Pabbi elskaði klassíska tónlist. Hann var arkitekt og rak stofuna sína frá efri hæðinni heima hjá okkur og ef Gamla gufan var ekki á hlustaði hann á Bach, Mozart, Beethoven – og auðvitað Ravel.
Ég man enn þá þegar ég heyrði Boléro eftir Ravel í fyrsta sinn uppi á stofunni hans heima. Ég var lítið í klassískri tónlist en kolféll fyrir verkinu – sama endurtekna stefinu spiluðu aftur og aftur í magnaðri stigmögnun. Þetta var snemma á tíunda áratugnum, ég var á kafi í eletróník, en einhvern veginn tókst mér að finna samhljóm á milli þess og tónverksins.
Um daginn spilaði ég Boléro fyrir rúmlega árs gamlan son minn. Ég held að hann hafi kunnað að meta það, þótt hann sýndi reyndar símanum sem spilaði það meiri áhuga og reyndi ítrekað að borða hann. En að hlusta á fimmtán mínútna langt tónverkið með son minn í fanginu kom af stað alls kyns minningum um pabba, um hvernig hann elskaði að sitja á arkitektastofunni sinni að vinna með klassíska tónlist undir, og þegar hann setti Boléro á var það eins og lítil athöfn. Hann hækkaði vel í græjunum svo ég heyrði tónlistina niður í herbergið til mín. Á þeirri stundu varð hann unglingurinn á heimilinu.
Á meðan ég hélt á syni mínum og hlustaði á Boléro og hugsaði um pabba leið mér eins og við þrír værum tengdir, jafnvel þótt pabba hefði ekki gefist tækifæri til að kynnast syni mínum, og jafnvel þótt syni mínum gæfist aldrei tækifæri til að kynnast afa sínum, þeim yndislega manni. Ég komst við og hugsaði um tímann, um hringrásina, um kynslóðir og endurtekninguna og tónlistina sem brúar bilið. Þegar strákurinn minn brosir sé ég stundum brosið hans pabba, því allt fer í hringi, lífið og dauðinn, eins og lúppan í Boléro.
Kryddlegið kjöt í pakkningum tilbúið til eldunar á grilli er áberandi í verslunum yfir sumartímann og afar handhægt að grípa með sér og skella á grillið. Fiskur er ekki jafnáberandi en samt sem áður er hann sérlega ljúffengur grillaður.
Best er að grilla stinnan fisk ef hann er settur beint á grillteinana. Þá henta vel fisktegundir eins og hlýri, langa, bleikja, lax, steinbítur, keila, skötuselur eða lúða. Grindin þarf að vera vel heit og olíuborin og síðan er fiskinum skellt á grindina. Dýrindis máltíð á góðum sumardegi með salati og léttri sósu.
Steinbítur með kóríander- og límónusmjöri fyrir 3-4
1 tsk. paprikukrydd
1 tsk. hvítlauksduft
1 tsk. laukduft
1 tsk. timjan
1 tsk. óreganó, þurrkað
1 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar eftir smekk
600 g steinbítur, í bitum
1 msk. ólífuolía til að pensla með
2 límónur í bátum til að bera fram með fiskinum
Blandið öllu kryddinu saman og kryddið fiskinn. Einnig má nota tilbúið fiskikrydd að eigin vali. Smyrjið grindina vel og setjið fiskinn á meðalheitt grillið. Grillið í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Þegar eggjahvítan úr fiskinum er farin að sprautast út er hann tilbúinn. Berið fram með smjörinu, límónusneiðum og góðu salati eða kartöflum.
Kóríander- og límónusmjör
4 msk. smjör, kúfaðar, við stofuhita
2 hvítlauksgeirar, marðir
safi úr ½ límónu
2 msk. kóríander, smátt saxað
Mýkið smjörið aðeins í örbylgjuofni ef það er ekki við stofuhita en alls ekki bræða það. Blandið hvítlauk, safa og kóríander saman við og hrærið með gaffli. Búið til litla rúllu úr smjörinu og vefjið plastfilmu utan um og setjið í kæli í að minnsta kosti 15 mínútur. Ef ekki er tími til þess má kæla smjörið í nokkrar mínútur og bera það fram í skál með fiskinum.
Magga Stína flytur úrval laga við ljóð Halldórs Laxness auk laga eftir Megas á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins í dag, sunnudaginn 18. ágúst.
Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir hvern sunnudag frá júní til 25. ágúst og hefjast þeir klukkan 16. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2.500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.
Stór hópur fólks býr því við þröngan kost og óöryggi í húsnæðismálum. Sá hópur er ólíklegastur til að njóta góðs af betri lánakjörum og lántökuskilyrðum sem boðist hafa á síðustu árum.
Eigið fé landsmanna í fasteignum tæplega þrefaldaðist á árunum 2010 til 2017, og var 3,174 milljarðar króna í lok þess síðarnefnda. Þrennt orsakar þessa miklu hækkun. Stærsta ástæðan er sú að fasteignaverð rúmlega tvöfaldaðist á tímabilinu. Þá hafa ríki og fjármálafyrirtæki ráðist í alls kyns sértækar aðgerðir sem hafa fært háar fjárhæðir til þeirra sem eru á eigendamarkaði. Þá hefur verðbólga haldist lág yfir langt tímabil og lánakjör samhliða batnað umtalsvert. Allt þetta hefur gagnast þeim sem eiga húsnæði, eða geta komið sér í stöðu til að kaupa slíkt, en gerir stöðu hinna sem sitja eftir að sama skapi verri.
Tölur benda til þess að þessar aðstæður hafi gert aðgengi hluta fyrstu kaupenda inn á markaðinn betra og í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs kom fram að fyrstu íbúðakaupendum hefði fjölgað meira en annars konar íbúðakaupendum frá árinu 2009 og að á öðrum ársfjórðungi 2019 hefðu þeir verið 27,7 prósent.
Í skýrslu sem velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður birtu í lok október í fyrra kom hins vegar fram að heilt yfir væri staða húsnæðismarkaðarins hér á landi ólíðandi vegna verðsveiflna sem eru á honum, og orsakast meðal annars af auknu lánaframboði. Þær sveiflur bitna mest á lágtekjufólki sem verji stærri hluta tekna sinna í húsnæðisútgjöld, sérstaklega á leigumarkaði, en aðrir samfélagshópar.
Mikill skortur hefur verið á húsnæði hér á landi, mikil fólksfjölgun hefur átt sér stað undanfarin ár vegna mikillar fjölgunar á erlendum ríkisborgurum sem hafa flutt hingað til lands til að starfa, en á sama tíma hefur fjöldi byggðra íbúða verið undir langtímameðallagi. Stór hópur fólks býr því við þröngan kost og óöryggi í húsnæðismálum. Sá hópur er ólíklegastur til að njóta góðs af betri lánakjörum og lántökuskilyrðum sem boðist hafa á síðustu árum.
„Það er engan stuðning að fá frá fjölskyldu minni,“ segir Heiða Þórðardóttir, systir Gísla Þórs Þórarinssonar sem skotinn var af bróður þeirra, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni í Noregi fyrr á þessu ári. Hún segir atburðinn hafa tvístrað fjölskyldunni.
Þrátt fyrir þessa miklu sorg og vanlíðan segist Heiða ekki hafa leitað sér áfallahjálpar eða sálfræðiaðstoðar, hún hafi haldið að hún kæmist í gegnum þetta hjálparlaust. Það hafi sennilega verið ofmat á eigin getu.
„Það er engan stuðning að fá frá fjölskyldu minni,“ segir hún. „En hins vegar hef ég fengið ótrúlegustu hjálp frá alls konar fólki sem jafnvel þekkir mig ekki neitt. Ég er líka mikið í félagsstörfum, er í stjórn stjórnmálaflokks og þar að auki samfrímúrari og þaðan hef ég fengið mestu hjálpina. Þau komu færandi hendi með blóm og fallegar kveðjur og vilja allt fyrir mig gera. En að öðru leyti hef ég ekki fengið neina hjálp.“
Þau fordæma hann öll og sumir hafa skrifað virkilega ógeðslega hluti um hann á Facebook…
Aðrir í fjölskyldunni hafa tekið harða afstöðu gegn Gunnari og fordæmt hann fyrir verknaðinn, að sögn Heiðu, og atburðurinn hefur tvístrað fjölskyldunni enn frekar.
„Þau fordæma hann öll og sumir hafa skrifað virkilega ógeðslega hluti um hann á Facebook, meira að segja fólk sem er óvirkir alkóhólistar og ætti að hafa skilning á því að fíkill undir áhrifum alls kyns efna fremur einhvern viðbjóð þegar hann er ekki með sjálfum sér. Mér hafa sárnað þessi ummæli óskaplega. Dómharkan var svo svaðalega mikil án þess að fólk vissi neitt um málið eða tildrög þess. Enginn reyndi að setja sig í spor Gunnars eða reyna að skilja hversu hræðilega illa honum leið eftir að hafa upplifað þessi svik frá konunni sem hann elskaði og bróðurnum sem hann leit á sem besta vin sinn. Mér finnst það ófyrirgefanlegt að dæma svona án þess að hafa neinar forsendur.“
Lík Gísla var flutt heim, sem olli líka átökum innan fjölskyldunnar, og jarðarförin fór fram hér. Heiða segist hafa barist fyrir því að fá hann heim en ýmsir aðrir innan fjölskyldunnar hafi viljað láta brenna líkið í Noregi og flytja öskuna heim til að spara kostnað. Þegar til kom hafi Icelandair flutt hann ókeypis sem hún sé mjög þakklát fyrir, svo þetta hafi ekki snúist um kostnað þegar upp var staðið. Þessi átök hafi hins vegar kostað það að hún hafi ekki treyst sér til að vera við jarðarförina.
„Ég vildi fá hann heim í heilu lagi svo ástvinir hans gætu kvatt hann,“ útskýrir hún. „Ég hafði það í gegn og hann fékk þá jarðarför sem hann hafði óskað eftir, Liverpool-söngurinn You Never Walk Alone var spilaður og fleira. Síðan var hann brenndur að eigin ósk. Ég hins vegar gat alls ekki fengið mig til að fara í jarðarförina, ég hafði bara ekki heilsu í það, var ekkert búin að borða í marga daga, með svimaköst og stöðugt grátandi. Ég komst líka að því að maður sem tengist fjölskyldunni hafði verið að skrifa alls konar óhróður um mig í Facebook-grúppu sem margir vina minna voru í. Ég ætla ekki að gefa þeim orðum líf með því að endurtaka þau en ég gat bara ekki hugsað mér að láta þetta fólk sjá mig brotna saman. Ég kvaddi bróður minn bara ein með sjálfri mér.“
Allt viðtalið við Heiðu, sem birtist fyrst í Mannlífi, má lesa hér.
Það verður risastórt teknópartí í Mengi á morgun, laugardaginn 17. ágúst.
Skemmtileg dagskrá og við mælum með að fólk mæti snemma. Motorik-keppni, nýtt sellóverk, öfugur stólaleikur, leiddur áfram að noise-hljómsveitinni Njóla og Teenage lightning. Frítt er inn og hefst fjörið klukkan 19.
Framganga Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna hefur vakið verðskuldaða eftirtekt á alþjóðavettvangi. Ísland var þar í fararbroddi þjóða sem gagnrýndu Sádi-Arabíu fyrir svívirðileg mannréttindabrot og vöktu sömuleiðis athygli á kerfisbundnum aftökum án dóms og laga á Filippseyjum. Allt saman til fyrirmyndar.
