Þriðjudagur 25. febrúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Samskiptavandi hjá Vinnueftirlitinu – Eiganda Attentus vikið fyrir meintan dónaskap

Vinnueftirlitið hefur unnið að því undanfarin misseri að bæta vinnuandann hjá stofnuninni, starfsandi er lélegur, starfsmannavelta mikil og og mikill samskiptavandi milli stjórnenda og almennra starfsmanna.

 

Fjallað var um málið í Fréttablaðinu um helgina og í blaðinu í dag kemur fram að Vinnueftirlitið hefur keypt þjónustu frá ráðgjafarfyrirtækinu Attentus varðandi mannauðsmál stofnunarinnar.

Einn eigenda Attentus sinnti verkefninu í byrjun árs, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins nefndi trúnaðarmaður við hann að margir starfsmenn vinnuvéladeildar stofnunarinnar íhuguðu að hætta störfum vegna óánægju með laun og ekki síður starfsanda innan eftirlitsins. Á ráðgjafinn að hafa svarað þessum áhyggjum trúnaðarmanns á þá leið að hann hefði engar áhyggjur af að missa starfsmennina því að þeir myndu aldrei fá vinnu annars staðar.

Í kjölfarið kröfðust starfsmenn þess bréflega að ráðgjafanum yrði vikið frá störfum, og var bréfið  sent á Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra, Hönnu Sigríði forstjóra Vinnueftirlitsins, Attentus og stéttarfélögin. Heimildir Fréttablaðsins herma að starfsmönnunum sem skrifuðu bréfið hafi verið skipað að draga það til baka og hótað málsókn ef ekki yrði orðið við því. Starfsmennirnir stóðu þó við sitt, og sagði ráðgjafinn/einn eigenda Attentus sig frá verkefninu og nýr ráðgjafi frá Attentus tók við verkefninu.

Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.

Karlmaður rekinn úr setlaug

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Lögreglan a höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast á kvöld og næturvaktinni en alls voru 50 mál bókuð á tímabilinu kl. 17-5.

 

Laust eftir miðnætti kom öryggisvörður að manni sem hafði farið yfir girðingu í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði og var þar í setlauginni. Karlmaðurinn var rekinn upp úr og látinn laus eftir upplýsingatöku lögreglu.

Um sama leytir var 15 ára ökumaður stöðvaður í Kópavogi. Var hann kærður fyrir akstur án ökuréttinda og eldri farþegi kærður fyrir að fela ökumanni stjórn ökutækis. Haft var samband við forráðamann og málið tilkynnt til barnaverndar.

Þó nokkrar tilkynningar bárust lögreglu á tímabilinu um ósjálfbjarga fólk í annarlegu ástandi. Fólkið var aðstoðað, ýmist með akstri heim til sín, á slysadeild eða gistiskýlið.

Tómas Már úr forstjórastóli Alcoa í forstjórastól HS Orku

Tómas Már Sigurðsson

Tómas Már Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri HS Orku og hefur hann störf næstu áramót.

 

Tómas Már kemur til liðs við HS Orku eftir farsælan feril hjá Alcoa, þar sem hann gegndi síðast stöðu aðstoðarforstjóra á heimsvísu.

„Tómas hefur mikla reynslu af íslenskum raforkumarkaði, sem og af uppbyggingarverkefnum og stefnumótun jafnt innanlands sem utan. Hans reynsla og þekking mun nýtast vel á því vaxtarskeiði sem framundan er hjá fyrirtækinu,“ segir Bjarni Þórður Bjarnason stjórnarformaður HS Orku í tilkynningu á vef fyrirtækisins.

„Það er mér mikil ánægja að ganga til liðs við HS Orku. Fyrirtækið hefur verið frumkvöðull í jarðhitanýtingu auk margs konar nýsköpun og þróun henni tengdri, líkt og Auðlindagarður HS Orku ber vitni um, en hann er einstakur á heimsvísu og til marks um það hvernig hægt er að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti, samfélaginu og umhverfinu til heilla. Þau tækifæri sem blasa við HS Orku eru afar spennandi og ég hlakka til að vinna að þeim með því afburðarfólki sem hjá fyrirtækinu starfar,“ segir Tómas Már.

 

Tómas Már hefur starfað um árabil hjá Alcoa, þar sem hann gegndi stöðum forstjóra Alcoa á Íslandi, í Evrópu og Mið-Austurlöndum, og nú síðast frá 2014 stöðu aðstoðarforstjóra fyrir Alcoa Corporation. Áður starfaði Tómas sem framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Norðuráli. Tómas Már er menntaður umhverfisverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í skipulagsverkfræði frá Cornell-háskólanum í New York. Hann hefur setið í fjölda stjórna og var meðal annars formaður Viðskiptaráðs frá 2009-2012, sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2005-2011 og hefur verið í stjórn evrópskra álframleiðenda frá 2012.

 

New York bannar foie gras

Veitingamenn og sælkerar harma nýja reglugerð í New York sem bannar sölu á foie gras, ftaðri lifur úr önd eða gæs, sem þykir mikið lostæti. Dýraverndunarsinnar fagna hins vegar ákaft enda segja þeir framleiðsluaðferðirnar hreint dýraníð.

 

Borgarráð New York samþykkti á miðvikudag að banna sölu á foie gras. Mikill meirihluti var fylgjandi banninu, atkvæði féllu 42 gegn 6, en málið hefur verið til umræðu í þó nokkur ár. „New York er Mekka matargerðar í heiminum. Hvernig er það mögulegt að það verði ekki hægt að fá foie gras í New York?“ hafði New York Times eftir Marco Moreira, eiganda og yfirkokki Tocque – ville. „Hvað verður það næst? Ekkert kálfakjöt? Engir sveppir?“ Moreira er ekki einn um að mótmæla banninu en mörgum kollegum hans og ekki síður bandarískum foie gras-framleiðendum þykir hart að sér sótt. Kokkarnir benda á að um sé að ræða lykil hráefni á fínum veitingastöðum en framleiðendurnir óttast um rekstargrundvöll fyrirtækja sinna. Tveir stærstu framleiðendur foie gras í New York-ríki, Hudson Vall0ey Foie Gras og La Belle Farm, eru með um 400 manns í vinnu og selja um 30% framleiðslu sinnar til veitingastaða og smásöluaðila í New York-borg. Dýraverndunarsinnar eru hins vegar hæstánægðir með niðurstöðuna, enda vilja þeir meina að framleiðsla foie gras sé ekkert annað en dýraníð. Foie gras stend – ur fyrir „fituð lifur“ en um er að ræða lifrina í öndum og gæsum sem hafa verið offóðraðar af kornblöndu, sem neydd er ofan í þær með röri. Hefðbundin andalifur er dökkrauð á lit og vegur um 90 grömm en fituð lifur er hvít á lit og vegur um 800 grömm. Dýraverndunarsinnar hafa þannig ekki eingöngu áhyggjur af þeim aðferðum sem er beitt við fóðrunina, heldur segja þeir fuglana hreinlega ekki bera lifrina og stærð hennar geri þeim að auki erfitt að anda.

„Hvað verður það næst? Ekkert kálfakjöt? Engir sveppir?“

Hefðbundin andalifur er dökkrauð á lit og vegur um 90 grömm en fituð lifur er hvít á lit og vegur um 800 grömm.

Hluti af stærri dýravelferðarpakka

Framleiðsla foie gras hefur verið bönnuð í Kaliforníu um nokkurt skeið og hún er sömuleiðis bönnuð í mörgum Evrópuríkjum. Í New York mun sala á foie gras varða 2.000 dala sekt en gagnrýnendur segja óljóst hvernig borgaryfirvöld hyggjast fylgja banninu eftir. Benda þeir m.a. á að hægt sé að fá foie gras sem er framleitt með mannúðlegri aðferðum en samkvæmt banninu mun það standa á veitingahúsunum og smásölunum að sanna að sú vara sem þeir hafa á boðstólnum sé framleidd á mannúðlegan hátt. „Kalifornía og New York voru okkar stærstu markaðir, þannig að þetta er mikið áfall,“ segir Sergio Saravia, stofnandi La Belle. Hann segir tekjur fyrirtækisins hafa dregist saman um 50 þúsund dali á viku eftir að foie gras var bannað í Kaliforníu. „Það verður erfitt að halda rekstrinum gangandi.“ Borgarráðsmenn segja fyrirtækin hins vegar framleiða földa annarra afurða og að þau ættu ekki að þurfa að reiða sig á hinar grimmilegu aðferðir. Bannið við sölu á foie gras var hluti af stærri reglugerðarpakka gegn dýraníði. Í honum felast m.a. nýjar reglur um bann við „akstri“ hestvagna í of heitu og röku veðri og bann við því að fanga og flytja dúfur úr borginni, en utanbæjar hafa þær verið notaðar sem skotmörk við skotæfingar.

PETA lýsir grimmilegum aðferðum og aðstæðum

Á heimasíðu dýraverndunarsamtakanna PETA segir að foie gras sé framleitt með því að dæla einu til tveimur kílóum af korn- og ftublöndu ofan í fuglana á hverjum degi.

Margir þeirra eigi erftt með að standa þar sem lifrin bólgnar út í kviðarholinu og þá eigi þeir til að reyta fjaðrir sínar og ráðast hver á annan vegna streitu. PETA segir offóðrunina einnig valda skemmdum á vélindanu, niðurgangi, lifrarbilun, sárum og brotum. Þá drepist fuglar einnig þegar fóðrið fer ofan í lungun eða þeir kafna í eigin ælu. PETA bendir einnig á að þar sem foie gras sé aðeins framleitt úr karlkynsfuglum sé kvenfuglunum kastað lifandi í hakkavél og seldir sem kattafóður. Um sé að ræða 40 milljón unga í Frakklandi, þaðan sem foie gras á rætur sínar að rekja. „Rannsókn PETA á Hudson Valley Foie Gras í New York leiddi í ljós að hverjum starfsmanni var ætlað að þvinga fóður ofan í 500 fugla þrisvar sinnum á dag. Hraðinn varð til þess að þeir fóru oft hörðum höndum um fuglana, sem leiddi til meiðsla og þjáninga. Vegna þess hversu margar endur drápust af því að líffærin gáfu sig vegna offóðrunarinnar, fengu þeir starfsmenn sem drápu færri en 50 fugla á mánuði bónus,“ segir á heimasíðu PETA. Þá segir að stærsti framleiðandi foie gras í heiminum, Rougié, haf orðið uppvís að því að halda öndunum í afar þröngum búrum, með höfuðið og hálsinn standandi út úr búrunum til að gera fóðrunina auðveldari. Fuglarnir haf lítið getað annað en að standa upp, leggjast niður og hreyfa hausinn. „Þeir geta hvorki snúið sér við né lyft væng.“

Allt í kæfu milli Frakka og Þjóðverja

Árið 2011 komu upp diplómatískar erjur milli Frakka og Þjóðverja þegar skipuleggjendur Anuga-matarhátíðarinnar í Cologne ákváðu að banna foie gras vegna þrýstings frá dýraverndarsinnum. Framleiðsla foie gras er bönnuð í Þýskalandi

Okkur til mikillar undrunar hafa skipuleggjendur hátíðarinnar tilkynnt okkur að héðan í frá getum við ekki boðið upp á foie gras,“ harmaði Alain Labarthe, forseti samtakanna Vive le foie gras!. Landbúnaðarráðherra Frakklands, Bruno le Maire, skrifaði kollega sínum í Þýskalandi, Ilse Aigner, og bað hana vinsamlegast um að afétta banninu. Ellegar myndu hann og aðrir þýskir ráðamenn sniðganga opnunarhátíðina. Le Maire sagði franska framleiðendur fara að öllum evrópskum reglugerðum um velferð dýra en Aigner sagðist ekki hafa vald til þess að snúa ákvörðun skipuleggjenda hátíðarinnar.

Málið varð til þess að bæði stuðningsmenn og gagnrýnendur bannsins létu hátt í sér heyra. Meðal þeirra sem voru fylgjandi banninu var leikkonan og dýraverndarsinninn Brigitte Bardot sem hvatti aðstandendur Anuga-hátíðarinnar til að láta ekki undan þrýstingi. Dýraverndarsinnar héldu því m.a. fram að aðeins 15% franskra fram – leiðenda hefðu lagað starfsemi sína að nýrri Evrópureglugerð sem gekk í gildi 2011, sem bannaði að fuglum væri haldið einum í svo litlum búrum að þeir gætu ekki breitt úr vængjunum. „Þetta er ótrúlegt. Þetta er eins og að banna þýskar pylsur í Frakklandi,“ sagði Alain Fauconnier, þingmaður sósíalista, í erindi til sendiherra Þýskalands í París

Dómsmál, siðareglur og klónun

Í hverri viku útnefnir Mannlíf þá einstaklinga sem hafa blómstrað í vikunni og þá sem hafa ekki átt jafn auðvelt uppdráttar. Freyja Haralsdóttir , lendir í fyrri flokknum á meðan Borgarleikhúsið, ritstjóri DV og Dorrit lenda í þeim seinni.

 

Góð vika – Freyja Haraldsdóttir

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra hefur ærna ástæðu til að gleðjast eftir að hafa rekist á sjarmatröllið George Clooney úti á landi og sömuleiðis Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri Wow air, og Gríma Björg Thorarensen innanhússhönnuður en þau eiga von á barni. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, var sums staðar hampað eins og rokkstjörnu eftir að hafa beðið samkynhneigða afsökunar fyrir hönd þjóðkirkjunnar vegna sársauka sem kirkjan hefði valdið þeim í gegnum tíðina. Ummæli biskups um siðrof í skólum, sem höfðu vakið undrun, féllu nánast í skuggann af þessu útspili. En eflaust áttu fáir betri viku en Freyja Haraldsdóttir. Hæstiréttur úrskurðaði að Barnaverndarstofa hafi mismunað Freyju vegna fötlunar hennar þegar henni var neitað um mat á því hvort hún gæti gerst fósturforeldri. Freyja hefur sagst vera í skýjunum með niðurstöðuna.

Slæm vika – Borgarleikhúsið

Þetta dálkapláss er þéttsetið þessa vikuna. Fyrrverandi forsetafrú Íslands, Dorrit Mousaieff, fékk bágt fyrir þegar hún frumsýnd klón af Sámi, látnum hundi sínum og ekki átti ritstjóri DV, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, sjö dagana sæla þar sem siðanefnd Blaðamannfélagsins komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið gegn siðareglum með umfjöllun blaðsins um fanga. Mesti skellurinn hlýtur þó að hafa verið fyrir Borgarleikhúsið sem var í vikunni dæmt til að greiða Atla Rafni Sigurðssyni leikara 5,5 milljónir í bætur og eina milljón í málskostnað. Atla Rafni var sagt upp í leikhúsinu vegna ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni og stefndi hann í kjölfarið leikhúsinu og leikhússtjóra þess, Kristínu Eysteinsdóttur. Kom úrskurðurinn Leikfélagi Reykjavíkur í opna skjöldu og hefur það gripið til þess ráðs að áfrýja dómnum.

