Fimmtudagur 16. janúar, 2025
-0.6 C
Reykjavik

76 dagar án kennara

Skoðun
Eftir / Ómar Valdimarsson

Skóli dætra minna hefur aftur göngu sína í dag. Í dag eru 76 dagar frá því að dætur mínar fóru í sumarfrí. Í dag eru 76 dagar frá því að það var eitthvað í líkingu við rútínu í lífi fjölskyldunnar minnar.

Á þessum 76 dögum hefur gefist ágætis ráðrúm til þess að velta fyrir sér gildismati samfélagsins og hversu stóra rullu kennarar spila í lífi íslenskra fjölskyldna. Ég hef til dæmis fengið tækifæri til þess að velta þessu vandlega fyrir mér þegar ég þarf að skjótast úr vinnunni – stundum tvisvar til þrisvar á dag – til þess að skutla dætrum mínum á hin og þessi námskeiðin, sem alla jafna eru haldin á mjög ókristilegum tíma, t.d. frá klukkan 10 til 14 (?)! Og þessi námskeið eru yfirleitt ekki ókeypis – ef maður sleppur vel þá kosta þau bara annan handlegginn eða hvítuna úr augunum á þér.

Þá hef ég stundum saknað kennara barnanna minni extra mikið, þegar ég kem síðdegis og opna útidyrahurðina og á móti mér tekur heill her krakka – vinir dætra minna – og heimilið er á hvolfi og minnir meira á frístundaheimili en griðastað fjölskyldunnar.
Svo eru það stundum kvöldin, sem ég hugsa fallega til kennara dætra minna. Eftir kvöldmatinn, þegar mér finnst gott að setjast niður með kaffibolla og horfa á fréttirnar, er sumarið oftar ekki sá tími sem dæturnar hafa hertekið skjáinn til þess að horfa á YouTube-myndbönd með mokríkum, uppátækjasömum og fallegum bandarískum unglingum sem halda út sinni eigin sjónvarpsrás. Og fyrst við erum að tala um ljúf og falleg sumarkvöld: Hvernig fær maður krakkaskratta til þess að fara að sofa fyrir 23 á kvöldin, þegar það er enn þá sól úti?!

Umræðan um laun kennara ber reglulega á góma í íslenskri samfélagsumræðu. Grunnlaun grunnskólakennara eru í dag 459.069 krónur á mánuði. Næst þegar kjarasamningar kennara koma til umræðu ætla ég að hugsa til þessara 76 daga og hversu mikils virði mér finnst starf kennara vera í raun og veru. Eins og það er nú yndislegt að vera foreldri – að fá að fylgja einstaklingum sem maður elskar út í lífið og vera þeim innan handar með allt og ekkert – er skólabyrjun alltaf sérstakt fagnaðarefni. Ég elska dætur mínar til tunglsins og til baka en mikið verður gott að fá smárútínu aftur!

Höfundur er lögfræðingur.

Karnival á Klapparstíg

Á morgun, laugardag, verður DJ Margeir með heljarinnar karnival á Klapparstíg sem hefst klukkan 15 með jógatíma sem Tómas Oddur frá Yoga Shala Reykjavík leiðir.

Dansinn brýst síðan fram um klukkan 16 og mun duna óslitið fram að flugeldasýningunni, klukkan 23. Þegar karnivalinu lýkur er öllum boðið í eftirpartíið á Kaffibarnum.

„Heppinn að vera ekki steindauður“

||||
Mynd/Unnur Magna|„Það var iðulega gefið í skyn að konur væru lélegri starfskraftar í fyrirtækjum en karlar og það endaði með því að ég setti mér það markmið að gera það sem ég gæti til að stuðla að því að karlmenn yrðu jafnlélegir starfskraftar og konur

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, missti systur sína úr krabbameini fyrir einu og hálfu ári og skömmu síðar lenti hann í alvarlegu hjólreiðaslysi sem hefði getað kostað hann lífið. Hann segir þessa reynslu hafa breytt viðhorfi sínu til lífsins og kennt sér að meta betur það sem hann hefur. Hann ætlar að hlaupa hálft maraþon til styrktar Ljósinu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun.

„Ég hef aldrei hlaupið heilt maraþon en þetta er líklega fjórða eða fimmta hálfmaraþonið sem ég hleyp,“ svarar Ólafur aðspurður hvort hann hafi lengi stundað maraþonhlaup. „Ég er reyndar gamall antisportisti en varð óvart svolítið liðtækur hlaupari vegna þess að ég og Jón vinur minn vorum með endalausan skæting við íþróttakennarann okkar í MR og hann var orðinn svo leiður á okkur að hann sendi okkur alltaf út að hlaupa. Svo hafði ég ekki hlaupið lengi en þegar ég var kominn um fertugt og farinn að horfa á ístruna á mér stækka, áttaði ég mig á að ég þyrfti sennilega að fara að gera eitthvað í því hvað ég hreyfði mig lítið. Síðan hef ég hlaupið býsna mikið og nokkuð reglulega tekið þátt í keppnishlaupum.“

Spurður hvort hann sé kominn í þann hóp hlaupara sem fari til útlanda oft á ári til að hlaupa þar um fjöll og firnindi svarar Ólafur því til að hann sé reyndar ekki kominn þangað en það sé þó farið að kitla hann pínulítið að taka þátt í maraþonum erlendis.

„Ég hef ekki gert það enn þá, nei,“ segir hann. „Ég er reyndar aðeins að láta mig dreyma um það að fara kannski til New York, Boston eða Barcelona til þess að hlaupa maraþon en hvort af því verður kemur í ljós.“

Ólafur hleypur til að safna fyrir Ljósið til minningar um systur sína, Þóru Stephensen, sem lést eftir baráttu við krabbamein í apríl 2018. Hann segir dauða systur sinnar þó ekki vera einu ástæðuna fyrir því að hann valdi að styrkja starfsemi Ljóssins.

„Það er lengri saga á bakvið það,“ segir hann. „Ég átti tvær systur, Elínu og Þóru, sem voru þrettán og ellefu árum eldri en ég. Elín greindist með krabbamein í legi árið 2014 en hafði betur í þeirri baráttu og er frísk í dag. Þóra greindist 2016 með brjóstakrabba og það leit út fyrir að hún hefði líka sigrast á sínu meini en svo blossaði það upp aftur árið 2017 og hún dó í apríl í fyrra. Þær leituðu báðar mikið til Ljóssins og höfðu mikinn styrk af þeirri frábæru þjónustu sem þar er í boði. Það vill reyndar líka svo til að nýlega varð konan mín, Ragnheiður Agnarsdóttir, stjórnarformaður Ljóssins og sagan á bakvið það er að hún í fyrsta lagi missti fyrri manninn sinn, Þórð Friðjónsson, úr krabbameini árið 2011 og síðan greindist stjúpmóðir hennar, Rósa Steinsdóttir, með krabbamein 2016 og hefur líka sótt mikið til Ljóssins. Tengdamamma dóttur minnar, Guðrún Kristín Svavarsdóttir, er líka í hópi skjólstæðinga Ljóssins. Þannig að Ljósið á það eiginlega alveg inni hjá mér að ég leggi pínulítið á mig fyrir það.“

„Eftir að Þóra hafði greinst í annað sinn fór ég í fjölskylduviðtal með Elínu systur minni hjá Ljósinu. Það var afskaplega gott og hjálpaði manni að hugsa eftir réttum brautum og vera stuðningur bæði við þann veika og aðra aðstandendur, held ég.“

Óttinn við krabbamein aldrei nagað
Spurður hvernig hann hafi sjálfur tekist á við veikindi systra sinna, hvort hann hafi leitað sér aðstoðar í ferlinu, svarar Ólafur að hann hafi reyndar gert það.

„Eftir að Þóra hafði greinst í annað sinn fór ég í fjölskylduviðtal með Elínu systur minni hjá Ljósinu,“ upplýsir hann. „Það var afskaplega gott og hjálpaði manni að hugsa eftir réttum brautum og vera stuðningur bæði við þann veika og aðra aðstandendur, held ég.“

Það er nærtækt að spyrja hvort Ólafur sé ekki sjálfur hræddur um að greinast með krabbamein eftir þessa reynslu en hann segist reyndar ekki vera sérstaklega hræddur um það, þótt hann geri sér að sjálfsögðu grein fyrir því að hann gæti fengið krabbamein eins og hver annar.

„Systur mínar létu rannsaka það hvort krabbameinið væri að einhverju leyti ættgengt en það kom ekkert í ljós sem bendir til þess,“ útskýrir hann. „Ég er líka undir mjög góðu eftirliti hjá konunni minni sem gengur hart eftir því að ég fari reglulega í alls konar tékk, eins og maður á auðvitað að gera þegar maður er kominn um og yfir fimmtugt, og óttinn við það að fá krabbamein hefur aldrei nagað mig. Það er hins vegar gott að láta fylgjast vel með sér og hafa forvarnirnar í lagi.“

Ólafur hleypur til að safna fyrir Ljósið til minningar um systur sína, Þóru Stephensen, sem lést eftir baráttu við krabbamein í apríl 2018. Það eru þó fleiri ástæður fyrir því að hann valdi að styrkja starfsemi Ljóssins. Mynd/Unnur Magna

Væri steindauður ef hjálmurinn hefði ekki verið
Þremur mánuðum eftir að Þóra systir hans lést lenti Ólafur í hjólreiðaslysi, reyndar á afmælisdegi hennar, og hefur síðan farið í hverja aðgerðina á fætur annarri til að ná fullri hreyfigetu á ný. Hver voru tildrög slyssins?

„Á einum af þeim fáu fallegu dögum sem við fengum á höfuðborgarsvæðinu í fyrrasumar vöknuðum við Ragnheiður eldsnemma og ákváðum að nýta morguninn til að fara í hjólatúr,“ segir Ólafur. „Verandi gamall antisportisti lærði ég ekki að hjóla fyrr en ég var tuttugu og átta ára gamall en hef dálítið hjólað síðan. Eftir að ég kynntist Ragnheiði, sem er dálítið hjólaóð, keypti ég mér fjallahjól og fékk svo lánað racer-hjól hjá félaga mínum. Var búinn að prófa það á hjólastígum innanbæjar í einhverja daga og fannst það ógurlega gaman þannig að ég var mjög spenntur fyrir því að hjóla Nesjavallaveginn þennan dag. Þegar við vorum á leiðinni til baka var ég kominn á milli 30 og 40 kílómetra hraða, þegar ég lenti með framdekkið í sprungu á veginum. Síðan tók við lausamöl þegar ég var að reyna að ná jafnvæginu aftur og svo bara man ég ekki meira. Ég flaug af hjólinu og steinrotaðist þannig að þegar Ragnheiður kom að mér andaði ég eitthvað lítið og hægra viðbeinið stóð út í jakkann minn, ég var sem sagt með opið beinbrot í öxlinni. Ef ég hefði ekki verið með hjálm væri ég náttúrlega steindauður, en ég slapp með höfuðhögg og svolítið af beinbrotum.

„Ég flaug af hjólinu og steinrotaðist þannig að þegar Ragnheiður kom að mér, andaði ég eitthvað lítið og hægra viðbeinið stóð út í jakkann minn, ég var sem sagt með opið beinbrot í öxlinni. Ef ég hefði ekki verið með hjálm væri ég náttúrlega steindauður.“

Viðbeinsbrotið var erfiðast viðureignar en afleiðingarnar af höfuðhögginu voru þær að ég sá tvöfalt til að byrja með. Það gekk yfir á nokkrum vikum og mér var sagt að það væri ekkert óalgengt eftir heilahristing. Ég var frá vinnu í þrjár vikur en skrönglaðist svo af stað aftur og fór kannski of geyst, ég veit það ekki.

Viðbeinið var skrúfað saman með stálplötu en sú viðgerð hélt ekki, þannig að ég þurfti að fara í annan uppskurð í desember þar sem sett var í mig veigameiri stálplata. Hún var svo tekin úr mér aftur núna í maí með þriðju skurðaðgerðinni og síðan er ég búinn að vera að reyna að koma mér aftur í form. Ég hef líka verið duglegur að synda og á tímabili vakti ég mikla athygli og fólk gaf sig gjarnan á tal við mig í Laugardalslauginni af því að ég synti bara með annarri hendinni. Nú er ég farinn að geta gert flest sem ég gat fyrir ári. Áhuginn á hjólreiðum hefur þó heldur dalað, ég er búinn að fara í einn hjólatúr í sumar, nokkurn veginn réttu ári eftir að ég datt, og ég verð að viðurkenna að fyrstu kílómetrana var ég bara skíthræddur en það rjátlaðist sem betur fer af mér. En ég hugsa að ég fari voðalega varlega í hjólreiðunum hér eftir. Ég hjólaði í vinnuna einn daginn og tók tímann á mér og niðurstaðan var sú að ég hjóla hægar en ég hleyp, þannig að þú sérð að ég fer óskaplega varlega til að byrja með.“

Ólafur viðurkennir að síðasta eina og hálfa árið hafi verið ansi erfitt en segist hafa tekist á við það sem upp á hefur komið með því að ræða öll mál við sína nánustu. Þessi reynsla hafi þó að ýmsu leyti breytt lífssýn hans.

„Fyrst og fremst finnst manni líf og heilsa ekkert sjálfsagðir hlutir lengur,“ segir hann hugsi. „Ég var mjög heppinn að slasa mig ekki verr í þessari byltu og er líka heppinn að vera laus við alls kyns illvíga sjúkdóma sem fólk er að glíma við allt í kringum mann. Þannig að í rauninni hefur þetta fyllt mig af þakklæti fyrir heilsuna, lífið og það sem ég hef og ég tek hlutunum síður sem sjálfsögðum.“

„Það var iðulega gefið í skyn að konur væru lélegri starfskraftar í fyrirtækjum en karlar og það endaði með því að ég setti mér það markmið að gera það sem ég gæti til að stuðla að því að karlmenn yrðu jafnlélegir starfskraftar og konur,“ segir Ólafur, sem er þekktur fyrir að hafa lagt sitt á vogarskálarnar í jafnréttisbaráttunni, var til að mynda lengi í stjórn UN Women á Íslandi og var einn af þátttakendum í He for She-herferðinni. Mynd/Unnur Magna

Engin eftirsjá og svekkelsi í farteskinu
Ég heyri að Ólafi er ekkert sérlega vel við spurningar mínar um persónulegar upplifanir hans þannig að við breytum um kúrs og förum að ræða atvinnu hans. Haustið 2014 hætti hann sem ritstjóri Fréttablaðsins með hárbeittum leiðara þar sem hann ásakaði eigendur blaðsins um afskipti af ritstjórnarstefnu þess. Höfðu þau skrif einhver eftirmál?

„Nei, nei,“ segir hann og brosir. „Ég reyni að gera mitt til að passa upp á það að þegar ég hætti einhvers staðar með hvelli verði sem minnst eftirmál af því. Það þurfti að segja ákveðna hluti eins og þeir voru en ég reyni að passa mig á því að bera ekki kala til nokkurs manns og paufast alls ekki í gegnum lífið með einhverja eftirsjá eða svekkelsi í farteskinu. Það er ein uppskriftin að hamingju og heilsu að láta slíkt eiga sig og skilja það bara eftir við veginn.“

Þegar Ólafur kvaddi Fréttablaðið og skipti um starfsvettvang hafði hann starfað við blaðamennsku síðan á unglingsaldri og ég á erfitt með að kyngja því að hann sakni hennar ekkert.

„Það kemur fyrir að mig langar til að vera á staðnum þegar mér finnst fjölmiðlarnir gleyma sínu mikilvæga aðhaldshlutverki og láta hjá líða að spyrja gagnrýninna spurninga eða varpa ljósi á bakgrunn mála,“ segir hann dræmt. „En svo læknast ég alltaf um leið þegar það rifjast upp fyrir mér hvernig vinnutíminn og álagið var í blaðamennskunni.“

Ólafur hefur ekki alveg sagt skilið við skriftirnar þótt hann sé hættur í blaðamennskunni, hann hefur verið mjög duglegur við að skrifa greinar sem tengjast nýju hlutverki hans sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, enda segir hann upplýsingamiðlun og umræður alltaf hafa verið sitt líf og yndi.

„Það kemur sér mjög vel í þessu starfi sem ég sinni núna,“ segir hann. „Þar er verið að halda á lofti ákveðnum málstað sem ég hef fylgt frá því að ég var rúmlega fermdur, sem sé áherslu á einstaklings- og athafnafrelsi og frjálsa verslun. Ég bind þó ekki trúss mitt neitt sérstaklega við ákveðinn flokk, ég er bara alþjóðasinnaður, frjálslyndur hægrimaður.“

„Að mæta á æfingu og syngja í þrjá klukkutíma þurrkar allar áhyggjur út eins og hendi sé veifað og maður verður alveg slakur. Það veitir sjálfsagt ekkert af í mínu tilfelli þar sem ofvirknigenið er ansi sterkt í mér,“ segir Ólafur, sem mun ekki aðeins taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun heldur einnig syngja með Sönghópnum Spectrum í Listasafni Íslands. Mynd/Unnur Magna

Langar ekki í starf kjörins fulltrúa
Margir hafa haft það á tilfinningunni að Ólafur stefni að frama innan stjórnmálanna en hann gefur lítið fyrir þær hugmyndir.

