Þriðjudagur 25. febrúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Danska fyrirtækið RO – handverk og gæðahönnun

Ritstjórn Húsa og híbýla fékk gott boð frá Epal í vikunni um að hitta Christian Thulstrup Lauesen einn stofnanda danska vörumerkisins Ro sem staddur var hér á landi. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 og hefur átt mikilli velgengni að fagna síðan.

 

Hugmyndafræði Ro gengur fyrst á fremst út á það að staldra við og njóta augnabliksins, líkt og nafnið gefur til kynna. Áherslan er á gæði og handverk og eru vörur fyrirtækisins einfaldar í formi og lögun og falla vel að umhverfi sínu.

Mynd / Aðsend
Mynd / Aðsend

Umhverfissjónarmið koma skýrt fram í hugmyndafræði Ro og stendur fyrirtækið fyrir heiðarlegri framleiðslu frá upphafi til enda. Lagt er upp með að efniviðurinn sem hönnuðir notast við standist tímans tönn og að vörurnar hafi margskonar notagildi. Jafnframt á að vera auðvelt að endurvinna það hráefni sem notast er við.

Gríðarleg vinna er lögð í efnisvalið, rannsóknir gerðar og ýmsar prófanir svo vörurnar standist strangar gæðakröfur fyrirtækisins. Fagurfræði og notagildi tvinnast saman á skemmtilegan hátt og má segja að vörurnar séu í senn listmunir og nytjahlutir.

Línan samanstendur af glervösum, kertastjökum og -luktum, viðarbrettum, ofnheldum leirskálum og öðrum borðbúnaði.

Mynd / Aðsend
Mynd / Aðsend
Mynd / Aðsend

Epal er söluaðili Ro á Íslandi.

Byrjaði að hlusta á jólalög í september

Eiríkur Þór Hafdal

Eiríkur Hafdal starfar sem sjálfstætt starfandi framleiðandi og tónlistarmaður. Hann hefur meðal annars tekið þátt Söngkeppni Sjónvarpsins. Hér ljóstrar hann upp fimm staðreyndum um sjálfan sig.

 

„Á djamminu fyrir einhverjum árum lenti ég á spjalli við mann sem var helvíti líkur Hilmi Snæ leikara. Ég spurði hann að því hvort hann hafi ekki heyrt það áður hvað hann væri líkur Hilmi Snæ? Hann svaraði flissandi: „Jú, oft, ég heiti nefnilega Hilmir Snær.“

„Þegar ég var sex ára datt ég út úr bílnum á ferð eftir að hafa verið að fikta í hurðinni. Mamma tók beygju, ég opnaði hurðina, sá götuna í smástund og svo man ég eftir mér úti í vegkanti eftir að hafa rúllað nokkra hringi. Sem betur fer vorum við 200 metra frá sjúkrahúsinu í Neskaupstað, en ég slapp samt með skrámur.“

„Ég á og rek jólasveinaþjónustuna Sveinki.is, og er strax byrjaður að plana jólin. Þannig að já, ég byrjaði að hlusta á jólalög í september og skammast mín ekkert fyrir það.“

„Fór í fyrsta skipti til útlanda 22 ára, á sama tíma og dóttir mín sem var þá eins árs.“

„Ég er svo forfallinn Pepsi Max-isti að þegar ég rúlla að lúgusjoppunni rétt hjá vinnunni, er afgreiðslufólkið farið að rétta mér dósina áður en ég stoppa, liggur við, ég kaupi mér Pepsi Max vandræðalega oft.“

 

Skemmtilegur rokkslagari

Hljómsveitin KUL var að senda frá sér brakandi ferskt lag sem ber heitið Why?

 

Meðlimir hljómsveitarinnar KUL hafa allir verið virkir í íslensku tónlistarlífi um árabil, en þeir eru Heiðar Örn Kristjánsson (Botnleðja, The Viking Giant Show, Pollapönk), Helgi Rúnar Gunnarsson (Benny Crespo’s Gang, Elín Helena, Horrible Youth), Hálfdán Árnason (Himbrimi, Sign, Legend) og Skúli Gíslason (The Roulette, Different Turns).

Nýja lagið er skemmtilegur rokkslagari, þó með þægilegum hljóm. Rödd Heiðars er alltaf jafnóaðfinnanleg og á þetta nýja lag án efa eftir að renna vel niður hjá rokkþyrstum hlustendum.

„Á auðvelt með að halda mörgum boltum á lofti“

Guðmundur Andri Hjálmarsson er heimspekingur að mennt og starfar hjá Reiknistofu bankanna ásamt því að vera stundakennari við Háskóla Íslands. Honum er margt til lista lagt og hafði blaðamaður afspurn af því að hann smíðaði falleg húsgöng í frístundum. Fyrir stuttu síðan flutti hann í Hlíðarnar, í fallega íbúð sem hann hefur verið að nostra við með konu sinni Foldu Guðlaugsdóttur en þau eiga tvo unga syni, þá Kára og Úlf.

 

Segðu okkur frá því hvernig áhuginn kviknaði á húsgagnasmíði?

„Síðan ég man eftir mér hef ég haft áhuga á vandlega hönnuðum og smíðuðum hlutum. Þar sem heimili okkar allra eru öllu að jöfnu full af húsgögnum fór ég því snemma að veita þeim athygli. Þegar sem barn var ég mjög vandlátur á húsgögn í nánasta umhverfi mínu. Mörgum árum seinna, þegar ég flutti aftur til Íslands að loknu námi, skráði ég mig í húsasmíði í Tækniskólanum með vinnu, þar sem mig langaði til þess að læra gott handbragð svo ég gæti bjargað mér sómasamlega heima fyrir – meira af fagmennsku og minna af fúski. Námið í húsasmíði byrjar á stórum áfanga, þar sem nemendur fá nasaþef af trésmíði af ýmsum toga. Ég heillaðist þá þegar af húsgagnasmíði, þar sem nákvæmnin og vandvirknin höfðaði sterklega til skaphafnar minnar. Eins og iðulega leiddi síðan eitt af öðru og nám í húsasmíði varð fljótt að námi í húsgagnasmíði.“

„Mig langar til þess að smíða mér kofa í garðinn og mögulega smíðaaðstöðu.“

Nú hefurðu verið að læra húsgagnasmíði meðfram vinnu, geturðu sagt okkur frá leiðunum sem þú fórst?

„Vinnutími minn er mjög sveigjanlegur. Þær annir sem ég hef ekki haft of mikið að gera við barnauppeldi eða kennslu, þá hef ég skráð mig í einn og einn áfanga í senn í Tækniskólanum. Ég hef alltaf átt auðvelt og liðið einstaklega vel með að halda mörgum boltum á lofti á sama tíma, þannig að það hefur reynst mér vel að hafa smíðina sem mótvægi við vinnu.“

Guðmundi Andra er margt til lista lagt.

Hvað er erfiðast við að smíða húsgögn?

„Húsgagnasmíði er þolinmæðisþraut sem krefst vandvirkni og nákvæmni. Það sem hefur oft reynst mér erfiðast er að halda aftur af sjálfstraustinu. Þegar maður fyllist sjálfstrausti, þá á maður það til að gera hlutina án umhugsunar og í flýti. Húsgagnasmíði er viðfangsefni sem maður verður stöðugt að nálgast af yfirvegun og auðmýkt ef vel á að vera.“

Hvaðan sækirðu þér innblástur?

„Því er auðsvarað, ég sæki mér ekki innblástur. Stundum rekur vissulega eitthvað á fjörur manns sem blæs manni nýjum hugmyndum í brjóst. En það hefur aldrei reynst mér vel að leita innblásturs af neinu tagi. Hugmyndir — rétt eins og hamingjan hafa í gegnum tíðina fundið mig þegar ég er ekki sérstaklega að leita þeirra.

Mynd / Hallur Karlsson

Hvernig er ferlið frá hugmynd að húsgagni?

Það hefst venjulega á vandlega yfirveguðum teikningum, þar sem húsgagnið er oft teiknað í 1:1 (raunstærð) eða 1:2 (hálfri stærð). Þessi hluti smíðinnar tekur oft hlutfallslega lengstan tíma og krefst mestrar hugsunar. Þegar teikningin er fullbúin áður en eiginleg smíði, með endanlegan efnivið, hefst, þarf oft að gera ýmsar tilraunir með ódýrari og oft mýkri við, til þess að sannreyna að hugmyndirnar séu framkvæmanlegar og stundum til þess að átta sig almennilega á því hvernig þær séu framkvæmanlegar. Þegar hugmyndirnar hafa verið staðfestar, þá loksins hefst eiginleg smíði húsgagnsins. Undarlega, eins og það kann að hljóma, þá tekur sá hluti smíðinnar hlutfallslega stuttan tíma ef undirbúningurinn hefur verið vandaður.“

Hvaða efnivið notarðu helst, kaupirðu efnið eða reynirðu að endurnýta gamalt efni?

„Ég hef smíðað talsvert úr eik og hnotu, þar sem ég kann vel við efniseiginleika þeirra og mér finnst viðurinn einstaklega fallegur. Ég hef einkum unnið með nýtt efni en ef ég get nýtt eitthvað notað, þá reyni ég það vissulega.“

Mynd / Hallur Karlsson

Erfiðasta verkefni sem þú hefur unnið?

„Ég smíðaði eitt sinn snúinn tréstiga svona eins og finna má í sumum gömlum timburhúsum. Það var einstaklega lærdómsríkt verkefni og krefjandi á köflum.“

Hvað með aðstöðu, þarf ekki tól, tæki og gott rými?

„Góð aðstaða og almennilegar vélar auðvelda vissulega alla smíði. Engu að síður má komast mjög langt einungis með handverkfæri og nægan tíma sem smiðir gerðu í árþúsund. Ég bý ekki svo vel að eiga stóra geymslu eða bílskúr, þannig ég hef einfaldlega notað mér aðstöðuna í Tækniskólanum, þær annir sem ég er þar í námi, en haldið mig við handverkfæri og minni verkefni þess á milli.

Mynd / Hallur Karlsson

Hvað er næst á dagskrá?

„Eins og stendur er ekkert í vinnslu hjá mér, þar sem ég er upptekinn þessa dagana á öðrum vígstöðvum. Mig langar til þess að smíða mér kofa í garðinn og mögulega smíðaaðstöðu en hann er ekki enn kominn á teikniborðið.“

Myndir / Hallur Karlsson

Trufluð túnfiskbrauðterta með nýju tvisti

Túnfiskur er frábær tilbreyting frá rækjum og skinkum á brauðtertuna enda bæði bragðgóður og hollur.

 

Í þessu brauðtertu-vídeói sem er það síðasta í brauðtertuseríunni hjá okkur í bili erum við með skemmtilegt tvist og maukum ferskar kryddjurtir með töfrasprota og setjum út í salatið.

Skemmst er frá því að segja að brauðtertan bragðast einstaklega vel, svo vel að hún klárast yfirleitt á mjög skömmum tíma. Sérlega gaman er að bjóða upp á bubblur með brauðtertum enda er þessi allt of fínleg til að sporðrenna með kaffi eða gosi og því pörum við hana hér með ekta kampavíni, Nicolas Feuillatte brut sem kemur einstaklega vel út.

Brauðterta með túnfisksalati, ferskum kryddjurtum og sítrónu

Túnfisksalat

30 g basilíka
30 g steinselja, stilkar fjarlægðir að mestu
300 g Gunnars majónes
100 g grísk jógúrt frá Örnu
2 msk. fínt rifin sítrónubörkur
4 msk. sítrónusafi
4 msk. ólífuolía
600 g túnfiskur í vatni
4 harðsoðin egg, skorin smátt
2 stönglar sellerí, fínt saxað
3 skalotlaukar, fínt saxaðir
2 hvítlauksgeirar, saxaðir fínt
1-1 ½ tsk. sjávarsalt
½-1 tsk. nýmalaður svartur pipar

Setjið basil, steinselju, majónes, sýrðan rjóma, sítrónubörk, sítrónusafa og ólífuolíu í matvinnsluvél og maukið þar til allt hefur samlagast vel. Setjið sósuna í skál og blandið túnfiski saman við með gaffli og brjótið hann niður. Blandið eggjum, sellerí, skalotlauk, hvítlauk saman við og bragðbætið með sjávarsalti og svörtum pipar eftir smekk.

Brauðterta

1 brauðtertubrauð
túnfisksalat, uppskrift hér að ofan
½ dl grísk jógúrt frá Örnu
1 ½ dl Gunnars majónes
1 tsk. sítrónusafi

Skerið endana af brauðinu og leggið einn brauðbotn á fat eða bretti. Smyrjið brauðbotninn með túnfisksalatinu og leggið annan botn ofan á. Endurtakið ferlið þar til botnarnir eru búnir. Ekki setja túnfisksalat ofan á seinasta brauðið. Blandið saman í skál sýrðum rjóma, majónesi og sítrónusafa. Smyrjið brauðtertuna á öllum hliðum með blöndunni.

Skraut

gúrka, skorin í sneiðar og langsum
radísur, sneiddar
vínber, skorin í tvennt
blæjuber, skorin í tvennt
rauð paprika, mjög smátt söxuð
sítróna, skorin smátt
steinselja
spírur
svartur pipar

Skreytið eins og í myndbandi eða gefið hugmyndafluginu lausan tauminn og berið fram með góðu kampavíni.

Matreiðsla / Folda Guðlaugsdóttir
Stílisering og ritstjórn / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndataka og klippin / Hákon Davíð Björnsson

 

„Svo fallegt að sjá tjáningu hjá öðrum“

|
|Anna hefur kennt dans frá unglingsaldri.

Anna Claessen heldur skemmtikvöld á laugardag á Hótel Kríunesi á Vatnsenda, þar sem hún blandar saman skemmtun með söng, uppistandi og dansi og fær síðan alla út á dansgólfið eftir að hafa kennt þeim grunnspor dansins.

 

„Þetta er í annað sinn sem ég held slíkt kvöld á Kríunesi, það fyrsta var í október og þá fékk ég tilfinningu fyrir fólkinu sem mætti, stemningunni og staðnum,“ segir Anna. „Ég byrja á blöndu af uppistandi, söng og dansi í um það bil klukkustund. Síðan heldur kvöldið áfram með dansiballi til kl. 23 um kvöldið og jafnvel aðeins lengur.“

Anna hefur kennt dans frá unglingsaldri.

Hvernig var mætingin á fyrsta kvöldið? „Rosagóð og það var líka gaman að sjá hvað fólk tók mikinn þátt. Mér finnst gaman að efla fólk og sjá hverjir mæta en það var fólk frá tvítugu upp í sextugt. Ég vil eiginlega mest að fólk njóti sín og skemmti sér og kvöldið er hugsað þannig. Maður er allt of mikið í símanum og ræktar ekki sambönd sín yfirhöfuð. Vinasambönd, sambandið við sjálfan sig og hvað þá sambandið við makann.“

Hefur kennt dans frá 16 ára aldri

Anna er danskennari í World Class, og hefur kennt dans frá 16 ára aldri og er því með grunnsporin í flestum dönsum á hreinu. „Mér finnst mjög gaman að fá byrjendur og kenna þeim grunnsporin þannig að þeim líði vel á dansgólfinu. Fólk er stundum hrætt og heldur að það geti ekki dansað, það kunna allir að dansa, bara misvel. Það eru allir með sinn stíl og hreyfa sig á mismunandi hátt. Það er svo fallegt að sjá tjáninguna hjá öðrum. Fólk þorir að fara á dansgólfið eftir að hafa lært grunnsporin.“

Kríunes kjörið fyrir Íslendinga í helgarfríi

„Hótelið er rosalega fallegt, gullfallegt útsýni yfir Elliðaárvatn og mér fannst tilvalið að vera með skemmtikvöld þarna. Það eru klikkuð norðurljós yfir hótelinu,“ segir Anna og bætir við að kjörið sé fyrir Íslendinga að mæta á Kríunes í helgarfrí. Kríunes hefur verið rekið í yfir 20 ár, en gekkst undir breytingar í fyrra og þá kom nýbygging við húsið. „Eldri byggingin er í mexíkóskum stíl, sem er mjög töff, en nýbyggingin er í skandinavískum og nútímalegum stíl. Þetta er eins og að koma í tvo heima,“ segir Anna og bætir við að best sé að bóka borð fyrir laugardagskvöldið í síma 567-2245.

Myndir / Aðsendar

Berum ábyrgð á eigin heilsu

Geir Gunnar Markússon hefur ákveðnar skoðanir varðandi næringarfræði og raunar heilbrigði almennt. Hann segir að Þín heilsa ehf. sé myndlíking á hlutafélagi (vinnu) sem samanstandi af fjórum þáttum: Næringu, hreyfingu, svefni og sálinni. Allt þarf þetta að vera í jafnvægi til að árangur náist og fólk þarf að fara að sinna þessari vinnu eins og raunverulegu starfi en launin eru í samræmi við það.