Íslensk stjórnvöld vinna nú að undirbúningi fyrir heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands. Heimsókn þessi er gráupplagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að sýna að þau láta mannréttindabrot í heiminum ekki afskipt, sama hvar þau eru framin. Þess vegna er heimsókn Mike Pence mikið fagnaðarefni.
Forsætisráðherra og utanríkisráðherra gætu til dæmis byrjað á því að fordæma stefnu Bandaríkjanna í innflytjendamálum. Annars vegar hvernig forseti Bandaríkjanna kyndir undir rasisma og notar hvert tækifæri til að jaðarsetja alla þá hópa sem ekki eru hvítir á hörund og hins vegar viðurstyggilega framkomu ICE (innflytjendastofnunarinnar) gagnvart innflytjendum og flóttamönnum. Daglega má lesa fréttir um hvernig flóttamenn eru látnir hafast við í ömurlegum aðstæðum, þeir geymdir í búrum og börn aðskilin frá foreldrum sínum. Fulltrúar ICE keyra svo um götur borga og bæja og handsama alla þá sem mögulega gætu verið ólöglegir innflytjendur, jafnvel í viðurvist barna þeirra, og halda þeim í einangrun svo dögum skiptir.
Heimsókn þessi er gráupplagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að sýna að þau láta mannréttindabrot í heiminum ekki afskipt, sama hvar þau eru framin.
Ísland hefur löngum stært sig af því að vera í fararbroddi ríkja heims þegar kemur að kvenfrelsi og kynjajafnrétti og þar ættu íslenskir ráðamenn að geta leiðbeint varaforsetanum um eitt og annað. Nokkur ríki Bandaríkjanna eru kerfisbundið að þrengja að rétti kvenna til þungunarrofs og notkun getnaðarvarna og útlit fyrir að í sumum ríkjum verði lagt blátt bann við þungunarrofi. Þessi stefna, sem er runnin beint úr smiðju Mike Pence og skoðanabræðra hans í Repúblíkanaflokknum, kemur vitaskuld verst niður á fátækum og minnihlutahópum. Ekki væri verra ef íslenskir ráðamenn myndu minnast á kerfisbundna mismunun gegn LBGT-fólki innan bandaríska hersins og í leiðinni sýnt honum myndir frá gleðinni sem einkennir hinsegin daga.
Listinn gæti vafalaust verið lengri. Það mætti til dæmis nefna hvernig forseti Bandaríkjanna reynir kerfisbundið að grafa undan frjálsri fjölmiðlun í landinu, hvernig stefna Bandaríkjanna í loftlagsmálum ógnar framtíð komandi kynslóða um allan heim eða hvernig galið byssublæti Bandaríkjamanna verður þúsundum að bana á ári hverju. Nú eða gegndarlausan fjáraustur til Sádi-Arabíu til að fjármagna grimmilegt og tilgangslaust stríð í Jemen á kostnað þúsunda óbreyttra borgara. Tilefnin eru ærin.
Ætli íslensk stjórnvöld að vera samkvæm sjálfum sér og sýna að þeim er alvara með málflutningi sínum í ráðinu þá er óhjákvæmilegt að þessi mál verði á dagskrá heimsóknarinnar. Bandaríkin eru einn okkar helsti bandamaður á sviði efnahags-, öryggis- og varnarmála og við viljum flest að þau verði frábær aftur, sú vagga frelsis og lýðræðis sem þau gefa sig út fyrir að vera. En stefna núverandi Bandaríkjastjórnar er með öllu óboðleg og samræmist í engu þeim gildum sem okkur er umhugað um – mennréttindi, lýðræði og frelsi. Og ef íslensk stjórnvöld ætla að láta þessa stefnu óátalda, þá getur almenningur alltaf sagt sína skoðun á þann hátt að hún fari ekki framhjá varaforsetanum.
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og dálkahöfundur, hefur marga fjöruna sopið um ævina og við fengum hana til að deila nokkrum staðreyndum um sjálfa sig.
1. Ég er mikið vísindaskáldsögu-, fantasy- og tölvuleikjanörd. Ég hef spilað tölvuleiki svo lengi sem ég man eftir mér en fíla mest tölvuleiki á borð við Mass Effect og Dragon Age-seríurnar. Ég er líka mass spunaspilanörd og nefni leiki eins og Dungeons & Dragons, Warhammer Fantasy og Star Trek Roleplay.
2. Ég elska raunveruleikasjónvarp og horfi á allt sem ég kemst í. Því skelfilegra því betra. Ég dýrka til dæmis The Real Housewives-seríurnar, enda fátt betra en að horfa á sjúklega ríkt fólk öskra á hvert annað út af því að einhverjum var ekki boðið í teiti.
3. Ég er alin upp í sveit og foreldar mínir eru með kúabú, kindabú og hestastóð, ásamt hundum og köttum. Ég hef alltaf verið mikill dýravinur og varði miklum tíma sem barn að leika við dýrin. Ég var eiginlega svolítið eins og gangandi Disney-mynd, þar sem dýr eltu mig hvert sem ég fór.
4. Ég gaf sjálfri mér loforð um að drekka ekki áfengi sem mér finnst vont á bragðið. Sem þýðir að ég drekk nánast ekkert. Það er mér fyrirmunað að skilja hvernig nokkur manneskja getur pínt sig til að drekka venjulegan bjór eða gin og tónik.
5. Ég er grænkeri – sem olli miklum erjum innan fjölskyldunnar og ég var sögð hafa eyðilagt jólin árið sem ég ákvað það. Viðbrögðin voru verri innan fjölskyldunnar heldur en þegar ég kom út sem trans. Þetta er nú samt allt í góðu núna svona fimm árum síðar.
Iðnaðarmálmdúettinn geðþekki, Sker, var að senda frá sér nýtt lag sem ber heitið Regnbogi reiðinnar. Lagið fjallar um áfallastreituröskun en margt getur haft áhrif á þann sem hefur lent í áfalli.
Lykt, hljóð, hlutir og jafnvel litir geta til dæmis verið orsökin. Regnbogi reiðinnar er kröftugt og vel rokkað lag sem fær hárin til að rísa á líkamanum. Hægt er að hlusta á lagið á albumm.is og mælum við eindregið með að þú tékkir á því.
Við mælum að sjálfsögðu með Hinsegin dögum en líkt og fyrri ár er Gleðigangan hápunktur Hinsegin daga og mun hún leggja af stað klukkan 14 frá Hallgrímskirkju.
Gengið verður eftir Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu við Hljómskálagarðinn þar sem taka við glæsilegir útitónleikar að göngu lokinni.
Þótt lyf hafi lækkað töluvert í verði á undanförnum tveimur áratugum er lyfjaverð enn ívið hærra en gengur og gerist á Norðurlöndum. Hægt er að lækka verð enn frekar en afar ólíkar skoðanir eru á hvort það standi upp á stjórnvöld eða markaðinn að taka skrefið.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti nýverið skýrslu um fyrirkomulag lyfsölu á Íslandi sem unnin var að beiðni velferðarráðuneytisins. Þar kemur meðal annars fram að töluverðar breytingar hafi orðið á þessum markaði frá því svæðabundin sérleyfi voru afnumin árið 1996. Lyfjaverð á Íslandi var þá, samkvæmt tölum OECD, afar hátt og var hárri álagningu heildsala og lyfsala meðal annars kennt um. Við breytinguna fjölgaði apótekum og þjónustan batnaði, segir í skýrslunni.
Þrátt fyrir að margt hafi áunnist eru lyf að jafnaði í dýrari kantinum miðað við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, þótt ekki muni miklu. Að hluta til stafar það af sérstökum aðstæðum á íslenskum markaði. Markaðurinn er smár, úrval af lyfjum er minna en víðast hvar annars staðar og það kostar að koma að nýjum lyfjum á markað. Þá eru strangar verðlagshömlur sagðar draga úr áhuga framleiðenda á að selja hingað lyf. Hins vegar er það þannig að lyf eru almennt dýrari í þeim löndum þar sem velsæld ríkir og er Ísland þar engin undantekning.
Vill auka veg samheitalyfja
Bæði stjórnvöld og lyfsalar eru sammála um að hægt sé að lækka lyfjakostnað enn frekar hér á landi. Hins vegar greinir þau á um hvaða leiðir eru best færar til þess. „Lyfjaverð út úr apótekum hefur lækkað um helming frá árinu 1996 sem er merkilegur árangur í ljósi þess að þjónustan er almennt góð, apótek eru fleiri en víða annars staðar og hér eru fleiri starfandi lyfjafræðingar en í nágrannalöndunum. Hér er því verið að gera hluti sem eru til eftirbreytni en skýrslan sýnir líka að það er hægt að gera betur,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju. Það sem stendur upp á lyfsala, segir Sigríður Margrét, er að beina sjúklingum enn frekar í átt að samheitalyfjum sem í flestum tilfellum eru mun ódýrari en frumlyfin. „Rúmlega helmingur þeirra lyfja sem við seljum eru ódýrustu samheitalyf og það blasir við að þar er hægt að gera enn betur. Það er hlutverk lyfjafræðinga og starfsmanna að uppfræða fólk um samheitalyf og þannig geta neytendur sparað umtalsverðar upphæðir, sérstaklega þeir sem nota lyf að staðaldri.“
„Ef við lögum þetta hlutfall og förum í sama flokk og önnur OECD-ríki myndi það skila sér í mun lægra lyfjaverði til sjúklinga.“
Sigríður Margrét telur einnig að stjórnvöld geti lagt sitt af mörkum til lækkunar lyfjaverðs. Bendir hún á að á Íslandi greiði neytendur tæplega 60 prósent af lyfjakostnaði úr eigin vasa. Innan OECD er hins vegar hlutfallið 40 prósent að meðaltali. „Ef við lögum þetta hlutfall og förum í sama flokk og önnur OECD-ríki myndi það skila sér í mun lægra lyfjaverði til sjúklinga. Við áætlum að kostnaður ríkissjóðs við þessar breytingar séu um tveir milljarðar á ári. Svo má líka benda á að hér á landi eru lyf í hæsta virðisaukaskattsflokki en víða annars staðar bera lyf lægri eða engan virðisaukaskatt. Stjórnvöld hafa þessi tvö tæki og þetta eru klárlega lóð sem stjórnvöld geta lagt á vogarskálarnar.“
Svigrúm til lækkunar hjá heildsölum og lyfsölum
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir skýrsluna draga fram að afkoma þeirra sem koma að lyfsölu sé góð. „Lyfsalar hafa verið að skila ágætum hagnaði, heildsalar hagnast betur en aðrir og afkoma lyfjadreifingaraðila er góð þótt hún hafi versnað upp á síðkastið. Þess vegna vekur skýrslan upp spurningar hvort það sé rými til lækkunar á álagningu á lyfjum miðað við þann hagnað sem fyrirtækin skila. Lækkun virðisaukaskatts er ekkert sem hefur komið til álita. Við hljótum að bíða með að auka framlög úr sameiginlegum sjóðum ef það er svigrúm hjá lyfsölum og heildsölum til lækkunar,“ segir Svandís.
Leikkonan Berglind Halla Elíasdóttir útskrifaðist af sviðslistabraut Listaháskóla Íslands í vor og tekur nú þátt í fyrstu stóru leiksýningunni sinni, verkinu We Will Rock You Ísland sem frumsýnt var í Háskólabíói í gær. Berglind er alin upp í Bolunarvík og segir það hafa gefið sér gott veganesti út í lífið.
