 en seldi frystitogarann sinn og allan kvóta árið 2014. Í kjölfarið var því breytt í fjárfestingafélag, en það er í eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar og þriggja barna þeirra. Guðrún er framkvæmdastjóri, en hún er 86 ára gömul. Á meðal fjárfestinga Stálskipa má nefna 8,59 prósent hlut í Heimavöllum en alls voru eignir félagsins metnar á 11,9 milljarða króna í lok síðasta árs. Þar af voru verðbréf sem metin voru á 3,1 milljarð króna en uppistaðan, 6,3 milljarðar króna, voru geymdar á bankabók.

Þá verður að telja til félagið 365 ehf., sem á nú endurkomu í heim hlutabréfafjárfestinga, fyrst með kaupum í Högum og svo í Skeljungi eftir að það losaði sig út úr fjölmiðlarekstri eftir 16 ár í slíkum. Eigandi þess er Ingibjörg Pálmadóttir og eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, settist nýverið í stjórn Skeljungs þar sem 365 á 4,32 prósent hlut.

365 seldi fjölmiðla sína til tveggja aðila. Annars vegar til fjarskiptafélagsins Sýnar, þar sem Heiðar Guðjónsson, fyrrverandi stjórnarformaður og núverandi forstjóri, er stærsti einstaklingshluthafinn í gegnum Ursus (9,2 prósent). Heiðar á líka stóran hlut í HS Veitum. Sýn keypti ljósvakamiðla 365 og vefinn Vísir.is.

Helgi Magnússon.

Hinn aðilinn sem keypti fjölmiðla af 365 var Helgi Magnússon, sem á nú Fréttablaðið og tengda miðla að öllu leyti. Hann hefur verið mjög umsvifamikill í íslensku athafnalífi á undanförnum árum í gegnum félögin Hofgarða, Varðberg og Eignarhaldsfélagið Hörpu, sem hann á með öðrum. Hann hefur til að mynda átt hluti í Bláa lóninu, þar sem hann er stjórnarformaður, og hefur lengi átt vænan hlut í Marel, en hann hefur verið að selja sig niður þar undanfarið. Helgi hefur fjárfest í Iceland Seafood, Stoðum og Kviku banka á þessu ári.

Töluverð aukning í útgáfu bóka á Íslandi

|
|

Vísbendingar eru um aukna útgáfu bóka hér á landi ef tekið er mið af skráðum titlum í Bókatíðindi, yfirlitsrit Félags íslenskra bókaútgefenda yfir bækur gefnar út á árinu.

Samkvæmt skráningum í Bókatíðindum, sem út koma árlega, fjölgar titlum um 47% milli ára í flokki skáldverka fyrir börn og 39% milli ára í flokki ungmennabóka, 51% í flokki ljóða og leikrita, 27% í flokki skáldverka fyrir börn og 21% í flokki skáldverka fyrir fullorðna (nýjar íslenskar bækur og endurútgáfur).

„Við gleðjumst yfir því að fleiri bækur komi út á íslensku því þá er líklegra að lesendur finni efni við sitt hæfi – fjölbreytnin vinnur með okkur í því verkefni að efla íslenskuna og bæta læsi. Það er aldrei svo að einn lesandi komist yfir alla útgáfuna en það er frábært fyrir alla að hafa meira val, ekki síst yngri lesendur sem hafa hvatt til aukinnar útgáfu bóka fyrir börn og ungmenni,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á vef Stjórnarráðsins.

Þessar tölur miðast við prentaðar bækur í þessum flokkum í Bókatíðindum árin 2018 og 2019. Bókatíðindi eru þó ekki tæmandi yfirlit um útgáfuna í heild sinni því ekki eru allar bækur skráðar þar og í þeirri tölfræði er ekki gerður greinarmunur á frum- og endurútgáfum bóka.

Þess má geta að fyrr á þessu ári tóku gildi lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku en markmið þeirra er að efla bókaútgáfu vegna mikilvægis hennar fyrir íslenska tungu og eflingu læsis. Útgefendur geta nú sótt um endurgreiðslu á 25% kostnaðar sem hlýst af útgáfu bóka og hafa þegar borist rúmlega 150 umsóknir til endurgreiðslunefndarinnar vegna bóka sem komu út á fyrri hluta þessa árs.

Fundur í kjaradeilu blaðamanna

Hjálmar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands ritar pistil

Boðað hefur verið til fundar hjá ríkissáttasemjara í dag í deilu Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Fundurinn er fyrsti fundur þeirra í tvær vikur.

Fyrsta vinnustöðvun af fjórum var síðastliðinn föstudag þegar blaðamenn á vefmiðlum, ljósmyndarar og myndatökumenn lögðu niður störf frá klukkan 10 til 14.  Næsta vinnustöðvun á vefmiðlum er boðuð næsta föstudag í átta klukkustundir frá klukkan 10 til 18 og sú þriðja er boðuð föstudaginn 22. nóvember í tólf tíma. Hafi samningar ekki náðst fyrir fimmtudaginn 28. nóvember munu blaðamenn á prentmiðlum leggja niður störf þann dag.

Laugardalslaug lokuð í dag og kaldar sturtur í World Class vegna tengingar hitaveitu

Mynd / Reykjavik.is

Íbúar í Vogahverfi, Laugarási og við Laugardal í Reykjavík geta reiknað með að heitavatnsþrýstingur verði lágur í Vogahverfi, Laugarási og við Laugardal í Reykjavík í dag, mánudag. Laugardalslaug verður lokuð vegna vinnunnar og reikna má með að lokunin hafi áhrif á þjónustu á svæðinu, til að mynda í World Class laugum. „Sturtur gætu verið kaldar,“ segir á vef World Class.

Þetta kemur fram á Veitur.is. Þar segir að verið sé að tengja nýja aðalæð hitaveitunnar við Elliðaárbrýr og flytur hún mestallt það vatn sem notað er í hverfinu. Til að minnka áhrifin á neytendur er vatni veitt inn í hverfin eftir öðrum leiðum. Þær eru þó ekki eins afkastamiklar og því má búast við lækkuðum þrýstingi og jafnvel heitavatnsleysi, einkum í þeim húsum sem hæst standa á Laugarásnum.

Vonast er til að hægt verði að hleypa á nýju lögnina klukkan 20:00 sama dag og það mun taka einhverja klukkutíma að ná upp fullu þrýstingi á kerfið.

Ingvar tilnefnddur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

|
|

Ingvar E. Sigurðsson var um helgina tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki leikara í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason. Verðlaunaafhendingin mun fara fram í Berlín 7. desember.

 

Aðrir tilnefndir leikarar eru eftirfarandi:
Antonio Banderas in Pain and Glory
Jean Dujardin in AN OFFICER AND A SPY
Pierfrancesco Favino in THE TRAITOR
Levan Gelbakhiani in And Then We Danced
Alexander Scheer in Gundermann

Allar tilnefningar er að finna á heimasíðu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Ingvar hefur nú þegar unnið til þrennra verðlauna fyrir frammistöðu sína í myndinni síðan hún var heimsfrumsýnd í Critics’ Week hluta hinnar virtu kvikmyndahátíðar í Cannes, þar sem Ingvar vann til Rising Star verðlaunanna. Þá hlaut Ingvar einnig verðlaun fyrir besta leikarann á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu, Rúmeníu og á kvikmyndahátíðinni Festival du nouveau cinema í Montréal, Kanada. Hann hefur einnig hlotið lof hvarvetna í dómum um myndina, þar á meðal hjá hinum virtu kvikmyndatímaritum Cineuropa, Screen International og The Hollywood Reporter.

Hvítur, hvítur dagur hefur nú unnið til samtals 9 verðlauna og er ennfremur framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna árið 2020.

Ingvar var síðast tilnefndur til þessara virtu verðlauna árið 2000 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Englar alheimsins eftir Friðrik Þór Friðriksson, en þar hlaut hann áhorfendaverðlaunin fyrir leik sinn.

Björk Guðmundsdóttir er eini Íslendingurinn sem hefur unnið til leikaraverðlaunanna á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum og var það fyrir hlutverk hennar í Dancer in the Dark eftir Lars Von Trier árið 2000. Þá hefur framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures, sem framleiddi Hvítan, hvítan dag, fengið tvær tilnefningar frá Evrópsku akademíunni fyrir
fyrri verk sín í leikstjórn Guðmundar Arnar Guðmundssonar, Hvalfjörður var tilnefnd sem besta stuttmyndin árið 2014 og Hjartasteinn vann EUFA háskólaverðlaunin (European University Film Award) árið 2016.

Verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum. Á næsta ári mun hátíðin vera haldin í Hörpu í Reykjavík.

20% afsláttur af tímaritum og kerti frá URÐ fylgir

Áskriftasprengja 11. nóvember.

 

20% afsláttur er af öllum blaðaáskriftum í dag, mánudaginn 11. nóvember. Þá fylgir glæsilegt jólakerti frá URÐ með áskriftum sem eru keyptar á meðan afslátturinn er í gangi.

*Kertið frá URÐ skal sækja í Birtíng, Síðumúla 28, fyrir 1. desember.

 

Tryggðu þér áskrift á áskriftavefnum.

„Ég tel að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði geti tryggt nafnleysi þolenda“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, var í nefnd velferðarráðuneytis um endurskoðun reglna um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum sem vann tillögu að núgildandi reglugerð þar um. Hún segir ástæðu þess að ekki er fjallað um nafnleynd í reglugerðinni vera þá að þegar reglugerðin var samin, árið 2015, hafi umræðan í þjóðfélaginu verið önnur en nú og taka þurfi tillit til breyttra viðhorfa í þjóðfélaginu þegar reglugerðin er túlkuð.

 

„Meginmarkmið reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er að koma í veg fyrir og stöðva slíka hegðun,“ útskýrir Sonja. „Í málum sem þessum þurfa atvinnurekendur að upplýsa málið og komast að niðurstöðu um hvort áreitni hafi átt sér stað. Í kjölfarið þarf þá að meta hvernig sé hægt að stöðva hegðunina. Þó nokkur dæmi eru um að aðstæður séu með þeim hætti að atvinnurekandi og þeir sem hafa lagt fram kvörtun telji að ekki sé hægt að stöðva hegðun með áframhaldandi nærveru þess sem kvörtun beinist gegn.“

Í umræðunni um mál Atla Rafns hefur því verið haldið fram að uppsögnin hafi verið ólögleg, hvernig metur þú það?

„Niðurstaða dómsins byggir á því. Að jafnaði hafa atvinnurekendur og launafólk á almennum vinnumarkaði heimild til þess að segja ráðningarsamningum upp,“ segir Sonja. „Ef staðið er rétt að uppsögn og uppsagnarfresturinn er virtur þá lýkur ráðningarsambandinu almennt án frekari eftirmála. Ef uppsögn er vegna meints brots launamanns þarf atvinnurekandi að sýna fram á að brotið hafi átt sér stað.“

Atvinnurekanda skylt að virða trúnað

Málareksturinn byggir að stórum hluta á því að Atli Rafn hafi ekki verið upplýstur um hverjir það voru sem sökuðu hann um áreitni. Á sá sem vikið er úr starfi skilyrðislausan rétt á því að fá að vita nöfn þeirra sem hafa kvartað undan honum?

„Það er ekkert í lögum sem tryggir starfsmanni á almennum vinnumarkaði réttinn til að vita nöfn þeirra sem kvörtuðu undir þessum kringumstæðum,“ fullyrðir Sonja. „Heldur þvert á móti er atvinnurekanda skylt að halda og virða trúnað sé þess óskað eins og Persónuvernd komst að niðurstöðu um.

Ástæða þess að ekki er fjallað um nafnleynd eða skyldu atvinnurekanda til að upplýsa um nöfn þeirra sem kvarta í reglugerðinni varðandi áreitni er að umræðan var ekki á sama stað í aðdraganda setningar reglugerðarinnar. Umræðan snerist nánast eingöngu um það hvernig mætti stuðla að því að þolendur leituðu sér aðstoðar og tryggt að það væri viðeigandi ferli sem tæki við á vinnustaðnum. Það voru engin dæmi um það þá að fólk óskaði eftir því að stíga fram án þess að nafns þess væri getið og almennt mjög fá dæmi um að þolendur væru að stíga fram yfir höfuð. Lög og reglur gera ekki ráð fyrir öllum mögulegum aðstæðum og því þarf að túlka þau í samræmi við markmið þeirra.“

„Það er ekkert í lögum sem tryggir starfsmanni á almennum vinnumarkaði réttinn til að vita nöfn þeirra sem kvörtuðu undir þessum kringumstæðum. Heldur þvert á móti er atvinnurekanda skylt að halda og virða trúnað sé þess óskað eins og Persónuvernd komst að niðurstöðu um.“

Er atvinnurekandi þá í fullum rétti að halda nöfnum ásakenda leyndum? Hvað með rétt þess sem ásakaður er til að verja sig?

„Ég tel að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði geti tryggt nafnleysi þolenda og stuðlað þannig að því að starfsfólk treysti sér til að leita aðstoðar vegna áreitni eða ofbeldis á vinnustað,“ segir Sonja. „Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að það sé farvegur fyrir þolendur og að þeir geti treyst því að atvinnurekandi bregðist við og hegðunin verði stöðvuð. Atvinnurekendur þurfa þá að rannsaka málið og komast að niðurstöðu um hvort áreitnin eða ofbeldið hafi átt sér stað eða ekki. Í kjölfarið þarf svo að taka ákvörðun um framhaldið byggt á heildarhagsmunum og því miður þarf oft að taka þá erfiðu ákvörðun að vega saman hagsmuni þess sem kvartar á við hagsmuni þess sem kvartað er gegn. Opinberir atvinnurekendur geta hins vegar ekki tryggt nafnleynd einstaklinga sem stíga fram þar sem ólíkar reglur gilda á opinberum vinnumarkaði og því er mikilvægt að samtalið um hver besta tilhögunin sé fari fram.“

Ekki í samræmi við aukna þekkingu

Annað sem mikið hefur verið rætt er upphæð bótanna sem Atla Rafni voru dæmdar, finnst þér sú umræða eiga rétt á sér?

„Í þeim starfsmannamálum sem við höfum komið að varðandi uppsagnir hafa miskabætur fyrir dómi oft verið í kringum 800 þúsund krónur,“ segir Sonja. „Mörg þessara mála hafa verið afar íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi, fólk verið í þeim aðstæðum að eiga erfitt með að finna aðra vinnu, mikið neikvætt umtal um viðkomandi og þau jafnvel útskúfuð úr samfélaginu. Í máli Leikfélags Reykjavíkur eru starfsmanninum fyrrverandi dæmdar næstum tvöfalt hærri miskabætur. Það er óvenjulegt.“

Þannig að þér finnst dómurinn á skjön við ríkjandi viðhorf í samfélaginu?