 

„Allt þarf þetta að vera í jafnvægi til að árangur náist, þetta er bara keðja sem er órofa heild, þar sem eitt hefur áhrif á annað. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn,“ segir Geir Gunnar sem starfar á Heilsustofnun NFLÍ og er reynslubolti í þessum fræðum og óhræddur við að ráðast á bábiljur. Nú eru flestir alltaf að hugsa um kílóin og til hans leita skjólstæðingar eftir góðum ráðum. „Það er því miður ekki til nein töfralausn. Ef allir þessir megrunarkúrar og fæðubótarefni virkuðu þá ættum við flest að vera fit og flott en það er ekki raunin. Það verður að huga að þessum fjórum þáttum sem tilheyra Heilsunni ehf.

En hvers vegna þyngjumst við, bæði Íslendingar og Vesturlandabúar? „Því er auðvelt að svara. Við lifum í mjög óheilbrigðu umhverfi á Vesturlöndum. Við höfum ofgnótt af mat og við erum umkring dauðum gervimat. Þá eru flestir sem sitja við vinnu eða heima, hreyfingarleysið er algjört. Streita og svefnleysi spila einnig mjög stóran þátt í þessu og gerir okkur erfiðara að breyta mataræðinu og hreyfingunni til betri vegar.“

Hann segir að orkuefnin séu þrjú. „Það er prótín sem m.a. byggir vöðvana og er hluti ensíma, fita sem er fóðrun og þar eru mikilvæg hormón og svo kolvetnin sem eru er orkugjafinn. Lengi vel var fita aðalóvinur okkar í mataræðinu en sem betur fer er sú tíð liðin en þá hefur einelti hafist gegn kolvetnum. Ég sem næringarfræðingur elska öll þessi næringarefni, því þau hafa öll sína verkun og gildi fyrir líkamann. En þegar við erum farin að þyngjast þá mættu margir fara að huga að því að minnka við sig kolvetnin en þó enga öfga eða sleppa þeim alveg, heldur að takmarka sem mest alla óhollustu sem inniheldur einföld kolvetni eins og gos, sælgæti, kex, kökur og unnar vörur með viðbættum sykri. Ef fólk takmarkar þetta sem mest er það að lifa við þokkalegt heilbrigði og fær meiri orku af alvörumat.“

190 kósídagar

Gunnar Geir segir að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir hversu oft það sé að verðlauna sig með mat. „Það eru allt að 190 kósídagar hjá venjulegri fjölskyldumanneskju á Íslandi árlega. Við erum að tala um daga eins og jól, páska og áramót, öll afmælin, allar helgar, þorrann, góuna, bóndadaginn og konudaginn, í saumaklúbbum og í karlaklúbbum og svo mætti lengi telja. Það er eins og fólk geti ekki komið saman án þess að eitthvað af mat sé á boðstólum. Þetta er meira en helmingur af einu ári sem telur 365 daga. Það er því ekkert skrítið að fólk fitni. Ef við tökum helgar sem dæmi, þá er fólk farið að finna lyktina af helginni á fimmtudeginum og fær sér ef til vill rauðvínsglas og smávegis osta, á föstudegi er helgin hafin og fólki finnst þá gjarnan að það megi gera vel við sig. Á laugardögum er svo hápunktur helgarinnar með miklu sukki í mat og á sunnudeginum eru afgangarnir frá undanförnum dögum í boði. Og vitanlega taka allir þessir kósídagar í þegar verið er að huga að þyngdarstjórnun. Við ættum að hafa meira um andleg kósíheit í stað matar kósíheita, fara saman í göngutúr, knúsast og almennt veita hvort öðru góðan félagsskap.“

Að sögn, Geirs ætti fæði að vera sem næst upprunanum.

Næringarfræðingurinn segir að best sé að byrja á sálinni í heilsueflingu. ,,Það eru allt of margir sem leggja af stað í þeim tilgangi að grenna sig sem gera það í mikilli streitu og kvíða. Við erum uppfull af þekkingu en margt af henni er bara vitleysa eins og það að mega ekki borða brauð. Það er bara mýta. Mjög margir sem koma til mín í næringarráðgjöf og vilja grennast byrja samtalið á því að segja: „Ég er búinn að taka burtu allt brauð“. Brauðið virðist í dag vera orðið upphaf allrar okkar fitusöfnunar. En að grípa í tvær grófar brauðsneiðar yfir daginn er í góðu lagi en auðvitað er ég ekki mæla með því að fólk lifi á brauði og sérstaklega ekki næringarsnauðu hveitibrauði. Í grófu brauði með korni og fræjum eru mörg góð næringarefni eins og t.d. vítamín, steinefni og trefjar. Bjór er hins vegar bara „brauðsúpa“ með lítið sem ekkert næringargildi og áfengi mun aldrei teljast hollt. Dagskammturinn fyrir konur af bjór ætti ekki að fara yfir 330 ml og fyrir karlmen er það um 500 ml, þó má ekki safna þessu upp og fara á fyllirí einu sinni í viku.“

„Við erum uppfull af þekkingu en margt af henni er bara vitleysa eins og það að mega ekki borða brauð. Það er bara mýta.“

Heilsufæði er næringarríkt og ætti að vera sem næst upprunanum

En er einhver munur á að borða appelsínu og drekka appelsínusafa út frá næringarsjónarmiðum ,,Já, það er það sko heilmikill munur. Það eru mest bara kolvetni (ávaxtasykur) í appelsínusafa. Þú ert einungis að kreista safann úr appelsínu og færð því ekki mikilvæg næringarefni eins og trefjar, vítamín og steinefnin sem eru í appelsínunni sjálfri ef þú borðar hana alla. Þetta er líka svo óeðlileg leið til að neyta matar. Hver mundi t.d. borða 3-4 appelsínur eins og er í einu appelsínusafaglasi? Ég myndi því ekki skrifa upp á safakúra,“ segir Geir Gunnar.

Nú eru vinsælar föstur, sem m.a. fela í sér að borða ekki neitt í 16 tíma og borða í 8 tíma, svokallað 16:8 mataræði og eru þá margir að borða frá hádegi til kvöldmatar. ,,Það er margsannað að ef þú borðar hollan morgunverð þá stuðlar það að jöfnum blóðsykri og þú færð þér síður óhollustu yfir daginn og ert frekar í kjörþyngd. Okkur á að þykja vænt um líkama okkar, starfsemi hans er vélin sem við göngum fyrir rétt eins og bíll fyrir bensíni eða rafmagni. Það má fasta að mínu mati í 12 tíma á sólarhring, svokölluð 12:12 fasta, þá borðum við ekkert eftir kvöldmat og næst ekki fyrr en morgunverður er á borð borinn. Það er raunhæfur lífsstíl sem fólk ætti að reyna að tileinka sér í einhvern tíma áður en það reynir lengri og öfgafyllri föstur.

Prótínstangir eru ekki hollar

En hvað með prótínstangir eru þær eins hollar og margir vilja halda? „Það er ekki nóg að búa til prótínstykki með 20 g af prótínum með góðu bragði og í flottum umbúðum. Við verðum að skoða innihaldsefnin í þessari matvöru. Mitt faglega mat á því hvort prótínstöng sé heilsusamleg byggist á þessum fimm atriðum: lág í viðbættum sykri, lág í sætuefnum, gervi- og aukefnum, há í prótíni, há í trefjum og náttúruleg.

„Það er ekki nóg að búa til prótínstykki með 20 g af prótínum með góðu bragði og í flottum umbúðum. Við verðum að skoða innihaldsefnin í þessari matvöru.“

Eftir að hafa metið prótínstangir eftir þessum atriðum þá eru nánast engar stangir á markaði hér sem standast allar þessar fimm kröfur. Við verðum því miður að horfast í augun við það að verksmiðjur geta ekki búið til hollan millibita í formi prótínstanga. Oft er lítill munur á þessum „prótínstöngum“ og t.d. bara hefðbundnu nammistykki eins og Snickers, fyrir utan hátt prótínmagn. Það er betra er að fá sér lúkufylli af möndlum til að fá prótínskammtinn og vera þá í leiðinni laus við viðbætta sykurinn, öll gervi- og aukefnin,“ segir næringarfræðingurinn að lokum.

Texti / Unnur Hrefna Jóhannsdóttir

Ekki hægt að kæra fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju

Helga Vala Helgadóttir, alþingis- og lögmaður, vill ekki tjá sig sérstaklega um mál Atla Rafns Sigurðarsonar gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra, en segir rétt þess sem ásakaður er um brot vera eina af grunnstoðum réttarríkisins. Komi slíkar ásakanir fram nafnlaust sé ekki hægt að vinna málið í eðlilegum farvegi og þar með sé brotið á rétti meints geranda.

 

Helga Vala hefur starfað sem réttargæslumaður brotaþola, gekk vaktir á Neyðarmóttöku um nokkurra ára skeið og segist fyrst og fremst vera talsmaður brotaþola í sinni lögmennsku. Það breytir ekki því að fyrir henni er augljóst að fara verður eftir reglum réttarríkisins.

„Við búum við ákveðið réttarríki,“ segir hún. „Og ef einstaklingur er borinn sökum eru það hans grundvallarmannréttindi að eiga þess kost að verja sig. Ef hann veit ekki hvaða sökum hann er borinn hvernig á hann þá að geta varið sig? Sá réttur toppar að mínu mati rétt ásakanda til nafnleyndar. Ég hef farið í útköll á Neyðarmóttöku þar sem einstaklingur leitaði þangað eftir að brotið var á honum en viðkomandi vildi ekki fara með málið lengra af ýmsum ástæðum. Það er auðvitað ekki sanngjarnt að brotaþoli geti ekki leitað réttar síns en við getum ekki lagt fram kæru á hendur einhverjum fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju á ótilgreindum stað. Það er bara ekki hægt, alveg sama hversu ósanngjarnt manni finnst það.“

Viðtalið við Helgu Völu er að finna í heild sinni í nýjasta Mannlífi.

En ef margir starfsmenn kvarta undan sama samstarfsmanninum og vilja ekki vinna með honum, hvað er hægt að gera?

„Það er mjög flókið,“ segir Helga Vala. „Þess vegna þarf að skoða það vel. Ástæðan getur verið sú að hópurinn beiti einhvern einstakling einelti eða vilji bara losna við viðkomandi og því þarf að setja fram „konkret“ dæmi, það þurfa að vera málefnalegar ástæður fyrir kvörtuninni til að vinnuveitandinn geti metið það. Vinnuveitandi þarf að tryggja aðbúnað fólks og öryggi á vinnustað, en það breytir því ekki að ef þetta beinist gegn einhverjum einum þarf að skoða hverja ásökun fyrir sig án tillits til hinna.

„Vinnuveitandi þarf að tryggja aðbúnað fólks og öryggi á vinnustað…“

Sem dæmi má nefna mál þar sem þrír aðilar báru einn og sama einstaklinginn sökum um kynferðisbrot og því má segja að það hafi verið  yfirgnæfandi líkur á að viðkomandi væri síbrotamaður. Samt sem áður má ekki nota eitt mál til þess að byggja undir annað, það er óheimilt í sakamálarétti. Í því voru tvær af kærunum felldar niður á rannsóknarstigi en eitt mál fór fyrir dóm og þótt allir teldu yfirgnæfandi líkur á sök var hann á endanum sýknaður í héraði meðal annars vegna þess að ekki mátti benda á líkur á síbrotum. Sumir vilja meina að þetta sýni að réttarkerfið sé gerendavænt og það er svo sannarlega margt sem má laga hvað varðar brotaþola í kerfinu. Mér finnst það mjög mikilvægt að staða brotaþola sé endurskoðuð, miskabætur hækkaðar verulega og að réttarkerfið sendi brotaþolum ótvíræða viðurkenningu á alvarleika kynferðisbrota.“

Lestu umfjöllunina í heild sinni í nýjasta blaði Mannlífs.

Meira vinnur vit en strit

Batnandi manni er best að lifa segir máltækið og það er svo sannarlega rétt. Kauði hefur lofað bót og betrun og allir í kringum hann trúa að nú komi bæði viljinn og verkið. Það eiga jú allir skilið annað tækifæri ekki satt? Nýlega steig Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, fram í fjölmiðlum og sagði að borgin ætlaði að umbylta undirbúningi framkvæmda. Þetta kom í kjölfar þess að Ásmundur Helgason, eigandi Gráa kattarins, hóf að kvarta undan framkvæmdum á Hverfisgötu. Framkvæmdum sem þegar hafa kostað lokanir og gjaldþrot fyrirtækja við götuna. En þessu ber virkilega að fagna. Hugsanlega eigum við aldrei eftir að ergja okkur á öðru braggamáli og ekki heyra af framúrkeyrslu hjá stofnunum á borð við Sorpu.

Vonandi boðar þetta umbyltingar hjá fleiri framkvæmdaaðilum en hinu opinbera. Það hefur verið plagsiður hér á landi að engar áætlanir standast nokkurn tíma. Verktakar gera tilboð í verk og virðast ævinlega vanreikna. Þeir hefja vinnu og alltaf kemur eitthvað þeim í opna skjöldu. Í stað þess að hafa borð fyrir báru og gera ráð fyrir við tilboðsgerðina að óvæntir erfiðleikar banki upp á gera menn svo naumar fjárhagsáætlanir að ekkert má út af bregða. Hafa þeir aldrei heyrt að meira vinnur vit en strit?

Við Hverfisgötu gefast veitingamenn upp eftir að gatan hefur verið sundurgrafin þremur mánuðum lengur en til stóð en hvað með einstaklinga? Fólk sem stendur uppi með undirritaða og fullkomlega löglega kaupsamninga í höndunum en verður samt að borga meira til að fá afhentar íbúðir sínar? Hópur eldri borgara var í þessum sporum nýlega og eigendur íbúða í Gerplustræti 2-4 í Mosfellsbæ hafa beðið í átján mánuði eftir afhendingu. Margir þeirra á leigumarkaði með tilheyrandi kostnaði vegna þessa dráttar á verklokum en aðrir svo heppnir að hafa fengið inni hjá ættingjum. Engin óskastaða en betri en að borga okurleigu. Nú hefur þetta fólk fengið að vita að til þess að hægt verði að klára húsið þurfa þeir að borga enn meira. Kaupsamningurinn þeirra er í raun verðlaust og marklaust plagg. Verktakinn varð gjaldþrota og óljóst hver skuldastaða framkvæmdanna er.

„Það virðist einu gilda hvort um er að ræða almenning eða einstaklinga, eina úrræðið er alltaf að halda áfram að borga og borga meira til að tapa ekki öllu því sem þegar hefur verið lagt í lönguvitleysuna.“

Nú væri fróðlegt að vita hvort verktakafyrirtæki erlendis hafi sama háttinn á. Geta þeir gert tilboð í verk og bætt síðan stöðugt við kostnaði vegna þess að þeir vanreiknuðu eða sáu ekki fyrir ákveðna verkhluta? Mega þeir draga skil á verkum von úr viti án eftirkasta eða afleiðinga? Hvað með það þegar menn fara á hausinn? Víða eru teknar út tryggingar fyrir verklokum og verkkaupar geta gengið að þeim. Eru slíkar tryggingar ekki tíðkaðar hér og sé svo hvers vegna situr venjulegt fólk alltaf uppi með skaðann? Það virðist einu gilda hvort um er að ræða almenning eða einstaklinga, eina úrræðið er alltaf að halda áfram að borga og borga meira til að tapa ekki öllu því sem þegar hefur verið lagt í lönguvitleysuna. Já, batnandi mönnum er best að lifa og ef umbylting borgarinnar boðar betri tíð og ábyrgari vinnubrögð við framkvæmdir á Íslandi ber sannarlega að fagna.

Einar Þor lögmaður Atla Rafns segir hann og fjölskyldu hans einu þolendurna sem hafa verið nafngreindir

„Alltaf þegar verða einhverjar hreyfingar í samfélaginu

Einar Þór Sverrisson, lögmaður Atla Rafns Sigurðssonar í málinu gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra, segir það engum vafa undirorpið að brotið hafi verið á rétti Atla Rafns með fyrirvaralausri uppsögn án þess að hann væri upplýstur um meintar sakir sínar. Einu þolendurnir sem hafi verið nafngreindir í þessu máli og sé alveg víst að séu til séu Atli og fjölskylda hans. Það sé ekki hægt að breyta reglum samfélagsins að geðþótta í takt við þær átakshreyfingar sem séu í gangi á hverjum tíma.