„Ég sá prufurnar fyrir söngleikinn auglýstar á Facebook og fannst lítið annað koma til greina en að fara,“ segir Berglind. „Ég var ekkert gríðarlega bjartsýn eftir fyrstu prufuna en svo fékk ég „recall“, og annað, og að lokum símtal frá Vigni leikstjóra sem bauð mér hlutverkið. Ég leik Oz en hún er uppreisnarseggur sem berst gegn yfirvaldinu í heimi þar sem frjáls hugsun og listsköpun er bönnuð. Alger töffari og hörkutól. Svo datt ég inn í aukahlutverk sem kennari í upphafi verksins sem er gaman að leika sér með líka.“
Mikill söngur er í verkinu en Berglind byrjaði fyrst að læra söng í leiklistarnáminu. „Ég kem úr „syngjandi fjölskyldu“ ef svo má að orði komast og föðurættin er mjög músíkölsk sem hefur svolítið verið minn skóli í söng og framkomu í gegnum tíðina,“ segir Berglind sem á einnig að baki píanónám frá grunn- og menntaskólaárunum. Margir flottustu leik- og söngvarar landsins taka þátt í sýningunni og Berglindi finnst mikill heiður að starfa með þeim. „Ég, eins og svo margir, ólst upp við listina þeirra þannig það er mikill heiður að fá að vinna með og kynnast þeim. Það sama er að segja um alla aðra sem koma að sýningunni. Ótrúlega flottir og miklir fagmenn hérna og orkan geggjuð. Þetta er rosalega skemmtilegt.“
„Ég, eins og svo margir, ólst upp við listina þeirra þannig það er mikill heiður að fá að vinna með og kynnast þeim.“
Öðlaðist sjálfstæði að alast upp í litlum bæ
Berglind fæddist á Ísafirði og er alin upp í Bolungarvík. Foreldrar hennar búa fyrir vestan en Berglind og systkini hennar eru nú öll farin suður, eins og sagt er. „Ég var nokkuð aktívt barn, en með grunnskólanum lærði ég á píanó, spilaði fótbolta og æfði einnig samkvæmisdans í nokkur ár. Ég útskrifaðist svo sem stúdent af náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Ísafirði, 2012. Þar tók ég að sjálfsögðu þátt í leikfélagi skólans, MORFÍs, og skólakórnum en ég fór einnig í skiptinám í eitt ár til Frakklands. Eftir stúdentspróf flutti ég suður og bý núna í Laugardalnum með kærastanum mínum, Bolla Má Bjarnasyni. Það var frábært að alast upp í Bolungarvík. Mikið frelsi og maður varð snemma frekar sjálfstæður. Það er auðvitað takmarkað framboð af tómstundum og þess háttar í svona litlu samfélagi en maður fann lítið sem ekkert fyrir því. Það kallaði líka á frjótt ímyndunarafl – að finna sér eitthvað að gera og kunna að nota umhverfið sitt.“
Eftir stúdentsprófið fór Berglind í tannsmíði en hætti fljótlega. „Ég fór í tannsmíði því ég þekkti stelpu sem hafði klárað námið og talaði um hvað verklegi hlutinn væri skemmtilegur. Það hljómaði geggjað því ég hef alltaf haft gaman af handavinnu. Ég komst svo ekki í gegnum klásus um jólin og það reyndist vera ein besta höfnun sem ég hef fengið. Ég tók nokkra valáfanga á vorönn, kláraði árið og tók svo þá ákvörðun að fara ekki í nám um haustið og fór að vinna hjá leikskólanum Grænuborg.
„Ég fór í tannsmíði því ég þekkti stelpu sem hafði klárað námið og talaði um hvað verklegi hlutinn væri skemmtilegur.“
Frá því að ég man eftir mér sagðist ég ætla að verða leikkona eða listmálari. Málið er að ég beit það í mig þegar ég var unglingur að hugmyndin um að ég gæti orðið leikkona væri fráleit þar sem ég byggi í Bolungarvík – það væri bara fólk í Reykjavík sem gæti fetað þennan veg. Það útskýrir ágætlega ástæðuna fyrir fyrsta námsárinu í HÍ. Í Grænuborg kynnist ég Evu Jóhannsdóttur, góðri vinkonu minni í dag, sem kynnti mig fyrir Kvikmyndaskólanum og ég ákvað að fara í leiklist og kvikmyndagerð. Ég kláraði þar vorið 2016 og um haustið byrjaði ég svo í leikaranámi á sviðslistabraut Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu í vor.“
We Will Rock You Ísland var frumsýnt í Háskólabíói í gær og næstu sýningar verða á morgun og 23. ágúst. „Svo voru tvær aukasýningar að detta í hús sem er bara frábært. Sýnum þá einnig síðustu helgina í ágúst og fyrstu í september. Fram undan er síðan óvissan en örugglega eitthvað dásamlegt. Ég hlakka bara til að sjá hvað framtíðin hefur að geyma,“ segir Berlind að lokum.
Tónlistarmaðurinn Krummi Björgvinsson var að senda frá sér nýtt lag, Stories To Tell. Þetta er sveitarokk og segir Krummi að hann hafi ætíð verið mikill unnandi sveitatónlistar, rokks og blús af gamla skólanum.
„Sú tónlist hefur alltaf verið mín hjartans bæn,“ segir hann. „Allt mitt plötusafn er mestmegnis vínilplötur frá 40´s og 70´s. Þetta var tónlistin sem ég ólst upp við á mínu heimili í bland við hipparokk. Tónlist frá Sun Rec, Motown, Chess Rec og það var einnig mikið um Doo Wop-tónlist, sem ég gjörsamlega elska af öllu hjarta. Það var ekki aftur snúið þegar maður heyrði í Elvis og Bítlunum í fyrsta skipti.“
„Þetta er ekkert nýtt fyrir mér, sumt fólk er bara fljótt að gleyma og heldur að maður sé að stíga sín fyrstu spor í þessari tónlistarstefnu.“
Spurður hvort hann sé að færa sig meira út í sveitatónlist, segist hann hafa byrjað að gera kántrískotna kassagítartónlist árið 2001 með Franz Gunnarsyni undir nafninu The Moody Company. „Einnig vil ég nefna hljómsveitina Esju með Daníel Ágústi Haraldssyni sem var starfandi 2007-2009. Þetta er ekkert nýtt fyrir mér, sumt fólk er bara fljótt að gleyma og heldur að maður sé að stíga sín fyrstu spor í þessari tónlistarstefnu,“ útskýrir hann og bætir við að þegar hann setjist niður einn með kassagítarinn þá sé þetta tónlistin sem komi frá honum sjálfum. „Melódíurnar verða að vera byggðar á algjörri einlægni. Hér á ég heima og heima er best.“
Aðspurður segir hann að þungarokkið sé alls ekki komið á hilluna. „Ég elska „heavy“ rokk og þá sérstaklega þungt rokk frá því í gamla daga,“ svarar Krummi en eins og margir vita var hann í þungarokksveitinni Mínus og svo í Legend. „Ég er í hljómsveit sem svalar mínum þorsta fyrir þungt rokk þannig að ég er góður. Krummi og Kórdrengirnir eru svolítið „heavy“.“
„Veganæs heldur mér á jörðinni“
Krummi hefur í nægu að snúast þessa dagana en auk þess að vinna að sinni fyrstu sólóplötu rekur hann ásamt konu sinni veganveitingastaðinn Veganæs. En hvernig er að tvinna þessu öllu saman? „Þetta er mikil vinna og stundum stress en þetta elskar maður að gera. Gerðu það sem gerir þig hamingjusaman. Ég er enn þá að læra að hamingjan er ákvörðun. Hamingjan kemur innan frá og því þarftu að muna að það er enginn annar en þú sem getur gert þig hamingjusaman. Ég reyni að taka helgarnar í að spila og semja og pæla í tónlist. Veganæs heldur mér á jörðinni og tónlistin fer með mig til himnanna. Gott samstarf.“
„Ég er enn þá að læra að hamingjan er ákvörðun. Hamingjan kemur innan frá og því þarftu að muna að það er enginn annar en þú sem getur gert þig hamingjusaman.“
Stefnan er svo sett á að gefa út plötuna í vetur eða byrjun næsta árs en þangað til mun hann senda frá sér eitt og eitt lag. „Þetta er singer/songwriter-plata sem kallar fram allan tilfinningaskalann. Ég er reyndar með þriggja hljómplötuplan því ég er búinn að semja heilan helling af lögum og er ekki hættur. Maður verður að taka við gjöfum listagyðjunnar.“
Spurður hvað sé fram undan og hvort planið sé að fara erlendis, svarar hann að svo sé. „Ég er með nokkur járn í eldinum varðandi það. Sjáum hvað setur,“ útskýrir hann hugsandi. „Við Kórdrengirnir ætlum okkur að spila út um allar trissur. Taka túr um landið á næsta ári og ferðast á vit ævintýranna. Segja sögur í tónlistarlegum skilningi,“ útskýrir hann og vill bæta við að hann vilji þakka öllum innilega fyrir þær frábæru viðtökur sem lagið og myndbandið við það hefur fengið. „Verið góð hvert við annað, dýrin og jörðina, það er lykillinn af farsælu lífi fyrir alla jarðarbúa.“
Heiða Þórðardóttir segir sorgina eftir að bróðir hennar, Gísli Þór Þórarinsson, var skotinn af bróður þeirra, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, hafa verið þá þyngstu sem hún hefur upplifað. Hún trúir þó að þetta hafi verið óviljaverk og er afskaplega ósátt við rangfærslur í fréttaflutningi af málinu.
„Þetta hefur náttúrlega verið alveg svakalega erfiður tími,“ svarar Heiða aðspurð hvernig henni hafi liðið þessa mánuði síðan manndrápið átti sér stað. „Ég er að koma til en þetta hefur verið ansi töff, sér í lagi vegna þess að ég var í svo miklum samskiptum við Gísla alla hans ævi. Ég passaði hann alveg frá því að hann fæddist og við vorum mjög náin alla tíð. Hann trúði mér fyrir öllu í aðdraganda málsins og ég var eiginlega þátttakandi í þessu öllu með honum.“
Aðdragandi málsins var sá að Gísli og fyrrverandi kona Gunnars fóru að draga sig saman á meðan Gunnar og kona hans stóðu í skilnaðarferli. Heiða segir Gísla hafa heimsótt Gunnar nokkrum dögum áður en manndrápið átti sér stað til að segja honum að þau væru saman og myndu hugsanlega fara að búa saman í framtíðinni.
„Gunnar og konan hans skildu að borði og sæng fyrir tveimur árum og í ágúst á síðasta ári fór Gunnar í meðferð til að vinna sínum málum og koma lífi sínu á réttan kjöl. Hann stóð í þeirri meiningu að ef honum tækist það myndu þau hjónin taka saman aftur. Hann er faðir barnanna sem gjarnan eru kölluð stjúpbörn Gísla í fréttum af málinu sem er auðvitað algjör vitleysa. Gísli og fyrrverandi kona Gunnars bjuggu ekki saman og þessi börn voru ekkert á hans vegum. Gísli hringdi í mig 19. apríl, nokkrum dögum áður en þetta gerðist, og sagði mér að hann hefði farið til Gunnars fáeinum dögum fyrr og sagt honum að hann og fyrrverandi kona Gunnars væru að draga sig saman. Gunnar varð auðvitað alveg brjálaður því að hann hélt að þau hjónin væru að vinna að því að taka saman aftur. Þar fyrir utan voru Gísli og Gunnar alltaf góðir og nánir vinir þannig að Gunnar upplifði þetta sem svik frá bæði konunni sinni og besta vini. Í kjölfarið leitaði hann til sálfræðings vegna þess að hann var gjörsamlega niðurbrotinn og var hræddur um að hann myndi fyrirfara sér. Hann lét svo leggja sig inn á geðdeild þar sem hann réði ekkert við aðstæðurnar.“
„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega.“
Í fréttum hefur komið fram að Gunnar hafi hótað því að drepa Gísla eftir að hann komst að sannleikanum en Heiða segist ekki hafa tekið neitt mark á því á þeim tíma, það hafi bara verið marklaus upphrópun eins og fólk láti gjarnan frá sér þegar það er í miklu uppnámi.
