Laugardagur 18. janúar, 2025
1.1 C
Reykjavik

Kraftgalli í Mengi

Kraftgalli, a.k.a. Arnljótur Sigurðsson, ætlar að fagna útgáfu á nýju lagi sínu Rússíbani með tónleikum í Mengi annað kvöld, laugardagskvöldið 7. september klukkan 21.

Kraftgalli ætlar að spila nýja lagið og kynna í leiðinni tvær væntanlegar útgáfur. Annars vegar bókina Trítladansinn sem kemur út hjá Print & Friends Verlag í haust. Í henni kafar Kraftgalli dýpra í menningu trítlanna með 24 síðna bók með teikningum af  frumsömdum danssporum sem kynnt verða á tónleikunum.

Lagið Trítladansinn mun fylgja bókinni og verður það flutt á tónleikunum. Þá mun Kraftgalli spila efni af nýrri plötu sem að er stefnt að komi út fyrir jól.

Húsið opnar klukkan 20.30, tónleikarnir hefjast klukkan 21. Miðaverð er 2.000 krónur.

WOW air aftur í loftið

Michele Ballarin, stjórnarformaður USAerospace Associates LLC, hefur fest kaup á eignum þrotabús WOW air. Stefnt er að því að WOW air hefji flug í október.

Ballarin greindi frá því á blaðamannafundi fyrr í dag að Félagið verði með bandarísk flugrekstrarleyfi og skrifstofur beggja vegna Atlantshafsins. Ísland verði aðalstarfsstöðin í Evrópu en aðalstarfsstöðin í Norður-Ameríku verði í Washington.

Verið sé að skoða hvaða áfangastaða eigi að fljúga. Það verði svipaðir staðir og áður, en fyrsta flugið sé áformað á milli Dulles-flugvallar í Washington og Keflavíkurflugvallar.

Ballarin segist stefna á farþegaflutninga en einnig vöruflutninga, að því er fram kemur á heimasíðu RÚV. Hún segist sjá tækifæri í flutningi á fiski frá Íslandi til Bandaríkjanna. Byrjað verði með tvær flugvélar, fjölgað fljótlega í fjórar og farið upp í 10 til 12 vélar næsta sumar. Vélum verði ekki fjölgað eftir það. Þá verði flugmenn og flugfólk WOW air að einhverju leyti endurráðið.

Margt er þó á huldu varðandi kaupin. Ballarin gefur til dæmis ekkert upp um kaupverðið og vill enn sem komið er ekki segja hverjir íslenskir samstarfsmenn hennar eru.

Engin svör

 

Leiðari úr 32. tölublaði Mannlífs

Höfundur / Friðrika Benónýsdóttir

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom og fór og í einn dag var Ísland eins og leikmynd í bandarískri bíómynd; bílaflotar á lokuðum götum, leyniskyttur á þökum, handabönd og innihaldslausar ræður fyrir framan blaðamenn. Allir fjölmiðlar landsins fjölluðu um heimsóknina og viðbrögð almennings við henni í löngu máli en það vakti althygli að í allri þessari umfjöllun var lítið minnst á tilgang heimsóknarinnar og hvaða þýðingu hún hefði fyrir umsvif Bandaríkjamanna á Íslandi. Sirkusinn var í bænum og allir dönsuðu með en veltu því lítið fyrir sér hvað væri að gerast á bakvið tjöldin.

Áður en varaforsetinn steig á land höfðu fjölmiðlar velt því fyrir sér hver tilgangur heimsóknarinnar væri og leitað álits sérfræðinga á því hvað hún þýddi. RÚV ræddi meðal annars við Guðmund Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, um heimsóknina daginn áður en Pence kom og í því viðtali kom fram að slíkar heimsóknir eru aldrei að ástæðulausu, það er alltaf einhver tilgangur með þeim. Eða eins og Guðmundur orðaði það: „Þessir pótintátar koma ekki til landa nema að þeir telji sig hafa eitthvert erindi þangað. Þetta er ekki bara kurteisisheimsókn. Hann er að koma vegna einhverra erinda sem hann er að reka.“

Látið var að því liggja í viðtalinu við Guðmund að það kæmi í ljós hvaða erindi það væru sem varaforsetinn væri að reka þegar heimsóknin væri afstaðin, en það bólar lítið á svörum við þeirri spurningu. Hinn almenni Íslendingur er engu nær um það hvað þessi heimsókn þýddi. Jú, utanríkisráðherra viðraði áhuga sinn á fríverslunarsamningi við Bandaríkin og forsætisráðherra ræddi loftslagsmál og kvenréttindi við varaforsetann. Hvorugt skýrir á nokkurn hátt grundvöll þess að Bandaríkin sáu ástæðu til að senda næstæðsta valdamann sinn til Íslands í sjö tíma. Það er alveg ljóst að Mike Pence var ekki hér til að ræða kvenréttindi, réttindi hinsegin fólks eða loftslagsvána. Hann var hér sem fulltrúi herveldis sem í einn dag lagði miðborg Reykjavíkur undir sig og virtist geta fengið öllum sínum kröfum um hlægilegar varúðarráðstafanir framgengt. Var það kannski tilgangur heimsóknarinnar? Að sýna Íslendingum hver ræður?

Varnarsamningur Íslendinga og Bandaríkjamanna er enn í fullu gildi og fram hefur komið að Bandaríkin hyggjast auka umsvif sín á Keflavíkurflugvelli að nýju en hversu mikil þau umsvif eiga að verða er á huldu. Íslenskir ráðamenn virðast hins vegar ekki hafa haft mikinn áhuga á að ræða þau mál við varaforsetann ef marka má fréttaflutning af heimsókninni.

„Bandaríkin hyggjast auka umsvif sín á Keflavíkurflugvelli að nýju, en hversu mikil þau umsvif eiga að verða er á huldu.“

Forsætisráðherra sagði einungis að ekkert nýtt hefði komið fram í því efni á fundi hennar og varaforsetans. Hvað þýðir það? Geta Bandaríkjamenn gert hvað sem þeim sýnist á sinni herstöð í Keflavík? Þarf ekkert að ræða það eða hafa Íslendingar einfaldlega ekkert um það að segja? Það væri sannarlega gott að fá svör við þeim spurningum og það sem fyrst. Okkur kemur það nefnilega við.

Komur á bráðamóttöku vegna fíkniefna og sterkra lyfja hafa aukist um 96,4%

||
||

Samantekt á misnotkun ungmenna á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum er sláandi en veruleg aukning er í komum á bráðamóttöku, sjúkraflutningum og alvarlegum slysum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

 

Aukin misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum hefur verið gríðarleg síðustu ár. Sífellt fleiri fréttir um einstaklinga í neyslu, jafnvel á barnsaldri, og aukin dánartíðni vegna lyfseðilsskyldra lyfja vekur óhug í samfélaginu og kröfur um aukin og bætt úrræði verða sífellt háværari. Langir biðlistar í meðferð og úrræðaleysi veldur einstaklingum í neyslu sem vilja bata og aðstandendum þeirra kvíða og vonleysi.

Í samantekt sem samtökin Eitt líf hafa tekið saman um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum kemur fram aukning í tölum milli ára hvar sem borið er niður: dánartíðni vegna lyfja, sjúkraflutningar, komur á bráðamóttöku, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og alvarleg slys vegna slíks aksturs.

Heimild / Samgöngustofa

Markmið Eitt líf fræðsluátaksins er að ná til grunnskólanema í 7.–10. bekk ásamt foreldrum og kennurum barnanna og sporna við misnotkun á lyfsseðilskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum.

Í samantekt þeirra kemur fram að vænlegast sé talið að ná til ungmenna áður en þau prófa, samanborið við að ná til þeirra eftir að þau hafa prófað. Flestar neikvæðar afleiðingar sem misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum hefur í för með sér má helst rekja til þeirra sem eru á framhaldsskólaaldri og eldri og það er sá aldurshópur sem Eitt líf hefur áhyggjur af.

Heimild / Talnabrunnur embætti Landlæknis, maí 2019

Verndandi þættir eru að dala

Niðurstöður rannsókna á meðal grunnskólanemenda sýna að verndandi þættir eins og góð andleg líðan, að foreldrar viti hvar börn þeirra séu á laugardagskvöldum, samverustundir með foreldrum og fleira eru að dala. Á sama tíma eru áhættuþættir eins og auðvelt aðgengi að lyfjum og fíkniefnum, vanlíðan og fleira að aukast. Kaup og sala hefur aldrei verið auðveldari og fer fram á samfélagsmiðlum, í appi og milli vina og kunningja.

Vanlíðan meðal ungmenna er áhættuþáttur, í dag er hún verri en nokkru sinni fyrr. Hátt í 40% tíundu bekkinga finna fyrir depurð vikulega eða oftar, 38% glíma við svefnerfiðleika og 17% segjast vera einmana mjög oft.

Notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum fer vaxandi 

Almenn notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum fer ört vaxandi um allan heim og sama á við á Íslandi. Í skýrslu Velferðarráðs frá maí 2018 segir: „gera má ráð fyrir að þróun samfélagsins og heilbrigðiskerfisins á síðastliðnum áratugum eigi þátt í að skapa væntingar og menningu sem lítur á lyf sem lausn margra vandamála og leitt hefur til mikillar aukningar á notkun þeirra. Þessi þróun ásamt miklu magni ávanabindandi lyfja í umferð skapar hættu á of- og misnotkun þessara lyfja.“

Nýir tímar, nýjar áskoranir, breytt neysla

Með forvörnum, fræðslu og aukinni samfélagsvitund hafa Íslendingar náð góðum árangri í að draga úr áfengisneyslu og tóbaksreykingum meðal ungmenna. Í dag eru hins vegar breyttir tímar og hafa lyfseðilsskyldu lyfin og misnotkun þeirra leitt til nýrra áskorana og forvarna á breyttan hátt.

Í rannsókn sem Rannsókn og greining lagði fyrir framhaldsskólanema árið 2018 kemur fram að 11% framhaldsskólanema höfðu notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils einu sinni eða oftar. Þá notuðu 20% háskólanema örvandi lyf til þess að minnka svefnþörf og bæta námsárangur samkvæmt könnun Lyfjastofnunar sama ár. Alls 11% nemenda í tíunda bekk hafa tekið svefntöflur eða róandi lyf án lyfseðils einu sinni eða oftar, sem ekki var ávísað á þau og 1,5% hafa reynt örvandi lyf, eins og ritalín, sem ekki voru ætluð þeim.

Í könnun Gallup á vegum Landlæknisembættisins í lok árs 2018 kom fram að rúmlega þriðjungur Íslendinga á aldrinum 18-67 ára hefur notað ólögleg vímuefni einhvern tíma um ævina. Flestir svöruðu því til að hafa fengið ávísað lyfjum frá lækni aðspurðir um aðgengi að lyfseðilsskyldum lyfjum.

Dánartíðni vegna lyfja eykst

Lyfjatengd andlát voru 39 árið 2018 en meðaltal andláta síðustu tíu ár eru 27. Það sem af er árinu 2019 eru 23 dauðsföll til skoðunar hjá Embætti landlæknis. Dánartíðni ungmenna vegna lyfjatengdra andláta, sérstaklega ungra karlmanna, var mjög há á síðasta ári. Þá létust 10 karlmenn á aldrinum 15-29 ára.

„Fikt getur í aðeins eitt skipti reynst dýrkeypt og óafturkræft“

Sjúkraflutningar vegna ofneyslu jukust um 7% árið 2018, en útköll voru 453 talsins. Auknar komur á bráðamóttöku LSH eru gríðarlegar, en ef miðað er við árin 2013-2017 er aukningin 96,4% vegna fíkniefna og sterkra lyfja. „Þetta eru ekki lengur jaðarhópar sem eru að fikta við vímuefni, þetta er orðið svo algengt meðal flottra ungra krakka sem koma frá heimilum þar sem þau hafa fengið góðan stuðning, hafa góðar einkunnir og hafa allt til brunns að bera,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á LSH, í fyrirlestri sem hann hélt í nóvember 2018.

Aukning í alvarlegum umferðarslysum

Síðustu ár hefur akstur undir áhrifum áfengis lækkað á sama tíma og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna verður algengari. Í tölum Samgöngustofu kemur fram að alvarlegum umferðarslysum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna hefur fjölgað gríðarlega. Árið 2017 slösuðust 52 af völdum fíkniefnaaksturs en árið 2017 var sá fjöldi kominn í 85 einstaklinga. Þegar bráðabirgðatölur eru skoðaðar fyrir árið 2019 má sjá að ástandið hefur batnað og telur Samgöngustofa að það megi þakka vitundarvakningu, bættri löggæslu, samráðsfundi aðila sem að málefninu koma og átakinu Eitt líf.

„Betur má ef duga skal og við verðum að halda áfram að berjast. Samgöngustofa mun styðja við verkefnið af fullum krafti áfram,“ segir Hildur Guðjónsdóttir, hópstjóri í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.

Hvað er til ráða?

Virkja þarf nærsamfélagið og styrkja verndandi þætti í umhverfi barna og ungmenna, auk þess að auka líkur á að þau nýti tíma sinn á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Forvarnarlíkanið, Íslenska módelið, sem byggir á samstarfi aðila í nærumhverfi barna og ungmenna, gengur út á að styrkja verndandi þætti í umhverfi barna og ungmenna, meðal annars með því að styrkja stuðningshlutverk foreldra og skóla og fjölga tækifærum barna og ungmenna til að stunda skipulagt tómstundastarf.

Með auknum úrræðum, fjármagni og forvörnum, auk betra aðgengis ungmenna og aðstandenda að ráðgjöf ætti að vera vel hægt að draga úr neyslu ungmenna. Aukin vitundarvakning og samkennd samfélagsins með vanda þeim sem steðjar að ungmennum í dag, auk þess sem umræðan um vandann verður sífellt opnari um leið og skömminni og leyndinni er svipt af málaflokknum veitir von um að draga megi verulega úr þeim háu tölum sem samantekt Eitt líf sýnir fram á. Það er í það minnsta vilji allra þeirra sem að málefninu koma.

Samantekt Eitt líf má finna í heild sinni inn á vef samtakanna eittlif.is

„Lífið alltaf að rétta mér skemmtileg verkefni“

|
Guðrún Óla Jónsdóttir heldur einsöngstónleika í Lindakirkju í kvöld|

Söngkonan Guðrún Óla Jónsdóttir, alltaf kölluð Gógó, heldur tónleika í Lindakirkju í Kópavogi, í kvöld, 6. september klukkan 20. Hún elskar stórar ballöður, segir að ekki skemmi fyrir ef þær séu svolítið dramatískar í ofanálag og textinn um tilfinningalausa óþokka.