„Þó nokkur dæmi eru um að niðurstöður dóma séu ekki í takt við aukna þekkingu og viðhorfsbreytingar í samfélaginu og má velta fyrir sér hvort þetta sé dæmi um slíkt,“ segir Sonja. „Það verður áhugavert að sjá niðurstöðu Landsréttar.“

 

 

 

 

Ættfræðin nýjasta vopn lögreglunnar

Sífellt fleiri hafa áhuga á því að rekja uppruna sinn og þar kemur ættfræðin inn.

Ættfræðigagnabankar sem byggja á lífsýnum njóta sívaxandi vinsælda erlendis. Lögregla hefur í auknum mæli nýtt sér upplýsingasöfnin til að leysa sakamál, sem er umdeilt.

 

Það vakti gríðarmikla athygli þegar stúlkubarn fannst í ruslagámi á iðnaðarsvæði í Bjølsen í Ósló 11. ágúst 1990. Stúlkan var kölluð „gámabarnið“ í fjölmiðlum en þrátt fyrir tilraunir lögreglu tókst ekki að hafa uppi á þeim sem hafði látið hana í sorpið. Í vikunni tilkynntu stjórnendur sjónvarpsþáttarins Åsted Norge hins vegar að þeim hefði tekist, með aðstoð ættfræðinnar, að hafa uppi á móður stúlkunnar. Ingrid sem var um síðir ættleidd mun að öllum líkindum hitta konuna sem fæddi hana, á næstu misserum.

Samkvæmt Åsted Norge mun þetta vera í fyrsta sinn sem sakamál er leyst með aðstoð ættfræðigagnabanka en vestanhafs hefur færst í vöxt að lögregluyfirvöld nýti sér aðstoð ættfræðinga og einkarekinna ættfræðigagnabanka til að hafa uppi á brotamönnum. Þannig tókst t.d. loksins að hafa uppi á svonefndum „Golden State Killer“ árið 2018 eftir að rannsóknarlögreglumaður á eftirlaunum bar saman lífsýni úr morðingjanum við erfðaupplýsingar á vefsíðunni GEDmatch. Böndin bárust að Joseph James DeAngelo en ættingi hans hafði nýtt sér vefsíðuna. Lögreglu tókst að afla lífsýna frá DeAngelo og staðfesta að þar færi maðurinn sem hefði framið að minnsta kosti 13 morð, fleiri en 50 nauðganir og yfir 100 innbrot.

Ættfræðigagnabankar eru í þessu samhengi vefsíður sem einstaklingar geta nýtt sér til að finna náskylda og fjarskylda ættingja. Ferlið fer þannig fram að einstaklingur safnar lífsýnum hjá sjálfum sér með viðeigandi tækjum, sendir þau inn til greiningar og getur síðan nálgast upplýsingar sínar og samanburð við aðra á vefsíðunum. Síðurnar eru ólíkar að því leyti að sumar bjóða bæði upp á greiningu og samanburð en aðrar geyma bara niðurstöður erfðaprófanna sem notendur senda inn.

Löglegt en siðlaust?

Ættfræðigagnabankarnir hafa notið vaxandi vinsælda síðustu ár en stærstu bandarísku vefsíðurnar eru Ancestry með 15 milljón notendur og 23andMe með 10 milljón notendur. Fyrirtækin á bak við síðurnar eru hins vegar afar umdeild, þá ekki síst vegna notkunar lögreglu á þeim gögnum sem fyrirtækin varðveita.

Sérfræðingar eru sammála um að upplýsingasöfnin sem fyrirtækin lúra á séu mjög gagnleg fyrir lögreglu, enda fer þeim málum sífellt fjölgandi þar sem ættfræðin, til viðbótar við erfðafræðina, hefur komið við sögu við lausn gátunnar. Þeir benda hins vegar á að fæstir sem senda erfðaupplýsingar sínar inn til greiningar, oftar en ekki sér til skemmtunar, geri sér grein fyrir að upplýsingar kunni að verða notaðar til að klófesta bróður, frænku eða afa. Þá geri fólk ráð fyrir því að þegar um er að ræða heilbrigðisupplýsingar sé kveðið á um að fyrirtækin leiti samþykkis áður en upplýsingarnar séu notaðar í öðrum tilgangi eða deilt með þriðja aðila.

Hvað lagalegu hliðina varðar eru menn ekki á eitt sáttir um lögmæti þess að nota gögnin en sumir hafa bent á að lögreglu hafi löngum verið heimilt að safna og rannsaka erfðaefni sem fólk skilur eftir sig, svo sem sígarettustubba og hár. Þannig væri hægt að færa rök fyrir því að þar sem fólkið setur erfðaupplýsingar sínar sjálfviljugt inn í opna gagnabanka, geti það ekki vænst trúnaðar. Hins vegar hefur verið kallað eftir gegnsæi hjá lögregluyfirvöldum, það er að þau upplýsi hvaða upplýsingasöfn þau noti, hvernig og hversu mikið.

Lestu umfjöllunina í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Magnús Geir og seinheppni þjófurinn

Í hverri viku útnefnir Mannlíf þá einstaklinga sem hafa blómstrað í vikunni og þá sem hafa ekki átt jafn auðvelt uppdráttar.

Góð vika – Magnús Geir Þórðarson

Íslenskir rithöfundar höfðu sannarlega tilefni til að gleðjast í vikunni því greint var frá því að íslensk bókaútgáfa hafi tekið stökk erlendis. Framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta sagði að núna væri „mjög góður tími fyrir íslenskar bókmenntir erlendis og kannski betri en nokkru sinni.“ Stjórnendur flugfélagsins Play, áður WAB air, höfðu líka ástæðu til að fagna, en þeir tilkynntu að félagið hæfi sig til flugs í vetur og því má segja að þeir hafi náð forystu af nýjum eiganda vörumerkisins WOW air, Michelle Ballarin, í kapphlaupinu um að fylla skarðið sem WOW skildi eftir. Kóngur vikunnar er svo Magnús Geir Þórðarson sem skaut keppinautum sínum sömuleiðis ref fyrir rass þegar hann var skipaður þjóðleikhússtjóri. Allt sem Magnús snertir virðist verða að gulli og því verður spennandi að sjá hvernig honum vegnar í nýju starfi.

Slæm vika – Seinheppni þjófurinn

Auðunn Blöndal greindi frá því í Brennslunnni að hann hefði orðið „hvítur í framan“ við að uppgötva að Instagram-reikningi hans hafi verið stolið og aðdáendur jólajógúrts MS liðu vítiskvalir eftir að þeir uppgötvuðu að kurlinu sem fylgir jógúrtinni hafði verið breytt. Verstu vikuna átti þó eflaust erlendi verkamaðurinn sem rændi samstarfsmenn sína og reyndi að flýja með góssið úr landi. Rannsóknarlögreglumaður heyrði af því að maðurinn hefði verið rekinn úr starfi og bókað flug úr landi að kvöldi sama dags. Í kjölfarið bað lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lögregluna á Suðurnesjum um að stöðva manninn og bera skóbúnað hans saman við skófar á vettvangi glæpsins. Skór mannsins reyndist passa við það og þýfið fannst í farangri hans. Rétt eins og í gamalli spæjarasögu kom fótsporið því upp um þjófinn.

„Sumir kunna ekki að skammast sín“

Mannlíf tók saman nokkur áhugaverð ummæli sem voru látin falla í vikunni.

 

„Fyrst heimtum við að heimurinn hætti að þagga niður kynferðisofbeldi en nú viljum við hafa réttinn til að þagga sjálfar kynferðisofbeldi í hel og réttinn til að bera menn sökum án þess að þurfa að standa fyrir máli okkar? Það er ofbeldi af verstu skúffu eins og dómsúrskurður í máli Atla ber vitni um.“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona um viðbrögðin við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Atla Rafns Sigurðssonar gegn Borgarleikhúsinu.

„Orðræða sem þessi sendir alvarleg skilaboð út í samfélagið og hefur að engu trúverðugleika brotaþola kynferðisofbeldis.“

Yfirlýsing frá tæplega hundrað konum vegna skrifa Steinunnar Ólínu.

„Nú fagna ég umræðu um dómsmálið mitt og finnst gleðilegt þegar fólk skilur um hvað það snýst. En mér finnst erfitt þegar því er stillt upp við hlið máls Atla Rafns sem á ekkert skylt með mínu.“

Freyja Haraldsdóttir aktivist segir að mál hennar gegn Barnaverndarstofu eigi ekkert sameiginlegt með máli Atla Rafns gegn leikhússtjóra Borgarleikhússins. Þar vísar Freyja í fyrrnefnd skrif Steinunnar Ólínu.

„Farið til útlanda og reddið ykkur þar í boði ríkisins eða pungið sjálf út fyrir aðgerðunum hér heima, eru hins vegar skilaboð ríkisstjórnarflokkanna til biðlistafólksins.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, um þá staðreynd að að margir Íslendingar fari utan í aðgerðir, vegna langra biðlista eftir því að komast í slíkar aðgerðir hér á landi.

„Það er ekki hægt að skauta yfir það sem er manni til minnkunar.“

Halldór Einarsson, kenndur við Henson, segist í nýútgefinni ævisögu sinni sjá eftir að hafa skrifað undir meðmælabréf til handa Robert Downey, sem var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum, í því skyni að hann fengi uppreist æru. Hann kveðst hafa reynt að draga undirskrift sína til baka án árangurs.

„Sumir kunna ekki að skammast sín.“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í borginni, skammar Dag B. Eggertsson borgarstjóra fyrir að ganga út á þurrum fótum allt árið, en á meðan hafi smáhýsi fyrir heimilislausa ekki risið, svo dæmi sé tekið.

„Væri gaman að stofna umhverfisverndarflokk sem lýsir yfir neyðarástandi og hefur bara ömurlega hluti á stefnuskrá sinni; banna krússkip, leggja niður innanlandsflug, fækka rollum og beljum og banna jarðefnaeldsneyti og alls konar.“

Jón Gnarr, skemmtikraftur og fyrrverandi borgarstjóri.

Biscotti með trönuberjum, pistasíuhnetum og hvítu súkkulaði

Trönuber eru ekki bara mjög holl og góð fyrir okkur heldur eru þau líka alveg ómótstæðilega falleg.

 

Fersk trönuber fást víða í matvörubúðum þessa dagana og það er um að gera að prófa að nota þau í matargerð. Fersk trönuber þarf að matreiða, þau eru ekki mjög góð „eins og þau koma af kúnni“ en aftur á móti eru þau óskaplega falleg og tilvalin til þess að nota í skreytingar eins og við gerum hér. Þurrkuð trönuber eru bæði gott snarl til þess að grípa í og frábært hráefni í kökur og mat.

Biscotti með trönuberjum, pistasíuhnetum og hvítu súkkulaði

18-20 stk.

120 g smjör, mjúkt
2 ½ dl sykur
börkur af 1 appelsínu
2 stór egg
4 dl hveiti
1 dl maizena-mjöl
1 ½ tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
safi úr 1/2 appelsínu
85 g þurrkuð trönuber (1 poki)
50 g pistasíuhnetur, gróft skornar
100 g hvítt súkkulaði, saxað gróft

Stillið ofninn á 175°C. Setjið smjör, sykur og appelsínubörk saman í hrærivélarskál og hrærið vel saman, það er gott að stoppa vélina annað slagið og losa um með sleikju svo að allt blandist vel. Bætið eggjum út í, einu í einu, hrærið vel á milli. Hrærið þar til blandan er orðin létt og ljós.

Setjið hveiti, maizena-mjöl, lyftiduft og salt saman í aðra skál, blandið vel saman, setjið þetta út í hrærivélarskálina og hrærið á hægum hraða þar til allt er vel samlagað. Setjið appelsínusafa saman við. Bætið hveiti út í ef deigið er of blautt, það á að vera klístrað en nokkuð stíft. Bætið hnetum og súkkulaði út í deigið.

Stráið hveiti á borð og veltið deiginu létt upp úr því þannig að auðvelt sé að eiga við það. Setjið deigið á ofnplötu með bökunarpappír og mótið hleif sem er u.þ.b. 3-4 cm þykkur. Bakið í 20-25 mín. eða þar til hleifurinn er bakaður í miðjunni,  best er að finna það með því að ýta létt með fingrunum í miðjuna. Takið plötuna úr ofninum og látið kólna. Lækkið hitann niður í 160°C.

Skerið lengjurnar varlega í u.þ.b. 1,5-2 cm þykkar sneiðar, raðið þeim á bökunarpappír á ofnplötu og bakið á hvorri hlið í 5-7 mín. Fylgist með svo að sneiðarnar verði ekki of dökkar, þær eiga aðeins að þorna og brúnast lítillega. Látið kólna alveg og geymið í lokuðu boxi.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Þrautseigja og kærleikur fara vel saman

|
Íris Helga Baldursdóttir.|30 ára

Leikskólinn Hjalli varð þrjátíu ára þann 25. september síðastliðinn og það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að þrír áratugir séu liðnir síðan Hjallastefnan varð til. Á þessum árum hefur hún auðvitað þróast, tekið breytingum og aðlagast aðstæðum í samfélaginu en í grunninn er hugmyndafræðin þó í mjög sambærilegri mynd og hún var. Í tilefni afmælisins var mikið um dýrðir og tók Steingerður Steinarsdóttir Írisi Helgu Baldursdóttur, skólastýru Hjalla, tali vegna þessara tímamóta.

 

Á afmælisdaginn tók starfsfólk leikskólans Hjalla sig til og setti saman sögusýningu, þar sem hengdar voru upp myndir, minningar og ýmislegt annað frá árunum þrjátíu, í sal og á göngum skólans. Afmælisvikan var hátíðleg og viðburðarík. Fjölskyldur Hjalla heimsóttu skólann í fjölskyldukaffi þar sem börnin sungu, buðu á listsýningu og léttar veitingar.

„Hátíðleikinn og gleðin svifu yfir í skólanum þessa viku og stórir sem smáir tóku þátt í viðburðum vikunnar,“ segir Íris Helga. „Á afmælisdaginn sjálfan kom fólk og samgladdist okkur í Hjalla, skólastjórar Hjallastefnuskóla, skólastjórar leikskóla Hafnarfjarðar, fólkið sem vinnur mest með okkur á Skóla- og frístundasviði Hafnarfjarðarbæjar, bæjarstjórinn Rósa Guðbjartsdóttir og Þórdís Jóna framkvæmdastýra heiðruðu okkur með nærveru sinni og að sjálfsögðu frumkvöðull stefnunnar sjálfrar, hún vinkona okkar Margrét Pála.“

Hjallastefnan er uppeldis- og skólastefna sem rekur fjórtán leikskóla og þrjá grunnskóla. Í hverju er hún fólgin, í stuttu máli, og hvað leggið þið mesta áherslu á í uppeldi barna? „Hjallastefnan er kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna þar sem við iðkum jákvæðni og kærleika jafnt til barna sem og samstarfsfólks, Hjallastefnan er mannræktarstefna þar sem fullorðnir fá einnig tækifæri til að iðka á sama hátt og börnin,“ segir Íris Helga. „Jafnrétti stúlkna og drengja skiptir okkur einna mestu máli og þar höfum við kynjanámskrá til að vinna eftir. Þar eru einnig teknir fyrir einstaklings- og félagslegir þættir sem markvisst er unnið með í starfi með börnum.