„Ég var í miklu sambandi við þá báða á þessum tíma,“ segir hún. „Við Gunnar vorum líka náin, nema auðvitað þegar hann var á kafi í einhverju rugli. Þannig að það má segja að við höfum öll þrjú verið nánir vinir og staðið saman í gegnum lífið enda þurftum við öll hvert á öðru að halda.“
Öll mörkuð af uppeldinu
Komið hefur fram í fréttum af málinu að þau systkinin hafi átt erfitt í æsku vegna alkóhólisma og geðrænna vandamála móður þeirra. Ólust þau öll upp hjá henni?
„Nei, elskan mín góða,“ segir Heiða og hristir höfuðið. „Mamma átti sex börn með fjórum mönnum og pabbi átti fjögur börn með þremur konum og svo áttu allir hinir feður þessara barna fullt af börnum með fullt af konum. Þetta er alveg óskaplega flókið fjölskyldumunstur. En ég, Gísli og alsystir hans ólumst öll upp hjá mömmu. Gunnar ólst hins vegar upp hjá föður sínum, en kom mikið til okkar og sótti mikið í mömmu. Hann var óskaplega orkumikill og ég kallaði hann alltaf villinginn, en mér þótti samt afar vænt um hann og hann er alveg jafnmikill bróðir minn og Gísli var.“
Heiða segir óvíst hvort hafi komið á undan hjá móður þeirra, alkóhólisminn eða geðrænu vandamálin en auðvitað hafi ástand hennar haft mikil áhrif á þau systkinin.
„Mamma byrjaði að taka kvíðastillandi lyf þegar hún var sextán ára,“ útskýrir hún. „Þannig að mögulega var það upphafið. Hún lét viðgangast hluti sem eru algjörlega absúrd og þekkjast ekki á „eðlilegum“ heimilum. Það setti mark sitt á okkur öll systkinin, líka þau sem ólust ekki upp hjá henni. Þar fyrir utan áttum við fleiri fósturpabba en ég get talið á fingrum beggja handa og þeir voru náttúrlega misgóðir, eins og gengur.“
Trúir ekki að þetta hafi verið viljaverk
Spurð hvort hún hafi átt von á því að Gunnar gæti látið verða af þeirri hótun sinni að drepa Gísla, miðað við langa ofbeldissögu hans, svarar Heiða að hún hafi aldrei trúað því og hún trúi því ekki enn að það hafi verið ætlun hans.
„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til, datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega,“ segir hún. „Hann sagðist myndu loka á samskipti við mig ef ég tæki afstöðu með Gísla en ég tók enga afstöðu, sagði honum bara að jafna sig, þessi kona væri ekki þess virði að splundra samstöðu okkar þriggja. Varðandi fyrri brot hans þá vil ég taka fram að þau áttu sér alltaf stað þegar hann var í harðri neyslu. Ekki að það sé afsökun, en það er skýring. Eftir að hann kom út af geðdeildinni féll hann og fór heim til Gísla með kunningja sínum og þeim bræðrunum lenti saman sem lauk með því að Gunnar skaut Gísla í lærið, skotið fór í slagæð og honum blæddi út. Sjúkraflutningamennirnir sem komu á vettvang voru með bundnar hendur vegna þess að þeir máttu ekki fara inn á undan lögreglunni og því fór sem fór.“
„Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys.“
Spurð hvort hún sé reið yfir því að Gísli hafi verið látinn liggja einn þar til honum blæddi út tekur Heiða sér örlítinn umhugsunartíma til að svara.
„Jú,“ segir hún svo. „Ég er reið, það hefði verið hægt að bjarga honum. En samt hef ég eiginlega ekki orðið reið í þessu sorgarferli, nema auðvitað við fólkið í kringum mig sem sýndi af sér virkilegan ótuktarskap gagnvart mér vegna þess að ég vildi ekki taka þá afstöðu að kalla Gunnar morðingja. Ég þekki hann ekki sem slíkan. Ég veit auðvitað að hann hefur gert hræðilega hluti, þótt ég hafi ekki lesið öll málsskjöl í þeim málum sem hann hefur verið dæmdur fyrir en mér finnst það ekki vera mitt að dæma hann. Ég get ekki einu sinni verið reið við hann í þessu tilfelli, hann þarf að lifa með því alla sína ævi að hafa drepið bróður sinn og besta vin. Þeir höfðu búið saman, unnið saman og áttu mjög vel saman þegar Gunnar var í toppstandi, sem hann var miklu oftar en í neyslu. Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys. Ég er bara svo ofboðslega sorgmædd. Ég er búin að missa alla þá sem hafa verið mér kærkomnastir, mömmu, pabba, vini og ömmur en þetta er mesta sorg sem ég hef upplifað. Þegar lögreglan kom til að segja mér frá þessu var mér boðin hjálp sem ég afþakkaði með þeim orðum að ég væri vön þessu en málið er að þetta er það svakalegasta högg sem ég hef fengið. Sorgin var svo mikil að ég fann líkamlegan sársauka. Ég svaf ekki, ég borðaði ekki og ég get svarið að ég man ekkert eftir fyrstu dögunum á eftir.“
Atburðurinn hefur tvístrað fjölskyldunni
Þrátt fyrir þessa miklu sorg og vanlíðan segist Heiða ekki hafa leitað sér áfallahjálpar eða sálfræðiaðstoðar, hún hafi haldið að hún kæmist í gegnum þetta hjálparlaust. Það hafi sennilega verið ofmat á eigin getu.
„Það er engan stuðning að fá frá fjölskyldu minni,“ segir hún. „En hins vegar hef ég fengið ótrúlegustu hjálp frá alls konar fólki sem jafnvel þekkir mig ekki neitt. Ég er líka mikið í félagsstörfum, er í stjórn stjórnmálaflokks og þar að auki samfrímúrari og þaðan hef ég fengið mestu hjálpina. Þau komu færandi hendi með blóm og fallegar kveðjur og vilja allt fyrir mig gera. En að öðru leyti hef ég ekki fengið neina hjálp.“
Aðrir í fjölskyldunni hafa tekið harða afstöðu gegn Gunnari og fordæmt hann fyrir verknaðinn, að sögn Heiðu, og atburðurinn hefur tvístrað fjölskyldunni enn frekar.
„Þau fordæma hann og sumir hafa skrifað virkilega ógeðslega hluti um hann á Facebook, meira að segja fólk sem er óvirkir alkóhólistar og ætti að hafa skilning á því að fíkill undir áhrifum alls kyns efna fremur einhvern viðbjóð þegar hann er ekki með sjálfum sér. Mér hafa sárnað þessi ummæli óskaplega. Dómharkan var svo svaðalega mikil án þess að fólk vissi neitt um málið eða tildrög þess. Enginn reyndi að setja sig í spor Gunnars eða reyna að skilja hversu hræðilega illa honum leið eftir að hafa upplifað þessi svik frá konunni sem hann elskaði og bróðurnum sem hann leit á sem besta vin sinn. Mér finnst það ófyrirgefanlegt að dæma svona án þess að hafa neinar forsendur.“
Dómharkan var svo svaðalega mikil án þess að fólk vissi neitt um málið eða tildrög þess.
Lík Gísla var flutt heim, sem olli líka átökum innan fjölskyldunnar, og jarðarförin fór fram hér. Heiða segist hafa barist fyrir því að fá hann heim en ýmsir aðrir innan fjölskyldunnar hafi viljað láta brenna líkið í Noregi og flytja öskuna heim til að spara kostnað. Þegar til kom hafi Icelandair flutt hann ókeypis sem hún sé mjög þakklát fyrir, svo þetta hafi ekki snúist um kostnað þegar upp var staðið. Þessi átök hafi hins vegar kostað það að hún hafi ekki treyst sér til að vera við jarðarförina.
„Ég vildi fá hann heim í heilu lagi svo ástvinir hans gætu kvatt hann,“ útskýrir hún. „Ég hafði það í gegn og hann fékk þá jarðarför sem hann hafði óskað eftir, Liverpool-söngurinn You Never Walk Alone var spilaður og fleira. Síðan var hann brenndur að eigin ósk. Ég hins vegar gat alls ekki fengið mig til að fara í jarðarförina, ég hafði bara ekki heilsu í það, var ekkert búin að borða í marga daga, með svimaköst og stöðugt grátandi. Ég komst líka að því að maður sem tengist fjölskyldunni hafði verið að skrifa alls konar óhróður um mig í Facebook-grúppu sem margir vina minna voru í. Ég ætla ekki að gefa þeim orðum líf með því að endurtaka þau en ég gat bara ekki hugsað mér að láta þetta fólk sjá mig brotna saman. Ég kvaddi bróður minn bara ein með sjálfri mér.“
„Hvað myndi Gísli gera?“
Aðspurð hvernig hægt sé að halda áfram að lifa sínu venjulega lífi eftir slíkt áfall svarar Heiða að hún sé ekki enn búin að finna út úr því.
„Ég bara veit það ekki,“ segir hún döpur. „Ég fór ekki út í margar vikur eftir að þetta gerðist, lét bara senda mér mat, kveikti á kertum og hugsaði. Ég hef svo smám saman náð því með bænum og hugleiðslu að reyna að lifa samkvæmt sannleika Gísla. Hann var alveg ofboðslega góð manneskja. Talaði aldrei illa um neinn, var afskaplega hlýr, traustur og tryggur og hjálpaði öllum sem hann gat. Hann var alveg ótrúlegur. Þeir segja að þeir sem deyja ungir fari til himna en mikið rosalega var þetta ósanngjarnt. Hann átti svo mikið eftir. Var tónlistarmaður með drauma og ofboðslega skemmtilegan húmor. Samt oft þungur, mjög mikill pælari og mjög gaman að tala við hann um alls kyns málefni. Hann verður aldrei gleymdur. Ég finn sterkt fyrir honum og sný upp á máltækið „Hvað myndi Jesús gera?“ með því að spyrja sjálfa mig: „Hvað myndi Gísli gera?“ þegar ég þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Ég er ekki trúuð í skilningi trúarbragðanna en ég trúi á eitthvað okkur æðra. Ef ég gerði það ekki þá myndi ég einfaldlega trúa því að ég sé guð almáttugur og það er ég svo sannarlega ekki,“ segir Heiða og kímir. „En ég reyni vissulega að vera betri með hverjum deginum og oft í gegnum þessar vikur hef ég hugsað með mér að ég verði að hringja í Gísla og spyrja hann um hitt og þetta, eins og ég gerði svo oft þegar ég var í einhverjum vafa. En nú get ég það ekki lengur, þannig að nú reyni ég bara að hugsa um hvernig hann myndi leysa málin. Hann var alltaf svo rólegur og yfirvegaður. Þannig að, já, það er stefnan að reyna að lifa í anda hans og borga illt með góðu, eða ef mér tekst það ekki að leiða það þá hjá mér og láta það ekki særa mig. Fyrstu vikurnar eftir að hann dó var ég það aum að ég tók allt vont sem fólk sagði inn á mig og lét alls konar hluti fjúka á móti, sem er mér ekki eðlislægt. Ég var bara gjörsamlega í sjokki, kannski í allt of langan tíma, ég veit það ekki, en ég bara þurfti þennan tíma til að vinna mig út úr þessu.“
Fyrstu vikurnar eftir að hann dó var ég það aum að ég tók allt vont sem fólk sagði inn á mig og lét alls konar hluti fjúka á móti, sem er mér ekki eðlislægt.