„Það er alveg hægt að halda því fram að ég hafi verið í pólitík með einum eða öðrum hætti síðan á unglingsárum,“ segir hann. „Ég var í stjórnmálaþátttöku í gamla daga með ungum Sjálfstæðismönnum, Samtökum ungra íhaldsmanna á Norðurlöndum og fleirum. Snertifletir blaðamennsku og stjórnmála eru margir og sömuleiðis snertifletir pólitíkur og svona hagsmunagæslu eins og ég er í núna en mig langar ekkert óskaplega í starf hins kjörna fulltrúa, mér sýnist að það sé ekkert sérstaklega öfundsvert hlutskipti og það er vel hægt að hafa áhrif með öðrum hætti.“

Eitt af þeim málum sem Ólafur hefur beitt sér fyrir að knýja fram breytingar á eru jafnréttismál kynjanna, hann var lengi í stjórn UN Women á Íslandi og var einn af þátttakendum í He for She-herferðinni. Hvað vakti upphaflega áhuga hans á jafnréttismálum, voru það áhrif frá eldri systrum hans tveimur?

„Að hluta til voru það áhrif frá þeim,“ viðurkennir hann. „Og líka frá mömmu sem hélt reglulega yfir mér ræður um jafnréttismál þótt þau pabbi væru að mörgu leyti í hefðbundnum kynhlutverkum. En það sem ýtti mér helst inn í aktífisma í þeim málum var að ég horfði upp á til dæmis fyrrverandi konuna mína og vinkonur mínar frá fornu fari, sem höfðu trúað því, eins og ég sjálfur, að þær ættu alla sömu möguleika og við strákarnir, upplifa það þegar þær komu út á vinnumarkaðinn að fá nærgöngular spurningar í atvinnuviðtölum. Eins og um hvort þær ættu börn, hvort þær ætluðu að eignast börn og svo framvegis, spurningar sem við strákarnir klárlega fengum ekki. Það var iðulega gefið í skyn að konur væru lélegri starfskraftar í fyrirtækjum en karlar og það endaði með því að ég setti mér það markmið að gera það sem ég gæti til að stuðla að því að karlmenn yrðu jafnlélegir starfskraftar og konur. Þannig var uppleggið að hvetja karlmenn til að axla sínar skyldur gagnvart fjölskyldunni en frá mínum bæjardyrum séð voru þetta afskaplega ljúfar skyldur og ég held að ég og margir aðrir hafi fyrst og fremst litið á það sem tækifæri til að geta sinnt heimili og börnum að fá það í gegn að feður fengju fæðingarorlof og sveigjanleika í vinnutíma sem nú orðið þykir víðast sjálfsagt. Á þessum tíma var fæðingarorlof feðra mjög framandi hugmynd og ég kom mér í karlanefnd jafnréttisráðs, sem þá starfaði, og varð síðar formaður hennar um það leyti sem elsta dóttir mín fæddist. Karlanefndin lagði fram tillögur um að fæðingarorlofskerfi þar sem réttinum var skipt jafnt milli feðra og mæðra og greiðslurnar tekjutengdar og það var mjög ánægjulegt að sjá hvernig þær hugmyndir náðu flugi og urðu að lögum sem tóku gildi í ársbyrjun 2001. Það var mikil tímamótalöggjöf þótt það hafi komið ákveðið bakslag í það hvernig feður nýttu sér fæðingarorlofið vegna niðurskurðar á greiðslunum eftir hrun en það er sem betur fer smátt og smátt að lagast aftur.“

„Ég hjólaði í vinnuna einn daginn og tók tímann á mér og niðurstaðan var sú að ég hjóla hægar en ég hleyp, þannig að þú sérð að ég fer óskaplega varlega til að byrja með.“ Mynd/Unnur Magna

Einkalífið á ekkert erindi við alþjóð
Ólafur á sjálfur tvær dætur og einn son, framfylgir hann jafnréttishugsjón sinni í uppeldinu á þeim?

„Ég reyni að hafa muninn á því hvernig ég el þau upp sem allra minnstan,“ segir hann og hlær við. „Ég tók fæðingarorlof með þeim öllum heima. Þegar sú elsta fæddist áttu feður reyndar engan rétt á orlofi, ég hálfpartinn svindlaði það út úr Árvakri sem var minn vinnuveitandi á þeim tíma. Ritstjórarnir Styrmir og Matthías og Hallgrímur Geirsson framkvæmdastjóri voru sveigjanlegir í samningum eftir að þeir höfðu náð af sér undrunarsvipnum yfir því að karlmaður væri að biðja um fæðingarorlof. Það að vera heima með litlu barni þýðir að maður tengist því með öðrum hætti en þegar maður hefur ekki það tækifæri, þannig að mér finnst samband mitt við alla krakkana mína vera jafnnáið og reyni að veita þeim öllum sama uppeldi og sömu hvatningu og þann stuðning sem ég mögulega get. Hitt er svo annað mál að það verður ekkert umflúið að kynin eru ólík og strákurinn bara fleygði aftur í mann þessum dúkkum sem maður var að reyna að halda að honum og vildi fá sínar byssur. Ég veit ekki hvaðan það kom.“

Ólafur hefur það orð á sér að vera afskaplega prívat maður og ekki mikið fyrir að flíka sínu einkalífi, hefur það eitthvað breyst með breyttum áherslum í lífinu?

„Ja, krakkarnir mínir eru nú ekki endilega sammála því,“ segir hann glottandi. „Þeim finnst ég svo duglegur að birta myndir á Instagram þar sem hefur gleymst að spyrja hvort fólk væri búið að greiða sér og hafa sig til. En, jú jú, ég hef fengið tilboð um að ræða einkalífið í smáatriðum í einhverjum blaðaviðtölum en það á ekkert erindi við alþjóð.“

„Í rauninni hefur þetta fyllt mig af þakklæti fyrir heilsuna, lífið og það sem ég hef og ég tek hlutunum síður sem sjálfsögðum.“

Kórsöngur jákvæður fyrir líkama og sál
Eins og fram hefur komið segir Ólafur þá reynslu að ganga í gegnum erfið veikindi með systrum sínum og lenda sjálfur í alvarlegu slysi hafa kennt sér að leggja áherslu á aðra hluti en fyrr, er innifalið í þeirri áherslubreytingu að leggja meiri rækt við einkalífið?

„Það má alveg segja það,“ segir hann ákveðinn. „Það er orðið erfitt að ná mér á mannamót vegna þess hvað mér finnst gaman að vera heima hjá mér með fjölskyldunni. Eftir fjórtán ár á ritstjórastóli, þar sem maður er eiginlega alltaf í vinnunni, er líka stórkostlegt að komast að því að þegar maður á frí á kvöldin getur maður farið að rækta áhugamálin eins og ég er farinn að gera núna. Fyrir þremur árum fór ég að syngja með Sönghópnum Spectrum. Ég hefði aldrei komið fyrir þriggja klukkutíma kvöldæfingu í hverri viku og helgaræfingum, tónleikum og slíku með fram gamla starfinu mínu sem ritstjóri. Mér finnst þetta alveg óskaplega skemmtilegt og það hefur gefið mér mikið. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að syngja og krakkarnir mínir hafa haft orð á því að þau þyrftu að sæta því við messur á stórhátíðum að pabbi þeirra væri að reyna að yfirgnæfa kórinn. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um að ég gæti sungið í kór fyrr en tveir æskuvinir mínir, sem voru farnir að syngja með Spectrum, sögðust sjá á mér hvað mig langaði mikið til þess að vera með og hvöttu mig til að prófa. Þannig að ég lét tilleiðast að syngja fyrir kórstjórann og það satt að segja kom mér svolítið á óvart, að ég skyldi fá að vera með. Ég er afskaplega ánægður með það enda margsannað mál að kórsöngur hefur jákvæð áhrif á bæði líkama og sál. Að mæta á æfingu og syngja í þrjá klukkutíma þurrkar allar áhyggjur út eins og hendi sé veifað og maður verður alveg slakur. Það veitir sjálfsagt ekkert af í mínu tilfelli þar sem ofvirknigenið er ansi sterkt í mér en sem betur fer er mér að lærast að taka lífinu með ró.“

Og á þeim nótum sláum við botninn í samtalið enda þarf Ólafur að halda vel á spöðunum því það er ekki nóg með það að hann ætli að hlaupa hálfmaraþon á laugardaginn heldur mun hann einnig syngja með Spectrum í Listasafni Íslands sem hluta af dagskrá Menningarnætur.

„Komst hreinlega við yfir stemningunni“

Björk Eiðsdóttir

Þessir hressu borgarbúar eru með margvísleg plön um helgina í tilefni Menningarnætur Reykjavíkur.

 

Hleypur Reykjavíkurmaraþon í Berlín
Kolbrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri LÍFS styrktarfélags verður í Þýskalandi um helgina að fagna 40 árum mágs síns. „Svo ætla ég líka að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu þótt það verði aðeins öðruvísi þetta árið þar sem ég mun hlaupa ein í Berlín. Planið er samt að að skemmta mér vel þótt stemningin verði örugglega örlítið lágstemmdari í mínu hlaupi en hjá öllum meisturunum sem hlaupa saman í borginni. Það var bara ekki hægt annað en að hlaupa og safna áheitum fyrir LÍF, styrktarfélag kvennadeildarinnar, og þetta var lausnin. Okkur vantar nefnilega nýjar vöggur.“

Nýtur helgarinnar með dætrunum
Beggi Smári er í stuttu spilafríi þessa dagana milli tónleikaferðalaga og stúdíóvinnu en hann var að gefa út lagið, Brostu. „Ég ætla því að njóta þess að vera með dætrum mínum á Menningarnótt en ekki að spila út um allt eins og venjulega. Laugardagsmorgunninn byrjar á 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Neistanum, félagi hjartveikra barna. Í framhaldinu röltum við um bæinn og hittum ömmur og afa í kaffi. Á sunnudaginn höldum við svo upp á afmæli dóttur minnar með pomp og prakt. Gott að hlaða batteríin með stelpunum mínum áður en ég held til Þýskalands að spila í byrjun september.“

„Fer allt eftir stemningunni hjá leiðtoga lífs míns“
Björk Eiðsdóttir blaðakona segist enn eitt árið ekki taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. „Í stað þess að vera með svipuna á mér yfir því hef ég ákveðið að faðma þá staðreynd að ég hafi engan áhuga á hlaupum og hvetja frekar þá sem það hafa. Ég gerði þetta í fyrra og komst hreinlega við yfir stemningunni við lokamarkið. Mig langar að kíkja á nokkra viðburði í bænum og tékka almennt á stemningunni en það fer allt eftir stemningunni hjá leiðtoga lífs míns þessi misserin, þriggja mánaða syni mínum. Ef veður leyfir erum við hjónaleysin svo að spá í að grilla heima í Skerjafirðinum og fæða þá vini okkar sem þurfa skjól frá mannmergðinni eða smá yl í kroppinn. Þið vitið það þá, vinir, það verður eitthvað gott á grillinu ef hann hangir þurr í meira en korter.“

Karlrembulegt viðhorf kveikti neistann

|||
Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri. Mynd / Stephanie Staal|Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri. Mynd / Stephanie Staal.||Mynd Katrínar

Katrín Björgvinsdóttir er ungur leikstjóri á uppleið. Hún útskrifaðist úr danska kvikmyndaskólanum Den Danske Filmskole í vor og hefur fengið frábæra dóma í þarlendum fjölmiðlum fyrir lokaverkefni sitt Dronning Ingrid eða Ingrid drottning. Katrín segir viðbrögðin hafa komið skemmtilega á óvart því hún hafi, satt best að segja, ekki átt von á að saga ungrar konu í tilvistarkreppu myndi höfða til jafnbreiðs hóps áhorfenda og raun ber vitni.

„Það er frábært að fá þessi jákvæðu viðbrögð. Ég var sjálf mjög ánægð með útkomuna en reiknaði ekkert endilega með því að þetta kæmi til með að falla í kramið hjá öllum. Þetta er nefnilega einföld saga um hversdagslegar og frekar prívat tilfinningar og ég var búin að ímynda mér að viðfangsefnið myndi tala mjög skýrt til einhverra áhorfenda en að aðrir kynnu að afskrifa það sem eitthvað sem skipti engu máli.“

Lokaverkefnið, Dronning Ingrid, fjallar að sögn Katrínar um Ingrid, „stelpukonu á fertugsaldri“ eins og hún orðar það, sem er ekki alveg á þeim stað í lífinu sem hún hefði viljað vera. „Hún hefur verið einhleyp síðan hún var 17 ára, vinnur í undirfataverslun og þegar hér er komið við sögu eru foreldrar hennar að skilja. Hún byrjar að átta sig á að hún er kannski ekkert sérstök eða öðruvísi en allir hinir og langar í rauninni bara til þess að eignast kærasta og byrja fullorðinslífið. Það reynist svo hægara sagt en gert fyrir stolta og sjálfstæða „stelpu-konu“ sem neitar að gera málamiðlanir eða virka örvæntingafull og auk þess undir sífellt meiri pressu frá líffræðilega tikkinu í leginu, að finna ástina.“

Mynd Katrínar, Dronning Ingrid, hefur fengið frábæra dóma í dönskum fjölmiðlum, en hún verður sýnd í Bíó Paradís í dag klukkan 16. Myndin er með enskum texta.

„Svo biluð afstaða“
Spurð hvernig hugmyndin að sögunni hafi kviknað segist Katrín einfaldlega hafa viljað gera sögu sem fjallaði á heiðarlegan og afhjúpandi hátt um ástina, öll vonbrigðin og óöruggið, allan anti-klímaxinn eiginlega. Sérstaklega fyrir konur sem eru komnar yfir þrítugt og eiga erfitt með að átta sig á því hvað þær vilja og upplifa að tíminn sé að hlaupa frá þeim. „Mig langaði að fara svolítið í burtu frá þessari ævintýralegu, örlagaríku og eiginlega ómögulegu mýtu sem helst svo oft í hendur við okkar hugmyndir um ástina og taka svolítið „real-talk“; upplifum við þetta raunverulega svona og ef við eigum það mörg sameiginlegt að vera svolítið vonsvikin yfir að hafa ekki fengið að upplifa þessa jarðskjálfta-ást, eigum við þá ekki að breyta því svolítið hvernig við tölum um það og byggjum upp væntingar okkar?“

„Kennarinn hélt því fram að hann og strákarnir í bekknum ættu erfitt með að tengja við tilfinningar hennar því þeir vissu ekki hvernig væri að vera með leg.“

Hún bætir við að ákveðið atvik í skólanum hafi átt þátt í því að þetta umfjöllunarefni varð fyrir valinu. „Já, það var svolítið sem einn kennarinn sagði um mynd sem bekkjarsystir mín gerði á fyrsta ári. Myndin snerist um mjög kvenlega sögu, hún fjallaði sem sagt um stelpu sem þurfti að taka ákvörðun um eitthvað sem tengdist leginu í henni og kennarinn hélt því fram að hann og strákarnir í bekknum ættu erfitt með að tengja við tilfinningar hennar, því þeir vissu ekki hvernig væri að vera með leg. Þetta er svo biluð afstaða,“ segir hún, „og svo lýsandi fyrir það hvernig við upplifum karlkaraktera „versus“ kvenkaraktera. Konur þurftu fyrir löngu að læra að tengja við sögur um karla eftir karla, á meðan sögur um konur eftir konur eru oft stimplaðar sem „konumyndir“ eða „konu-sögur” sem eru þá bara fyrir konur og þykja ekkert sérstaklega merkilegur pappír. Þetta kveikti einhvern eld í mér og í algjörum mótþróa fékk ég einhverja löngun í að virkilega kafa ofan í allt þetta kvenlega. Að gefa skít í að allir þyrftu að skilja, að einhvern veginn senda þau skilaboð að strákunum er alveg boðið en bara ef þeir nenna að opna aðeins hugann og sjá konur sem söguhetjur sem eru „revelant“ og spennandi.“

Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri. „Þegar maður er að vinna á svona litlum drama-skala þarf hvert einasta móment að vera alveg gríðarlega nákvæmt og satt.“ Mynd / Stephanie Staal

Hún segir að það hafi því óneitanlega verið góð tilfinning þegar lokaútgáfa myndarinnar var tilbúin að upplifa það að sagan í henni skyldi höfða til alls konar fólks, allt frá stelpum sem eru í sömu sporum og aðalpersónan Ingrid til miðaldra giftra karla. „Nokkrir af þeim komu til mín til að segja mér að sagan hefði hreyft við þeim og þeir hefðu tengt við aðalpersónuna á einhverju tilfinningalegu „leveli“,“ segir hún ánægð og bætir við að það sé góð þróun að það sé alltaf að verða auðvelda og auðveldara fyrir áhorfendur, sama af hvaða kyni þeir eru, að tengja við kvenkaraktera með kvenlegar tilfinningar.