 

„Þetta eru tónleikar með lögum úr ýmsum áttum en fólk má búast við stórum ballöðum sem til dæmis Barbra Streisand, Whitney Houston, Haukur Morthens og fleiri hafa gert frægar,“ segir Gógó. „Ég reyni kannski að lauma inn smástuði en þetta verður nú engin upphitun fyrir djamm í miðbænum heldur meira notaleg kvöldstund þar sem alls konar dægurperlur verða fluttar. Óskar Einarsson verður með mér og spilar á flygilinn. Hann er á við heila hljómsveit og ég er endalaust þakklát fyrir að hafa hann mér við hlið í þessu tónleikabrölti mínu, þriðja árið í röð. Svo verður Eyjólfur Kristjánsson, Eyfi, sérstakur gestur. Það er mjög gaman að Eyfi ætli að vera með, því hann var tónlistarstjóri í fyrstu nemendasýningunni sem ég tók þátt í og er frábær tónlistarmaður.“

Þetta er þriðja árið í röð sem Gógó heldur einsöngstónleika í Lindakirkju. „Fyrsta árið hélt ég í raun bara tónleikana fyrir sjálfa mig, þeir voru svona á bucket-listanum en þeir heppnuðust svo vel að ég ákvað að endurtaka leikinn í fyrra og það sama er uppi á teningnum í ár.“

Gógó byrjaði að syngja þegar hún var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem hún byrjaði í kór og tók þátt í árshátíðarsýningunum sem voru settar upp á hverju ári, fór til dæmis með aðalhlutverkið í Litlu hryllingsbúðinni sem var sett upp í Íslensku óperunni 1995 og sigraði hæfileikakeppnina Stjarna morgundagsins sem Gunnar Þórðarson stóð fyrir á Hótel Íslandi 1996. Að auki söng hún aðeins inn á plötur og í bakröddum. „Ég tók mér síðan langt hlé frá söngnum þar til ég byrjaði í Kór Lindakirkju árið 2011 þar sem ég hef sungið síðan, bæði með kórnum og sem einsöngvari. Við syngjum mikið gospel og það er geggjað; mikil útrás og ótrúlega gefandi, enda er gospel endalaus uppspretta fyrir næringu andans. Ég er nýkomin frá Akureyri þar sem ég var gestasöngvari hjá Gospelröddum Akureyrar ásamt drottningunni Andreu Gylfadóttur sem var alveg meiriháttar. Lífið er alltaf að rétta mér einhver skemmtileg verkefni.“

„Við syngjum mikið gospel og það er geggjað; mikil útrás og ótrúlega gefandi, enda er gospel endalaus uppspretta fyrir næringu andans.“

Gógó sendi nýlega frá sér lag sem ekki er ólíklegt að verði flutt á tónleikunum. „Við Óskar hittumst um daginn til að æfa fyrir tónleikana og okkur datt í hug að taka upp eitt lag. Það heppnaðist svo vel að það þurfti bara eina töku til. Þetta er lagið Goodbye Yellow Brick Road eftir Elton John en í töluvert öðruvísi útgáfu en fólk á að venjast,“ segir hún ánægð og heldur áfram: „Þótt ég hafi verið að syngja hádramatískar ballöður á tónleikunum mínum hef ég líka reynt að koma fólki til að hlæja á milli laga. Ég vil hafa andrúmsloftið svolítið heimilislegt og afslappað og ég held að fólk fari út úr Lindakirkju með bros á vör og hlýju í hjartanu. Hingað til hefur alla vega bæði verið hlegið og grátið og allt þar á milli.“

Mynd / Unnur Magna

Hið vaxandi hagsmunagæslubákn í Borgartúninu   

Mynd / Bára Huld Beck

Stjórnvöld hyggjast setja hagsmunavörslu frekari skorður. Umsvifamestu hagsmunasamtök landsins telja hins vegar ekki þörf á slíku.

 

Frá því rétt fyrir aldamót hafa Samtök atvinnulífsins staðið vörð um hagsmuni atvinnurekenda í íslensku samfélagi. Umsvif samtakanna eru mikil en í dag eru sex stór hagsmunasamtök með aðild að samtökunum og yfir 2.000 fyrirtæki. Þá eru samtökin með 180 fulltrúa í um hundrað nefndum og stjórnum.

Samtökin hafa fengið flestar umsagnarbeiðnir frá Alþingi af öllum samtökum, samböndum og félögum á yfirstandi þingi, eða alls 161 beiðni. Rekstur samtakanna hefur vaxið í krónum talið á síðustu árum og í fyrra nam heildarvelta félagsins rúmlega 720 milljónum króna.

Stjórnvöld hafa áform um að setja hagsmunavörslu hér á landi frekari skorður en afar takmarkaðar reglur eru um slíkt. Forsætisráðuneytið hyggst leggja til að hagsmunaverðir sem eiga sam­skipti við handahafa ríkisvaldsins verði gert að skrá sig sem slíka. Auk þess er fyrirhugað að ráð­herr­ar, aðstoð­ar­menn, ráðu­neyt­is­stjór­ar, skrif­stofu­stjórar og sendi­herrar, geti ekki í til­tek­inn tíma eftir að opin­beru starfi lýkur gegnt starfi fyrir skráða hags­muna­verð

Sam­tök Atvinnu­lífs­ins hafa gagn­rýnt þessi áform stjórn­valda en samtökin telja að slík takmörkun á starfsvali geti ekki orðið til annars en tjóns fyrir samfélagið. Enn fremur telja samtökin opinbera skráningu hagsmunavarða óþarfa enda sé hér á landi í flestum tilvikum ljóst hvaða samtökum hagsmunaverðir þjóna.

Hægt er að lesa fréttaskýringuna í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.

Með beinagrindurnar á borðinu

Eyþór Arnalds fyrrverandi borgarfulltrúi Mynd: Hallur Karlsson

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hefur verið milli tanna fólks undanfarið eftir viðbrögð hans við grænkeravæðingu skólamáltíða. Minnihlutinn í borgarstjórn hefur líka fengið gagnrýni fyrir að vera á móti öllu sem meirihlutinn gerir án þess þó að leggja fram neinar tillögur um það hvernig hægt væri að gera betur. Eyþór er þó sallarólegur yfir þessu, segir þetta meira og minna á misskilningi byggt, fjölmiðlar fjalli nefnilega aldrei um það þegar fólk sé sammála.

 

Eyþór er nýkominn af löngum fundi í borgarstjórn þar sem fjárhagsstaða borgarinnar eftir fyrri helming ársins var til umræðu þegar blaðamaður nær sambandi við hann. Hann er þó ekki með neinn æsing yfir niðurstöðunum, þótt hann sé ekki allskostar sáttur við þær.

„Við bendum til dæmis á það að skuldir borgarinnar eru að vaxa þótt það hafi verið góðæri,“ segir hann. „Svo var innri endurskoðun borgarinnar að benda á að framlög Reykjavíkurborgar til skólanna eru frekar lítil miðað við meðaltal landsins og viðhald þeirra í mjög slæmu ástandi, sem er alvarlegt mál sem þarf að skoða.“

Spurður hvort það sé ekki þrautleiðinlegt að standa í svona þvargi alla daga dregur Eyþór við sig svarið.

„Nei, nei,“ segir hann svo. „Það er eins með þetta og allt annað, það er hægt að gera sér öll störf leiðinleg eða skemmtileg hvort sem það er uppvask eða að spila á selló eða að vera í borgarstjórn og ég reyni yfirleitt að hafa gaman af því sem ég geri vegna þess að það er svo verðmætt að hafa gaman af öllu sem maður gerir, jafnvel bara að fara út með ruslið. Borgarstjórnarstarfið tekur hins vegar á og tekur mikinn tíma og það sem mér finnst kannski taka mest á þolinmæðina eru þessir löngu fundir. Þeir eru oft fimm tímar eða svipað langir og flug til New York og það er svolítið langur tími til að sitja kyrr, en þá fer maður bara í ræktina á eftir og fær útrás.“

Pönkari og anarkisti

Áður en Eyþór hellti sér út í pólitíkina var hann þekktur sem tónlistarmaður, spilaði meðal annars með Tappa tíkarrassi og Todmobile árum saman, hvað fékk hann til að söðla um og fara út í pólitík? Eru þessir heimar ekki algjörar andstæður?

„Jú, jú, ég er fullur af andstæðum,“ segir hann hlæjandi. „Ég lærði fyrst á fiðlu og fór síðan í pönkið með Tappa tíkarrassi og Björk og hætti því svo og fór að læra á selló. Eftir það fór ég í Todmobile. En þegar ég var pönkari var ég svolítill anarkisti, var á móti ríkinu, boðum og bönnum og yfirvaldi og vildi meira frelsi. Það var mjög lítið frelsi þegar við vorum unglingar í Rokk í Reykjavík. Það mátti ekki einu sinni selja erlent súkkulaði. Þegar ég var þrettán ára fór ég niður í bæ með vini mínum og við höfðum meðferðis lak sem mamma átti sem á var skrifað „Hvar er frelsið?“ Lögreglan kom og kvartaði yfir því að við værum að mótmæla svo það má segja að þarna strax hafi maður verið orðinn aktívisti og mín pólitík er einfaldlega sú að ég treysti fólki – stundum of mikið reyndar – og trúi því að fólk eigi að fá að ráða sínum málum sem mest sjálft. Þegar maður verður eldri kemst maður síðan að því að ef maður vill breyta einhverju verður maður að gera það í gegnum kerfið. Ég fór í pólitík í Árborg, þar sem ég bjó þá, og þar náðum við að breyta mörgu sem ég er mjög ánægður með. Ég sé það líka að sveitarfélagið er að vaxa út frá þeim ákvörðunum sem voru teknar þegar við vorum í meirihluta og það eru bestu launin að sjá það sem maður gerir skila sér.“

„Þegar ég var pönkari var ég svolítill anarkisti, var á móti ríkinu, boðum og bönnum og yfirvaldi og vildi meira frelsi.“

Fólk þarf að fá svör

Eyþór var alinn upp í Reykjavík, bjó á Selfossi í tíu ár en er fluttur aftur til Reykjavíkur. Hann langar að leggja sitt af mörkum til að sjá svipaðar skipulagsbreytingar í rekstri borgarinnar og þær sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins kom á í Árborg.

„Ég bar aldrei stóla í Valhöll, var aldrei virkur í Heimdalli eða ungliðahreyfingunni eins og svo margir. Ég kem bara beint úr atvinnulífinu og listalífinu án þess að hafa klifrað upp neinn stiga,“ segir Eyþór.

„Eitt af því sem við gerðum í Árborg var að reyna að einfalda stjórnkerfið,“ útskýrir hann. „Eða það sem við kölluðum að stytta boðleiðirnar þannig að mál séu ekki að þvælast í einhverju ómanneskjulegu kerfi í óratíma. Við einfölduðum kerfið, lækkuðum skattana á heimilin og borguðum niður skuldir og þetta væri allt saman rétt að gera í Reykjavík. Fasteignaskattarnir eru mjög háir hér í borginni, skuldir borgarsjóðs aukast um milljarð á mánuði og við sjáum það að fólk fær ekki svör, hvort sem það eru verslunarrekendur við Laugaveg eða Hverfisgötu eða þeir sem eru á biðlista einhvers staðar eða þeir sem vilja byggja. Kerfið er orðið allt of flókið og endalaust að tala við sjálft sig og ég hef trú á því að við getum einfaldað það og um leið gert það betra og ódýrara.“

Það kom mörgum á óvart þegar Eyþór var valinn sem oddviti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, hann hafði ekki verið áberandi innan flokksins fram að því. Hann segir það eiga sér einfalda skýringu.

„Kerfið er orðið allt of flókið og endalaust að tala við sjálft sig og ég hef trú á því að við getum einfaldað það og um leið gert það betra og ódýrara.“

„Ég tók þátt í prófkjöri í Árborg á sínum tíma og vann það og gerði svo það sama í Reykjavík,“ útskýrir hann. „Í báðum tilfellum fékk ég mjög góðan stuðning, meira en helming atkvæða þótt það væru margir að keppa, en ég bar aldrei stóla í Valhöll, var aldrei virkur í Heimdalli eða ungliðahreyfingunni eins og svo margir. Ég kem bara beint úr atvinnulífinu og listalífinu án þess að hafa klifrað upp neinn stiga.“

Sumir höfðu á orði þegar ljóst var að Eyþór var oddvitaefni flokksins í Reykjavík eftir að Halldór Halldórsson hafði verið sóttur til Ísafjarðar til að leiða flokkinn í kosningunum þar á undan, hvort ekki væru neinir frambærilegir Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Telur Eyþór það vera vandamál innan flokksins?

„Nei, það held ég nú ekki,“ segir Eyþór og brosir. „Það er nú sem betur fer þannig á Íslandi að menn flytja milli staða. Ég hef búið á mörgum stöðum í Reykjavík; alinn upp í Árbænum, hef búið í Vesturbænum og Grafarholtinu og þekki Reykjavík vel. Ég hef búið erlendis líka, í London og San Francisco, en mér þykir mjög vænt um Reykjavík. Ég myndi segja að hún væri minnsta stórborg í heimi og hún hefur mikil tækifæri til þess að þróast í góða átt.“

Megum ekki vera fölsk

Kom reynslan úr viðskiptalífinu og tónlistarheiminum Eyþóri til góða eftir að hann lagði pólitíkina fyrir sig?

„Ef maður kann að nýta sér reynslu úr listum eða viðskiptum í pólitík þá held ég að það sé mjög gott,“ segir Eyþór. „Vegna þess að þegar við vinnum í hóp þá spilum við saman eins og við séum í hljómsveit, við verðum að spila sama lagið og við megum ekki vera fölsk, verðum að vera heiðarleg. Maður getur líka lært af viðskiptalífinu að það skiptir máli hvernig farið er með peninga. Þeir sem hafa verið í atvinnulífinu hafa oft þurft að hafa áhyggjur af því að borga laun og annað og það er góð reynsla þegar kemur að því að fara með almannafé. Maður er meðvitaður um það að peningar vaxa ekki á trjánum.“

Eyþór segist vilja gera ýmsar breytingar. „Fasteignaskattarnir eru mjög háir hér í borginni, skuldir borgarsjóðs aukast um milljarð á mánuði og við sjáum það að fólk fær ekki svör, hvort sem það eru verslunarrekendur við Laugaveg eða Hverfisgötu eða þeir sem eru á biðlista einhvers staðar eða þeir sem vilja byggja.“

Þessi fullyrðing Eyþórs um að fólk í pólitík verði að vera samtaka og spila saman skýtur dálítið skökku við í ljósi þeirrar gagnrýni sem minnihlutinn í borgarstjórn hefur orðið fyrir, að vera á móti öllu sem meirihlutinn gerir bara til þess að vera á móti því. Hvaða skýringu hefur hann á þeirri gagnrýni?

„Það er náttúrlega tölfræðilega rangt,“ segir hann sallarólegur. „Ef það er farið yfir fundargerðir borgarstjórnar sést að í áttatíu til níutíu prósent tilfella er minnihlutinn sammála meirihlutanum. Hins vegar ratar það ekki í fréttir. Ég er stoltur af því að við höfum bent á hluti sem ekki voru í lagi og ég finn það að það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru sammála því að það er hægt að gera betur.“

Trump er víða

Fyrir hinn almenna borgara sem les um málin í fjölmiðlum lyktar þetta engu að síður dálítið af Trumpisma. Að það sé verið að afvegaleiða umræðuna til að vekja athygli á sjálfum sér. Er pólitíkin að breytast í þá átt?

„Pólitíkin í heiminum er að breytast, já,“ segir Eyþór. „En ég passa mig alla vega á því að vera lítið á Twitter því þar er svo mikið rifist og hlutirnir slitnir úr samhengi. Ég hef til dæmis ekkert á móti veganisma, eins og ætla mætti af umfjöllun fjölmiðla um skólamatinn, ég vil bara að fólk hafi val. Það er nýbúið að samþykkja stefnu sem allir flokkarnir voru sammála um, að það ætti að vera fiskur í mötuneytum skólanna tvisvar í viku, kjöt einu sinni og svo egg og skyr og ávextir og svo framvegis. Síðan kemur einn oddvitinn úr meirihlutanum í Ríkisútvarpið og segir að það eigi að draga verulega úr öllum dýraafurðum og það sé full samstaða um það hjá meirihlutanum. Það er svolítil bomba og ég myndi segja að það væri líkara Trump en það sem minnihlutinn hefur verið að gera. Þannig að Trump er víða.“

Enginn flokkur fullkominn

Nú finnst mér nóg komið af pólitískri umræðu og fer að forvitnast um bakgrunn Eyþórs og upphafið á pólitískum áhuga hans, kemur hann úr pólitísku umhverfi?