 

„Mál Atla Rafns er ekki kynferðisbrotamál,“ segir lögmaður Atla Rafns, Einar Þór Sverrisson, og vill undirstrika að málið snúist um brot á löggjöf í vinnurétti. Spurður hvernig Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, hefði átt að bregðast við kvörtunum annarra starfsmanna vegna meintrar kynferðislegrar áreitni Atla Rafns segir Einar að það séu alveg skýrar reglur um hvernig bregðast skuli við í slíkum málum í reglugerð sem gefin er út af ríkinu og hann segir gilda um alla atvinnurekendur í landinu, hvort sem þeir séu á vegum ríkis eða sveitarfélaga eða einkaaðila.

„Þessi reglugerð kveður á um það að það eigi að fara yfir málið með öllum aðilum, þar með talið þeim sem borinn er sökum, og gefa þeim færi á að tjá sig. Sé ekki nægileg þekking fyrir hendi inni á vinnustaðnum á að kalla til ytri aðila til að fara yfir málið. Samkvæmt reglugerðinni er alveg ljóst að þessi skoðun verður að fara fram. Það getur síðan leitt til þeirrar niðurstöðu að eitthvert brot hafi verið framið en það getur líka leitt í ljós að ekkert brot hafi verið framið. Slík skoðun getur líka leitt í ljós að brotið sé minniháttar og aðilar geti sæst eða þá að þetta sé meiriháttar brot sem leiði til þess að sá sem ásakaður er sé rekinn, það er allur gangur á því. En hvernig sem þessu er snúið þá byggja reglurnar á þeirri hugsun að koma í veg fyrir að einhver aðili geti, í skjóli nafnleyndar, vegið að öðrum aðila úr launsátri. Það ætti að vera öllum augljóst ef þeir lesa þessa reglugerð.“

Einar segir ekki hægt fyrir Borgarleikhúsið að skáka í því skjóli að það ríki óvissa um það hvernig koma eigi að slíkum málum hjá einkafyrirtækjum eins og haldið hafi verið fram í yfirlýsingu þess eftir að dómurinn féll.

„Það er bara þvæla,“ segir hann. „Það er einmitt talað um báða aðila í reglugerðinni og það er engin óvissa um það ferli sem fella þarf slík mál í.“

Þannig að þú hefur engar efasemdir um að Landsréttur muni staðfesta þennan dóm?

„Ég kann ekki þá lögfræði sem gæti leitt til einhverrar annarrar niðurstöðu,“ segir Einar. „Það væri því handan míns skilnings ef Landsréttur gæti komist að þeirri niðurstöðu að þessi málsmeðferð í máli Atla Rafns hafi verið í lagi. Það er algjörlega útilokað.“

Ekki háar miskabætur

Nú hefur staðið mikill styr um upphæð þeirra bóta sem Atla Rafni voru dæmdar í héraðsdómi en Einar segir þá umræðu byggða á dálitlum misskilningi.

„Honum voru dæmdar 5,5 milljónir samkvæmt dómsorði,“ útskýrir hann. „Fjórar af þeim milljónum voru fjártjónsbætur vegna atvinnumissis og síðan ein og hálf milljón í miskabætur. Miðað við það sem Atli Rafn hefur þurft að ganga í gegnum, þar sem hann var gerður að nokkurs konar holdgervingi gerenda í #metoo-byltingunni, úthrópaður sem einhver kynferðisbrotamaður og svertur eins mikið og menn geta orðið, þá er alveg á hreinu að þessi fjárhæð bætir ekki hans tjón. Hitt er svo aftur annað mál að miskabætur í íslensku réttarkerfi eru almennt mjög lágar og þar með talið í alvarlegum kynferðisbrotamálum þar sem illa leiknir þolendur fá smánarlega lágar bætur. En það má undirstrika það að Atla voru ekki dæmdar 5,5 milljónir í miskabætur.“

„Hitt er svo aftur annað mál að miskabætur í íslensku réttarkerfi eru almennt mjög lágar og þar með talið í alvarlegum kynferðisbrotamálum þar sem illa leiknir þolendur fá smánarlega lágar bætur.“

Einar segir mál Atla Rafns einstakt að því leyti að réttur þess sem ber fram ásökunina sé sagður svo mikill að það sé í lagi að taka öll réttindi af þeim sem fyrir ásökununum varð. Er þá enginn möguleiki að svona mál geti haft framgang nema að sá sem ber ásakanirnar fram komi fram undir nafni?

„Nei, ég get ekki séð það,“ segir hann. „Vegna þess að það er ekki hægt að upplýsa meintan geranda um málið án þess að hann fái að vita hver það er sem hann á að hafa brotið á. Reglurnar eru þannig að atvinnurekandi sem fær inn á borð til sín kvörtun með því skilyrði að sá sem ber kvörtunina fram vilji njóta nafnleyndar getur ekki tekið kvörtunina lengra. Hann getur auðvitað boðið þeim sem ber kvörtunina fram alls kyns aðstoð og gert allt til að halda utan um þann aðila, en hann getur ekki gert meintan geranda algjörlega réttlausan í ferlinu. Níutíu og níu prósent allra reglna í samfélaginu eru byggðar á einhverri hugsun og hugsun þessara reglna er augljóslega sú að þetta séu viðkvæm og erfið mál, það er óumdeilt. En reglurnar gera það að verkum að það er komið í veg fyrir að það sé hægt að vega að fólki úr launsátri og þær koma í veg fyrir að það séu teknar ákvarðanir án þess að málið sé skoðað frá báðum hliðum.“

Ekki hægt að breyta reglum í takt við átakshreyfingar

Í umræðunni hefur komið fram ótti um að þessi dómur muni fæla meinta þolendur frá því að segja frá, hvað segir Einar um þær hugleiðingar?

„Ég hef ekki trú á því, nei,“ segir hann. „Enginn sem telur sig hafa verið beittan einhverjum rangindum, í hvaða formi sem það er, getur búist við því að það sem hann hvíslar að einhverjum öðrum með skilyrði um nafnleynd geti haft einhverjar afleiðingar fyrir annan einstakling. Ég er ekki að gera lítið úr neinum sem ber fram sakir. Staðreyndin er hins vegar sú að stundum eiga ásakanir ekki við rök að styðjast, hvort sem þær lúta að kynferðislegri áreitni, einelti eða einhverju öðru, eða eru það brogaðar að eitthvað sem leit út fyrir að vera mjög alvarlegt í fyrstu er ekki eins alvarlegt og talið var.“

Þannig að þú lítur svo á að þessi dómur sé fordæmisgefandi?

„Já, ég held hann geti verið það,“ segir Einar. „Ég man ekki til þess að það hafi reynt á þessa reglugerð með jafnnákvæmum hætti fyrr. Þetta mál Atla Rafns sýnir það mjög vel hversu gríðarlega mikilvægt það er að það séu reglur um svona mál og að stjórnendur í fyrirtækjum fylgi þeim. Alltaf þegar verða einhverjar hreyfingar í samfélaginu, eins og #metoo-hreyfingin sem er í heild sinni af hinu góða, skiptir rosalega miklu máli að við virðum þær reglur sem við höfum sett. Það er aldrei leyfilegt að segja að nú sé einhver hreyfing í gangi og þess vegna eigum við að víkja reglunum til hliðar. Það náttúrlega bara gengur ekki upp. Frá fyrstu mínútu þessa máls vissi Atli Rafn ekkert hvað um var að ræða og hann hefur hafnað því að hafa áreitt einhvern aðila, hvorki kynferðislega né með öðrum hætti, og það er ekki ásættanlegt fyrir neinn að fá ekki einu sinni að vita hvaða sökum hann er borinn og geta þar af leiðandi ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Atli Rafn er enginn gerandi í þessu máli, miklu frekar þolandi ranginda og algjörlega vanhæfrar vinnustjórnunar á þeim vinnustað sem hann starfaði tímabundið á.“

 

 

 

 

Guðbjörg og Ingi flýja undan barnaníðingi og dýrtíð til Spánar: „Við höfum verið heppin síðan við tókum saman“

|
Ingi og Guðbjörg.|Ingi og Guðbjörg

Parið Guðbjörg Sigurlaug Gunnarsdótir og Ingi Karl Sigríðarson eru flutt til Spánar með börn sín. Ástæðan er þríþætt að sögn parsins, en ein þeirra er sú að erfitt er fyrir öryrkja með stóra fjölskyldu að lifa af öryrkjabótum hér á landi.

 

Parið segir sögu sína á Facebook-síðunni: Við erum hér líka, en það eru hjónin Alda Lóa Leifsdóttir og Gunnar Smári Egilsson sem skrifa þar samtímasögur öryrkja á Íslandi.

Guðbjörg og Ingi eiga samtals sex börn á aldrinum átta til átján, hún þrjú og hann þrjú.

„Það eru einkum þrjár ástæður fyrir að við erum að flytja til Spánar. Í fyrsta lagi er maturinn þar 80 prósent ódýrari en hér. Ef Ingi væri ekki með byssu pabba síns og færi á skytterí, ef hann fengi ekki fara á skak með vini sínum til að fiska í soðið og ef hann væri ekki bæði nýtinn kokkur og klár í að búa til góðan mat úr litlu; þá gætum við ekki gefið börnunum okkar að borða, ekki þegar liðið er á mánuðinn. Örorkubæturnar duga ekki fyrir framfærslu. Ef við hefðum ekki gæs og fisk í frystinum myndum við svelta síðustu daga hvers mánaðar.“ segir Guðbjörg.

Getur öryrki leyft sér að elska?

Ingi skyldi við barnsmóður sína, missti vinnu, missti heimili sitt, var veglaus og allslaus, afllaus og viljalaus, en samþykkti að flytja til vina sinna á Akureyri. Þar bjó barnsmóðir hans með börnin. Ingi gat umgengist þau og hafið hæga batagöngu. Þar kynntist hann Guðbjörgu, en þau segjast fyrst hafa verið í afneitun með samband sitt.

Var eitthvert vit í því? Hvað hafði hann að gefa þessari þriggja barna einstæðu móður?,” segir Ingi. Hann, sem gat varla staðið undir sjálfum sér? Getur öryrki leyft sér að elska? Og vera elskaður? Verður honum ekki bara refsað? Getur það endað vel?

„Við höfum verið heppin síðan við tókum saman. Við stöndum saman, leynum hvort öðru engu og tölum saman um allt. Saman getum við margt. Og með smá heppni getum við nánast allt. Nema lifað á Íslandi. Þar getur enginn lifað hér sem er svo óheppinn að vera öryrki.“

Bjuggu í tveimur íbúðum og á biðlista eftir félagslegu húsnæði

Fjölskyldan bjó áður í tveimur íbúðum á Akureyri, þar sem engin íbúð fékkst þar nógu stór fyrir fjölskylduna sem þau höfðu efni á að greiða fyrir og telur parið að félagsleg íbúð sé ekki til sem er nógu stór fyrir alla. Einnig sé dýrt að fá börn Inga til þeirra, en þau eru búsett í Noregi.

„Í öðru lagi erum við að flýja húsnæðiskreppuna á Akureyri. Við fáum ekki nógu stóra íbúð fyrir okkur öll, enga sem við höfum efni á. Við erum sex í heimili og átta þegar yngri börnin hans Inga koma til Íslands. Við búum í tveimur litlum íbúðum í dag, komust ekki fyrir í annarri og getum eiginlega ekki búið svona lengur. Hvernig á fjölskylda að búa í tveimur íbúðum? Við erum á biðlista eftir stærri íbúð, en gætum verið þar endalaust. Ég held að það sé engin íbúð í félagslega kerfinu á Akureyri sem er nógu stór fyrir sex til átta manna fjölskyldu. Svo er of dýrt fyrir okkur að fá yngri börnin frá Noregi. Það kostar meira um 140 þúsund krónur að fá þau í heimsókn, jafnvel þótt við fáum lánaðan bíl til að sækja þau suður til Keflavíkur. Þegar við erum flutt til Spánar geta þau komið til okkar fyrir fimmtíu þúsund krónur. Og búið með okkur í einbýlishúsinu. Við leigjum hús með mörgum svefnherbergjum, þremur baðherbergjum og með húsgögnum fyrir sama verð og við borgum fyrir aðra íbúðina hér á Akureyri.“

Áralangar ofsóknir af hálfu barnsföðurs

Þriðja ástæðan er þó af persónulegum, ekki fjárhagslegum aðstæðum, því fjölskyldan er að flytja vegna áralangra ofsókna barnsföður Guðbjargar.

„Þriðja ástæðan er að við erum að flýja barnaníðing og eltihrelli sem hefur ofsótt okkur og börnin síðustu árin. Þetta er barnsfaðir Guggu, faðir tveggja yngri barnanna. Eftir margra ára baráttu vann Gugga loks forræðismálið í sumar. En það stoppar hann ekki. Hann situr um okkur. Einu sinni kom til mín handrukkari sem sagði að maðurinn hefði borgað honum fyrir að berja mig svo ég lenti á spítala. Ég var heppinn að handrukkarinn þekkti mig og vildi ekki gera mér illt. En það er sama þótt við kærum svona eða látum vita, við fáum enga vernd. Við, og ekki síður börnin, erum í hættu hér á Akureyri. Þetta er dæmdur maður, hættulegur maður. Þess vegna erum við að flýja, til að losna frá honum. En síðan vill svo til að við getum líka átt betra líf á Spáni, búið betur, búið öll saman, borðað betur. Búið börnum okkar heimili. Tryggt þeim öryggi og frið. Það getum við ekki hér, ekki sjens,” segir Ingi.

Öryrkjar vegna fæðingargalla og slyss

Parið er bæði öryrkjar. Guðbjörg er með fæðingargalla, lá þverlegu í fæðingu og fæddist með hryggskekkju. Þegar hún var sautján ára lenti hún í slysi þegar snjóýta keyrði aftan á kerru sem var aftan í bílnum sem hún ók, hún fékk þungt högg á hrygginn og þoldi það illa þar sem hryggurinn var ekki sterkur fyrir. 25 ára var Guðbjörg orðin óvinnufær vegna stoðkerfisvanda.

Ingi var á sjó sem unglingur og ungur maður þar til hann varð fyrir slysi, skipafélagi hans hafði blandað saman klór og sápu og við það myndaðist klórgas sem Ingi andaði að sér og skaðaði lungun. Hann hefur ekki enn náð sér, hvorki í lungunum né hnjánum. En þarna varð hann þó ekki öryrki, röð áfalla olli því að hrundi saman mörgum árum seinna og sökk niður í þunglyndi og vonleysi.

Unnu bæði forræðismál í sumar

Guðbjörg var einstæð móðir með eitt barn þegar hún kynntist seinni barnsföður sínum og eignaðist tvö börn með honum. Að hennar sögn hefur hún síðan reynt að losna við hann úr lífi sínu, barnanna og Inga.

Maðurinn var handtekinn stuttu eftir að þau slitu samvistum fyrir að nauðga tólf ára stúlku, var dæmdur og sat í fangelsi í nokkra mánuði. Þrátt fyrir ákæru og dóm vegna barnaníðs hélt maðurinn umgengnisrétti yfir börnunum. Þegar Guðbjörg neitaði að leyfa dæmdum barnaníðing að hitta börnin fékk hann dæmdar á hana dagsektir fyrir umgengishindrun. Hún barðist gegn manninum, en hljóp alls staðar á veggi, fann hvergi stuðning. Hún þurfti að berjast við manninn og kerfið í leiðinni, fannst kerfið alltaf taka stöðu með honum.

Gugga krafðist þess að fá fullt forræði yfir börnum sínum og rétt til að neita föður þeirra um umgengni. Hún fékk gjafsókn og fékk aðstoð lögmanns með mikla reynslu sem sótti málið af krafti. En það gekk samt brösuglega, dómarinn í málinu fór í leyfi og þá lenti málið aftur á byrjunarreit. Það leið langur tími í óvissu. Og ótta við manninn. Það var ekki fyrr en síðla sumars, eftir marga ára baráttu, að Gugga vann fullt forræði yfir börnunum.

Ingi barðist einnig um forræði yfir elstu dóttur hans, sem flytur með fjölskyldunni til Spánar. Yngri tvö börn hans búa í Osló. Vann hann forræði yfir dóttur sinni í sumar.

Lesa má sögu þeirra í heild á Facebook-síðunni: Við erum hér líka.