Unnið er með litla hópa þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín á eigin verðleikum og unnið er að því að nálgast hvert og einn barn eins og það þarf.

Þetta er miklu meira en bara orðin tóm heldur teygjum við okkur langt til að lifa eftir þessum gildum sem einkennir allt okkar starf. Leikefni er nokkuð óhefðbundið í leikskólunum, en það er svokallaður opinn efniviður sem snýr að sköpunarkrafti og ímyndurnarafli barnanna fremur en að vera stýrandi í leik þeirra.“

Hverju hafa þau viðhorf og aðferðir sem hún notar breytt í menntamálum hér á landi? „Við stefnum alltaf að því að finna leiðir sem henta hverju barni í leik og þroska. Við erum öll misjöfn og viljum öll fá tækifæri til að æfa okkur og læra af mistökum. Þess vegna höfum við t.d. uppbyggileg orð yfir mistök og segjum að við ruglumst og það gangi bara betur næst. Þetta er markvisst notað og samkvæmt rannsókn sem var unnin af Háskólanum í Reykjavík kemur í ljós að börnin okkar hafa meiri seiglu en önnur börn og það er mikilvægur eiginleiki. Við viljum gefa hverju barni rými til að æfa, endurtaka og sleppa tökum af mistakaótta. Við viljum efla börn í að vera sjálfstæð, hugrökk og standa með sjálfum sér í leik og starfi,” segir Íris Helga. „Í Hjallastefnunni er, eins og áður sagði, unnið eftir kynjanámskrá. Hún er byggð upp á sex lotum yfir skólaárið, sem skiptast á að þjálfa einstaklings- og félagslega þætti barnanna.“

Íris Helga segir að alla daga æfi kennarar og börn sig í að fara út fyrir boxið. Þau vilji að hvert barn geti víkkað sitt val, tilfinningalega og áhugatengt, án þess að vera stýrt í einhverja átt út frá kyni. „Við erum með kynjaskipt starf, en það er eingöngu verkfærið okkar að blöndun á jafnréttisgrundvelli. Kynjaskiptingin er í sjálfu sér ekki markmið heldur leiðin að því markmiði að börn, stúlkur og drengir, hafi frelsi til að vera eins og þau eru. Þar sem áhugi þeirra ræður för en ekki fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað hæfi þeim út frá kyni.

Aukning á kynjuðum fötum og leikföngum er gríðarleg ef eitthvað er nefnt, það er búið að setja börn í mót og mótaðan farveg út frá kyni strax við fæðingu.

Námskrá Hjallastefnunnar hefur notið sívaxandi velgengni og virðingar undanfarin ár og hefur fengið ýmis konar viðurkenningar vegna jafnréttismála. Árið 1996 hlaut Hjallastefnan viðurkenningu Jafnréttisráðs Íslands fyrir sérstakt átak í jafnréttismálum og Hjalli hlaut hvatningarverðlaun Jafnréttisnefndar Hafnarfjarðar árið 2001. Nú á dögunum hlaut Hjallastefnan svo verðlaun frá Manino og Viðskiptaráði Íslands fyrir byltingarkenndar stjórnunaraðferðir.

Hjallastefnan er nokkuð þekkt erlendis og skólarnir fá til sín mjög marga erlenda gesti á hverju ári auk þess sem Margrét Pála og starfsfólk Hjallastefnunnar hafa verið fengin til að tala á ráðstefnum víðs vegar um heiminn. „Við erum henni óendanlega þakklát fyrir kjarkinn, þrautseigjuna og óbilandi trú og staðfestu í að gera heiminn betri fyrir okkur öll.“

„Það er eins og með allt, skoðanir fólks eru misjafnar og það er í góðu lagi. Það þarf ekki öllum að líka vel við allt, það er það dásamlega við að hafa val í skólakerfinu eins og á öðrum stöðum,“ segir Íris Helga aðspurð hvort skoðanir fólks hafi áhrif á starfið.

Íris Helga segir þau vera lánsöm að hafa stóran hóp fjölskyldna í þeirra samfélagi og markmið þeirra er að koma til móts við hverja einustu fjölskyldu eins og þau þurfa. Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur? „Við lítum svo sannarlega björtum augum til framtíðarinnar og hlökkum til hennar, enda ekki annað hægt þegar börn eru annars vegar. Það eru forréttindi að vera í starfi þar sem kjarninn í öllu gengur út á að gera lífið betra og kærleiksríkara frá degi til dags,“ segir Íris Helga að lokum.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Kringlótt fræbrauð

1. tbl. 2015

Gróf brauð sem innihalda gróft mjöl og næringarríkar hnetur og fræ eru frábær kostur. Flest ættum við að auka neyslu á slíkri ofurfæðu, enda hafa rannsóknir sýnt að verulega vantar upp á að við séum að borða nóg af trefjum frá degi til dags. Gróf brauð eru því frábær uppspretta góðra kolvetna, líkt og ávextir og grænmeti.

 

Kringlótt fræbrauð

130 g hveiti
80 g muscovado-sykur eða púðursykur
100 g heilhveiti
60 g sólblómafræ, ristuð
50 g hörfræ
40 g hörfræmjöl
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
5 dl súrmjólk
½ dl olía
1 egg

Hitið ofn í 175°C. Blandið öllum þurrefnum saman. Pískið súrmjólk, egg og olíu saman og blandið saman við þurrefnin. Klæðið form með bökunarpappír (hér var notað hringform) og dreifið deiginu í formið. Stráið gjarnan graskersfræjum yfir og bakið í u.þ.b. 1 klst.

Athugið að hægt er að búa til súrmjólk með því að setja 3-4 tsk. af sítrónusafa eða ediki í mæliskál, fylla síðan upp í það magn sem þarf með mjólk og láta þetta standa í nokkrar mín.

Texti og stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Lærði meira í gegnum félagsstarfið en bóknámið

|||
Björn Jón og Pétur Már afhenda dr. Inga Ólafssyni

Pétur Már Sigurðsson, 19 ára nemandi í Verzlunarskóla Íslands, gaf nýlega út kverið Fundur er settur, ásamt Birni Jóni Bragasyni, kennara sínum í skólanum. Kverið fjallar um félagsstörf, fundarsköp og ræðumennsku, sem er sameiginlegt áhugamál nemandans og kennarans.

 

„Björn Jón átti hugmyndina að kverinu og bar hana undir mig þegar ég var hjá honum í lögfræðitíma,“ segir Pétur Már aðspurður um kverið. „Ástæðan var sú að hann vissi að ég hafði mikla innsýn í heim félagsstarfa ungmenna í dag og vildi fá það staðfest að það væri þörf á þessu. Þá var það ekkert inni í myndinni að ég myndi vinna hana með honum. Í kjölfarið fórum við þó að ræða þetta meira og meira og eftir nokkrar vikur bauð Björn mér að vera meðhöfundur. Ég er mjög þakklátur fyrir það tækifæri.“

Pétur Már segist ekki vita um önnur dæmi þess að nemandi og kennari gefi út rit saman, að minnsta kosti ekki hér á landi.

Með ofboðslega vítt áhugasvið

Pétur Már er 19 ára og býr á Selfossi. Að eigin sögn er hann með ofboðslega vítt áhugasvið, mikinn áhuga á félagsstarfi og list, sérstaklega málaralist. „Ég hef líka alltaf verið hrifinn af tækni og hef nýtt frítímann minn í að læra forritun síðustu átta ár. Í dag forrita ég hjá fyrirtækinu SalesCloud sem þróar sveigjanlegt sölukerfi bæði til þess að selja vörur á Netinu og í verslun.“

Hann fékk áhuga á félagsstörfum strax í áttunda bekk, þegar honum bauðst að vera í félagsmiðstöðvarráði Zelsíuz á Selfossi. „Út frá því bauð ég mig fram í ungmennaráð Árborgar þar sem ég sat í fjögur ár og hef grúskað í þessu öllu saman meira og minna síðan,“ segir Pétur Már. En hvað er það við félagsstörfin sem heillar hann? „Ég á mjög erfitt með að setja punkt á það hvað það er sem höfðar til mín við þetta, en ætli það sé ekki bara samstaðan sem myndast þegar margt fólk vinnur að sameiginlegu verkefni af einskærum áhuga og býst ekki endilega við neinu í staðinn.“

Áhersla á félagsstörf frekar en bóknám

Eftir að Pétur Már hóf nám við Verzlunarskóla Íslands ákvað hann að leggja áhersluna frekar á félagsstarfið en bóknámið, og hefur hann verið ötull í félagsstarfi allan tímann. „Ég uppgötvaði snemma á fyrsta ári að Verzlunarskólinn getur kennt manni mun meira í gegnum félagsstarfið en bóknámið og boðið upp á fleiri tækifæri,“ segir Pétur Már. „Ég fékk að taka þátt í ræðuliðinu öll þrjú árin mín ásamt því að sitja í málfundarfélaginu, leika í bæði leikritinu og söngleiknum, keppa í Vælinu, söngkeppni skólans og á síðasta árinu mínu gegndi ég starfi sem forseti nemendafélagsins.“

En hvernig hefur nýjasta hlutverkinu verið tekið, bókaútgefandi?

„Móttökurnar fóru fram úr öllum væntingum og við höfum verið að fá fyrirspurnir úr ofboðslega mörgum áttum.“

„Nemendur í félagsstarfi, borgarfulltrúar, meðlimir húsfélaga og fyrirtækjarekendur eru þeir hópar sem mest hafa verið að óska eftir eintökum. Við Björn höfum verið að ræða það að prenta fleiri bækur,“ segir Pétur Már.

Námskeið eru einnig fram undan tengd efni bókarinnar, þeir hafa sett sig í samband við núverandi forseta nemendafélags skólans, Dag Kárason, og verður námskeið haldið fyrir nemendur í Verzlunarskólanum. „Ef það gengur vel ætlum við að bjóða fleiri skólum upp á þetta og jafnvel öðrum félagssamtökum eins og til dæmis ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka.“

Nýtt Ísland – Kaupfélag Skagfirðinga

Kaupfélag Skagfirðinga, samvinnufélag með um 1.600 félagsmenn, er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Fjallað er um kaupfélagið og fleiri stóra leikendur í íslensku viðskiptalífi í nýjasta tölublaði Mannlífs.

 

Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri hefur leitt félagið um árabil sem forstjóri og var afkoma félagsins á árinu 2018 sú besta í 130 ára sögu þess. Uppbygging kaupfélagsins hefur verið verulega umfangsmikil á undanförnum árum, en í lok árs í fyrra var eigið fé félagsins rúmlega 35 milljarðar og heildareignir námu 62,3 milljörðum króna.

Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Þá eignaðist FISK allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf. síðla árs 2017, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja ótengdu aðila 10,6 prósentum.

Kaupfélagið hefur tekið þátt á skráðum hlutabréfamarkaði, meðal annars með því að eiga um tíma hlut í bæði Högum og Brim. Þá á Kaupfélag Skagfirðinga 20 prósent hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Höfundur / Þórður Snær Júlíusson.

Lesa má umfjöllunina í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Markmið reglugerðarinnar að tryggja þolendum farveg

Sonja Ýr Þorbergsdóttir.

„Það er ekkert í lögum sem tryggir starfsmanni á almennum vinnumarkaði réttinn til að vita nöfn þeirra sem kvörtuðu undir þessum kringumstæðum,“ fullyrðir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Heldur þvert á móti er atvinnurekanda skylt að halda og virða trúnað sé þess óskað eins og Persónuvernd komst að niðurstöðu um.“

Í nýjasta tölublaði Mannlífs er fjallað um dóminn í máli Atla Rafns Sigurðssonar leikara gegn Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra.

„Ástæða þess að ekki er fjallað um nafnleynd eða skyldu atvinnurekanda til að upplýsa um nöfn þeirra sem kvarta í reglugerðinni varðandi áreitni er að umræðan var ekki á sama stað í aðdraganda setningar reglugerðarinnar. Umræðan snerist nánast eingöngu um það hvernig mætti stuðla að því að þolendur leituðu sér aðstoðar og tryggt að það væri viðeigandi ferli sem tæki við á vinnustaðnum. Það voru engin dæmi um það þá að fólk óskaði eftir því að stíga fram án þess að nafns þess væri getið og almennt mjög fá dæmi um að þolendur væru að stíga fram yfir höfuð. Lög og reglur gera ekki ráð fyrir öllum mögulegum aðstæðum og því þarf að túlka þau í samræmi við markmið þeirra.“

Er atvinnurekandi þá í fullum rétti að halda nöfnum ásakenda leyndum? Hvað með rétt þess sem ásakaður er til að verja sig?

„Ég tel að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði geti tryggt nafnleysi þolenda og stuðlað þannig að því að starfsfólk treysti sér til að leita aðstoðar vegna áreitni eða ofbeldis á vinnustað“

„Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að það sé farvegur fyrir þolendur og að þeir geti treyst því að atvinnurekandi bregðist við og hegðunin verði stöðvuð. Atvinnurekendur þurfa þá að rannsaka málið og komast að niðurstöðu um hvort áreitnin eða ofbeldið hafi átt sér stað eða ekki. Í kjölfarið þarf svo að taka ákvörðun um framhaldið byggt á heildarhagsmunum og því miður þarf oft að taka þá erfiðu ákvörðun að vega saman hagsmuni þess sem kvartar á við hagsmuni þess sem kvartað er gegn. Opinberir atvinnurekendur geta hins vegar ekki tryggt nafnleynd einstaklinga sem stíga fram þar sem ólíkar reglur gilda á opinberum vinnumarkaði og því er mikilvægt að samtalið um hver besta tilhögunin sé fari fram.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Lestu viðtalið í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Byggjum fyrirhrunsafn

Pawel Bartoszek hafði rétt fyrir sér

Síðast en ekki síst

Eftir / Pawel Bartoszek

Á Den Gamle By – útisafninu í Árósum er gata sem á að sýna Danmörku árið 1974. Þar standa búðargluggar með leikföngum úr djúpu sjöunni, slátrarar sem klæddu dauð svín í jakkaföt og létu þau reykja pípu. Á einum stað er  gamall djassklúbbur með innréttingunum og öllu tilheyrandi. Einu sinni í mánuði opnar svo klúbburinn og þá mæta gamlir fastagestir og reykja inni, því það mátti þá.

Margir sækja söfn til að upplifa og rifja upp. „Æi, var kókflaskan svona? Man eftir því núna! Var búinn að gleyma því.“ „Já, amma átti svona stell!“ „Ég man eftir svona eldavél.“ Fólki hlýnar um hjartaræturnar. En því lengra sem líður því erfiðara er að fá fólk til að tengja við safnkostinn.