Skiptist á myrkum leyndarmálum við handritshöfundinn
Dronning Ingrid er lokaverkefni Katrínar í skólanum, hugsað sem prufuþáttur (pilot) fyrir þáttaseríu og hún viðurkennir í fullri einlægni að það hafi bæði verið strembið og skemmtilegt að gera það. „Ég var heppin að kynnast mjög færum handritshöfundi í skólanum og vinna með henni að bæði stóru verkefni á öðru og þriðja ári og svo að þessari mynd. Við náðum að nýta tímann í skólanum vel, urðum góðar vinkonur og byrjuðum í framhaldinu að segja hvor annari alls konar myrk og „skammarleg“ leyndarmál og þróuðum aðferð til að skrifa persónulegar sögur sem byggja á tilfinningum og upplifunum sem við þekkjum sjálfar vel. Þetta hjálpaði okkur með að dansa á einhverri línu á milli raunsæis og skáldaðrar dramatíkur, halda efninu trúverðugu en um leið spennandi. En svona ferli er auðvitað alltaf erfitt,“ bætir hún við. „Við breyttum til dæmis allri sögunni í Dronning Ingrid mjög seint og þurftum að vinna nýja söguþráðinn hratt og örugglega til þess að ná að hafa skothelt handrit fyrir tökur. Þegar maður er að vinna á svona litlum drama-skala þarf hvert einasta móment að vera alveg gríðarlega nákvæmt og satt og það getur tekið svolítinn tíma að grafa nógu djúpt, alveg niður að kjarnanum.“

Vinnur að þáttum upp úr sögunni
Eins og fyrr segir er Dronning Ingrid prufuþáttur og Katrín er þegar byrjuð að vinna að þáttum sem munu byggja á sömu hugmynd. „Núna er ég sem sagt að þróa hugmyndina áfram og búa til „konsept“ sem er hægt að kynna fyrir áhugasömum fjárfestum,“ upplýsir hún spennt. „Ég er að vinna þetta með sama handritshöfundi og svo framleiðanda úr skólanum. Það kemur síðan bara í ljós hvað kemur út úr því. Svona hlutir geta náttúrlega tekið langan tíma. Maður þarf að búa sig undir að allt og ekkert geti gerst og í raun bara vona það besta.“

Hún kveðst vera spennt fyrir því að reyna að koma sér áfram í danska kvikmyndabransanum enda sé mikil gróska í gangi, mikil framleiðsla og metnaður til dæmis í gerð sjónvarpsefnis og margir möguleikar „Ég er samt líka spennt fyrir því að vinna á Íslandi,“ tekur hún fram. „Fá tækifæri til að gera efni á mínu eigin tungumáli og með öllu því hæfileikaríka tökuliði sem er starfandi á Íslandi. Ég hef nefnilega fundið það síðustu fjögur ár að það eru alls konar séríslenskar sögur sem blunda í mér og ég verð að fara að koma frá mér.“

„Eins og maður sé nánast einskis virði“

|||
Theodóra Heba Guðmundsdóttir. „Ég er mölbrotin eftir þetta

Kona sem varð fyrir því á Menningarnótt í fyrra að leigubíll ók yfir fót hennar með þeim afleiðingum að hún slasaðist illa, segir bílstjórann hafi stungið af frá slysstað. Málið hefur legið hjá lögreglu síðan og segist konan vera reið og sár yfir því að rannsóknin skuli hafa dregist á langinn.

Á Menningarnótt fyrir ári síðan lenti Theodóra Heba Guðmundsdóttir í alvarlegu slysi þegar leigubíll sem hún og kærasti hennar höfðu farið með heimleiðis úr bænum, ók yfir fótinn á henni. Atvikinu lýsti Theodóra í smáatriðum í færslu á Facebook á sínum tíma og sagði þar meðal annars frá því að þegar á áfangastað kom hafi ökumanni leigubílsins legið svo á að komast á næsta stað að hann hafi ekið af stað áður en hún var komin almennilega út úr bílnum með fyrrgreindum afleiðingum. „Ég dróst einhverja metra með bílnum og hurðin ennþá opin. Loksins stoppaði hann! En ekki til að tékka á mér, heldur til að loka hurðinni og stinga af,“ sagði Theodóra, sem hlaut alvarlega áverka, meðal annars opið sköflungsbrot, og lá á spítala í tæpa viku.

Í samtali við Mannlíf segir Theodóra að hún hafi samstundis leitað sér aðhlynningar á bráðamóttökunni á Landspítalanum í Fossvogi. Þangað hafi lögreglumaður mætt til að taka skýrslu af henni og kærasta hennar og frásagnir þeirra hafi verið studdar af vitnisburði nokkurra sjónarvotta að atvikinu. „Í kjölfarið höfðu pabbi og kærasti minn samband við Hreyfil á meðan ég lá á spítalanum til að ræða atvikið við forsvarsmenn fyrirtækisins og þeir voru bara með stæla. Pabbi sendi þáverandi framkvæmdastjóra tölvupóst og hann vildi ekkert gefa út á þetta. Sagði að lögreglan væri að skoða málið, þetta væri því lögreglumál og þangað til niðurstaða lægi fyrir gæti hann ekkert gert í málinu. Hann lét næstum eins og þetta kæmi sér ekki við.“

Nú er heilt ár liðið frá atvikinu og segist Theodóra enn vera að jafna sig eftir slysið. „Ég fer í röntgenmyndatöku á þriggja mánaða fresti þar sem sárið grær ekki nógu vel. Ég er mölbrotin eftir þetta, plötur og skrúfur halda öllu saman, ég er með tvö risastór ör á sköflungnum og fæ reglulega verki. Ég kemst ekki langt án hækju. Er alveg óvinnufær. Get ekki einu sinni gert einföldustu heimilisverk hjálparlaust. Læknirinn sem annast mig segir að þetta hafi verið mjög slæmt brot. Hann sér fram á mikla endurhæfingu og er ekki bjartsýnn á að ég nái mér nokkurn tíma.“

Andlegu hliðina segir hún sömuleiðis vera í molum. „Ég fékk áfallahjálp strax þegar þetta gerðist og hef síðan verið hjá sálfræðingi sem hefur hjálpað mér að takast á við áfallastreituröskun sem hefur fylgt þessu. Ég endurupplifi nefnilega enn atvikið í huganum og fæ matraðir, heilu ári seinna.“

Ekkert heyrst í lögreglu eða Hreyfli
Verst þykir Theódóru þó að hafa ekki fengið svör frá lögreglunni um hvar málið sé statt, þrátt fyrir að hafa reynt að setja sig í samband við lögreglumanninn sem tók skýrsluna. Hún hafi heldur ekki enn fengið afsökunarbeiðni frá Hreyfli, ekki svo mikið sem heyrt í forsvarsmönnum fyrirtækisins.

„Nei, ég hef ekkert heyrt,“ segir hún ósátt. „Hvorki í framkvæmdastjóra Hreyfils, eiganda bílsins né ökumanninum. Mér skilst reyndar að bílstjórinn hafi sagt eiganda bílsins að hann hefði ekki séð mig þegar þetta gerðist og því sé rangt að hann hafi stungið af. Þetta er því orð gegn orði. Ég veit ekki til þess að ákæra hafi verið gefin út á hendur bílstjóranum, ég held að honum hafi ekki einu sinni verið veitt tiltal út af þessu. Og eftir því sem ég kemst næst starfar hann enn hjá Hreyfli,“ segir hún og kveðst vera reið og sár yfir skeytingarleysi fyrirtækisins.

„Ég er satt að segja hissa á þessari framkomu þar sem ég bjóst við að stórt fyrirtæki eins og Hreyfill tæki einhverja ábyrgð. En nei, ekkert gerist. Mér líður eins og þetta skipti engu máli, að maður sé nánast einskis virði,“ segir hún og kveðst vera að skoða næstu skref. „Ég er staðráðin í að leita réttar míns, það er í vinnslu.“

Þess má geta að Mannlíf hafði samband við Hreyfil vegna málsins. Vignir Þröstur Hjálmarsson deildarstjóri varð fyrir svörum en hann hafði ekki heyrt um málið og óskaði eftir því að haft yrði samband við núverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Harald Gunnarsson. Haraldur var hins vegar vant við látinn. Hjá lögreglu fengust þá svör að rannsókn málsins hefði tekið skamman tíma og að því loknu verið sent til ákærusviðs, þar sem málið virðist liggja enn.

WOW air – gríman fallin

Skiptastjórar þrotabús WOW air telja að flugfélagið hafi í síðasta lagi verið ógjaldfært um mitt síðasta ár.

Þrátt fyrir það réðist WOW air í skuldabréfaútgáfu sem byggði á upplýsingum um annað. Nú er unnið að því að rannsaka, greina og eftir atvikum rifta því sem átti sér stað innan WOW air á lokametrum tilveru flugfélagsins fjólubláa.

Á meðal þess sem verið er að athuga eru greiðslur til félags Skúla Mogensen og kostnaður vegna leigu á íbúð sem hann hafði til umráða í London.

Skúli segir sjálfur að heildartap sitt og félaga í hans eigu vegna falls WOW air sé hátt í átta milljarðar króna. Það sé eðlilegt að rýna í og læra af vexti og falli WOW air. „Það er hins vegar mjög auðvelt að vera vitur eftir á og sorglegt að sjá hvernig sumir keppast við gera viðskipti WOW air tortryggileg. Það er fráleitt að halda því fram að ég og mitt fólk höfum ekki unnið að heilindum í einu og öllu við uppbyggingu og síðan við það að reyna að bjarga félaginu frá falli.“

Það er skoðun sem skiptastjórnar WOW air og hluti kröfuhafa félagsins deila ekki með stofnanda flugfélagsins.

Ítaleg fréttaskýringu um skýrslu skiptastjóra WOW air er hægt að lesa í Mannlífi í dag og á Kjarnanum.

Skál!

Samtökin ’78 vilja lögreglustjóra á fund vegna handtöku á Hinsegin dögum

Mynd: Hinsegindagar.is

„Samtökin ’78, Hinsegin dagar og Trans Ísland hafa óskað eftir fundi með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna handtöku í aðdraganda gleðigöngunnar s.l. laugardag.“ Þetta segir í færslu á Facebook Samtakanna.

„Félög hinsegin fólks líða hvorki ofbeldi né annað misrétti og leggja því áherslu á að mál þetta verðið skoðað ofan í kjölinn,“ segir í færslunni. „Það er allra hagur að hinsegin fólki finnist það geta leit að til lögregluyfirvalda og upplifi að tekið sé á þeirra málum af virðingu og nærgætni, en það hefur því miður ekki alltaf verið raunin. Þess vegna vilja félögin einnig ræða möguleg skref í von um að lögreglan verði hinseginvænni.”

Elínborgar Hörpu Önundardóttur, meðlimur samtakanna No Borders Iceland, var handtekinn á Gleðigöngunni í Reykjavík síðast liðinn laugardag. Ástæðan sem lögreglan gaf upp fyrir handtökunni er að Elínborg hafi óhlýðnast fyrirmælum. Þá hafi lögreglan grunað hana um að skipuleggja mótmæli í göngunni. Elínborg sagði í samtali við Vísi engin mótmæli hafi verið fyrirhuguð, hvorki af hennar hálfu né No Borders-samtökunum. Þá hafi ekkert legið að baki því að hún hafi verið handtekin, annað en það að lögreglan kannaðist við hana.

Oddviti Pírata fundaði með lögreglustjóra í dag

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, kallaði Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra Reykjavíkur, á fund ráðsins í dag. Fundurinn var haldinn í kjölfar kvartana yfir framgöngu lögreglu á Secret Solstice og Hinsegin dögum samkvæmt fréttatilkynningu frá Pírötum.

„Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar fer með eftirlit með því að mannréttindi og borgaraleg og lýðræðisleg réttindi borgarbúa séu virt þvert á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og á viðburðum með aðkomu Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningunni. „Því var ákveðið að fylgja þessum málum eftir með því að fá kynningu lögreglu og koma ábendingum á framfæri.“

Dóra Björt segir að „Virðing fyrir borgararéttindum er hornsteinn lýðræðisins. Lögreglan hefur einkarétt á beitingu valds gagnvart þegnum okkar lýðræðissamfélags og gríðarlega mikilvægt er að vel sé farið með það vald til að halda trausti borgarbúa á löggæslukerfinu og réttarríkinu sem slíku.“

Heldur skrá yfir allt sem er í frysti

Umhverfisvænn lífsstíll er tónlistarkonunni Hafdísi Bjarnadóttur hugleikinn.

 

„Það eru nokkur atriði sem ég geri mjög meðvitað og markvisst til að draga út matarsóun. Það fyrsta er að ég áætla alltaf aðeins of lítið í kvöldmat því ég vil frekar elda aðeins of lítið en bæta það þá frekar upp með eftirmat eða brauði eða einhverju slíku og þannig tryggja að það verði engir afgangar. En stundum geri ég akkúrat öfugt við þetta, elda risastóran skammt (sérstaklega ef ég á eitthvert hráefni sem ég þarf að fara að nota áður en það verður of seint) og ég frysti svo í passlegum skömmtum fyrir fjölskylduna.

Til að ég muni eftir að nota allt úr frystinum þá er ég með allt sem í honum er skráð í lista í tölvunni og svo stroka ég viðkomandi hlut út þegar ég tek hann úr frysti. Með þessu móti er ekkert sem dagar uppi í frystinum. Til að skapa pláss fyrir fleira síðar þá passa ég að taka í hverri viku eitthvað úr frystinum og hita það, ég hef meira að segja stundum verið með kerfi þar sem ég skrái í tölvuna hvað á að vera í matinn úr frysti langt fram í tímann.“

„il að ég muni eftir að nota allt úr frystinum þá er ég með allt sem í honum er skráð í lista í tölvunni…“

Hafdís mælir með að fólk noti frystinn á skapandi hátt. „Til dæmis ríf ég hvítlauk, set í krukku. Svo er um að gera að google-a bara hvort það sé sniðugt að frysta hitt og þetta, Netið lumar á ýmsum ráðum. Sömuleiðis er ég dugleg að google-a það hráefni sem ég á mikið af og finn þá sniðugar uppskriftir úr viðkomandi hráefni sem ég get stuðst við,“ útskýrir Hafdís.

Reglulega er hún svo með „afgangahlaðborð,“ í kvöldmat. „Þá notar maður sköpunargleðina til að búa til allskonar sniðugt úr hinu og þessu í ísskápnum. Kveikja á kerti og nota fína stellið og þá lítur þetta út eins og fínasta hlaðborð.“

Annað sem Hafdís kveðst gera er að taka box undir afganga með sér þegar hún borðar úti. Þá skoðar hún vel það sem er til í eldhúsinu áður en hún fer að versla og skipuleggur innkaupin eftir því.

Þess má geta að Hafdís stofnaði Facebook-hópinn Síðasti séns! „Sá hópur hefur reynst mjög vel. Meðlimir hópsins og verslunarstarfsmenn birta þar myndir af vörum sem eru á niðursettu verði vegna stutts líftíma til að við sem reynum að versla slíkar vörur vitum hvar þær er að finna. Stundum er verið að gefa vörur, einmitt þess vegna á ég nokkra skammta af blómkáls- og brokkólísúpu inni í frysti þar sem Krónan var að gefa útlitsgallað brokkólí fyrir stuttu síðan. Gott fyrir jörðina og frábært fyrir peningaveskið.“

Sjá einnig: Getum ekki borðað uppáhaldsmatinn okkar á hverjum degi

„Ég er ekki til­bú­in að gef­ast upp.“

„Á meðan við erum enn dæmd sek fyr­ir mein­særi stend­ur málið þannig að ríkið ber ekki ábyrgð á því gagn­vart okk­ur hvernig þessi rann­sókn var fram­kvæmd,“ segir Erla Bolladóttir við Morgunblaðið. Hún hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu sökum höfnunar endurupptökunefndar á beiðni um upptöku á dóm hennar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

 

Sjá einnig: Þögn Katrínar meiðir meira

Erla var dæmd fyrr meinsæri ásamt tveimur öðrum. Hinir sakborningarnir hafa fengið mál sín tekin upp og voru allir sýknaði af sakfellingu fyrir manndráp „Þangað til þetta hef­ur verið leiðrétt er þetta mál ekki búið, hvorki fyr­ir okk­ur, fjöl­skyld­urn­ar okk­ar né ís­lensku þjóðina. Ég er ekki til­bú­in að gef­ast upp,“ segir Erla við Morgunblaðið. Hún er eini aðili málsins sem gert er að una við dóm sinn óbreyttan.

Sjá einnig: Erla Bolladóttir ósátt: „Af hverju forðast menn að ræða sjálfa rannsóknina“

Erla fundaði með Katrínu Jakobsdóttur í lok síðasta árs og hefur síðan beðið frekari viðbragða yfirvalda.  Í samtali við Mannlíf síðastliðinn maí lýsti Erla yfir vonbrigðum með aðkomu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni VG, að málinu. „Ég er sár út í Katrínu. Ég fylltist von um að nú kæmi einhver niðurstaða sem mundi feykja skýjunum frá sólinni,“ sagði Erla.

Sjá einnig: Er ekki kominn tími til að draga rétt fólk fyrir dómsstóla?

Þá ræddi hún fund sinn og forsætisráðherra við Mannlíf. „Ég hitti Katrínu og reifaði þau mál sem þurfti og það var fínt að tala við hana. Hún sagði reyndar í upphafi fundar að hún vildi að við hittumst aftur í lok janúar því þá ætlaði hún að geta útskýrt fyrir mér stöðuna. Seinna á þessum fundi ítrekaði hún að við hittumst aftur í lok janúar. Þann sjöunda febrúar sendi ég henni tölvupóst og sagðist vera orðin langeyg eftir fundinum til þess að geta ákveðið næstu skref. Ekkert svar. Í fyrri hluta mars sendi ég aftur póst og sagði að enn hefði ég ekkert heyrt. Var vissulega orðin sár og að reyna að skilja hverju sætti að mér væri ekki svarað. Enn hef ég ekkert heyrt.