 

„Magnað hvað maður hefur lært mikið bara á þessum þremur árum“

Hljómsveitin Between Mountains var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu sem kallast einfaldlega Between Mountains. Sveitin sigraði Músíktilraunir 2017 en hún var stofnuð af Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur og Ásrósu Helgu Guðmundsdóttur sem voru aðeins 16 ára á þeim tíma. Nú fer Katla Vigdís fyrir sveitinni og semur sjálf öll lög og texta á plötunni. Albumm hitti á Kötlu og byrjaði að grennslast fyrir um samstarf þeirra vinkvenna og þátttöku þeirra í Músiktilraunum.

 

„Ég hafði síðan haustið 2016 verið að semja lög og texta og langaði að taka þátt í Músíktilraunum. Eldri bræður mínir höfðu gert það tveimur árum áður og sigrað með hljómsveit sinni Rythmatik og með hliðsjón af því vissi ég hvers konar stökkpallur Músíktilraunir getur verið. Þess vegna fékk ég Ásrósu í lið með mér. Við kynntumst í blaki á Ísafirði, höfðum þekkst í svona tvö ár, að mig minnir, og ég vissi að hún hafði áhuga á að syngja og væri að læra söng. Ég fékk hana því til að taka þátt í keppninni með mér,“ útskýrir Katla, en vinkonurnar sem koma báðar frá Vestfjörðum, höfðu aðeins æft í um það bil mánuð áður en þær tóku þátt í Músiktilraunum og sigruðu.

Hvernig var að vinna Músíktilraunir svona ungar? „Fyrst var það svolítið skrýtið,“ játar hún. „Auðvitað var samt gaman að vera eitthvað að „gigga“ í grunnskóla og það er fyndið að hugsa um það eftir á. Ég er náttúrlega enn ung þannig að ég á eflaust eftir að læra margt en það er magnað hvað maður hefur lært mikið bara á þessum þremur árum,“ tekur hún fram og segir það hjálpa að hafa byrjað í tónlistinni svona snemma, kynnst fólki í bransanum og öðlast reynslu af því að spila og koma fram. „Síðan er magnað að vera búin að gefa út plötu. Núna veit ég aðeins hvernig hlutirnir virka, en ég var svolítið að þreifa mig áfram í myrkrinu við gerð þessarar plötu.“

Mynd / Ása Dýradóttir

Gaman að fletta upp í gömlum minningum

Between Mountains kom út fyrir viku og segir Katla að það hafi verið ansi skemmtilegt að gera plötuna en tímafrekt líka. „Ég held að það sé nokkuð algengt, svona með fyrstu plötur,“ segir hún og nefnir sem dæmi að fyrsta lagið, Into the Dark, hafi verið tekið upp haustið 2017, ef hún man rétt, og gefið út í ársbyrjun 2018. „Eftir það leið smátími þangað til við fórum aftur að taka upp,“ útskýrir hún. Upphaflega hafi staðið til að gera EP-plötu, eins og tíðkist mikið í dag, en eftir að plötufyrirtækið fékk að heyra lögin hafi verið ákveðið að ráðast í gerð plötu í fullri lengd. „Þrjú lög á plötunni voru því svolítið samin í hvelli,“ segir hún, „en ég átti til eitt lag.“

„Auðvitað var samt gaman að vera eitthvað að „gigga“ í grunnskóla og það er fyndið að hugsa um það eftir á.“

Spurð út í umfjöllunarefni plötunnar segir Katla að yfirleitt sé saga á bak við hvert lag. Vegna þess hversu langur tími leið á milli þess sem sum lögin voru samin sé þó ekki hægt að segja að platan fjalli um eitthvað eitt tiltekið málefni. „Ég er á þeim aldri að ég hef breyst og þroskast mikið á þessum tíma sem hún var gerð. En það er svolítið gaman að pæla í gömlum textum því þeir sýna hvar maður var staddur andlega þegar þeir voru samdir. Þeir geta virkað eins og nokkurs konar myndaalbúm. Maður getur skemmt sér við að fletta upp gömlum minningum í textaformi,“ lýsir hún og bætir við að nú hlakki hún mikið til að fara aftur í stúdíó og gera meira efni.

Katla er í ítarlegra viðtali á albumm.is

 

 

 

 

Booka Shade í Listasafni Reykjavíkur

Mynd / Af Instagram Booka Shade

Þýska teknóbandið Booka Shade kemur fram á Iceland Airwaves í ár.

 

Það er sumum mikið fagnaðarefni því sveitin þykir ein sú besta á sínu sviði í heiminum. Margir gætu hafa heyrt eitthvað með Booka Shade, kannski án þess að vita af því.

Tónleikarnir fara fram í kvöld, föstudag, í Listasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu, og hefjast á miðnætti. Airwaves-armbönd duga á viðburðinn.

Frábær föstudagsmatur

Fátt jafnast á við heimalagaðar kjötbollur og svo virðist sem hver þjóð eigi sína útgáfu af þeim. Heimalagaðar kjötbollur eru spennandi kostur í afslappað matarboð því þó að fyrirhöfnin sé svolítil er hráefnið ekki mjög dýrt.

Indverskar Kashmiri-kjötbollur
fyrir 4

Bollur
700 g lamba- eða nautahakk
1 tsk. kumminduft
1 tsk. kóríanderduft
¼ tsk. kanill
½ tsk. túrmerik
¼ tsk. negull, steyttur
múskat á hnífsoddi
salt og nýmalaður pipar
3 msk. jógúrt eða 1 egg

Blandið öllu sem fer í bollurnar vel saman í skál og vinnið vel saman, mótið litlar bollur.

Sósan
1 msk. olía + 1 msk. smjör eða 2 msk.
ghee ef þið eigið það til
1 stór laukur, saxaður
1 tsk. kumminduft
1 tsk. kóríanderduft
1 tsk. garam masala
¼ – ½ tsk. chili-duft
3 dl vatn
2 msk. hveiti eða kjúklingabaunamjöl
salt og nýmalaður pipar
1 dl jógúrt
1 tsk. hunang eða sykur

Steikið lauk í blöndu af olíu og smjöri (eða ghee) við meðalhita þar til laukurinn fer að verða mjúkur og aðeins brúnaður. Bætið kryddi á pönnuna og steikið aðeins með lauknum. Bætið vatni, hveiti, salti og pipar á pönnuna og sjóðið þetta saman smástund. Raðið bollunum á pönnuna og látið þær sjóða, undir loki, í 20 mín. Snúið þeim þegar suðutíminn er hálfnaður. Bætið jógúrt út í og látið sjóða smástund eða þar til sósan fer að þykkna. Bragðbætið eftir smekk með hunangi eða örlitlum sykri Minnum á Indíasól á Suðurlandsbraut sem er með gott úrval af indverskum matvörum, eins og ghee.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir
Myndir / Kristinn Magnússon

 

Vök í Valsheimilinu

Iceland Airwaves er í fullum gangi og kemur hljómsveitin Vök fram í Valshöllinni í kvöld.

 

Sveitin ætlar að tjalda öllu til og má því búast við miklu fjöri. Tónleikarnir hefjast klukkan 22.35 og standa til klukkan 23.15. Airwaves-armbönd duga á viðburðinn.

Segir mbl.is og RÚV hafa framið verkfallsbrot: „Með ólíkindum að miðlarnir hagi sér með þessum hætti“

„Þetta eru hrein og klár verkfallsbrot og verða kærð til félagsdóms,“ segir Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, um þá staðreynd að fréttir birtust á vef mbl.is og tökumaður á RÚV sem er verktaki og utan félags var látinn vinna á meðan á verkfalli stóð í dag á milli klukkan 10:00 og 14:00.

 

Verkfallið náði til blaða- og tökumanna og ljósmyndara sem starfa á netmiðlum Sýnar, RÚV, Fréttablaðsins og Morgunblaðsins hófst klukkan 10:00 og stóð yfir til klukkan 14:00.

Athygli vakti að nýjar fréttir birtust á meðan á verkfallinu stóð á vef Morgunblaðsins.

„Verkfallsbrot hafa nú átt sér stað bæði á RÚV og Árvakri. Á RÚV var myndatökumaður, sem er verktaki og utan félaga, vaktsettur og látinn vinna og fréttir hafa verið að birtast inni á mbl.is. Atvikin verða umsvifalaust kærð til félagsdóms. Það er með ólíkindum að miðlarnir hagi sér með þessum hætti, ekki síst miðill í eigu ríkisins,“ útskýrir Ragnhildur.

„Atvikin verða umsvifalaust kærð til félagsdóms.“

Hún bætir við: „Túlkun Blaðamannafélags Íslands á framkvæmd verkfallsins er að ekkert átti að á vefinn milli 10-14 í dag og ljósmyndarar og tökumenn áttu ekki að fara í tökur. Verktakar áttu ekki að vinna, utanfélagsfólk átti ekki að vinna og fólk í öðrum stéttafélögum átti ekki að vinna. Verkfallið náði til fjögurra fjölmiðlafyrirtækja sem eru innan Samtaka atvinnulífsins – Árvakurs, Torgs, Sýnar og RÚV. Verkfallið náði ekki til félaga í Félagi fréttamanna á RÚV eða félaga í Rafiðnaðarsambandinu á Sýn.“

Hún segir verkfallsverði hafa verið á umræddum miðlum í dag. „Hlutverk þeirra var að fylgjast með framkvæmdinni og skrá niður verkfallsbrot.“

Sjá einnig: Verkfall blaðamanna hafið

„Óléttukellingamótmæli“ hefjast í dag

Efnt hefur verið til mótmæla fyrir utan Dómsmálaráðuneytið við Sölvhólsgötu í dag klukkan 15, vegna brottvísunar albanskrar konu, sem gengin er 37 vikur á leið, og fjölskyldu hennar úr landi fyrr í vikunni. Yfirskrift mótmælanna er „óléttukellingamótmæli“.

 

Konunni, sem hafði verið neitað um alþjóðlega vernd, var send úr landi þvert á ráðleggingar læknis á kvennadeild Landspítala. Hún er nú stödd ásamt fjölskyldu sinni Albaníu þar sem hún þurfti að leita á sjúkrahús eftir flugið af ótta við fyrirburafæðingu.

Fjallað er um mál fjölskyldunnar í nýjasta tölublaði Mannlífs í dag þar sem rætt er við Magnús Davíð Norðdahl lögmann. „Þetta er einstaklega fautalegt og ómannúðlegt að framkvæma brottvísun á konu sem er þetta langt gengin,“ segir Magnús meðal annars, en viðtalið má lesa í heild sinni hér.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur málið vakið miklar deilur og er ástæða mótmælanna seinna í dag. „Ófrískar konur og mæður með ung börn ætla að mæta í Dómsmálaráðuneytið á Sölvhólsgötu á morgun, föstudag, kl.15 og mótmæla þeirri ómannúðlegu meðferð á fólki sem varð til þess að ófrískri konu og tveggja ára barni hennar var vísað úr landi á aðfaranótt þriðjudags!“ skrifaði Salka Gullbrá á Twitter í gær. „Barnlaus og ó-ólétt auðvitað líka velkomin.“

Sjá einnig: Kasólétt kona neydd i flug

Ísland á bannlista þýska bankans CDB

Það sverfur að okurlánurum.

Íslensk­um viðskipta­vin­um Cyprus Develop­ment Bank (CDB) var á dög­un­um neitað um milli­færslu um­tals­verðrar fjár­hæðar á banka­reikn­inga hér á landi.

 

Kemur þetta fram í frétt á Mbl.is, en sam­kvæmt gögn­um lýt­ur ákvörðunin að breyttri stefnu bank­ans um hvaða viðskipta­vini hann vill samþykkja. Stefnan tók gildi nú í nóvember.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er Ísland á lista hjá bank­an­um yfir þau lönd sem ekki er heim­ilt að opna á milli­færsl­ur af nein­um toga.

Jón Þór biður fólk um fyrirgefningu: „Ekki öskra á okkur eða gefa okkur puttann“

|
|Jón Þór Tómasson

„Hvað get ég annað sagt en „fyrirgefið mér.“

 

Með þessum orðum hefst færsla sem Jón Þór Tómasson deilir í Facebook-hópnum Hvernig er færðin? Þar skrifar hann um starf sitt við snjómokstur, en í færslunni kemur fram að oft á tíðum fá bílstjórar snjómoksturbíla dónalegar móttökur vegfarenda þegar þeir sinna snjómokstrinum.

„Ég vil bara að þið vitið að ég veit að ykkur langar að komast heim eftir erfiðan dag í vinnunni, eftir erfiðan viðtalstíma hjá lækni, eftir jarðaför, eftir að hafa keyrt maka í flug. Ykkur langar að komast á viðburð sem þið keyptuð miða á fyrir mánuðum síðan. Ykkur langar að komast í sunnudagsmat til mömmu, upp í bústaðinn, í jólaboðið, afmælið og fullt af öðrum stöðum,“ heldur Jón Þór áfram.

Jón Þór Tómasson
Mynd / Aðsend

Hins vegar eins og Jón Þór bendir á þá er veðrið og færð á vegum ekki alltaf með vegfarendum, vegir lokaðir og þá þarf að moka með tilheyrandi töfum á umferð.

Í samtali við Mannlíf segir Jón Þór að hann hafi starfað við snjómokstur frá árinu 2000, fyrst í Reykjavík. „Ég er búinn að vera í snjómokstrinum á Hellisheiði í fimm ár hjá Ingileif Jónssyni EHF. Hann hefur séð um snjómokstur á Hellisheiði óslitið síðan 2004. Þar áður var ég mikið í snjómokstri í Reykjavík.“

„Stundum kemur það samt fyrir að þið komist ekki því það er búið að loka vegunum. Sem betur fer sýna því flestir skilning, en oft fá þeir sem sinna vegunum bara skít og skömm og kallaðir nöfnum sem varla eru birtingarhæf. Þetta er ekki leikur hjá okkur, langt í frá. Við erum í vinnu, vinnu sem þarf að vinna, vinnu sem einhver annar munu vinna ef ég geri það ekki. Það eru um 200 manneskjur á íslandi sem vinna við snjómokstur á vegum. Við erum að vinna í öllum veðrum við allar mögulegar aðstæður, alla daga, sunnudaga, jól, áramót, páska. Alla daga frá 15. september til 15. maí (breytilegt eftir hvaða vegir það eru). Við leggjum allt á okkur svo þið komist í mat til mömmu, afmæli, vinnuna, bíó eða hvert sem þið eruð að fara. Þegar veðrið er virkilega vont, ekkert ferðaveður og ekkert vinnuveður erum við samt í vinnunni svo þið komist eins fljótt af stað og mögulegt er eftir að veðrið lagast. Við erum partur af því að þið, ættingjar og vinir komist undir læknishendur þegar veður er vont.“

Jón Þór er önnur kynslóð í starfinu og má segja að hann hafi alist upp í því. „Pabbi sá um snjómokstur í uppsveitum Árnessýslu frá 1988 til 2000 og þá var ég mjög mikið með honum í bílnum.“

Í færslunni bendir Jón Þór á að ekki sé verið að tefja vegfarendur af ásettu ráði, heldur eingöngu verið að gera ferðalagið öruggara. Biður hann vegfarendur um að gera sér greiða og sleppa því að öskra, gefa mokstursmönnum puttann eða negla niður fyrir framan snjómokstursbíl.

„Þó við séum á litlum hraða eða á miðjum vegi erum við ekki að reyna tefja ykkur. Við erum að reyna gera ferðalagið þitt eins öruggt og við getum. Gerið mér greiða. Ekki öskra á okkur, gefa okkur puttana eða negla niður beint fyrir framan snjómokstursbíl þó við höfum verið að tefja ykkur. Við erum að þessu fyrir ykkur.“

Nýtt lag og tónleikar á Iceland Airwaves

Elín Hall gaf út nýtt lag og nýja plötu

Tónlistarkonan Elín Hall sendi í gær frá sér Lagið. Lagið er fyrsti síngúllinn af væntanlegri plötu Elínar sem ber titilinn Með öðrum orðum. Áætluð útgáfa plötunnar er í byrjun árs 2020.

 

Elín Hall kom áður fram undir nafninu Elín Sif og gaf út lagið Make You Feel Better árið 2017. Einnig gaf hún út plötu með hljómsveitinni Náttsól í byrjun árs 2019. Af þeirri plötu eru helst þekkt lögin Hyperballad (Cover) og My Boyfriend is Gay.

Elín Hall er að auki þekkt fyrir leik sinn í kvikmynd Baldvins Z. Lof mér að falla þar sem hún fór með aðalhlutverk.

Í vikunni kemur Elín Hall fram á Iceland Airwaves þar sem hún mun flytja lög af plötunni ásamt öðru óútgefnu efni. Elín spilar í Iðnó í kvöld, föstudag, klukkan 20.20 og á Reykjavík Konsulat Hótel á morgun, laugardag, klukkan 18.