„Það er bókstaflega allt að hrynja hér innanhúss“

Mannlíf tók saman nokkur áhugaverð ummæli sem voru látin falla í vikunni.

 

„Framtíðin kallar á okkur að gera betur.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ræðu sinni á fundi norrænna forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi. Þar voru umhverfismál í öndvegi.

„Það er bókstaflega allt að hrynja hér innanhúss.“

Rúnar Helgi Andrason, sálfræðingur á Reykjalundi, um ástandið á stofnuninni.

„Ætlar bankinn að afnema hraðbankagjöld fyrir fátæku láglaunakonurnar?“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, gagnrýnir Íslandsbanka fyrir að ætla að hætta viðskiptum við þá fjölmiðla sem ekki standast tiltekin skilyrði sem snúa að kynjahlutföllum. Hún segir aðgerðirnar vera hræsni.

„Stundum fær maður hugmyndir sem virka rosalega góðar við fyrstu sýn. Svo hugsar maður aðeins og eftir smástund kemst maður að því að þetta væri sennilega eitthvað sem væri ágætt að hugsa aðeins betur.“

Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður um útspil bankans.

„Sorry to break it to you, en þessi pistill þinn er karlpungaskoðun.“

Sóley Tómasdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúi, svarar Loga.

„Fráleit aðför að ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðla.“

Ályktun frá stjórn Blaðamannafélags Íslands vegna málsins.

„Þetta er farið að lykta af hergagnaflutningum. Hvað er allt þetta tal um „umsvif Bandaríkjastjórnar“? Menn hafi bakgrunn Ballarin í huga, hún er m.a. þekkt fyrir að vera milligöngumaður við sómalska vígamenn og sjóræningja.“

Vilhjálmi Þorsteinssyni, fyrrverandi gjaldkera Samfylkingarinnar, líst ekki á áform Michelle Ballarin um endurreisn WOW.

„Ég bulla ekki og blaðra, ég veit hvað ég segi, svo nú er tími fyrir forpokað lið að þegja og hlusta.“

Sigga Dögg kynfræðingur er ósátt við að vera sökuð um að vita ekki sínu viti og vera bönnuð í sumum skólum.

„Nennirðu í alvörunni að láta ekki eins og þú sért í Kardashian-fjölskyldunni. Eða Elon Musk. Elíturugl.“

Eva H. Baldursdóttir, pistlahöfundur á man.is, hneyksluð á Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú Íslands, fyrir að láta klóna hund sinn Sám.

„Mæli ekki með því að klóna hunda og ketti, en þetta er fallegt hjá Dorrit.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

 

Hvítur hvítur dagur vann aðalverðlaun Norræna kvikmyndadaga

||||
Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar

Í gærkvöldi vann Hvítur hvítur dagur aðalverðlaun Norrænna kvikmyndadaga í Lübeck í Þýskalandi, sem haldnir voru í 61 sinn.

 

Ingvar E. Sigurðsson sem leikur aðalhlutverk myndarinnar var viðstaddur og tók á móti verðlaununum. Myndin fer í almenna dreifingu í kvikmyndahúsum í Þýskalandi þann 13. febrúar.

Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar
© Nordische Filmtage Lübeck

Mikill fjöldi norrænna kvikmynda kepptu um verðlaunin, þeirra á meðal Héraðið eftir Grím Hákonarson, Queen of Hearts eftir May el-Toukhy (sem vann Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs í síðustu viku), About Endlessness eftir Roy Andersson og Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson. Verðlaunaféð er 12.500 evrur eða um 1.700.000 íslenskra króna.

Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson hlaut einnig verðlaun á hátíðinni, The Interfilm Church Prize, ásamt verðlaunafé upp á 5.000 evrur eða um 700.000 íslenskra króna.

Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar
© Nordische Filmtage Lübeck

Sjá nánari upplýsingar um alla sigurvegara hér og umsagnir dómnefnda hér.

Kvikmyndahátíðin í Lübeck er eina kvikmyndahátíðin í Evrópu sem einblínir sérstaklega á norrænar kvikmyndir ásamt kvikmyndum fráEystrasaltlöndunum og norðurhluta Þýskalands. Þetta árið voru í heildina níu íslensk kvikmyndaverk sýnd á hátíðinni.

Aðrar íslenskar myndir sem hlotið hafa aðalverðlaun hátíðarinnar eru
eftirfarandi:
Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson 2018
Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson 2016
Vonarstræti eftir Baldvin Z 2014
Hin Helgu Vé eftir Hrafn Gunnlaugsson 1994

Hvítur, hvítur dagur hefur því hlotið níu verðlaun hingað til, en hún vann nýlega sín þriðju verðlaun í Bandaríkjunum, það er Besta Norræna Kvikmyndin á Alþjóðlegu Norrænu kvikmyndahátíðinni í New York.

Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar
© Nordische Filmtage Lübeck
Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar
© Nordische Filmtage Lübeck

Óléttan skyggði á veisluhöldin

|||
|||

Albert Eiríksson, sem heldur úti blogginu alberteldar.com, hlustar mikið á hlaðvörp og segir margt heilla. „Síðast fékk ég t.d. mikinn áhuga á hugleiðslu. Núna hlusta ég mest á hlaðvörp um mat og ferðalög. Áhuginn breytist milli mánaða.“ Hér að neðan eru þrjú hlaðvörp sem Albert segir vel þess virði að hlusta á.

 

Eplatínslumenn og vélmenni

„The Food Chain er fjölbreyttur vikulegur hlaðvarpsþáttur á BBC. Þar er fjallað um allt sem viðkemur mat og tengist honum á einhvern hátt. Núna síðast var ég að hlusta á viðtal við farandverkamenn sem koma árlega til Englands til að tína epli af trjám og vangaveltur um hvort vélmenni geti leyst þá af í framtíðinni. Duglegur eplatínslumaður nær 100 eplum á mínútu og getur náð yfir tonni á dag.“

Smámunasamur húmoristi

„Help I Sexted My Boss. William Hanson er með hlaðvarp ásamt Jordan North. William er helsti sérfræðingur Breta þegar kemur að borðsiðum og mannasiðum. Hann hefur sérstakan áhuga á konungsfjölskyldunni, viðskiptamálsverðum, Afternoon Tea, já, eiginlega öllum mannlegum samskiptum. Stundum er honum öllum lokið yfir einhverju sem okkur finnst algjört smáatriði en langoftast hefur hann góðan húmor fyrir sjálfum sér. Í síðasta þætti sem ég hlustaði á var verið að fjalla um veislustjóra og hvað þeir verða að varast. Þeir sögðu sögu af hjónum sem tóku að sér veislustjórn í giftingu vina sinna og tilkynntu þar að þau, veislustjórarnir, ættu von á barni. Eftir þetta snerist brúðkaupsveislan að mestu um óléttuna og annað henni tengt. Þeir tóku þetta sem dæmi um að veislustjórar þurfa að vanda sig og verða að gæta orða sinna. William þessi Hanson er reglulegur gestur í ýmsum hlaðvörpum og talar þar um borðsiði og kurteisi.“

Saga þekktra rétta

„The Dish er líflegt matar- og ferðahlaðvarp. Þar er farið um allan heim og fræðst um sögu þekktra rétta, sagt hvað er áhugavert að gera og hverju fólk má alls ekki missa af. Nýlega heyrði ég ítarlegan þátt um hinn fræga gríska feta-ost og annan um sögu kúskús. Kúskús á sér merka sögu og nokkur munur er á því eftir löndum.“

 

Fallegt og hugljúft lag frá Raven

Raven, eða Hrafnhildur eins og hún heitir, er ung söngkona og lagahöfundur á uppleið. Sumir þekkja Raven úr hljómsveitinni White Signal, en hún hefur undanfarið einbeitt sér að sólóefni og sendi nýverið frá sér lagið Hjartað tók kipp.

Texti lagsins er afar angurvær en hann fjallar um sambandsslit og aðila með brostið hjarta sem reynir að skilja hvers vegna hin manneskjan gafst upp. Þrátt fyrir sorglega sögu er lagið sjálft nokkuð kraftmikið og gefur tilfinningu um einhverja von og skilning.

Hjartað tók kipp var fullsamið á aðeins nokkrum klukkutímum, að sögn höfundar, og textinn og form lagsins hefur haldið sér síðan þá. Lagið er fyrsta lag Raven á íslensku, en í sumar gaf hún út stærri og poppaðri útgáfu af lagi sínu Half of me sem hafði hingað til bara verið til í órafmagnaðri útgáfu á streymisveitum og notið vinsælda þar.

Þess má geta að Raven stefnir á að gefa út sex laga EP-plötu (stuttskífu) á næstu mánuðum.

 

Best að vinna meðan borgin sefur

Ninna Þórarinsdóttir er listakona með fjölbreyttan feril að baki og fæst við allt mögulegt; hönnun, myndskreytingar, hönnun og fleira. Hún segir að það sé mikilvægt að hafa gaman af vinnunni og finna sinn stíl.

 

Hvernig listamaður ertu? „Ég er hálfgerð samblanda af listamanni og hönnuði. Stíllinn minn er vanalega mjög grafískur, litríkur og hress – kannski blanda af því að vera krúttlegur og skrítinn með svolítinn húmor.“

Hvernig verk gerir þú aðallega og fyrir hvað? „Ég hef mikið verið að teikna fyrir fyrirtækið ICD sem gerir minjagripi, t.d. póstkort, handklæði, viskastykki, lyklakippur og svo framvegis. Ég hef einnig tekið að mér teikningar og grafíska hönnun fyrir lógó, bækur, hreyfimyndir og kynningar. Þessa dagana er ég aðallega að vinna fyrir Borgarbókasafnið. Þau eru að vinna að heildarútliti fyrir öll sex bókasöfnin og ég sé um myndskreytingarnar, t.d. fyrir veggmyndir, póstkort, bæklinga, hreyfimyndir og nokkra nýja hluti sem munu vera í barnadeildinni.

Myndir / Hallur Karlsson

Undanfarið hef ég verið að  vinna verk í Procreate á iPad pro. Ég hef alltaf haft rosalegan áhuga á nýjum aðferðum og tækni þannig að ég ákvað að prófa þetta og er algerlega hugfangin af þessu. Hugmyndavinnan virkar þannig hjá mér að ég þarf svolítinn tíma til að melta verkefnið án þess að gera neitt með það. Svo byrja ég að skissa þar til ég er ánægð með hugmyndina, finn liti sem passa og get þá byrjað á myndinni.

Hvaðan færðu innblástur? „Í tónlist, á ferðalögum, í fínum bókum og með því að spjalla við skemmtilegt fólk.“

Hvenær sólarhringsins finnst þér best að vinna? „Snemma á morgnana, helst áður en borgin er vöknuð. Svo hljóð og tímalaus tilfinning í loftinu.“

Myndir / Hallur Karlsson

Hefur þú alla tíð haft gaman af því að teikna og mála? „Já, en ég hætti því yfir langt tímabil þar sem ég hélt að ég kynni ekki að teikna eins og það „ætti” að teikna. Mér var svo algerlega ýtt út í það aftur og þá uppgötvaði ég að þetta snýst aðallega um að þora, hafa gaman og finna sinn eigin stíl sem manni líður vel með. Síðan þá hef ég ekki getað hætt.“

„…þetta snýst aðallega um að þora, hafa gaman og finna sinn eigin stíl sem manni líður vel með.“

Ákvaðst þú á einhverjum tímapunkti að verða listamaður eða gerðist það bara „óvart“? „Mig minnir að ég hafi alltaf viljað verða listamaður, það tók samt svolítinn tíma fyrir mig að „leyfa“ mér að vilja það og loksins láta á reyna.“

Myndir / Hallur Karlsson

Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér? „Becky and Joe, Gary Baseman, Bubi Au Yeung, Friends With You, Bernardo P. Carvalho, Nick Cave (fatahönnuðurinn) og Rilla Alexander.“

Hvað er fram undan á næstu misserum? „Hönnun á brúðu fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og teikningar fyrir Borgarbókasafnið. Áframhald með Léttur í lunda-leikinn, Bita og Bubba-leikföngin og að njóta lífsins.“

Myndir / Hallur Karlsson

Gríðarleg áhrif Game of Thrones

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir hefur í nógu að snúast um helgina því auk þess að stýra pallborðsumræðum kemur hún að skipulagi Kynjaþings

Höfundar, útgefendur og annað bókmenntafólk munu hittast og ræða íslenskar furðusögur á málþingi sem verður haldið í Norræna húsinu á sunnudag klukkan 14 undir yfirskriftinni Æsingur – Furðusagnahátíð. En hvað eru furðusögur? Mannlíf náði tali af Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttir sem stýrir pallborðsumræðum og grennslaðist fyrir um það.

 

„Furðusögur er í stuttu máli samheiti yfir fantasíur, hrollvekjur og vísindaskáldsögur, eða með öðrum orðum skáldskápur sem tekur á furðulegum hlutum í okkar heimi og reynir að ímynda sér framtíðina eða alls konar hliðarvíddir,“ útskýrir Brynhildur og bætir við að á málþinginu verði einmitt farið nánar út í þetta og jafnframt skoðað hvaða stöðu furðusögur hafi í íslenskri sagnamenningu og hvert þær stefni.

Að hennar sögn er þetta í fyrsta sinn sem Æsingur fer fram en um er að ræða afsprengi hinnar alþjóðlegu hátíðar Ice-Con sem hefur verið haldin tvívegis í Reykjavík við góðar undirtektir, fyrst árið 2016 og svo 2018. „Ice-Con var vel tekið og það benti til þess að það væri vettvangur til að ræða furðusögur á íslensku. Til að tryggja framgang furðusögunnar er nefnilega mikilvægt að höfundar og lesendur fái tækifæri til að spjalla saman um furðusögur og kynnist nýjum straumum og stefnum og að lesendur geti kynnst höfundum sem eru að spreyta sig á þessari stórskemmtilegu tegund bókmennta,“ segir hún en á meðal höfunda sem taka þátt í pallborðsumræðum má nefna Hildi Knútsdóttur, Alexander Dan og Ármann Jakobsson.