Við hliðina á 1974-hlutanum er verið að byggja nýja götu. Hún mun sýna Danmörku árið … 2014. Það hljómar í fyrstu fáránlega. Árið 2014 var bara áðan. Þarf virkilega sérstakt safn fyrir heim þar sem fólk hefur bara séð fyrstu fimm seríurnar af Game of Thrones?  En þeir sem eru 10 ára núna voru 5 ára árið 2014. Árið 2014 er saga fyrir þeim. Og saga á heima á söfnum.

Mér finnst þetta í raun snilldarhugmynd! Gerum þetta hér! Hættum að flytja gömul hús á Árbæjarsafn og byggjum frekar ný. Höfum svona rétt-fyrir-hrun-götu. Til minningar um þá tíma þegar við gátum allt.

Glerjað Kaupþingsútibú, menn í jakkafötum að selja viðbótarlífeyrissparnað. Kíkjum í einbýlishús með upphituðu parketi, heitum potti og Kobe-kjöti á gasgrillinu. Spilum FIFA 07 í PlayStation 3. Horfum á undanúrslitaleikinn í handbolta frá Ólympíuleikunum í Beijing, aftur og aftur.

Kíkjum svo í Eurovision-partí, horfum á Silvíu Nótt falla úr leik og hneykslumst á því hvað útlendingar eru húmorslausir. Endum svo heimsóknina á McDonald’s. Pöntum stjörnumáltíð með sjeik í staðinn fyrir gos. Eins og í þá gömlu góðu daga.

Rétturinn til varna toppar réttinn til nafnleyndar

Helga Vala Helgadóttir.

Helga Vala Helgadóttir, alþingis- og lögmaður, vill ekki tjá sig sérstaklega um mál Atla Rafns Sigurðarsonar gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur, en segir rétt þess sem ásakaður er um brot vera eina af grunnstoðum réttarríkisins. Komi slíkar ásakanir fram nafnlaust sé ekki hægt að vinna málið í eðlilegum farvegi og þar með sé brotið á rétti meints geranda.

„Það þarf auðvitað að fara að settum reglum,“ segir Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og alþingismaður, spurð hvernig yfirmenn eigi að bregðast við ásökunum á hendur starfsmanna. „Ef margir koma og kvarta yfir ákveðnum starfsmanni, eða jafnvel þótt það sé bara einn aðili sem kvartar, þá á vinnuveitandinn að bregðast strax við og skoða hvað er hæft í ásökunum, hvað hefur gerst og hvernig. Það er rík skylda vinnuveitenda að rannsaka málið í þaula og sú skylda er studd bæði með lögum og reglugerðum.“

Hvernig á vinnuveitandinn að rannsaka málið? „Í þessari rannsókn felst auðvitað að tala við meintan geranda eða gerendur og kanna hvort eitthvað sé hæft í þessum ásökunum,“ útskýrir Helga Vala. „Ef um er að ræða saknæmt athæfi ætti vinnuveitandi, að mínu mati, að ráðleggja þeim starfsmanni sem kvartar að tala við lögreglu því það er auðvitað þar sem mál eiga að fá umfjöllun ef um er að ræða gróf brot, kynferðislega áreitni eða kynferðisbrot. Ef um er að ræða einelti eða ósiðsamlega hegðun sem ekki er það gróf að geta flokkast undir hegningarlagabrot fer rannsóknin fram innan vinnustaðarins. Þá verður vinnuveitandi að skoða málið frá öllum hliðum og til þess að meintur gerandi geti skýrt sína hlið verður hann/hún auðvitað að fá að vita málsatvik og hverjir eru meintir þolendur.“

Eiga meintir þolendur sem sagt ekki rétt á nafnleynd? „Ef þú berð einhvern sökum verður þessi einhver eða einhverjir að eiga möguleika á að svara fyrir þær sakir,“ segir Helga Vala. „Þú getur ekki svarað fyrir sakirnar nema fá að vita málsatvik, hvar hlutirnir eiga að hafa gerst og hvernig. Það er ekki hægt að verja sig gegn einhverju óskilgreindu.“

„Ég undirstrika að ég skil það mjög vel að brotaþolar vilji vera nafnlausir en það má samt ekki taka þann rétt af einstaklingi sem borinn er þungum sökum að verja sig, sama hversu ógeðslegt manni kann að þykja brotið.“

Ekki hægt að kæra fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju

Helga Vala hefur starfað sem réttargæslumaður brotaþola, gekk vaktir á Neyðarmóttöku um nokkurra ára skeið og segist fyrst og fremst vera talsmaður brotaþola í sinni lögmennsku. Það breytir ekki því að fyrir henni er augljóst að fara verður eftir reglum réttarríkisins.

„Við búum við ákveðið réttarríki,“ segir hún. „Og ef einstaklingur er borinn sökum eru það hans grundvallarmannréttindi að eiga þess kost að verja sig. Ef hann veit ekki hvaða sökum hann er borinn hvernig á hann þá að geta varið sig? Sá réttur toppar að mínu mati rétt ásakanda til nafnleyndar. Ég hef farið í útköll á Neyðarmóttöku þar sem einstaklingur leitaði þangað eftir að brotið var á honum en viðkomandi vildi ekki fara með málið lengra af ýmsum ástæðum. Það er auðvitað ekki sanngjarnt að brotaþoli geti ekki leitað réttar síns en við getum ekki lagt fram kæru á hendur einhverjum fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju á ótilgreindum stað. Það er bara ekki hægt, alveg sama hversu ósanngjarnt manni finnst það.“

En ef margir starfsmenn kvarta undan sama samstarfsmanninum og vilja ekki vinna með honum, hvað er hægt að gera? „Það er mjög flókið,“ segir Helga Vala. „Þess vegna þarf að skoða það vel. Ástæðan getur verið sú að hópurinn beiti einhvern einstakling einelti eða vilji bara losna við viðkomandi og því þarf að setja fram „konkret“ dæmi, það þurfa að vera málefnalegar ástæður fyrir kvörtuninni til að vinnuveitandinn geti metið það. Vinnuveitandi þarf að tryggja aðbúnað fólks og öryggi á vinnustað, en það breytir því ekki að ef þetta beinist gegn einhverjum einum þarf að skoða hverja ásökun fyrir sig án tillits til hinna. Sem dæmi má nefna mál þar sem þrír aðilar báru einn og sama einstaklinginn sökum um kynferðisbrot og því má segja að það hafi verið  yfirgnæfandi líkur á að viðkomandi væri síbrotamaður. Samt sem áður má ekki nota eitt mál til þess að byggja undir annað, það er óheimilt í sakamálarétti. Í því voru tvær af kærunum felldar niður á rannsóknarstigi en eitt mál fór fyrir dóm og þótt allir teldu yfirgnæfandi líkur á sök var hann á endanum sýknaður í héraði meðal annars vegna þess að ekki mátti benda á líkur á síbrotum. Sumir vilja meina að þetta sýni að réttarkerfið sé gerendavænt og það er svo sannarlega margt sem má laga hvað varðar brotaþola í kerfinu. Mér finnst það mjög mikilvægt að staða brotaþola sé endurskoðuð, miskabætur hækkaðar verulega og að réttarkerfið sendi brotaþolum ótvíræða viðurkenningu á alvarleika kynferðisbrota.“

Að segja frá hefur fælingarmátt

Nú hefur mikið verið talað um þær breytingar sem hafi orðið á rétti þolenda til að segja frá í kjölfar #metoo-hreyfingarinnar, en hefur þá sem sagt í rauninni ekkert breyst? „Réttur þolanda til að segja frá er ótvíræður,“ segir Helga Vala ákveðin. „Og það sem #metoo gerði var í rauninni að opna augu okkar allra fyrir því hvað þetta er  stórt vandamál. Það er alls staðar, það beinist af fyllstu hörku gegn þeim sem veikast standa, til dæmis erlendum og fötluðum konum, en það er líka til staðar í efri lögum samfélagsins og snertir öll hólf þess. Þar var lögð áhersla á að nafngreina ekki meinta gerendur til þess einmitt að sýna fram á hversu útbreitt þetta vandamál er, ekki endilega á nafnleynd meintra þolenda. En þar var heldur ekki verið að fara með mál fyrir dóm eða krefjast afsagna, þannig að sú barátta var annars eðlis. Það sem má hins vegar ekki gerast núna í kjölfar þessa alls er að það komi bakslag, að það verði allt brjálað ef þú segir frá. Til þess var þessi barátta ekki háð. Það mun fæla þolendur frá því að segja frá og þá erum við komin í algjört öngstræti með þetta allt saman.

Þessi barátta hefur skilað ákveðnum árangri í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Það hefur nefnilega mikinn fælingarmátt ef gerendur geta  átt von á að ógeðsleg hegðun þeirra verði komin á forsíður blaðanna á morgun, burtséð frá því hvort vænta megi dóms fyrir athæfið eða ekki. Neyðarmóttakan varð vör við merkjanlega fækkun á kynferðisbrotamálum eftir #metoo-byltinguna þannig að hún hafði greinilega áhrif.“

Þá komum við aftur að þessu með nafnleynd meintra þolenda. Margir brotaþolar eru hræddir við meintan geranda og vilja ekki að hann viti að þeir hafi sagt frá, er þá engin leið fyrir þá þolendur að fá neina úrlausn í réttarkerfinu? „Ekki með nafnleysi, nei,“ segir Helga Vala. „Því miður þá er það ekki hægt, þú getur ekki kært nafnlaust vegna þess að rétturinn til að taka til varna er jafnríkur og rétturinn til þess að kæra. Ég undirstrika að ég skil það mjög vel að brotaþolar vilji vera nafnlausir en það má samt ekki taka þann rétt af einstaklingi sem borinn er þungum sökum að verja sig, sama hversu ógeðslegt manni kann að þykja brotið. Við verðum að gæta að réttindum allra og ef þú berð einhvern sökum verðurðu að vera tilbúinn til að standa fyrir máli þínu. Þú getur ekki krafist þess að einhver sé rekinn úr vinnu án þess að hann fái að vita um hvað málið snýst. Við verðum að hafa eitthvert kerfi á „galskapnum“. Annars endum við bara í einhverju Villtavestursástandi sem kemur engum til góða, ekki heldur brotaþolum.“

Áhugaverðir jólamarkaðir í nágrenni Frankfurt

|||
|||

Þjóðverjar og fjöldinn allur af ferðamönnum gera sér árlega glaðan dag á jólamörkuðum í Þýskalandi. Slíkir markaðir er sagðir hafa verið hluti af aðventunni þar í landi í meira en 500 ár.

Jólamarkaðurinn í Dresden er sagður vera einna elstur eða frá árinu 1434. Flestir markaðirnir ganga út á það sama en það er að bjóða upp á margskonar hefðbundinn þýskan mat og fallegan og vandaðan söluvarning. Byggð eru upp heilu þorpin af sölubásum og kofum sem mikið er lagt í að reisa og skreyta. Afar hátíðlegt er að ganga um ljósum prýdda miðbæina og torgin á aðventunni. Þjóðverjarnir sjálfir sækja markaðina til að fá sér heitt jólaglögg (Glühwein) borða Reibekuchen sem eru djúpsteiktir kartöfluklattar, Flammkuchen sem eru einskonar þunnar pizzur með svínakjötsáleggi og svo að sjálfsögðu Bratwurst-pylsur sem vinsælar eru í Þýskalandi. Ferðamennirnir smakka að sjálfsögðu líka matinn en eru meira að kaupa jólaskrautið og fínu hlutina sem eru til sölu. Sterk angan af ristuðum heitum kastaníuhnetum og ristuðum sætum og krydduðum möndlum er einkennandi fyrir markaðina og afar jólalegt að upplifa. Einnig er rík hefð fyrir vönduðu handgerðu viðarjólaskrauti eins og fjárhúsinu í Betlehem með Jesúbarninu og ýmsum öðrum vönduðum jólavörum.

Jólamarkaðir

Frankfurt jólamarkaðurinn á sér langa sögu eða allt frá 14. öld sem gerir hann einn af eldri jólamörkuðum Þýskalands. Markaðurinn nær yfir stórt svæði í miðbænum eða frá Friedrich-stoltze-platz úr norðri og Paulsplatz og Römerberg úr suðri. Markaðurinn er einn af þeim stærstu og vinsælustu í Þýskalandi og fólk frá öllum heimshornum heimsækir hann enda mörg flugfélög sem fljúga þangað og því hægt um vik. Básarnir þykja frumlegir og glæsilegir. Risastórt jólatré er sett upp við markaðinn ár hvert sem einkennir hann. Mikið líf er í Frankfurt á þessum tíma og tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi, versla, heimsækja góða veitingastaði og þennan stóra mikla jólamarkað í miðbænum.

Heidelberg er ein þeirra borga í Þýskalandi sem þykir hvað fallegust. Að standa á jólamarkaðnum með útsýni yfir gamla bæinn og kastalann sem stendur hátt og gnæfir yfir bæinn þykir mörgum með því fallegasta í Þýskalandi. Kastalinn hefur mikið aðdráttarafl ferðamanna enda afar fallegur. Á Karlsplatz er skautasvell og þaðan er frábært útsýni yfir Heidelberg-kastala. Markaðurinn er opinn frá 26. nóvember til 22. desember og er staðsettur í gamla bænum. Í bakgrunni blasir kastalinn við. Það tekur um klukkutíma að keyra frá Frankfurt til Heidelberg og svipað langan tíma að fara með lest.

Köln Það eru yfirleitt sjö jólamarkaðir í þessari milljón manna borg. Það er erfitt að ímynda sér að borgin hafi nánast verið jöfnuð við jörðu í seinni heimsstyrjöldinni og aðeins lítill hluti gamla borgarhlutans stóð eftir. Ein af þeim byggingum sem skemmdist ekki er þekktasta og næsthæsta dómkirkja Þýskalands, en hún er mest sótti ferðamannastaður Þýskalands og alveg þess virði að skoða hana og kynna sér sögu hennar. Jólamarkaðirnir eru staðsettir allt í kringum kirkjuna og í næsta nágrenni. Vinsælasti jólamarkaðurinn er við Rudolfplatz. Einungis klukkustund tekur að fara með lest til Kölnar frá Frankfurt.

Wurzburg á Marienkapelle-torginu, ríkir mikil jólastemning á hverju ári og þykir markaðurinn þar með þeim fallegri í Þýskalandi. Þangað koma margir ferðamenn á aðventunni og bærinn fyllist af lífi. Jólamarkaðurinn er haldinn á markaðstorginu þar sem sögulegar byggingar mynda fallegan bakgrunn við jólaskreytingar sölubásana. Würzburg liggur við bakka árinnar Main og er þekkt fyrir fallega miðbæinn sinn sem í eru hvorki meira né minna en 40 kirkjur og margar sögulegar byggingar. Fjöldi bygginga hefur verið endurbyggður frá því í stríðinu. Ekki nema um 130.000 íbúar eru í borginni og umhverfis hana eru vínhéruð og mikið er um vínkjallara. Markaðurinn er opinn frá 30. nóv. til 23 des. Það tekur um klst. með lest að fara frá Frankfurt til borgarinnar.