„Á vissan hátt, já,“ viðurkennir hann. „Heimsmálin voru alltaf rædd á mínu heimili. Mamma mín, Sigríður Eyþórsdóttir, var mikill umhverfissinni og föðurbróðir minn, Ragnar Arnalds, var formaður Alþýðubandalagsins þannig að við fylgdumst alltaf vel með kosningum. Svo var pabbi, Jón Laxdal Arnalds, ráðuneytisstjóri og hafði marga ráðherra sem maður sá að voru mjög mismunandi. Hann talaði reyndar aldrei um pólitík út á við, var praktískur ráðuneytisstjóri og dómari og mjög orðvar, en það var samt alltaf verið að tala um heimsmálin.“

Eyþór var alinn upp í Reykjavík, bjó á Selfossi í tíu ár en er fluttur aftur til Reykjavíkur. Hann langar að leggja sitt af mörkum til að sjá svipaðar skipulagsbreytingar í rekstri borgarinnar og þær sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins kom á í Árborg.

Bakgrunnur þinn er sem sagt ekki í Sjálfstæðisflokknum, valdirðu hann til þess að vinna að auknu frelsi einstaklingsins í samræmi við anarkistahugsjón unglingsáranna?

„Já, mér fannst hann helst tala fyrir því,“ segir Eyþór. „En það er enginn flokkur fullkominn og það er alltaf hægt að gera betur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir einstaklingsfrelsi og ég bara ákvað að trúa því og beita mér fyrir því á vegum flokksins.“

Talandi um að enginn flokkur sé fullkominn, utan frá séð virðist hver höndin vera upp á móti annarri innan Sjálfstæðisflokksins þessi misserin, hvar stendur Eyþór í þeirri togstreitu?

„Eins og við ræddum áðan þá eru stjórnmálin að breytast og miklu fleiri flokkar komnir til sögunnar,“ segir Eyþór. „Það eru átta flokkar í borgarstjórn og það má segja að í síðustu kosningum hafi tveir flokkar, Miðflokkurinn og Viðreisn, sótt að Sjálfstæðisflokknum. Mjög ólíkir flokkar en fá báðir atkvæði frá kjósendum Sjálfstæðisflokksins þannig að hann þarf að hafa skýra rödd og að mínu mati á hann standa fyrir valfrelsi einstaklingsins og að minnka kerfið.“

Fer of mikið púður í tal um sundrungu

Eyþór er enn þá einn af eigendum Morgunblaðsins þar sem ritstjórinn rekur nánast opinbera stefnu gegn núverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Er hann ekki í dálítilli klemmu innan flokksins vegna þess?

„Nei, ég tók klemmuna af mér með því að fara úr stjórn Morgunblaðsins og skipa engan í minn stað,“ segir Eyþór. „Ég hef engin afskipti af Morgunblaðinu. Það hefur bara sína ritstjórnarstefnu sem ég kem ekki nálægt. Mér finnst hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að tala skýrri röddu fyrir því sem sameinar okkur. Mér finnst allt of mikið púður fara í það sem sundar okkur. Ef flokkurinn er að berjast við aðra flokka um mál sem kljúfa samstöðu fólks þá er hann í vanda. Ef hann er í stöðugri varnarbaráttu þá getur hann ekki stækkað.“

Stefnir þú á frekari frama innan flokksins? Langar þig til að verða formaður hans og hugsanlega forsætisráðherra?

„Nei, ég hef ekki verið að stefna á neinn frama,“ fullyrðir Eyþór. „Ég hef fengið ágætis útrás fyrir egóið í gegnum tíðina, bæði með því að vera í tónlist og að skila góðu búi í Árborg. Það eina sem mig langar að gera er að láta gott af mér leiða og gleyma ekki að lifa lífinu í leiðinni. Ég hugsa þetta bara frá ári til árs, er ekki með nein langtímamarkmið.“

Alltaf eitthvað á bak við misnotkun áfengis

Meðan Eyþór var í bæjarstjórn Árborgar var hann tekinn fyrir ölvunarakstur og hætti í kjölfarið að drekka, breytti það atvik að einhverju leyti sýn hans á sjálfan sig og lífið?

„Þetta atvik breytti lífssýninni alveg klárlega,“ segir Eyþór með áherslu. „Þegar maður gerir eitthvað af sér, eins og ég gerði, þá á maður tvo valmöguleika, annars vegar að fara í fýlu eða þá að segja ég ætla að læra af þessu. Ég ákvað að læra af þessu og ég held ég hafi komið auðmjúkari út úr því og þakklátari fyrir það sem ég hef. Það var lykilatriði.“

Það hlýtur samt að vera pirrandi að það sé stöðugt verið að rifja þetta atvik upp og nota það gegn þér?

„Nei, það er viðbúið,“ segir Eyþór. „En sem betur fer er ég ekki með beinagrindurnar inni í skápnum, er bara með þær hérna á borðinu þannig að þetta er ekki neitt leyndarmál. Ég braut af mér og ég viðurkenni það og ég lærði af því. Það er hægt að læra af mistökum en það er líka hægt að læra ekki af þeim.“

„Ég braut af mér og ég viðurkenni það og ég lærði af því.“

Eyþór fór í áfengismeðferð eftir atvikið og segir það hafa hjálpað sér mikið, er hann ennþá áfengislaus?

„Ég fór í gegnum meðferð hjá SÁÁ og síðan í AA,“ útskýrir hann. „Það hefur komið fyrir að ég hef drukkið síðan, en ég hef náð allt öðrum tökum á sjálfum mér. Ég held það sé alltaf eitthvað á bak við það þegar fólk misnotar áfengi eða önnur vímuefni, það er einhver rót, menn verða að stunda mannrækt ef þeir ætla að ná tökum á fíkn eða kaosi og AA gerði mér mjög gott.“

Verður alltaf að svara kjósendum

Spurður hvort þetta mál og annað áreiti sem fylgir lífi stjórnmálamannsins hafi að einhverju leyti bitnað á fjölskyldu hans neitar Eyþór því.

„Ég á fjögur börn á aldrinum tíu til átján ára og þau hafa alveg fengið að vera í friði,“ segir hann. „Ég vona að samfélagið virði einkalíf fólks og þá sérstaklega barna. Ég er mjög stoltur af börnunum mínum og finnst þeim ganga mjög vel í því sem þau eru að gera. Við konan mín erum skilin að borði og sæng þannig að þetta starf mitt hefur lítið bitnað á heimilislífinu. Það er sama hvert maður fer það er alltaf einhver sem vill ræða málin við mann og maður verður að svara hverju sem er, hvenær sem er, hvar sem er. Fólk gerir þá kröfu að kjörnir fulltrúar þess séu aðgengilegir. Það er eitt af því sem ég hef gagnrýnt núverandi borgarstjórnarmeirihluta fyrir. Ég heyri að fólk er óánægt með að geta ekki náð í borgarstjórann eða aðra sem fara með stjórnina og þá kemur það til okkar. Ég er til dæmis með viðtalstíma alltaf á mánudögum í Ráðhúsinu og það kemur oft til mín fólk sem segist ekki geta náð í neinn sem ræður. Borgarstjóri er ekki með fastan viðtalstíma, það þarf að panta þá sérstaklega og mér skilst að það sé mjög erfitt að fá slíkan tíma. Það er ekki nógu gott.“

Hvað með persónuleg samskipti Eyþórs og borgarstjórans? Eru þeir andstæðingar utan funda borgastjórnar líka?

„Nei, alls ekki, við erum ágætis félagar,“ segir Eyþór og hlær. „Við vinnum saman þó svo við séum ekki sammála um allt. Og þegar meirihlutinn leggur fram góð mál þá styðjum við þau. Við erum ekki í einhverjum hnefaleikum heldur stefnum öll að sama marki, þótt fjölmiðlar birti ekki fréttir af því. Það er nefnilega „catch 22“ að ef fjölmiðlar birta bara fréttir af því þegar einhver læti verða þá freistast sumir til þess að vera með læti til að komast í fréttirnar. Ég tel mig ekki vera einn af þeim en ég hins vegar tala hreint út, ég held það sé best að vera ekkert að flækja þetta.“

Gagnrýndur fyrir að vera ekki leiðinlegur

Beðinn að lýsa karakter sjálfs sín vefst Eyþóri tunga um tönn.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ segir hann. „Ég held ég sé frekar rólegur, get alveg verið einn og það er erfitt að rífast við mig því ég rífst ekki á móti. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu leiðinlegur í pólitíkinni.“

Ef þú heldur áfram og Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihluta í næstu borgarstjórnarkosningum verður þú væntanlega borgarstjóri. Hver yrði fyrsta breytingin sem Reykvíkingar yrðu varir við?

Mynd / Hallur Karlsson

„Ég myndi breyta stjórnkerfinu,“ segir Eyþór ákveðinn. „Það er orðið allt of stórt og það þarf að einfalda það þannig að það verði auðveldara að klára mál. Núna tekur stundum mörg ár að klára lítil skipulagsmál og það voru þrjú hundruð stýrihópar og nefndir að vinna að því og enginn vissi hvað hinar nefndirnar voru að gera þannig að það var stofnuð önnur nefnd til að fara yfir þetta og sú nefnd komst að því að það væri best að skipa þrjár nefndir til að fara í saumana á þessu. Þetta er svipað og ef þú værir með tölvuna þína fyrir framan þig og lyklaborðið væri með tíu sinnum fleiri tökkum en það er, væri það betra eða verra? Það væri verra vegna þess að flækjustigið væri svo mikið, það er mun betra að hafa hlutina einfalda og kerfið á að klára mál en ekki flækja þau meira.“

Langar að einbeita sér að klassíkinni

Sérðu pólitíkina fyrir þér sem framtíðarstarfsvettvang og ef ekki hvað hefurðu hugsað þér að gera þegar þú hættir?

„Nei, ég fór í þetta til að ná árangri og þegar hann næst mun ég hætta,“ segir Eyþór. „Og það er ekki spurning hvað þá tæki við. Tónlistin er auðvitað alltaf með mér og ég sinni henni alveg þótt ég sé í pólitík,“ segir Eyþór. „Við félagarnir í Tappa tíkarrass ætlum til dæmis að taka upp nokkur lög núna í september og koma með eitthvað skemmtilegt á markaðinn fyrir jólin. Og ef ég hætti í pólitíkinni myndi ég einbeita mér meira að klassískri tónlist. Ég byrjaði þar, var ekki bara sellóleikari heldur samdi fyrir Sinfóníuna og gerði tónlist við leikrit og kvikmyndir. Ég var aldrei alveg búinn að klára þann pakka og ef ég hefði nægan tíma myndi ég vilja semja meira fyrir klassísk hljóðfæri. En það verður að bíða á meðan ég einbeiti mér að því að ná árangri í pólitíkinni.“

Myndir / Hallur Karlsson
Myndataka/ Hákon Davíð Björnsson og Hallur Karlsson
Klipping / Hákon Davíð Björnsson

Tuttugu ára afmæli Lyfjavers

Lyfjaver fagnar því þessa dagana að 20 ár eru liðin frá því fyrirtækið afhenti sína fyrstu lyfjaskömmtun og hóf þannig formlega starfsemi. Einn liður í að fagna þessum góðu
tímamótum er útgáfa á sérstöku afmælisblaði sem dreift er með Mannlíf.

Margs konar fróðleik er að fnna í blaðinu, eins og sögu Lyfjavers, þá þjónustu sem í boði er ásamt umsögnum ánægðra viðskiptavina, meðal annars eiganda hundsins Nemó sem fær reglulega lyfjaskömmtun frá Lyfjaveri.

Fjöldi tilboða verður allan september í verslun Lyfjavers á Suðurlandsbraut 22 og má fnna þau tilboð í afmælisblaðinu. Einnig er afmælishappdræti í september þar sem dregið verður úr afgreiddum lyfseðlum og lyfjaskömmtunum í mánuðinum.

Verðlaunin eru ekki af verri endanum en tveir heppnir einstaklingar fá 100.000 króna gafabréf frá Icelandair í verðlaun. Það er því gott tilefni til að koma við í apótekinu og skoða úrvalið og taka þát í fögnuðinum.

Verður betri með hverju árinu sem líður

Jennifer Lopez fagnaði 50 ára afmæli sínu í júlí. Hún segir það hafa verið bestu stund lífs síns að ná þeim áfanga.

 

„Ég bjóst ekki við að þetta yrði besta stund lífs míns,“ sagði Lopez um aldurinn í viðtali sem birtist í ES Magazine. Lopez segir í viðtalinu að konur í skemmtanabransanum sé forritaðar til að halda að ferillinn taki enda um leið og þær ná ákveðnum aldri en að henni finnst hún bara verða betri með aldrinum.

„Ég finn að ég er að vaxa og verða betri með hverju árinu sem líður, það er spennandi. Þetta snýst um metnað og eljusemi. Þessi brasi er ekki fyrir veiklynda. Til að endanst í þessu eins lengi og ég hef gert þá þarf maður að hafa þykkan skráp,“ útskýrði Lopez.

Þess má geta að Lopez hefur verið lengi í bransanum en fyrsta plata hennar, On the 6, kom út árið 1999. Síðan þá hefur hún gefið út sjö breiðskífur til viðbótar. Þá hefur hún leikið í fjölmörgum kvikmyndum og þáttum en fyrsta kvikmyndahlutverkinu landaði hún árið 1986.

https://www.instagram.com/p/B2B2THWlfCW/

Áslaug Arna nýr dómsmálaráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Mynd / Aldís Pálsdóttir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tekur við sem dómsmálaráðherra. Hún er næstyngsti ráðherrann í sögu Íslands, en Eysteinn Jónsson var yngri þegar hann tók við embætti fjármálaráðherra árið 1934.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, tilkynnti fyrir stuttu um valið eftir fund þingflokks sjálfstæðismanna í Valhöll. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadótir tók tímabundið við sem ráðuneytinu eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra 13. mars.

Áslaug Arna er fædd 30. nóvember árið 1990, og því rétt 29 ára gömul. Hún settist á Alþingi árið 2016, er fimmti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og hefur verið varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, auk þess sem hún er ritari flokksins.

Áslaug Arna er stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 2010 og árið 2017 lauk hún meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Ófærð ratar á lista BBC yfir bestu þættina

Íslensku þættirnir Ófærð, eða Trapped eins og þeir heita á ensku, rötuðu á lista BBC yfir bestu sjónvarpsþáttaraðirnar sem komu út á þessu ári.

 

Listinn samanstendur af tólf þáttaröðum. Ásamt Ófærð eru þættirnir Fleabag, Stranger Things, Years and Years, Chernobyl, When They See Us, Succession, Dark, Russian Doll, Trapped, Schitt’s Creek, Derry Girls og Mindhunter á listanum.

Lista BBC má skoða hérna.

Þættirnir Ófærð hafa notið mikilla vinsælda síðan þeir hófu göngu sína árið 2015 og fá 8,1 í einkunn á vefnum IMDb. Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson eru meðal þeirra sem fara með hlutverk í Ófærð.

„Ekki bara fyrir fólk sem er með doktorspróf í málfræði“

Björg Magnúsdóttir er annar umsjónarmaður skemmtiþáttarins Kappsmál sem hefur göngu sína á föstudaginn. Hún segir að glens og góð stemmning verði í aðalhlutverki í þáttunum.