Hið yfirnáttúrulega aftur vinsælt

Furðusögur, hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur eru vinsælt lesefni úti í heimi, en Brynhildur segir að í raun sé skrítið hvað þeim hafi gengið illa að ná fótfestu á Íslandi. „Eins og við vitum hafa þannig sögur verið vinsælar erlendis um langt skeið en það er eins og íslenskir lesendur, og þá er ég að ekki að tala um börn heldur fullorðna, hafi hingað til ekki verið móttækilegir fyrir þeim. Það er bara á síðustu árum í kjölfar gríðarlegra áhrifa Game of Thrones sem fullorðna fólkið virðist vera orðið opnara. Hér áður fyrr lifðu furðusögur nefnilega góðu lífi á Íslandi, eins og sést á Íslendingasögunum og þjóðsögum, þar sem nornir og draugar ganga ljósum logum, en það er eins og ekki hafi verið pláss fyrir hið yfirnáttúrulega í íslenskum bókmenntum á 20. öldinni þegar raunsæið réði ríkjum. Nú virðist furðan vera að ryðja sér til rúms aftur.“

„Eins og við vitum hafa þannig sögur verið vinsælar erlendis um langt skeið en það er eins og íslenskir lesendur … hafi hingað til ekki verið móttækilegir fyrir þeim.“

Brynhildur er auðheyrilega ánægð með þá þróun enda segist hún sjálf vera mikill aðdáandi slíkra sagna og hafi verið það um langt skeið. „Ég get víst ekki neitað því,“ segir hún og hlær. „Ég hef mjög gaman af þessari bókmenntagrein og var ein þeirra sem tók þátt í að skipuleggja síðustu tvær Ice-Con hátíðir.“ Í ár segist hún þó ekki koma nálægt skipulaginu, heldur ætli hún að láta sér nægja að stýra pallborðsumræðunum.

„Og talandi um það, þá er kannski rétt að taka fram að það verða tvö pallborð á málþinginu þar sem farið verður inn á fyrrnefnd atriði, furðusöguna sem bókmenntagrein, stöðu slíkra sagna í íslenskri sagnamenningu og hvert þær stefna,“ segir hún. „Svo lesa höfundar upp úr verkum sem eru annaðhvort í vinnslu eða eru væntanleg um jólin. Og við endum þetta svo á hressu pubkvissi í Stúdentakjallaranum um kvöldið.“

 

 

 

 

Getur kapítalisminn bjargað sjálfur sér frá kapítalismanum?

Það sverfur að okurlánurum.

Ráðandi kerfi í heiminum síðustu áratugi hefur verið hið kapítalíska markaðshagkerfi, og systir þess vestrænt lýðræði. Þeir sem eru jákvæðir gagnvart þessum kerfum benda á að á grunni þeirra hafi friður ríkt í hinum vestræna heimi frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Að mannréttindi hafi sífellt fengið stærri sess í þeim löndum sem umfaðmað hafa kerfin. Frelsi stóraukist, tækni fleytt fram og, síðast en ekki síst, lífsgæði mæld á þeim mælikvarða sem oftast er stuðst við, hagvöxt og kaupmátt, hafi tekið stakkaskiptum.

 

Sögulega má rekja upphaf þessarar viðhorfsbreytingar í viðskiptum til áttunda áratugarins þegar menn eins og hagfræðingurinn Milton Friedman stigu fram á sviðið og boðuðu það sem í dag er best þekkt sem brauðmolakenningin. Friedman skrifaði fræga grein í The New York Times árið 1970 þar sem hann sagði það samfélagslega ábyrgt í viðskiptum að auka gróða.

Hugmyndafræðin varð síðan einkennandi undirstaða stjórnartíðar Ronalds Reagan í Bandaríkjunum og Margaretar Thatcher í Bretlandi, tveggja áhrifamestu leikendanna í alþjóðaviðskiptum á níunda áratug síðustu aldar. Skilaboðin voru minna regluverk, frekari einkavæðing, minna ríkisvald og meiri hagnaður fyrir eigendur fyrirtækja. Hluthafinn, þ.e. fjármagnseigandinn sem fjárfesti í fyrirtækjum, varð það eina sem skipti máli í rekstri fyrirtækja.

Þessi áhersla beið ákveðið skipbrot árið 2008, þegar ríki og seðlabankar víða um heim þurftu að grípa fjármálakerfi sem hafði farið langt fram úr sér. Kapítalisminn kallaði á stórtækustu ríkisafskipti mannkynssögunnar. Þrátt fyrir það hefur efsta lagið í heiminum bara orðið ríkara síðastliðinn áratug. Í fyrra var staðan þannig, samkvæmt árlegri skýrslu Oxfam, að 26 ríkustu einstaklingarnir í heiminum áttu jafnmikið af auði og sá helmingur heimsbyggðarinnar, alls 3,8 milljarðar manna, sem átti minnst. Á sama tíma hafa kröfur um aukna samfélagslega meðvitund fyrirtækja, sérstaklega gagnvart umhverfinu, stóraukist. Vegna þessa hefur þrýstingurinn á breyttar áherslur stigmagnast ár frá ári.

Í ágúst 2019 sendu bandarísku samtökin US Business Roundtable, sem samanstanda af forstjórum allra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna, frá sér yfirlýsingu. Í henni kom fram að fyrri stefna samtakanna, um að hagsmunir hluthafa ættu einir að stýra rekstri fyrirtækja, gæti ekki lengur átt við. Það þyrfti að telja til fleiri þætti eins og starfsfólk, nærsamfélag og náttúru.

Þessi stefnubreyting er í takti við fjárfestingastefnu sem margir af stærstu fjárfestingasjóðum heims hafa sett sér. Við blasir því að fyrirtæki sem horfa ekki til annarra þátta en hagnaðar munu eiga erfiðara með að nálgast fjármagn þegar þeir þurfa á slíku að halda til fjárfestingar.

Meira að segja Financial Times, forystublað kapítalismans, boðaði nýja stefnu (The New Agenda) í september síðastliðnum þar sem blaðið talaði fyrir breyttri tegund kapítalisma. Í yfirlýsingu Lionel Barber, ritstjóra Financial Times, sagði að fyrirtækjalöggjöf, skattastefna, fjölmiðlaumfjöllun og reglugerðarsetningar væru allt svið sem þyrftu að breytast með þeim hætti að samfélagsleg ábyrgð og umhverfið yrðu jafnrétthá hluthöfum. Það þurfi að skila hagnaði en með tilgangi. Fyrirtæki þurfi að skilja að slík blanda muni þjóna þeirra eigin hagsmunum en líka hagsmunum viðskiptavina og starfsmanna.

 

„Ég hafði sterka tilfinningu fyrir því að tíminn væri naumur“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Þóra Karítas Árnadóttir segir ferð á vegum UN Women til Malaví, þar sem hún tók viðtöl við brúðir á barnsaldri, hafa rifjað upp sögu móður hennar sem hún skráði í bókinni Mörk. Kynferðisofbeldi gegn börnum eigi sér engin landamæri.

 

„Mamma greindist með mjög sjaldgæfa heilabilun árið 2014 en þá var bókin Mörk, sem sneri að uppgjöri við illskiljanlegt ofbeldi sem hún sætti í æsku, vel á veg komin. Ég hafði sterka tilfinningu fyrir því að tíminn væri naumur en við fengum fimm ár eftir að hún greindist og hún lést í ágúst síðastliðnum. Ef bókin gagnast einum þá er hún þess virði að hafa verið skrifuð, sagði mamma þegar hún ákvað að treysta mér fyrir verkinu en hana grunaði ekki hve bókin átti eftir að rata víða og að nokkru eftir útgáfu hennar ætti eftir að hellast yfir heiminn flóðbylgja í nafni Metoo-byltingar og að saga hennar ætti eftir að vera gefin út í Englandi sem varð raunin í byrjun árs. Mér sýnist eftir þetta að sögur eigi það til að leita einhvern veginn lesendur sína uppi og fæða af sér ný ferðalög en mér skilst að UN Women hafi meðal annars treyst mér fyrir viðtölunum í Malaví vegna umfjöllunarefnis bókarinnar.

Bókin kom út um vor 2015 og um haustið fæddist svo frumburðurinn minn. Ég er sjálfstætt starfandi og varði seinna fæðingarorlofinu 2018 mikið til inni á elliheimili, skrifaði hverja lausa stund og sagði nei við öllum aukaverkefnum. Ég er heppin með skrifin því ég get fengið útrás fyrir sköpunarkraftinn sem býr sterkt í mér um leið og ég gat komið drengjunum mínum á lappirnar en ég hef ríka tjáningaþörf og þörf til að miðla því sem ég nem og skynja enda er ég í grunninn komin af kennurum.“

Þóra segir að of stuttur tími sé liðinn frá láti móður hennar til að hún treysti sér til að tala um sorgarferlið, hún hafi líka fengið þann arf frá móður sinni að horfa frekar fram á veginn en til baka.

„Mamma var með ótrúlegt lífsviðhorf sem ég bý að, fékk ríkan skammt af gleði í vöggugjöf og fannst að maður eigi að lifa lífinu meðan á því stendur. Tilgangurinn er sá að vera hér í samneyti við gott fólk og gleðjast við hvert tækifæri en hún var alls ekki týpa sem kvartaði, heldur sigurvegari sem naut frelsis við að hafa lagt erfiðleika að baki. Ég er henni sammála í því og finn að ég er kresin á að velja það sem gefur mér gleði í augnablikinu. Ég er ekki alin upp til að velta mér upp úr leiðindum þótt ég sé meðvituð um að sorgin þurfi að fá sína útrás og það er engin spurning, hún finnur sér sína leið og þarf rými og tíma. Ég er í undirbúningi og tökum á sjónvarpsþáttum sem ég er að vinna að í augnablikinu fyrir Sjónvarp Símans og verða sýndir 2020. Nú reyni ég að vera skynsöm og hvíla mig hverja lausa stund en það hleður líka batteríin að fást við það sem manni finnst gefandi og skemmtilegt.

„Ég er ekki alin upp til að velta mér upp úr leiðindum þótt ég sé meðvituð um að sorgin þurfi að fá sína útrás…“

Um leið og tökum er lokið ætla ég að ljúka skáldsögu sem ég hófst handa við ári eftir að ég gaf út mína fyrstu bók og vona innilega að lífið færi mér rými til að binda hnútana á bókinni því það er í mér þrjóska sem gagnast mér þegar kemur að því að ljúka því sem ég hef byrjað á en það er mikill styrkur í því að vita að mamma vildi að gleðin væri ferðafélagi í lífinu og því hef ég fullt leyfi til að skemmta mér eins mikið og ég mögulega get. Svo ég er stödd á tímamótum eftir mikið ummönnunarstarf og á þeim tímamótum hef ég gefið sjálfri mér leyfi til að láta verkin tala um leið og ég held áfram að hlúa að mér og mínum nánustu.“

Lestu viðtalið við Þóru í heild sinni í nýjasta Mannlífi.

Ein lykkja í einu

Síðast en ekki síst

Eftir / Steinunni Stefánsdóttur

Ég prjóna. Og við sem prjónum eigum með okkur einhvers konar leynifélag. Það er svolítið eins og að finna óvænt ættartengsl þegar maður kemst að því að kona, því það er næstum alltaf kona, prjónar líka.

Prjónakona sem ég vann einu sinni með kynnti mér þá kenningu að skipta mætti prjónurum í tvennt. Annars vegar eru prjónarar sem prjóna vegna ferlisins sjálfs, það er sú sem nýtur hverrar lykkju og fyllist jafnvel söknuði þegar verkefninu er lokið. Hins vegar eru prjónarar sem einblína á afurðina og njóta fyrir bragðið kannski ekki eins hverrar lykkju sem þær prjóna. Ég fell afdráttarlaust í síðari flokkinn.

Að þessu kvað rammt, sérstaklega á árum áður. Eitt árið prjónaði ég til dæmis peysur á mig og dætur mínar þrjár. Fallegar peysur og hver dóttir fékk að velja bæði snið og liti. Engin af þessum peysum varð hins vegar almennilega nothæf vegna þess að þær náðu okkur ekki nema niður að nafla. Óþreyjan eftir afurðinni gerði að verkum að ég prjónaði ekki nógu hátt upp áður en ég fór að vinna með ermarnar.

Á þessum árum var ég reyndar í nokkurs konar fíkilsambandi við prjónana. Annaðhvort prjónaði ég alls ekki eða þá að ég prjónaði þannig að ég sat með prjónana í fínum veislum og svo tóku þeir frá mér svefn. Ég gat nefnilega alls ekki hætt á kvöldin, sat í sófanum kvöld eftir kvöld og tók aftur og aftur ákvörðun um að prjóna bara eina umferð í viðbót. Þangað til klukkan var orðin tvö eða þrjú eða jafnvel meira.

Ég hef ekki náð þeim stað að verða ferilprjónari en seinni ár hef ég náð betra jafnvægi í sambandi mínu við prjónana og hefur að mestu tekist að eyðileggja ekki verkefnin mín með óþolinmæði. Ég get líka látið prjónana liggja kvöld og kvöld og læt prjónaskapinn ekki ræna mig svefni, nema kannski stundum.

„Ég er algjört Skunk Anansie fan“

||
Katrín Ýr

Katrín Ýr og Erla Stefánsdóttir heiðra konur í rokki með tónlistarveislu á Hard Rock Café laugardaginn 2. nóvember. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og árabil lagalistans er mjög breitt og lofa þær veislu.

 

 

„Við höfum þekkst í yfir 20 ár og höfum sungið saman. Erla var í heimsókn hjá mér og við vorum að velta upp hvað við gætum gert saman, sem okkur fyndist gaman og væri ekki búið að gera hér áður,“ segir Katrín Ýr. „Við fórum að rifja upp lög sem við hlustuðum á og fannst skemmtileg og þannig varð hugmyndin að viðburðinum til.“

Katrín Ýr sér að mestu um sönginn, en Erla sem er bassaleikari mun einnig syngja. „Strákarnir í hljómsveitinni syngja líka bakraddir þannig að þetta verður veisla.“

Erla og Katrín Ýr

Árið eina í London er orðið að þrettán

Katrín Ýr býr í London þar sem hún vinnur við tónlist í fullu starfi, upphaflega ætlaði hún að vera í ár, en árin eru orðin þrettán. „Ég flutti út í ársnám, kom heim og fór síðan aftur til að taka þriggja ára tónlistargráðu og kom svo ekkert heim aftur. Ég sá að ég gat unnið við tónlistina í fullu starfi hér úti, sem mér hafði ekki dottið í hug áður. Ég hef ekki, þannig séð, verið mikið í tónlist hér hema fyrir utan að ég söng á Celtic og Hressó fyrir 15 árum.

Breitt laga- og áraval

Á lagalistanum eru meðal annars lög með Janis Joplin, Bonnie Tyler, Skunk Anansie, Evanescence og Paramore, auk Tinu Turner og Anouk, þannig að tímabilið er ekki eitthvað ákveðið að sögn Katrínar Ýrar. „Við vorum með svaðalegan lista sem við höfum minnkað niður og rifjuðum upp lög sem við vorum búnar að gleyma eða ekki heyrt lengi,“ segir Katrín Ýr.