Ef þú biður einhvern fyrirgefningar en heldur svo áfram að sparka í viðkomandi, er það þá marktæk fyrirgefningarbeiðni? Þetta tvöfalda siðferði að biðjast fyrirgefningar en halda svo öllum á stað sem heldur áfram að meiða og særa viðkomandi. Að halda þessu svona vofandi yfir þeim sem hafa mátt þola allt sem á undan er gengið er framkoma sama eðlis og við höfum alla tíð mátt þola af hálfu þessa kerfis.“

Hún sagði málinu ekki ljúka fyrr en hún, Sævar og Kristján hafi öll verið sýknuð af röngum sakargiftum. „Enginn vilji virðist hins vegar hafa verið í réttarkerfinu á neinu stigi málsins til að takast á við þá ábyrgð sem á því hvílir í þessu hörmulega máli.“

Fyrsta fjölskyldumynd Kardashian-West síðan Psalm fæddist

||
||

„Ég hélt að myndataka með þremur börnum væri erfið en guð minn góður þetta var nánast ómögulegt,” skrifar Kim Kardashian West við fjölskyldumynd sem hún birti á Instagram í gær.

Myndin sýnir hana ásamt börnunum sínum í fjölskyldufríi á Bahamas. Þetta er fyrsta fjölskyldumyndin sem Kim deilir síðan yngsti sonur hennar og Kanye West bættist í hópinn. Strákurinn, sem var skírður Psalm West í sumar, fæddist í maí síðast liðinn og er fjórða barn þeirra hjóna.

Fyrir eiga þau börnin North, Saint og Chicago West. Kim gekk sjálf með North og Saint en báðar meðgöngur reyndust erfiðar. Staðgöngumóður gekk með Chicago og Psalm. Hér að neðan má sjá Instagram-færslu Kim.

Brexit átti að færa Bretum völd yfir eigin málum en Finnar taka nú ESB ákvarðanir fyrir þá

|
Mynd: Sendiráð Bretlands í Tokyo Japan

Finnland kemur til með að ráðstafa atkvæðum Bretlands innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að ósk Boris Johnson, forsætisáðherra Brelands. Ástæðan er ákvörðun Boris um að hætta þátttöku á fundum sambandsins.

Í aðdraganda kosninga um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu héldu stuðningsmenn úrsagnar því fram að Brexit snérist um aukið sjálfstæði og heimastjórn Bretlands. Nýjasta vending þess er þó að evrópskt ríki fari með bresk atkvæði. Sú tilhögun er þó tímabundin.

Samkvæmt breska blaðinu Independent er þetta hluti af áætlunum Boris um útgöngur úr Evrópusambandinu í lok október. Hann vilji sýna stuðningsmönnum Brexit að honum sé alvara. Fram að útgöngu er Bretland þó fullgildur meðlimur með atkvæðisrétt.

Atkvæðisrétturinn fer til Finnlands sem gegnir formannsembætti sambandsins út desember 2019. Samkvæmt tilkynningu er þetta gert til að „leyfa starfsemi Evrópusambandsins að halda áfram án raskana.” Ákvörðunin getur þó haft verri afleiðingar fyrir Bretland. Ríkisstjórn Bretlands mun ekki geta haft neitt að segja um nýjar reglugerðir. Þá gætu þær haft áhrif á Bretland um óákveðinn tíma.

Tytti Tuppurainen, Evópuráðherra Finnlands, tekur nú ákvarðanir fyrir Bretlands hönd um hvernig bresk atkvæði falla í starfi framkvæmdanefndar ESB.
Mynd: CC BY 2.0 BMEIA/ Eugénie Berger

Tytti Tuppurainen, Evrópuráðherra Finnlands, segir við Helsinki Times að forsætisráðherra Bretlands hafi óskað eftir því að Finnar fari með atkvæði Bretlands á fundum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Guardian birti á miðvikudag „óopinbert bréf“ þar sem bresk yfirvöld lýsa yfir fyrirætlan sinni að taka ekki fullan þátt í pólitískri starfsemi Evrópusambandsins. Þar er Finnland beðið um að fara með atkvæði Bretlands og nýta með þeim hætti að Sambandið geti hugað að framtíðinni og komið sé í veg fyrir að fjarvera Bretlands trufli slíka fyrirætlanir.

Stjórnarandstöðuþingmenn í Bretlandi hafa gagnrýnt ákvörðun ríkisstjórnar Boris Johnson um að mæta ekki til funda nema að slíkt sé sérstaklega aðkallandi enda sé það Bretlandi í hag að fylgjast með störfum sambandsins með þátttöku fram á síðasta dag.

60´s klassík í hráan pönkrokkbúning

Rokkdúettinn Velvet Villain var að senda frá sér nýtt lag, Bus Stop.

Lagið er pönkrokkuð ábreiða af laginu The Hollies. „Okkur langaði að taka 60’s-klassík og skella í hráan pönkrokkbúning, segja meðlimir dúettsins þau Gauti og Salka. „Við ákváðum að leika okkur svolítið á meðan við værum að klára næsta lag, Wicked Love, og myndbandið við það sem við erum að vinna með Árna Gylfasyni.“ En næsta lag dúettsins er væntanlegt strax í næstu viku.

„Hin sanna Thelma komin í ljós“

Thelma Ásdísardóttir varð landsþekkt þegar Gerður Kristný skráði sögu hennar. Síðan hefur hún unnið ötullega að því að hjálpa brotaþolum ofbeldis. Hún hefur þó ekki eingöngu tekist á við andlegar afleiðingar ofbeldisins en síðastliðið eitt og hálft ár hefur hún einbeitt sér að því að koma líkamanum í form og árangurinn er ótrúlegur, 74 kíló horfin og líðan hennar er betri en nokkru sinni fyrr.

„Ég er búin að vera að gera alveg helling fyrir sjálfa mig,“ segir Thelma og ljómar öll. „Ég var lengi í mikilli ofþyngd, var bara vel feit og hef aldrei verið feimin við að viðurkenna það, lít ekki á það sem neina skömm. Fyrir mér var þetta bara staðreynd; ég var feit og þurfti að taka á því.“

Thelma á forsíðu 33. tölublaðs Vikunnar.

Hvað hún hafi gert til að koma líkamanum í betra horf segir Thelma að hún hafi tekið á nánast öllum þáttum sem hafi verið í ólestri.

„Ég hafði vitað það í nokkurn tíma að þetta væri verkefni sem kæmi að því að ég myndi fara í,“ segir hún. „Ég fann að líkama mínum leið ekki eins og honum átti að líða, hann var ekki í sínu rétta elementi. Þannig að ég undirbjó mig vel, gerði áætlun og ákvað að taka þetta í skrefum en ekki kasta mér í einhver glórulaus læti. Ég hafði prófað það áður og veit að svona kúrar og einfaldar töfralausnir virka náttúrlega bara alls ekki til lengdar þannig að ég skoðaði hvað virkar fyrir mig.“

Tók sykurinn út

Mynd / Hákon Davíð

Beðin að útlista það hvað nákvæmlega hún hafi verið að gera er Thelma snögg til svars, enda segir hún að sér finnist óskaplega gaman að tala um þá leið sem hún hefur farið.

„Fyrsta skrefið var að auka vatnsdrykkju,“ útskýrir hún. „Ég hef reyndar alltaf verið dugleg við að drekka vatn en ég ákvað að halda betur utan um það. Svo fór ég að ganga og ég gleymi aldrei fyrsta göngutúrnum sem var um það bil fjögur hundruð metrar, því eftir hann leið mér eins og ég hefði klifið fjall. Núna geng ég hiklaust tíu kílómetra á dag án þess að finna fyrir því, þannig að ýmislegt hefur breyst.“

Fyrsta skrefið í nýjum lífsháttum tók Thelma í febrúar 2018, fyrir einu og hálfu ári, en það er ár síðan hún tók sykurinn út og hún segir að það hafi eiginlega verið fyrst þá sem hún fór að sjá verulegan mun á sér. „Þegar þetta var allt komið saman, fastan, sykurleysið og hreini maturinn, fóru stórir hlutir að gerast,“ segir hún. „Síðan ég tók sykurinn út hafa 63 kíló farið en í heildina eru farin 74 kíló, þannig að það er farinn heill karlmaður af konunni.“

Þetta og margt fleira segir Thelma í áhugaverðu forsíðuviðtali í nýjustu Vikunni.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Hildur Emilsdóttir

 

Nói-Síríus ekki lengur alíslenskt

|
|

Orkla ASA hefur keypt 20% hlut í Nóa-Síríus ehf. Í tilkynningu Orkla segir að Nói-Síríus sé leiðandi í salgætisframleiðslu á Íslandi og eigi fjölda vel þekktra vörumerkja. Nóa Konfekt, Nóa Kropp, Nóa Páskaegg og Konsum eru nefnd sem dæmi. Þá kemur fram að 70% tekna Nóa-Síríus komi frá sölu á innanlandsmarkaði.

Orkla er stórt matvælafyrirtæki og skráð á hlutabréfamarkað í Noregi. Fyrirtækið er með starfsemi á Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum og Mið-Evrópu sem og Indlandi. Stafsemi Orkla teigir sig frá smásölu til matvælaframleiðslu, lyfjasölu og bakarí og brauðgerða. Velta þess í fyrra var í kringum 600 milljarðar íslenskra króna og eru starfsmenn þess rúmlega 18 þúsund. Nói Síríus er töluvert minna fyrirtæki. Með um 150 starfsmenn og veltu upp á 3,5 milljarða.

Samkvæmt samkomulagi um kaupin verður kaupverð ekki gefið upp. Þá hefur Orkla heimild til að kaupa upp allt hlutafé eftir 2020.

Stútur undir reiðhjólastýri

Ölvaður og alblóðugur innbrotsþjófur var handtekinn í Mosfellsbæ af lögreglu á miðnætti í gær. Maðurinn er grunaður um innbrot og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu meðal annars með því að neita að gefa upp nafn sitt. Þá segir í tilkynningu lögreglu að maðurinn hafi haft í hótunum við lögregluþjóna. Klukkustund fyrir innbrotið hafði yfirvaldið afskipti af manninum er hann hjólaði á ljósastaur.

Maðurinn var blóðugur í andliti þegar lögregla handtók hann sökum þess að hann hafði slasast töluvert í samskiptum sínum við ljósastaur í borginni.

Slysið átti sér stað í Breiðholti. Maðurinn var talsvert ölvaður við hjólreiðarnar. Hann hlaut áverka á andliti en vildi enga aðstoð frá sjúkrabifreið sem kom á vettvang.  Maðurinn var beðinn að leiða hjól sitt eða skilja það eftir vegna ástands hans.

Framtíðarsýn

 

Maður án framtíðarsýnar mun alltaf fara baka til fortíðar segir frægt máltæki. Upphafsspurning hvers ferðalags er gjarnan hvert er förinni heitið. Það er hægt að láta sig fljóta niður ána án áfangastaðar, en í því er jafnframt fólginn ákveðinn galdur. Líklega liggur sannleikurinn í jafnvæginu. Hafa augun á áfangastað og hafa til þess árar, en á sama tíma hafa þann hæfileika að fljóta með straumnum án mikillar mótstöðu þegar hann tekur yfir.

Í íslenskum stjórnmálum skortir framtíðarsýn. Að minnsta kosti er hún ekki sýnileg í fréttum og í umræðum manna á milli. Í aðdragana kosninga blasir við að fólk er iðulega að greina á um útgjaldaliði t.d. hver eigi að vera ríkisframlög til opinbers reksturs eins og heilbrigðismála, hver eigi að vera skattprósenta innan kerfis sem við þegar höfum og um hver gerði hvar og hvernig í fortíðinni. Kosningaloforð sem byggja á fjármunum í víðara samhengi eru jafnframt býsna algeng. Ef einhverja framtíðarsýn er að finna nær hún iðulega til eins kjörtímabils.

Mannkynið stendur nú á tímamótum. Í fyrsta lagi, loftslagsbreytingar sem munu raungerast með mun meiri afgerandi hætti á næstu árum og áratugum. Vísindamenn hafa búið til ýmis spálíkön og engin af þeim mála fallega mynd þar sem jörðin dafnar. Efnahagsleg áhrif ein og sér verða talsverð, fyrir utan áhrifin á auðlindir og náttúru jarðar, aukningu flóttamanna, fæðuöryggi og matvælaframleiðslu og svona má lengi telja – en talið er að hagvöxtur geti dregist saman allt að 10% við lok þessara aldar.

Í annan stað er það tæknivæðing með innkomu gervigreindar og vélmenna, en sjálfvirknivæðing mun hafa í för með sér verulegar breytingar á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu sem kom út snemma þessa árs er því spáð að 28% starfa hér á landi taki verulegum breytingum eða hverfi alveg og um 58% starfa verði fyrir miklum breytingum. Heimspekingar verða líklega eina stéttin sem mun hafa meira að gera en áður þar sem erfitt er að forrita vélmenni með sans fyrir gráu svæðunum í lífinu þ.e. a. s. þessum erfiðu ákvörðunum þar sem stöndum frammi fyrir þar sem svörin eru ekki alltaf einhlít.

En spurningin er: Hvert erum við að fara? Hvernig samfélag ætlar Ísland að vera? Hvaða atvinnuvegi ætlum við að leggja áherslu á fyrir utan þessa hefðbundnu? Ætlum við að skipuleggja til langs tíma, í sameiningu? Taka forystu og vera leiðtogar eða fljóta með straumnum og bíða eftir að ferðamenn komi til landsins eða makríll syndi inn í lögsöguna. Við verðum kannski alltaf jafn heppin. Ætlum við að vera í stöðugu viðbragði – eins og hefur einkennt íslensk stjórnmál um langt skeið – eða ætlum við að sýna forsjálni.

Tæknivæðing og loftslagsbreytingar krefjast langtímahugsunar. Það er áskorun í sjálfu sér. Grænar, sjálfbærar lausnir eiga að vera rauði þráðurinn – skulum við segja græni þráðurinn – í athöfnum hins opinbera í dag og til framtíðar. Sjálfbærni á að móta allar ákvarðanir hins opinbera og stuðningur við sjálfbæran lífstíl skal vera leiðarljósið í hvívetna. T.d. skulu fjárlög byggja á því og aðrar lagasetningar. Hvernig væri að nýta sjálfvirknivæðinguna og tækni til góðs? Til að hjálpa jörðinni og okkur. Löggjafinn og stjórnvöld hafa öll þessi tæki til að stýra samfélaginu og markaðnum. Að sama skapi eru margar góðar stefnur sem hvíla í skúffum stjórnvalda sem má dusta rykið af, t.d. um græna hagkerfið. Í nýrri aðgerðaráætlun stjórnvalda í umhverfismálum er t.d. ekki minnst á fjármálamarkaðinn eða reglusetningar á því sviði í tengslum við sjálfbærar fjárfestingar. Atvinnulífið er nú samt að mestu leyti knúið áfram af fjárfestingu. Ég kalla eftir mun breiðari framtíðarsýn en nú er boðið upp á og að við krefjum stjórnmálamenn frekari svara um hvert við stefnum.

Ekkert til sem heitir brjálaða kattakonan

Brjálaða kattakonan í Simpsons-þáttunum er líklega ein þekktasta staðalímynd þessarar mýtu.

Ný bandarísk rannsókn leiðir í ljós að brjálaða kattakonan er mýta. Ekkert bendi til þess að þeir sem eigi fjölda katta glími við einhvers konar geðraskanair, kvíða eða depurð.

CNN greinir frá niðurstöðum rannsóknarinnar sem gerð var af vísindamönnum við UCLA háskóla sem rannsökuðu yfir 500 gæludýraeigendur. Í rannsókninni var fylgst með hvernig eigendurnir brugðust við hegðun dýranna og skoðað hvort fylgni væri á milli gæludýraeignar og geðheilsu. „Við fundum ekkert sem styður mýtuna um kattakonuna. Kattaeigendur eru ekkert öðruvísi en aðrir hvað varðar þunglyndi, kvíða eða reynslu af nánum samböndum,“ segir í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Merkilegt nokk þá er þetta ekki fyrsta vísindalega rannsóknin á þessu efni því árið 2017 komust vísindamenn við University College London að sömu niðurstöðu.

Mælir með að stunda „dumpster diving“

Ásta Rún Ingvadóttir, nemi í Menntaskólanum í Reykjavík, brennur fyrir umhverfismálum og reynir hvað hún getur að sóa engum mat.

Aðspurð hvaða ráðstafanir hún hafi gert til að draga úr matarsóun segir Ásta Rún: „Fyrst og fremst reyni ég að vera meðvituð um það sem er til heima. Ég reyni að vera skipulögð og plana máltíðir eftir því sem er til hverju sinni. Það er gott að hafa góða yfirsýn og nota hugmyndaflugið til að skapa eitthvað nýtt úr afgöngum.“

Ásta er þeirrar skoðunar að fólk mætti almennt vera meira meðvitað um þau neikvæðu umhverfisáhrif sem sóun matvæla hefur í för með sér. „Það hafa margar jákvæðar breytingar átt sér stað en það mættu allir fara að líta þetta alvarlegri augum og girða sig í brók hvað neysluvenjur og hugarfar varðar.“

Spurð hvort hún lumi á góðum ráðum fyrir þá sem vilja bæta sig og draga úr matarsóun svarar Ásta Rún játandi. „Já, notið hugmyndaflugið til að töfra fram eitthvað úr matvælum sem eru á síðasta snúningi. Frystið allt sem er að skemmast, kryddjurtir, afganga, sósur og annað. Og svo mæli ég eindregið með að stunda svokallað „dumpster diving“ og þannig nýta þann óskemmda mat sem matvöruverslanir henda.“

Sjá einnig: Hættur að taka mark á „best fyrir“ dagsetningum

76 dagar án kennara

Skoðun
Eftir / Ómar Valdimarsson

Skóli dætra minna hefur aftur göngu sína í dag. Í dag eru 76 dagar frá því að dætur mínar fóru í sumarfrí. Í dag eru 76 dagar frá því að það var eitthvað í líkingu við rútínu í lífi fjölskyldunnar minnar.