Danska fyrirtækið RO – handverk og gæðahönnun

Ritstjórn Húsa og híbýla fékk gott boð frá Epal í vikunni um að hitta Christian Thulstrup Lauesen einn stofnanda danska vörumerkisins Ro sem staddur var hér á landi. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 og hefur átt mikilli velgengni að fagna síðan.

 

Hugmyndafræði Ro gengur fyrst á fremst út á það að staldra við og njóta augnabliksins, líkt og nafnið gefur til kynna. Áherslan er á gæði og handverk og eru vörur fyrirtækisins einfaldar í formi og lögun og falla vel að umhverfi sínu.

Mynd / Aðsend
Mynd / Aðsend

Umhverfissjónarmið koma skýrt fram í hugmyndafræði Ro og stendur fyrirtækið fyrir heiðarlegri framleiðslu frá upphafi til enda. Lagt er upp með að efniviðurinn sem hönnuðir notast við standist tímans tönn og að vörurnar hafi margskonar notagildi. Jafnframt á að vera auðvelt að endurvinna það hráefni sem notast er við.

Gríðarleg vinna er lögð í efnisvalið, rannsóknir gerðar og ýmsar prófanir svo vörurnar standist strangar gæðakröfur fyrirtækisins. Fagurfræði og notagildi tvinnast saman á skemmtilegan hátt og má segja að vörurnar séu í senn listmunir og nytjahlutir.

Línan samanstendur af glervösum, kertastjökum og -luktum, viðarbrettum, ofnheldum leirskálum og öðrum borðbúnaði.

Mynd / Aðsend
Mynd / Aðsend
Mynd / Aðsend

Epal er söluaðili Ro á Íslandi.

Byrjaði að hlusta á jólalög í september

Eiríkur Þór Hafdal

Eiríkur Hafdal starfar sem sjálfstætt starfandi framleiðandi og tónlistarmaður. Hann hefur meðal annars tekið þátt Söngkeppni Sjónvarpsins. Hér ljóstrar hann upp fimm staðreyndum um sjálfan sig.

 

„Á djamminu fyrir einhverjum árum lenti ég á spjalli við mann sem var helvíti líkur Hilmi Snæ leikara. Ég spurði hann að því hvort hann hafi ekki heyrt það áður hvað hann væri líkur Hilmi Snæ? Hann svaraði flissandi: „Jú, oft, ég heiti nefnilega Hilmir Snær.“

„Þegar ég var sex ára datt ég út úr bílnum á ferð eftir að hafa verið að fikta í hurðinni. Mamma tók beygju, ég opnaði hurðina, sá götuna í smástund og svo man ég eftir mér úti í vegkanti eftir að hafa rúllað nokkra hringi. Sem betur fer vorum við 200 metra frá sjúkrahúsinu í Neskaupstað, en ég slapp samt með skrámur.“

„Ég á og rek jólasveinaþjónustuna Sveinki.is, og er strax byrjaður að plana jólin. Þannig að já, ég byrjaði að hlusta á jólalög í september og skammast mín ekkert fyrir það.“

„Fór í fyrsta skipti til útlanda 22 ára, á sama tíma og dóttir mín sem var þá eins árs.“

„Ég er svo forfallinn Pepsi Max-isti að þegar ég rúlla að lúgusjoppunni rétt hjá vinnunni, er afgreiðslufólkið farið að rétta mér dósina áður en ég stoppa, liggur við, ég kaupi mér Pepsi Max vandræðalega oft.“

 

Skemmtilegur rokkslagari

Hljómsveitin KUL var að senda frá sér brakandi ferskt lag sem ber heitið Why?

 

Meðlimir hljómsveitarinnar KUL hafa allir verið virkir í íslensku tónlistarlífi um árabil, en þeir eru Heiðar Örn Kristjánsson (Botnleðja, The Viking Giant Show, Pollapönk), Helgi Rúnar Gunnarsson (Benny Crespo’s Gang, Elín Helena, Horrible Youth), Hálfdán Árnason (Himbrimi, Sign, Legend) og Skúli Gíslason (The Roulette, Different Turns).

Nýja lagið er skemmtilegur rokkslagari, þó með þægilegum hljóm. Rödd Heiðars er alltaf jafnóaðfinnanleg og á þetta nýja lag án efa eftir að renna vel niður hjá rokkþyrstum hlustendum.

„Á auðvelt með að halda mörgum boltum á lofti“

Guðmundur Andri Hjálmarsson er heimspekingur að mennt og starfar hjá Reiknistofu bankanna ásamt því að vera stundakennari við Háskóla Íslands. Honum er margt til lista lagt og hafði blaðamaður afspurn af því að hann smíðaði falleg húsgöng í frístundum. Fyrir stuttu síðan flutti hann í Hlíðarnar, í fallega íbúð sem hann hefur verið að nostra við með konu sinni Foldu Guðlaugsdóttur en þau eiga tvo unga syni, þá Kára og Úlf.

 

Segðu okkur frá því hvernig áhuginn kviknaði á húsgagnasmíði?

„Síðan ég man eftir mér hef ég haft áhuga á vandlega hönnuðum og smíðuðum hlutum. Þar sem heimili okkar allra eru öllu að jöfnu full af húsgögnum fór ég því snemma að veita þeim athygli. Þegar sem barn var ég mjög vandlátur á húsgögn í nánasta umhverfi mínu. Mörgum árum seinna, þegar ég flutti aftur til Íslands að loknu námi, skráði ég mig í húsasmíði í Tækniskólanum með vinnu, þar sem mig langaði til þess að læra gott handbragð svo ég gæti bjargað mér sómasamlega heima fyrir – meira af fagmennsku og minna af fúski. Námið í húsasmíði byrjar á stórum áfanga, þar sem nemendur fá nasaþef af trésmíði af ýmsum toga. Ég heillaðist þá þegar af húsgagnasmíði, þar sem nákvæmnin og vandvirknin höfðaði sterklega til skaphafnar minnar. Eins og iðulega leiddi síðan eitt af öðru og nám í húsasmíði varð fljótt að námi í húsgagnasmíði.“

„Mig langar til þess að smíða mér kofa í garðinn og mögulega smíðaaðstöðu.“

Nú hefurðu verið að læra húsgagnasmíði meðfram vinnu, geturðu sagt okkur frá leiðunum sem þú fórst?

„Vinnutími minn er mjög sveigjanlegur. Þær annir sem ég hef ekki haft of mikið að gera við barnauppeldi eða kennslu, þá hef ég skráð mig í einn og einn áfanga í senn í Tækniskólanum. Ég hef alltaf átt auðvelt og liðið einstaklega vel með að halda mörgum boltum á lofti á sama tíma, þannig að það hefur reynst mér vel að hafa smíðina sem mótvægi við vinnu.“

Guðmundi Andra er margt til lista lagt.

Hvað er erfiðast við að smíða húsgögn?

„Húsgagnasmíði er þolinmæðisþraut sem krefst vandvirkni og nákvæmni. Það sem hefur oft reynst mér erfiðast er að halda aftur af sjálfstraustinu. Þegar maður fyllist sjálfstrausti, þá á maður það til að gera hlutina án umhugsunar og í flýti. Húsgagnasmíði er viðfangsefni sem maður verður stöðugt að nálgast af yfirvegun og auðmýkt ef vel á að vera.“

Hvaðan sækirðu þér innblástur?

„Því er auðsvarað, ég sæki mér ekki innblástur. Stundum rekur vissulega eitthvað á fjörur manns sem blæs manni nýjum hugmyndum í brjóst. En það hefur aldrei reynst mér vel að leita innblásturs af neinu tagi. Hugmyndir — rétt eins og hamingjan hafa í gegnum tíðina fundið mig þegar ég er ekki sérstaklega að leita þeirra.

Mynd / Hallur Karlsson

Hvernig er ferlið frá hugmynd að húsgagni?

Það hefst venjulega á vandlega yfirveguðum teikningum, þar sem húsgagnið er oft teiknað í 1:1 (raunstærð) eða 1:2 (hálfri stærð). Þessi hluti smíðinnar tekur oft hlutfallslega lengstan tíma og krefst mestrar hugsunar. Þegar teikningin er fullbúin áður en eiginleg smíði, með endanlegan efnivið, hefst, þarf oft að gera ýmsar tilraunir með ódýrari og oft mýkri við, til þess að sannreyna að hugmyndirnar séu framkvæmanlegar og stundum til þess að átta sig almennilega á því hvernig þær séu framkvæmanlegar. Þegar hugmyndirnar hafa verið staðfestar, þá loksins hefst eiginleg smíði húsgagnsins. Undarlega, eins og það kann að hljóma, þá tekur sá hluti smíðinnar hlutfallslega stuttan tíma ef undirbúningurinn hefur verið vandaður.“

Hvaða efnivið notarðu helst, kaupirðu efnið eða reynirðu að endurnýta gamalt efni?

„Ég hef smíðað talsvert úr eik og hnotu, þar sem ég kann vel við efniseiginleika þeirra og mér finnst viðurinn einstaklega fallegur. Ég hef einkum unnið með nýtt efni en ef ég get nýtt eitthvað notað, þá reyni ég það vissulega.“

Mynd / Hallur Karlsson

Erfiðasta verkefni sem þú hefur unnið?

„Ég smíðaði eitt sinn snúinn tréstiga svona eins og finna má í sumum gömlum timburhúsum. Það var einstaklega lærdómsríkt verkefni og krefjandi á köflum.“

Hvað með aðstöðu, þarf ekki tól, tæki og gott rými?

„Góð aðstaða og almennilegar vélar auðvelda vissulega alla smíði. Engu að síður má komast mjög langt einungis með handverkfæri og nægan tíma sem smiðir gerðu í árþúsund. Ég bý ekki svo vel að eiga stóra geymslu eða bílskúr, þannig ég hef einfaldlega notað mér aðstöðuna í Tækniskólanum, þær annir sem ég er þar í námi, en haldið mig við handverkfæri og minni verkefni þess á milli.

Mynd / Hallur Karlsson

Hvað er næst á dagskrá?

„Eins og stendur er ekkert í vinnslu hjá mér, þar sem ég er upptekinn þessa dagana á öðrum vígstöðvum. Mig langar til þess að smíða mér kofa í garðinn og mögulega smíðaaðstöðu en hann er ekki enn kominn á teikniborðið.“

Myndir / Hallur Karlsson

Trufluð túnfiskbrauðterta með nýju tvisti

Túnfiskur er frábær tilbreyting frá rækjum og skinkum á brauðtertuna enda bæði bragðgóður og hollur.

 

Í þessu brauðtertu-vídeói sem er það síðasta í brauðtertuseríunni hjá okkur í bili erum við með skemmtilegt tvist og maukum ferskar kryddjurtir með töfrasprota og setjum út í salatið.

Skemmst er frá því að segja að brauðtertan bragðast einstaklega vel, svo vel að hún klárast yfirleitt á mjög skömmum tíma. Sérlega gaman er að bjóða upp á bubblur með brauðtertum enda er þessi allt of fínleg til að sporðrenna með kaffi eða gosi og því pörum við hana hér með ekta kampavíni, Nicolas Feuillatte brut sem kemur einstaklega vel út.

Brauðterta með túnfisksalati, ferskum kryddjurtum og sítrónu

Túnfisksalat

30 g basilíka
30 g steinselja, stilkar fjarlægðir að mestu
300 g Gunnars majónes
100 g grísk jógúrt frá Örnu
2 msk. fínt rifin sítrónubörkur
4 msk. sítrónusafi
4 msk. ólífuolía
600 g túnfiskur í vatni
4 harðsoðin egg, skorin smátt
2 stönglar sellerí, fínt saxað
3 skalotlaukar, fínt saxaðir
2 hvítlauksgeirar, saxaðir fínt
1-1 ½ tsk. sjávarsalt
½-1 tsk. nýmalaður svartur pipar

Setjið basil, steinselju, majónes, sýrðan rjóma, sítrónubörk, sítrónusafa og ólífuolíu í matvinnsluvél og maukið þar til allt hefur samlagast vel. Setjið sósuna í skál og blandið túnfiski saman við með gaffli og brjótið hann niður. Blandið eggjum, sellerí, skalotlauk, hvítlauk saman við og bragðbætið með sjávarsalti og svörtum pipar eftir smekk.

Brauðterta

1 brauðtertubrauð
túnfisksalat, uppskrift hér að ofan
½ dl grísk jógúrt frá Örnu
1 ½ dl Gunnars majónes
1 tsk. sítrónusafi

Skerið endana af brauðinu og leggið einn brauðbotn á fat eða bretti. Smyrjið brauðbotninn með túnfisksalatinu og leggið annan botn ofan á. Endurtakið ferlið þar til botnarnir eru búnir. Ekki setja túnfisksalat ofan á seinasta brauðið. Blandið saman í skál sýrðum rjóma, majónesi og sítrónusafa. Smyrjið brauðtertuna á öllum hliðum með blöndunni.

Skraut

gúrka, skorin í sneiðar og langsum
radísur, sneiddar
vínber, skorin í tvennt
blæjuber, skorin í tvennt
rauð paprika, mjög smátt söxuð
sítróna, skorin smátt
steinselja
spírur
svartur pipar

Skreytið eins og í myndbandi eða gefið hugmyndafluginu lausan tauminn og berið fram með góðu kampavíni.

Matreiðsla / Folda Guðlaugsdóttir
Stílisering og ritstjórn / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndataka og klippin / Hákon Davíð Björnsson

 

„Svo fallegt að sjá tjáningu hjá öðrum“

|
|Anna hefur kennt dans frá unglingsaldri.

Anna Claessen heldur skemmtikvöld á laugardag á Hótel Kríunesi á Vatnsenda, þar sem hún blandar saman skemmtun með söng, uppistandi og dansi og fær síðan alla út á dansgólfið eftir að hafa kennt þeim grunnspor dansins.

 

„Þetta er í annað sinn sem ég held slíkt kvöld á Kríunesi, það fyrsta var í október og þá fékk ég tilfinningu fyrir fólkinu sem mætti, stemningunni og staðnum,“ segir Anna. „Ég byrja á blöndu af uppistandi, söng og dansi í um það bil klukkustund. Síðan heldur kvöldið áfram með dansiballi til kl. 23 um kvöldið og jafnvel aðeins lengur.“

Anna hefur kennt dans frá unglingsaldri.

Hvernig var mætingin á fyrsta kvöldið? „Rosagóð og það var líka gaman að sjá hvað fólk tók mikinn þátt. Mér finnst gaman að efla fólk og sjá hverjir mæta en það var fólk frá tvítugu upp í sextugt. Ég vil eiginlega mest að fólk njóti sín og skemmti sér og kvöldið er hugsað þannig. Maður er allt of mikið í símanum og ræktar ekki sambönd sín yfirhöfuð. Vinasambönd, sambandið við sjálfan sig og hvað þá sambandið við makann.“

Hefur kennt dans frá 16 ára aldri

Anna er danskennari í World Class, og hefur kennt dans frá 16 ára aldri og er því með grunnsporin í flestum dönsum á hreinu. „Mér finnst mjög gaman að fá byrjendur og kenna þeim grunnsporin þannig að þeim líði vel á dansgólfinu. Fólk er stundum hrætt og heldur að það geti ekki dansað, það kunna allir að dansa, bara misvel. Það eru allir með sinn stíl og hreyfa sig á mismunandi hátt. Það er svo fallegt að sjá tjáninguna hjá öðrum. Fólk þorir að fara á dansgólfið eftir að hafa lært grunnsporin.“

Kríunes kjörið fyrir Íslendinga í helgarfríi

„Hótelið er rosalega fallegt, gullfallegt útsýni yfir Elliðaárvatn og mér fannst tilvalið að vera með skemmtikvöld þarna. Það eru klikkuð norðurljós yfir hótelinu,“ segir Anna og bætir við að kjörið sé fyrir Íslendinga að mæta á Kríunes í helgarfrí. Kríunes hefur verið rekið í yfir 20 ár, en gekkst undir breytingar í fyrra og þá kom nýbygging við húsið. „Eldri byggingin er í mexíkóskum stíl, sem er mjög töff, en nýbyggingin er í skandinavískum og nútímalegum stíl. Þetta er eins og að koma í tvo heima,“ segir Anna og bætir við að best sé að bóka borð fyrir laugardagskvöldið í síma 567-2245.

Myndir / Aðsendar

Berum ábyrgð á eigin heilsu

Geir Gunnar Markússon hefur ákveðnar skoðanir varðandi næringarfræði og raunar heilbrigði almennt. Hann segir að Þín heilsa ehf. sé myndlíking á hlutafélagi (vinnu) sem samanstandi af fjórum þáttum: Næringu, hreyfingu, svefni og sálinni. Allt þarf þetta að vera í jafnvægi til að árangur náist og fólk þarf að fara að sinna þessari vinnu eins og raunverulegu starfi en launin eru í samræmi við það.