Aðspurð um hvort að hún eigi sér uppáhaldskonu í rokki stendur ekki á svari. „Ég er algjört Skunk Anansie fan, ég hef séð þau „live“ fimm sinnum, mér finnst Skin æðisleg söngkona og þau eru uppáhalds síðan ég var 15 ára. Svo er Tina Turner alltaf algjör drottning.“

Viðburður á Facebook.

„Gott þegar hægt er að fá krakka til að hugsa um dýpri hluti“

|
|Alda Rose Cartwright

Árni Árnason venti kvæði sínu í kross, seldi fyrirtæki sitt og lét gamlan draum rætast um að gefa út bók. Barnabókin Friðbergur forseti, varð að veruleika með dyggri aðstoð Helenu dóttur Árna og hefur bókin um forsetann slegið rækilega í gegn.

 

„Ég er búinn að vera í markaðsgeiranum í 20 ár og seldi fyrr á árinu auglýsingastofuna sem ég hef átt í átta ár, Árnasynir,“ segir Árni eldhress þegar blaðamaður hringir. „Ég fór síðan að eltast við gamlan draum um að skrifa. Ég hef unnið mikið með texta í gegnum árin en löngunin var að taka skriftirnar á nýjan stað.“

Barnabók varð fyrir valinu sem fyrsta bók, þar sem Árna langaði að skrifa bók fyrir og með Helenu, níu ára dóttur sinni, en bækur og lestur eru sameiginlegt áhugamál feðginanna.

„Við lesum mikið saman og ég hef mikla trú á lestri og bókum sem uppeldistæki til að þroska hugann og gagnrýna hugsun. Mig langaði að skrifa barnabók á meðan Helena væri enn á þeim aldri að njóta. Mér finnst líka aldrei nóg af bókum fyrir börn og sérstaklega um hluti sem skipta máli.“

En finnst honum að barnabækur eigi að hafa boðskap?

„Það má bara vera gaman að sjálfsögðu. En mér finnst gott þegar hægt er að fá krakka til að hugsa um dýpri hluti, af því þeir eru oft að pæla í einhverju. Ég frábið mér samt allar predikanir í bókinni.“

Friðbergur forseti fjallar um krakka sem rísa upp þegar réttlætiskennd þeirra er misboðið. „Og gegn forsetanum Friðbergi, sem hefur tekið sér hálfgert einræðisvald og þau finna í hjarta sínu að hlutir eru að gerast sem ættu ekki að eiga sér stað. Síðan fara krakkar að hverfa og fleiri hlutir gerast.“

Hugmyndin varð til í heita pottinum

Feðginin fara í sund daglega og í spjalli í pottinum kom upp hugmyndin að bókinni. „Helena lét mér í té sögupersónurnar og gaf þeim nöfn. Saman þróuðum við grunnþráðinn í sögunni og ég tók hann svo og vann áfram,“ segir Árni.

„Persónurnar eru í rauninni persónur sem hún vildi heyra sögur um. Eru ekki allar persónur byggðar á einhverjum; bæði úr mínu, þínu og okkar allra lífi? Þetta eru persónur sem hún þekkir og við þekkjum saman. Ég er viss um að ég er þarna einhvers staðar,“ svarar Árni aðspurður um hvort Helena hafi byggt persónurnar á einhverjum sem hún þekkir.

Friðbergur forseti fjallar um krakka sem rísa upp þegar réttlætiskennd þeirra er misboðið.

En hvað finnst feðginunum um okkar forseta, Guðna Th. og er hann búinn að fá eintak af bókinni? „Við höfum ekki náð að gera það en fáum vonandi tækifæri til þess. Okkur finnst hann náttúrlega bara frábær og hann er forseti sem við getum verið montin og stolt af,“ segir Árni. „Sagan gerist í náinni framtíð og það má segja að Friðbergur gæti tekið við af Guðna ef við pössum okkur ekki á hvert við erum að fara. Það eru nokkrir samtíma populistar sem  má finna í Friðbergi.“

Bókin hefur farið vel af stað og fór í efsta sæti á sölulista barnabóka í útgáfuviku. „Bókin hefur fengið góðar viðtökur og það er gaman að sjá að bæði börn og fullorðnir taka bókinni vel. Bókin er fyrir aldurinn 8-12 ára og hún hentar vel fyrir börn og foreldra til að lesa saman. Það er margt í henni sem foreldrar geta líka haft gaman af,“ segir Árni. „Það er framhald á teikniborðinu alveg klárlega, sem kemur vonandi á næsta ári. Ég er einnig með fleiri hugmyndir.“

Árni hefur farið með bókina í skóla og lesið fyrir nemendur og segist tilbúinn til að vera með upplestur ef áhugi er fyrir því. „Það er ofsalega skemmtilegt og gaman að hitta væntanlega lesendur. Mjög gefandi.“

Þrefalt útgáfupartý – Epic Rain, Hvörf og Kristofer Rodriguez

Laugardaginn 2. nóvember koma hvorki meira né minna en þrjár plötur út á vegum plötubúðarinnar Lucky Records.

 

Um er að ræða plötur með hljómsveitunum Epic Rain og Hvörf, ásamt sólóplötu listamannsins Kristofer Rodriguez. Útgáfunni verður fagnað með útgáfu-/hlustunarpartíi í versluninni við Rauðarárstíg. Fjörið hefst klukkan 15 og er frítt inn.

Stríðshörmungar og sprunginn magi

|
|Ljóðabók Kristjáns.

Lífshlaup Kristjáns Guðlaugssonar hefur verið viðburðaríkara en flestra Íslendinga. Lengst af bjó hann í Noregi og starfaði við blaðamennsku og heimsótti m.a. stríðshrjáð svæði og varð vitni að ógnum sem flestir hafa aðeins heyrt fréttir af að eigi sér stað. Nýlega gaf hann út ljóðabókina Ullin brók og hangið kjöt, en þar er að finna safn ljóða frá ýmsum tímabilum ævi hans og þar endurspeglast minningar bæði sárar og hlýjar.

 

Þórbergur Þórðarson segir í Bréfi til Láru að sá sem ekki verði sósíalisti af að kynna sér stjórnmál sé fáviti. Ertu kannski sammála honum? „Já, ég er hjartanlega sammála Þórbergi,“ segir Kristján og brosir en hann er meðal þeirra sem rætt er við í heimildamyndinni Bráðum verður bylting eftir Hjálmtý Heiðdal. Þar er telft saman tveimur byltingarkenndum atburðum er settu svip á íslenskt samfélag árið 1970, annar var er þingeyskir bændur sprengdu upp stífluna í Laxá í Aðaldal en hinn var taka sendiráðs Íslands í Stokkhólmi. Ellefu íslenskir námsmenn fóru inn í sendiráðið í 20. apríl 1970 og drógu rauðan fána að húni og lýstu yfir að sósíalísk bylting á Íslandi væri nauðsyn. Kristján var þeirra á meðal. Hvað gekk ykkur til?

„Hér á Íslandi var mikil óðaverðbólga en námslánin héldu sér. Það varð því sífellt erfiðara fyrir námsfólk að lifa af lánunum vegna þess peningarnir urðu minna og minna virði. Það varð til hreyfing meðal námsmanna sérstaklega á Norðurlöndum sem beindist að því að laga þessi mál. Úr varð að ákveðin var setumótstaða eða fólk ætlaði að setjast niður í sendiráðunum til að mótmæla. En við fórum aðeins lengra því við vorum svo róttækir.

Í stað þess að setjast niður fórum við inn og hentum sendiráðsritaranum út. Við tókum yfir sendiráðið.

Þetta varaði reyndar ekki nema tvo tíma og lögreglan kom og tók okkur. Hún vissi ekkert hvað hún átti að gera við okkur en við sátum inni í einhverja fjóra eða fimm tíma. Sendiherrann óskaði ekki eftir að neinir eftirmálar yrðu og bað lögregluna að láta okkur fara.“

Skorinn upp á tréborði í Kína

Hann brosir og það er ekki alveg laust við að glampi kvikni í augum byltingarsinnans við að rifja þetta upp. Á þessum tíma ríkti raunar mikill frelsis- og umbreytingaandi um alla Evrópu. Vorið í Prag átti sér stað árið 1968 og lauk með innrás Sovétmanna, stúdentar mótmæltu í París og hin svokallað 1968 hreyfing hafði gríðarleg áhrif meðal ungs fólks um allan heim. Voruð þið innblásnir af því öllu? „Já, við vorum það og sluppum með skrekkinn,“ heldur Kristján áfram. „Eftir þetta flutti ég til Lundar og nam kínversku og kínverska sagnfræði. Maður fær hins vegar enga vinnu við það. Mig langaði að kynnast kínverskum kommúnisma, sögu landsins og læra tungumálið. Ég fór svo til Kína og var þar í átta mánuði.

 

Þar lenti ég í að maginn á mér sprakk. Ég var tekinn og bundinn niður á tréborði og skorinn upp með acupunktur.

Það leið náttúrlega bara yfir mig um leið og þeir stungu  hnífnum í mig. Þetta voru frábærir læknar engu að síður og gerðu allt rétt.

Það þurfti að taka burtu þrjáfjórðu hluta magans. Upp úr þessu skildi ég við þáverandi konu mína og fór til Noregs, kynntist þar konu sem ég giftist seinna og við bjuggum saman í þrjátíu ár. Stóran hluta þess tíma starfaði ég sem blaðamaður og var fréttastjóri á dagblaði í Stavangri.“

Ljóðabók Kristjáns.

Þótt friður hafi alla tíð ríkt á Norðurlöndunum voru víða umbrot á þessum árum. Þú kynntist því var það ekki? „Já, ég fékk leyfi frá ritstjóranum til að fara til Júgóslavíu þegar stríðið var þar. Ég var í Dubrovnik og þurfti að ganga milli tveggja hótela, yfir brú sem þar var og hún var sprengd svo ég datt niður sjö metra, braut á mér bakið á tveimur stöðum og báða ökklana. Lá hálfan mánuð í kjallara sjúkrahússins í Dubrovnik þar til keyrt var með mig á sendiferðabíl með palli upp til Lieb þaðan sem hægt var að fljúga. Ég á þær minjar frá Júgóslavíu enda er ég heiðursborgari í Dubrovnik. Ég skrifaði mikið um stríðið og um það sem gerðist í borginni. Þeir mátu það svo mikils að þeir gerðu mig að heiðursborgara.“

Pakkaði látnu barni í dagblöð

En hvernig var fyrir mann ofan af Íslandi, lengst af búsettan á Norðurlöndum, þekkjandi ekki annað en frið og að mestu saklausan gagnvart ofbeldinu að koma inn í svona aðstæður? „Alveg hrikalegt,“ segir Kristján. „Ég fór líka í kúrdísku héröðin. Var að læra tyrknesku í Ankara um tíma og fór þaðan með rútu inn í Írak meðan stríðið geisaði þar. Það var alveg hörmulegt. Þeir skutu nú á okkur landamæraverðirnir og þá var ekki annað en að kasta sér niður í drulluna og vona að maður lifði af.

Ég man sérstaklega eftir konu sem ég hitti þar. Hún kom gangandi á móti mér með barnið sitt dáið af hungri. Ég hjálpaði henni að pakka því inn í dagblað og grafa það.

Svona atriði sá ég á hverjum degi meðan ég dvaldi þarna. Ég var þarna bara í tvær vikur, enda mikill matarskortur og ég vildi ekki þiggja mat af þessu fólki. Hafði raunar litla lyst sjálfur. Mér þótti þessi reynsla engu að síður dýrmæt og skrifaði mikið um Kúrdistan og kúrdísku héröðin. Ég á marga kúrdíska vini úti í Noregi. En svo tekur allt enda. Það þarf að skipta um fréttastjóra. Þeir verða gamlir og þreyttir og ég var búinn að vera það lengi að ritstjórinn minn bað mig að víkja. Ég gerði það fúslega og vann sem venjulegur blaðamaður í fimm ár.“

Viðtalið í heild er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Unnur Magna

Sparilegt pasta sem ærir bragðlaukana

Ef þú ert í stuði fyrir smá kolvetni þá er fátt betra en að skella í fljótlegan og góðan pastarétt. Þessi er flottur í helgarmatinn enda humar einstaklega sparilegt hráefni.

 

Humar-tagliatelle
Fyrir 4

5 msk. olía
400 g humar, skelflettur
salt og nýmalaður pipar
3 hvítlauksgeirar
½ chili-pipar, fræhreinsaður og sneiddur
400 g litlir tómatar, saxaðir
1 dl hvítvín
1 dl fiskisoð (vatn og fiskiteningur)
500 g tagliatelle
100 g sýrður rjómi eða 1 dl rjómi
salt og nýmalaður pipar
hnefafylli steinselja, söxuð

Steikið humarinn í 2 msk. af olíu, saltið og piprið og setjið til hliðar. Steikið hvítlauk heilan ásamt chilipipar í 3 msk. olíu. Bætið tómötum út í og látið sjóða þat til tómatarnir hafa mýkst vel upp og samlagast olíunni. Bætið hvítvíni í og látið sjóða í 5 mínútur eða þar til vökvinn hefur minnkað aðeins. Bætið þá fiskisoði í og látið sjóða í aðrar 5 mín. Fjarlægið hvítlaukinn úr sósunni og bætið steiktum humar og sýrðum rjóma í hana, látið hitna í gegn. Smakkið til með salti og pipar. Sjóðið Rana tagliatelle eftir leiðbeiningum á pakkanum og hellið því síðan í gegnum sigti og setjið í skál. Hellið sósunni yfir pastað og stráið ferskri steinselju og parmesanosti yfir.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Bragi Þór Jósepsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Mætti viku of snemma í brúðkaup

Júlli og dóttir hans

Júlíus Sigurjónsson, sem jafnan er kenndur við Júlladiskó, skellir í Hrekkjavöku Júlladiskó um helgina á Ölhúsi Hafnarfjarðar.  Hér ljóstrar hann upp fimm staðreyndum um sjálfan sig.

 

„Ég vann eitt kvöld sem dyravörður á A Hansen í Hafnarfirði.  Sem betur fer fór allt vel fram því ég veit ekkert hvað ég hefði gert annars.“

„Ég átti einkanúmerið Sálin. (Sálin hans Jóns mín). Ég tók það af eftir smátíma þegar kærasta mín hringdi ekki sátt því það var verið að taka myndir af henni í akstri. Flestir héldu að Stefán Hilmarsson ætti bílinn.“

„Ég mætti einu sinni viku of snemma í brúðkaup.  Það var þó skárra en viku of seint.“

„Ég hef aldrei séð kvikmyndina Titanic, en ég hef ætlað að horfa á hana um jólin í um 20 ár. Oftast enda ég á að horfa á Bodyguard, enda ein besta mynd allra tíma.“

„Ég borðaði svo oft á KFC þegar ég var um 25 ára að ég var hættur að þurfa að panta. Starfsfólkið græjaði bara máltíð númer 9 mínus majónes.“

Samskiptavandi hjá Vinnueftirlitinu – Eiganda Attentus vikið fyrir meintan dónaskap

Vinnueftirlitið hefur unnið að því undanfarin misseri að bæta vinnuandann hjá stofnuninni, starfsandi er lélegur, starfsmannavelta mikil og og mikill samskiptavandi milli stjórnenda og almennra starfsmanna.