Á þessum 76 dögum hefur gefist ágætis ráðrúm til þess að velta fyrir sér gildismati samfélagsins og hversu stóra rullu kennarar spila í lífi íslenskra fjölskyldna. Ég hef til dæmis fengið tækifæri til þess að velta þessu vandlega fyrir mér þegar ég þarf að skjótast úr vinnunni – stundum tvisvar til þrisvar á dag – til þess að skutla dætrum mínum á hin og þessi námskeiðin, sem alla jafna eru haldin á mjög ókristilegum tíma, t.d. frá klukkan 10 til 14 (?)! Og þessi námskeið eru yfirleitt ekki ókeypis – ef maður sleppur vel þá kosta þau bara annan handlegginn eða hvítuna úr augunum á þér.

Þá hef ég stundum saknað kennara barnanna minni extra mikið, þegar ég kem síðdegis og opna útidyrahurðina og á móti mér tekur heill her krakka – vinir dætra minna – og heimilið er á hvolfi og minnir meira á frístundaheimili en griðastað fjölskyldunnar.
Svo eru það stundum kvöldin, sem ég hugsa fallega til kennara dætra minna. Eftir kvöldmatinn, þegar mér finnst gott að setjast niður með kaffibolla og horfa á fréttirnar, er sumarið oftar ekki sá tími sem dæturnar hafa hertekið skjáinn til þess að horfa á YouTube-myndbönd með mokríkum, uppátækjasömum og fallegum bandarískum unglingum sem halda út sinni eigin sjónvarpsrás. Og fyrst við erum að tala um ljúf og falleg sumarkvöld: Hvernig fær maður krakkaskratta til þess að fara að sofa fyrir 23 á kvöldin, þegar það er enn þá sól úti?!

Umræðan um laun kennara ber reglulega á góma í íslenskri samfélagsumræðu. Grunnlaun grunnskólakennara eru í dag 459.069 krónur á mánuði. Næst þegar kjarasamningar kennara koma til umræðu ætla ég að hugsa til þessara 76 daga og hversu mikils virði mér finnst starf kennara vera í raun og veru. Eins og það er nú yndislegt að vera foreldri – að fá að fylgja einstaklingum sem maður elskar út í lífið og vera þeim innan handar með allt og ekkert – er skólabyrjun alltaf sérstakt fagnaðarefni. Ég elska dætur mínar til tunglsins og til baka en mikið verður gott að fá smárútínu aftur!

Höfundur er lögfræðingur.

Karnival á Klapparstíg

Á morgun, laugardag, verður DJ Margeir með heljarinnar karnival á Klapparstíg sem hefst klukkan 15 með jógatíma sem Tómas Oddur frá Yoga Shala Reykjavík leiðir.

Dansinn brýst síðan fram um klukkan 16 og mun duna óslitið fram að flugeldasýningunni, klukkan 23. Þegar karnivalinu lýkur er öllum boðið í eftirpartíið á Kaffibarnum.

„Heppinn að vera ekki steindauður“

||||
Mynd/Unnur Magna|„Það var iðulega gefið í skyn að konur væru lélegri starfskraftar í fyrirtækjum en karlar og það endaði með því að ég setti mér það markmið að gera það sem ég gæti til að stuðla að því að karlmenn yrðu jafnlélegir starfskraftar og konur

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, missti systur sína úr krabbameini fyrir einu og hálfu ári og skömmu síðar lenti hann í alvarlegu hjólreiðaslysi sem hefði getað kostað hann lífið. Hann segir þessa reynslu hafa breytt viðhorfi sínu til lífsins og kennt sér að meta betur það sem hann hefur. Hann ætlar að hlaupa hálft maraþon til styrktar Ljósinu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun.

„Ég hef aldrei hlaupið heilt maraþon en þetta er líklega fjórða eða fimmta hálfmaraþonið sem ég hleyp,“ svarar Ólafur aðspurður hvort hann hafi lengi stundað maraþonhlaup. „Ég er reyndar gamall antisportisti en varð óvart svolítið liðtækur hlaupari vegna þess að ég og Jón vinur minn vorum með endalausan skæting við íþróttakennarann okkar í MR og hann var orðinn svo leiður á okkur að hann sendi okkur alltaf út að hlaupa. Svo hafði ég ekki hlaupið lengi en þegar ég var kominn um fertugt og farinn að horfa á ístruna á mér stækka, áttaði ég mig á að ég þyrfti sennilega að fara að gera eitthvað í því hvað ég hreyfði mig lítið. Síðan hef ég hlaupið býsna mikið og nokkuð reglulega tekið þátt í keppnishlaupum.“

Spurður hvort hann sé kominn í þann hóp hlaupara sem fari til útlanda oft á ári til að hlaupa þar um fjöll og firnindi svarar Ólafur því til að hann sé reyndar ekki kominn þangað en það sé þó farið að kitla hann pínulítið að taka þátt í maraþonum erlendis.

„Ég hef ekki gert það enn þá, nei,“ segir hann. „Ég er reyndar aðeins að láta mig dreyma um það að fara kannski til New York, Boston eða Barcelona til þess að hlaupa maraþon en hvort af því verður kemur í ljós.“

Ólafur hleypur til að safna fyrir Ljósið til minningar um systur sína, Þóru Stephensen, sem lést eftir baráttu við krabbamein í apríl 2018. Hann segir dauða systur sinnar þó ekki vera einu ástæðuna fyrir því að hann valdi að styrkja starfsemi Ljóssins.

„Það er lengri saga á bakvið það,“ segir hann. „Ég átti tvær systur, Elínu og Þóru, sem voru þrettán og ellefu árum eldri en ég. Elín greindist með krabbamein í legi árið 2014 en hafði betur í þeirri baráttu og er frísk í dag. Þóra greindist 2016 með brjóstakrabba og það leit út fyrir að hún hefði líka sigrast á sínu meini en svo blossaði það upp aftur árið 2017 og hún dó í apríl í fyrra. Þær leituðu báðar mikið til Ljóssins og höfðu mikinn styrk af þeirri frábæru þjónustu sem þar er í boði. Það vill reyndar líka svo til að nýlega varð konan mín, Ragnheiður Agnarsdóttir, stjórnarformaður Ljóssins og sagan á bakvið það er að hún í fyrsta lagi missti fyrri manninn sinn, Þórð Friðjónsson, úr krabbameini árið 2011 og síðan greindist stjúpmóðir hennar, Rósa Steinsdóttir, með krabbamein 2016 og hefur líka sótt mikið til Ljóssins. Tengdamamma dóttur minnar, Guðrún Kristín Svavarsdóttir, er líka í hópi skjólstæðinga Ljóssins. Þannig að Ljósið á það eiginlega alveg inni hjá mér að ég leggi pínulítið á mig fyrir það.“

„Eftir að Þóra hafði greinst í annað sinn fór ég í fjölskylduviðtal með Elínu systur minni hjá Ljósinu. Það var afskaplega gott og hjálpaði manni að hugsa eftir réttum brautum og vera stuðningur bæði við þann veika og aðra aðstandendur, held ég.“

Óttinn við krabbamein aldrei nagað
Spurður hvernig hann hafi sjálfur tekist á við veikindi systra sinna, hvort hann hafi leitað sér aðstoðar í ferlinu, svarar Ólafur að hann hafi reyndar gert það.

„Eftir að Þóra hafði greinst í annað sinn fór ég í fjölskylduviðtal með Elínu systur minni hjá Ljósinu,“ upplýsir hann. „Það var afskaplega gott og hjálpaði manni að hugsa eftir réttum brautum og vera stuðningur bæði við þann veika og aðra aðstandendur, held ég.“

Það er nærtækt að spyrja hvort Ólafur sé ekki sjálfur hræddur um að greinast með krabbamein eftir þessa reynslu en hann segist reyndar ekki vera sérstaklega hræddur um það, þótt hann geri sér að sjálfsögðu grein fyrir því að hann gæti fengið krabbamein eins og hver annar.

„Systur mínar létu rannsaka það hvort krabbameinið væri að einhverju leyti ættgengt en það kom ekkert í ljós sem bendir til þess,“ útskýrir hann. „Ég er líka undir mjög góðu eftirliti hjá konunni minni sem gengur hart eftir því að ég fari reglulega í alls konar tékk, eins og maður á auðvitað að gera þegar maður er kominn um og yfir fimmtugt, og óttinn við það að fá krabbamein hefur aldrei nagað mig. Það er hins vegar gott að láta fylgjast vel með sér og hafa forvarnirnar í lagi.“

Ólafur hleypur til að safna fyrir Ljósið til minningar um systur sína, Þóru Stephensen, sem lést eftir baráttu við krabbamein í apríl 2018. Það eru þó fleiri ástæður fyrir því að hann valdi að styrkja starfsemi Ljóssins. Mynd/Unnur Magna

Væri steindauður ef hjálmurinn hefði ekki verið
Þremur mánuðum eftir að Þóra systir hans lést lenti Ólafur í hjólreiðaslysi, reyndar á afmælisdegi hennar, og hefur síðan farið í hverja aðgerðina á fætur annarri til að ná fullri hreyfigetu á ný. Hver voru tildrög slyssins?

„Á einum af þeim fáu fallegu dögum sem við fengum á höfuðborgarsvæðinu í fyrrasumar vöknuðum við Ragnheiður eldsnemma og ákváðum að nýta morguninn til að fara í hjólatúr,“ segir Ólafur. „Verandi gamall antisportisti lærði ég ekki að hjóla fyrr en ég var tuttugu og átta ára gamall en hef dálítið hjólað síðan. Eftir að ég kynntist Ragnheiði, sem er dálítið hjólaóð, keypti ég mér fjallahjól og fékk svo lánað racer-hjól hjá félaga mínum. Var búinn að prófa það á hjólastígum innanbæjar í einhverja daga og fannst það ógurlega gaman þannig að ég var mjög spenntur fyrir því að hjóla Nesjavallaveginn þennan dag. Þegar við vorum á leiðinni til baka var ég kominn á milli 30 og 40 kílómetra hraða, þegar ég lenti með framdekkið í sprungu á veginum. Síðan tók við lausamöl þegar ég var að reyna að ná jafnvæginu aftur og svo bara man ég ekki meira. Ég flaug af hjólinu og steinrotaðist þannig að þegar Ragnheiður kom að mér andaði ég eitthvað lítið og hægra viðbeinið stóð út í jakkann minn, ég var sem sagt með opið beinbrot í öxlinni. Ef ég hefði ekki verið með hjálm væri ég náttúrlega steindauður, en ég slapp með höfuðhögg og svolítið af beinbrotum.

„Ég flaug af hjólinu og steinrotaðist þannig að þegar Ragnheiður kom að mér, andaði ég eitthvað lítið og hægra viðbeinið stóð út í jakkann minn, ég var sem sagt með opið beinbrot í öxlinni. Ef ég hefði ekki verið með hjálm væri ég náttúrlega steindauður.“

Viðbeinsbrotið var erfiðast viðureignar en afleiðingarnar af höfuðhögginu voru þær að ég sá tvöfalt til að byrja með. Það gekk yfir á nokkrum vikum og mér var sagt að það væri ekkert óalgengt eftir heilahristing. Ég var frá vinnu í þrjár vikur en skrönglaðist svo af stað aftur og fór kannski of geyst, ég veit það ekki.

Viðbeinið var skrúfað saman með stálplötu en sú viðgerð hélt ekki, þannig að ég þurfti að fara í annan uppskurð í desember þar sem sett var í mig veigameiri stálplata. Hún var svo tekin úr mér aftur núna í maí með þriðju skurðaðgerðinni og síðan er ég búinn að vera að reyna að koma mér aftur í form. Ég hef líka verið duglegur að synda og á tímabili vakti ég mikla athygli og fólk gaf sig gjarnan á tal við mig í Laugardalslauginni af því að ég synti bara með annarri hendinni. Nú er ég farinn að geta gert flest sem ég gat fyrir ári. Áhuginn á hjólreiðum hefur þó heldur dalað, ég er búinn að fara í einn hjólatúr í sumar, nokkurn veginn réttu ári eftir að ég datt, og ég verð að viðurkenna að fyrstu kílómetrana var ég bara skíthræddur en það rjátlaðist sem betur fer af mér. En ég hugsa að ég fari voðalega varlega í hjólreiðunum hér eftir. Ég hjólaði í vinnuna einn daginn og tók tímann á mér og niðurstaðan var sú að ég hjóla hægar en ég hleyp, þannig að þú sérð að ég fer óskaplega varlega til að byrja með.“

Ólafur viðurkennir að síðasta eina og hálfa árið hafi verið ansi erfitt en segist hafa tekist á við það sem upp á hefur komið með því að ræða öll mál við sína nánustu. Þessi reynsla hafi þó að ýmsu leyti breytt lífssýn hans.

„Fyrst og fremst finnst manni líf og heilsa ekkert sjálfsagðir hlutir lengur,“ segir hann hugsi. „Ég var mjög heppinn að slasa mig ekki verr í þessari byltu og er líka heppinn að vera laus við alls kyns illvíga sjúkdóma sem fólk er að glíma við allt í kringum mann. Þannig að í rauninni hefur þetta fyllt mig af þakklæti fyrir heilsuna, lífið og það sem ég hef og ég tek hlutunum síður sem sjálfsögðum.“

„Það var iðulega gefið í skyn að konur væru lélegri starfskraftar í fyrirtækjum en karlar og það endaði með því að ég setti mér það markmið að gera það sem ég gæti til að stuðla að því að karlmenn yrðu jafnlélegir starfskraftar og konur,“ segir Ólafur, sem er þekktur fyrir að hafa lagt sitt á vogarskálarnar í jafnréttisbaráttunni, var til að mynda lengi í stjórn UN Women á Íslandi og var einn af þátttakendum í He for She-herferðinni. Mynd/Unnur Magna

Engin eftirsjá og svekkelsi í farteskinu
Ég heyri að Ólafi er ekkert sérlega vel við spurningar mínar um persónulegar upplifanir hans þannig að við breytum um kúrs og förum að ræða atvinnu hans. Haustið 2014 hætti hann sem ritstjóri Fréttablaðsins með hárbeittum leiðara þar sem hann ásakaði eigendur blaðsins um afskipti af ritstjórnarstefnu þess. Höfðu þau skrif einhver eftirmál?

„Nei, nei,“ segir hann og brosir. „Ég reyni að gera mitt til að passa upp á það að þegar ég hætti einhvers staðar með hvelli verði sem minnst eftirmál af því. Það þurfti að segja ákveðna hluti eins og þeir voru en ég reyni að passa mig á því að bera ekki kala til nokkurs manns og paufast alls ekki í gegnum lífið með einhverja eftirsjá eða svekkelsi í farteskinu. Það er ein uppskriftin að hamingju og heilsu að láta slíkt eiga sig og skilja það bara eftir við veginn.“

Þegar Ólafur kvaddi Fréttablaðið og skipti um starfsvettvang hafði hann starfað við blaðamennsku síðan á unglingsaldri og ég á erfitt með að kyngja því að hann sakni hennar ekkert.

„Það kemur fyrir að mig langar til að vera á staðnum þegar mér finnst fjölmiðlarnir gleyma sínu mikilvæga aðhaldshlutverki og láta hjá líða að spyrja gagnrýninna spurninga eða varpa ljósi á bakgrunn mála,“ segir hann dræmt. „En svo læknast ég alltaf um leið þegar það rifjast upp fyrir mér hvernig vinnutíminn og álagið var í blaðamennskunni.“

Ólafur hefur ekki alveg sagt skilið við skriftirnar þótt hann sé hættur í blaðamennskunni, hann hefur verið mjög duglegur við að skrifa greinar sem tengjast nýju hlutverki hans sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, enda segir hann upplýsingamiðlun og umræður alltaf hafa verið sitt líf og yndi.

„Það kemur sér mjög vel í þessu starfi sem ég sinni núna,“ segir hann. „Þar er verið að halda á lofti ákveðnum málstað sem ég hef fylgt frá því að ég var rúmlega fermdur, sem sé áherslu á einstaklings- og athafnafrelsi og frjálsa verslun. Ég bind þó ekki trúss mitt neitt sérstaklega við ákveðinn flokk, ég er bara alþjóðasinnaður, frjálslyndur hægrimaður.“

„Að mæta á æfingu og syngja í þrjá klukkutíma þurrkar allar áhyggjur út eins og hendi sé veifað og maður verður alveg slakur. Það veitir sjálfsagt ekkert af í mínu tilfelli þar sem ofvirknigenið er ansi sterkt í mér,“ segir Ólafur, sem mun ekki aðeins taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun heldur einnig syngja með Sönghópnum Spectrum í Listasafni Íslands. Mynd/Unnur Magna

Langar ekki í starf kjörins fulltrúa
Margir hafa haft það á tilfinningunni að Ólafur stefni að frama innan stjórnmálanna en hann gefur lítið fyrir þær hugmyndir.