 

„Allt þarf þetta að vera í jafnvægi til að árangur náist, þetta er bara keðja sem er órofa heild, þar sem eitt hefur áhrif á annað. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn,“ segir Geir Gunnar sem starfar á Heilsustofnun NFLÍ og er reynslubolti í þessum fræðum og óhræddur við að ráðast á bábiljur. Nú eru flestir alltaf að hugsa um kílóin og til hans leita skjólstæðingar eftir góðum ráðum. „Það er því miður ekki til nein töfralausn. Ef allir þessir megrunarkúrar og fæðubótarefni virkuðu þá ættum við flest að vera fit og flott en það er ekki raunin. Það verður að huga að þessum fjórum þáttum sem tilheyra Heilsunni ehf.

En hvers vegna þyngjumst við, bæði Íslendingar og Vesturlandabúar? „Því er auðvelt að svara. Við lifum í mjög óheilbrigðu umhverfi á Vesturlöndum. Við höfum ofgnótt af mat og við erum umkring dauðum gervimat. Þá eru flestir sem sitja við vinnu eða heima, hreyfingarleysið er algjört. Streita og svefnleysi spila einnig mjög stóran þátt í þessu og gerir okkur erfiðara að breyta mataræðinu og hreyfingunni til betri vegar.“

Hann segir að orkuefnin séu þrjú. „Það er prótín sem m.a. byggir vöðvana og er hluti ensíma, fita sem er fóðrun og þar eru mikilvæg hormón og svo kolvetnin sem eru er orkugjafinn. Lengi vel var fita aðalóvinur okkar í mataræðinu en sem betur fer er sú tíð liðin en þá hefur einelti hafist gegn kolvetnum. Ég sem næringarfræðingur elska öll þessi næringarefni, því þau hafa öll sína verkun og gildi fyrir líkamann. En þegar við erum farin að þyngjast þá mættu margir fara að huga að því að minnka við sig kolvetnin en þó enga öfga eða sleppa þeim alveg, heldur að takmarka sem mest alla óhollustu sem inniheldur einföld kolvetni eins og gos, sælgæti, kex, kökur og unnar vörur með viðbættum sykri. Ef fólk takmarkar þetta sem mest er það að lifa við þokkalegt heilbrigði og fær meiri orku af alvörumat.“

190 kósídagar

Gunnar Geir segir að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir hversu oft það sé að verðlauna sig með mat. „Það eru allt að 190 kósídagar hjá venjulegri fjölskyldumanneskju á Íslandi árlega. Við erum að tala um daga eins og jól, páska og áramót, öll afmælin, allar helgar, þorrann, góuna, bóndadaginn og konudaginn, í saumaklúbbum og í karlaklúbbum og svo mætti lengi telja. Það er eins og fólk geti ekki komið saman án þess að eitthvað af mat sé á boðstólum. Þetta er meira en helmingur af einu ári sem telur 365 daga. Það er því ekkert skrítið að fólk fitni. Ef við tökum helgar sem dæmi, þá er fólk farið að finna lyktina af helginni á fimmtudeginum og fær sér ef til vill rauðvínsglas og smávegis osta, á föstudegi er helgin hafin og fólki finnst þá gjarnan að það megi gera vel við sig. Á laugardögum er svo hápunktur helgarinnar með miklu sukki í mat og á sunnudeginum eru afgangarnir frá undanförnum dögum í boði. Og vitanlega taka allir þessir kósídagar í þegar verið er að huga að þyngdarstjórnun. Við ættum að hafa meira um andleg kósíheit í stað matar kósíheita, fara saman í göngutúr, knúsast og almennt veita hvort öðru góðan félagsskap.“

Að sögn, Geirs ætti fæði að vera sem næst upprunanum.

Næringarfræðingurinn segir að best sé að byrja á sálinni í heilsueflingu. ,,Það eru allt of margir sem leggja af stað í þeim tilgangi að grenna sig sem gera það í mikilli streitu og kvíða. Við erum uppfull af þekkingu en margt af henni er bara vitleysa eins og það að mega ekki borða brauð. Það er bara mýta. Mjög margir sem koma til mín í næringarráðgjöf og vilja grennast byrja samtalið á því að segja: „Ég er búinn að taka burtu allt brauð“. Brauðið virðist í dag vera orðið upphaf allrar okkar fitusöfnunar. En að grípa í tvær grófar brauðsneiðar yfir daginn er í góðu lagi en auðvitað er ég ekki mæla með því að fólk lifi á brauði og sérstaklega ekki næringarsnauðu hveitibrauði. Í grófu brauði með korni og fræjum eru mörg góð næringarefni eins og t.d. vítamín, steinefni og trefjar. Bjór er hins vegar bara „brauðsúpa“ með lítið sem ekkert næringargildi og áfengi mun aldrei teljast hollt. Dagskammturinn fyrir konur af bjór ætti ekki að fara yfir 330 ml og fyrir karlmen er það um 500 ml, þó má ekki safna þessu upp og fara á fyllirí einu sinni í viku.“

„Við erum uppfull af þekkingu en margt af henni er bara vitleysa eins og það að mega ekki borða brauð. Það er bara mýta.“

Heilsufæði er næringarríkt og ætti að vera sem næst upprunanum

En er einhver munur á að borða appelsínu og drekka appelsínusafa út frá næringarsjónarmiðum ,,Já, það er það sko heilmikill munur. Það eru mest bara kolvetni (ávaxtasykur) í appelsínusafa. Þú ert einungis að kreista safann úr appelsínu og færð því ekki mikilvæg næringarefni eins og trefjar, vítamín og steinefnin sem eru í appelsínunni sjálfri ef þú borðar hana alla. Þetta er líka svo óeðlileg leið til að neyta matar. Hver mundi t.d. borða 3-4 appelsínur eins og er í einu appelsínusafaglasi? Ég myndi því ekki skrifa upp á safakúra,“ segir Geir Gunnar.

Nú eru vinsælar föstur, sem m.a. fela í sér að borða ekki neitt í 16 tíma og borða í 8 tíma, svokallað 16:8 mataræði og eru þá margir að borða frá hádegi til kvöldmatar. ,,Það er margsannað að ef þú borðar hollan morgunverð þá stuðlar það að jöfnum blóðsykri og þú færð þér síður óhollustu yfir daginn og ert frekar í kjörþyngd. Okkur á að þykja vænt um líkama okkar, starfsemi hans er vélin sem við göngum fyrir rétt eins og bíll fyrir bensíni eða rafmagni. Það má fasta að mínu mati í 12 tíma á sólarhring, svokölluð 12:12 fasta, þá borðum við ekkert eftir kvöldmat og næst ekki fyrr en morgunverður er á borð borinn. Það er raunhæfur lífsstíl sem fólk ætti að reyna að tileinka sér í einhvern tíma áður en það reynir lengri og öfgafyllri föstur.

Prótínstangir eru ekki hollar

En hvað með prótínstangir eru þær eins hollar og margir vilja halda? „Það er ekki nóg að búa til prótínstykki með 20 g af prótínum með góðu bragði og í flottum umbúðum. Við verðum að skoða innihaldsefnin í þessari matvöru. Mitt faglega mat á því hvort prótínstöng sé heilsusamleg byggist á þessum fimm atriðum: lág í viðbættum sykri, lág í sætuefnum, gervi- og aukefnum, há í prótíni, há í trefjum og náttúruleg.

„Það er ekki nóg að búa til prótínstykki með 20 g af prótínum með góðu bragði og í flottum umbúðum. Við verðum að skoða innihaldsefnin í þessari matvöru.“

Eftir að hafa metið prótínstangir eftir þessum atriðum þá eru nánast engar stangir á markaði hér sem standast allar þessar fimm kröfur. Við verðum því miður að horfast í augun við það að verksmiðjur geta ekki búið til hollan millibita í formi prótínstanga. Oft er lítill munur á þessum „prótínstöngum“ og t.d. bara hefðbundnu nammistykki eins og Snickers, fyrir utan hátt prótínmagn. Það er betra er að fá sér lúkufylli af möndlum til að fá prótínskammtinn og vera þá í leiðinni laus við viðbætta sykurinn, öll gervi- og aukefnin,“ segir næringarfræðingurinn að lokum.

Texti / Unnur Hrefna Jóhannsdóttir

Ekki hægt að kæra fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju

Helga Vala Helgadóttir, alþingis- og lögmaður, vill ekki tjá sig sérstaklega um mál Atla Rafns Sigurðarsonar gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra, en segir rétt þess sem ásakaður er um brot vera eina af grunnstoðum réttarríkisins. Komi slíkar ásakanir fram nafnlaust sé ekki hægt að vinna málið í eðlilegum farvegi og þar með sé brotið á rétti meints geranda.

 

Helga Vala hefur starfað sem réttargæslumaður brotaþola, gekk vaktir á Neyðarmóttöku um nokkurra ára skeið og segist fyrst og fremst vera talsmaður brotaþola í sinni lögmennsku. Það breytir ekki því að fyrir henni er augljóst að fara verður eftir reglum réttarríkisins.

„Við búum við ákveðið réttarríki,“ segir hún. „Og ef einstaklingur er borinn sökum eru það hans grundvallarmannréttindi að eiga þess kost að verja sig. Ef hann veit ekki hvaða sökum hann er borinn hvernig á hann þá að geta varið sig? Sá réttur toppar að mínu mati rétt ásakanda til nafnleyndar. Ég hef farið í útköll á Neyðarmóttöku þar sem einstaklingur leitaði þangað eftir að brotið var á honum en viðkomandi vildi ekki fara með málið lengra af ýmsum ástæðum. Það er auðvitað ekki sanngjarnt að brotaþoli geti ekki leitað réttar síns en við getum ekki lagt fram kæru á hendur einhverjum fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju á ótilgreindum stað. Það er bara ekki hægt, alveg sama hversu ósanngjarnt manni finnst það.“

Viðtalið við Helgu Völu er að finna í heild sinni í nýjasta Mannlífi.

En ef margir starfsmenn kvarta undan sama samstarfsmanninum og vilja ekki vinna með honum, hvað er hægt að gera?

„Það er mjög flókið,“ segir Helga Vala. „Þess vegna þarf að skoða það vel. Ástæðan getur verið sú að hópurinn beiti einhvern einstakling einelti eða vilji bara losna við viðkomandi og því þarf að setja fram „konkret“ dæmi, það þurfa að vera málefnalegar ástæður fyrir kvörtuninni til að vinnuveitandinn geti metið það. Vinnuveitandi þarf að tryggja aðbúnað fólks og öryggi á vinnustað, en það breytir því ekki að ef þetta beinist gegn einhverjum einum þarf að skoða hverja ásökun fyrir sig án tillits til hinna.

„Vinnuveitandi þarf að tryggja aðbúnað fólks og öryggi á vinnustað…“

Sem dæmi má nefna mál þar sem þrír aðilar báru einn og sama einstaklinginn sökum um kynferðisbrot og því má segja að það hafi verið  yfirgnæfandi líkur á að viðkomandi væri síbrotamaður. Samt sem áður má ekki nota eitt mál til þess að byggja undir annað, það er óheimilt í sakamálarétti. Í því voru tvær af kærunum felldar niður á rannsóknarstigi en eitt mál fór fyrir dóm og þótt allir teldu yfirgnæfandi líkur á sök var hann á endanum sýknaður í héraði meðal annars vegna þess að ekki mátti benda á líkur á síbrotum. Sumir vilja meina að þetta sýni að réttarkerfið sé gerendavænt og það er svo sannarlega margt sem má laga hvað varðar brotaþola í kerfinu. Mér finnst það mjög mikilvægt að staða brotaþola sé endurskoðuð, miskabætur hækkaðar verulega og að réttarkerfið sendi brotaþolum ótvíræða viðurkenningu á alvarleika kynferðisbrota.“

Lestu umfjöllunina í heild sinni í nýjasta blaði Mannlífs.

Meira vinnur vit en strit

Batnandi manni er best að lifa segir máltækið og það er svo sannarlega rétt. Kauði hefur lofað bót og betrun og allir í kringum hann trúa að nú komi bæði viljinn og verkið. Það eiga jú allir skilið annað tækifæri ekki satt? Nýlega steig Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, fram í fjölmiðlum og sagði að borgin ætlaði að umbylta undirbúningi framkvæmda. Þetta kom í kjölfar þess að Ásmundur Helgason, eigandi Gráa kattarins, hóf að kvarta undan framkvæmdum á Hverfisgötu. Framkvæmdum sem þegar hafa kostað lokanir og gjaldþrot fyrirtækja við götuna. En þessu ber virkilega að fagna. Hugsanlega eigum við aldrei eftir að ergja okkur á öðru braggamáli og ekki heyra af framúrkeyrslu hjá stofnunum á borð við Sorpu.

Vonandi boðar þetta umbyltingar hjá fleiri framkvæmdaaðilum en hinu opinbera. Það hefur verið plagsiður hér á landi að engar áætlanir standast nokkurn tíma. Verktakar gera tilboð í verk og virðast ævinlega vanreikna. Þeir hefja vinnu og alltaf kemur eitthvað þeim í opna skjöldu. Í stað þess að hafa borð fyrir báru og gera ráð fyrir við tilboðsgerðina að óvæntir erfiðleikar banki upp á gera menn svo naumar fjárhagsáætlanir að ekkert má út af bregða. Hafa þeir aldrei heyrt að meira vinnur vit en strit?

Við Hverfisgötu gefast veitingamenn upp eftir að gatan hefur verið sundurgrafin þremur mánuðum lengur en til stóð en hvað með einstaklinga? Fólk sem stendur uppi með undirritaða og fullkomlega löglega kaupsamninga í höndunum en verður samt að borga meira til að fá afhentar íbúðir sínar? Hópur eldri borgara var í þessum sporum nýlega og eigendur íbúða í Gerplustræti 2-4 í Mosfellsbæ hafa beðið í átján mánuði eftir afhendingu. Margir þeirra á leigumarkaði með tilheyrandi kostnaði vegna þessa dráttar á verklokum en aðrir svo heppnir að hafa fengið inni hjá ættingjum. Engin óskastaða en betri en að borga okurleigu. Nú hefur þetta fólk fengið að vita að til þess að hægt verði að klára húsið þurfa þeir að borga enn meira. Kaupsamningurinn þeirra er í raun verðlaust og marklaust plagg. Verktakinn varð gjaldþrota og óljóst hver skuldastaða framkvæmdanna er.

„Það virðist einu gilda hvort um er að ræða almenning eða einstaklinga, eina úrræðið er alltaf að halda áfram að borga og borga meira til að tapa ekki öllu því sem þegar hefur verið lagt í lönguvitleysuna.“

Nú væri fróðlegt að vita hvort verktakafyrirtæki erlendis hafi sama háttinn á. Geta þeir gert tilboð í verk og bætt síðan stöðugt við kostnaði vegna þess að þeir vanreiknuðu eða sáu ekki fyrir ákveðna verkhluta? Mega þeir draga skil á verkum von úr viti án eftirkasta eða afleiðinga? Hvað með það þegar menn fara á hausinn? Víða eru teknar út tryggingar fyrir verklokum og verkkaupar geta gengið að þeim. Eru slíkar tryggingar ekki tíðkaðar hér og sé svo hvers vegna situr venjulegt fólk alltaf uppi með skaðann? Það virðist einu gilda hvort um er að ræða almenning eða einstaklinga, eina úrræðið er alltaf að halda áfram að borga og borga meira til að tapa ekki öllu því sem þegar hefur verið lagt í lönguvitleysuna. Já, batnandi mönnum er best að lifa og ef umbylting borgarinnar boðar betri tíð og ábyrgari vinnubrögð við framkvæmdir á Íslandi ber sannarlega að fagna.

Einar Þor lögmaður Atla Rafns segir hann og fjölskyldu hans einu þolendurna sem hafa verið nafngreindir

„Alltaf þegar verða einhverjar hreyfingar í samfélaginu

Einar Þór Sverrisson, lögmaður Atla Rafns Sigurðssonar í málinu gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra, segir það engum vafa undirorpið að brotið hafi verið á rétti Atla Rafns með fyrirvaralausri uppsögn án þess að hann væri upplýstur um meintar sakir sínar. Einu þolendurnir sem hafi verið nafngreindir í þessu máli og sé alveg víst að séu til séu Atli og fjölskylda hans. Það sé ekki hægt að breyta reglum samfélagsins að geðþótta í takt við þær átakshreyfingar sem séu í gangi á hverjum tíma.