 

Fjallað var um málið í Fréttablaðinu um helgina og í blaðinu í dag kemur fram að Vinnueftirlitið hefur keypt þjónustu frá ráðgjafarfyrirtækinu Attentus varðandi mannauðsmál stofnunarinnar.

Einn eigenda Attentus sinnti verkefninu í byrjun árs, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins nefndi trúnaðarmaður við hann að margir starfsmenn vinnuvéladeildar stofnunarinnar íhuguðu að hætta störfum vegna óánægju með laun og ekki síður starfsanda innan eftirlitsins. Á ráðgjafinn að hafa svarað þessum áhyggjum trúnaðarmanns á þá leið að hann hefði engar áhyggjur af að missa starfsmennina því að þeir myndu aldrei fá vinnu annars staðar.

Í kjölfarið kröfðust starfsmenn þess bréflega að ráðgjafanum yrði vikið frá störfum, og var bréfið  sent á Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra, Hönnu Sigríði forstjóra Vinnueftirlitsins, Attentus og stéttarfélögin. Heimildir Fréttablaðsins herma að starfsmönnunum sem skrifuðu bréfið hafi verið skipað að draga það til baka og hótað málsókn ef ekki yrði orðið við því. Starfsmennirnir stóðu þó við sitt, og sagði ráðgjafinn/einn eigenda Attentus sig frá verkefninu og nýr ráðgjafi frá Attentus tók við verkefninu.

Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.

Karlmaður rekinn úr setlaug

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Lögreglan a höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast á kvöld og næturvaktinni en alls voru 50 mál bókuð á tímabilinu kl. 17-5.

 

Laust eftir miðnætti kom öryggisvörður að manni sem hafði farið yfir girðingu í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði og var þar í setlauginni. Karlmaðurinn var rekinn upp úr og látinn laus eftir upplýsingatöku lögreglu.

Um sama leytir var 15 ára ökumaður stöðvaður í Kópavogi. Var hann kærður fyrir akstur án ökuréttinda og eldri farþegi kærður fyrir að fela ökumanni stjórn ökutækis. Haft var samband við forráðamann og málið tilkynnt til barnaverndar.

Þó nokkrar tilkynningar bárust lögreglu á tímabilinu um ósjálfbjarga fólk í annarlegu ástandi. Fólkið var aðstoðað, ýmist með akstri heim til sín, á slysadeild eða gistiskýlið.

Tómas Már úr forstjórastóli Alcoa í forstjórastól HS Orku

Tómas Már Sigurðsson

Tómas Már Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri HS Orku og hefur hann störf næstu áramót.

 

Tómas Már kemur til liðs við HS Orku eftir farsælan feril hjá Alcoa, þar sem hann gegndi síðast stöðu aðstoðarforstjóra á heimsvísu.

„Tómas hefur mikla reynslu af íslenskum raforkumarkaði, sem og af uppbyggingarverkefnum og stefnumótun jafnt innanlands sem utan. Hans reynsla og þekking mun nýtast vel á því vaxtarskeiði sem framundan er hjá fyrirtækinu,“ segir Bjarni Þórður Bjarnason stjórnarformaður HS Orku í tilkynningu á vef fyrirtækisins.

„Það er mér mikil ánægja að ganga til liðs við HS Orku. Fyrirtækið hefur verið frumkvöðull í jarðhitanýtingu auk margs konar nýsköpun og þróun henni tengdri, líkt og Auðlindagarður HS Orku ber vitni um, en hann er einstakur á heimsvísu og til marks um það hvernig hægt er að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti, samfélaginu og umhverfinu til heilla. Þau tækifæri sem blasa við HS Orku eru afar spennandi og ég hlakka til að vinna að þeim með því afburðarfólki sem hjá fyrirtækinu starfar,“ segir Tómas Már.

 

Tómas Már hefur starfað um árabil hjá Alcoa, þar sem hann gegndi stöðum forstjóra Alcoa á Íslandi, í Evrópu og Mið-Austurlöndum, og nú síðast frá 2014 stöðu aðstoðarforstjóra fyrir Alcoa Corporation. Áður starfaði Tómas sem framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Norðuráli. Tómas Már er menntaður umhverfisverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í skipulagsverkfræði frá Cornell-háskólanum í New York. Hann hefur setið í fjölda stjórna og var meðal annars formaður Viðskiptaráðs frá 2009-2012, sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2005-2011 og hefur verið í stjórn evrópskra álframleiðenda frá 2012.

 

New York bannar foie gras

Veitingamenn og sælkerar harma nýja reglugerð í New York sem bannar sölu á foie gras, ftaðri lifur úr önd eða gæs, sem þykir mikið lostæti. Dýraverndunarsinnar fagna hins vegar ákaft enda segja þeir framleiðsluaðferðirnar hreint dýraníð.

 

Borgarráð New York samþykkti á miðvikudag að banna sölu á foie gras. Mikill meirihluti var fylgjandi banninu, atkvæði féllu 42 gegn 6, en málið hefur verið til umræðu í þó nokkur ár. „New York er Mekka matargerðar í heiminum. Hvernig er það mögulegt að það verði ekki hægt að fá foie gras í New York?“ hafði New York Times eftir Marco Moreira, eiganda og yfirkokki Tocque – ville. „Hvað verður það næst? Ekkert kálfakjöt? Engir sveppir?“ Moreira er ekki einn um að mótmæla banninu en mörgum kollegum hans og ekki síður bandarískum foie gras-framleiðendum þykir hart að sér sótt. Kokkarnir benda á að um sé að ræða lykil hráefni á fínum veitingastöðum en framleiðendurnir óttast um rekstargrundvöll fyrirtækja sinna. Tveir stærstu framleiðendur foie gras í New York-ríki, Hudson Vall0ey Foie Gras og La Belle Farm, eru með um 400 manns í vinnu og selja um 30% framleiðslu sinnar til veitingastaða og smásöluaðila í New York-borg. Dýraverndunarsinnar eru hins vegar hæstánægðir með niðurstöðuna, enda vilja þeir meina að framleiðsla foie gras sé ekkert annað en dýraníð. Foie gras stend – ur fyrir „fituð lifur“ en um er að ræða lifrina í öndum og gæsum sem hafa verið offóðraðar af kornblöndu, sem neydd er ofan í þær með röri. Hefðbundin andalifur er dökkrauð á lit og vegur um 90 grömm en fituð lifur er hvít á lit og vegur um 800 grömm. Dýraverndunarsinnar hafa þannig ekki eingöngu áhyggjur af þeim aðferðum sem er beitt við fóðrunina, heldur segja þeir fuglana hreinlega ekki bera lifrina og stærð hennar geri þeim að auki erfitt að anda.

„Hvað verður það næst? Ekkert kálfakjöt? Engir sveppir?“

Hefðbundin andalifur er dökkrauð á lit og vegur um 90 grömm en fituð lifur er hvít á lit og vegur um 800 grömm.

Hluti af stærri dýravelferðarpakka

Framleiðsla foie gras hefur verið bönnuð í Kaliforníu um nokkurt skeið og hún er sömuleiðis bönnuð í mörgum Evrópuríkjum. Í New York mun sala á foie gras varða 2.000 dala sekt en gagnrýnendur segja óljóst hvernig borgaryfirvöld hyggjast fylgja banninu eftir. Benda þeir m.a. á að hægt sé að fá foie gras sem er framleitt með mannúðlegri aðferðum en samkvæmt banninu mun það standa á veitingahúsunum og smásölunum að sanna að sú vara sem þeir hafa á boðstólnum sé framleidd á mannúðlegan hátt. „Kalifornía og New York voru okkar stærstu markaðir, þannig að þetta er mikið áfall,“ segir Sergio Saravia, stofnandi La Belle. Hann segir tekjur fyrirtækisins hafa dregist saman um 50 þúsund dali á viku eftir að foie gras var bannað í Kaliforníu. „Það verður erfitt að halda rekstrinum gangandi.“ Borgarráðsmenn segja fyrirtækin hins vegar framleiða földa annarra afurða og að þau ættu ekki að þurfa að reiða sig á hinar grimmilegu aðferðir. Bannið við sölu á foie gras var hluti af stærri reglugerðarpakka gegn dýraníði. Í honum felast m.a. nýjar reglur um bann við „akstri“ hestvagna í of heitu og röku veðri og bann við því að fanga og flytja dúfur úr borginni, en utanbæjar hafa þær verið notaðar sem skotmörk við skotæfingar.

PETA lýsir grimmilegum aðferðum og aðstæðum

Á heimasíðu dýraverndunarsamtakanna PETA segir að foie gras sé framleitt með því að dæla einu til tveimur kílóum af korn- og ftublöndu ofan í fuglana á hverjum degi.

Margir þeirra eigi erftt með að standa þar sem lifrin bólgnar út í kviðarholinu og þá eigi þeir til að reyta fjaðrir sínar og ráðast hver á annan vegna streitu. PETA segir offóðrunina einnig valda skemmdum á vélindanu, niðurgangi, lifrarbilun, sárum og brotum. Þá drepist fuglar einnig þegar fóðrið fer ofan í lungun eða þeir kafna í eigin ælu. PETA bendir einnig á að þar sem foie gras sé aðeins framleitt úr karlkynsfuglum sé kvenfuglunum kastað lifandi í hakkavél og seldir sem kattafóður. Um sé að ræða 40 milljón unga í Frakklandi, þaðan sem foie gras á rætur sínar að rekja. „Rannsókn PETA á Hudson Valley Foie Gras í New York leiddi í ljós að hverjum starfsmanni var ætlað að þvinga fóður ofan í 500 fugla þrisvar sinnum á dag. Hraðinn varð til þess að þeir fóru oft hörðum höndum um fuglana, sem leiddi til meiðsla og þjáninga. Vegna þess hversu margar endur drápust af því að líffærin gáfu sig vegna offóðrunarinnar, fengu þeir starfsmenn sem drápu færri en 50 fugla á mánuði bónus,“ segir á heimasíðu PETA. Þá segir að stærsti framleiðandi foie gras í heiminum, Rougié, haf orðið uppvís að því að halda öndunum í afar þröngum búrum, með höfuðið og hálsinn standandi út úr búrunum til að gera fóðrunina auðveldari. Fuglarnir haf lítið getað annað en að standa upp, leggjast niður og hreyfa hausinn. „Þeir geta hvorki snúið sér við né lyft væng.“

Allt í kæfu milli Frakka og Þjóðverja

Árið 2011 komu upp diplómatískar erjur milli Frakka og Þjóðverja þegar skipuleggjendur Anuga-matarhátíðarinnar í Cologne ákváðu að banna foie gras vegna þrýstings frá dýraverndarsinnum. Framleiðsla foie gras er bönnuð í Þýskalandi

Okkur til mikillar undrunar hafa skipuleggjendur hátíðarinnar tilkynnt okkur að héðan í frá getum við ekki boðið upp á foie gras,“ harmaði Alain Labarthe, forseti samtakanna Vive le foie gras!. Landbúnaðarráðherra Frakklands, Bruno le Maire, skrifaði kollega sínum í Þýskalandi, Ilse Aigner, og bað hana vinsamlegast um að afétta banninu. Ellegar myndu hann og aðrir þýskir ráðamenn sniðganga opnunarhátíðina. Le Maire sagði franska framleiðendur fara að öllum evrópskum reglugerðum um velferð dýra en Aigner sagðist ekki hafa vald til þess að snúa ákvörðun skipuleggjenda hátíðarinnar.

Málið varð til þess að bæði stuðningsmenn og gagnrýnendur bannsins létu hátt í sér heyra. Meðal þeirra sem voru fylgjandi banninu var leikkonan og dýraverndarsinninn Brigitte Bardot sem hvatti aðstandendur Anuga-hátíðarinnar til að láta ekki undan þrýstingi. Dýraverndarsinnar héldu því m.a. fram að aðeins 15% franskra fram – leiðenda hefðu lagað starfsemi sína að nýrri Evrópureglugerð sem gekk í gildi 2011, sem bannaði að fuglum væri haldið einum í svo litlum búrum að þeir gætu ekki breitt úr vængjunum. „Þetta er ótrúlegt. Þetta er eins og að banna þýskar pylsur í Frakklandi,“ sagði Alain Fauconnier, þingmaður sósíalista, í erindi til sendiherra Þýskalands í París

Dómsmál, siðareglur og klónun

Í hverri viku útnefnir Mannlíf þá einstaklinga sem hafa blómstrað í vikunni og þá sem hafa ekki átt jafn auðvelt uppdráttar. Freyja Haralsdóttir , lendir í fyrri flokknum á meðan Borgarleikhúsið, ritstjóri DV og Dorrit lenda í þeim seinni.

 

Góð vika – Freyja Haraldsdóttir

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra hefur ærna ástæðu til að gleðjast eftir að hafa rekist á sjarmatröllið George Clooney úti á landi og sömuleiðis Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri Wow air, og Gríma Björg Thorarensen innanhússhönnuður en þau eiga von á barni. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, var sums staðar hampað eins og rokkstjörnu eftir að hafa beðið samkynhneigða afsökunar fyrir hönd þjóðkirkjunnar vegna sársauka sem kirkjan hefði valdið þeim í gegnum tíðina. Ummæli biskups um siðrof í skólum, sem höfðu vakið undrun, féllu nánast í skuggann af þessu útspili. En eflaust áttu fáir betri viku en Freyja Haraldsdóttir. Hæstiréttur úrskurðaði að Barnaverndarstofa hafi mismunað Freyju vegna fötlunar hennar þegar henni var neitað um mat á því hvort hún gæti gerst fósturforeldri. Freyja hefur sagst vera í skýjunum með niðurstöðuna.

Slæm vika – Borgarleikhúsið

Þetta dálkapláss er þéttsetið þessa vikuna. Fyrrverandi forsetafrú Íslands, Dorrit Mousaieff, fékk bágt fyrir þegar hún frumsýnd klón af Sámi, látnum hundi sínum og ekki átti ritstjóri DV, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, sjö dagana sæla þar sem siðanefnd Blaðamannfélagsins komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið gegn siðareglum með umfjöllun blaðsins um fanga. Mesti skellurinn hlýtur þó að hafa verið fyrir Borgarleikhúsið sem var í vikunni dæmt til að greiða Atla Rafni Sigurðssyni leikara 5,5 milljónir í bætur og eina milljón í málskostnað. Atla Rafni var sagt upp í leikhúsinu vegna ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni og stefndi hann í kjölfarið leikhúsinu og leikhússtjóra þess, Kristínu Eysteinsdóttur. Kom úrskurðurinn Leikfélagi Reykjavíkur í opna skjöldu og hefur það gripið til þess ráðs að áfrýja dómnum.