 

Kappsmál er nýr, íslenskur skemmtiþáttur sem hefur göngu sína á föstudaginn klukkan 19:45 á RÚV. Umsjónarmenn þáttanna eru þau Björg Magnúsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason.

Í þáttunum fá Björg og Bragi til sín góða gesti sem eiga það sameiginlegt að hafa gaman af íslenskri tungu. Keppendur í fyrsta þætti eru Svanhildur Hólm, Arnmundur Ernst Backman Björnsson, Bergur Ebbi Benediktsson og Rakel Garðarsdóttir.

„Þátttakendur etja kappi í fjölbreyttum orðaleikjum og þrautum, meðal annars í taugatrekkjandi stöfunarkeppni og í sérhannaðri útgáfu af hengimanni,“ segir í tilkynningu um þáttinn.

„Kappsmál er fyrir alla landsmenn og alls ekki bara fyrir fólk sem er með doktorspróf í málfræði. Ég meina, hver hefur ekki gaman af því að sjá landsþekkta keppendur stafa flókin orð undir tímapressu fyrir framan sjónvarpsmyndavélar,“ segir Björg þegar hún er spurð út í þættina.

„Ég er bæði mjög spennt en líka pínu stressuð…“

Björg lofar góðri skemmtun. „Glens, húmor og stemning eru í aðalhlutverki og svo held ég að það sé nokkuð öruggt að fólk muni læra eitthvað nýtt um okkar dásamlega tungumál í leiðinni.“

Björg viðurkennir að hún sé svolítið stressuð. „Ég er bæði mjög spennt en líka pínu stressuð fyrir viðtökunum og minni bara á að uppbyggileg gagnrýni toppar alltaf óhugsað drull á internetinu,“ segir hún hress.

Þættirnir verða á dagskrá RÚV öll föstudagskvöld í vetur.

„Hagaði mér eins og hálfviti“

Björn Bragi Arnarsson viðurkennir að hafa hagað sér eins og „hálfviti“ þegar hann káfaði á unglingsstúlku í fyrra. Atvikið náðist á myndband.

 

Grínistinn og sjónvarpsmaðurinn Björn Bragi Arnarson hefur verið á milli tannanna á fólki eftir að myndband sem sýndi hann káfa á ungri stelpu á djamminu komst í dreifingu á samfélagsmiðlum í október í fyrra. Björn Bragi hætti í kjölfarið sem spyrill í Gettu betur og lét lítið fyrir sér fara.

„Ég auðvitað varð mér bara algjörlega til skammar og hagaði mér eins og hálfviti,“ segir Björn Bragi í myndskeiði á Vísi en viðtal við Björn um málið verður sýnt í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld.

„Ég skil bara mjög vel að fólki hafi verið brugðið þegar þetta kom upp og hafi verið reitt við mig, og þannig leið mér sjálfum,“ segir hann í myndbrotinu.

Eins og fram kemur í frétt Vísis fer Björn yfir málið í viðtalinu og ræðir afleiðingar þess.

Sjá einnig: Keppandi Gettu betur birtir opið bréf til Björns Braga

Fimm athyglisverðar Instagram-síður fyrir áhugasama um arkitektúr

Lík Ekaterinu Karaglanovu fannst ofan í ferðatösku.

Hefur þú áhuga á arkitektúr og langar að fylgjast með því helsta sem er að gerast erlendis? Hér er að finna fimm áhugaverðar Instagram-síður sem arkitektastofur víðs vegar um heiminn halda úti og vert er að skoða.

 

1. Snøhetta – er norsk arkitektastofa sem stofnuð var árið 1989. Snøhetta er með höfuðstöðvar sínar í Osló og New York ásamt því að vera með stúdíó í Hong Kong, San Francisco, Innsbruck og París. Yfir 240 starfsmenn frá 32 löndum starfa hjá fyrirtækinu sem er leiðandi á sviði arkitektúrs og landslagsarkitektúrs. Meðal þekktustu verka stofunnar eru Óperuhúsið í Osló og bókasafnið í Alexandríu í Egyptalandi.

View this post on Instagram

We are excited to present our vision for a new Museum Quarter on top of the Virgl mountain in Bolzano in Northern Italy. Designed on behalf of the Signa Group, the Museum Quarter is intended to accommodate museum spaces for the South Tyrol Museum of Archaeology and the Municipal Museum of Bolzano as well as exhibition spaces for the archaeological sensation Ötzi the Iceman – the prehistoric man from the Copper Age that was discovered in the area in 1991. The distinctive building blends in with the surrounding topography and extends the mountain terrain. Through the planned cable car structure, also designed by Snøhetta, and the new Museum Quarter, the Virgl mountain will serve as a cultural and recreational area for the people and visitors of Bolzano. The new Museum Quarter will serve as a new landmark for Bolzano and reinforce the city’s international significance as a cultural destination. 📷 Moka Studio and Snøhetta

A post shared by Snøhetta (@snohetta) on

2. Andreas Martin-Löf arkitekter – er sænsk stofa sem stofnuð var árið 2008 og er með höfuðstöðvar sínar í Stokkhólmi. Andreas Martin-Löf, stofnandi fyrirtækisins, er ungur og upprennandi arkitekt sem hefur mikið látið til sín taka undanfarin ár þá sér í lagi varðandi nýstárlegar lausnir á húsnæðisvandanum í Stokkhólmi og hefur hann hlotið mörg verðlaun fyrir. Andreas var meðal þátttakenda á Design Talks í Hörpu á Hönnunarmars árið 2018.

3. Kengo Kuma and Associates. Kengo Kuma hefur verið eitt þekktasta nafnið í arkitektaheiminum síðast liðin ár. Hann stofnaði stofu sína í Tokyo árið 1990 og hefur hún verið starfrækt undir hans nafni allar götur síðan. Um 200 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu í Tokyo og í París þar sem nokkurs konar útibú stofunnar er rekið. Japanir hafa löngum verið þekktir fyrir einstaka þekkingu og færni í notkun timburs í byggingariðnaði og bera verk Kengos því fagurt vitni.

4. BIG – Bjarke Ingels Group. Arkitektinn Bjarke Ingels er forsprakki stofunnar sem stofnuð var árið 2005 og eru starfstöðvarnar í Kaupmannahöfn, London og New York. Í dag eru meðeigendurnir 17 talsins og eru verkefni stofunnar afar fjölbreytt. BIG hefur tekið þátt í samkeppnum víðsvegar um heiminn, þar á meðal á Íslandi, en stofan sendi frá sér tillögu að nýjum höfuðstöðvum Landsbankans árið 2018. Sú tillaga þótti afar vel gerð og athyglisverð en hún var unnin í samstarfi við Andra Snæ Magnason.

5. Kimmel Eshkolot Architects – er ísraelsk arkitektastofa stofnuð árið 1986 í Tel Aviv af Etan Kimmel og Michal Kimmel Eshkolot. Stofan er með 18 arkitekta innanborðs sem hafa unnið fjölbreytt verkefni bæði í Ísrael og í Evrópu. Mikil áhersla er lögð á tækni og að hún leiði af sér fjölþættar og skapandi nýjungar.

Gestgjafinn – nýtt haustblað komið í verslanir

Gestgjafinn er kominn út ferskur og fallegur að vanda. Blaðið er innihaldsríkt og áhugavert með fullt af spennandi efni um mat, vín og ferðalög.

 

Haustlegar áherslur eru í blaðinu og í því finna má notalega og nærandi rétti. Svo sem gómsætt lasange og frábæra og nýstárlega risotto-rétti en uppskriftirnar að þeim eru afar nákvæmar svo allir ættu að geta lært að elda gott risotto.

Nokkrir einfaldir og sniðugir réttir í klúbbana eru meðal efnis og svo er að finna afar bragðgott og lekkert sætmeti út hvítu súkkulaði og hindberjum sem hentar vel í samkomur.

Lítil hamborgarabrauð eru sniðug í klúbba og veislur og í blaðinu er einmitt að finna afar skýra og góða uppskrift í skrefum að einni slíkri.

Í blaðinu er að finna nákvæma uppskrift að litlum hamborgarabrauðum. Mynd / Hákon Davíð

Í blaðinu er að finna skemmtilegt matarboð þar sem líklega var meira sungið en borðað en það voru söngvararnir í Brúðkaupi Fígarós sem Íslenska óperan setur á svið sem að því stóðu.

Á ferðasíðunum er að finna veitingastaði og sælkeraverslanir í Barcelona og London. Þá fjallar Dominique meðal annars um sótspor víns og eldfjallavín á vínsíðunum.

Þetta og margt fleira áhugavert er að finna í septemberblaði Gestgjafans.

Tryggðu þér áskrift að Gestgjafanum í vefverslun

 

Þrjár til­kynningar um heimilis­of­beldi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk þrjár tilkynningar um heimilisofbeldi í gærkvöldi.

Klukkan hálf tvö barst tilkynning um heimilisofbeldi og líkamsárás, þar var einn einstaklingur handtekinn og gistir hann fangageymslu. Um miðnætti hafði einnig verið tilkynnt um heimilisofbeldi og hótanir, það mál var afgreitt á vettvangi.

Laust fyrir fjögur var tilkynnt um heimilisofbeldi og líkamsárás. Það atvik var afgreitt á vettvangi og var gerandi farinn þegar lögreglu bar á vettvang.

Alls gistu sex einstalingar fangageymslur eftir gærkvöld og nótt sem leið.

Annarlegur á „Evuklæðum“ – Annar í gylltum skóm

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Í dag bók lögreglunnar kemur meðal annars fram að um hálffjögur í nótt afklæddist maður í annarlegu ástandi í miðborginni „og gengur um á evuklæðunum [sic], hann handtekinn og gistir hann fangageymslur þar til af honum rennur.“

Nokkrir aðrir einstaklingar í annarlegu ástandi voru til vandræða. Um hálfellefu var komið að manni sem lá ofurölvi í götunni, honum var ekið heim til sín. Tveimur tímum síðar kom tilkynning um æstan mann sem var til ama, en hann var farinn þegar lögreglan kom á staðinn. Laust fyrir eitt í nótt var tilkynnt um ofurölvi mann sem braut rúðu í miðbænum og var honum ekið heim eftir að lögreglan hafði rætt við hann. Rúmlega fimm var einn maður handtekinn vegna ástands síns og gistir hann fangageymslur þar til af honum rennur.

Í gærkvöldi voru tvær konur leystar úr prisund í miðbænum, en þær höfðu fests í lyftu.

Eignaspjöll voru framin, en gylltri málningu var úðað á tvær bifreiðar. Gerandi var handtekinn í öðru máli síðar um kvöldið, en þá var komið að honum þar sem hann var að henda hlutum út á götu. Var hann klæddur skóm sem ataðir voru í gylltri málningu.

Danir áhugasamir um íslenska ull og prjónauppskriftir

||
Mynd frá Ístex.||Frá Pakhusstrik í fyrra.

Uppselt er á prjónahátíðina Pakhusstrik í Kaupmannahöfn þar sem íslenskt garn og uppskriftir verða í aðalhlutverki.

 

Prjónahátíðina Pakhusstrik fer fram 6. og 7. september í menningarhúsi Íslands, Grænlands og Færeyja í Kaupmannahöfn, Norðurbryggju. Þetta er í sjötta sinn sem íslenskir prjónahönnuðir og garnframleiðendur fjölmenna á Pakhusstrik.

Á sunnudaginn seldist upp á hátíðina. „Hátíðin er með öðrum orðum orðin afar vinsæl meðal prjónaáhugafólks í Danmörku og koma margir víða að til að upplifa þá einstöku ull og hönnun sem Íslendingar eru orðnir þekktir fyrir. Einnig koma Færeyingar og Grænlendingar við sögu, en það er þá sérstaklega hin afar sérstaka ull sem fæst frá grænlenskum sauðnautum (moskusuld), sem er vinsæl meðal Dana,“ segir í tilkynningu um hátíðina.

Þess má geta að frá Íslandi taka þátt EinrúmMóakot, Ístex, Kvíkví, PrjónafjörÞingborg og Roð.

Hægt er að kynna sér alla dagskrána á vef menningarhúss Íslands, Grænlands og Færeyja í Kaupmannahöfn.

Frá Pakhusstrik í fyrra.

Sund, kókómjólk og slúður í nýjasta myndbandi Mr. Sillu

Tónlistarkonan Mr. Silla eða Sigurlaug Gísladóttir eins og hún heitir réttu nafni var að senda frá sér glænýtt lag og myndband sem ber heitið Gloria.

Tónlistarkonan Katrín Helga Andrésdóttir (Special K) vann myndbandið en hún notar „DV cam“ til að ná allsherjar nostalgíu áhrifum. Það heitasta á Instagram um þessar mundir er íslensk náttúra.

„Ef þú leitar að #iceland færðu upp yfir 10 milljón myndir af íslenskum hestum, norðurljósum og fossum. Hins vegar sést lítið af venjulegum Íslendingum og þeirra lífi.“

Í myndbandinu  má sjá Mr. Sillu og vini hennar tjilla á gráum degi á Íslandi. Fara í sund, lautarferð, gæða sér á kókómjólk og slúðra um lífið og tilveruna.

Tónlistarkonan Mr. Silla.

Gloria er hresst og skemmtilegt lag en textinn gefur þó til kynna að sár draugur fortíðar sé svífandi um.

Mr. Silla hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi um árabil eða allt frá aðkomu hennar í hljómsveitinni Múm. Hún sendi frá sér sína fyrstu sóló plötu árið 2015 en hefur einnig komið að fjölda samstarfs verkefna, hannað föt og sjónræna list svo sumt sé nefnt.

Nýja myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Björgvin rifjar upp 4. september fyrir 5 áratugum: „Svona líður tíminn“

||||||
||||||

Söngvarinn Björgvin Halldórsson minnist dagsins 4. september árið 1969 á Facebook-síðu sinni, en þann dag tók hann ásamt hljómsveitinni Ævintýri þátt í popphátíð í Laugardalshöll.

Hljómsveitin var valin vinsælasta hljómsveitin og Björgvin, þá 18 ára gamall, poppstjarna ársins. Þrátt fyrir ungan aldur Björgvins var Ævintýri þriðja hljómsveitin sem hann starfaði með. Hann hóf feril sinn í Bendix 15 ára gamall, næst tók Flowers við. Síðan stofnaði Björgvin Ævintýri ásamt Sigurjóni Sighvatssyni og Arnari Sigurbjörnssyni.

„Á þessum degi 4 september 1969 héldum við strákarnir í Laugardalshöllina til að taka þátt í stærstu Popphátíð þess tíma ásamt helstu hljómsveitunum. Þarna kepptu vinsælustu hljómsveitir landisns um vinsældir fólksins. Einskonar IDOL þeppni síns tíma..Við mættum fullir spenningi og eftirvæntingu og höfðum sigur. Svona líður tíminn… Ljúfar minningar,“ skrifar Björgvin.

Visir og Alþýðublaðið fjölluðu um hátíðina daginn eftir og kom þar fram að hátíðin hefði verið sótt af um 4000 unglingum flestum á aldrinum 10-14 ára og fór hátíðin vel fram, betur en talið hefði verið í fyrstu.

„Ég finn mig ekki í þessu, nema fólkið sé með mér,“ er haft eftir Björgvini í Vísi, og ljóst er að í þá rúmu fimm áratugi sem Björgvin hefur staðið í sviðsljósinu hefur fólkið verið með honum í liði, poppstjörnunni síungu.