„Það er alveg hægt að halda því fram að ég hafi verið í pólitík með einum eða öðrum hætti síðan á unglingsárum,“ segir hann. „Ég var í stjórnmálaþátttöku í gamla daga með ungum Sjálfstæðismönnum, Samtökum ungra íhaldsmanna á Norðurlöndum og fleirum. Snertifletir blaðamennsku og stjórnmála eru margir og sömuleiðis snertifletir pólitíkur og svona hagsmunagæslu eins og ég er í núna en mig langar ekkert óskaplega í starf hins kjörna fulltrúa, mér sýnist að það sé ekkert sérstaklega öfundsvert hlutskipti og það er vel hægt að hafa áhrif með öðrum hætti.“

Eitt af þeim málum sem Ólafur hefur beitt sér fyrir að knýja fram breytingar á eru jafnréttismál kynjanna, hann var lengi í stjórn UN Women á Íslandi og var einn af þátttakendum í He for She-herferðinni. Hvað vakti upphaflega áhuga hans á jafnréttismálum, voru það áhrif frá eldri systrum hans tveimur?

„Að hluta til voru það áhrif frá þeim,“ viðurkennir hann. „Og líka frá mömmu sem hélt reglulega yfir mér ræður um jafnréttismál þótt þau pabbi væru að mörgu leyti í hefðbundnum kynhlutverkum. En það sem ýtti mér helst inn í aktífisma í þeim málum var að ég horfði upp á til dæmis fyrrverandi konuna mína og vinkonur mínar frá fornu fari, sem höfðu trúað því, eins og ég sjálfur, að þær ættu alla sömu möguleika og við strákarnir, upplifa það þegar þær komu út á vinnumarkaðinn að fá nærgöngular spurningar í atvinnuviðtölum. Eins og um hvort þær ættu börn, hvort þær ætluðu að eignast börn og svo framvegis, spurningar sem við strákarnir klárlega fengum ekki. Það var iðulega gefið í skyn að konur væru lélegri starfskraftar í fyrirtækjum en karlar og það endaði með því að ég setti mér það markmið að gera það sem ég gæti til að stuðla að því að karlmenn yrðu jafnlélegir starfskraftar og konur. Þannig var uppleggið að hvetja karlmenn til að axla sínar skyldur gagnvart fjölskyldunni en frá mínum bæjardyrum séð voru þetta afskaplega ljúfar skyldur og ég held að ég og margir aðrir hafi fyrst og fremst litið á það sem tækifæri til að geta sinnt heimili og börnum að fá það í gegn að feður fengju fæðingarorlof og sveigjanleika í vinnutíma sem nú orðið þykir víðast sjálfsagt. Á þessum tíma var fæðingarorlof feðra mjög framandi hugmynd og ég kom mér í karlanefnd jafnréttisráðs, sem þá starfaði, og varð síðar formaður hennar um það leyti sem elsta dóttir mín fæddist. Karlanefndin lagði fram tillögur um að fæðingarorlofskerfi þar sem réttinum var skipt jafnt milli feðra og mæðra og greiðslurnar tekjutengdar og það var mjög ánægjulegt að sjá hvernig þær hugmyndir náðu flugi og urðu að lögum sem tóku gildi í ársbyrjun 2001. Það var mikil tímamótalöggjöf þótt það hafi komið ákveðið bakslag í það hvernig feður nýttu sér fæðingarorlofið vegna niðurskurðar á greiðslunum eftir hrun en það er sem betur fer smátt og smátt að lagast aftur.“

„Ég hjólaði í vinnuna einn daginn og tók tímann á mér og niðurstaðan var sú að ég hjóla hægar en ég hleyp, þannig að þú sérð að ég fer óskaplega varlega til að byrja með.“ Mynd/Unnur Magna

Einkalífið á ekkert erindi við alþjóð
Ólafur á sjálfur tvær dætur og einn son, framfylgir hann jafnréttishugsjón sinni í uppeldinu á þeim?

„Ég reyni að hafa muninn á því hvernig ég el þau upp sem allra minnstan,“ segir hann og hlær við. „Ég tók fæðingarorlof með þeim öllum heima. Þegar sú elsta fæddist áttu feður reyndar engan rétt á orlofi, ég hálfpartinn svindlaði það út úr Árvakri sem var minn vinnuveitandi á þeim tíma. Ritstjórarnir Styrmir og Matthías og Hallgrímur Geirsson framkvæmdastjóri voru sveigjanlegir í samningum eftir að þeir höfðu náð af sér undrunarsvipnum yfir því að karlmaður væri að biðja um fæðingarorlof. Það að vera heima með litlu barni þýðir að maður tengist því með öðrum hætti en þegar maður hefur ekki það tækifæri, þannig að mér finnst samband mitt við alla krakkana mína vera jafnnáið og reyni að veita þeim öllum sama uppeldi og sömu hvatningu og þann stuðning sem ég mögulega get. Hitt er svo annað mál að það verður ekkert umflúið að kynin eru ólík og strákurinn bara fleygði aftur í mann þessum dúkkum sem maður var að reyna að halda að honum og vildi fá sínar byssur. Ég veit ekki hvaðan það kom.“

Ólafur hefur það orð á sér að vera afskaplega prívat maður og ekki mikið fyrir að flíka sínu einkalífi, hefur það eitthvað breyst með breyttum áherslum í lífinu?

„Ja, krakkarnir mínir eru nú ekki endilega sammála því,“ segir hann glottandi. „Þeim finnst ég svo duglegur að birta myndir á Instagram þar sem hefur gleymst að spyrja hvort fólk væri búið að greiða sér og hafa sig til. En, jú jú, ég hef fengið tilboð um að ræða einkalífið í smáatriðum í einhverjum blaðaviðtölum en það á ekkert erindi við alþjóð.“

„Í rauninni hefur þetta fyllt mig af þakklæti fyrir heilsuna, lífið og það sem ég hef og ég tek hlutunum síður sem sjálfsögðum.“

Kórsöngur jákvæður fyrir líkama og sál
Eins og fram hefur komið segir Ólafur þá reynslu að ganga í gegnum erfið veikindi með systrum sínum og lenda sjálfur í alvarlegu slysi hafa kennt sér að leggja áherslu á aðra hluti en fyrr, er innifalið í þeirri áherslubreytingu að leggja meiri rækt við einkalífið?

„Það má alveg segja það,“ segir hann ákveðinn. „Það er orðið erfitt að ná mér á mannamót vegna þess hvað mér finnst gaman að vera heima hjá mér með fjölskyldunni. Eftir fjórtán ár á ritstjórastóli, þar sem maður er eiginlega alltaf í vinnunni, er líka stórkostlegt að komast að því að þegar maður á frí á kvöldin getur maður farið að rækta áhugamálin eins og ég er farinn að gera núna. Fyrir þremur árum fór ég að syngja með Sönghópnum Spectrum. Ég hefði aldrei komið fyrir þriggja klukkutíma kvöldæfingu í hverri viku og helgaræfingum, tónleikum og slíku með fram gamla starfinu mínu sem ritstjóri. Mér finnst þetta alveg óskaplega skemmtilegt og það hefur gefið mér mikið. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að syngja og krakkarnir mínir hafa haft orð á því að þau þyrftu að sæta því við messur á stórhátíðum að pabbi þeirra væri að reyna að yfirgnæfa kórinn. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um að ég gæti sungið í kór fyrr en tveir æskuvinir mínir, sem voru farnir að syngja með Spectrum, sögðust sjá á mér hvað mig langaði mikið til þess að vera með og hvöttu mig til að prófa. Þannig að ég lét tilleiðast að syngja fyrir kórstjórann og það satt að segja kom mér svolítið á óvart, að ég skyldi fá að vera með. Ég er afskaplega ánægður með það enda margsannað mál að kórsöngur hefur jákvæð áhrif á bæði líkama og sál. Að mæta á æfingu og syngja í þrjá klukkutíma þurrkar allar áhyggjur út eins og hendi sé veifað og maður verður alveg slakur. Það veitir sjálfsagt ekkert af í mínu tilfelli þar sem ofvirknigenið er ansi sterkt í mér en sem betur fer er mér að lærast að taka lífinu með ró.“

Og á þeim nótum sláum við botninn í samtalið enda þarf Ólafur að halda vel á spöðunum því það er ekki nóg með það að hann ætli að hlaupa hálfmaraþon á laugardaginn heldur mun hann einnig syngja með Spectrum í Listasafni Íslands sem hluta af dagskrá Menningarnætur.

„Komst hreinlega við yfir stemningunni“

Björk Eiðsdóttir

Þessir hressu borgarbúar eru með margvísleg plön um helgina í tilefni Menningarnætur Reykjavíkur.

 

Hleypur Reykjavíkurmaraþon í Berlín
Kolbrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri LÍFS styrktarfélags verður í Þýskalandi um helgina að fagna 40 árum mágs síns. „Svo ætla ég líka að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu þótt það verði aðeins öðruvísi þetta árið þar sem ég mun hlaupa ein í Berlín. Planið er samt að að skemmta mér vel þótt stemningin verði örugglega örlítið lágstemmdari í mínu hlaupi en hjá öllum meisturunum sem hlaupa saman í borginni. Það var bara ekki hægt annað en að hlaupa og safna áheitum fyrir LÍF, styrktarfélag kvennadeildarinnar, og þetta var lausnin. Okkur vantar nefnilega nýjar vöggur.“

Nýtur helgarinnar með dætrunum
Beggi Smári er í stuttu spilafríi þessa dagana milli tónleikaferðalaga og stúdíóvinnu en hann var að gefa út lagið, Brostu. „Ég ætla því að njóta þess að vera með dætrum mínum á Menningarnótt en ekki að spila út um allt eins og venjulega. Laugardagsmorgunninn byrjar á 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Neistanum, félagi hjartveikra barna. Í framhaldinu röltum við um bæinn og hittum ömmur og afa í kaffi. Á sunnudaginn höldum við svo upp á afmæli dóttur minnar með pomp og prakt. Gott að hlaða batteríin með stelpunum mínum áður en ég held til Þýskalands að spila í byrjun september.“

„Fer allt eftir stemningunni hjá leiðtoga lífs míns“
Björk Eiðsdóttir blaðakona segist enn eitt árið ekki taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. „Í stað þess að vera með svipuna á mér yfir því hef ég ákveðið að faðma þá staðreynd að ég hafi engan áhuga á hlaupum og hvetja frekar þá sem það hafa. Ég gerði þetta í fyrra og komst hreinlega við yfir stemningunni við lokamarkið. Mig langar að kíkja á nokkra viðburði í bænum og tékka almennt á stemningunni en það fer allt eftir stemningunni hjá leiðtoga lífs míns þessi misserin, þriggja mánaða syni mínum. Ef veður leyfir erum við hjónaleysin svo að spá í að grilla heima í Skerjafirðinum og fæða þá vini okkar sem þurfa skjól frá mannmergðinni eða smá yl í kroppinn. Þið vitið það þá, vinir, það verður eitthvað gott á grillinu ef hann hangir þurr í meira en korter.“

Karlrembulegt viðhorf kveikti neistann

|||
Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri. Mynd / Stephanie Staal|Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri. Mynd / Stephanie Staal.||Mynd Katrínar

Katrín Björgvinsdóttir er ungur leikstjóri á uppleið. Hún útskrifaðist úr danska kvikmyndaskólanum Den Danske Filmskole í vor og hefur fengið frábæra dóma í þarlendum fjölmiðlum fyrir lokaverkefni sitt Dronning Ingrid eða Ingrid drottning. Katrín segir viðbrögðin hafa komið skemmtilega á óvart því hún hafi, satt best að segja, ekki átt von á að saga ungrar konu í tilvistarkreppu myndi höfða til jafnbreiðs hóps áhorfenda og raun ber vitni.

„Það er frábært að fá þessi jákvæðu viðbrögð. Ég var sjálf mjög ánægð með útkomuna en reiknaði ekkert endilega með því að þetta kæmi til með að falla í kramið hjá öllum. Þetta er nefnilega einföld saga um hversdagslegar og frekar prívat tilfinningar og ég var búin að ímynda mér að viðfangsefnið myndi tala mjög skýrt til einhverra áhorfenda en að aðrir kynnu að afskrifa það sem eitthvað sem skipti engu máli.“

Lokaverkefnið, Dronning Ingrid, fjallar að sögn Katrínar um Ingrid, „stelpukonu á fertugsaldri“ eins og hún orðar það, sem er ekki alveg á þeim stað í lífinu sem hún hefði viljað vera. „Hún hefur verið einhleyp síðan hún var 17 ára, vinnur í undirfataverslun og þegar hér er komið við sögu eru foreldrar hennar að skilja. Hún byrjar að átta sig á að hún er kannski ekkert sérstök eða öðruvísi en allir hinir og langar í rauninni bara til þess að eignast kærasta og byrja fullorðinslífið. Það reynist svo hægara sagt en gert fyrir stolta og sjálfstæða „stelpu-konu“ sem neitar að gera málamiðlanir eða virka örvæntingafull og auk þess undir sífellt meiri pressu frá líffræðilega tikkinu í leginu, að finna ástina.“

Mynd Katrínar, Dronning Ingrid, hefur fengið frábæra dóma í dönskum fjölmiðlum, en hún verður sýnd í Bíó Paradís í dag klukkan 16. Myndin er með enskum texta.

„Svo biluð afstaða“
Spurð hvernig hugmyndin að sögunni hafi kviknað segist Katrín einfaldlega hafa viljað gera sögu sem fjallaði á heiðarlegan og afhjúpandi hátt um ástina, öll vonbrigðin og óöruggið, allan anti-klímaxinn eiginlega. Sérstaklega fyrir konur sem eru komnar yfir þrítugt og eiga erfitt með að átta sig á því hvað þær vilja og upplifa að tíminn sé að hlaupa frá þeim. „Mig langaði að fara svolítið í burtu frá þessari ævintýralegu, örlagaríku og eiginlega ómögulegu mýtu sem helst svo oft í hendur við okkar hugmyndir um ástina og taka svolítið „real-talk“; upplifum við þetta raunverulega svona og ef við eigum það mörg sameiginlegt að vera svolítið vonsvikin yfir að hafa ekki fengið að upplifa þessa jarðskjálfta-ást, eigum við þá ekki að breyta því svolítið hvernig við tölum um það og byggjum upp væntingar okkar?“

„Kennarinn hélt því fram að hann og strákarnir í bekknum ættu erfitt með að tengja við tilfinningar hennar því þeir vissu ekki hvernig væri að vera með leg.“

Hún bætir við að ákveðið atvik í skólanum hafi átt þátt í því að þetta umfjöllunarefni varð fyrir valinu. „Já, það var svolítið sem einn kennarinn sagði um mynd sem bekkjarsystir mín gerði á fyrsta ári. Myndin snerist um mjög kvenlega sögu, hún fjallaði sem sagt um stelpu sem þurfti að taka ákvörðun um eitthvað sem tengdist leginu í henni og kennarinn hélt því fram að hann og strákarnir í bekknum ættu erfitt með að tengja við tilfinningar hennar, því þeir vissu ekki hvernig væri að vera með leg. Þetta er svo biluð afstaða,“ segir hún, „og svo lýsandi fyrir það hvernig við upplifum karlkaraktera „versus“ kvenkaraktera. Konur þurftu fyrir löngu að læra að tengja við sögur um karla eftir karla, á meðan sögur um konur eftir konur eru oft stimplaðar sem „konumyndir“ eða „konu-sögur” sem eru þá bara fyrir konur og þykja ekkert sérstaklega merkilegur pappír. Þetta kveikti einhvern eld í mér og í algjörum mótþróa fékk ég einhverja löngun í að virkilega kafa ofan í allt þetta kvenlega. Að gefa skít í að allir þyrftu að skilja, að einhvern veginn senda þau skilaboð að strákunum er alveg boðið en bara ef þeir nenna að opna aðeins hugann og sjá konur sem söguhetjur sem eru „revelant“ og spennandi.“

Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri. „Þegar maður er að vinna á svona litlum drama-skala þarf hvert einasta móment að vera alveg gríðarlega nákvæmt og satt.“ Mynd / Stephanie Staal

Hún segir að það hafi því óneitanlega verið góð tilfinning þegar lokaútgáfa myndarinnar var tilbúin að upplifa það að sagan í henni skyldi höfða til alls konar fólks, allt frá stelpum sem eru í sömu sporum og aðalpersónan Ingrid til miðaldra giftra karla. „Nokkrir af þeim komu til mín til að segja mér að sagan hefði hreyft við þeim og þeir hefðu tengt við aðalpersónuna á einhverju tilfinningalegu „leveli“,“ segir hún ánægð og bætir við að það sé góð þróun að það sé alltaf að verða auðvelda og auðveldara fyrir áhorfendur, sama af hvaða kyni þeir eru, að tengja við kvenkaraktera með kvenlegar tilfinningar.