„Það er bókstaflega allt að hrynja hér innanhúss“

Mannlíf tók saman nokkur áhugaverð ummæli sem voru látin falla í vikunni.

 

„Framtíðin kallar á okkur að gera betur.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ræðu sinni á fundi norrænna forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi. Þar voru umhverfismál í öndvegi.

„Það er bókstaflega allt að hrynja hér innanhúss.“

Rúnar Helgi Andrason, sálfræðingur á Reykjalundi, um ástandið á stofnuninni.

„Ætlar bankinn að afnema hraðbankagjöld fyrir fátæku láglaunakonurnar?“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, gagnrýnir Íslandsbanka fyrir að ætla að hætta viðskiptum við þá fjölmiðla sem ekki standast tiltekin skilyrði sem snúa að kynjahlutföllum. Hún segir aðgerðirnar vera hræsni.

„Stundum fær maður hugmyndir sem virka rosalega góðar við fyrstu sýn. Svo hugsar maður aðeins og eftir smástund kemst maður að því að þetta væri sennilega eitthvað sem væri ágætt að hugsa aðeins betur.“

Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður um útspil bankans.

„Sorry to break it to you, en þessi pistill þinn er karlpungaskoðun.“

Sóley Tómasdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúi, svarar Loga.

„Fráleit aðför að ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðla.“

Ályktun frá stjórn Blaðamannafélags Íslands vegna málsins.

„Þetta er farið að lykta af hergagnaflutningum. Hvað er allt þetta tal um „umsvif Bandaríkjastjórnar“? Menn hafi bakgrunn Ballarin í huga, hún er m.a. þekkt fyrir að vera milligöngumaður við sómalska vígamenn og sjóræningja.“

Vilhjálmi Þorsteinssyni, fyrrverandi gjaldkera Samfylkingarinnar, líst ekki á áform Michelle Ballarin um endurreisn WOW.

„Ég bulla ekki og blaðra, ég veit hvað ég segi, svo nú er tími fyrir forpokað lið að þegja og hlusta.“

Sigga Dögg kynfræðingur er ósátt við að vera sökuð um að vita ekki sínu viti og vera bönnuð í sumum skólum.

„Nennirðu í alvörunni að láta ekki eins og þú sért í Kardashian-fjölskyldunni. Eða Elon Musk. Elíturugl.“

Eva H. Baldursdóttir, pistlahöfundur á man.is, hneyksluð á Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú Íslands, fyrir að láta klóna hund sinn Sám.

„Mæli ekki með því að klóna hunda og ketti, en þetta er fallegt hjá Dorrit.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

 

Hvítur hvítur dagur vann aðalverðlaun Norræna kvikmyndadaga

||||
Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar

Í gærkvöldi vann Hvítur hvítur dagur aðalverðlaun Norrænna kvikmyndadaga í Lübeck í Þýskalandi, sem haldnir voru í 61 sinn.

 

Ingvar E. Sigurðsson sem leikur aðalhlutverk myndarinnar var viðstaddur og tók á móti verðlaununum. Myndin fer í almenna dreifingu í kvikmyndahúsum í Þýskalandi þann 13. febrúar.

Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar
© Nordische Filmtage Lübeck

Mikill fjöldi norrænna kvikmynda kepptu um verðlaunin, þeirra á meðal Héraðið eftir Grím Hákonarson, Queen of Hearts eftir May el-Toukhy (sem vann Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs í síðustu viku), About Endlessness eftir Roy Andersson og Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson. Verðlaunaféð er 12.500 evrur eða um 1.700.000 íslenskra króna.

Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson hlaut einnig verðlaun á hátíðinni, The Interfilm Church Prize, ásamt verðlaunafé upp á 5.000 evrur eða um 700.000 íslenskra króna.

Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar
© Nordische Filmtage Lübeck

Sjá nánari upplýsingar um alla sigurvegara hér og umsagnir dómnefnda hér.

Kvikmyndahátíðin í Lübeck er eina kvikmyndahátíðin í Evrópu sem einblínir sérstaklega á norrænar kvikmyndir ásamt kvikmyndum fráEystrasaltlöndunum og norðurhluta Þýskalands. Þetta árið voru í heildina níu íslensk kvikmyndaverk sýnd á hátíðinni.

Aðrar íslenskar myndir sem hlotið hafa aðalverðlaun hátíðarinnar eru
eftirfarandi:
Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson 2018
Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson 2016
Vonarstræti eftir Baldvin Z 2014
Hin Helgu Vé eftir Hrafn Gunnlaugsson 1994

Hvítur, hvítur dagur hefur því hlotið níu verðlaun hingað til, en hún vann nýlega sín þriðju verðlaun í Bandaríkjunum, það er Besta Norræna Kvikmyndin á Alþjóðlegu Norrænu kvikmyndahátíðinni í New York.

Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar
© Nordische Filmtage Lübeck
Mynd / laf Mal tooth f.h. hátíðarinnar
© Nordische Filmtage Lübeck

Óléttan skyggði á veisluhöldin

|||
|||

Albert Eiríksson, sem heldur úti blogginu alberteldar.com, hlustar mikið á hlaðvörp og segir margt heilla. „Síðast fékk ég t.d. mikinn áhuga á hugleiðslu. Núna hlusta ég mest á hlaðvörp um mat og ferðalög. Áhuginn breytist milli mánaða.“ Hér að neðan eru þrjú hlaðvörp sem Albert segir vel þess virði að hlusta á.

 

Eplatínslumenn og vélmenni

„The Food Chain er fjölbreyttur vikulegur hlaðvarpsþáttur á BBC. Þar er fjallað um allt sem viðkemur mat og tengist honum á einhvern hátt. Núna síðast var ég að hlusta á viðtal við farandverkamenn sem koma árlega til Englands til að tína epli af trjám og vangaveltur um hvort vélmenni geti leyst þá af í framtíðinni. Duglegur eplatínslumaður nær 100 eplum á mínútu og getur náð yfir tonni á dag.“

Smámunasamur húmoristi

„Help I Sexted My Boss. William Hanson er með hlaðvarp ásamt Jordan North. William er helsti sérfræðingur Breta þegar kemur að borðsiðum og mannasiðum. Hann hefur sérstakan áhuga á konungsfjölskyldunni, viðskiptamálsverðum, Afternoon Tea, já, eiginlega öllum mannlegum samskiptum. Stundum er honum öllum lokið yfir einhverju sem okkur finnst algjört smáatriði en langoftast hefur hann góðan húmor fyrir sjálfum sér. Í síðasta þætti sem ég hlustaði á var verið að fjalla um veislustjóra og hvað þeir verða að varast. Þeir sögðu sögu af hjónum sem tóku að sér veislustjórn í giftingu vina sinna og tilkynntu þar að þau, veislustjórarnir, ættu von á barni. Eftir þetta snerist brúðkaupsveislan að mestu um óléttuna og annað henni tengt. Þeir tóku þetta sem dæmi um að veislustjórar þurfa að vanda sig og verða að gæta orða sinna. William þessi Hanson er reglulegur gestur í ýmsum hlaðvörpum og talar þar um borðsiði og kurteisi.“

Saga þekktra rétta

„The Dish er líflegt matar- og ferðahlaðvarp. Þar er farið um allan heim og fræðst um sögu þekktra rétta, sagt hvað er áhugavert að gera og hverju fólk má alls ekki missa af. Nýlega heyrði ég ítarlegan þátt um hinn fræga gríska feta-ost og annan um sögu kúskús. Kúskús á sér merka sögu og nokkur munur er á því eftir löndum.“

 

Fallegt og hugljúft lag frá Raven

Raven, eða Hrafnhildur eins og hún heitir, er ung söngkona og lagahöfundur á uppleið. Sumir þekkja Raven úr hljómsveitinni White Signal, en hún hefur undanfarið einbeitt sér að sólóefni og sendi nýverið frá sér lagið Hjartað tók kipp.

Texti lagsins er afar angurvær en hann fjallar um sambandsslit og aðila með brostið hjarta sem reynir að skilja hvers vegna hin manneskjan gafst upp. Þrátt fyrir sorglega sögu er lagið sjálft nokkuð kraftmikið og gefur tilfinningu um einhverja von og skilning.

Hjartað tók kipp var fullsamið á aðeins nokkrum klukkutímum, að sögn höfundar, og textinn og form lagsins hefur haldið sér síðan þá. Lagið er fyrsta lag Raven á íslensku, en í sumar gaf hún út stærri og poppaðri útgáfu af lagi sínu Half of me sem hafði hingað til bara verið til í órafmagnaðri útgáfu á streymisveitum og notið vinsælda þar.

Þess má geta að Raven stefnir á að gefa út sex laga EP-plötu (stuttskífu) á næstu mánuðum.

 

Best að vinna meðan borgin sefur

Ninna Þórarinsdóttir er listakona með fjölbreyttan feril að baki og fæst við allt mögulegt; hönnun, myndskreytingar, hönnun og fleira. Hún segir að það sé mikilvægt að hafa gaman af vinnunni og finna sinn stíl.

 

Hvernig listamaður ertu? „Ég er hálfgerð samblanda af listamanni og hönnuði. Stíllinn minn er vanalega mjög grafískur, litríkur og hress – kannski blanda af því að vera krúttlegur og skrítinn með svolítinn húmor.“

Hvernig verk gerir þú aðallega og fyrir hvað? „Ég hef mikið verið að teikna fyrir fyrirtækið ICD sem gerir minjagripi, t.d. póstkort, handklæði, viskastykki, lyklakippur og svo framvegis. Ég hef einnig tekið að mér teikningar og grafíska hönnun fyrir lógó, bækur, hreyfimyndir og kynningar. Þessa dagana er ég aðallega að vinna fyrir Borgarbókasafnið. Þau eru að vinna að heildarútliti fyrir öll sex bókasöfnin og ég sé um myndskreytingarnar, t.d. fyrir veggmyndir, póstkort, bæklinga, hreyfimyndir og nokkra nýja hluti sem munu vera í barnadeildinni.

Myndir / Hallur Karlsson

Undanfarið hef ég verið að  vinna verk í Procreate á iPad pro. Ég hef alltaf haft rosalegan áhuga á nýjum aðferðum og tækni þannig að ég ákvað að prófa þetta og er algerlega hugfangin af þessu. Hugmyndavinnan virkar þannig hjá mér að ég þarf svolítinn tíma til að melta verkefnið án þess að gera neitt með það. Svo byrja ég að skissa þar til ég er ánægð með hugmyndina, finn liti sem passa og get þá byrjað á myndinni.

Hvaðan færðu innblástur? „Í tónlist, á ferðalögum, í fínum bókum og með því að spjalla við skemmtilegt fólk.“

Hvenær sólarhringsins finnst þér best að vinna? „Snemma á morgnana, helst áður en borgin er vöknuð. Svo hljóð og tímalaus tilfinning í loftinu.“

Myndir / Hallur Karlsson

Hefur þú alla tíð haft gaman af því að teikna og mála? „Já, en ég hætti því yfir langt tímabil þar sem ég hélt að ég kynni ekki að teikna eins og það „ætti” að teikna. Mér var svo algerlega ýtt út í það aftur og þá uppgötvaði ég að þetta snýst aðallega um að þora, hafa gaman og finna sinn eigin stíl sem manni líður vel með. Síðan þá hef ég ekki getað hætt.“

„…þetta snýst aðallega um að þora, hafa gaman og finna sinn eigin stíl sem manni líður vel með.“

Ákvaðst þú á einhverjum tímapunkti að verða listamaður eða gerðist það bara „óvart“? „Mig minnir að ég hafi alltaf viljað verða listamaður, það tók samt svolítinn tíma fyrir mig að „leyfa“ mér að vilja það og loksins láta á reyna.“

Myndir / Hallur Karlsson

Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér? „Becky and Joe, Gary Baseman, Bubi Au Yeung, Friends With You, Bernardo P. Carvalho, Nick Cave (fatahönnuðurinn) og Rilla Alexander.“

Hvað er fram undan á næstu misserum? „Hönnun á brúðu fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og teikningar fyrir Borgarbókasafnið. Áframhald með Léttur í lunda-leikinn, Bita og Bubba-leikföngin og að njóta lífsins.“

Myndir / Hallur Karlsson

Gríðarleg áhrif Game of Thrones

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir hefur í nógu að snúast um helgina því auk þess að stýra pallborðsumræðum kemur hún að skipulagi Kynjaþings

Höfundar, útgefendur og annað bókmenntafólk munu hittast og ræða íslenskar furðusögur á málþingi sem verður haldið í Norræna húsinu á sunnudag klukkan 14 undir yfirskriftinni Æsingur – Furðusagnahátíð. En hvað eru furðusögur? Mannlíf náði tali af Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttir sem stýrir pallborðsumræðum og grennslaðist fyrir um það.

 

„Furðusögur er í stuttu máli samheiti yfir fantasíur, hrollvekjur og vísindaskáldsögur, eða með öðrum orðum skáldskápur sem tekur á furðulegum hlutum í okkar heimi og reynir að ímynda sér framtíðina eða alls konar hliðarvíddir,“ útskýrir Brynhildur og bætir við að á málþinginu verði einmitt farið nánar út í þetta og jafnframt skoðað hvaða stöðu furðusögur hafi í íslenskri sagnamenningu og hvert þær stefni.

Að hennar sögn er þetta í fyrsta sinn sem Æsingur fer fram en um er að ræða afsprengi hinnar alþjóðlegu hátíðar Ice-Con sem hefur verið haldin tvívegis í Reykjavík við góðar undirtektir, fyrst árið 2016 og svo 2018. „Ice-Con var vel tekið og það benti til þess að það væri vettvangur til að ræða furðusögur á íslensku. Til að tryggja framgang furðusögunnar er nefnilega mikilvægt að höfundar og lesendur fái tækifæri til að spjalla saman um furðusögur og kynnist nýjum straumum og stefnum og að lesendur geti kynnst höfundum sem eru að spreyta sig á þessari stórskemmtilegu tegund bókmennta,“ segir hún en á meðal höfunda sem taka þátt í pallborðsumræðum má nefna Hildi Knútsdóttur, Alexander Dan og Ármann Jakobsson.