Skjáskot Tímarit.is / Vísir 05.09.1969:

 

 

Kraftgalli í Mengi

Kraftgalli, a.k.a. Arnljótur Sigurðsson, ætlar að fagna útgáfu á nýju lagi sínu Rússíbani með tónleikum í Mengi annað kvöld, laugardagskvöldið 7. september klukkan 21.

Kraftgalli ætlar að spila nýja lagið og kynna í leiðinni tvær væntanlegar útgáfur. Annars vegar bókina Trítladansinn sem kemur út hjá Print & Friends Verlag í haust. Í henni kafar Kraftgalli dýpra í menningu trítlanna með 24 síðna bók með teikningum af  frumsömdum danssporum sem kynnt verða á tónleikunum.

Lagið Trítladansinn mun fylgja bókinni og verður það flutt á tónleikunum. Þá mun Kraftgalli spila efni af nýrri plötu sem að er stefnt að komi út fyrir jól.

Húsið opnar klukkan 20.30, tónleikarnir hefjast klukkan 21. Miðaverð er 2.000 krónur.

WOW air aftur í loftið

Michele Ballarin, stjórnarformaður USAerospace Associates LLC, hefur fest kaup á eignum þrotabús WOW air. Stefnt er að því að WOW air hefji flug í október.

Ballarin greindi frá því á blaðamannafundi fyrr í dag að Félagið verði með bandarísk flugrekstrarleyfi og skrifstofur beggja vegna Atlantshafsins. Ísland verði aðalstarfsstöðin í Evrópu en aðalstarfsstöðin í Norður-Ameríku verði í Washington.

Verið sé að skoða hvaða áfangastaða eigi að fljúga. Það verði svipaðir staðir og áður, en fyrsta flugið sé áformað á milli Dulles-flugvallar í Washington og Keflavíkurflugvallar.

Ballarin segist stefna á farþegaflutninga en einnig vöruflutninga, að því er fram kemur á heimasíðu RÚV. Hún segist sjá tækifæri í flutningi á fiski frá Íslandi til Bandaríkjanna. Byrjað verði með tvær flugvélar, fjölgað fljótlega í fjórar og farið upp í 10 til 12 vélar næsta sumar. Vélum verði ekki fjölgað eftir það. Þá verði flugmenn og flugfólk WOW air að einhverju leyti endurráðið.

Margt er þó á huldu varðandi kaupin. Ballarin gefur til dæmis ekkert upp um kaupverðið og vill enn sem komið er ekki segja hverjir íslenskir samstarfsmenn hennar eru.

Engin svör

 

Leiðari úr 32. tölublaði Mannlífs

Höfundur / Friðrika Benónýsdóttir

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom og fór og í einn dag var Ísland eins og leikmynd í bandarískri bíómynd; bílaflotar á lokuðum götum, leyniskyttur á þökum, handabönd og innihaldslausar ræður fyrir framan blaðamenn. Allir fjölmiðlar landsins fjölluðu um heimsóknina og viðbrögð almennings við henni í löngu máli en það vakti althygli að í allri þessari umfjöllun var lítið minnst á tilgang heimsóknarinnar og hvaða þýðingu hún hefði fyrir umsvif Bandaríkjamanna á Íslandi. Sirkusinn var í bænum og allir dönsuðu með en veltu því lítið fyrir sér hvað væri að gerast á bakvið tjöldin.

Áður en varaforsetinn steig á land höfðu fjölmiðlar velt því fyrir sér hver tilgangur heimsóknarinnar væri og leitað álits sérfræðinga á því hvað hún þýddi. RÚV ræddi meðal annars við Guðmund Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, um heimsóknina daginn áður en Pence kom og í því viðtali kom fram að slíkar heimsóknir eru aldrei að ástæðulausu, það er alltaf einhver tilgangur með þeim. Eða eins og Guðmundur orðaði það: „Þessir pótintátar koma ekki til landa nema að þeir telji sig hafa eitthvert erindi þangað. Þetta er ekki bara kurteisisheimsókn. Hann er að koma vegna einhverra erinda sem hann er að reka.“

Látið var að því liggja í viðtalinu við Guðmund að það kæmi í ljós hvaða erindi það væru sem varaforsetinn væri að reka þegar heimsóknin væri afstaðin, en það bólar lítið á svörum við þeirri spurningu. Hinn almenni Íslendingur er engu nær um það hvað þessi heimsókn þýddi. Jú, utanríkisráðherra viðraði áhuga sinn á fríverslunarsamningi við Bandaríkin og forsætisráðherra ræddi loftslagsmál og kvenréttindi við varaforsetann. Hvorugt skýrir á nokkurn hátt grundvöll þess að Bandaríkin sáu ástæðu til að senda næstæðsta valdamann sinn til Íslands í sjö tíma. Það er alveg ljóst að Mike Pence var ekki hér til að ræða kvenréttindi, réttindi hinsegin fólks eða loftslagsvána. Hann var hér sem fulltrúi herveldis sem í einn dag lagði miðborg Reykjavíkur undir sig og virtist geta fengið öllum sínum kröfum um hlægilegar varúðarráðstafanir framgengt. Var það kannski tilgangur heimsóknarinnar? Að sýna Íslendingum hver ræður?

Varnarsamningur Íslendinga og Bandaríkjamanna er enn í fullu gildi og fram hefur komið að Bandaríkin hyggjast auka umsvif sín á Keflavíkurflugvelli að nýju en hversu mikil þau umsvif eiga að verða er á huldu. Íslenskir ráðamenn virðast hins vegar ekki hafa haft mikinn áhuga á að ræða þau mál við varaforsetann ef marka má fréttaflutning af heimsókninni.

„Bandaríkin hyggjast auka umsvif sín á Keflavíkurflugvelli að nýju, en hversu mikil þau umsvif eiga að verða er á huldu.“

Forsætisráðherra sagði einungis að ekkert nýtt hefði komið fram í því efni á fundi hennar og varaforsetans. Hvað þýðir það? Geta Bandaríkjamenn gert hvað sem þeim sýnist á sinni herstöð í Keflavík? Þarf ekkert að ræða það eða hafa Íslendingar einfaldlega ekkert um það að segja? Það væri sannarlega gott að fá svör við þeim spurningum og það sem fyrst. Okkur kemur það nefnilega við.

Komur á bráðamóttöku vegna fíkniefna og sterkra lyfja hafa aukist um 96,4%

||
||

Samantekt á misnotkun ungmenna á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum er sláandi en veruleg aukning er í komum á bráðamóttöku, sjúkraflutningum og alvarlegum slysum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

 

Aukin misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum hefur verið gríðarleg síðustu ár. Sífellt fleiri fréttir um einstaklinga í neyslu, jafnvel á barnsaldri, og aukin dánartíðni vegna lyfseðilsskyldra lyfja vekur óhug í samfélaginu og kröfur um aukin og bætt úrræði verða sífellt háværari. Langir biðlistar í meðferð og úrræðaleysi veldur einstaklingum í neyslu sem vilja bata og aðstandendum þeirra kvíða og vonleysi.

Í samantekt sem samtökin Eitt líf hafa tekið saman um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum kemur fram aukning í tölum milli ára hvar sem borið er niður: dánartíðni vegna lyfja, sjúkraflutningar, komur á bráðamóttöku, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og alvarleg slys vegna slíks aksturs.

Heimild / Samgöngustofa

Markmið Eitt líf fræðsluátaksins er að ná til grunnskólanema í 7.–10. bekk ásamt foreldrum og kennurum barnanna og sporna við misnotkun á lyfsseðilskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum.

Í samantekt þeirra kemur fram að vænlegast sé talið að ná til ungmenna áður en þau prófa, samanborið við að ná til þeirra eftir að þau hafa prófað. Flestar neikvæðar afleiðingar sem misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum hefur í för með sér má helst rekja til þeirra sem eru á framhaldsskólaaldri og eldri og það er sá aldurshópur sem Eitt líf hefur áhyggjur af.

Heimild / Talnabrunnur embætti Landlæknis, maí 2019

Verndandi þættir eru að dala

Niðurstöður rannsókna á meðal grunnskólanemenda sýna að verndandi þættir eins og góð andleg líðan, að foreldrar viti hvar börn þeirra séu á laugardagskvöldum, samverustundir með foreldrum og fleira eru að dala. Á sama tíma eru áhættuþættir eins og auðvelt aðgengi að lyfjum og fíkniefnum, vanlíðan og fleira að aukast. Kaup og sala hefur aldrei verið auðveldari og fer fram á samfélagsmiðlum, í appi og milli vina og kunningja.

Vanlíðan meðal ungmenna er áhættuþáttur, í dag er hún verri en nokkru sinni fyrr. Hátt í 40% tíundu bekkinga finna fyrir depurð vikulega eða oftar, 38% glíma við svefnerfiðleika og 17% segjast vera einmana mjög oft.

Notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum fer vaxandi 

Almenn notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum fer ört vaxandi um allan heim og sama á við á Íslandi. Í skýrslu Velferðarráðs frá maí 2018 segir: „gera má ráð fyrir að þróun samfélagsins og heilbrigðiskerfisins á síðastliðnum áratugum eigi þátt í að skapa væntingar og menningu sem lítur á lyf sem lausn margra vandamála og leitt hefur til mikillar aukningar á notkun þeirra. Þessi þróun ásamt miklu magni ávanabindandi lyfja í umferð skapar hættu á of- og misnotkun þessara lyfja.“

Nýir tímar, nýjar áskoranir, breytt neysla

Með forvörnum, fræðslu og aukinni samfélagsvitund hafa Íslendingar náð góðum árangri í að draga úr áfengisneyslu og tóbaksreykingum meðal ungmenna. Í dag eru hins vegar breyttir tímar og hafa lyfseðilsskyldu lyfin og misnotkun þeirra leitt til nýrra áskorana og forvarna á breyttan hátt.

Í rannsókn sem Rannsókn og greining lagði fyrir framhaldsskólanema árið 2018 kemur fram að 11% framhaldsskólanema höfðu notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils einu sinni eða oftar. Þá notuðu 20% háskólanema örvandi lyf til þess að minnka svefnþörf og bæta námsárangur samkvæmt könnun Lyfjastofnunar sama ár. Alls 11% nemenda í tíunda bekk hafa tekið svefntöflur eða róandi lyf án lyfseðils einu sinni eða oftar, sem ekki var ávísað á þau og 1,5% hafa reynt örvandi lyf, eins og ritalín, sem ekki voru ætluð þeim.

Í könnun Gallup á vegum Landlæknisembættisins í lok árs 2018 kom fram að rúmlega þriðjungur Íslendinga á aldrinum 18-67 ára hefur notað ólögleg vímuefni einhvern tíma um ævina. Flestir svöruðu því til að hafa fengið ávísað lyfjum frá lækni aðspurðir um aðgengi að lyfseðilsskyldum lyfjum.

Dánartíðni vegna lyfja eykst

Lyfjatengd andlát voru 39 árið 2018 en meðaltal andláta síðustu tíu ár eru 27. Það sem af er árinu 2019 eru 23 dauðsföll til skoðunar hjá Embætti landlæknis. Dánartíðni ungmenna vegna lyfjatengdra andláta, sérstaklega ungra karlmanna, var mjög há á síðasta ári. Þá létust 10 karlmenn á aldrinum 15-29 ára.

„Fikt getur í aðeins eitt skipti reynst dýrkeypt og óafturkræft“

Sjúkraflutningar vegna ofneyslu jukust um 7% árið 2018, en útköll voru 453 talsins. Auknar komur á bráðamóttöku LSH eru gríðarlegar, en ef miðað er við árin 2013-2017 er aukningin 96,4% vegna fíkniefna og sterkra lyfja. „Þetta eru ekki lengur jaðarhópar sem eru að fikta við vímuefni, þetta er orðið svo algengt meðal flottra ungra krakka sem koma frá heimilum þar sem þau hafa fengið góðan stuðning, hafa góðar einkunnir og hafa allt til brunns að bera,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á LSH, í fyrirlestri sem hann hélt í nóvember 2018.

Aukning í alvarlegum umferðarslysum

Síðustu ár hefur akstur undir áhrifum áfengis lækkað á sama tíma og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna verður algengari. Í tölum Samgöngustofu kemur fram að alvarlegum umferðarslysum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna hefur fjölgað gríðarlega. Árið 2017 slösuðust 52 af völdum fíkniefnaaksturs en árið 2017 var sá fjöldi kominn í 85 einstaklinga. Þegar bráðabirgðatölur eru skoðaðar fyrir árið 2019 má sjá að ástandið hefur batnað og telur Samgöngustofa að það megi þakka vitundarvakningu, bættri löggæslu, samráðsfundi aðila sem að málefninu koma og átakinu Eitt líf.

„Betur má ef duga skal og við verðum að halda áfram að berjast. Samgöngustofa mun styðja við verkefnið af fullum krafti áfram,“ segir Hildur Guðjónsdóttir, hópstjóri í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.

Hvað er til ráða?

Virkja þarf nærsamfélagið og styrkja verndandi þætti í umhverfi barna og ungmenna, auk þess að auka líkur á að þau nýti tíma sinn á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Forvarnarlíkanið, Íslenska módelið, sem byggir á samstarfi aðila í nærumhverfi barna og ungmenna, gengur út á að styrkja verndandi þætti í umhverfi barna og ungmenna, meðal annars með því að styrkja stuðningshlutverk foreldra og skóla og fjölga tækifærum barna og ungmenna til að stunda skipulagt tómstundastarf.

Með auknum úrræðum, fjármagni og forvörnum, auk betra aðgengis ungmenna og aðstandenda að ráðgjöf ætti að vera vel hægt að draga úr neyslu ungmenna. Aukin vitundarvakning og samkennd samfélagsins með vanda þeim sem steðjar að ungmennum í dag, auk þess sem umræðan um vandann verður sífellt opnari um leið og skömminni og leyndinni er svipt af málaflokknum veitir von um að draga megi verulega úr þeim háu tölum sem samantekt Eitt líf sýnir fram á. Það er í það minnsta vilji allra þeirra sem að málefninu koma.

Samantekt Eitt líf má finna í heild sinni inn á vef samtakanna eittlif.is

„Lífið alltaf að rétta mér skemmtileg verkefni“

|
Guðrún Óla Jónsdóttir heldur einsöngstónleika í Lindakirkju í kvöld|

Söngkonan Guðrún Óla Jónsdóttir, alltaf kölluð Gógó, heldur tónleika í Lindakirkju í Kópavogi, í kvöld, 6. september klukkan 20. Hún elskar stórar ballöður, segir að ekki skemmi fyrir ef þær séu svolítið dramatískar í ofanálag og textinn um tilfinningalausa óþokka.