Hver næstu skref verði til að ná aftur tökum á lífi sínu segir Heiða að það sé nú ýmislegt í bígerð. „Næstu skref, já,“ segir hún hugsi. „Góð spurning. Nú er ég til dæmis í viðtali við þig, það er mjög stórt skref fyrir mig, og svo tek ég bara á þessu einn dag í einu. Ég hef verið með vefinn spegill.is síðan 2011 og er að skipta um hýsingaraðila þessa dagana til að efla hann. Svo ætla ég að skrifa og er að hugsa um að þýða bókina Allra síðasta eintakið, sem ég gaf út 2011, yfir á ensku og reyna að koma henni á framfæri erlendis. Bókin fjallar um kynferðislega misnotkun og fyrirgefninguna og er voða sæt, þrátt fyrir efniviðinn, hún kemur mér til að gráta og hlæja enn þá og er ekkert svakalegt drama. Þar fyrir utan hef ég verið að taka að mér alls kyns verkefni í skriftum, þýðingar og greinaskrif, en annars hef ég bara verið í slökun. Ég hef verið að reyna að koma mataræðinu í lag aftur því þegar ég er undir álagi þá borða ég ekki, þannig að ég er orðin svo grönn að ég gæti málað ljósastaura að innan, svo maður grínist nú aðeins.“
„Þá á ég ekkert systkini eftir“
Heiðu er reyndar ekki grín í huga, hún segist engan veginn vera búin að vinna úr þessu áfalli, það muni taka mun lengri tíma.
„Þetta ferli hefur verið alveg rosalegt. Kannski var ég bara að taka allt sem á undan er gengið og fara í gegnum það í sambandi við þennan atburð. Ég fylgdist með þessu öllu, færði fréttir á milli þeirra bræðranna og við Gísli vorum alveg komin á þá skoðun að þetta væri bara í kjaftinum á Gunnari, hann myndi ekki gera neitt. Svo hefur verið erfitt að fylgjast með öllum þessum rangfærslum í fréttaflutningi, eins og til dæmis þegar kona Gunnars sagði að hann hefði barið allt húsið að utan þegar ég vissi að hann var inni á geðdeild, ég var nýbúin að tala við hann í síma. Það var líka erfitt að lenda í átökum við fjölskylduna vegna heimflutnings líksins og að treysta mér ekki í jarðarförina og já, þetta hefur bara verið alveg óskaplega erfiður pakki.“
„Ég hef hringt nokkrum sinnum og skilið eftir skilaboð en hann hefur ekki svarað. Hann treystir sér væntanlega ekki til að tala við mig strax.“
Réttarhöldin í máli Gunnars munu hefjast 10. desember og Heiða segist vonast til að þar komi sannleikurinn í ljós. Hún ætli sér að minnsta kosti að trúa því að þetta hafi verið hræðilegt slys þangað til annað komi í ljós. Hefur hún verið í einhverju sambandi við bróður sinn á meðan hann hefur setið í gæsluvarðhaldi?
„Ég hef hringt nokkrum sinnum og skilið eftir skilaboð, en hann hefur ekki svarað,“ segir hún. „Hann treystir sér væntanlega ekki til að tala við mig strax. Ég hins vegar verð til staðar þegar hann er tilbúinn. Ég mun að sjálfsögðu ekki ljúga að honum og segja að mér finnist þetta í lagi, ég mun segja honum sannleikann og ef hann þolir það ekki þá á ég ekkert systkini eftir. Ég vona að til þess komi ekki.“
Myndir/Hallur Karlsson Förðun/Hildur Emilsdóttir förðunarfræðingur Urban Decay á Íslandi
„Beinn vegur fram undan,“ segir Björgvin Jóhannesson ferðaþjónustubóndi í Efstadal II.
Ferðaþjónustubændur að Efstadal II hafa unnið hörðum höndum að því koma starfsemi í eðlilegt form eftir að E. coli-faraldur sem rakinn var til bæjarins braust út. Grunur lék á að smitið hefði komið úr ís sem framleiddur er á staðnum en börnin sem smituðust höfðu öll borðað ís á bænum. Samkvæmt upplýsingum frá MAST er ólíklegt að ísinn hafi verið smitvaldurinn en MAST hefur tekið yfir 40 sýni í samstarfi við rekstraraðila Efstadals II. Sýnin voru tekin af matvælum og ísgerð og 25 sýni af dýrunum og umhverfi þeirra. Sú gerð E. coli (af sermisgerðinni 0026 ) sem fólkið greindist með fannst ekki í ísnum.
Björgvin Jóhannesson, einn af eigendum ferðaþjónustubæjarins, segir í samtali við Mannlíf að faraldurinn hafi verið mikið áfall fyrir alla sem að rekstrinum koma. Hann segir jafnframt að samstarf við eftirlitsaðila hafi gengið vel og nú verði að líta bjart fram á veginn.
„Við erum að fara taka lítil skref í þá átt að koma okkur af stað aftur. Ísbúðin hefur verið tekin í gegn en við gerðum smávegis breytingar á henni,“ segir Björgvin en ísbúðin var opnuð á ný 1. ágúst eftir að grænt ljós fékkst frá eftirlitsaðilum. „Við erum smátt og smátt að koma framleiðslu á okkar ís af stað aftur. Það gengur bara bærilega. Það er ekki hægt að segja annað en það að það sé mjög gott samstarf á milli okkar og þessara stofnana og þær hafa hjálpað okkur í þessu ferli og hvernig við eigum að haga okkur. Vissulega eru þetta aðstæður sem margir þekkja ekki þannig að það eru allir að læra af þessu en samstarfið hefur gengið vel.“
Aðspurður segir Björgvin að hann telji að smitið hafi borist úr kálfastíu á bænum en ekki úr ísnum. „Bakterían sem fannst í þeim sem veiktust fannst hvað sterkust í kálfastíunni hjá okkur en hún hefur aldrei fundist í ís eða öðrum matvælum frá okkur. Það var lengi grunur um að smitið hafi borist úr ísnum, upp í munn og niður í maga en það hefur sýnt sig að ekki þarf stóran snertiflöt til þess að smitast,“ útskýrir hann og bætir við að mikill umgangur gesta hafi verið í kálfastíunni. Þar hafi verið vinsælt að klappa dýrunum og jafnvel að leyfa þeim að sleikja hendur. „Einhverjir klappa dýrum á meðan aðrir snerta einhverja hluti og koma svo við afgreiðsluborð eða annað slíkt. Það þarf ekki meira en það.“
„Okkur er gríðarlega létt að heyra að allir sem veiktust séu að ná heilsu og að börnin eru komin heim af spítala.“
Kálfastíunni hefur verið lokað og verður líklega ekki opnuð á ný í sama formi. „Við erum búin að loka á alla snertingu en það er enn þá hægt að horfa á dýrin í gegnum glugga þannig að það verður meiri sýnileiki en minni snerting,“ segir Björgvin sem telur að nú sé búið að útiloka að smit geti borist út stíunni. Hann segir að það sé mikill léttir að börnin sem veiktust séu á batavegi. „Okkur er gríðarlega létt að heyra að allir sem veiktust eru að ná heilsu og að börnin eru komin heim af spítala. Það er auðvitað aðalatriðið í öllu þessu ferli. Okkar áfall og þær breytingar sem við höfum þurft að gera og aðlaga reksturinn að skiptir minna máli. En þegar við fréttum það að allir væru að ná heilsu þá er þetta bara beinn vegur fram undan.“
Ritstjórn Mannlífs tók saman hverja hún taldi hafa átt góða og slæma síðustu viku.
Góð vika – Sigurður Ingi Jóhansson samgönguráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson er senuþjófur þessarar viku því hann fékk að upplifa blautan draum allra samgönguráðherra í vikunni. Ekki bara fékk hann að klippa á borða í Berufirði heldur fékk að kynna fyrirhuguð jarðgöng á landsbyggðinni. Nánar tiltekið Fjarðaheiðargöng sem yrðu bæði lengstu og dýrustu göng Íslandssögunnar og er ætlað að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar þar sem 673 manns búa. Áætlaður kostnaður er 34 milljarðar króna, eða rúmlega 50 milljónir króna á hvern íbúa Seyðisfjarðar. Ef ráðist yrði í álíka framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu, þar sem kostnaðurinn yrði 50 milljónir á hvern íbúa, yrði heildarkostnaðurinn 11 billjónir króna.
Slæm vika – Íslenski ferðalangurinn
Það hlýtur að vera ákveðinn skellur fyrir hinsegin fólk að fá þær fréttir, nú þegar Hinsegin dagar nálgast hápunktinn, að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, muni heimsækja Ísland í byrjun september. Fáir valdamenn á Vesturlöndum hafa reynt að takmarka réttindi hinsegin fólks eins og Pence og skoðanabræður hans innan Bandaríkjastjórnar. Það er þó hjóm eitt miðað við það verkefni sem íslenskur ferðamaður stóð frammi fyrir þegar hann vaknaði af ölvunarsvefni í Stavanger í Noregi. Það er að sannfæra lögregluyfirvöld um að hátterni hans í flugvél Wizz Air frá Búdapest til Keflavíkur hafi einungis verið almennur flugdólgsháttur en ekki tilraun til flugráns.
Tattústofan Black Kross stendur fyrir sinni fyrstu pop-up-verslun á Akureyri um helgina. Hún verður staðsett á Rakarastofu Akureyrar en flúrararnir Thorbjorn Ink, Julian Carrillo og Kirill Mashlow munu bjóða upp á mismunandi tattústíla svo allir ættu að geta fengið flúr við sitt hæfi.
„Þar sem við höfum ekki gert þetta áður er mikil spenna í loftinu,“ segir Thorbjorn Ink en hugmyndina fengu þau fyrir rúmu ári þar sem margir utan af landi hafa verið að koma í tattú til þeirra og komið hafi í ljós að mikill áhugi er fyrir pop-up-verslunum fyrir viðskiptavini sem búa úti á landi. „Við höfum fengið ótal fyrirspurnir um tímapantanir og hvort við munum halda fleiri pop-up-verslanir sem við stefnum klárlega að.“
Undirbúningurinn gengur vel en Thorbjorn segir að óneitanlega fylgi því smávegis stress að skipuleggja svona viðburð. „Sérstaklega þar sem við fáum Rakarastofuna ekki afhenta fyrr en á föstudagskvöldið og þá á eftir að koma öllu upp.“ Rakarastofan er til húsa í Hafnarstræti 88 á Akureyri og verður opin milli klukkan 12-18 bæði laugardag og sunnudag. Hægt er að bóka tíma fyrir fram með því að hafa samband við Black Kross Tattoo í síma 680-6662 eða senda skilaboð á Facebook eða Instagram.