Ofurbrauð – eintóm hollusta

|
|

Þetta brauð er ekki fyrir nýgræðinga í grófum brauðum. Mjög þétt og þungt brauð án hveitis og lyftiefna, gríðarlega næringarríkt og ótrúlega hollt og gott fyrir okkur.

3 dl sólblómafræ
1 dl graskersfræ
2 dl heslihnetuflögur
6 dl tröllahafrar
2 dl hörfræ
1 dl husk (psylluium fræskurn/gróft duft)
½ dl chia-fræ
½ dl hlynsíróp
⅔ dl ólífuolía
½ lítri vatn

Ristið sólblómafræ og graskersfræ á pönnu. Setjið í skál. Léttristið heslihnetuflögurnar og blandið saman við. Setjið þá restina af hráefnunum saman við í skálina og blandið vel saman. Það er ágætt að nota hendurnar til þess að kreista deigið saman þannig að það þéttist. Smyrjið stórt formkökuform með olíu og jafnið deiginu í það. Setjið filmu yfir og látið þetta standa í nokkrar klst. við stofuhita, eða í kæliskáp yfir nótt. Hitið ofn í 190°C. Bakið í u.þ.b. klst. Látið brauðið kólna alveg áður en það er skorið, annars er hætta á að það detti í sundur.

Athugið: Best er að skera þetta brauð frekar þunnt. Brauðið geymist vel í frysti niðurskorið. Husk hefur fengist í matvöruverslunum, en ef það fæst ekki þar má finna það í apótekum og heilsubúðum.

Texti og stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Nýja Ísland: Nokkrir stórir leikendur í íslensku viðskiptalífi

||||
|Svanhildur Nanna .|Guðrún Lárusdóttir.|Helgi Magnússon.|Hreggviður Jónsson.

Hér innanlands er hins vegar að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira. Hér eru nokkrir stórir leikendur.

Lítill sem enginn áhugi virðist vera erlendis frá á mikilli fjárfestingu hérlendis, eins og sást ljóslega þegar bindiskylda var lækkuð niður í núll fyrr á þessu ári, aðgerð sem var til þess fallin að reyna að örva erlenda fjárfestingu. Síðan það var gert hefur erlend fjárfesting verið minni en hún var á sama tíma í fyrra. Þetta er hið nýja Ísland.

Eftir stendur markaður sem þarf þá virkilega á nýju blóði að halda en virðist í erfiðleikum með að trekkja að nýja fjárfestingu. Hér innanlands er hins vegar að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir.

Töluvert hefur farið fyrir hópnum sem ráðið hefur í tryggingafélaginu VÍS á undanförnum árum. Þar er um að ræða hjónin Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmund Örn Þórðarson, sem eiga 7,25 prósent hlut í VÍS, 6,93 prósent í Kviku banka og hlut í Kortaþjónustunni í gegnum félag sitt K2B ehf. Innan VÍS hafa þau myndað blokk með nokkrum öðrum einkafjárfestum, meðal annars Óskabeinshópnum, sem á 2,48 prósent í VÍS, og er í eigu Gests Breiðfjörð Gestssonar, Sigurðar Gísla Björnssonar, Andra Gunnarssonar og Fannars Ólafssonar.

Brimgarðar, félag í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna, er nokkuð umfangsmikið í skráðum eignum, sérstaklega í fasteignafélögum. Það á í Eik (6,9 prósent), Reitum (2,1 prósent), í Reginn (2,73 prósent) og Heimavöllum (3,01 prósent). Brimgarðar hafa líka átt hlut í Icelandair. Eigið fé Brimgarða nam 2.959 milljónum króna í lok síðasta árs en á sama tíma átti félagið eignir upp á 10.998 milljónir króna.

Hreggviður Jónsson.

Félagið Stormtré er að stærstu leyti í eigu Hreggviðs Jónssonar. Það er aðaleigandi Veritas Capital sem á meðal annars Vistor, sem flytur inn til Íslands lyf og aðrar tengdar vörur. Auk þess á Stormtré 2,5 prósent hlut í smásölufélaginu Festi.
Eigið fé Stormtrés var 6,8 milljarðar króna í lok síðasta árs.

Snæból er fjárfestingafélag í jafnri eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur. Það á stóran hlut í Sjóvá (8,64 prósent), í Heimavöllum (7,47 prósent) auk þess sem það á þrjú prósent hlut í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel. Alls átti Snæból um tíu milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót.

Guðrún Lárusdóttir.

Stálskip var stofnað sem útvegsfyrirtæki árið 1970 en seldi frystitogarann sinn og allan kvóta árið 2014. Í kjölfarið var því breytt í fjárfestingafélag, en það er í eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar og þriggja barna þeirra. Guðrún er framkvæmdastjóri, en hún er 86 ára gömul. Á meðal fjárfestinga Stálskipa má nefna 8,59 prósent hlut í Heimavöllum en alls voru eignir félagsins metnar á 11,9 milljarða króna í lok síðasta árs. Þar af voru verðbréf sem metin voru á 3,1 milljarð króna en uppistaðan, 6,3 milljarðar króna, voru geymdar á bankabók.

Þá verður að telja til félagið 365 ehf., sem á nú endurkomu í heim hlutabréfafjárfestinga, fyrst með kaupum í Högum og svo í Skeljungi eftir að það losaði sig út úr fjölmiðlarekstri eftir 16 ár í slíkum. Eigandi þess er Ingibjörg Pálmadóttir og eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, settist nýverið í stjórn Skeljungs þar sem 365 á 4,32 prósent hlut.

365 seldi fjölmiðla sína til tveggja aðila. Annars vegar til fjarskiptafélagsins Sýnar, þar sem Heiðar Guðjónsson, fyrrverandi stjórnarformaður og núverandi forstjóri, er stærsti einstaklingshluthafinn í gegnum Ursus (9,2 prósent). Heiðar á líka stóran hlut í HS Veitum. Sýn keypti ljósvakamiðla 365 og vefinn Vísir.is.

Helgi Magnússon.

Hinn aðilinn sem keypti fjölmiðla af 365 var Helgi Magnússon, sem á nú Fréttablaðið og tengda miðla að öllu leyti. Hann hefur verið mjög umsvifamikill í íslensku athafnalífi á undanförnum árum í gegnum félögin Hofgarða, Varðberg og Eignarhaldsfélagið Hörpu, sem hann á með öðrum. Hann hefur til að mynda átt hluti í Bláa lóninu, þar sem hann er stjórnarformaður, og hefur lengi átt vænan hlut í Marel, en hann hefur verið að selja sig niður þar undanfarið. Helgi hefur fjárfest í Iceland Seafood, Stoðum og Kviku banka á þessu ári.

Töluverð aukning í útgáfu bóka á Íslandi

|
|

Vísbendingar eru um aukna útgáfu bóka hér á landi ef tekið er mið af skráðum titlum í Bókatíðindi, yfirlitsrit Félags íslenskra bókaútgefenda yfir bækur gefnar út á árinu.

Samkvæmt skráningum í Bókatíðindum, sem út koma árlega, fjölgar titlum um 47% milli ára í flokki skáldverka fyrir börn og 39% milli ára í flokki ungmennabóka, 51% í flokki ljóða og leikrita, 27% í flokki skáldverka fyrir börn og 21% í flokki skáldverka fyrir fullorðna (nýjar íslenskar bækur og endurútgáfur).

„Við gleðjumst yfir því að fleiri bækur komi út á íslensku því þá er líklegra að lesendur finni efni við sitt hæfi – fjölbreytnin vinnur með okkur í því verkefni að efla íslenskuna og bæta læsi. Það er aldrei svo að einn lesandi komist yfir alla útgáfuna en það er frábært fyrir alla að hafa meira val, ekki síst yngri lesendur sem hafa hvatt til aukinnar útgáfu bóka fyrir börn og ungmenni,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á vef Stjórnarráðsins.

Þessar tölur miðast við prentaðar bækur í þessum flokkum í Bókatíðindum árin 2018 og 2019. Bókatíðindi eru þó ekki tæmandi yfirlit um útgáfuna í heild sinni því ekki eru allar bækur skráðar þar og í þeirri tölfræði er ekki gerður greinarmunur á frum- og endurútgáfum bóka.

Þess má geta að fyrr á þessu ári tóku gildi lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku en markmið þeirra er að efla bókaútgáfu vegna mikilvægis hennar fyrir íslenska tungu og eflingu læsis. Útgefendur geta nú sótt um endurgreiðslu á 25% kostnaðar sem hlýst af útgáfu bóka og hafa þegar borist rúmlega 150 umsóknir til endurgreiðslunefndarinnar vegna bóka sem komu út á fyrri hluta þessa árs.

Fundur í kjaradeilu blaðamanna

Hjálmar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands ritar pistil

Boðað hefur verið til fundar hjá ríkissáttasemjara í dag í deilu Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Fundurinn er fyrsti fundur þeirra í tvær vikur.

Fyrsta vinnustöðvun af fjórum var síðastliðinn föstudag þegar blaðamenn á vefmiðlum, ljósmyndarar og myndatökumenn lögðu niður störf frá klukkan 10 til 14.  Næsta vinnustöðvun á vefmiðlum er boðuð næsta föstudag í átta klukkustundir frá klukkan 10 til 18 og sú þriðja er boðuð föstudaginn 22. nóvember í tólf tíma. Hafi samningar ekki náðst fyrir fimmtudaginn 28. nóvember munu blaðamenn á prentmiðlum leggja niður störf þann dag.

Laugardalslaug lokuð í dag og kaldar sturtur í World Class vegna tengingar hitaveitu

Mynd / Reykjavik.is

Íbúar í Vogahverfi, Laugarási og við Laugardal í Reykjavík geta reiknað með að heitavatnsþrýstingur verði lágur í Vogahverfi, Laugarási og við Laugardal í Reykjavík í dag, mánudag. Laugardalslaug verður lokuð vegna vinnunnar og reikna má með að lokunin hafi áhrif á þjónustu á svæðinu, til að mynda í World Class laugum. „Sturtur gætu verið kaldar,“ segir á vef World Class.

Þetta kemur fram á Veitur.is. Þar segir að verið sé að tengja nýja aðalæð hitaveitunnar við Elliðaárbrýr og flytur hún mestallt það vatn sem notað er í hverfinu. Til að minnka áhrifin á neytendur er vatni veitt inn í hverfin eftir öðrum leiðum. Þær eru þó ekki eins afkastamiklar og því má búast við lækkuðum þrýstingi og jafnvel heitavatnsleysi, einkum í þeim húsum sem hæst standa á Laugarásnum.

Vonast er til að hægt verði að hleypa á nýju lögnina klukkan 20:00 sama dag og það mun taka einhverja klukkutíma að ná upp fullu þrýstingi á kerfið.

Ingvar tilnefnddur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

|
|

Ingvar E. Sigurðsson var um helgina tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki leikara í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason. Verðlaunaafhendingin mun fara fram í Berlín 7. desember.

 

Aðrir tilnefndir leikarar eru eftirfarandi:
Antonio Banderas in Pain and Glory
Jean Dujardin in AN OFFICER AND A SPY
Pierfrancesco Favino in THE TRAITOR
Levan Gelbakhiani in And Then We Danced
Alexander Scheer in Gundermann

Allar tilnefningar er að finna á heimasíðu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Ingvar hefur nú þegar unnið til þrennra verðlauna fyrir frammistöðu sína í myndinni síðan hún var heimsfrumsýnd í Critics’ Week hluta hinnar virtu kvikmyndahátíðar í Cannes, þar sem Ingvar vann til Rising Star verðlaunanna. Þá hlaut Ingvar einnig verðlaun fyrir besta leikarann á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu, Rúmeníu og á kvikmyndahátíðinni Festival du nouveau cinema í Montréal, Kanada. Hann hefur einnig hlotið lof hvarvetna í dómum um myndina, þar á meðal hjá hinum virtu kvikmyndatímaritum Cineuropa, Screen International og The Hollywood Reporter.

Hvítur, hvítur dagur hefur nú unnið til samtals 9 verðlauna og er ennfremur framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna árið 2020.

Ingvar var síðast tilnefndur til þessara virtu verðlauna árið 2000 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Englar alheimsins eftir Friðrik Þór Friðriksson, en þar hlaut hann áhorfendaverðlaunin fyrir leik sinn.

Björk Guðmundsdóttir er eini Íslendingurinn sem hefur unnið til leikaraverðlaunanna á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum og var það fyrir hlutverk hennar í Dancer in the Dark eftir Lars Von Trier árið 2000. Þá hefur framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures, sem framleiddi Hvítan, hvítan dag, fengið tvær tilnefningar frá Evrópsku akademíunni fyrir
fyrri verk sín í leikstjórn Guðmundar Arnar Guðmundssonar, Hvalfjörður var tilnefnd sem besta stuttmyndin árið 2014 og Hjartasteinn vann EUFA háskólaverðlaunin (European University Film Award) árið 2016.

Verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum. Á næsta ári mun hátíðin vera haldin í Hörpu í Reykjavík.

20% afsláttur af tímaritum og kerti frá URÐ fylgir

Áskriftasprengja 11. nóvember.

 

20% afsláttur er af öllum blaðaáskriftum í dag, mánudaginn 11. nóvember. Þá fylgir glæsilegt jólakerti frá URÐ með áskriftum sem eru keyptar á meðan afslátturinn er í gangi.

*Kertið frá URÐ skal sækja í Birtíng, Síðumúla 28, fyrir 1. desember.

 

Tryggðu þér áskrift á áskriftavefnum.

„Ég tel að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði geti tryggt nafnleysi þolenda“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, var í nefnd velferðarráðuneytis um endurskoðun reglna um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum sem vann tillögu að núgildandi reglugerð þar um. Hún segir ástæðu þess að ekki er fjallað um nafnleynd í reglugerðinni vera þá að þegar reglugerðin var samin, árið 2015, hafi umræðan í þjóðfélaginu verið önnur en nú og taka þurfi tillit til breyttra viðhorfa í þjóðfélaginu þegar reglugerðin er túlkuð.

 

„Meginmarkmið reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er að koma í veg fyrir og stöðva slíka hegðun,“ útskýrir Sonja. „Í málum sem þessum þurfa atvinnurekendur að upplýsa málið og komast að niðurstöðu um hvort áreitni hafi átt sér stað. Í kjölfarið þarf þá að meta hvernig sé hægt að stöðva hegðunina. Þó nokkur dæmi eru um að aðstæður séu með þeim hætti að atvinnurekandi og þeir sem hafa lagt fram kvörtun telji að ekki sé hægt að stöðva hegðun með áframhaldandi nærveru þess sem kvörtun beinist gegn.“

Í umræðunni um mál Atla Rafns hefur því verið haldið fram að uppsögnin hafi verið ólögleg, hvernig metur þú það?