Hið yfirnáttúrulega aftur vinsælt

Furðusögur, hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur eru vinsælt lesefni úti í heimi, en Brynhildur segir að í raun sé skrítið hvað þeim hafi gengið illa að ná fótfestu á Íslandi. „Eins og við vitum hafa þannig sögur verið vinsælar erlendis um langt skeið en það er eins og íslenskir lesendur, og þá er ég að ekki að tala um börn heldur fullorðna, hafi hingað til ekki verið móttækilegir fyrir þeim. Það er bara á síðustu árum í kjölfar gríðarlegra áhrifa Game of Thrones sem fullorðna fólkið virðist vera orðið opnara. Hér áður fyrr lifðu furðusögur nefnilega góðu lífi á Íslandi, eins og sést á Íslendingasögunum og þjóðsögum, þar sem nornir og draugar ganga ljósum logum, en það er eins og ekki hafi verið pláss fyrir hið yfirnáttúrulega í íslenskum bókmenntum á 20. öldinni þegar raunsæið réði ríkjum. Nú virðist furðan vera að ryðja sér til rúms aftur.“

„Eins og við vitum hafa þannig sögur verið vinsælar erlendis um langt skeið en það er eins og íslenskir lesendur … hafi hingað til ekki verið móttækilegir fyrir þeim.“

Brynhildur er auðheyrilega ánægð með þá þróun enda segist hún sjálf vera mikill aðdáandi slíkra sagna og hafi verið það um langt skeið. „Ég get víst ekki neitað því,“ segir hún og hlær. „Ég hef mjög gaman af þessari bókmenntagrein og var ein þeirra sem tók þátt í að skipuleggja síðustu tvær Ice-Con hátíðir.“ Í ár segist hún þó ekki koma nálægt skipulaginu, heldur ætli hún að láta sér nægja að stýra pallborðsumræðunum.

„Og talandi um það, þá er kannski rétt að taka fram að það verða tvö pallborð á málþinginu þar sem farið verður inn á fyrrnefnd atriði, furðusöguna sem bókmenntagrein, stöðu slíkra sagna í íslenskri sagnamenningu og hvert þær stefna,“ segir hún. „Svo lesa höfundar upp úr verkum sem eru annaðhvort í vinnslu eða eru væntanleg um jólin. Og við endum þetta svo á hressu pubkvissi í Stúdentakjallaranum um kvöldið.“

 

 

 

 

Getur kapítalisminn bjargað sjálfur sér frá kapítalismanum?

Það sverfur að okurlánurum.

Ráðandi kerfi í heiminum síðustu áratugi hefur verið hið kapítalíska markaðshagkerfi, og systir þess vestrænt lýðræði. Þeir sem eru jákvæðir gagnvart þessum kerfum benda á að á grunni þeirra hafi friður ríkt í hinum vestræna heimi frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Að mannréttindi hafi sífellt fengið stærri sess í þeim löndum sem umfaðmað hafa kerfin. Frelsi stóraukist, tækni fleytt fram og, síðast en ekki síst, lífsgæði mæld á þeim mælikvarða sem oftast er stuðst við, hagvöxt og kaupmátt, hafi tekið stakkaskiptum.

 

Sögulega má rekja upphaf þessarar viðhorfsbreytingar í viðskiptum til áttunda áratugarins þegar menn eins og hagfræðingurinn Milton Friedman stigu fram á sviðið og boðuðu það sem í dag er best þekkt sem brauðmolakenningin. Friedman skrifaði fræga grein í The New York Times árið 1970 þar sem hann sagði það samfélagslega ábyrgt í viðskiptum að auka gróða.

Hugmyndafræðin varð síðan einkennandi undirstaða stjórnartíðar Ronalds Reagan í Bandaríkjunum og Margaretar Thatcher í Bretlandi, tveggja áhrifamestu leikendanna í alþjóðaviðskiptum á níunda áratug síðustu aldar. Skilaboðin voru minna regluverk, frekari einkavæðing, minna ríkisvald og meiri hagnaður fyrir eigendur fyrirtækja. Hluthafinn, þ.e. fjármagnseigandinn sem fjárfesti í fyrirtækjum, varð það eina sem skipti máli í rekstri fyrirtækja.

Þessi áhersla beið ákveðið skipbrot árið 2008, þegar ríki og seðlabankar víða um heim þurftu að grípa fjármálakerfi sem hafði farið langt fram úr sér. Kapítalisminn kallaði á stórtækustu ríkisafskipti mannkynssögunnar. Þrátt fyrir það hefur efsta lagið í heiminum bara orðið ríkara síðastliðinn áratug. Í fyrra var staðan þannig, samkvæmt árlegri skýrslu Oxfam, að 26 ríkustu einstaklingarnir í heiminum áttu jafnmikið af auði og sá helmingur heimsbyggðarinnar, alls 3,8 milljarðar manna, sem átti minnst. Á sama tíma hafa kröfur um aukna samfélagslega meðvitund fyrirtækja, sérstaklega gagnvart umhverfinu, stóraukist. Vegna þessa hefur þrýstingurinn á breyttar áherslur stigmagnast ár frá ári.

Í ágúst 2019 sendu bandarísku samtökin US Business Roundtable, sem samanstanda af forstjórum allra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna, frá sér yfirlýsingu. Í henni kom fram að fyrri stefna samtakanna, um að hagsmunir hluthafa ættu einir að stýra rekstri fyrirtækja, gæti ekki lengur átt við. Það þyrfti að telja til fleiri þætti eins og starfsfólk, nærsamfélag og náttúru.

Þessi stefnubreyting er í takti við fjárfestingastefnu sem margir af stærstu fjárfestingasjóðum heims hafa sett sér. Við blasir því að fyrirtæki sem horfa ekki til annarra þátta en hagnaðar munu eiga erfiðara með að nálgast fjármagn þegar þeir þurfa á slíku að halda til fjárfestingar.

Meira að segja Financial Times, forystublað kapítalismans, boðaði nýja stefnu (The New Agenda) í september síðastliðnum þar sem blaðið talaði fyrir breyttri tegund kapítalisma. Í yfirlýsingu Lionel Barber, ritstjóra Financial Times, sagði að fyrirtækjalöggjöf, skattastefna, fjölmiðlaumfjöllun og reglugerðarsetningar væru allt svið sem þyrftu að breytast með þeim hætti að samfélagsleg ábyrgð og umhverfið yrðu jafnrétthá hluthöfum. Það þurfi að skila hagnaði en með tilgangi. Fyrirtæki þurfi að skilja að slík blanda muni þjóna þeirra eigin hagsmunum en líka hagsmunum viðskiptavina og starfsmanna.

 

„Ég hafði sterka tilfinningu fyrir því að tíminn væri naumur“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Þóra Karítas Árnadóttir segir ferð á vegum UN Women til Malaví, þar sem hún tók viðtöl við brúðir á barnsaldri, hafa rifjað upp sögu móður hennar sem hún skráði í bókinni Mörk. Kynferðisofbeldi gegn börnum eigi sér engin landamæri.

 

„Mamma greindist með mjög sjaldgæfa heilabilun árið 2014 en þá var bókin Mörk, sem sneri að uppgjöri við illskiljanlegt ofbeldi sem hún sætti í æsku, vel á veg komin. Ég hafði sterka tilfinningu fyrir því að tíminn væri naumur en við fengum fimm ár eftir að hún greindist og hún lést í ágúst síðastliðnum. Ef bókin gagnast einum þá er hún þess virði að hafa verið skrifuð, sagði mamma þegar hún ákvað að treysta mér fyrir verkinu en hana grunaði ekki hve bókin átti eftir að rata víða og að nokkru eftir útgáfu hennar ætti eftir að hellast yfir heiminn flóðbylgja í nafni Metoo-byltingar og að saga hennar ætti eftir að vera gefin út í Englandi sem varð raunin í byrjun árs. Mér sýnist eftir þetta að sögur eigi það til að leita einhvern veginn lesendur sína uppi og fæða af sér ný ferðalög en mér skilst að UN Women hafi meðal annars treyst mér fyrir viðtölunum í Malaví vegna umfjöllunarefnis bókarinnar.

Bókin kom út um vor 2015 og um haustið fæddist svo frumburðurinn minn. Ég er sjálfstætt starfandi og varði seinna fæðingarorlofinu 2018 mikið til inni á elliheimili, skrifaði hverja lausa stund og sagði nei við öllum aukaverkefnum. Ég er heppin með skrifin því ég get fengið útrás fyrir sköpunarkraftinn sem býr sterkt í mér um leið og ég gat komið drengjunum mínum á lappirnar en ég hef ríka tjáningaþörf og þörf til að miðla því sem ég nem og skynja enda er ég í grunninn komin af kennurum.“

Þóra segir að of stuttur tími sé liðinn frá láti móður hennar til að hún treysti sér til að tala um sorgarferlið, hún hafi líka fengið þann arf frá móður sinni að horfa frekar fram á veginn en til baka.

„Mamma var með ótrúlegt lífsviðhorf sem ég bý að, fékk ríkan skammt af gleði í vöggugjöf og fannst að maður eigi að lifa lífinu meðan á því stendur. Tilgangurinn er sá að vera hér í samneyti við gott fólk og gleðjast við hvert tækifæri en hún var alls ekki týpa sem kvartaði, heldur sigurvegari sem naut frelsis við að hafa lagt erfiðleika að baki. Ég er henni sammála í því og finn að ég er kresin á að velja það sem gefur mér gleði í augnablikinu. Ég er ekki alin upp til að velta mér upp úr leiðindum þótt ég sé meðvituð um að sorgin þurfi að fá sína útrás og það er engin spurning, hún finnur sér sína leið og þarf rými og tíma. Ég er í undirbúningi og tökum á sjónvarpsþáttum sem ég er að vinna að í augnablikinu fyrir Sjónvarp Símans og verða sýndir 2020. Nú reyni ég að vera skynsöm og hvíla mig hverja lausa stund en það hleður líka batteríin að fást við það sem manni finnst gefandi og skemmtilegt.

„Ég er ekki alin upp til að velta mér upp úr leiðindum þótt ég sé meðvituð um að sorgin þurfi að fá sína útrás…“

Um leið og tökum er lokið ætla ég að ljúka skáldsögu sem ég hófst handa við ári eftir að ég gaf út mína fyrstu bók og vona innilega að lífið færi mér rými til að binda hnútana á bókinni því það er í mér þrjóska sem gagnast mér þegar kemur að því að ljúka því sem ég hef byrjað á en það er mikill styrkur í því að vita að mamma vildi að gleðin væri ferðafélagi í lífinu og því hef ég fullt leyfi til að skemmta mér eins mikið og ég mögulega get. Svo ég er stödd á tímamótum eftir mikið ummönnunarstarf og á þeim tímamótum hef ég gefið sjálfri mér leyfi til að láta verkin tala um leið og ég held áfram að hlúa að mér og mínum nánustu.“

Lestu viðtalið við Þóru í heild sinni í nýjasta Mannlífi.

Ein lykkja í einu

Síðast en ekki síst

Eftir / Steinunni Stefánsdóttur

Ég prjóna. Og við sem prjónum eigum með okkur einhvers konar leynifélag. Það er svolítið eins og að finna óvænt ættartengsl þegar maður kemst að því að kona, því það er næstum alltaf kona, prjónar líka.

Prjónakona sem ég vann einu sinni með kynnti mér þá kenningu að skipta mætti prjónurum í tvennt. Annars vegar eru prjónarar sem prjóna vegna ferlisins sjálfs, það er sú sem nýtur hverrar lykkju og fyllist jafnvel söknuði þegar verkefninu er lokið. Hins vegar eru prjónarar sem einblína á afurðina og njóta fyrir bragðið kannski ekki eins hverrar lykkju sem þær prjóna. Ég fell afdráttarlaust í síðari flokkinn.

Að þessu kvað rammt, sérstaklega á árum áður. Eitt árið prjónaði ég til dæmis peysur á mig og dætur mínar þrjár. Fallegar peysur og hver dóttir fékk að velja bæði snið og liti. Engin af þessum peysum varð hins vegar almennilega nothæf vegna þess að þær náðu okkur ekki nema niður að nafla. Óþreyjan eftir afurðinni gerði að verkum að ég prjónaði ekki nógu hátt upp áður en ég fór að vinna með ermarnar.

Á þessum árum var ég reyndar í nokkurs konar fíkilsambandi við prjónana. Annaðhvort prjónaði ég alls ekki eða þá að ég prjónaði þannig að ég sat með prjónana í fínum veislum og svo tóku þeir frá mér svefn. Ég gat nefnilega alls ekki hætt á kvöldin, sat í sófanum kvöld eftir kvöld og tók aftur og aftur ákvörðun um að prjóna bara eina umferð í viðbót. Þangað til klukkan var orðin tvö eða þrjú eða jafnvel meira.

Ég hef ekki náð þeim stað að verða ferilprjónari en seinni ár hef ég náð betra jafnvægi í sambandi mínu við prjónana og hefur að mestu tekist að eyðileggja ekki verkefnin mín með óþolinmæði. Ég get líka látið prjónana liggja kvöld og kvöld og læt prjónaskapinn ekki ræna mig svefni, nema kannski stundum.

„Ég er algjört Skunk Anansie fan“

||
Katrín Ýr

Katrín Ýr og Erla Stefánsdóttir heiðra konur í rokki með tónlistarveislu á Hard Rock Café laugardaginn 2. nóvember. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og árabil lagalistans er mjög breitt og lofa þær veislu.

 

 

„Við höfum þekkst í yfir 20 ár og höfum sungið saman. Erla var í heimsókn hjá mér og við vorum að velta upp hvað við gætum gert saman, sem okkur fyndist gaman og væri ekki búið að gera hér áður,“ segir Katrín Ýr. „Við fórum að rifja upp lög sem við hlustuðum á og fannst skemmtileg og þannig varð hugmyndin að viðburðinum til.“

Katrín Ýr sér að mestu um sönginn, en Erla sem er bassaleikari mun einnig syngja. „Strákarnir í hljómsveitinni syngja líka bakraddir þannig að þetta verður veisla.“

Erla og Katrín Ýr

Árið eina í London er orðið að þrettán

Katrín Ýr býr í London þar sem hún vinnur við tónlist í fullu starfi, upphaflega ætlaði hún að vera í ár, en árin eru orðin þrettán. „Ég flutti út í ársnám, kom heim og fór síðan aftur til að taka þriggja ára tónlistargráðu og kom svo ekkert heim aftur. Ég sá að ég gat unnið við tónlistina í fullu starfi hér úti, sem mér hafði ekki dottið í hug áður. Ég hef ekki, þannig séð, verið mikið í tónlist hér hema fyrir utan að ég söng á Celtic og Hressó fyrir 15 árum.

Breitt laga- og áraval

Á lagalistanum eru meðal annars lög með Janis Joplin, Bonnie Tyler, Skunk Anansie, Evanescence og Paramore, auk Tinu Turner og Anouk, þannig að tímabilið er ekki eitthvað ákveðið að sögn Katrínar Ýrar. „Við vorum með svaðalegan lista sem við höfum minnkað niður og rifjuðum upp lög sem við vorum búnar að gleyma eða ekki heyrt lengi,“ segir Katrín Ýr.