 

„Mál Atla Rafns er ekki kynferðisbrotamál,“ segir lögmaður Atla Rafns, Einar Þór Sverrisson, og vill undirstrika að málið snúist um brot á löggjöf í vinnurétti. Spurður hvernig Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, hefði átt að bregðast við kvörtunum annarra starfsmanna vegna meintrar kynferðislegrar áreitni Atla Rafns segir Einar að það séu alveg skýrar reglur um hvernig bregðast skuli við í slíkum málum í reglugerð sem gefin er út af ríkinu og hann segir gilda um alla atvinnurekendur í landinu, hvort sem þeir séu á vegum ríkis eða sveitarfélaga eða einkaaðila.

„Þessi reglugerð kveður á um það að það eigi að fara yfir málið með öllum aðilum, þar með talið þeim sem borinn er sökum, og gefa þeim færi á að tjá sig. Sé ekki nægileg þekking fyrir hendi inni á vinnustaðnum á að kalla til ytri aðila til að fara yfir málið. Samkvæmt reglugerðinni er alveg ljóst að þessi skoðun verður að fara fram. Það getur síðan leitt til þeirrar niðurstöðu að eitthvert brot hafi verið framið en það getur líka leitt í ljós að ekkert brot hafi verið framið. Slík skoðun getur líka leitt í ljós að brotið sé minniháttar og aðilar geti sæst eða þá að þetta sé meiriháttar brot sem leiði til þess að sá sem ásakaður er sé rekinn, það er allur gangur á því. En hvernig sem þessu er snúið þá byggja reglurnar á þeirri hugsun að koma í veg fyrir að einhver aðili geti, í skjóli nafnleyndar, vegið að öðrum aðila úr launsátri. Það ætti að vera öllum augljóst ef þeir lesa þessa reglugerð.“

Einar segir ekki hægt fyrir Borgarleikhúsið að skáka í því skjóli að það ríki óvissa um það hvernig koma eigi að slíkum málum hjá einkafyrirtækjum eins og haldið hafi verið fram í yfirlýsingu þess eftir að dómurinn féll.

„Það er bara þvæla,“ segir hann. „Það er einmitt talað um báða aðila í reglugerðinni og það er engin óvissa um það ferli sem fella þarf slík mál í.“

Þannig að þú hefur engar efasemdir um að Landsréttur muni staðfesta þennan dóm?

„Ég kann ekki þá lögfræði sem gæti leitt til einhverrar annarrar niðurstöðu,“ segir Einar. „Það væri því handan míns skilnings ef Landsréttur gæti komist að þeirri niðurstöðu að þessi málsmeðferð í máli Atla Rafns hafi verið í lagi. Það er algjörlega útilokað.“

Ekki háar miskabætur

Nú hefur staðið mikill styr um upphæð þeirra bóta sem Atla Rafni voru dæmdar í héraðsdómi en Einar segir þá umræðu byggða á dálitlum misskilningi.

„Honum voru dæmdar 5,5 milljónir samkvæmt dómsorði,“ útskýrir hann. „Fjórar af þeim milljónum voru fjártjónsbætur vegna atvinnumissis og síðan ein og hálf milljón í miskabætur. Miðað við það sem Atli Rafn hefur þurft að ganga í gegnum, þar sem hann var gerður að nokkurs konar holdgervingi gerenda í #metoo-byltingunni, úthrópaður sem einhver kynferðisbrotamaður og svertur eins mikið og menn geta orðið, þá er alveg á hreinu að þessi fjárhæð bætir ekki hans tjón. Hitt er svo aftur annað mál að miskabætur í íslensku réttarkerfi eru almennt mjög lágar og þar með talið í alvarlegum kynferðisbrotamálum þar sem illa leiknir þolendur fá smánarlega lágar bætur. En það má undirstrika það að Atla voru ekki dæmdar 5,5 milljónir í miskabætur.“

„Hitt er svo aftur annað mál að miskabætur í íslensku réttarkerfi eru almennt mjög lágar og þar með talið í alvarlegum kynferðisbrotamálum þar sem illa leiknir þolendur fá smánarlega lágar bætur.“

Einar segir mál Atla Rafns einstakt að því leyti að réttur þess sem ber fram ásökunina sé sagður svo mikill að það sé í lagi að taka öll réttindi af þeim sem fyrir ásökununum varð. Er þá enginn möguleiki að svona mál geti haft framgang nema að sá sem ber ásakanirnar fram komi fram undir nafni?

„Nei, ég get ekki séð það,“ segir hann. „Vegna þess að það er ekki hægt að upplýsa meintan geranda um málið án þess að hann fái að vita hver það er sem hann á að hafa brotið á. Reglurnar eru þannig að atvinnurekandi sem fær inn á borð til sín kvörtun með því skilyrði að sá sem ber kvörtunina fram vilji njóta nafnleyndar getur ekki tekið kvörtunina lengra. Hann getur auðvitað boðið þeim sem ber kvörtunina fram alls kyns aðstoð og gert allt til að halda utan um þann aðila, en hann getur ekki gert meintan geranda algjörlega réttlausan í ferlinu. Níutíu og níu prósent allra reglna í samfélaginu eru byggðar á einhverri hugsun og hugsun þessara reglna er augljóslega sú að þetta séu viðkvæm og erfið mál, það er óumdeilt. En reglurnar gera það að verkum að það er komið í veg fyrir að það sé hægt að vega að fólki úr launsátri og þær koma í veg fyrir að það séu teknar ákvarðanir án þess að málið sé skoðað frá báðum hliðum.“

Ekki hægt að breyta reglum í takt við átakshreyfingar

Í umræðunni hefur komið fram ótti um að þessi dómur muni fæla meinta þolendur frá því að segja frá, hvað segir Einar um þær hugleiðingar?

„Ég hef ekki trú á því, nei,“ segir hann. „Enginn sem telur sig hafa verið beittan einhverjum rangindum, í hvaða formi sem það er, getur búist við því að það sem hann hvíslar að einhverjum öðrum með skilyrði um nafnleynd geti haft einhverjar afleiðingar fyrir annan einstakling. Ég er ekki að gera lítið úr neinum sem ber fram sakir. Staðreyndin er hins vegar sú að stundum eiga ásakanir ekki við rök að styðjast, hvort sem þær lúta að kynferðislegri áreitni, einelti eða einhverju öðru, eða eru það brogaðar að eitthvað sem leit út fyrir að vera mjög alvarlegt í fyrstu er ekki eins alvarlegt og talið var.“

Þannig að þú lítur svo á að þessi dómur sé fordæmisgefandi?

„Já, ég held hann geti verið það,“ segir Einar. „Ég man ekki til þess að það hafi reynt á þessa reglugerð með jafnnákvæmum hætti fyrr. Þetta mál Atla Rafns sýnir það mjög vel hversu gríðarlega mikilvægt það er að það séu reglur um svona mál og að stjórnendur í fyrirtækjum fylgi þeim. Alltaf þegar verða einhverjar hreyfingar í samfélaginu, eins og #metoo-hreyfingin sem er í heild sinni af hinu góða, skiptir rosalega miklu máli að við virðum þær reglur sem við höfum sett. Það er aldrei leyfilegt að segja að nú sé einhver hreyfing í gangi og þess vegna eigum við að víkja reglunum til hliðar. Það náttúrlega bara gengur ekki upp. Frá fyrstu mínútu þessa máls vissi Atli Rafn ekkert hvað um var að ræða og hann hefur hafnað því að hafa áreitt einhvern aðila, hvorki kynferðislega né með öðrum hætti, og það er ekki ásættanlegt fyrir neinn að fá ekki einu sinni að vita hvaða sökum hann er borinn og geta þar af leiðandi ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Atli Rafn er enginn gerandi í þessu máli, miklu frekar þolandi ranginda og algjörlega vanhæfrar vinnustjórnunar á þeim vinnustað sem hann starfaði tímabundið á.“

 

 

 

 

Guðbjörg og Ingi flýja undan barnaníðingi og dýrtíð til Spánar: „Við höfum verið heppin síðan við tókum saman“

|
Ingi og Guðbjörg.|Ingi og Guðbjörg

Parið Guðbjörg Sigurlaug Gunnarsdótir og Ingi Karl Sigríðarson eru flutt til Spánar með börn sín. Ástæðan er þríþætt að sögn parsins, en ein þeirra er sú að erfitt er fyrir öryrkja með stóra fjölskyldu að lifa af öryrkjabótum hér á landi.

 

Parið segir sögu sína á Facebook-síðunni: Við erum hér líka, en það eru hjónin Alda Lóa Leifsdóttir og Gunnar Smári Egilsson sem skrifa þar samtímasögur öryrkja á Íslandi.

Guðbjörg og Ingi eiga samtals sex börn á aldrinum átta til átján, hún þrjú og hann þrjú.

„Það eru einkum þrjár ástæður fyrir að við erum að flytja til Spánar. Í fyrsta lagi er maturinn þar 80 prósent ódýrari en hér. Ef Ingi væri ekki með byssu pabba síns og færi á skytterí, ef hann fengi ekki fara á skak með vini sínum til að fiska í soðið og ef hann væri ekki bæði nýtinn kokkur og klár í að búa til góðan mat úr litlu; þá gætum við ekki gefið börnunum okkar að borða, ekki þegar liðið er á mánuðinn. Örorkubæturnar duga ekki fyrir framfærslu. Ef við hefðum ekki gæs og fisk í frystinum myndum við svelta síðustu daga hvers mánaðar.“ segir Guðbjörg.

Getur öryrki leyft sér að elska?

Ingi skyldi við barnsmóður sína, missti vinnu, missti heimili sitt, var veglaus og allslaus, afllaus og viljalaus, en samþykkti að flytja til vina sinna á Akureyri. Þar bjó barnsmóðir hans með börnin. Ingi gat umgengist þau og hafið hæga batagöngu. Þar kynntist hann Guðbjörgu, en þau segjast fyrst hafa verið í afneitun með samband sitt.

Var eitthvert vit í því? Hvað hafði hann að gefa þessari þriggja barna einstæðu móður?,” segir Ingi. Hann, sem gat varla staðið undir sjálfum sér? Getur öryrki leyft sér að elska? Og vera elskaður? Verður honum ekki bara refsað? Getur það endað vel?

„Við höfum verið heppin síðan við tókum saman. Við stöndum saman, leynum hvort öðru engu og tölum saman um allt. Saman getum við margt. Og með smá heppni getum við nánast allt. Nema lifað á Íslandi. Þar getur enginn lifað hér sem er svo óheppinn að vera öryrki.“

Bjuggu í tveimur íbúðum og á biðlista eftir félagslegu húsnæði

Fjölskyldan bjó áður í tveimur íbúðum á Akureyri, þar sem engin íbúð fékkst þar nógu stór fyrir fjölskylduna sem þau höfðu efni á að greiða fyrir og telur parið að félagsleg íbúð sé ekki til sem er nógu stór fyrir alla. Einnig sé dýrt að fá börn Inga til þeirra, en þau eru búsett í Noregi.

„Í öðru lagi erum við að flýja húsnæðiskreppuna á Akureyri. Við fáum ekki nógu stóra íbúð fyrir okkur öll, enga sem við höfum efni á. Við erum sex í heimili og átta þegar yngri börnin hans Inga koma til Íslands. Við búum í tveimur litlum íbúðum í dag, komust ekki fyrir í annarri og getum eiginlega ekki búið svona lengur. Hvernig á fjölskylda að búa í tveimur íbúðum? Við erum á biðlista eftir stærri íbúð, en gætum verið þar endalaust. Ég held að það sé engin íbúð í félagslega kerfinu á Akureyri sem er nógu stór fyrir sex til átta manna fjölskyldu. Svo er of dýrt fyrir okkur að fá yngri börnin frá Noregi. Það kostar meira um 140 þúsund krónur að fá þau í heimsókn, jafnvel þótt við fáum lánaðan bíl til að sækja þau suður til Keflavíkur. Þegar við erum flutt til Spánar geta þau komið til okkar fyrir fimmtíu þúsund krónur. Og búið með okkur í einbýlishúsinu. Við leigjum hús með mörgum svefnherbergjum, þremur baðherbergjum og með húsgögnum fyrir sama verð og við borgum fyrir aðra íbúðina hér á Akureyri.“

Áralangar ofsóknir af hálfu barnsföðurs

Þriðja ástæðan er þó af persónulegum, ekki fjárhagslegum aðstæðum, því fjölskyldan er að flytja vegna áralangra ofsókna barnsföður Guðbjargar.

„Þriðja ástæðan er að við erum að flýja barnaníðing og eltihrelli sem hefur ofsótt okkur og börnin síðustu árin. Þetta er barnsfaðir Guggu, faðir tveggja yngri barnanna. Eftir margra ára baráttu vann Gugga loks forræðismálið í sumar. En það stoppar hann ekki. Hann situr um okkur. Einu sinni kom til mín handrukkari sem sagði að maðurinn hefði borgað honum fyrir að berja mig svo ég lenti á spítala. Ég var heppinn að handrukkarinn þekkti mig og vildi ekki gera mér illt. En það er sama þótt við kærum svona eða látum vita, við fáum enga vernd. Við, og ekki síður börnin, erum í hættu hér á Akureyri. Þetta er dæmdur maður, hættulegur maður. Þess vegna erum við að flýja, til að losna frá honum. En síðan vill svo til að við getum líka átt betra líf á Spáni, búið betur, búið öll saman, borðað betur. Búið börnum okkar heimili. Tryggt þeim öryggi og frið. Það getum við ekki hér, ekki sjens,” segir Ingi.

Öryrkjar vegna fæðingargalla og slyss

Parið er bæði öryrkjar. Guðbjörg er með fæðingargalla, lá þverlegu í fæðingu og fæddist með hryggskekkju. Þegar hún var sautján ára lenti hún í slysi þegar snjóýta keyrði aftan á kerru sem var aftan í bílnum sem hún ók, hún fékk þungt högg á hrygginn og þoldi það illa þar sem hryggurinn var ekki sterkur fyrir. 25 ára var Guðbjörg orðin óvinnufær vegna stoðkerfisvanda.

Ingi var á sjó sem unglingur og ungur maður þar til hann varð fyrir slysi, skipafélagi hans hafði blandað saman klór og sápu og við það myndaðist klórgas sem Ingi andaði að sér og skaðaði lungun. Hann hefur ekki enn náð sér, hvorki í lungunum né hnjánum. En þarna varð hann þó ekki öryrki, röð áfalla olli því að hrundi saman mörgum árum seinna og sökk niður í þunglyndi og vonleysi.

Unnu bæði forræðismál í sumar

Guðbjörg var einstæð móðir með eitt barn þegar hún kynntist seinni barnsföður sínum og eignaðist tvö börn með honum. Að hennar sögn hefur hún síðan reynt að losna við hann úr lífi sínu, barnanna og Inga.

Maðurinn var handtekinn stuttu eftir að þau slitu samvistum fyrir að nauðga tólf ára stúlku, var dæmdur og sat í fangelsi í nokkra mánuði. Þrátt fyrir ákæru og dóm vegna barnaníðs hélt maðurinn umgengnisrétti yfir börnunum. Þegar Guðbjörg neitaði að leyfa dæmdum barnaníðing að hitta börnin fékk hann dæmdar á hana dagsektir fyrir umgengishindrun. Hún barðist gegn manninum, en hljóp alls staðar á veggi, fann hvergi stuðning. Hún þurfti að berjast við manninn og kerfið í leiðinni, fannst kerfið alltaf taka stöðu með honum.

Gugga krafðist þess að fá fullt forræði yfir börnum sínum og rétt til að neita föður þeirra um umgengni. Hún fékk gjafsókn og fékk aðstoð lögmanns með mikla reynslu sem sótti málið af krafti. En það gekk samt brösuglega, dómarinn í málinu fór í leyfi og þá lenti málið aftur á byrjunarreit. Það leið langur tími í óvissu. Og ótta við manninn. Það var ekki fyrr en síðla sumars, eftir marga ára baráttu, að Gugga vann fullt forræði yfir börnunum.

Ingi barðist einnig um forræði yfir elstu dóttur hans, sem flytur með fjölskyldunni til Spánar. Yngri tvö börn hans búa í Osló. Vann hann forræði yfir dóttur sinni í sumar.

Lesa má sögu þeirra í heild á Facebook-síðunni: Við erum hér líka.