„Niðurstaða dómsins byggir á því. Að jafnaði hafa atvinnurekendur og launafólk á almennum vinnumarkaði heimild til þess að segja ráðningarsamningum upp,“ segir Sonja. „Ef staðið er rétt að uppsögn og uppsagnarfresturinn er virtur þá lýkur ráðningarsambandinu almennt án frekari eftirmála. Ef uppsögn er vegna meints brots launamanns þarf atvinnurekandi að sýna fram á að brotið hafi átt sér stað.“

Atvinnurekanda skylt að virða trúnað

Málareksturinn byggir að stórum hluta á því að Atli Rafn hafi ekki verið upplýstur um hverjir það voru sem sökuðu hann um áreitni. Á sá sem vikið er úr starfi skilyrðislausan rétt á því að fá að vita nöfn þeirra sem hafa kvartað undan honum?

„Það er ekkert í lögum sem tryggir starfsmanni á almennum vinnumarkaði réttinn til að vita nöfn þeirra sem kvörtuðu undir þessum kringumstæðum,“ fullyrðir Sonja. „Heldur þvert á móti er atvinnurekanda skylt að halda og virða trúnað sé þess óskað eins og Persónuvernd komst að niðurstöðu um.

Ástæða þess að ekki er fjallað um nafnleynd eða skyldu atvinnurekanda til að upplýsa um nöfn þeirra sem kvarta í reglugerðinni varðandi áreitni er að umræðan var ekki á sama stað í aðdraganda setningar reglugerðarinnar. Umræðan snerist nánast eingöngu um það hvernig mætti stuðla að því að þolendur leituðu sér aðstoðar og tryggt að það væri viðeigandi ferli sem tæki við á vinnustaðnum. Það voru engin dæmi um það þá að fólk óskaði eftir því að stíga fram án þess að nafns þess væri getið og almennt mjög fá dæmi um að þolendur væru að stíga fram yfir höfuð. Lög og reglur gera ekki ráð fyrir öllum mögulegum aðstæðum og því þarf að túlka þau í samræmi við markmið þeirra.“

„Það er ekkert í lögum sem tryggir starfsmanni á almennum vinnumarkaði réttinn til að vita nöfn þeirra sem kvörtuðu undir þessum kringumstæðum. Heldur þvert á móti er atvinnurekanda skylt að halda og virða trúnað sé þess óskað eins og Persónuvernd komst að niðurstöðu um.“

Er atvinnurekandi þá í fullum rétti að halda nöfnum ásakenda leyndum? Hvað með rétt þess sem ásakaður er til að verja sig?

„Ég tel að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði geti tryggt nafnleysi þolenda og stuðlað þannig að því að starfsfólk treysti sér til að leita aðstoðar vegna áreitni eða ofbeldis á vinnustað,“ segir Sonja. „Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að það sé farvegur fyrir þolendur og að þeir geti treyst því að atvinnurekandi bregðist við og hegðunin verði stöðvuð. Atvinnurekendur þurfa þá að rannsaka málið og komast að niðurstöðu um hvort áreitnin eða ofbeldið hafi átt sér stað eða ekki. Í kjölfarið þarf svo að taka ákvörðun um framhaldið byggt á heildarhagsmunum og því miður þarf oft að taka þá erfiðu ákvörðun að vega saman hagsmuni þess sem kvartar á við hagsmuni þess sem kvartað er gegn. Opinberir atvinnurekendur geta hins vegar ekki tryggt nafnleynd einstaklinga sem stíga fram þar sem ólíkar reglur gilda á opinberum vinnumarkaði og því er mikilvægt að samtalið um hver besta tilhögunin sé fari fram.“

Ekki í samræmi við aukna þekkingu

Annað sem mikið hefur verið rætt er upphæð bótanna sem Atla Rafni voru dæmdar, finnst þér sú umræða eiga rétt á sér?

„Í þeim starfsmannamálum sem við höfum komið að varðandi uppsagnir hafa miskabætur fyrir dómi oft verið í kringum 800 þúsund krónur,“ segir Sonja. „Mörg þessara mála hafa verið afar íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi, fólk verið í þeim aðstæðum að eiga erfitt með að finna aðra vinnu, mikið neikvætt umtal um viðkomandi og þau jafnvel útskúfuð úr samfélaginu. Í máli Leikfélags Reykjavíkur eru starfsmanninum fyrrverandi dæmdar næstum tvöfalt hærri miskabætur. Það er óvenjulegt.“

Þannig að þér finnst dómurinn á skjön við ríkjandi viðhorf í samfélaginu?

„Þó nokkur dæmi eru um að niðurstöður dóma séu ekki í takt við aukna þekkingu og viðhorfsbreytingar í samfélaginu og má velta fyrir sér hvort þetta sé dæmi um slíkt,“ segir Sonja. „Það verður áhugavert að sjá niðurstöðu Landsréttar.“

 

 

 

 

Ættfræðin nýjasta vopn lögreglunnar

Sífellt fleiri hafa áhuga á því að rekja uppruna sinn og þar kemur ættfræðin inn.

Ættfræðigagnabankar sem byggja á lífsýnum njóta sívaxandi vinsælda erlendis. Lögregla hefur í auknum mæli nýtt sér upplýsingasöfnin til að leysa sakamál, sem er umdeilt.

 

Það vakti gríðarmikla athygli þegar stúlkubarn fannst í ruslagámi á iðnaðarsvæði í Bjølsen í Ósló 11. ágúst 1990. Stúlkan var kölluð „gámabarnið“ í fjölmiðlum en þrátt fyrir tilraunir lögreglu tókst ekki að hafa uppi á þeim sem hafði látið hana í sorpið. Í vikunni tilkynntu stjórnendur sjónvarpsþáttarins Åsted Norge hins vegar að þeim hefði tekist, með aðstoð ættfræðinnar, að hafa uppi á móður stúlkunnar. Ingrid sem var um síðir ættleidd mun að öllum líkindum hitta konuna sem fæddi hana, á næstu misserum.

Samkvæmt Åsted Norge mun þetta vera í fyrsta sinn sem sakamál er leyst með aðstoð ættfræðigagnabanka en vestanhafs hefur færst í vöxt að lögregluyfirvöld nýti sér aðstoð ættfræðinga og einkarekinna ættfræðigagnabanka til að hafa uppi á brotamönnum. Þannig tókst t.d. loksins að hafa uppi á svonefndum „Golden State Killer“ árið 2018 eftir að rannsóknarlögreglumaður á eftirlaunum bar saman lífsýni úr morðingjanum við erfðaupplýsingar á vefsíðunni GEDmatch. Böndin bárust að Joseph James DeAngelo en ættingi hans hafði nýtt sér vefsíðuna. Lögreglu tókst að afla lífsýna frá DeAngelo og staðfesta að þar færi maðurinn sem hefði framið að minnsta kosti 13 morð, fleiri en 50 nauðganir og yfir 100 innbrot.

Ættfræðigagnabankar eru í þessu samhengi vefsíður sem einstaklingar geta nýtt sér til að finna náskylda og fjarskylda ættingja. Ferlið fer þannig fram að einstaklingur safnar lífsýnum hjá sjálfum sér með viðeigandi tækjum, sendir þau inn til greiningar og getur síðan nálgast upplýsingar sínar og samanburð við aðra á vefsíðunum. Síðurnar eru ólíkar að því leyti að sumar bjóða bæði upp á greiningu og samanburð en aðrar geyma bara niðurstöður erfðaprófanna sem notendur senda inn.

Löglegt en siðlaust?

Ættfræðigagnabankarnir hafa notið vaxandi vinsælda síðustu ár en stærstu bandarísku vefsíðurnar eru Ancestry með 15 milljón notendur og 23andMe með 10 milljón notendur. Fyrirtækin á bak við síðurnar eru hins vegar afar umdeild, þá ekki síst vegna notkunar lögreglu á þeim gögnum sem fyrirtækin varðveita.

Sérfræðingar eru sammála um að upplýsingasöfnin sem fyrirtækin lúra á séu mjög gagnleg fyrir lögreglu, enda fer þeim málum sífellt fjölgandi þar sem ættfræðin, til viðbótar við erfðafræðina, hefur komið við sögu við lausn gátunnar. Þeir benda hins vegar á að fæstir sem senda erfðaupplýsingar sínar inn til greiningar, oftar en ekki sér til skemmtunar, geri sér grein fyrir að upplýsingar kunni að verða notaðar til að klófesta bróður, frænku eða afa. Þá geri fólk ráð fyrir því að þegar um er að ræða heilbrigðisupplýsingar sé kveðið á um að fyrirtækin leiti samþykkis áður en upplýsingarnar séu notaðar í öðrum tilgangi eða deilt með þriðja aðila.

Hvað lagalegu hliðina varðar eru menn ekki á eitt sáttir um lögmæti þess að nota gögnin en sumir hafa bent á að lögreglu hafi löngum verið heimilt að safna og rannsaka erfðaefni sem fólk skilur eftir sig, svo sem sígarettustubba og hár. Þannig væri hægt að færa rök fyrir því að þar sem fólkið setur erfðaupplýsingar sínar sjálfviljugt inn í opna gagnabanka, geti það ekki vænst trúnaðar. Hins vegar hefur verið kallað eftir gegnsæi hjá lögregluyfirvöldum, það er að þau upplýsi hvaða upplýsingasöfn þau noti, hvernig og hversu mikið.

Lestu umfjöllunina í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Magnús Geir og seinheppni þjófurinn

Í hverri viku útnefnir Mannlíf þá einstaklinga sem hafa blómstrað í vikunni og þá sem hafa ekki átt jafn auðvelt uppdráttar.

Góð vika – Magnús Geir Þórðarson

Íslenskir rithöfundar höfðu sannarlega tilefni til að gleðjast í vikunni því greint var frá því að íslensk bókaútgáfa hafi tekið stökk erlendis. Framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta sagði að núna væri „mjög góður tími fyrir íslenskar bókmenntir erlendis og kannski betri en nokkru sinni.“ Stjórnendur flugfélagsins Play, áður WAB air, höfðu líka ástæðu til að fagna, en þeir tilkynntu að félagið hæfi sig til flugs í vetur og því má segja að þeir hafi náð forystu af nýjum eiganda vörumerkisins WOW air, Michelle Ballarin, í kapphlaupinu um að fylla skarðið sem WOW skildi eftir. Kóngur vikunnar er svo Magnús Geir Þórðarson sem skaut keppinautum sínum sömuleiðis ref fyrir rass þegar hann var skipaður þjóðleikhússtjóri. Allt sem Magnús snertir virðist verða að gulli og því verður spennandi að sjá hvernig honum vegnar í nýju starfi.

Slæm vika – Seinheppni þjófurinn

Auðunn Blöndal greindi frá því í Brennslunnni að hann hefði orðið „hvítur í framan“ við að uppgötva að Instagram-reikningi hans hafi verið stolið og aðdáendur jólajógúrts MS liðu vítiskvalir eftir að þeir uppgötvuðu að kurlinu sem fylgir jógúrtinni hafði verið breytt. Verstu vikuna átti þó eflaust erlendi verkamaðurinn sem rændi samstarfsmenn sína og reyndi að flýja með góssið úr landi. Rannsóknarlögreglumaður heyrði af því að maðurinn hefði verið rekinn úr starfi og bókað flug úr landi að kvöldi sama dags. Í kjölfarið bað lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lögregluna á Suðurnesjum um að stöðva manninn og bera skóbúnað hans saman við skófar á vettvangi glæpsins. Skór mannsins reyndist passa við það og þýfið fannst í farangri hans. Rétt eins og í gamalli spæjarasögu kom fótsporið því upp um þjófinn.

„Sumir kunna ekki að skammast sín“

Mannlíf tók saman nokkur áhugaverð ummæli sem voru látin falla í vikunni.

 

„Fyrst heimtum við að heimurinn hætti að þagga niður kynferðisofbeldi en nú viljum við hafa réttinn til að þagga sjálfar kynferðisofbeldi í hel og réttinn til að bera menn sökum án þess að þurfa að standa fyrir máli okkar? Það er ofbeldi af verstu skúffu eins og dómsúrskurður í máli Atla ber vitni um.“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona um viðbrögðin við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Atla Rafns Sigurðssonar gegn Borgarleikhúsinu.

„Orðræða sem þessi sendir alvarleg skilaboð út í samfélagið og hefur að engu trúverðugleika brotaþola kynferðisofbeldis.“

Yfirlýsing frá tæplega hundrað konum vegna skrifa Steinunnar Ólínu.

„Nú fagna ég umræðu um dómsmálið mitt og finnst gleðilegt þegar fólk skilur um hvað það snýst. En mér finnst erfitt þegar því er stillt upp við hlið máls Atla Rafns sem á ekkert skylt með mínu.“

Freyja Haraldsdóttir aktivist segir að mál hennar gegn Barnaverndarstofu eigi ekkert sameiginlegt með máli Atla Rafns gegn leikhússtjóra Borgarleikhússins. Þar vísar Freyja í fyrrnefnd skrif Steinunnar Ólínu.

„Farið til útlanda og reddið ykkur þar í boði ríkisins eða pungið sjálf út fyrir aðgerðunum hér heima, eru hins vegar skilaboð ríkisstjórnarflokkanna til biðlistafólksins.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, um þá staðreynd að að margir Íslendingar fari utan í aðgerðir, vegna langra biðlista eftir því að komast í slíkar aðgerðir hér á landi.

„Það er ekki hægt að skauta yfir það sem er manni til minnkunar.“

Halldór Einarsson, kenndur við Henson, segist í nýútgefinni ævisögu sinni sjá eftir að hafa skrifað undir meðmælabréf til handa Robert Downey, sem var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum, í því skyni að hann fengi uppreist æru. Hann kveðst hafa reynt að draga undirskrift sína til baka án árangurs.

„Sumir kunna ekki að skammast sín.“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í borginni, skammar Dag B. Eggertsson borgarstjóra fyrir að ganga út á þurrum fótum allt árið, en á meðan hafi smáhýsi fyrir heimilislausa ekki risið, svo dæmi sé tekið.

„Væri gaman að stofna umhverfisverndarflokk sem lýsir yfir neyðarástandi og hefur bara ömurlega hluti á stefnuskrá sinni; banna krússkip, leggja niður innanlandsflug, fækka rollum og beljum og banna jarðefnaeldsneyti og alls konar.“

Jón Gnarr, skemmtikraftur og fyrrverandi borgarstjóri.

Biscotti með trönuberjum, pistasíuhnetum og hvítu súkkulaði

Trönuber eru ekki bara mjög holl og góð fyrir okkur heldur eru þau líka alveg ómótstæðilega falleg.