Aðspurð um hvort að hún eigi sér uppáhaldskonu í rokki stendur ekki á svari. „Ég er algjört Skunk Anansie fan, ég hef séð þau „live“ fimm sinnum, mér finnst Skin æðisleg söngkona og þau eru uppáhalds síðan ég var 15 ára. Svo er Tina Turner alltaf algjör drottning.“

Viðburður á Facebook.

„Gott þegar hægt er að fá krakka til að hugsa um dýpri hluti“

|
|Alda Rose Cartwright

Árni Árnason venti kvæði sínu í kross, seldi fyrirtæki sitt og lét gamlan draum rætast um að gefa út bók. Barnabókin Friðbergur forseti, varð að veruleika með dyggri aðstoð Helenu dóttur Árna og hefur bókin um forsetann slegið rækilega í gegn.

 

„Ég er búinn að vera í markaðsgeiranum í 20 ár og seldi fyrr á árinu auglýsingastofuna sem ég hef átt í átta ár, Árnasynir,“ segir Árni eldhress þegar blaðamaður hringir. „Ég fór síðan að eltast við gamlan draum um að skrifa. Ég hef unnið mikið með texta í gegnum árin en löngunin var að taka skriftirnar á nýjan stað.“

Barnabók varð fyrir valinu sem fyrsta bók, þar sem Árna langaði að skrifa bók fyrir og með Helenu, níu ára dóttur sinni, en bækur og lestur eru sameiginlegt áhugamál feðginanna.

„Við lesum mikið saman og ég hef mikla trú á lestri og bókum sem uppeldistæki til að þroska hugann og gagnrýna hugsun. Mig langaði að skrifa barnabók á meðan Helena væri enn á þeim aldri að njóta. Mér finnst líka aldrei nóg af bókum fyrir börn og sérstaklega um hluti sem skipta máli.“

En finnst honum að barnabækur eigi að hafa boðskap?

„Það má bara vera gaman að sjálfsögðu. En mér finnst gott þegar hægt er að fá krakka til að hugsa um dýpri hluti, af því þeir eru oft að pæla í einhverju. Ég frábið mér samt allar predikanir í bókinni.“

Friðbergur forseti fjallar um krakka sem rísa upp þegar réttlætiskennd þeirra er misboðið. „Og gegn forsetanum Friðbergi, sem hefur tekið sér hálfgert einræðisvald og þau finna í hjarta sínu að hlutir eru að gerast sem ættu ekki að eiga sér stað. Síðan fara krakkar að hverfa og fleiri hlutir gerast.“

Hugmyndin varð til í heita pottinum

Feðginin fara í sund daglega og í spjalli í pottinum kom upp hugmyndin að bókinni. „Helena lét mér í té sögupersónurnar og gaf þeim nöfn. Saman þróuðum við grunnþráðinn í sögunni og ég tók hann svo og vann áfram,“ segir Árni.

„Persónurnar eru í rauninni persónur sem hún vildi heyra sögur um. Eru ekki allar persónur byggðar á einhverjum; bæði úr mínu, þínu og okkar allra lífi? Þetta eru persónur sem hún þekkir og við þekkjum saman. Ég er viss um að ég er þarna einhvers staðar,“ svarar Árni aðspurður um hvort Helena hafi byggt persónurnar á einhverjum sem hún þekkir.

Friðbergur forseti fjallar um krakka sem rísa upp þegar réttlætiskennd þeirra er misboðið.

En hvað finnst feðginunum um okkar forseta, Guðna Th. og er hann búinn að fá eintak af bókinni? „Við höfum ekki náð að gera það en fáum vonandi tækifæri til þess. Okkur finnst hann náttúrlega bara frábær og hann er forseti sem við getum verið montin og stolt af,“ segir Árni. „Sagan gerist í náinni framtíð og það má segja að Friðbergur gæti tekið við af Guðna ef við pössum okkur ekki á hvert við erum að fara. Það eru nokkrir samtíma populistar sem  má finna í Friðbergi.“

Bókin hefur farið vel af stað og fór í efsta sæti á sölulista barnabóka í útgáfuviku. „Bókin hefur fengið góðar viðtökur og það er gaman að sjá að bæði börn og fullorðnir taka bókinni vel. Bókin er fyrir aldurinn 8-12 ára og hún hentar vel fyrir börn og foreldra til að lesa saman. Það er margt í henni sem foreldrar geta líka haft gaman af,“ segir Árni. „Það er framhald á teikniborðinu alveg klárlega, sem kemur vonandi á næsta ári. Ég er einnig með fleiri hugmyndir.“

Árni hefur farið með bókina í skóla og lesið fyrir nemendur og segist tilbúinn til að vera með upplestur ef áhugi er fyrir því. „Það er ofsalega skemmtilegt og gaman að hitta væntanlega lesendur. Mjög gefandi.“

Þrefalt útgáfupartý – Epic Rain, Hvörf og Kristofer Rodriguez

Laugardaginn 2. nóvember koma hvorki meira né minna en þrjár plötur út á vegum plötubúðarinnar Lucky Records.

 

Um er að ræða plötur með hljómsveitunum Epic Rain og Hvörf, ásamt sólóplötu listamannsins Kristofer Rodriguez. Útgáfunni verður fagnað með útgáfu-/hlustunarpartíi í versluninni við Rauðarárstíg. Fjörið hefst klukkan 15 og er frítt inn.

Stríðshörmungar og sprunginn magi

|
|Ljóðabók Kristjáns.

Lífshlaup Kristjáns Guðlaugssonar hefur verið viðburðaríkara en flestra Íslendinga. Lengst af bjó hann í Noregi og starfaði við blaðamennsku og heimsótti m.a. stríðshrjáð svæði og varð vitni að ógnum sem flestir hafa aðeins heyrt fréttir af að eigi sér stað. Nýlega gaf hann út ljóðabókina Ullin brók og hangið kjöt, en þar er að finna safn ljóða frá ýmsum tímabilum ævi hans og þar endurspeglast minningar bæði sárar og hlýjar.

 

Þórbergur Þórðarson segir í Bréfi til Láru að sá sem ekki verði sósíalisti af að kynna sér stjórnmál sé fáviti. Ertu kannski sammála honum? „Já, ég er hjartanlega sammála Þórbergi,“ segir Kristján og brosir en hann er meðal þeirra sem rætt er við í heimildamyndinni Bráðum verður bylting eftir Hjálmtý Heiðdal. Þar er telft saman tveimur byltingarkenndum atburðum er settu svip á íslenskt samfélag árið 1970, annar var er þingeyskir bændur sprengdu upp stífluna í Laxá í Aðaldal en hinn var taka sendiráðs Íslands í Stokkhólmi. Ellefu íslenskir námsmenn fóru inn í sendiráðið í 20. apríl 1970 og drógu rauðan fána að húni og lýstu yfir að sósíalísk bylting á Íslandi væri nauðsyn. Kristján var þeirra á meðal. Hvað gekk ykkur til?

„Hér á Íslandi var mikil óðaverðbólga en námslánin héldu sér. Það varð því sífellt erfiðara fyrir námsfólk að lifa af lánunum vegna þess peningarnir urðu minna og minna virði. Það varð til hreyfing meðal námsmanna sérstaklega á Norðurlöndum sem beindist að því að laga þessi mál. Úr varð að ákveðin var setumótstaða eða fólk ætlaði að setjast niður í sendiráðunum til að mótmæla. En við fórum aðeins lengra því við vorum svo róttækir.

Í stað þess að setjast niður fórum við inn og hentum sendiráðsritaranum út. Við tókum yfir sendiráðið.

Þetta varaði reyndar ekki nema tvo tíma og lögreglan kom og tók okkur. Hún vissi ekkert hvað hún átti að gera við okkur en við sátum inni í einhverja fjóra eða fimm tíma. Sendiherrann óskaði ekki eftir að neinir eftirmálar yrðu og bað lögregluna að láta okkur fara.“

Skorinn upp á tréborði í Kína

Hann brosir og það er ekki alveg laust við að glampi kvikni í augum byltingarsinnans við að rifja þetta upp. Á þessum tíma ríkti raunar mikill frelsis- og umbreytingaandi um alla Evrópu. Vorið í Prag átti sér stað árið 1968 og lauk með innrás Sovétmanna, stúdentar mótmæltu í París og hin svokallað 1968 hreyfing hafði gríðarleg áhrif meðal ungs fólks um allan heim. Voruð þið innblásnir af því öllu? „Já, við vorum það og sluppum með skrekkinn,“ heldur Kristján áfram. „Eftir þetta flutti ég til Lundar og nam kínversku og kínverska sagnfræði. Maður fær hins vegar enga vinnu við það. Mig langaði að kynnast kínverskum kommúnisma, sögu landsins og læra tungumálið. Ég fór svo til Kína og var þar í átta mánuði.

 

Þar lenti ég í að maginn á mér sprakk. Ég var tekinn og bundinn niður á tréborði og skorinn upp með acupunktur.

Það leið náttúrlega bara yfir mig um leið og þeir stungu  hnífnum í mig. Þetta voru frábærir læknar engu að síður og gerðu allt rétt.

Það þurfti að taka burtu þrjáfjórðu hluta magans. Upp úr þessu skildi ég við þáverandi konu mína og fór til Noregs, kynntist þar konu sem ég giftist seinna og við bjuggum saman í þrjátíu ár. Stóran hluta þess tíma starfaði ég sem blaðamaður og var fréttastjóri á dagblaði í Stavangri.“

Ljóðabók Kristjáns.

Þótt friður hafi alla tíð ríkt á Norðurlöndunum voru víða umbrot á þessum árum. Þú kynntist því var það ekki? „Já, ég fékk leyfi frá ritstjóranum til að fara til Júgóslavíu þegar stríðið var þar. Ég var í Dubrovnik og þurfti að ganga milli tveggja hótela, yfir brú sem þar var og hún var sprengd svo ég datt niður sjö metra, braut á mér bakið á tveimur stöðum og báða ökklana. Lá hálfan mánuð í kjallara sjúkrahússins í Dubrovnik þar til keyrt var með mig á sendiferðabíl með palli upp til Lieb þaðan sem hægt var að fljúga. Ég á þær minjar frá Júgóslavíu enda er ég heiðursborgari í Dubrovnik. Ég skrifaði mikið um stríðið og um það sem gerðist í borginni. Þeir mátu það svo mikils að þeir gerðu mig að heiðursborgara.“

Pakkaði látnu barni í dagblöð

En hvernig var fyrir mann ofan af Íslandi, lengst af búsettan á Norðurlöndum, þekkjandi ekki annað en frið og að mestu saklausan gagnvart ofbeldinu að koma inn í svona aðstæður? „Alveg hrikalegt,“ segir Kristján. „Ég fór líka í kúrdísku héröðin. Var að læra tyrknesku í Ankara um tíma og fór þaðan með rútu inn í Írak meðan stríðið geisaði þar. Það var alveg hörmulegt. Þeir skutu nú á okkur landamæraverðirnir og þá var ekki annað en að kasta sér niður í drulluna og vona að maður lifði af.

Ég man sérstaklega eftir konu sem ég hitti þar. Hún kom gangandi á móti mér með barnið sitt dáið af hungri. Ég hjálpaði henni að pakka því inn í dagblað og grafa það.

Svona atriði sá ég á hverjum degi meðan ég dvaldi þarna. Ég var þarna bara í tvær vikur, enda mikill matarskortur og ég vildi ekki þiggja mat af þessu fólki. Hafði raunar litla lyst sjálfur. Mér þótti þessi reynsla engu að síður dýrmæt og skrifaði mikið um Kúrdistan og kúrdísku héröðin. Ég á marga kúrdíska vini úti í Noregi. En svo tekur allt enda. Það þarf að skipta um fréttastjóra. Þeir verða gamlir og þreyttir og ég var búinn að vera það lengi að ritstjórinn minn bað mig að víkja. Ég gerði það fúslega og vann sem venjulegur blaðamaður í fimm ár.“

Viðtalið í heild er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Unnur Magna

Sparilegt pasta sem ærir bragðlaukana

Ef þú ert í stuði fyrir smá kolvetni þá er fátt betra en að skella í fljótlegan og góðan pastarétt. Þessi er flottur í helgarmatinn enda humar einstaklega sparilegt hráefni.

 

Humar-tagliatelle
Fyrir 4

5 msk. olía
400 g humar, skelflettur
salt og nýmalaður pipar
3 hvítlauksgeirar
½ chili-pipar, fræhreinsaður og sneiddur
400 g litlir tómatar, saxaðir
1 dl hvítvín
1 dl fiskisoð (vatn og fiskiteningur)
500 g tagliatelle
100 g sýrður rjómi eða 1 dl rjómi
salt og nýmalaður pipar
hnefafylli steinselja, söxuð

Steikið humarinn í 2 msk. af olíu, saltið og piprið og setjið til hliðar. Steikið hvítlauk heilan ásamt chilipipar í 3 msk. olíu. Bætið tómötum út í og látið sjóða þat til tómatarnir hafa mýkst vel upp og samlagast olíunni. Bætið hvítvíni í og látið sjóða í 5 mínútur eða þar til vökvinn hefur minnkað aðeins. Bætið þá fiskisoði í og látið sjóða í aðrar 5 mín. Fjarlægið hvítlaukinn úr sósunni og bætið steiktum humar og sýrðum rjóma í hana, látið hitna í gegn. Smakkið til með salti og pipar. Sjóðið Rana tagliatelle eftir leiðbeiningum á pakkanum og hellið því síðan í gegnum sigti og setjið í skál. Hellið sósunni yfir pastað og stráið ferskri steinselju og parmesanosti yfir.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Bragi Þór Jósepsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Mætti viku of snemma í brúðkaup

Júlli og dóttir hans

Júlíus Sigurjónsson, sem jafnan er kenndur við Júlladiskó, skellir í Hrekkjavöku Júlladiskó um helgina á Ölhúsi Hafnarfjarðar.  Hér ljóstrar hann upp fimm staðreyndum um sjálfan sig.

 

„Ég vann eitt kvöld sem dyravörður á A Hansen í Hafnarfirði.  Sem betur fer fór allt vel fram því ég veit ekkert hvað ég hefði gert annars.“

„Ég átti einkanúmerið Sálin. (Sálin hans Jóns mín). Ég tók það af eftir smátíma þegar kærasta mín hringdi ekki sátt því það var verið að taka myndir af henni í akstri. Flestir héldu að Stefán Hilmarsson ætti bílinn.“

„Ég mætti einu sinni viku of snemma í brúðkaup.  Það var þó skárra en viku of seint.“

„Ég hef aldrei séð kvikmyndina Titanic, en ég hef ætlað að horfa á hana um jólin í um 20 ár. Oftast enda ég á að horfa á Bodyguard, enda ein besta mynd allra tíma.“

„Ég borðaði svo oft á KFC þegar ég var um 25 ára að ég var hættur að þurfa að panta. Starfsfólkið græjaði bara máltíð númer 9 mínus majónes.“