Skiptist á myrkum leyndarmálum við handritshöfundinn
Dronning Ingrid er lokaverkefni Katrínar í skólanum, hugsað sem prufuþáttur (pilot) fyrir þáttaseríu og hún viðurkennir í fullri einlægni að það hafi bæði verið strembið og skemmtilegt að gera það. „Ég var heppin að kynnast mjög færum handritshöfundi í skólanum og vinna með henni að bæði stóru verkefni á öðru og þriðja ári og svo að þessari mynd. Við náðum að nýta tímann í skólanum vel, urðum góðar vinkonur og byrjuðum í framhaldinu að segja hvor annari alls konar myrk og „skammarleg“ leyndarmál og þróuðum aðferð til að skrifa persónulegar sögur sem byggja á tilfinningum og upplifunum sem við þekkjum sjálfar vel. Þetta hjálpaði okkur með að dansa á einhverri línu á milli raunsæis og skáldaðrar dramatíkur, halda efninu trúverðugu en um leið spennandi. En svona ferli er auðvitað alltaf erfitt,“ bætir hún við. „Við breyttum til dæmis allri sögunni í Dronning Ingrid mjög seint og þurftum að vinna nýja söguþráðinn hratt og örugglega til þess að ná að hafa skothelt handrit fyrir tökur. Þegar maður er að vinna á svona litlum drama-skala þarf hvert einasta móment að vera alveg gríðarlega nákvæmt og satt og það getur tekið svolítinn tíma að grafa nógu djúpt, alveg niður að kjarnanum.“

Vinnur að þáttum upp úr sögunni
Eins og fyrr segir er Dronning Ingrid prufuþáttur og Katrín er þegar byrjuð að vinna að þáttum sem munu byggja á sömu hugmynd. „Núna er ég sem sagt að þróa hugmyndina áfram og búa til „konsept“ sem er hægt að kynna fyrir áhugasömum fjárfestum,“ upplýsir hún spennt. „Ég er að vinna þetta með sama handritshöfundi og svo framleiðanda úr skólanum. Það kemur síðan bara í ljós hvað kemur út úr því. Svona hlutir geta náttúrlega tekið langan tíma. Maður þarf að búa sig undir að allt og ekkert geti gerst og í raun bara vona það besta.“

Hún kveðst vera spennt fyrir því að reyna að koma sér áfram í danska kvikmyndabransanum enda sé mikil gróska í gangi, mikil framleiðsla og metnaður til dæmis í gerð sjónvarpsefnis og margir möguleikar „Ég er samt líka spennt fyrir því að vinna á Íslandi,“ tekur hún fram. „Fá tækifæri til að gera efni á mínu eigin tungumáli og með öllu því hæfileikaríka tökuliði sem er starfandi á Íslandi. Ég hef nefnilega fundið það síðustu fjögur ár að það eru alls konar séríslenskar sögur sem blunda í mér og ég verð að fara að koma frá mér.“

„Eins og maður sé nánast einskis virði“

|||
Theodóra Heba Guðmundsdóttir. „Ég er mölbrotin eftir þetta

Kona sem varð fyrir því á Menningarnótt í fyrra að leigubíll ók yfir fót hennar með þeim afleiðingum að hún slasaðist illa, segir bílstjórann hafi stungið af frá slysstað. Málið hefur legið hjá lögreglu síðan og segist konan vera reið og sár yfir því að rannsóknin skuli hafa dregist á langinn.

Á Menningarnótt fyrir ári síðan lenti Theodóra Heba Guðmundsdóttir í alvarlegu slysi þegar leigubíll sem hún og kærasti hennar höfðu farið með heimleiðis úr bænum, ók yfir fótinn á henni. Atvikinu lýsti Theodóra í smáatriðum í færslu á Facebook á sínum tíma og sagði þar meðal annars frá því að þegar á áfangastað kom hafi ökumanni leigubílsins legið svo á að komast á næsta stað að hann hafi ekið af stað áður en hún var komin almennilega út úr bílnum með fyrrgreindum afleiðingum. „Ég dróst einhverja metra með bílnum og hurðin ennþá opin. Loksins stoppaði hann! En ekki til að tékka á mér, heldur til að loka hurðinni og stinga af,“ sagði Theodóra, sem hlaut alvarlega áverka, meðal annars opið sköflungsbrot, og lá á spítala í tæpa viku.

Í samtali við Mannlíf segir Theodóra að hún hafi samstundis leitað sér aðhlynningar á bráðamóttökunni á Landspítalanum í Fossvogi. Þangað hafi lögreglumaður mætt til að taka skýrslu af henni og kærasta hennar og frásagnir þeirra hafi verið studdar af vitnisburði nokkurra sjónarvotta að atvikinu. „Í kjölfarið höfðu pabbi og kærasti minn samband við Hreyfil á meðan ég lá á spítalanum til að ræða atvikið við forsvarsmenn fyrirtækisins og þeir voru bara með stæla. Pabbi sendi þáverandi framkvæmdastjóra tölvupóst og hann vildi ekkert gefa út á þetta. Sagði að lögreglan væri að skoða málið, þetta væri því lögreglumál og þangað til niðurstaða lægi fyrir gæti hann ekkert gert í málinu. Hann lét næstum eins og þetta kæmi sér ekki við.“

Nú er heilt ár liðið frá atvikinu og segist Theodóra enn vera að jafna sig eftir slysið. „Ég fer í röntgenmyndatöku á þriggja mánaða fresti þar sem sárið grær ekki nógu vel. Ég er mölbrotin eftir þetta, plötur og skrúfur halda öllu saman, ég er með tvö risastór ör á sköflungnum og fæ reglulega verki. Ég kemst ekki langt án hækju. Er alveg óvinnufær. Get ekki einu sinni gert einföldustu heimilisverk hjálparlaust. Læknirinn sem annast mig segir að þetta hafi verið mjög slæmt brot. Hann sér fram á mikla endurhæfingu og er ekki bjartsýnn á að ég nái mér nokkurn tíma.“

Andlegu hliðina segir hún sömuleiðis vera í molum. „Ég fékk áfallahjálp strax þegar þetta gerðist og hef síðan verið hjá sálfræðingi sem hefur hjálpað mér að takast á við áfallastreituröskun sem hefur fylgt þessu. Ég endurupplifi nefnilega enn atvikið í huganum og fæ matraðir, heilu ári seinna.“

Ekkert heyrst í lögreglu eða Hreyfli
Verst þykir Theódóru þó að hafa ekki fengið svör frá lögreglunni um hvar málið sé statt, þrátt fyrir að hafa reynt að setja sig í samband við lögreglumanninn sem tók skýrsluna. Hún hafi heldur ekki enn fengið afsökunarbeiðni frá Hreyfli, ekki svo mikið sem heyrt í forsvarsmönnum fyrirtækisins.

„Nei, ég hef ekkert heyrt,“ segir hún ósátt. „Hvorki í framkvæmdastjóra Hreyfils, eiganda bílsins né ökumanninum. Mér skilst reyndar að bílstjórinn hafi sagt eiganda bílsins að hann hefði ekki séð mig þegar þetta gerðist og því sé rangt að hann hafi stungið af. Þetta er því orð gegn orði. Ég veit ekki til þess að ákæra hafi verið gefin út á hendur bílstjóranum, ég held að honum hafi ekki einu sinni verið veitt tiltal út af þessu. Og eftir því sem ég kemst næst starfar hann enn hjá Hreyfli,“ segir hún og kveðst vera reið og sár yfir skeytingarleysi fyrirtækisins.

„Ég er satt að segja hissa á þessari framkomu þar sem ég bjóst við að stórt fyrirtæki eins og Hreyfill tæki einhverja ábyrgð. En nei, ekkert gerist. Mér líður eins og þetta skipti engu máli, að maður sé nánast einskis virði,“ segir hún og kveðst vera að skoða næstu skref. „Ég er staðráðin í að leita réttar míns, það er í vinnslu.“

Þess má geta að Mannlíf hafði samband við Hreyfil vegna málsins. Vignir Þröstur Hjálmarsson deildarstjóri varð fyrir svörum en hann hafði ekki heyrt um málið og óskaði eftir því að haft yrði samband við núverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Harald Gunnarsson. Haraldur var hins vegar vant við látinn. Hjá lögreglu fengust þá svör að rannsókn málsins hefði tekið skamman tíma og að því loknu verið sent til ákærusviðs, þar sem málið virðist liggja enn.

WOW air – gríman fallin

Skiptastjórar þrotabús WOW air telja að flugfélagið hafi í síðasta lagi verið ógjaldfært um mitt síðasta ár.

Þrátt fyrir það réðist WOW air í skuldabréfaútgáfu sem byggði á upplýsingum um annað. Nú er unnið að því að rannsaka, greina og eftir atvikum rifta því sem átti sér stað innan WOW air á lokametrum tilveru flugfélagsins fjólubláa.

Á meðal þess sem verið er að athuga eru greiðslur til félags Skúla Mogensen og kostnaður vegna leigu á íbúð sem hann hafði til umráða í London.

Skúli segir sjálfur að heildartap sitt og félaga í hans eigu vegna falls WOW air sé hátt í átta milljarðar króna. Það sé eðlilegt að rýna í og læra af vexti og falli WOW air. „Það er hins vegar mjög auðvelt að vera vitur eftir á og sorglegt að sjá hvernig sumir keppast við gera viðskipti WOW air tortryggileg. Það er fráleitt að halda því fram að ég og mitt fólk höfum ekki unnið að heilindum í einu og öllu við uppbyggingu og síðan við það að reyna að bjarga félaginu frá falli.“

Það er skoðun sem skiptastjórnar WOW air og hluti kröfuhafa félagsins deila ekki með stofnanda flugfélagsins.

Ítaleg fréttaskýringu um skýrslu skiptastjóra WOW air er hægt að lesa í Mannlífi í dag og á Kjarnanum.

Skál!

Samtökin ’78 vilja lögreglustjóra á fund vegna handtöku á Hinsegin dögum

Mynd: Hinsegindagar.is

„Samtökin ’78, Hinsegin dagar og Trans Ísland hafa óskað eftir fundi með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna handtöku í aðdraganda gleðigöngunnar s.l. laugardag.“ Þetta segir í færslu á Facebook Samtakanna.

„Félög hinsegin fólks líða hvorki ofbeldi né annað misrétti og leggja því áherslu á að mál þetta verðið skoðað ofan í kjölinn,“ segir í færslunni. „Það er allra hagur að hinsegin fólki finnist það geta leit að til lögregluyfirvalda og upplifi að tekið sé á þeirra málum af virðingu og nærgætni, en það hefur því miður ekki alltaf verið raunin. Þess vegna vilja félögin einnig ræða möguleg skref í von um að lögreglan verði hinseginvænni.”

Elínborgar Hörpu Önundardóttur, meðlimur samtakanna No Borders Iceland, var handtekinn á Gleðigöngunni í Reykjavík síðast liðinn laugardag. Ástæðan sem lögreglan gaf upp fyrir handtökunni er að Elínborg hafi óhlýðnast fyrirmælum. Þá hafi lögreglan grunað hana um að skipuleggja mótmæli í göngunni. Elínborg sagði í samtali við Vísi engin mótmæli hafi verið fyrirhuguð, hvorki af hennar hálfu né No Borders-samtökunum. Þá hafi ekkert legið að baki því að hún hafi verið handtekin, annað en það að lögreglan kannaðist við hana.

Oddviti Pírata fundaði með lögreglustjóra í dag

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, kallaði Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra Reykjavíkur, á fund ráðsins í dag. Fundurinn var haldinn í kjölfar kvartana yfir framgöngu lögreglu á Secret Solstice og Hinsegin dögum samkvæmt fréttatilkynningu frá Pírötum.

„Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar fer með eftirlit með því að mannréttindi og borgaraleg og lýðræðisleg réttindi borgarbúa séu virt þvert á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og á viðburðum með aðkomu Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningunni. „Því var ákveðið að fylgja þessum málum eftir með því að fá kynningu lögreglu og koma ábendingum á framfæri.“

Dóra Björt segir að „Virðing fyrir borgararéttindum er hornsteinn lýðræðisins. Lögreglan hefur einkarétt á beitingu valds gagnvart þegnum okkar lýðræðissamfélags og gríðarlega mikilvægt er að vel sé farið með það vald til að halda trausti borgarbúa á löggæslukerfinu og réttarríkinu sem slíku.“

Heldur skrá yfir allt sem er í frysti

Umhverfisvænn lífsstíll er tónlistarkonunni Hafdísi Bjarnadóttur hugleikinn.

 

„Það eru nokkur atriði sem ég geri mjög meðvitað og markvisst til að draga út matarsóun. Það fyrsta er að ég áætla alltaf aðeins of lítið í kvöldmat því ég vil frekar elda aðeins of lítið en bæta það þá frekar upp með eftirmat eða brauði eða einhverju slíku og þannig tryggja að það verði engir afgangar. En stundum geri ég akkúrat öfugt við þetta, elda risastóran skammt (sérstaklega ef ég á eitthvert hráefni sem ég þarf að fara að nota áður en það verður of seint) og ég frysti svo í passlegum skömmtum fyrir fjölskylduna.

Til að ég muni eftir að nota allt úr frystinum þá er ég með allt sem í honum er skráð í lista í tölvunni og svo stroka ég viðkomandi hlut út þegar ég tek hann úr frysti. Með þessu móti er ekkert sem dagar uppi í frystinum. Til að skapa pláss fyrir fleira síðar þá passa ég að taka í hverri viku eitthvað úr frystinum og hita það, ég hef meira að segja stundum verið með kerfi þar sem ég skrái í tölvuna hvað á að vera í matinn úr frysti langt fram í tímann.“

„il að ég muni eftir að nota allt úr frystinum þá er ég með allt sem í honum er skráð í lista í tölvunni…“

Hafdís mælir með að fólk noti frystinn á skapandi hátt. „Til dæmis ríf ég hvítlauk, set í krukku. Svo er um að gera að google-a bara hvort það sé sniðugt að frysta hitt og þetta, Netið lumar á ýmsum ráðum. Sömuleiðis er ég dugleg að google-a það hráefni sem ég á mikið af og finn þá sniðugar uppskriftir úr viðkomandi hráefni sem ég get stuðst við,“ útskýrir Hafdís.

Reglulega er hún svo með „afgangahlaðborð,“ í kvöldmat. „Þá notar maður sköpunargleðina til að búa til allskonar sniðugt úr hinu og þessu í ísskápnum. Kveikja á kerti og nota fína stellið og þá lítur þetta út eins og fínasta hlaðborð.“

Annað sem Hafdís kveðst gera er að taka box undir afganga með sér þegar hún borðar úti. Þá skoðar hún vel það sem er til í eldhúsinu áður en hún fer að versla og skipuleggur innkaupin eftir því.

Þess má geta að Hafdís stofnaði Facebook-hópinn Síðasti séns! „Sá hópur hefur reynst mjög vel. Meðlimir hópsins og verslunarstarfsmenn birta þar myndir af vörum sem eru á niðursettu verði vegna stutts líftíma til að við sem reynum að versla slíkar vörur vitum hvar þær er að finna. Stundum er verið að gefa vörur, einmitt þess vegna á ég nokkra skammta af blómkáls- og brokkólísúpu inni í frysti þar sem Krónan var að gefa útlitsgallað brokkólí fyrir stuttu síðan. Gott fyrir jörðina og frábært fyrir peningaveskið.“

Sjá einnig: Getum ekki borðað uppáhaldsmatinn okkar á hverjum degi

„Ég er ekki til­bú­in að gef­ast upp.“

„Á meðan við erum enn dæmd sek fyr­ir mein­særi stend­ur málið þannig að ríkið ber ekki ábyrgð á því gagn­vart okk­ur hvernig þessi rann­sókn var fram­kvæmd,“ segir Erla Bolladóttir við Morgunblaðið. Hún hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu sökum höfnunar endurupptökunefndar á beiðni um upptöku á dóm hennar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

 

Sjá einnig: Þögn Katrínar meiðir meira

Erla var dæmd fyrr meinsæri ásamt tveimur öðrum. Hinir sakborningarnir hafa fengið mál sín tekin upp og voru allir sýknaði af sakfellingu fyrir manndráp „Þangað til þetta hef­ur verið leiðrétt er þetta mál ekki búið, hvorki fyr­ir okk­ur, fjöl­skyld­urn­ar okk­ar né ís­lensku þjóðina. Ég er ekki til­bú­in að gef­ast upp,“ segir Erla við Morgunblaðið. Hún er eini aðili málsins sem gert er að una við dóm sinn óbreyttan.

Sjá einnig: Erla Bolladóttir ósátt: „Af hverju forðast menn að ræða sjálfa rannsóknina“

Erla fundaði með Katrínu Jakobsdóttur í lok síðasta árs og hefur síðan beðið frekari viðbragða yfirvalda.  Í samtali við Mannlíf síðastliðinn maí lýsti Erla yfir vonbrigðum með aðkomu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni VG, að málinu. „Ég er sár út í Katrínu. Ég fylltist von um að nú kæmi einhver niðurstaða sem mundi feykja skýjunum frá sólinni,“ sagði Erla.

Sjá einnig: Er ekki kominn tími til að draga rétt fólk fyrir dómsstóla?

Þá ræddi hún fund sinn og forsætisráðherra við Mannlíf. „Ég hitti Katrínu og reifaði þau mál sem þurfti og það var fínt að tala við hana. Hún sagði reyndar í upphafi fundar að hún vildi að við hittumst aftur í lok janúar því þá ætlaði hún að geta útskýrt fyrir mér stöðuna. Seinna á þessum fundi ítrekaði hún að við hittumst aftur í lok janúar. Þann sjöunda febrúar sendi ég henni tölvupóst og sagðist vera orðin langeyg eftir fundinum til þess að geta ákveðið næstu skref. Ekkert svar. Í fyrri hluta mars sendi ég aftur póst og sagði að enn hefði ég ekkert heyrt. Var vissulega orðin sár og að reyna að skilja hverju sætti að mér væri ekki svarað. Enn hef ég ekkert heyrt.