 

Fersk trönuber fást víða í matvörubúðum þessa dagana og það er um að gera að prófa að nota þau í matargerð. Fersk trönuber þarf að matreiða, þau eru ekki mjög góð „eins og þau koma af kúnni“ en aftur á móti eru þau óskaplega falleg og tilvalin til þess að nota í skreytingar eins og við gerum hér. Þurrkuð trönuber eru bæði gott snarl til þess að grípa í og frábært hráefni í kökur og mat.

Biscotti með trönuberjum, pistasíuhnetum og hvítu súkkulaði

18-20 stk.

120 g smjör, mjúkt
2 ½ dl sykur
börkur af 1 appelsínu
2 stór egg
4 dl hveiti
1 dl maizena-mjöl
1 ½ tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
safi úr 1/2 appelsínu
85 g þurrkuð trönuber (1 poki)
50 g pistasíuhnetur, gróft skornar
100 g hvítt súkkulaði, saxað gróft

Stillið ofninn á 175°C. Setjið smjör, sykur og appelsínubörk saman í hrærivélarskál og hrærið vel saman, það er gott að stoppa vélina annað slagið og losa um með sleikju svo að allt blandist vel. Bætið eggjum út í, einu í einu, hrærið vel á milli. Hrærið þar til blandan er orðin létt og ljós.

Setjið hveiti, maizena-mjöl, lyftiduft og salt saman í aðra skál, blandið vel saman, setjið þetta út í hrærivélarskálina og hrærið á hægum hraða þar til allt er vel samlagað. Setjið appelsínusafa saman við. Bætið hveiti út í ef deigið er of blautt, það á að vera klístrað en nokkuð stíft. Bætið hnetum og súkkulaði út í deigið.

Stráið hveiti á borð og veltið deiginu létt upp úr því þannig að auðvelt sé að eiga við það. Setjið deigið á ofnplötu með bökunarpappír og mótið hleif sem er u.þ.b. 3-4 cm þykkur. Bakið í 20-25 mín. eða þar til hleifurinn er bakaður í miðjunni,  best er að finna það með því að ýta létt með fingrunum í miðjuna. Takið plötuna úr ofninum og látið kólna. Lækkið hitann niður í 160°C.

Skerið lengjurnar varlega í u.þ.b. 1,5-2 cm þykkar sneiðar, raðið þeim á bökunarpappír á ofnplötu og bakið á hvorri hlið í 5-7 mín. Fylgist með svo að sneiðarnar verði ekki of dökkar, þær eiga aðeins að þorna og brúnast lítillega. Látið kólna alveg og geymið í lokuðu boxi.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Þrautseigja og kærleikur fara vel saman

|
Íris Helga Baldursdóttir.|30 ára

Leikskólinn Hjalli varð þrjátíu ára þann 25. september síðastliðinn og það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að þrír áratugir séu liðnir síðan Hjallastefnan varð til. Á þessum árum hefur hún auðvitað þróast, tekið breytingum og aðlagast aðstæðum í samfélaginu en í grunninn er hugmyndafræðin þó í mjög sambærilegri mynd og hún var. Í tilefni afmælisins var mikið um dýrðir og tók Steingerður Steinarsdóttir Írisi Helgu Baldursdóttur, skólastýru Hjalla, tali vegna þessara tímamóta.

 

Á afmælisdaginn tók starfsfólk leikskólans Hjalla sig til og setti saman sögusýningu, þar sem hengdar voru upp myndir, minningar og ýmislegt annað frá árunum þrjátíu, í sal og á göngum skólans. Afmælisvikan var hátíðleg og viðburðarík. Fjölskyldur Hjalla heimsóttu skólann í fjölskyldukaffi þar sem börnin sungu, buðu á listsýningu og léttar veitingar.

„Hátíðleikinn og gleðin svifu yfir í skólanum þessa viku og stórir sem smáir tóku þátt í viðburðum vikunnar,“ segir Íris Helga. „Á afmælisdaginn sjálfan kom fólk og samgladdist okkur í Hjalla, skólastjórar Hjallastefnuskóla, skólastjórar leikskóla Hafnarfjarðar, fólkið sem vinnur mest með okkur á Skóla- og frístundasviði Hafnarfjarðarbæjar, bæjarstjórinn Rósa Guðbjartsdóttir og Þórdís Jóna framkvæmdastýra heiðruðu okkur með nærveru sinni og að sjálfsögðu frumkvöðull stefnunnar sjálfrar, hún vinkona okkar Margrét Pála.“

Hjallastefnan er uppeldis- og skólastefna sem rekur fjórtán leikskóla og þrjá grunnskóla. Í hverju er hún fólgin, í stuttu máli, og hvað leggið þið mesta áherslu á í uppeldi barna? „Hjallastefnan er kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna þar sem við iðkum jákvæðni og kærleika jafnt til barna sem og samstarfsfólks, Hjallastefnan er mannræktarstefna þar sem fullorðnir fá einnig tækifæri til að iðka á sama hátt og börnin,“ segir Íris Helga. „Jafnrétti stúlkna og drengja skiptir okkur einna mestu máli og þar höfum við kynjanámskrá til að vinna eftir. Þar eru einnig teknir fyrir einstaklings- og félagslegir þættir sem markvisst er unnið með í starfi með börnum.

Unnið er með litla hópa þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín á eigin verðleikum og unnið er að því að nálgast hvert og einn barn eins og það þarf.

Þetta er miklu meira en bara orðin tóm heldur teygjum við okkur langt til að lifa eftir þessum gildum sem einkennir allt okkar starf. Leikefni er nokkuð óhefðbundið í leikskólunum, en það er svokallaður opinn efniviður sem snýr að sköpunarkrafti og ímyndurnarafli barnanna fremur en að vera stýrandi í leik þeirra.“

Hverju hafa þau viðhorf og aðferðir sem hún notar breytt í menntamálum hér á landi? „Við stefnum alltaf að því að finna leiðir sem henta hverju barni í leik og þroska. Við erum öll misjöfn og viljum öll fá tækifæri til að æfa okkur og læra af mistökum. Þess vegna höfum við t.d. uppbyggileg orð yfir mistök og segjum að við ruglumst og það gangi bara betur næst. Þetta er markvisst notað og samkvæmt rannsókn sem var unnin af Háskólanum í Reykjavík kemur í ljós að börnin okkar hafa meiri seiglu en önnur börn og það er mikilvægur eiginleiki. Við viljum gefa hverju barni rými til að æfa, endurtaka og sleppa tökum af mistakaótta. Við viljum efla börn í að vera sjálfstæð, hugrökk og standa með sjálfum sér í leik og starfi,” segir Íris Helga. „Í Hjallastefnunni er, eins og áður sagði, unnið eftir kynjanámskrá. Hún er byggð upp á sex lotum yfir skólaárið, sem skiptast á að þjálfa einstaklings- og félagslega þætti barnanna.“

Íris Helga segir að alla daga æfi kennarar og börn sig í að fara út fyrir boxið. Þau vilji að hvert barn geti víkkað sitt val, tilfinningalega og áhugatengt, án þess að vera stýrt í einhverja átt út frá kyni. „Við erum með kynjaskipt starf, en það er eingöngu verkfærið okkar að blöndun á jafnréttisgrundvelli. Kynjaskiptingin er í sjálfu sér ekki markmið heldur leiðin að því markmiði að börn, stúlkur og drengir, hafi frelsi til að vera eins og þau eru. Þar sem áhugi þeirra ræður för en ekki fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað hæfi þeim út frá kyni.

Aukning á kynjuðum fötum og leikföngum er gríðarleg ef eitthvað er nefnt, það er búið að setja börn í mót og mótaðan farveg út frá kyni strax við fæðingu.

Námskrá Hjallastefnunnar hefur notið sívaxandi velgengni og virðingar undanfarin ár og hefur fengið ýmis konar viðurkenningar vegna jafnréttismála. Árið 1996 hlaut Hjallastefnan viðurkenningu Jafnréttisráðs Íslands fyrir sérstakt átak í jafnréttismálum og Hjalli hlaut hvatningarverðlaun Jafnréttisnefndar Hafnarfjarðar árið 2001. Nú á dögunum hlaut Hjallastefnan svo verðlaun frá Manino og Viðskiptaráði Íslands fyrir byltingarkenndar stjórnunaraðferðir.

Hjallastefnan er nokkuð þekkt erlendis og skólarnir fá til sín mjög marga erlenda gesti á hverju ári auk þess sem Margrét Pála og starfsfólk Hjallastefnunnar hafa verið fengin til að tala á ráðstefnum víðs vegar um heiminn. „Við erum henni óendanlega þakklát fyrir kjarkinn, þrautseigjuna og óbilandi trú og staðfestu í að gera heiminn betri fyrir okkur öll.“

„Það er eins og með allt, skoðanir fólks eru misjafnar og það er í góðu lagi. Það þarf ekki öllum að líka vel við allt, það er það dásamlega við að hafa val í skólakerfinu eins og á öðrum stöðum,“ segir Íris Helga aðspurð hvort skoðanir fólks hafi áhrif á starfið.

Íris Helga segir þau vera lánsöm að hafa stóran hóp fjölskyldna í þeirra samfélagi og markmið þeirra er að koma til móts við hverja einustu fjölskyldu eins og þau þurfa. Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur? „Við lítum svo sannarlega björtum augum til framtíðarinnar og hlökkum til hennar, enda ekki annað hægt þegar börn eru annars vegar. Það eru forréttindi að vera í starfi þar sem kjarninn í öllu gengur út á að gera lífið betra og kærleiksríkara frá degi til dags,“ segir Íris Helga að lokum.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Kringlótt fræbrauð

1. tbl. 2015

Gróf brauð sem innihalda gróft mjöl og næringarríkar hnetur og fræ eru frábær kostur. Flest ættum við að auka neyslu á slíkri ofurfæðu, enda hafa rannsóknir sýnt að verulega vantar upp á að við séum að borða nóg af trefjum frá degi til dags. Gróf brauð eru því frábær uppspretta góðra kolvetna, líkt og ávextir og grænmeti.

 

Kringlótt fræbrauð

130 g hveiti
80 g muscovado-sykur eða púðursykur
100 g heilhveiti
60 g sólblómafræ, ristuð
50 g hörfræ
40 g hörfræmjöl
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
5 dl súrmjólk
½ dl olía
1 egg

Hitið ofn í 175°C. Blandið öllum þurrefnum saman. Pískið súrmjólk, egg og olíu saman og blandið saman við þurrefnin. Klæðið form með bökunarpappír (hér var notað hringform) og dreifið deiginu í formið. Stráið gjarnan graskersfræjum yfir og bakið í u.þ.b. 1 klst.

Athugið að hægt er að búa til súrmjólk með því að setja 3-4 tsk. af sítrónusafa eða ediki í mæliskál, fylla síðan upp í það magn sem þarf með mjólk og láta þetta standa í nokkrar mín.

Texti og stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Lærði meira í gegnum félagsstarfið en bóknámið

|||
Björn Jón og Pétur Már afhenda dr. Inga Ólafssyni

Pétur Már Sigurðsson, 19 ára nemandi í Verzlunarskóla Íslands, gaf nýlega út kverið Fundur er settur, ásamt Birni Jóni Bragasyni, kennara sínum í skólanum. Kverið fjallar um félagsstörf, fundarsköp og ræðumennsku, sem er sameiginlegt áhugamál nemandans og kennarans.

 

„Björn Jón átti hugmyndina að kverinu og bar hana undir mig þegar ég var hjá honum í lögfræðitíma,“ segir Pétur Már aðspurður um kverið. „Ástæðan var sú að hann vissi að ég hafði mikla innsýn í heim félagsstarfa ungmenna í dag og vildi fá það staðfest að það væri þörf á þessu. Þá var það ekkert inni í myndinni að ég myndi vinna hana með honum. Í kjölfarið fórum við þó að ræða þetta meira og meira og eftir nokkrar vikur bauð Björn mér að vera meðhöfundur. Ég er mjög þakklátur fyrir það tækifæri.“

Pétur Már segist ekki vita um önnur dæmi þess að nemandi og kennari gefi út rit saman, að minnsta kosti ekki hér á landi.

Með ofboðslega vítt áhugasvið

Pétur Már er 19 ára og býr á Selfossi. Að eigin sögn er hann með ofboðslega vítt áhugasvið, mikinn áhuga á félagsstarfi og list, sérstaklega málaralist. „Ég hef líka alltaf verið hrifinn af tækni og hef nýtt frítímann minn í að læra forritun síðustu átta ár. Í dag forrita ég hjá fyrirtækinu SalesCloud sem þróar sveigjanlegt sölukerfi bæði til þess að selja vörur á Netinu og í verslun.“

Hann fékk áhuga á félagsstörfum strax í áttunda bekk, þegar honum bauðst að vera í félagsmiðstöðvarráði Zelsíuz á Selfossi. „Út frá því bauð ég mig fram í ungmennaráð Árborgar þar sem ég sat í fjögur ár og hef grúskað í þessu öllu saman meira og minna síðan,“ segir Pétur Már. En hvað er það við félagsstörfin sem heillar hann? „Ég á mjög erfitt með að setja punkt á það hvað það er sem höfðar til mín við þetta, en ætli það sé ekki bara samstaðan sem myndast þegar margt fólk vinnur að sameiginlegu verkefni af einskærum áhuga og býst ekki endilega við neinu í staðinn.“

Áhersla á félagsstörf frekar en bóknám

Eftir að Pétur Már hóf nám við Verzlunarskóla Íslands ákvað hann að leggja áhersluna frekar á félagsstarfið en bóknámið, og hefur hann verið ötull í félagsstarfi allan tímann. „Ég uppgötvaði snemma á fyrsta ári að Verzlunarskólinn getur kennt manni mun meira í gegnum félagsstarfið en bóknámið og boðið upp á fleiri tækifæri,“ segir Pétur Már. „Ég fékk að taka þátt í ræðuliðinu öll þrjú árin mín ásamt því að sitja í málfundarfélaginu, leika í bæði leikritinu og söngleiknum, keppa í Vælinu, söngkeppni skólans og á síðasta árinu mínu gegndi ég starfi sem forseti nemendafélagsins.“

En hvernig hefur nýjasta hlutverkinu verið tekið, bókaútgefandi?

„Móttökurnar fóru fram úr öllum væntingum og við höfum verið að fá fyrirspurnir úr ofboðslega mörgum áttum.“

„Nemendur í félagsstarfi, borgarfulltrúar, meðlimir húsfélaga og fyrirtækjarekendur eru þeir hópar sem mest hafa verið að óska eftir eintökum. Við Björn höfum verið að ræða það að prenta fleiri bækur,“ segir Pétur Már.

Námskeið eru einnig fram undan tengd efni bókarinnar, þeir hafa sett sig í samband við núverandi forseta nemendafélags skólans, Dag Kárason, og verður námskeið haldið fyrir nemendur í Verzlunarskólanum. „Ef það gengur vel ætlum við að bjóða fleiri skólum upp á þetta og jafnvel öðrum félagssamtökum eins og til dæmis ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka.“

Nýtt Ísland – Kaupfélag Skagfirðinga

Kaupfélag Skagfirðinga, samvinnufélag með um 1.600 félagsmenn, er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Fjallað er um kaupfélagið og fleiri stóra leikendur í íslensku viðskiptalífi í nýjasta tölublaði Mannlífs.