Fyrirlesturinn Íslenska lesbían verður í Tjarnarbíói í dag milli 17 og 19, í tengslum við Hinsegin daga, þar sem spjallað verður um upphafsár Samtakanna ’78 frá sjónarhóli lesbía en þær voru teljandi á fingrum annarrar handar á fyrstu árunum. Hanna María Karlsdóttir rifjar upp fámennið og fordómana hér áður fyrr en Lana Kolbrún Eddudóttir nefnir spjallið sitt „Kona sem þekkir konu, sem þekkir konu: Tengslanet níunda áratugarins.“
Lana Kolbrún var þrettán ára þegar Samtökin ’78 voru stofnuð og hefur eftir heimildum að konurnar hafi verið afar fáar fyrst um sinn. „Það má fastlega reikna með því að margar af eldri kynslóðum hafi verið búnar að flýja land, hafi þær á annað borð komið úr felum. Íslenskar lesbíur bjuggu gjarnan í gömlu höfuðborginni okkar, Kaupmannahöfn, og fluttu líka til fyrirheitnu borgarinnar San Francisco. Þegar ég gekk í félagið 1987 voru ýmsar konur komnar á vettvang og hlutverk kvenna í félaginu jókst mjög á næstu 10 árum, þar af urðu þrjár konur formenn. Ekki veitti af vöskum konum í félagsstarfið því baráttan gegn alnæmi kostaði okkur öll mikið þrek.“
Hún segir að lesbíur hafi átt nokkuð auðvelt með að „dyljast meðal almennings“, ef svo má segja. „En það var býsna erfitt og þurfti að fara allskonar krókaleiðir til að kynnast öðrum konum á þessum árum. Vissulega hjálpaði félagsmiðstöðin á Lindargötu 49 mikið en samkvæmi í heimahúsum voru lengi vel einn helsti vettvangur félagslífs lesbía á Íslandi. Og þá gilti að þekkja konu, sem þekkti aðra konu og svo framvegis.
„En það var býsna erfitt og þurfti að fara allskonar krókaleiðir til að kynnast öðrum konum á þessum árum.“
Fordómar gegn lesbíum birtust á vinnustöðum, athugasemdum við klæðaburð og hár, meðal leigusala sem vildu ekki leigja samkynhneigðum, á skemmtistöðum þar sem okkur var gjarnan fleygt út fyrir að kyssast og dansa og síðast en ekki síst innan fjölskyldunnar. Þar urðu margir fyrir þungum árásum og djúpum sárum sem oftar en ekki leiddu til þess að fólk sleit algjörlega samskiptum við blóðfjölskyldur sínar. Ég vona heitt og innilega að lesbíur dagsins í dag þurfi ekki að þola sama mótlæti og við eldri kynslóðirnar,“ segir Lana Kolbrún og hvetur fólk til að mæta í dag.
„Það verður hægt að drekka kaffisopa eða hvítvínsglas, hlusta á okkur Hönnu Maríu og bæta eigin sögum í safnið í spjallinu á eftir. Viðburðurinn fer fram á íslensku, ókeypis inn og öll velkomin.“
Þeir sem hafa lagt leið sína til Parísar hafa eflaust tekið eftir því að það þarf ekki að labba lengi um miðborgina til að finna fallegt bakarí sem selur franskar makrónur. Bakaríið Laduré er þar fremst í flokki og hefur séð Parísarbúum fyrir makrónum síðan 1862. Í Frakklandi eru kampavín og makrónur ómissandi við öll tækifæri sem gefast til að halda veislu. Litadýrðin er ómótstæðileg og bragðið … Mmmm … Hvað svo á betur við á Hinsegin dögum en makrónur í öllum regnbogans litum.
Franskar makrónur
15 tilbúnar kökur
2 eggjahvítur, helst dagsgamlar
70 g möndlur
130 g flórsykur
2 msk. sykur
matarlitur eftir smekk
Skiljið eggjarauður og eggjahvítur daginn áður og geymið í kæli. Hitið ofninn í 150°C. Takið eggjahvítur tímanlega úr kæli því þá næst bestur árangur og kökurnar lyfta sér frekar ef þær eru við stofuhita í byrjun.
Malið möndlur í matvinnsluvél, bætið flórsykri út í og malið allt mjög vel saman. Sigtið möndlumjölið á smjörpappírsklædda ofnplötu gegnum frekar gróft sigti, malið það sem eftir verður í sigtinu aftur til að fá það fínt og sigtið aftur á plötuna. Setjið plötuna í ofninn og bakið í 8 mín., látið kólna aðeins.
Þeytið eggjahvítur þar til þær eru aðeins farnar að stífna. Bætið sykri út í, fyrst annarri skeiðinni og svo hinni, og hrærið hvíturnar áfram í 1-2 mín., bætið matarlit út í eftir smekk. Blandið möndlumjölinu saman við með sleikju, ef liturinn er ekki nógu skýr er hægt að bæta í eftir á.
Setjið bökunarpappír með glanshliðina upp eða sílíkonmottur á ofnplötur. Setjið deigið í sprautupoka með sléttri túðu og sprautið út kringlóttar kökur á stærð við tíkall. Látið kökurnar bíða í klukkutíma til að þær fái á sig harða skel.
Hitið ofninn í 150°C. Bakið kökurnar í 12-14 mín. Látið þær bíða aðeins og takið þær síðan varlega af pappírnum með hníf eða spaða. Passið að baka kökurnar það lengi að botn sé farin að myndast undir þeim. Þið getið kíkt undir pappírinn.
Sítrónumakrónur
1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af gulum matarlit
½ uppskrift sítrónumauk (lemon curd, sjá hér að neðan)
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með sítrónumauki á milli.
Sítrónumauk (Lemon-curd)
magn í 2-3 krukkur
Þetta frískandi sítrónumauk má nota ofan á ostakökur eða marenstertur, á milli botna í rjómatertur, setja góða teskeið inn í múffudeig og baka með, nota ofan á pönnukökur og margt fleira.
2 sítrónur
3 egg
200 g sykur
80 g smjör
Þvoið og þerrið sítrónur. Rífið ysta lagið af sítrónuberkinum með rifjárni og setjið í pott ásamt safanum úr sítrónunum. Setjið egg, sykur og smjör í pottinn og sjóðið saman þar til þykknar. Hellið í krukkur. Geymist í viku í kæliskáp.
Karamellumakrónur
1 uppskrift franskar makrónur
gulur matarlitur
2 dl dulce de leche-karamella í krukku
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með karamellu á milli.
1 uppskrift franskar makrónur
rauður matarlitur
jarðarberjasulta til að setja á milli
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með jarðarberjasultu á milli.
Engifermakrónur
1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af appelsínugulum matarlit
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með smjörkremi á milli.
Smjörkrem með engiferrót
1 eggjahvíta
150 g flórsykur
2 tsk. síróp af sultaðri engiferrót
1 msk. sultuð engiferrót, fínt söxuð
Blandið öllu saman og smyrjið á makrónurnar.
Rósamakrónur
1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af rauðum matarlit eða bleikum ef þið fáið hann
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með bleikum glassúr á milli.
Bleikur glassúr
1 eggjahvíta
150 g flórsykur
smávegis af rauðum eða bleikum matarlit
nokkrir dropar bragðefni (fæst t.d. með brjóstsykursbragði hjá mömmur.is)
Pabbi elskaði klassíska tónlist. Hann var arkitekt og rak stofuna sína frá efri hæðinni heima hjá okkur og ef Gamla gufan var ekki á hlustaði hann á Bach, Mozart, Beethoven – og auðvitað Ravel.
Ég man enn þá þegar ég heyrði Boléro eftir Ravel í fyrsta sinn uppi á stofunni hans heima. Ég var lítið í klassískri tónlist en kolféll fyrir verkinu – sama endurtekna stefinu spiluðu aftur og aftur í magnaðri stigmögnun. Þetta var snemma á tíunda áratugnum, ég var á kafi í eletróník, en einhvern veginn tókst mér að finna samhljóm á milli þess og tónverksins.
Um daginn spilaði ég Boléro fyrir rúmlega árs gamlan son minn. Ég held að hann hafi kunnað að meta það, þótt hann sýndi reyndar símanum sem spilaði það meiri áhuga og reyndi ítrekað að borða hann. En að hlusta á fimmtán mínútna langt tónverkið með son minn í fanginu kom af stað alls kyns minningum um pabba, um hvernig hann elskaði að sitja á arkitektastofunni sinni að vinna með klassíska tónlist undir, og þegar hann setti Boléro á var það eins og lítil athöfn. Hann hækkaði vel í græjunum svo ég heyrði tónlistina niður í herbergið til mín. Á þeirri stundu varð hann unglingurinn á heimilinu.
Á meðan ég hélt á syni mínum og hlustaði á Boléro og hugsaði um pabba leið mér eins og við þrír værum tengdir, jafnvel þótt pabba hefði ekki gefist tækifæri til að kynnast syni mínum, og jafnvel þótt syni mínum gæfist aldrei tækifæri til að kynnast afa sínum, þeim yndislega manni. Ég komst við og hugsaði um tímann, um hringrásina, um kynslóðir og endurtekninguna og tónlistina sem brúar bilið. Þegar strákurinn minn brosir sé ég stundum brosið hans pabba, því allt fer í hringi, lífið og dauðinn, eins og lúppan í Boléro.
Kryddlegið kjöt í pakkningum tilbúið til eldunar á grilli er áberandi í verslunum yfir sumartímann og afar handhægt að grípa með sér og skella á grillið. Fiskur er ekki jafnáberandi en samt sem áður er hann sérlega ljúffengur grillaður.
Best er að grilla stinnan fisk ef hann er settur beint á grillteinana. Þá henta vel fisktegundir eins og hlýri, langa, bleikja, lax, steinbítur, keila, skötuselur eða lúða. Grindin þarf að vera vel heit og olíuborin og síðan er fiskinum skellt á grindina. Dýrindis máltíð á góðum sumardegi með salati og léttri sósu.
Steinbítur með kóríander- og límónusmjöri fyrir 3-4
1 tsk. paprikukrydd
1 tsk. hvítlauksduft
1 tsk. laukduft
1 tsk. timjan
1 tsk. óreganó, þurrkað
1 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar eftir smekk
600 g steinbítur, í bitum
1 msk. ólífuolía til að pensla með
2 límónur í bátum til að bera fram með fiskinum
Blandið öllu kryddinu saman og kryddið fiskinn. Einnig má nota tilbúið fiskikrydd að eigin vali. Smyrjið grindina vel og setjið fiskinn á meðalheitt grillið. Grillið í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Þegar eggjahvítan úr fiskinum er farin að sprautast út er hann tilbúinn. Berið fram með smjörinu, límónusneiðum og góðu salati eða kartöflum.
Kóríander- og límónusmjör
4 msk. smjör, kúfaðar, við stofuhita
2 hvítlauksgeirar, marðir
safi úr ½ límónu
2 msk. kóríander, smátt saxað
Mýkið smjörið aðeins í örbylgjuofni ef það er ekki við stofuhita en alls ekki bræða það. Blandið hvítlauk, safa og kóríander saman við og hrærið með gaffli. Búið til litla rúllu úr smjörinu og vefjið plastfilmu utan um og setjið í kæli í að minnsta kosti 15 mínútur. Ef ekki er tími til þess má kæla smjörið í nokkrar mínútur og bera það fram í skál með fiskinum.
Magga Stína flytur úrval laga við ljóð Halldórs Laxness auk laga eftir Megas á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins í dag, sunnudaginn 18. ágúst.
Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir hvern sunnudag frá júní til 25. ágúst og hefjast þeir klukkan 16. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2.500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.
Stór hópur fólks býr því við þröngan kost og óöryggi í húsnæðismálum. Sá hópur er ólíklegastur til að njóta góðs af betri lánakjörum og lántökuskilyrðum sem boðist hafa á síðustu árum.
Eigið fé landsmanna í fasteignum tæplega þrefaldaðist á árunum 2010 til 2017, og var 3,174 milljarðar króna í lok þess síðarnefnda. Þrennt orsakar þessa miklu hækkun. Stærsta ástæðan er sú að fasteignaverð rúmlega tvöfaldaðist á tímabilinu. Þá hafa ríki og fjármálafyrirtæki ráðist í alls kyns sértækar aðgerðir sem hafa fært háar fjárhæðir til þeirra sem eru á eigendamarkaði. Þá hefur verðbólga haldist lág yfir langt tímabil og lánakjör samhliða batnað umtalsvert. Allt þetta hefur gagnast þeim sem eiga húsnæði, eða geta komið sér í stöðu til að kaupa slíkt, en gerir stöðu hinna sem sitja eftir að sama skapi verri.