Ef þú biður einhvern fyrirgefningar en heldur svo áfram að sparka í viðkomandi, er það þá marktæk fyrirgefningarbeiðni? Þetta tvöfalda siðferði að biðjast fyrirgefningar en halda svo öllum á stað sem heldur áfram að meiða og særa viðkomandi. Að halda þessu svona vofandi yfir þeim sem hafa mátt þola allt sem á undan er gengið er framkoma sama eðlis og við höfum alla tíð mátt þola af hálfu þessa kerfis.“

Hún sagði málinu ekki ljúka fyrr en hún, Sævar og Kristján hafi öll verið sýknuð af röngum sakargiftum. „Enginn vilji virðist hins vegar hafa verið í réttarkerfinu á neinu stigi málsins til að takast á við þá ábyrgð sem á því hvílir í þessu hörmulega máli.“

Fyrsta fjölskyldumynd Kardashian-West síðan Psalm fæddist

||
||

„Ég hélt að myndataka með þremur börnum væri erfið en guð minn góður þetta var nánast ómögulegt,” skrifar Kim Kardashian West við fjölskyldumynd sem hún birti á Instagram í gær.

Myndin sýnir hana ásamt börnunum sínum í fjölskyldufríi á Bahamas. Þetta er fyrsta fjölskyldumyndin sem Kim deilir síðan yngsti sonur hennar og Kanye West bættist í hópinn. Strákurinn, sem var skírður Psalm West í sumar, fæddist í maí síðast liðinn og er fjórða barn þeirra hjóna.

Fyrir eiga þau börnin North, Saint og Chicago West. Kim gekk sjálf með North og Saint en báðar meðgöngur reyndust erfiðar. Staðgöngumóður gekk með Chicago og Psalm. Hér að neðan má sjá Instagram-færslu Kim.

Brexit átti að færa Bretum völd yfir eigin málum en Finnar taka nú ESB ákvarðanir fyrir þá

|
Mynd: Sendiráð Bretlands í Tokyo Japan

Finnland kemur til með að ráðstafa atkvæðum Bretlands innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að ósk Boris Johnson, forsætisáðherra Brelands. Ástæðan er ákvörðun Boris um að hætta þátttöku á fundum sambandsins.

Í aðdraganda kosninga um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu héldu stuðningsmenn úrsagnar því fram að Brexit snérist um aukið sjálfstæði og heimastjórn Bretlands. Nýjasta vending þess er þó að evrópskt ríki fari með bresk atkvæði. Sú tilhögun er þó tímabundin.

Samkvæmt breska blaðinu Independent er þetta hluti af áætlunum Boris um útgöngur úr Evrópusambandinu í lok október. Hann vilji sýna stuðningsmönnum Brexit að honum sé alvara. Fram að útgöngu er Bretland þó fullgildur meðlimur með atkvæðisrétt.

Atkvæðisrétturinn fer til Finnlands sem gegnir formannsembætti sambandsins út desember 2019. Samkvæmt tilkynningu er þetta gert til að „leyfa starfsemi Evrópusambandsins að halda áfram án raskana.” Ákvörðunin getur þó haft verri afleiðingar fyrir Bretland. Ríkisstjórn Bretlands mun ekki geta haft neitt að segja um nýjar reglugerðir. Þá gætu þær haft áhrif á Bretland um óákveðinn tíma.

Tytti Tuppurainen, Evópuráðherra Finnlands, tekur nú ákvarðanir fyrir Bretlands hönd um hvernig bresk atkvæði falla í starfi framkvæmdanefndar ESB.
Mynd: CC BY 2.0 BMEIA/ Eugénie Berger

Tytti Tuppurainen, Evrópuráðherra Finnlands, segir við Helsinki Times að forsætisráðherra Bretlands hafi óskað eftir því að Finnar fari með atkvæði Bretlands á fundum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Guardian birti á miðvikudag „óopinbert bréf“ þar sem bresk yfirvöld lýsa yfir fyrirætlan sinni að taka ekki fullan þátt í pólitískri starfsemi Evrópusambandsins. Þar er Finnland beðið um að fara með atkvæði Bretlands og nýta með þeim hætti að Sambandið geti hugað að framtíðinni og komið sé í veg fyrir að fjarvera Bretlands trufli slíka fyrirætlanir.

Stjórnarandstöðuþingmenn í Bretlandi hafa gagnrýnt ákvörðun ríkisstjórnar Boris Johnson um að mæta ekki til funda nema að slíkt sé sérstaklega aðkallandi enda sé það Bretlandi í hag að fylgjast með störfum sambandsins með þátttöku fram á síðasta dag.

60´s klassík í hráan pönkrokkbúning

Rokkdúettinn Velvet Villain var að senda frá sér nýtt lag, Bus Stop.

Lagið er pönkrokkuð ábreiða af laginu The Hollies. „Okkur langaði að taka 60’s-klassík og skella í hráan pönkrokkbúning, segja meðlimir dúettsins þau Gauti og Salka. „Við ákváðum að leika okkur svolítið á meðan við værum að klára næsta lag, Wicked Love, og myndbandið við það sem við erum að vinna með Árna Gylfasyni.“ En næsta lag dúettsins er væntanlegt strax í næstu viku.

„Hin sanna Thelma komin í ljós“

Thelma Ásdísardóttir varð landsþekkt þegar Gerður Kristný skráði sögu hennar. Síðan hefur hún unnið ötullega að því að hjálpa brotaþolum ofbeldis. Hún hefur þó ekki eingöngu tekist á við andlegar afleiðingar ofbeldisins en síðastliðið eitt og hálft ár hefur hún einbeitt sér að því að koma líkamanum í form og árangurinn er ótrúlegur, 74 kíló horfin og líðan hennar er betri en nokkru sinni fyrr.

„Ég er búin að vera að gera alveg helling fyrir sjálfa mig,“ segir Thelma og ljómar öll. „Ég var lengi í mikilli ofþyngd, var bara vel feit og hef aldrei verið feimin við að viðurkenna það, lít ekki á það sem neina skömm. Fyrir mér var þetta bara staðreynd; ég var feit og þurfti að taka á því.“

Thelma á forsíðu 33. tölublaðs Vikunnar.

Hvað hún hafi gert til að koma líkamanum í betra horf segir Thelma að hún hafi tekið á nánast öllum þáttum sem hafi verið í ólestri.

„Ég hafði vitað það í nokkurn tíma að þetta væri verkefni sem kæmi að því að ég myndi fara í,“ segir hún. „Ég fann að líkama mínum leið ekki eins og honum átti að líða, hann var ekki í sínu rétta elementi. Þannig að ég undirbjó mig vel, gerði áætlun og ákvað að taka þetta í skrefum en ekki kasta mér í einhver glórulaus læti. Ég hafði prófað það áður og veit að svona kúrar og einfaldar töfralausnir virka náttúrlega bara alls ekki til lengdar þannig að ég skoðaði hvað virkar fyrir mig.“

Tók sykurinn út

Mynd / Hákon Davíð

Beðin að útlista það hvað nákvæmlega hún hafi verið að gera er Thelma snögg til svars, enda segir hún að sér finnist óskaplega gaman að tala um þá leið sem hún hefur farið.

„Fyrsta skrefið var að auka vatnsdrykkju,“ útskýrir hún. „Ég hef reyndar alltaf verið dugleg við að drekka vatn en ég ákvað að halda betur utan um það. Svo fór ég að ganga og ég gleymi aldrei fyrsta göngutúrnum sem var um það bil fjögur hundruð metrar, því eftir hann leið mér eins og ég hefði klifið fjall. Núna geng ég hiklaust tíu kílómetra á dag án þess að finna fyrir því, þannig að ýmislegt hefur breyst.“

Fyrsta skrefið í nýjum lífsháttum tók Thelma í febrúar 2018, fyrir einu og hálfu ári, en það er ár síðan hún tók sykurinn út og hún segir að það hafi eiginlega verið fyrst þá sem hún fór að sjá verulegan mun á sér. „Þegar þetta var allt komið saman, fastan, sykurleysið og hreini maturinn, fóru stórir hlutir að gerast,“ segir hún. „Síðan ég tók sykurinn út hafa 63 kíló farið en í heildina eru farin 74 kíló, þannig að það er farinn heill karlmaður af konunni.“

Þetta og margt fleira segir Thelma í áhugaverðu forsíðuviðtali í nýjustu Vikunni.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Hildur Emilsdóttir

 

Nói-Síríus ekki lengur alíslenskt

|
|

Orkla ASA hefur keypt 20% hlut í Nóa-Síríus ehf. Í tilkynningu Orkla segir að Nói-Síríus sé leiðandi í salgætisframleiðslu á Íslandi og eigi fjölda vel þekktra vörumerkja. Nóa Konfekt, Nóa Kropp, Nóa Páskaegg og Konsum eru nefnd sem dæmi. Þá kemur fram að 70% tekna Nóa-Síríus komi frá sölu á innanlandsmarkaði.

Orkla er stórt matvælafyrirtæki og skráð á hlutabréfamarkað í Noregi. Fyrirtækið er með starfsemi á Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum og Mið-Evrópu sem og Indlandi. Stafsemi Orkla teigir sig frá smásölu til matvælaframleiðslu, lyfjasölu og bakarí og brauðgerða. Velta þess í fyrra var í kringum 600 milljarðar íslenskra króna og eru starfsmenn þess rúmlega 18 þúsund. Nói Síríus er töluvert minna fyrirtæki. Með um 150 starfsmenn og veltu upp á 3,5 milljarða.

Samkvæmt samkomulagi um kaupin verður kaupverð ekki gefið upp. Þá hefur Orkla heimild til að kaupa upp allt hlutafé eftir 2020.

Stútur undir reiðhjólastýri

Ölvaður og alblóðugur innbrotsþjófur var handtekinn í Mosfellsbæ af lögreglu á miðnætti í gær. Maðurinn er grunaður um innbrot og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu meðal annars með því að neita að gefa upp nafn sitt. Þá segir í tilkynningu lögreglu að maðurinn hafi haft í hótunum við lögregluþjóna. Klukkustund fyrir innbrotið hafði yfirvaldið afskipti af manninum er hann hjólaði á ljósastaur.

Maðurinn var blóðugur í andliti þegar lögregla handtók hann sökum þess að hann hafði slasast töluvert í samskiptum sínum við ljósastaur í borginni.

Slysið átti sér stað í Breiðholti. Maðurinn var talsvert ölvaður við hjólreiðarnar. Hann hlaut áverka á andliti en vildi enga aðstoð frá sjúkrabifreið sem kom á vettvang.  Maðurinn var beðinn að leiða hjól sitt eða skilja það eftir vegna ástands hans.

Framtíðarsýn

 

Maður án framtíðarsýnar mun alltaf fara baka til fortíðar segir frægt máltæki. Upphafsspurning hvers ferðalags er gjarnan hvert er förinni heitið. Það er hægt að láta sig fljóta niður ána án áfangastaðar, en í því er jafnframt fólginn ákveðinn galdur. Líklega liggur sannleikurinn í jafnvæginu. Hafa augun á áfangastað og hafa til þess árar, en á sama tíma hafa þann hæfileika að fljóta með straumnum án mikillar mótstöðu þegar hann tekur yfir.

Í íslenskum stjórnmálum skortir framtíðarsýn. Að minnsta kosti er hún ekki sýnileg í fréttum og í umræðum manna á milli. Í aðdragana kosninga blasir við að fólk er iðulega að greina á um útgjaldaliði t.d. hver eigi að vera ríkisframlög til opinbers reksturs eins og heilbrigðismála, hver eigi að vera skattprósenta innan kerfis sem við þegar höfum og um hver gerði hvar og hvernig í fortíðinni. Kosningaloforð sem byggja á fjármunum í víðara samhengi eru jafnframt býsna algeng. Ef einhverja framtíðarsýn er að finna nær hún iðulega til eins kjörtímabils.

Mannkynið stendur nú á tímamótum. Í fyrsta lagi, loftslagsbreytingar sem munu raungerast með mun meiri afgerandi hætti á næstu árum og áratugum. Vísindamenn hafa búið til ýmis spálíkön og engin af þeim mála fallega mynd þar sem jörðin dafnar. Efnahagsleg áhrif ein og sér verða talsverð, fyrir utan áhrifin á auðlindir og náttúru jarðar, aukningu flóttamanna, fæðuöryggi og matvælaframleiðslu og svona má lengi telja – en talið er að hagvöxtur geti dregist saman allt að 10% við lok þessara aldar.

Í annan stað er það tæknivæðing með innkomu gervigreindar og vélmenna, en sjálfvirknivæðing mun hafa í för með sér verulegar breytingar á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu sem kom út snemma þessa árs er því spáð að 28% starfa hér á landi taki verulegum breytingum eða hverfi alveg og um 58% starfa verði fyrir miklum breytingum. Heimspekingar verða líklega eina stéttin sem mun hafa meira að gera en áður þar sem erfitt er að forrita vélmenni með sans fyrir gráu svæðunum í lífinu þ.e. a. s. þessum erfiðu ákvörðunum þar sem stöndum frammi fyrir þar sem svörin eru ekki alltaf einhlít.

En spurningin er: Hvert erum við að fara? Hvernig samfélag ætlar Ísland að vera? Hvaða atvinnuvegi ætlum við að leggja áherslu á fyrir utan þessa hefðbundnu? Ætlum við að skipuleggja til langs tíma, í sameiningu? Taka forystu og vera leiðtogar eða fljóta með straumnum og bíða eftir að ferðamenn komi til landsins eða makríll syndi inn í lögsöguna. Við verðum kannski alltaf jafn heppin. Ætlum við að vera í stöðugu viðbragði – eins og hefur einkennt íslensk stjórnmál um langt skeið – eða ætlum við að sýna forsjálni.

Tæknivæðing og loftslagsbreytingar krefjast langtímahugsunar. Það er áskorun í sjálfu sér. Grænar, sjálfbærar lausnir eiga að vera rauði þráðurinn – skulum við segja græni þráðurinn – í athöfnum hins opinbera í dag og til framtíðar. Sjálfbærni á að móta allar ákvarðanir hins opinbera og stuðningur við sjálfbæran lífstíl skal vera leiðarljósið í hvívetna. T.d. skulu fjárlög byggja á því og aðrar lagasetningar. Hvernig væri að nýta sjálfvirknivæðinguna og tækni til góðs? Til að hjálpa jörðinni og okkur. Löggjafinn og stjórnvöld hafa öll þessi tæki til að stýra samfélaginu og markaðnum. Að sama skapi eru margar góðar stefnur sem hvíla í skúffum stjórnvalda sem má dusta rykið af, t.d. um græna hagkerfið. Í nýrri aðgerðaráætlun stjórnvalda í umhverfismálum er t.d. ekki minnst á fjármálamarkaðinn eða reglusetningar á því sviði í tengslum við sjálfbærar fjárfestingar. Atvinnulífið er nú samt að mestu leyti knúið áfram af fjárfestingu. Ég kalla eftir mun breiðari framtíðarsýn en nú er boðið upp á og að við krefjum stjórnmálamenn frekari svara um hvert við stefnum.

Ekkert til sem heitir brjálaða kattakonan

Brjálaða kattakonan í Simpsons-þáttunum er líklega ein þekktasta staðalímynd þessarar mýtu.

Ný bandarísk rannsókn leiðir í ljós að brjálaða kattakonan er mýta. Ekkert bendi til þess að þeir sem eigi fjölda katta glími við einhvers konar geðraskanair, kvíða eða depurð.

CNN greinir frá niðurstöðum rannsóknarinnar sem gerð var af vísindamönnum við UCLA háskóla sem rannsökuðu yfir 500 gæludýraeigendur. Í rannsókninni var fylgst með hvernig eigendurnir brugðust við hegðun dýranna og skoðað hvort fylgni væri á milli gæludýraeignar og geðheilsu. „Við fundum ekkert sem styður mýtuna um kattakonuna. Kattaeigendur eru ekkert öðruvísi en aðrir hvað varðar þunglyndi, kvíða eða reynslu af nánum samböndum,“ segir í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Merkilegt nokk þá er þetta ekki fyrsta vísindalega rannsóknin á þessu efni því árið 2017 komust vísindamenn við University College London að sömu niðurstöðu.

Mælir með að stunda „dumpster diving“

Ásta Rún Ingvadóttir, nemi í Menntaskólanum í Reykjavík, brennur fyrir umhverfismálum og reynir hvað hún getur að sóa engum mat.

Aðspurð hvaða ráðstafanir hún hafi gert til að draga úr matarsóun segir Ásta Rún: „Fyrst og fremst reyni ég að vera meðvituð um það sem er til heima. Ég reyni að vera skipulögð og plana máltíðir eftir því sem er til hverju sinni. Það er gott að hafa góða yfirsýn og nota hugmyndaflugið til að skapa eitthvað nýtt úr afgöngum.“

Ásta er þeirrar skoðunar að fólk mætti almennt vera meira meðvitað um þau neikvæðu umhverfisáhrif sem sóun matvæla hefur í för með sér. „Það hafa margar jákvæðar breytingar átt sér stað en það mættu allir fara að líta þetta alvarlegri augum og girða sig í brók hvað neysluvenjur og hugarfar varðar.“

Spurð hvort hún lumi á góðum ráðum fyrir þá sem vilja bæta sig og draga úr matarsóun svarar Ásta Rún játandi. „Já, notið hugmyndaflugið til að töfra fram eitthvað úr matvælum sem eru á síðasta snúningi. Frystið allt sem er að skemmast, kryddjurtir, afganga, sósur og annað. Og svo mæli ég eindregið með að stunda svokallað „dumpster diving“ og þannig nýta þann óskemmda mat sem matvöruverslanir henda.“

Sjá einnig: Hættur að taka mark á „best fyrir“ dagsetningum

Raddir