 

„Þetta eru tónleikar með lögum úr ýmsum áttum en fólk má búast við stórum ballöðum sem til dæmis Barbra Streisand, Whitney Houston, Haukur Morthens og fleiri hafa gert frægar,“ segir Gógó. „Ég reyni kannski að lauma inn smástuði en þetta verður nú engin upphitun fyrir djamm í miðbænum heldur meira notaleg kvöldstund þar sem alls konar dægurperlur verða fluttar. Óskar Einarsson verður með mér og spilar á flygilinn. Hann er á við heila hljómsveit og ég er endalaust þakklát fyrir að hafa hann mér við hlið í þessu tónleikabrölti mínu, þriðja árið í röð. Svo verður Eyjólfur Kristjánsson, Eyfi, sérstakur gestur. Það er mjög gaman að Eyfi ætli að vera með, því hann var tónlistarstjóri í fyrstu nemendasýningunni sem ég tók þátt í og er frábær tónlistarmaður.“

Þetta er þriðja árið í röð sem Gógó heldur einsöngstónleika í Lindakirkju. „Fyrsta árið hélt ég í raun bara tónleikana fyrir sjálfa mig, þeir voru svona á bucket-listanum en þeir heppnuðust svo vel að ég ákvað að endurtaka leikinn í fyrra og það sama er uppi á teningnum í ár.“

Gógó byrjaði að syngja þegar hún var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem hún byrjaði í kór og tók þátt í árshátíðarsýningunum sem voru settar upp á hverju ári, fór til dæmis með aðalhlutverkið í Litlu hryllingsbúðinni sem var sett upp í Íslensku óperunni 1995 og sigraði hæfileikakeppnina Stjarna morgundagsins sem Gunnar Þórðarson stóð fyrir á Hótel Íslandi 1996. Að auki söng hún aðeins inn á plötur og í bakröddum. „Ég tók mér síðan langt hlé frá söngnum þar til ég byrjaði í Kór Lindakirkju árið 2011 þar sem ég hef sungið síðan, bæði með kórnum og sem einsöngvari. Við syngjum mikið gospel og það er geggjað; mikil útrás og ótrúlega gefandi, enda er gospel endalaus uppspretta fyrir næringu andans. Ég er nýkomin frá Akureyri þar sem ég var gestasöngvari hjá Gospelröddum Akureyrar ásamt drottningunni Andreu Gylfadóttur sem var alveg meiriháttar. Lífið er alltaf að rétta mér einhver skemmtileg verkefni.“

„Við syngjum mikið gospel og það er geggjað; mikil útrás og ótrúlega gefandi, enda er gospel endalaus uppspretta fyrir næringu andans.“

Gógó sendi nýlega frá sér lag sem ekki er ólíklegt að verði flutt á tónleikunum. „Við Óskar hittumst um daginn til að æfa fyrir tónleikana og okkur datt í hug að taka upp eitt lag. Það heppnaðist svo vel að það þurfti bara eina töku til. Þetta er lagið Goodbye Yellow Brick Road eftir Elton John en í töluvert öðruvísi útgáfu en fólk á að venjast,“ segir hún ánægð og heldur áfram: „Þótt ég hafi verið að syngja hádramatískar ballöður á tónleikunum mínum hef ég líka reynt að koma fólki til að hlæja á milli laga. Ég vil hafa andrúmsloftið svolítið heimilislegt og afslappað og ég held að fólk fari út úr Lindakirkju með bros á vör og hlýju í hjartanu. Hingað til hefur alla vega bæði verið hlegið og grátið og allt þar á milli.“

Mynd / Unnur Magna

Hið vaxandi hagsmunagæslubákn í Borgartúninu   

Mynd / Bára Huld Beck

Stjórnvöld hyggjast setja hagsmunavörslu frekari skorður. Umsvifamestu hagsmunasamtök landsins telja hins vegar ekki þörf á slíku.

 

Frá því rétt fyrir aldamót hafa Samtök atvinnulífsins staðið vörð um hagsmuni atvinnurekenda í íslensku samfélagi. Umsvif samtakanna eru mikil en í dag eru sex stór hagsmunasamtök með aðild að samtökunum og yfir 2.000 fyrirtæki. Þá eru samtökin með 180 fulltrúa í um hundrað nefndum og stjórnum.

Samtökin hafa fengið flestar umsagnarbeiðnir frá Alþingi af öllum samtökum, samböndum og félögum á yfirstandi þingi, eða alls 161 beiðni. Rekstur samtakanna hefur vaxið í krónum talið á síðustu árum og í fyrra nam heildarvelta félagsins rúmlega 720 milljónum króna.

Stjórnvöld hafa áform um að setja hagsmunavörslu hér á landi frekari skorður en afar takmarkaðar reglur eru um slíkt. Forsætisráðuneytið hyggst leggja til að hagsmunaverðir sem eiga sam­skipti við handahafa ríkisvaldsins verði gert að skrá sig sem slíka. Auk þess er fyrirhugað að ráð­herr­ar, aðstoð­ar­menn, ráðu­neyt­is­stjór­ar, skrif­stofu­stjórar og sendi­herrar, geti ekki í til­tek­inn tíma eftir að opin­beru starfi lýkur gegnt starfi fyrir skráða hags­muna­verð

Sam­tök Atvinnu­lífs­ins hafa gagn­rýnt þessi áform stjórn­valda en samtökin telja að slík takmörkun á starfsvali geti ekki orðið til annars en tjóns fyrir samfélagið. Enn fremur telja samtökin opinbera skráningu hagsmunavarða óþarfa enda sé hér á landi í flestum tilvikum ljóst hvaða samtökum hagsmunaverðir þjóna.

Hægt er að lesa fréttaskýringuna í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.

Með beinagrindurnar á borðinu

Eyþór Arnalds fyrrverandi borgarfulltrúi Mynd: Hallur Karlsson

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hefur verið milli tanna fólks undanfarið eftir viðbrögð hans við grænkeravæðingu skólamáltíða. Minnihlutinn í borgarstjórn hefur líka fengið gagnrýni fyrir að vera á móti öllu sem meirihlutinn gerir án þess þó að leggja fram neinar tillögur um það hvernig hægt væri að gera betur. Eyþór er þó sallarólegur yfir þessu, segir þetta meira og minna á misskilningi byggt, fjölmiðlar fjalli nefnilega aldrei um það þegar fólk sé sammála.

 

Eyþór er nýkominn af löngum fundi í borgarstjórn þar sem fjárhagsstaða borgarinnar eftir fyrri helming ársins var til umræðu þegar blaðamaður nær sambandi við hann. Hann er þó ekki með neinn æsing yfir niðurstöðunum, þótt hann sé ekki allskostar sáttur við þær.

„Við bendum til dæmis á það að skuldir borgarinnar eru að vaxa þótt það hafi verið góðæri,“ segir hann. „Svo var innri endurskoðun borgarinnar að benda á að framlög Reykjavíkurborgar til skólanna eru frekar lítil miðað við meðaltal landsins og viðhald þeirra í mjög slæmu ástandi, sem er alvarlegt mál sem þarf að skoða.“

Spurður hvort það sé ekki þrautleiðinlegt að standa í svona þvargi alla daga dregur Eyþór við sig svarið.

„Nei, nei,“ segir hann svo. „Það er eins með þetta og allt annað, það er hægt að gera sér öll störf leiðinleg eða skemmtileg hvort sem það er uppvask eða að spila á selló eða að vera í borgarstjórn og ég reyni yfirleitt að hafa gaman af því sem ég geri vegna þess að það er svo verðmætt að hafa gaman af öllu sem maður gerir, jafnvel bara að fara út með ruslið. Borgarstjórnarstarfið tekur hins vegar á og tekur mikinn tíma og það sem mér finnst kannski taka mest á þolinmæðina eru þessir löngu fundir. Þeir eru oft fimm tímar eða svipað langir og flug til New York og það er svolítið langur tími til að sitja kyrr, en þá fer maður bara í ræktina á eftir og fær útrás.“

Pönkari og anarkisti

Áður en Eyþór hellti sér út í pólitíkina var hann þekktur sem tónlistarmaður, spilaði meðal annars með Tappa tíkarrassi og Todmobile árum saman, hvað fékk hann til að söðla um og fara út í pólitík? Eru þessir heimar ekki algjörar andstæður?

„Jú, jú, ég er fullur af andstæðum,“ segir hann hlæjandi. „Ég lærði fyrst á fiðlu og fór síðan í pönkið með Tappa tíkarrassi og Björk og hætti því svo og fór að læra á selló. Eftir það fór ég í Todmobile. En þegar ég var pönkari var ég svolítill anarkisti, var á móti ríkinu, boðum og bönnum og yfirvaldi og vildi meira frelsi. Það var mjög lítið frelsi þegar við vorum unglingar í Rokk í Reykjavík. Það mátti ekki einu sinni selja erlent súkkulaði. Þegar ég var þrettán ára fór ég niður í bæ með vini mínum og við höfðum meðferðis lak sem mamma átti sem á var skrifað „Hvar er frelsið?“ Lögreglan kom og kvartaði yfir því að við værum að mótmæla svo það má segja að þarna strax hafi maður verið orðinn aktívisti og mín pólitík er einfaldlega sú að ég treysti fólki – stundum of mikið reyndar – og trúi því að fólk eigi að fá að ráða sínum málum sem mest sjálft. Þegar maður verður eldri kemst maður síðan að því að ef maður vill breyta einhverju verður maður að gera það í gegnum kerfið. Ég fór í pólitík í Árborg, þar sem ég bjó þá, og þar náðum við að breyta mörgu sem ég er mjög ánægður með. Ég sé það líka að sveitarfélagið er að vaxa út frá þeim ákvörðunum sem voru teknar þegar við vorum í meirihluta og það eru bestu launin að sjá það sem maður gerir skila sér.“

„Þegar ég var pönkari var ég svolítill anarkisti, var á móti ríkinu, boðum og bönnum og yfirvaldi og vildi meira frelsi.“

Fólk þarf að fá svör

Eyþór var alinn upp í Reykjavík, bjó á Selfossi í tíu ár en er fluttur aftur til Reykjavíkur. Hann langar að leggja sitt af mörkum til að sjá svipaðar skipulagsbreytingar í rekstri borgarinnar og þær sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins kom á í Árborg.

„Ég bar aldrei stóla í Valhöll, var aldrei virkur í Heimdalli eða ungliðahreyfingunni eins og svo margir. Ég kem bara beint úr atvinnulífinu og listalífinu án þess að hafa klifrað upp neinn stiga,“ segir Eyþór.

„Eitt af því sem við gerðum í Árborg var að reyna að einfalda stjórnkerfið,“ útskýrir hann. „Eða það sem við kölluðum að stytta boðleiðirnar þannig að mál séu ekki að þvælast í einhverju ómanneskjulegu kerfi í óratíma. Við einfölduðum kerfið, lækkuðum skattana á heimilin og borguðum niður skuldir og þetta væri allt saman rétt að gera í Reykjavík. Fasteignaskattarnir eru mjög háir hér í borginni, skuldir borgarsjóðs aukast um milljarð á mánuði og við sjáum það að fólk fær ekki svör, hvort sem það eru verslunarrekendur við Laugaveg eða Hverfisgötu eða þeir sem eru á biðlista einhvers staðar eða þeir sem vilja byggja. Kerfið er orðið allt of flókið og endalaust að tala við sjálft sig og ég hef trú á því að við getum einfaldað það og um leið gert það betra og ódýrara.“

Það kom mörgum á óvart þegar Eyþór var valinn sem oddviti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, hann hafði ekki verið áberandi innan flokksins fram að því. Hann segir það eiga sér einfalda skýringu.

„Kerfið er orðið allt of flókið og endalaust að tala við sjálft sig og ég hef trú á því að við getum einfaldað það og um leið gert það betra og ódýrara.“

„Ég tók þátt í prófkjöri í Árborg á sínum tíma og vann það og gerði svo það sama í Reykjavík,“ útskýrir hann. „Í báðum tilfellum fékk ég mjög góðan stuðning, meira en helming atkvæða þótt það væru margir að keppa, en ég bar aldrei stóla í Valhöll, var aldrei virkur í Heimdalli eða ungliðahreyfingunni eins og svo margir. Ég kem bara beint úr atvinnulífinu og listalífinu án þess að hafa klifrað upp neinn stiga.“

Sumir höfðu á orði þegar ljóst var að Eyþór var oddvitaefni flokksins í Reykjavík eftir að Halldór Halldórsson hafði verið sóttur til Ísafjarðar til að leiða flokkinn í kosningunum þar á undan, hvort ekki væru neinir frambærilegir Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Telur Eyþór það vera vandamál innan flokksins?

„Nei, það held ég nú ekki,“ segir Eyþór og brosir. „Það er nú sem betur fer þannig á Íslandi að menn flytja milli staða. Ég hef búið á mörgum stöðum í Reykjavík; alinn upp í Árbænum, hef búið í Vesturbænum og Grafarholtinu og þekki Reykjavík vel. Ég hef búið erlendis líka, í London og San Francisco, en mér þykir mjög vænt um Reykjavík. Ég myndi segja að hún væri minnsta stórborg í heimi og hún hefur mikil tækifæri til þess að þróast í góða átt.“

Megum ekki vera fölsk

Kom reynslan úr viðskiptalífinu og tónlistarheiminum Eyþóri til góða eftir að hann lagði pólitíkina fyrir sig?

„Ef maður kann að nýta sér reynslu úr listum eða viðskiptum í pólitík þá held ég að það sé mjög gott,“ segir Eyþór. „Vegna þess að þegar við vinnum í hóp þá spilum við saman eins og við séum í hljómsveit, við verðum að spila sama lagið og við megum ekki vera fölsk, verðum að vera heiðarleg. Maður getur líka lært af viðskiptalífinu að það skiptir máli hvernig farið er með peninga. Þeir sem hafa verið í atvinnulífinu hafa oft þurft að hafa áhyggjur af því að borga laun og annað og það er góð reynsla þegar kemur að því að fara með almannafé. Maður er meðvitaður um það að peningar vaxa ekki á trjánum.“

Eyþór segist vilja gera ýmsar breytingar. „Fasteignaskattarnir eru mjög háir hér í borginni, skuldir borgarsjóðs aukast um milljarð á mánuði og við sjáum það að fólk fær ekki svör, hvort sem það eru verslunarrekendur við Laugaveg eða Hverfisgötu eða þeir sem eru á biðlista einhvers staðar eða þeir sem vilja byggja.“

Þessi fullyrðing Eyþórs um að fólk í pólitík verði að vera samtaka og spila saman skýtur dálítið skökku við í ljósi þeirrar gagnrýni sem minnihlutinn í borgarstjórn hefur orðið fyrir, að vera á móti öllu sem meirihlutinn gerir bara til þess að vera á móti því. Hvaða skýringu hefur hann á þeirri gagnrýni?

„Það er náttúrlega tölfræðilega rangt,“ segir hann sallarólegur. „Ef það er farið yfir fundargerðir borgarstjórnar sést að í áttatíu til níutíu prósent tilfella er minnihlutinn sammála meirihlutanum. Hins vegar ratar það ekki í fréttir. Ég er stoltur af því að við höfum bent á hluti sem ekki voru í lagi og ég finn það að það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru sammála því að það er hægt að gera betur.“

Trump er víða

Fyrir hinn almenna borgara sem les um málin í fjölmiðlum lyktar þetta engu að síður dálítið af Trumpisma. Að það sé verið að afvegaleiða umræðuna til að vekja athygli á sjálfum sér. Er pólitíkin að breytast í þá átt?

„Pólitíkin í heiminum er að breytast, já,“ segir Eyþór. „En ég passa mig alla vega á því að vera lítið á Twitter því þar er svo mikið rifist og hlutirnir slitnir úr samhengi. Ég hef til dæmis ekkert á móti veganisma, eins og ætla mætti af umfjöllun fjölmiðla um skólamatinn, ég vil bara að fólk hafi val. Það er nýbúið að samþykkja stefnu sem allir flokkarnir voru sammála um, að það ætti að vera fiskur í mötuneytum skólanna tvisvar í viku, kjöt einu sinni og svo egg og skyr og ávextir og svo framvegis. Síðan kemur einn oddvitinn úr meirihlutanum í Ríkisútvarpið og segir að það eigi að draga verulega úr öllum dýraafurðum og það sé full samstaða um það hjá meirihlutanum. Það er svolítil bomba og ég myndi segja að það væri líkara Trump en það sem minnihlutinn hefur verið að gera. Þannig að Trump er víða.“

Enginn flokkur fullkominn

Nú finnst mér nóg komið af pólitískri umræðu og fer að forvitnast um bakgrunn Eyþórs og upphafið á pólitískum áhuga hans, kemur hann úr pólitísku umhverfi?