Tölur benda til þess að þessar aðstæður hafi gert aðgengi hluta fyrstu kaupenda inn á markaðinn betra og í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs kom fram að fyrstu íbúðakaupendum hefði fjölgað meira en annars konar íbúðakaupendum frá árinu 2009 og að á öðrum ársfjórðungi 2019 hefðu þeir verið 27,7 prósent.
Í skýrslu sem velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður birtu í lok október í fyrra kom hins vegar fram að heilt yfir væri staða húsnæðismarkaðarins hér á landi ólíðandi vegna verðsveiflna sem eru á honum, og orsakast meðal annars af auknu lánaframboði. Þær sveiflur bitna mest á lágtekjufólki sem verji stærri hluta tekna sinna í húsnæðisútgjöld, sérstaklega á leigumarkaði, en aðrir samfélagshópar.
Mikill skortur hefur verið á húsnæði hér á landi, mikil fólksfjölgun hefur átt sér stað undanfarin ár vegna mikillar fjölgunar á erlendum ríkisborgurum sem hafa flutt hingað til lands til að starfa, en á sama tíma hefur fjöldi byggðra íbúða verið undir langtímameðallagi. Stór hópur fólks býr því við þröngan kost og óöryggi í húsnæðismálum. Sá hópur er ólíklegastur til að njóta góðs af betri lánakjörum og lántökuskilyrðum sem boðist hafa á síðustu árum.
„Það er engan stuðning að fá frá fjölskyldu minni,“ segir Heiða Þórðardóttir, systir Gísla Þórs Þórarinssonar sem skotinn var af bróður þeirra, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni í Noregi fyrr á þessu ári. Hún segir atburðinn hafa tvístrað fjölskyldunni.
Þrátt fyrir þessa miklu sorg og vanlíðan segist Heiða ekki hafa leitað sér áfallahjálpar eða sálfræðiaðstoðar, hún hafi haldið að hún kæmist í gegnum þetta hjálparlaust. Það hafi sennilega verið ofmat á eigin getu.
„Það er engan stuðning að fá frá fjölskyldu minni,“ segir hún. „En hins vegar hef ég fengið ótrúlegustu hjálp frá alls konar fólki sem jafnvel þekkir mig ekki neitt. Ég er líka mikið í félagsstörfum, er í stjórn stjórnmálaflokks og þar að auki samfrímúrari og þaðan hef ég fengið mestu hjálpina. Þau komu færandi hendi með blóm og fallegar kveðjur og vilja allt fyrir mig gera. En að öðru leyti hef ég ekki fengið neina hjálp.“
Þau fordæma hann öll og sumir hafa skrifað virkilega ógeðslega hluti um hann á Facebook…
Aðrir í fjölskyldunni hafa tekið harða afstöðu gegn Gunnari og fordæmt hann fyrir verknaðinn, að sögn Heiðu, og atburðurinn hefur tvístrað fjölskyldunni enn frekar.
„Þau fordæma hann öll og sumir hafa skrifað virkilega ógeðslega hluti um hann á Facebook, meira að segja fólk sem er óvirkir alkóhólistar og ætti að hafa skilning á því að fíkill undir áhrifum alls kyns efna fremur einhvern viðbjóð þegar hann er ekki með sjálfum sér. Mér hafa sárnað þessi ummæli óskaplega. Dómharkan var svo svaðalega mikil án þess að fólk vissi neitt um málið eða tildrög þess. Enginn reyndi að setja sig í spor Gunnars eða reyna að skilja hversu hræðilega illa honum leið eftir að hafa upplifað þessi svik frá konunni sem hann elskaði og bróðurnum sem hann leit á sem besta vin sinn. Mér finnst það ófyrirgefanlegt að dæma svona án þess að hafa neinar forsendur.“
Lík Gísla var flutt heim, sem olli líka átökum innan fjölskyldunnar, og jarðarförin fór fram hér. Heiða segist hafa barist fyrir því að fá hann heim en ýmsir aðrir innan fjölskyldunnar hafi viljað láta brenna líkið í Noregi og flytja öskuna heim til að spara kostnað. Þegar til kom hafi Icelandair flutt hann ókeypis sem hún sé mjög þakklát fyrir, svo þetta hafi ekki snúist um kostnað þegar upp var staðið. Þessi átök hafi hins vegar kostað það að hún hafi ekki treyst sér til að vera við jarðarförina.
„Ég vildi fá hann heim í heilu lagi svo ástvinir hans gætu kvatt hann,“ útskýrir hún. „Ég hafði það í gegn og hann fékk þá jarðarför sem hann hafði óskað eftir, Liverpool-söngurinn You Never Walk Alone var spilaður og fleira. Síðan var hann brenndur að eigin ósk. Ég hins vegar gat alls ekki fengið mig til að fara í jarðarförina, ég hafði bara ekki heilsu í það, var ekkert búin að borða í marga daga, með svimaköst og stöðugt grátandi. Ég komst líka að því að maður sem tengist fjölskyldunni hafði verið að skrifa alls konar óhróður um mig í Facebook-grúppu sem margir vina minna voru í. Ég ætla ekki að gefa þeim orðum líf með því að endurtaka þau en ég gat bara ekki hugsað mér að láta þetta fólk sjá mig brotna saman. Ég kvaddi bróður minn bara ein með sjálfri mér.“
Allt viðtalið við Heiðu, sem birtist fyrst í Mannlífi, má lesa hér.
Það verður risastórt teknópartí í Mengi á morgun, laugardaginn 17. ágúst.
Skemmtileg dagskrá og við mælum með að fólk mæti snemma. Motorik-keppni, nýtt sellóverk, öfugur stólaleikur, leiddur áfram að noise-hljómsveitinni Njóla og Teenage lightning. Frítt er inn og hefst fjörið klukkan 19.
Framganga Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna hefur vakið verðskuldaða eftirtekt á alþjóðavettvangi. Ísland var þar í fararbroddi þjóða sem gagnrýndu Sádi-Arabíu fyrir svívirðileg mannréttindabrot og vöktu sömuleiðis athygli á kerfisbundnum aftökum án dóms og laga á Filippseyjum. Allt saman til fyrirmyndar.
Íslensk stjórnvöld vinna nú að undirbúningi fyrir heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands. Heimsókn þessi er gráupplagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að sýna að þau láta mannréttindabrot í heiminum ekki afskipt, sama hvar þau eru framin. Þess vegna er heimsókn Mike Pence mikið fagnaðarefni.
Forsætisráðherra og utanríkisráðherra gætu til dæmis byrjað á því að fordæma stefnu Bandaríkjanna í innflytjendamálum. Annars vegar hvernig forseti Bandaríkjanna kyndir undir rasisma og notar hvert tækifæri til að jaðarsetja alla þá hópa sem ekki eru hvítir á hörund og hins vegar viðurstyggilega framkomu ICE (innflytjendastofnunarinnar) gagnvart innflytjendum og flóttamönnum. Daglega má lesa fréttir um hvernig flóttamenn eru látnir hafast við í ömurlegum aðstæðum, þeir geymdir í búrum og börn aðskilin frá foreldrum sínum. Fulltrúar ICE keyra svo um götur borga og bæja og handsama alla þá sem mögulega gætu verið ólöglegir innflytjendur, jafnvel í viðurvist barna þeirra, og halda þeim í einangrun svo dögum skiptir.
Heimsókn þessi er gráupplagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að sýna að þau láta mannréttindabrot í heiminum ekki afskipt, sama hvar þau eru framin.
Ísland hefur löngum stært sig af því að vera í fararbroddi ríkja heims þegar kemur að kvenfrelsi og kynjajafnrétti og þar ættu íslenskir ráðamenn að geta leiðbeint varaforsetanum um eitt og annað. Nokkur ríki Bandaríkjanna eru kerfisbundið að þrengja að rétti kvenna til þungunarrofs og notkun getnaðarvarna og útlit fyrir að í sumum ríkjum verði lagt blátt bann við þungunarrofi. Þessi stefna, sem er runnin beint úr smiðju Mike Pence og skoðanabræðra hans í Repúblíkanaflokknum, kemur vitaskuld verst niður á fátækum og minnihlutahópum. Ekki væri verra ef íslenskir ráðamenn myndu minnast á kerfisbundna mismunun gegn LBGT-fólki innan bandaríska hersins og í leiðinni sýnt honum myndir frá gleðinni sem einkennir hinsegin daga.
Listinn gæti vafalaust verið lengri. Það mætti til dæmis nefna hvernig forseti Bandaríkjanna reynir kerfisbundið að grafa undan frjálsri fjölmiðlun í landinu, hvernig stefna Bandaríkjanna í loftlagsmálum ógnar framtíð komandi kynslóða um allan heim eða hvernig galið byssublæti Bandaríkjamanna verður þúsundum að bana á ári hverju. Nú eða gegndarlausan fjáraustur til Sádi-Arabíu til að fjármagna grimmilegt og tilgangslaust stríð í Jemen á kostnað þúsunda óbreyttra borgara. Tilefnin eru ærin.
Ætli íslensk stjórnvöld að vera samkvæm sjálfum sér og sýna að þeim er alvara með málflutningi sínum í ráðinu þá er óhjákvæmilegt að þessi mál verði á dagskrá heimsóknarinnar. Bandaríkin eru einn okkar helsti bandamaður á sviði efnahags-, öryggis- og varnarmála og við viljum flest að þau verði frábær aftur, sú vagga frelsis og lýðræðis sem þau gefa sig út fyrir að vera. En stefna núverandi Bandaríkjastjórnar er með öllu óboðleg og samræmist í engu þeim gildum sem okkur er umhugað um – mennréttindi, lýðræði og frelsi. Og ef íslensk stjórnvöld ætla að láta þessa stefnu óátalda, þá getur almenningur alltaf sagt sína skoðun á þann hátt að hún fari ekki framhjá varaforsetanum.
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og dálkahöfundur, hefur marga fjöruna sopið um ævina og við fengum hana til að deila nokkrum staðreyndum um sjálfa sig.
1. Ég er mikið vísindaskáldsögu-, fantasy- og tölvuleikjanörd. Ég hef spilað tölvuleiki svo lengi sem ég man eftir mér en fíla mest tölvuleiki á borð við Mass Effect og Dragon Age-seríurnar. Ég er líka mass spunaspilanörd og nefni leiki eins og Dungeons & Dragons, Warhammer Fantasy og Star Trek Roleplay.
2. Ég elska raunveruleikasjónvarp og horfi á allt sem ég kemst í. Því skelfilegra því betra. Ég dýrka til dæmis The Real Housewives-seríurnar, enda fátt betra en að horfa á sjúklega ríkt fólk öskra á hvert annað út af því að einhverjum var ekki boðið í teiti.
3. Ég er alin upp í sveit og foreldar mínir eru með kúabú, kindabú og hestastóð, ásamt hundum og köttum. Ég hef alltaf verið mikill dýravinur og varði miklum tíma sem barn að leika við dýrin. Ég var eiginlega svolítið eins og gangandi Disney-mynd, þar sem dýr eltu mig hvert sem ég fór.
4. Ég gaf sjálfri mér loforð um að drekka ekki áfengi sem mér finnst vont á bragðið. Sem þýðir að ég drekk nánast ekkert. Það er mér fyrirmunað að skilja hvernig nokkur manneskja getur pínt sig til að drekka venjulegan bjór eða gin og tónik.