 

Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri hefur leitt félagið um árabil sem forstjóri og var afkoma félagsins á árinu 2018 sú besta í 130 ára sögu þess. Uppbygging kaupfélagsins hefur verið verulega umfangsmikil á undanförnum árum, en í lok árs í fyrra var eigið fé félagsins rúmlega 35 milljarðar og heildareignir námu 62,3 milljörðum króna.

Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Þá eignaðist FISK allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf. síðla árs 2017, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja ótengdu aðila 10,6 prósentum.

Kaupfélagið hefur tekið þátt á skráðum hlutabréfamarkaði, meðal annars með því að eiga um tíma hlut í bæði Högum og Brim. Þá á Kaupfélag Skagfirðinga 20 prósent hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Höfundur / Þórður Snær Júlíusson.

Lesa má umfjöllunina í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Markmið reglugerðarinnar að tryggja þolendum farveg

Sonja Ýr Þorbergsdóttir.

„Það er ekkert í lögum sem tryggir starfsmanni á almennum vinnumarkaði réttinn til að vita nöfn þeirra sem kvörtuðu undir þessum kringumstæðum,“ fullyrðir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Heldur þvert á móti er atvinnurekanda skylt að halda og virða trúnað sé þess óskað eins og Persónuvernd komst að niðurstöðu um.“

Í nýjasta tölublaði Mannlífs er fjallað um dóminn í máli Atla Rafns Sigurðssonar leikara gegn Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra.

„Ástæða þess að ekki er fjallað um nafnleynd eða skyldu atvinnurekanda til að upplýsa um nöfn þeirra sem kvarta í reglugerðinni varðandi áreitni er að umræðan var ekki á sama stað í aðdraganda setningar reglugerðarinnar. Umræðan snerist nánast eingöngu um það hvernig mætti stuðla að því að þolendur leituðu sér aðstoðar og tryggt að það væri viðeigandi ferli sem tæki við á vinnustaðnum. Það voru engin dæmi um það þá að fólk óskaði eftir því að stíga fram án þess að nafns þess væri getið og almennt mjög fá dæmi um að þolendur væru að stíga fram yfir höfuð. Lög og reglur gera ekki ráð fyrir öllum mögulegum aðstæðum og því þarf að túlka þau í samræmi við markmið þeirra.“

Er atvinnurekandi þá í fullum rétti að halda nöfnum ásakenda leyndum? Hvað með rétt þess sem ásakaður er til að verja sig?

„Ég tel að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði geti tryggt nafnleysi þolenda og stuðlað þannig að því að starfsfólk treysti sér til að leita aðstoðar vegna áreitni eða ofbeldis á vinnustað“

„Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að það sé farvegur fyrir þolendur og að þeir geti treyst því að atvinnurekandi bregðist við og hegðunin verði stöðvuð. Atvinnurekendur þurfa þá að rannsaka málið og komast að niðurstöðu um hvort áreitnin eða ofbeldið hafi átt sér stað eða ekki. Í kjölfarið þarf svo að taka ákvörðun um framhaldið byggt á heildarhagsmunum og því miður þarf oft að taka þá erfiðu ákvörðun að vega saman hagsmuni þess sem kvartar á við hagsmuni þess sem kvartað er gegn. Opinberir atvinnurekendur geta hins vegar ekki tryggt nafnleynd einstaklinga sem stíga fram þar sem ólíkar reglur gilda á opinberum vinnumarkaði og því er mikilvægt að samtalið um hver besta tilhögunin sé fari fram.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Lestu viðtalið í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Byggjum fyrirhrunsafn

Pawel Bartoszek hafði rétt fyrir sér

Síðast en ekki síst

Eftir / Pawel Bartoszek

Á Den Gamle By – útisafninu í Árósum er gata sem á að sýna Danmörku árið 1974. Þar standa búðargluggar með leikföngum úr djúpu sjöunni, slátrarar sem klæddu dauð svín í jakkaföt og létu þau reykja pípu. Á einum stað er  gamall djassklúbbur með innréttingunum og öllu tilheyrandi. Einu sinni í mánuði opnar svo klúbburinn og þá mæta gamlir fastagestir og reykja inni, því það mátti þá.

Margir sækja söfn til að upplifa og rifja upp. „Æi, var kókflaskan svona? Man eftir því núna! Var búinn að gleyma því.“ „Já, amma átti svona stell!“ „Ég man eftir svona eldavél.“ Fólki hlýnar um hjartaræturnar. En því lengra sem líður því erfiðara er að fá fólk til að tengja við safnkostinn.

Við hliðina á 1974-hlutanum er verið að byggja nýja götu. Hún mun sýna Danmörku árið … 2014. Það hljómar í fyrstu fáránlega. Árið 2014 var bara áðan. Þarf virkilega sérstakt safn fyrir heim þar sem fólk hefur bara séð fyrstu fimm seríurnar af Game of Thrones?  En þeir sem eru 10 ára núna voru 5 ára árið 2014. Árið 2014 er saga fyrir þeim. Og saga á heima á söfnum.

Mér finnst þetta í raun snilldarhugmynd! Gerum þetta hér! Hættum að flytja gömul hús á Árbæjarsafn og byggjum frekar ný. Höfum svona rétt-fyrir-hrun-götu. Til minningar um þá tíma þegar við gátum allt.

Glerjað Kaupþingsútibú, menn í jakkafötum að selja viðbótarlífeyrissparnað. Kíkjum í einbýlishús með upphituðu parketi, heitum potti og Kobe-kjöti á gasgrillinu. Spilum FIFA 07 í PlayStation 3. Horfum á undanúrslitaleikinn í handbolta frá Ólympíuleikunum í Beijing, aftur og aftur.

Kíkjum svo í Eurovision-partí, horfum á Silvíu Nótt falla úr leik og hneykslumst á því hvað útlendingar eru húmorslausir. Endum svo heimsóknina á McDonald’s. Pöntum stjörnumáltíð með sjeik í staðinn fyrir gos. Eins og í þá gömlu góðu daga.

Rétturinn til varna toppar réttinn til nafnleyndar

Helga Vala Helgadóttir.

Helga Vala Helgadóttir, alþingis- og lögmaður, vill ekki tjá sig sérstaklega um mál Atla Rafns Sigurðarsonar gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur, en segir rétt þess sem ásakaður er um brot vera eina af grunnstoðum réttarríkisins. Komi slíkar ásakanir fram nafnlaust sé ekki hægt að vinna málið í eðlilegum farvegi og þar með sé brotið á rétti meints geranda.

„Það þarf auðvitað að fara að settum reglum,“ segir Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og alþingismaður, spurð hvernig yfirmenn eigi að bregðast við ásökunum á hendur starfsmanna. „Ef margir koma og kvarta yfir ákveðnum starfsmanni, eða jafnvel þótt það sé bara einn aðili sem kvartar, þá á vinnuveitandinn að bregðast strax við og skoða hvað er hæft í ásökunum, hvað hefur gerst og hvernig. Það er rík skylda vinnuveitenda að rannsaka málið í þaula og sú skylda er studd bæði með lögum og reglugerðum.“

Hvernig á vinnuveitandinn að rannsaka málið? „Í þessari rannsókn felst auðvitað að tala við meintan geranda eða gerendur og kanna hvort eitthvað sé hæft í þessum ásökunum,“ útskýrir Helga Vala. „Ef um er að ræða saknæmt athæfi ætti vinnuveitandi, að mínu mati, að ráðleggja þeim starfsmanni sem kvartar að tala við lögreglu því það er auðvitað þar sem mál eiga að fá umfjöllun ef um er að ræða gróf brot, kynferðislega áreitni eða kynferðisbrot. Ef um er að ræða einelti eða ósiðsamlega hegðun sem ekki er það gróf að geta flokkast undir hegningarlagabrot fer rannsóknin fram innan vinnustaðarins. Þá verður vinnuveitandi að skoða málið frá öllum hliðum og til þess að meintur gerandi geti skýrt sína hlið verður hann/hún auðvitað að fá að vita málsatvik og hverjir eru meintir þolendur.“

Eiga meintir þolendur sem sagt ekki rétt á nafnleynd? „Ef þú berð einhvern sökum verður þessi einhver eða einhverjir að eiga möguleika á að svara fyrir þær sakir,“ segir Helga Vala. „Þú getur ekki svarað fyrir sakirnar nema fá að vita málsatvik, hvar hlutirnir eiga að hafa gerst og hvernig. Það er ekki hægt að verja sig gegn einhverju óskilgreindu.“

„Ég undirstrika að ég skil það mjög vel að brotaþolar vilji vera nafnlausir en það má samt ekki taka þann rétt af einstaklingi sem borinn er þungum sökum að verja sig, sama hversu ógeðslegt manni kann að þykja brotið.“

Ekki hægt að kæra fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju

Helga Vala hefur starfað sem réttargæslumaður brotaþola, gekk vaktir á Neyðarmóttöku um nokkurra ára skeið og segist fyrst og fremst vera talsmaður brotaþola í sinni lögmennsku. Það breytir ekki því að fyrir henni er augljóst að fara verður eftir reglum réttarríkisins.

„Við búum við ákveðið réttarríki,“ segir hún. „Og ef einstaklingur er borinn sökum eru það hans grundvallarmannréttindi að eiga þess kost að verja sig. Ef hann veit ekki hvaða sökum hann er borinn hvernig á hann þá að geta varið sig? Sá réttur toppar að mínu mati rétt ásakanda til nafnleyndar. Ég hef farið í útköll á Neyðarmóttöku þar sem einstaklingur leitaði þangað eftir að brotið var á honum en viðkomandi vildi ekki fara með málið lengra af ýmsum ástæðum. Það er auðvitað ekki sanngjarnt að brotaþoli geti ekki leitað réttar síns en við getum ekki lagt fram kæru á hendur einhverjum fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju á ótilgreindum stað. Það er bara ekki hægt, alveg sama hversu ósanngjarnt manni finnst það.“

En ef margir starfsmenn kvarta undan sama samstarfsmanninum og vilja ekki vinna með honum, hvað er hægt að gera? „Það er mjög flókið,“ segir Helga Vala. „Þess vegna þarf að skoða það vel. Ástæðan getur verið sú að hópurinn beiti einhvern einstakling einelti eða vilji bara losna við viðkomandi og því þarf að setja fram „konkret“ dæmi, það þurfa að vera málefnalegar ástæður fyrir kvörtuninni til að vinnuveitandinn geti metið það. Vinnuveitandi þarf að tryggja aðbúnað fólks og öryggi á vinnustað, en það breytir því ekki að ef þetta beinist gegn einhverjum einum þarf að skoða hverja ásökun fyrir sig án tillits til hinna. Sem dæmi má nefna mál þar sem þrír aðilar báru einn og sama einstaklinginn sökum um kynferðisbrot og því má segja að það hafi verið  yfirgnæfandi líkur á að viðkomandi væri síbrotamaður. Samt sem áður má ekki nota eitt mál til þess að byggja undir annað, það er óheimilt í sakamálarétti. Í því voru tvær af kærunum felldar niður á rannsóknarstigi en eitt mál fór fyrir dóm og þótt allir teldu yfirgnæfandi líkur á sök var hann á endanum sýknaður í héraði meðal annars vegna þess að ekki mátti benda á líkur á síbrotum. Sumir vilja meina að þetta sýni að réttarkerfið sé gerendavænt og það er svo sannarlega margt sem má laga hvað varðar brotaþola í kerfinu. Mér finnst það mjög mikilvægt að staða brotaþola sé endurskoðuð, miskabætur hækkaðar verulega og að réttarkerfið sendi brotaþolum ótvíræða viðurkenningu á alvarleika kynferðisbrota.“

Að segja frá hefur fælingarmátt

Nú hefur mikið verið talað um þær breytingar sem hafi orðið á rétti þolenda til að segja frá í kjölfar #metoo-hreyfingarinnar, en hefur þá sem sagt í rauninni ekkert breyst? „Réttur þolanda til að segja frá er ótvíræður,“ segir Helga Vala ákveðin. „Og það sem #metoo gerði var í rauninni að opna augu okkar allra fyrir því hvað þetta er  stórt vandamál. Það er alls staðar, það beinist af fyllstu hörku gegn þeim sem veikast standa, til dæmis erlendum og fötluðum konum, en það er líka til staðar í efri lögum samfélagsins og snertir öll hólf þess. Þar var lögð áhersla á að nafngreina ekki meinta gerendur til þess einmitt að sýna fram á hversu útbreitt þetta vandamál er, ekki endilega á nafnleynd meintra þolenda. En þar var heldur ekki verið að fara með mál fyrir dóm eða krefjast afsagna, þannig að sú barátta var annars eðlis. Það sem má hins vegar ekki gerast núna í kjölfar þessa alls er að það komi bakslag, að það verði allt brjálað ef þú segir frá. Til þess var þessi barátta ekki háð. Það mun fæla þolendur frá því að segja frá og þá erum við komin í algjört öngstræti með þetta allt saman.

Þessi barátta hefur skilað ákveðnum árangri í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Það hefur nefnilega mikinn fælingarmátt ef gerendur geta  átt von á að ógeðsleg hegðun þeirra verði komin á forsíður blaðanna á morgun, burtséð frá því hvort vænta megi dóms fyrir athæfið eða ekki. Neyðarmóttakan varð vör við merkjanlega fækkun á kynferðisbrotamálum eftir #metoo-byltinguna þannig að hún hafði greinilega áhrif.“

Þá komum við aftur að þessu með nafnleynd meintra þolenda. Margir brotaþolar eru hræddir við meintan geranda og vilja ekki að hann viti að þeir hafi sagt frá, er þá engin leið fyrir þá þolendur að fá neina úrlausn í réttarkerfinu? „Ekki með nafnleysi, nei,“ segir Helga Vala. „Því miður þá er það ekki hægt, þú getur ekki kært nafnlaust vegna þess að rétturinn til að taka til varna er jafnríkur og rétturinn til þess að kæra. Ég undirstrika að ég skil það mjög vel að brotaþolar vilji vera nafnlausir en það má samt ekki taka þann rétt af einstaklingi sem borinn er þungum sökum að verja sig, sama hversu ógeðslegt manni kann að þykja brotið. Við verðum að gæta að réttindum allra og ef þú berð einhvern sökum verðurðu að vera tilbúinn til að standa fyrir máli þínu. Þú getur ekki krafist þess að einhver sé rekinn úr vinnu án þess að hann fái að vita um hvað málið snýst. Við verðum að hafa eitthvert kerfi á „galskapnum“. Annars endum við bara í einhverju Villtavestursástandi sem kemur engum til góða, ekki heldur brotaþolum.“