„Á vissan hátt, já,“ viðurkennir hann. „Heimsmálin voru alltaf rædd á mínu heimili. Mamma mín, Sigríður Eyþórsdóttir, var mikill umhverfissinni og föðurbróðir minn, Ragnar Arnalds, var formaður Alþýðubandalagsins þannig að við fylgdumst alltaf vel með kosningum. Svo var pabbi, Jón Laxdal Arnalds, ráðuneytisstjóri og hafði marga ráðherra sem maður sá að voru mjög mismunandi. Hann talaði reyndar aldrei um pólitík út á við, var praktískur ráðuneytisstjóri og dómari og mjög orðvar, en það var samt alltaf verið að tala um heimsmálin.“

Eyþór var alinn upp í Reykjavík, bjó á Selfossi í tíu ár en er fluttur aftur til Reykjavíkur. Hann langar að leggja sitt af mörkum til að sjá svipaðar skipulagsbreytingar í rekstri borgarinnar og þær sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins kom á í Árborg.

Bakgrunnur þinn er sem sagt ekki í Sjálfstæðisflokknum, valdirðu hann til þess að vinna að auknu frelsi einstaklingsins í samræmi við anarkistahugsjón unglingsáranna?

„Já, mér fannst hann helst tala fyrir því,“ segir Eyþór. „En það er enginn flokkur fullkominn og það er alltaf hægt að gera betur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir einstaklingsfrelsi og ég bara ákvað að trúa því og beita mér fyrir því á vegum flokksins.“

Talandi um að enginn flokkur sé fullkominn, utan frá séð virðist hver höndin vera upp á móti annarri innan Sjálfstæðisflokksins þessi misserin, hvar stendur Eyþór í þeirri togstreitu?

„Eins og við ræddum áðan þá eru stjórnmálin að breytast og miklu fleiri flokkar komnir til sögunnar,“ segir Eyþór. „Það eru átta flokkar í borgarstjórn og það má segja að í síðustu kosningum hafi tveir flokkar, Miðflokkurinn og Viðreisn, sótt að Sjálfstæðisflokknum. Mjög ólíkir flokkar en fá báðir atkvæði frá kjósendum Sjálfstæðisflokksins þannig að hann þarf að hafa skýra rödd og að mínu mati á hann standa fyrir valfrelsi einstaklingsins og að minnka kerfið.“

Fer of mikið púður í tal um sundrungu

Eyþór er enn þá einn af eigendum Morgunblaðsins þar sem ritstjórinn rekur nánast opinbera stefnu gegn núverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Er hann ekki í dálítilli klemmu innan flokksins vegna þess?

„Nei, ég tók klemmuna af mér með því að fara úr stjórn Morgunblaðsins og skipa engan í minn stað,“ segir Eyþór. „Ég hef engin afskipti af Morgunblaðinu. Það hefur bara sína ritstjórnarstefnu sem ég kem ekki nálægt. Mér finnst hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að tala skýrri röddu fyrir því sem sameinar okkur. Mér finnst allt of mikið púður fara í það sem sundar okkur. Ef flokkurinn er að berjast við aðra flokka um mál sem kljúfa samstöðu fólks þá er hann í vanda. Ef hann er í stöðugri varnarbaráttu þá getur hann ekki stækkað.“

Stefnir þú á frekari frama innan flokksins? Langar þig til að verða formaður hans og hugsanlega forsætisráðherra?

„Nei, ég hef ekki verið að stefna á neinn frama,“ fullyrðir Eyþór. „Ég hef fengið ágætis útrás fyrir egóið í gegnum tíðina, bæði með því að vera í tónlist og að skila góðu búi í Árborg. Það eina sem mig langar að gera er að láta gott af mér leiða og gleyma ekki að lifa lífinu í leiðinni. Ég hugsa þetta bara frá ári til árs, er ekki með nein langtímamarkmið.“

Alltaf eitthvað á bak við misnotkun áfengis

Meðan Eyþór var í bæjarstjórn Árborgar var hann tekinn fyrir ölvunarakstur og hætti í kjölfarið að drekka, breytti það atvik að einhverju leyti sýn hans á sjálfan sig og lífið?

„Þetta atvik breytti lífssýninni alveg klárlega,“ segir Eyþór með áherslu. „Þegar maður gerir eitthvað af sér, eins og ég gerði, þá á maður tvo valmöguleika, annars vegar að fara í fýlu eða þá að segja ég ætla að læra af þessu. Ég ákvað að læra af þessu og ég held ég hafi komið auðmjúkari út úr því og þakklátari fyrir það sem ég hef. Það var lykilatriði.“

Það hlýtur samt að vera pirrandi að það sé stöðugt verið að rifja þetta atvik upp og nota það gegn þér?

„Nei, það er viðbúið,“ segir Eyþór. „En sem betur fer er ég ekki með beinagrindurnar inni í skápnum, er bara með þær hérna á borðinu þannig að þetta er ekki neitt leyndarmál. Ég braut af mér og ég viðurkenni það og ég lærði af því. Það er hægt að læra af mistökum en það er líka hægt að læra ekki af þeim.“

„Ég braut af mér og ég viðurkenni það og ég lærði af því.“

Eyþór fór í áfengismeðferð eftir atvikið og segir það hafa hjálpað sér mikið, er hann ennþá áfengislaus?

„Ég fór í gegnum meðferð hjá SÁÁ og síðan í AA,“ útskýrir hann. „Það hefur komið fyrir að ég hef drukkið síðan, en ég hef náð allt öðrum tökum á sjálfum mér. Ég held það sé alltaf eitthvað á bak við það þegar fólk misnotar áfengi eða önnur vímuefni, það er einhver rót, menn verða að stunda mannrækt ef þeir ætla að ná tökum á fíkn eða kaosi og AA gerði mér mjög gott.“

Verður alltaf að svara kjósendum

Spurður hvort þetta mál og annað áreiti sem fylgir lífi stjórnmálamannsins hafi að einhverju leyti bitnað á fjölskyldu hans neitar Eyþór því.

„Ég á fjögur börn á aldrinum tíu til átján ára og þau hafa alveg fengið að vera í friði,“ segir hann. „Ég vona að samfélagið virði einkalíf fólks og þá sérstaklega barna. Ég er mjög stoltur af börnunum mínum og finnst þeim ganga mjög vel í því sem þau eru að gera. Við konan mín erum skilin að borði og sæng þannig að þetta starf mitt hefur lítið bitnað á heimilislífinu. Það er sama hvert maður fer það er alltaf einhver sem vill ræða málin við mann og maður verður að svara hverju sem er, hvenær sem er, hvar sem er. Fólk gerir þá kröfu að kjörnir fulltrúar þess séu aðgengilegir. Það er eitt af því sem ég hef gagnrýnt núverandi borgarstjórnarmeirihluta fyrir. Ég heyri að fólk er óánægt með að geta ekki náð í borgarstjórann eða aðra sem fara með stjórnina og þá kemur það til okkar. Ég er til dæmis með viðtalstíma alltaf á mánudögum í Ráðhúsinu og það kemur oft til mín fólk sem segist ekki geta náð í neinn sem ræður. Borgarstjóri er ekki með fastan viðtalstíma, það þarf að panta þá sérstaklega og mér skilst að það sé mjög erfitt að fá slíkan tíma. Það er ekki nógu gott.“

Hvað með persónuleg samskipti Eyþórs og borgarstjórans? Eru þeir andstæðingar utan funda borgastjórnar líka?

„Nei, alls ekki, við erum ágætis félagar,“ segir Eyþór og hlær. „Við vinnum saman þó svo við séum ekki sammála um allt. Og þegar meirihlutinn leggur fram góð mál þá styðjum við þau. Við erum ekki í einhverjum hnefaleikum heldur stefnum öll að sama marki, þótt fjölmiðlar birti ekki fréttir af því. Það er nefnilega „catch 22“ að ef fjölmiðlar birta bara fréttir af því þegar einhver læti verða þá freistast sumir til þess að vera með læti til að komast í fréttirnar. Ég tel mig ekki vera einn af þeim en ég hins vegar tala hreint út, ég held það sé best að vera ekkert að flækja þetta.“

Gagnrýndur fyrir að vera ekki leiðinlegur

Beðinn að lýsa karakter sjálfs sín vefst Eyþóri tunga um tönn.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ segir hann. „Ég held ég sé frekar rólegur, get alveg verið einn og það er erfitt að rífast við mig því ég rífst ekki á móti. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu leiðinlegur í pólitíkinni.“

Ef þú heldur áfram og Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihluta í næstu borgarstjórnarkosningum verður þú væntanlega borgarstjóri. Hver yrði fyrsta breytingin sem Reykvíkingar yrðu varir við?

Mynd / Hallur Karlsson

„Ég myndi breyta stjórnkerfinu,“ segir Eyþór ákveðinn. „Það er orðið allt of stórt og það þarf að einfalda það þannig að það verði auðveldara að klára mál. Núna tekur stundum mörg ár að klára lítil skipulagsmál og það voru þrjú hundruð stýrihópar og nefndir að vinna að því og enginn vissi hvað hinar nefndirnar voru að gera þannig að það var stofnuð önnur nefnd til að fara yfir þetta og sú nefnd komst að því að það væri best að skipa þrjár nefndir til að fara í saumana á þessu. Þetta er svipað og ef þú værir með tölvuna þína fyrir framan þig og lyklaborðið væri með tíu sinnum fleiri tökkum en það er, væri það betra eða verra? Það væri verra vegna þess að flækjustigið væri svo mikið, það er mun betra að hafa hlutina einfalda og kerfið á að klára mál en ekki flækja þau meira.“

Langar að einbeita sér að klassíkinni

Sérðu pólitíkina fyrir þér sem framtíðarstarfsvettvang og ef ekki hvað hefurðu hugsað þér að gera þegar þú hættir?

„Nei, ég fór í þetta til að ná árangri og þegar hann næst mun ég hætta,“ segir Eyþór. „Og það er ekki spurning hvað þá tæki við. Tónlistin er auðvitað alltaf með mér og ég sinni henni alveg þótt ég sé í pólitík,“ segir Eyþór. „Við félagarnir í Tappa tíkarrass ætlum til dæmis að taka upp nokkur lög núna í september og koma með eitthvað skemmtilegt á markaðinn fyrir jólin. Og ef ég hætti í pólitíkinni myndi ég einbeita mér meira að klassískri tónlist. Ég byrjaði þar, var ekki bara sellóleikari heldur samdi fyrir Sinfóníuna og gerði tónlist við leikrit og kvikmyndir. Ég var aldrei alveg búinn að klára þann pakka og ef ég hefði nægan tíma myndi ég vilja semja meira fyrir klassísk hljóðfæri. En það verður að bíða á meðan ég einbeiti mér að því að ná árangri í pólitíkinni.“

Myndir / Hallur Karlsson
Myndataka/ Hákon Davíð Björnsson og Hallur Karlsson
Klipping / Hákon Davíð Björnsson

Tuttugu ára afmæli Lyfjavers

Lyfjaver fagnar því þessa dagana að 20 ár eru liðin frá því fyrirtækið afhenti sína fyrstu lyfjaskömmtun og hóf þannig formlega starfsemi. Einn liður í að fagna þessum góðu
tímamótum er útgáfa á sérstöku afmælisblaði sem dreift er með Mannlíf.

Margs konar fróðleik er að fnna í blaðinu, eins og sögu Lyfjavers, þá þjónustu sem í boði er ásamt umsögnum ánægðra viðskiptavina, meðal annars eiganda hundsins Nemó sem fær reglulega lyfjaskömmtun frá Lyfjaveri.

Fjöldi tilboða verður allan september í verslun Lyfjavers á Suðurlandsbraut 22 og má fnna þau tilboð í afmælisblaðinu. Einnig er afmælishappdræti í september þar sem dregið verður úr afgreiddum lyfseðlum og lyfjaskömmtunum í mánuðinum.

Verðlaunin eru ekki af verri endanum en tveir heppnir einstaklingar fá 100.000 króna gafabréf frá Icelandair í verðlaun. Það er því gott tilefni til að koma við í apótekinu og skoða úrvalið og taka þát í fögnuðinum.

Verður betri með hverju árinu sem líður

Jennifer Lopez fagnaði 50 ára afmæli sínu í júlí. Hún segir það hafa verið bestu stund lífs síns að ná þeim áfanga.

 

„Ég bjóst ekki við að þetta yrði besta stund lífs míns,“ sagði Lopez um aldurinn í viðtali sem birtist í ES Magazine. Lopez segir í viðtalinu að konur í skemmtanabransanum sé forritaðar til að halda að ferillinn taki enda um leið og þær ná ákveðnum aldri en að henni finnst hún bara verða betri með aldrinum.

„Ég finn að ég er að vaxa og verða betri með hverju árinu sem líður, það er spennandi. Þetta snýst um metnað og eljusemi. Þessi brasi er ekki fyrir veiklynda. Til að endanst í þessu eins lengi og ég hef gert þá þarf maður að hafa þykkan skráp,“ útskýrði Lopez.

Þess má geta að Lopez hefur verið lengi í bransanum en fyrsta plata hennar, On the 6, kom út árið 1999. Síðan þá hefur hún gefið út sjö breiðskífur til viðbótar. Þá hefur hún leikið í fjölmörgum kvikmyndum og þáttum en fyrsta kvikmyndahlutverkinu landaði hún árið 1986.

https://www.instagram.com/p/B2B2THWlfCW/

Áslaug Arna nýr dómsmálaráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Mynd / Aldís Pálsdóttir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tekur við sem dómsmálaráðherra. Hún er næstyngsti ráðherrann í sögu Íslands, en Eysteinn Jónsson var yngri þegar hann tók við embætti fjármálaráðherra árið 1934.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, tilkynnti fyrir stuttu um valið eftir fund þingflokks sjálfstæðismanna í Valhöll. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadótir tók tímabundið við sem ráðuneytinu eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra 13. mars.

Áslaug Arna er fædd 30. nóvember árið 1990, og því rétt 29 ára gömul. Hún settist á Alþingi árið 2016, er fimmti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og hefur verið varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, auk þess sem hún er ritari flokksins.

Áslaug Arna er stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 2010 og árið 2017 lauk hún meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Ófærð ratar á lista BBC yfir bestu þættina

Íslensku þættirnir Ófærð, eða Trapped eins og þeir heita á ensku, rötuðu á lista BBC yfir bestu sjónvarpsþáttaraðirnar sem komu út á þessu ári.

 

Listinn samanstendur af tólf þáttaröðum. Ásamt Ófærð eru þættirnir Fleabag, Stranger Things, Years and Years, Chernobyl, When They See Us, Succession, Dark, Russian Doll, Trapped, Schitt’s Creek, Derry Girls og Mindhunter á listanum.

Lista BBC má skoða hérna.

Þættirnir Ófærð hafa notið mikilla vinsælda síðan þeir hófu göngu sína árið 2015 og fá 8,1 í einkunn á vefnum IMDb. Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson eru meðal þeirra sem fara með hlutverk í Ófærð.

„Ekki bara fyrir fólk sem er með doktorspróf í málfræði“

Björg Magnúsdóttir er annar umsjónarmaður skemmtiþáttarins Kappsmál sem hefur göngu sína á föstudaginn. Hún segir að glens og góð stemmning verði í aðalhlutverki í þáttunum.