 

„Magnað hvað maður hefur lært mikið bara á þessum þremur árum“

Hljómsveitin Between Mountains var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu sem kallast einfaldlega Between Mountains. Sveitin sigraði Músíktilraunir 2017 en hún var stofnuð af Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur og Ásrósu Helgu Guðmundsdóttur sem voru aðeins 16 ára á þeim tíma. Nú fer Katla Vigdís fyrir sveitinni og semur sjálf öll lög og texta á plötunni. Albumm hitti á Kötlu og byrjaði að grennslast fyrir um samstarf þeirra vinkvenna og þátttöku þeirra í Músiktilraunum.

 

„Ég hafði síðan haustið 2016 verið að semja lög og texta og langaði að taka þátt í Músíktilraunum. Eldri bræður mínir höfðu gert það tveimur árum áður og sigrað með hljómsveit sinni Rythmatik og með hliðsjón af því vissi ég hvers konar stökkpallur Músíktilraunir getur verið. Þess vegna fékk ég Ásrósu í lið með mér. Við kynntumst í blaki á Ísafirði, höfðum þekkst í svona tvö ár, að mig minnir, og ég vissi að hún hafði áhuga á að syngja og væri að læra söng. Ég fékk hana því til að taka þátt í keppninni með mér,“ útskýrir Katla, en vinkonurnar sem koma báðar frá Vestfjörðum, höfðu aðeins æft í um það bil mánuð áður en þær tóku þátt í Músiktilraunum og sigruðu.

Hvernig var að vinna Músíktilraunir svona ungar? „Fyrst var það svolítið skrýtið,“ játar hún. „Auðvitað var samt gaman að vera eitthvað að „gigga“ í grunnskóla og það er fyndið að hugsa um það eftir á. Ég er náttúrlega enn ung þannig að ég á eflaust eftir að læra margt en það er magnað hvað maður hefur lært mikið bara á þessum þremur árum,“ tekur hún fram og segir það hjálpa að hafa byrjað í tónlistinni svona snemma, kynnst fólki í bransanum og öðlast reynslu af því að spila og koma fram. „Síðan er magnað að vera búin að gefa út plötu. Núna veit ég aðeins hvernig hlutirnir virka, en ég var svolítið að þreifa mig áfram í myrkrinu við gerð þessarar plötu.“

Mynd / Ása Dýradóttir

Gaman að fletta upp í gömlum minningum

Between Mountains kom út fyrir viku og segir Katla að það hafi verið ansi skemmtilegt að gera plötuna en tímafrekt líka. „Ég held að það sé nokkuð algengt, svona með fyrstu plötur,“ segir hún og nefnir sem dæmi að fyrsta lagið, Into the Dark, hafi verið tekið upp haustið 2017, ef hún man rétt, og gefið út í ársbyrjun 2018. „Eftir það leið smátími þangað til við fórum aftur að taka upp,“ útskýrir hún. Upphaflega hafi staðið til að gera EP-plötu, eins og tíðkist mikið í dag, en eftir að plötufyrirtækið fékk að heyra lögin hafi verið ákveðið að ráðast í gerð plötu í fullri lengd. „Þrjú lög á plötunni voru því svolítið samin í hvelli,“ segir hún, „en ég átti til eitt lag.“

„Auðvitað var samt gaman að vera eitthvað að „gigga“ í grunnskóla og það er fyndið að hugsa um það eftir á.“

Spurð út í umfjöllunarefni plötunnar segir Katla að yfirleitt sé saga á bak við hvert lag. Vegna þess hversu langur tími leið á milli þess sem sum lögin voru samin sé þó ekki hægt að segja að platan fjalli um eitthvað eitt tiltekið málefni. „Ég er á þeim aldri að ég hef breyst og þroskast mikið á þessum tíma sem hún var gerð. En það er svolítið gaman að pæla í gömlum textum því þeir sýna hvar maður var staddur andlega þegar þeir voru samdir. Þeir geta virkað eins og nokkurs konar myndaalbúm. Maður getur skemmt sér við að fletta upp gömlum minningum í textaformi,“ lýsir hún og bætir við að nú hlakki hún mikið til að fara aftur í stúdíó og gera meira efni.

Katla er í ítarlegra viðtali á albumm.is

 

 

 

 

Booka Shade í Listasafni Reykjavíkur

Mynd / Af Instagram Booka Shade

Þýska teknóbandið Booka Shade kemur fram á Iceland Airwaves í ár.

 

Það er sumum mikið fagnaðarefni því sveitin þykir ein sú besta á sínu sviði í heiminum. Margir gætu hafa heyrt eitthvað með Booka Shade, kannski án þess að vita af því.

Tónleikarnir fara fram í kvöld, föstudag, í Listasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu, og hefjast á miðnætti. Airwaves-armbönd duga á viðburðinn.

Frábær föstudagsmatur

Fátt jafnast á við heimalagaðar kjötbollur og svo virðist sem hver þjóð eigi sína útgáfu af þeim. Heimalagaðar kjötbollur eru spennandi kostur í afslappað matarboð því þó að fyrirhöfnin sé svolítil er hráefnið ekki mjög dýrt.

Indverskar Kashmiri-kjötbollur
fyrir 4

Bollur
700 g lamba- eða nautahakk
1 tsk. kumminduft
1 tsk. kóríanderduft
¼ tsk. kanill
½ tsk. túrmerik
¼ tsk. negull, steyttur
múskat á hnífsoddi
salt og nýmalaður pipar
3 msk. jógúrt eða 1 egg

Blandið öllu sem fer í bollurnar vel saman í skál og vinnið vel saman, mótið litlar bollur.

Sósan
1 msk. olía + 1 msk. smjör eða 2 msk.
ghee ef þið eigið það til
1 stór laukur, saxaður
1 tsk. kumminduft
1 tsk. kóríanderduft
1 tsk. garam masala
¼ – ½ tsk. chili-duft
3 dl vatn
2 msk. hveiti eða kjúklingabaunamjöl
salt og nýmalaður pipar
1 dl jógúrt
1 tsk. hunang eða sykur

Steikið lauk í blöndu af olíu og smjöri (eða ghee) við meðalhita þar til laukurinn fer að verða mjúkur og aðeins brúnaður. Bætið kryddi á pönnuna og steikið aðeins með lauknum. Bætið vatni, hveiti, salti og pipar á pönnuna og sjóðið þetta saman smástund. Raðið bollunum á pönnuna og látið þær sjóða, undir loki, í 20 mín. Snúið þeim þegar suðutíminn er hálfnaður. Bætið jógúrt út í og látið sjóða smástund eða þar til sósan fer að þykkna. Bragðbætið eftir smekk með hunangi eða örlitlum sykri Minnum á Indíasól á Suðurlandsbraut sem er með gott úrval af indverskum matvörum, eins og ghee.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir
Myndir / Kristinn Magnússon

 

Vök í Valsheimilinu

Iceland Airwaves er í fullum gangi og kemur hljómsveitin Vök fram í Valshöllinni í kvöld.

 

Sveitin ætlar að tjalda öllu til og má því búast við miklu fjöri. Tónleikarnir hefjast klukkan 22.35 og standa til klukkan 23.15. Airwaves-armbönd duga á viðburðinn.

Segir mbl.is og RÚV hafa framið verkfallsbrot: „Með ólíkindum að miðlarnir hagi sér með þessum hætti“

„Þetta eru hrein og klár verkfallsbrot og verða kærð til félagsdóms,“ segir Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, um þá staðreynd að fréttir birtust á vef mbl.is og tökumaður á RÚV sem er verktaki og utan félags var látinn vinna á meðan á verkfalli stóð í dag á milli klukkan 10:00 og 14:00.

 

Verkfallið náði til blaða- og tökumanna og ljósmyndara sem starfa á netmiðlum Sýnar, RÚV, Fréttablaðsins og Morgunblaðsins hófst klukkan 10:00 og stóð yfir til klukkan 14:00.

Athygli vakti að nýjar fréttir birtust á meðan á verkfallinu stóð á vef Morgunblaðsins.

„Verkfallsbrot hafa nú átt sér stað bæði á RÚV og Árvakri. Á RÚV var myndatökumaður, sem er verktaki og utan félaga, vaktsettur og látinn vinna og fréttir hafa verið að birtast inni á mbl.is. Atvikin verða umsvifalaust kærð til félagsdóms. Það er með ólíkindum að miðlarnir hagi sér með þessum hætti, ekki síst miðill í eigu ríkisins,“ útskýrir Ragnhildur.

„Atvikin verða umsvifalaust kærð til félagsdóms.“

Hún bætir við: „Túlkun Blaðamannafélags Íslands á framkvæmd verkfallsins er að ekkert átti að á vefinn milli 10-14 í dag og ljósmyndarar og tökumenn áttu ekki að fara í tökur. Verktakar áttu ekki að vinna, utanfélagsfólk átti ekki að vinna og fólk í öðrum stéttafélögum átti ekki að vinna. Verkfallið náði til fjögurra fjölmiðlafyrirtækja sem eru innan Samtaka atvinnulífsins – Árvakurs, Torgs, Sýnar og RÚV. Verkfallið náði ekki til félaga í Félagi fréttamanna á RÚV eða félaga í Rafiðnaðarsambandinu á Sýn.“

Hún segir verkfallsverði hafa verið á umræddum miðlum í dag. „Hlutverk þeirra var að fylgjast með framkvæmdinni og skrá niður verkfallsbrot.“

Sjá einnig: Verkfall blaðamanna hafið

„Óléttukellingamótmæli“ hefjast í dag

Efnt hefur verið til mótmæla fyrir utan Dómsmálaráðuneytið við Sölvhólsgötu í dag klukkan 15, vegna brottvísunar albanskrar konu, sem gengin er 37 vikur á leið, og fjölskyldu hennar úr landi fyrr í vikunni. Yfirskrift mótmælanna er „óléttukellingamótmæli“.

 

Konunni, sem hafði verið neitað um alþjóðlega vernd, var send úr landi þvert á ráðleggingar læknis á kvennadeild Landspítala. Hún er nú stödd ásamt fjölskyldu sinni Albaníu þar sem hún þurfti að leita á sjúkrahús eftir flugið af ótta við fyrirburafæðingu.

Fjallað er um mál fjölskyldunnar í nýjasta tölublaði Mannlífs í dag þar sem rætt er við Magnús Davíð Norðdahl lögmann. „Þetta er einstaklega fautalegt og ómannúðlegt að framkvæma brottvísun á konu sem er þetta langt gengin,“ segir Magnús meðal annars, en viðtalið má lesa í heild sinni hér.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur málið vakið miklar deilur og er ástæða mótmælanna seinna í dag. „Ófrískar konur og mæður með ung börn ætla að mæta í Dómsmálaráðuneytið á Sölvhólsgötu á morgun, föstudag, kl.15 og mótmæla þeirri ómannúðlegu meðferð á fólki sem varð til þess að ófrískri konu og tveggja ára barni hennar var vísað úr landi á aðfaranótt þriðjudags!“ skrifaði Salka Gullbrá á Twitter í gær. „Barnlaus og ó-ólétt auðvitað líka velkomin.“

Sjá einnig: Kasólétt kona neydd i flug

Ísland á bannlista þýska bankans CDB

Það sverfur að okurlánurum.

Íslensk­um viðskipta­vin­um Cyprus Develop­ment Bank (CDB) var á dög­un­um neitað um milli­færslu um­tals­verðrar fjár­hæðar á banka­reikn­inga hér á landi.

 

Kemur þetta fram í frétt á Mbl.is, en sam­kvæmt gögn­um lýt­ur ákvörðunin að breyttri stefnu bank­ans um hvaða viðskipta­vini hann vill samþykkja. Stefnan tók gildi nú í nóvember.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er Ísland á lista hjá bank­an­um yfir þau lönd sem ekki er heim­ilt að opna á milli­færsl­ur af nein­um toga.

Jón Þór biður fólk um fyrirgefningu: „Ekki öskra á okkur eða gefa okkur puttann“

|
|Jón Þór Tómasson

„Hvað get ég annað sagt en „fyrirgefið mér.“

 

Með þessum orðum hefst færsla sem Jón Þór Tómasson deilir í Facebook-hópnum Hvernig er færðin? Þar skrifar hann um starf sitt við snjómokstur, en í færslunni kemur fram að oft á tíðum fá bílstjórar snjómoksturbíla dónalegar móttökur vegfarenda þegar þeir sinna snjómokstrinum.

„Ég vil bara að þið vitið að ég veit að ykkur langar að komast heim eftir erfiðan dag í vinnunni, eftir erfiðan viðtalstíma hjá lækni, eftir jarðaför, eftir að hafa keyrt maka í flug. Ykkur langar að komast á viðburð sem þið keyptuð miða á fyrir mánuðum síðan. Ykkur langar að komast í sunnudagsmat til mömmu, upp í bústaðinn, í jólaboðið, afmælið og fullt af öðrum stöðum,“ heldur Jón Þór áfram.

Jón Þór Tómasson
Mynd / Aðsend

Hins vegar eins og Jón Þór bendir á þá er veðrið og færð á vegum ekki alltaf með vegfarendum, vegir lokaðir og þá þarf að moka með tilheyrandi töfum á umferð.

Í samtali við Mannlíf segir Jón Þór að hann hafi starfað við snjómokstur frá árinu 2000, fyrst í Reykjavík. „Ég er búinn að vera í snjómokstrinum á Hellisheiði í fimm ár hjá Ingileif Jónssyni EHF. Hann hefur séð um snjómokstur á Hellisheiði óslitið síðan 2004. Þar áður var ég mikið í snjómokstri í Reykjavík.“

„Stundum kemur það samt fyrir að þið komist ekki því það er búið að loka vegunum. Sem betur fer sýna því flestir skilning, en oft fá þeir sem sinna vegunum bara skít og skömm og kallaðir nöfnum sem varla eru birtingarhæf. Þetta er ekki leikur hjá okkur, langt í frá. Við erum í vinnu, vinnu sem þarf að vinna, vinnu sem einhver annar munu vinna ef ég geri það ekki. Það eru um 200 manneskjur á íslandi sem vinna við snjómokstur á vegum. Við erum að vinna í öllum veðrum við allar mögulegar aðstæður, alla daga, sunnudaga, jól, áramót, páska. Alla daga frá 15. september til 15. maí (breytilegt eftir hvaða vegir það eru). Við leggjum allt á okkur svo þið komist í mat til mömmu, afmæli, vinnuna, bíó eða hvert sem þið eruð að fara. Þegar veðrið er virkilega vont, ekkert ferðaveður og ekkert vinnuveður erum við samt í vinnunni svo þið komist eins fljótt af stað og mögulegt er eftir að veðrið lagast. Við erum partur af því að þið, ættingjar og vinir komist undir læknishendur þegar veður er vont.“

Jón Þór er önnur kynslóð í starfinu og má segja að hann hafi alist upp í því. „Pabbi sá um snjómokstur í uppsveitum Árnessýslu frá 1988 til 2000 og þá var ég mjög mikið með honum í bílnum.“

Í færslunni bendir Jón Þór á að ekki sé verið að tefja vegfarendur af ásettu ráði, heldur eingöngu verið að gera ferðalagið öruggara. Biður hann vegfarendur um að gera sér greiða og sleppa því að öskra, gefa mokstursmönnum puttann eða negla niður fyrir framan snjómokstursbíl.

„Þó við séum á litlum hraða eða á miðjum vegi erum við ekki að reyna tefja ykkur. Við erum að reyna gera ferðalagið þitt eins öruggt og við getum. Gerið mér greiða. Ekki öskra á okkur, gefa okkur puttana eða negla niður beint fyrir framan snjómokstursbíl þó við höfum verið að tefja ykkur. Við erum að þessu fyrir ykkur.“

Nýtt lag og tónleikar á Iceland Airwaves

Elín Hall gaf út nýtt lag og nýja plötu

Tónlistarkonan Elín Hall sendi í gær frá sér Lagið. Lagið er fyrsti síngúllinn af væntanlegri plötu Elínar sem ber titilinn Með öðrum orðum. Áætluð útgáfa plötunnar er í byrjun árs 2020.

 

Elín Hall kom áður fram undir nafninu Elín Sif og gaf út lagið Make You Feel Better árið 2017. Einnig gaf hún út plötu með hljómsveitinni Náttsól í byrjun árs 2019. Af þeirri plötu eru helst þekkt lögin Hyperballad (Cover) og My Boyfriend is Gay.

Elín Hall er að auki þekkt fyrir leik sinn í kvikmynd Baldvins Z. Lof mér að falla þar sem hún fór með aðalhlutverk.

Í vikunni kemur Elín Hall fram á Iceland Airwaves þar sem hún mun flytja lög af plötunni ásamt öðru óútgefnu efni. Elín spilar í Iðnó í kvöld, föstudag, klukkan 20.20 og á Reykjavík Konsulat Hótel á morgun, laugardag, klukkan 18.