 

Kappsmál er nýr, íslenskur skemmtiþáttur sem hefur göngu sína á föstudaginn klukkan 19:45 á RÚV. Umsjónarmenn þáttanna eru þau Björg Magnúsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason.

Í þáttunum fá Björg og Bragi til sín góða gesti sem eiga það sameiginlegt að hafa gaman af íslenskri tungu. Keppendur í fyrsta þætti eru Svanhildur Hólm, Arnmundur Ernst Backman Björnsson, Bergur Ebbi Benediktsson og Rakel Garðarsdóttir.

„Þátttakendur etja kappi í fjölbreyttum orðaleikjum og þrautum, meðal annars í taugatrekkjandi stöfunarkeppni og í sérhannaðri útgáfu af hengimanni,“ segir í tilkynningu um þáttinn.

„Kappsmál er fyrir alla landsmenn og alls ekki bara fyrir fólk sem er með doktorspróf í málfræði. Ég meina, hver hefur ekki gaman af því að sjá landsþekkta keppendur stafa flókin orð undir tímapressu fyrir framan sjónvarpsmyndavélar,“ segir Björg þegar hún er spurð út í þættina.

„Ég er bæði mjög spennt en líka pínu stressuð…“

Björg lofar góðri skemmtun. „Glens, húmor og stemning eru í aðalhlutverki og svo held ég að það sé nokkuð öruggt að fólk muni læra eitthvað nýtt um okkar dásamlega tungumál í leiðinni.“

Björg viðurkennir að hún sé svolítið stressuð. „Ég er bæði mjög spennt en líka pínu stressuð fyrir viðtökunum og minni bara á að uppbyggileg gagnrýni toppar alltaf óhugsað drull á internetinu,“ segir hún hress.

Þættirnir verða á dagskrá RÚV öll föstudagskvöld í vetur.

„Hagaði mér eins og hálfviti“

Björn Bragi Arnarsson viðurkennir að hafa hagað sér eins og „hálfviti“ þegar hann káfaði á unglingsstúlku í fyrra. Atvikið náðist á myndband.

 

Grínistinn og sjónvarpsmaðurinn Björn Bragi Arnarson hefur verið á milli tannanna á fólki eftir að myndband sem sýndi hann káfa á ungri stelpu á djamminu komst í dreifingu á samfélagsmiðlum í október í fyrra. Björn Bragi hætti í kjölfarið sem spyrill í Gettu betur og lét lítið fyrir sér fara.

„Ég auðvitað varð mér bara algjörlega til skammar og hagaði mér eins og hálfviti,“ segir Björn Bragi í myndskeiði á Vísi en viðtal við Björn um málið verður sýnt í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld.

„Ég skil bara mjög vel að fólki hafi verið brugðið þegar þetta kom upp og hafi verið reitt við mig, og þannig leið mér sjálfum,“ segir hann í myndbrotinu.

Eins og fram kemur í frétt Vísis fer Björn yfir málið í viðtalinu og ræðir afleiðingar þess.

Sjá einnig: Keppandi Gettu betur birtir opið bréf til Björns Braga

Fimm athyglisverðar Instagram-síður fyrir áhugasama um arkitektúr

Lík Ekaterinu Karaglanovu fannst ofan í ferðatösku.

Hefur þú áhuga á arkitektúr og langar að fylgjast með því helsta sem er að gerast erlendis? Hér er að finna fimm áhugaverðar Instagram-síður sem arkitektastofur víðs vegar um heiminn halda úti og vert er að skoða.

 

1. Snøhetta – er norsk arkitektastofa sem stofnuð var árið 1989. Snøhetta er með höfuðstöðvar sínar í Osló og New York ásamt því að vera með stúdíó í Hong Kong, San Francisco, Innsbruck og París. Yfir 240 starfsmenn frá 32 löndum starfa hjá fyrirtækinu sem er leiðandi á sviði arkitektúrs og landslagsarkitektúrs. Meðal þekktustu verka stofunnar eru Óperuhúsið í Osló og bókasafnið í Alexandríu í Egyptalandi.

View this post on Instagram

We are excited to present our vision for a new Museum Quarter on top of the Virgl mountain in Bolzano in Northern Italy. Designed on behalf of the Signa Group, the Museum Quarter is intended to accommodate museum spaces for the South Tyrol Museum of Archaeology and the Municipal Museum of Bolzano as well as exhibition spaces for the archaeological sensation Ötzi the Iceman – the prehistoric man from the Copper Age that was discovered in the area in 1991. The distinctive building blends in with the surrounding topography and extends the mountain terrain. Through the planned cable car structure, also designed by Snøhetta, and the new Museum Quarter, the Virgl mountain will serve as a cultural and recreational area for the people and visitors of Bolzano. The new Museum Quarter will serve as a new landmark for Bolzano and reinforce the city’s international significance as a cultural destination. 📷 Moka Studio and Snøhetta

A post shared by Snøhetta (@snohetta) on

2. Andreas Martin-Löf arkitekter – er sænsk stofa sem stofnuð var árið 2008 og er með höfuðstöðvar sínar í Stokkhólmi. Andreas Martin-Löf, stofnandi fyrirtækisins, er ungur og upprennandi arkitekt sem hefur mikið látið til sín taka undanfarin ár þá sér í lagi varðandi nýstárlegar lausnir á húsnæðisvandanum í Stokkhólmi og hefur hann hlotið mörg verðlaun fyrir. Andreas var meðal þátttakenda á Design Talks í Hörpu á Hönnunarmars árið 2018.

3. Kengo Kuma and Associates. Kengo Kuma hefur verið eitt þekktasta nafnið í arkitektaheiminum síðast liðin ár. Hann stofnaði stofu sína í Tokyo árið 1990 og hefur hún verið starfrækt undir hans nafni allar götur síðan. Um 200 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu í Tokyo og í París þar sem nokkurs konar útibú stofunnar er rekið. Japanir hafa löngum verið þekktir fyrir einstaka þekkingu og færni í notkun timburs í byggingariðnaði og bera verk Kengos því fagurt vitni.

4. BIG – Bjarke Ingels Group. Arkitektinn Bjarke Ingels er forsprakki stofunnar sem stofnuð var árið 2005 og eru starfstöðvarnar í Kaupmannahöfn, London og New York. Í dag eru meðeigendurnir 17 talsins og eru verkefni stofunnar afar fjölbreytt. BIG hefur tekið þátt í samkeppnum víðsvegar um heiminn, þar á meðal á Íslandi, en stofan sendi frá sér tillögu að nýjum höfuðstöðvum Landsbankans árið 2018. Sú tillaga þótti afar vel gerð og athyglisverð en hún var unnin í samstarfi við Andra Snæ Magnason.

5. Kimmel Eshkolot Architects – er ísraelsk arkitektastofa stofnuð árið 1986 í Tel Aviv af Etan Kimmel og Michal Kimmel Eshkolot. Stofan er með 18 arkitekta innanborðs sem hafa unnið fjölbreytt verkefni bæði í Ísrael og í Evrópu. Mikil áhersla er lögð á tækni og að hún leiði af sér fjölþættar og skapandi nýjungar.

Gestgjafinn – nýtt haustblað komið í verslanir

Gestgjafinn er kominn út ferskur og fallegur að vanda. Blaðið er innihaldsríkt og áhugavert með fullt af spennandi efni um mat, vín og ferðalög.

 

Haustlegar áherslur eru í blaðinu og í því finna má notalega og nærandi rétti. Svo sem gómsætt lasange og frábæra og nýstárlega risotto-rétti en uppskriftirnar að þeim eru afar nákvæmar svo allir ættu að geta lært að elda gott risotto.

Nokkrir einfaldir og sniðugir réttir í klúbbana eru meðal efnis og svo er að finna afar bragðgott og lekkert sætmeti út hvítu súkkulaði og hindberjum sem hentar vel í samkomur.

Lítil hamborgarabrauð eru sniðug í klúbba og veislur og í blaðinu er einmitt að finna afar skýra og góða uppskrift í skrefum að einni slíkri.

Í blaðinu er að finna nákvæma uppskrift að litlum hamborgarabrauðum. Mynd / Hákon Davíð

Í blaðinu er að finna skemmtilegt matarboð þar sem líklega var meira sungið en borðað en það voru söngvararnir í Brúðkaupi Fígarós sem Íslenska óperan setur á svið sem að því stóðu.

Á ferðasíðunum er að finna veitingastaði og sælkeraverslanir í Barcelona og London. Þá fjallar Dominique meðal annars um sótspor víns og eldfjallavín á vínsíðunum.

Þetta og margt fleira áhugavert er að finna í septemberblaði Gestgjafans.

Tryggðu þér áskrift að Gestgjafanum í vefverslun

 

Þrjár til­kynningar um heimilis­of­beldi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk þrjár tilkynningar um heimilisofbeldi í gærkvöldi.

Klukkan hálf tvö barst tilkynning um heimilisofbeldi og líkamsárás, þar var einn einstaklingur handtekinn og gistir hann fangageymslu. Um miðnætti hafði einnig verið tilkynnt um heimilisofbeldi og hótanir, það mál var afgreitt á vettvangi.

Laust fyrir fjögur var tilkynnt um heimilisofbeldi og líkamsárás. Það atvik var afgreitt á vettvangi og var gerandi farinn þegar lögreglu bar á vettvang.

Alls gistu sex einstalingar fangageymslur eftir gærkvöld og nótt sem leið.

Annarlegur á „Evuklæðum“ – Annar í gylltum skóm

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Í dag bók lögreglunnar kemur meðal annars fram að um hálffjögur í nótt afklæddist maður í annarlegu ástandi í miðborginni „og gengur um á evuklæðunum [sic], hann handtekinn og gistir hann fangageymslur þar til af honum rennur.“

Nokkrir aðrir einstaklingar í annarlegu ástandi voru til vandræða. Um hálfellefu var komið að manni sem lá ofurölvi í götunni, honum var ekið heim til sín. Tveimur tímum síðar kom tilkynning um æstan mann sem var til ama, en hann var farinn þegar lögreglan kom á staðinn. Laust fyrir eitt í nótt var tilkynnt um ofurölvi mann sem braut rúðu í miðbænum og var honum ekið heim eftir að lögreglan hafði rætt við hann. Rúmlega fimm var einn maður handtekinn vegna ástands síns og gistir hann fangageymslur þar til af honum rennur.

Í gærkvöldi voru tvær konur leystar úr prisund í miðbænum, en þær höfðu fests í lyftu.

Eignaspjöll voru framin, en gylltri málningu var úðað á tvær bifreiðar. Gerandi var handtekinn í öðru máli síðar um kvöldið, en þá var komið að honum þar sem hann var að henda hlutum út á götu. Var hann klæddur skóm sem ataðir voru í gylltri málningu.

Danir áhugasamir um íslenska ull og prjónauppskriftir

||
Mynd frá Ístex.||Frá Pakhusstrik í fyrra.

Uppselt er á prjónahátíðina Pakhusstrik í Kaupmannahöfn þar sem íslenskt garn og uppskriftir verða í aðalhlutverki.

 

Prjónahátíðina Pakhusstrik fer fram 6. og 7. september í menningarhúsi Íslands, Grænlands og Færeyja í Kaupmannahöfn, Norðurbryggju. Þetta er í sjötta sinn sem íslenskir prjónahönnuðir og garnframleiðendur fjölmenna á Pakhusstrik.

Á sunnudaginn seldist upp á hátíðina. „Hátíðin er með öðrum orðum orðin afar vinsæl meðal prjónaáhugafólks í Danmörku og koma margir víða að til að upplifa þá einstöku ull og hönnun sem Íslendingar eru orðnir þekktir fyrir. Einnig koma Færeyingar og Grænlendingar við sögu, en það er þá sérstaklega hin afar sérstaka ull sem fæst frá grænlenskum sauðnautum (moskusuld), sem er vinsæl meðal Dana,“ segir í tilkynningu um hátíðina.

Þess má geta að frá Íslandi taka þátt EinrúmMóakot, Ístex, Kvíkví, PrjónafjörÞingborg og Roð.

Hægt er að kynna sér alla dagskrána á vef menningarhúss Íslands, Grænlands og Færeyja í Kaupmannahöfn.

Frá Pakhusstrik í fyrra.

Sund, kókómjólk og slúður í nýjasta myndbandi Mr. Sillu

Tónlistarkonan Mr. Silla eða Sigurlaug Gísladóttir eins og hún heitir réttu nafni var að senda frá sér glænýtt lag og myndband sem ber heitið Gloria.

Tónlistarkonan Katrín Helga Andrésdóttir (Special K) vann myndbandið en hún notar „DV cam“ til að ná allsherjar nostalgíu áhrifum. Það heitasta á Instagram um þessar mundir er íslensk náttúra.

„Ef þú leitar að #iceland færðu upp yfir 10 milljón myndir af íslenskum hestum, norðurljósum og fossum. Hins vegar sést lítið af venjulegum Íslendingum og þeirra lífi.“

Í myndbandinu  má sjá Mr. Sillu og vini hennar tjilla á gráum degi á Íslandi. Fara í sund, lautarferð, gæða sér á kókómjólk og slúðra um lífið og tilveruna.

Tónlistarkonan Mr. Silla.

Gloria er hresst og skemmtilegt lag en textinn gefur þó til kynna að sár draugur fortíðar sé svífandi um.

Mr. Silla hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi um árabil eða allt frá aðkomu hennar í hljómsveitinni Múm. Hún sendi frá sér sína fyrstu sóló plötu árið 2015 en hefur einnig komið að fjölda samstarfs verkefna, hannað föt og sjónræna list svo sumt sé nefnt.

Nýja myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Björgvin rifjar upp 4. september fyrir 5 áratugum: „Svona líður tíminn“

||||||
||||||

Söngvarinn Björgvin Halldórsson minnist dagsins 4. september árið 1969 á Facebook-síðu sinni, en þann dag tók hann ásamt hljómsveitinni Ævintýri þátt í popphátíð í Laugardalshöll.

Hljómsveitin var valin vinsælasta hljómsveitin og Björgvin, þá 18 ára gamall, poppstjarna ársins. Þrátt fyrir ungan aldur Björgvins var Ævintýri þriðja hljómsveitin sem hann starfaði með. Hann hóf feril sinn í Bendix 15 ára gamall, næst tók Flowers við. Síðan stofnaði Björgvin Ævintýri ásamt Sigurjóni Sighvatssyni og Arnari Sigurbjörnssyni.

„Á þessum degi 4 september 1969 héldum við strákarnir í Laugardalshöllina til að taka þátt í stærstu Popphátíð þess tíma ásamt helstu hljómsveitunum. Þarna kepptu vinsælustu hljómsveitir landisns um vinsældir fólksins. Einskonar IDOL þeppni síns tíma..Við mættum fullir spenningi og eftirvæntingu og höfðum sigur. Svona líður tíminn… Ljúfar minningar,“ skrifar Björgvin.

Visir og Alþýðublaðið fjölluðu um hátíðina daginn eftir og kom þar fram að hátíðin hefði verið sótt af um 4000 unglingum flestum á aldrinum 10-14 ára og fór hátíðin vel fram, betur en talið hefði verið í fyrstu.

„Ég finn mig ekki í þessu, nema fólkið sé með mér,“ er haft eftir Björgvini í Vísi, og ljóst er að í þá rúmu fimm áratugi sem Björgvin hefur staðið í sviðsljósinu hefur fólkið verið með honum í liði, poppstjörnunni síungu.

Skjáskot Tímarit.is / Vísir 05.09.1969:

 

 

Raddir