5. Ég er grænkeri – sem olli miklum erjum innan fjölskyldunnar og ég var sögð hafa eyðilagt jólin árið sem ég ákvað það. Viðbrögðin voru verri innan fjölskyldunnar heldur en þegar ég kom út sem trans. Þetta er nú samt allt í góðu núna svona fimm árum síðar.
Iðnaðarmálmdúettinn geðþekki, Sker, var að senda frá sér nýtt lag sem ber heitið Regnbogi reiðinnar. Lagið fjallar um áfallastreituröskun en margt getur haft áhrif á þann sem hefur lent í áfalli.
Lykt, hljóð, hlutir og jafnvel litir geta til dæmis verið orsökin. Regnbogi reiðinnar er kröftugt og vel rokkað lag sem fær hárin til að rísa á líkamanum. Hægt er að hlusta á lagið á albumm.is og mælum við eindregið með að þú tékkir á því.
Við mælum að sjálfsögðu með Hinsegin dögum en líkt og fyrri ár er Gleðigangan hápunktur Hinsegin daga og mun hún leggja af stað klukkan 14 frá Hallgrímskirkju.
Gengið verður eftir Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu við Hljómskálagarðinn þar sem taka við glæsilegir útitónleikar að göngu lokinni.
Þótt lyf hafi lækkað töluvert í verði á undanförnum tveimur áratugum er lyfjaverð enn ívið hærra en gengur og gerist á Norðurlöndum. Hægt er að lækka verð enn frekar en afar ólíkar skoðanir eru á hvort það standi upp á stjórnvöld eða markaðinn að taka skrefið.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti nýverið skýrslu um fyrirkomulag lyfsölu á Íslandi sem unnin var að beiðni velferðarráðuneytisins. Þar kemur meðal annars fram að töluverðar breytingar hafi orðið á þessum markaði frá því svæðabundin sérleyfi voru afnumin árið 1996. Lyfjaverð á Íslandi var þá, samkvæmt tölum OECD, afar hátt og var hárri álagningu heildsala og lyfsala meðal annars kennt um. Við breytinguna fjölgaði apótekum og þjónustan batnaði, segir í skýrslunni.
Þrátt fyrir að margt hafi áunnist eru lyf að jafnaði í dýrari kantinum miðað við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, þótt ekki muni miklu. Að hluta til stafar það af sérstökum aðstæðum á íslenskum markaði. Markaðurinn er smár, úrval af lyfjum er minna en víðast hvar annars staðar og það kostar að koma að nýjum lyfjum á markað. Þá eru strangar verðlagshömlur sagðar draga úr áhuga framleiðenda á að selja hingað lyf. Hins vegar er það þannig að lyf eru almennt dýrari í þeim löndum þar sem velsæld ríkir og er Ísland þar engin undantekning.
Vill auka veg samheitalyfja
Bæði stjórnvöld og lyfsalar eru sammála um að hægt sé að lækka lyfjakostnað enn frekar hér á landi. Hins vegar greinir þau á um hvaða leiðir eru best færar til þess. „Lyfjaverð út úr apótekum hefur lækkað um helming frá árinu 1996 sem er merkilegur árangur í ljósi þess að þjónustan er almennt góð, apótek eru fleiri en víða annars staðar og hér eru fleiri starfandi lyfjafræðingar en í nágrannalöndunum. Hér er því verið að gera hluti sem eru til eftirbreytni en skýrslan sýnir líka að það er hægt að gera betur,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju. Það sem stendur upp á lyfsala, segir Sigríður Margrét, er að beina sjúklingum enn frekar í átt að samheitalyfjum sem í flestum tilfellum eru mun ódýrari en frumlyfin. „Rúmlega helmingur þeirra lyfja sem við seljum eru ódýrustu samheitalyf og það blasir við að þar er hægt að gera enn betur. Það er hlutverk lyfjafræðinga og starfsmanna að uppfræða fólk um samheitalyf og þannig geta neytendur sparað umtalsverðar upphæðir, sérstaklega þeir sem nota lyf að staðaldri.“
„Ef við lögum þetta hlutfall og förum í sama flokk og önnur OECD-ríki myndi það skila sér í mun lægra lyfjaverði til sjúklinga.“
Sigríður Margrét telur einnig að stjórnvöld geti lagt sitt af mörkum til lækkunar lyfjaverðs. Bendir hún á að á Íslandi greiði neytendur tæplega 60 prósent af lyfjakostnaði úr eigin vasa. Innan OECD er hins vegar hlutfallið 40 prósent að meðaltali. „Ef við lögum þetta hlutfall og förum í sama flokk og önnur OECD-ríki myndi það skila sér í mun lægra lyfjaverði til sjúklinga. Við áætlum að kostnaður ríkissjóðs við þessar breytingar séu um tveir milljarðar á ári. Svo má líka benda á að hér á landi eru lyf í hæsta virðisaukaskattsflokki en víða annars staðar bera lyf lægri eða engan virðisaukaskatt. Stjórnvöld hafa þessi tvö tæki og þetta eru klárlega lóð sem stjórnvöld geta lagt á vogarskálarnar.“
Svigrúm til lækkunar hjá heildsölum og lyfsölum
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir skýrsluna draga fram að afkoma þeirra sem koma að lyfsölu sé góð. „Lyfsalar hafa verið að skila ágætum hagnaði, heildsalar hagnast betur en aðrir og afkoma lyfjadreifingaraðila er góð þótt hún hafi versnað upp á síðkastið. Þess vegna vekur skýrslan upp spurningar hvort það sé rými til lækkunar á álagningu á lyfjum miðað við þann hagnað sem fyrirtækin skila. Lækkun virðisaukaskatts er ekkert sem hefur komið til álita. Við hljótum að bíða með að auka framlög úr sameiginlegum sjóðum ef það er svigrúm hjá lyfsölum og heildsölum til lækkunar,“ segir Svandís.
Leikkonan Berglind Halla Elíasdóttir útskrifaðist af sviðslistabraut Listaháskóla Íslands í vor og tekur nú þátt í fyrstu stóru leiksýningunni sinni, verkinu We Will Rock You Ísland sem frumsýnt var í Háskólabíói í gær. Berglind er alin upp í Bolunarvík og segir það hafa gefið sér gott veganesti út í lífið.
„Ég sá prufurnar fyrir söngleikinn auglýstar á Facebook og fannst lítið annað koma til greina en að fara,“ segir Berglind. „Ég var ekkert gríðarlega bjartsýn eftir fyrstu prufuna en svo fékk ég „recall“, og annað, og að lokum símtal frá Vigni leikstjóra sem bauð mér hlutverkið. Ég leik Oz en hún er uppreisnarseggur sem berst gegn yfirvaldinu í heimi þar sem frjáls hugsun og listsköpun er bönnuð. Alger töffari og hörkutól. Svo datt ég inn í aukahlutverk sem kennari í upphafi verksins sem er gaman að leika sér með líka.“
Mikill söngur er í verkinu en Berglind byrjaði fyrst að læra söng í leiklistarnáminu. „Ég kem úr „syngjandi fjölskyldu“ ef svo má að orði komast og föðurættin er mjög músíkölsk sem hefur svolítið verið minn skóli í söng og framkomu í gegnum tíðina,“ segir Berglind sem á einnig að baki píanónám frá grunn- og menntaskólaárunum. Margir flottustu leik- og söngvarar landsins taka þátt í sýningunni og Berglindi finnst mikill heiður að starfa með þeim. „Ég, eins og svo margir, ólst upp við listina þeirra þannig það er mikill heiður að fá að vinna með og kynnast þeim. Það sama er að segja um alla aðra sem koma að sýningunni. Ótrúlega flottir og miklir fagmenn hérna og orkan geggjuð. Þetta er rosalega skemmtilegt.“
„Ég, eins og svo margir, ólst upp við listina þeirra þannig það er mikill heiður að fá að vinna með og kynnast þeim.“
Öðlaðist sjálfstæði að alast upp í litlum bæ
Berglind fæddist á Ísafirði og er alin upp í Bolungarvík. Foreldrar hennar búa fyrir vestan en Berglind og systkini hennar eru nú öll farin suður, eins og sagt er. „Ég var nokkuð aktívt barn, en með grunnskólanum lærði ég á píanó, spilaði fótbolta og æfði einnig samkvæmisdans í nokkur ár. Ég útskrifaðist svo sem stúdent af náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Ísafirði, 2012. Þar tók ég að sjálfsögðu þátt í leikfélagi skólans, MORFÍs, og skólakórnum en ég fór einnig í skiptinám í eitt ár til Frakklands. Eftir stúdentspróf flutti ég suður og bý núna í Laugardalnum með kærastanum mínum, Bolla Má Bjarnasyni. Það var frábært að alast upp í Bolungarvík. Mikið frelsi og maður varð snemma frekar sjálfstæður. Það er auðvitað takmarkað framboð af tómstundum og þess háttar í svona litlu samfélagi en maður fann lítið sem ekkert fyrir því. Það kallaði líka á frjótt ímyndunarafl – að finna sér eitthvað að gera og kunna að nota umhverfið sitt.“
Eftir stúdentsprófið fór Berglind í tannsmíði en hætti fljótlega. „Ég fór í tannsmíði því ég þekkti stelpu sem hafði klárað námið og talaði um hvað verklegi hlutinn væri skemmtilegur. Það hljómaði geggjað því ég hef alltaf haft gaman af handavinnu. Ég komst svo ekki í gegnum klásus um jólin og það reyndist vera ein besta höfnun sem ég hef fengið. Ég tók nokkra valáfanga á vorönn, kláraði árið og tók svo þá ákvörðun að fara ekki í nám um haustið og fór að vinna hjá leikskólanum Grænuborg.
„Ég fór í tannsmíði því ég þekkti stelpu sem hafði klárað námið og talaði um hvað verklegi hlutinn væri skemmtilegur.“
Frá því að ég man eftir mér sagðist ég ætla að verða leikkona eða listmálari. Málið er að ég beit það í mig þegar ég var unglingur að hugmyndin um að ég gæti orðið leikkona væri fráleit þar sem ég byggi í Bolungarvík – það væri bara fólk í Reykjavík sem gæti fetað þennan veg. Það útskýrir ágætlega ástæðuna fyrir fyrsta námsárinu í HÍ. Í Grænuborg kynnist ég Evu Jóhannsdóttur, góðri vinkonu minni í dag, sem kynnti mig fyrir Kvikmyndaskólanum og ég ákvað að fara í leiklist og kvikmyndagerð. Ég kláraði þar vorið 2016 og um haustið byrjaði ég svo í leikaranámi á sviðslistabraut Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu í vor.“
We Will Rock You Ísland var frumsýnt í Háskólabíói í gær og næstu sýningar verða á morgun og 23. ágúst. „Svo voru tvær aukasýningar að detta í hús sem er bara frábært. Sýnum þá einnig síðustu helgina í ágúst og fyrstu í september. Fram undan er síðan óvissan en örugglega eitthvað dásamlegt. Ég hlakka bara til að sjá hvað framtíðin hefur að geyma,“ segir Berlind að lokum.
Tónlistarmaðurinn Krummi Björgvinsson var að senda frá sér nýtt lag, Stories To Tell. Þetta er sveitarokk og segir Krummi að hann hafi ætíð verið mikill unnandi sveitatónlistar, rokks og blús af gamla skólanum.
„Sú tónlist hefur alltaf verið mín hjartans bæn,“ segir hann. „Allt mitt plötusafn er mestmegnis vínilplötur frá 40´s og 70´s. Þetta var tónlistin sem ég ólst upp við á mínu heimili í bland við hipparokk. Tónlist frá Sun Rec, Motown, Chess Rec og það var einnig mikið um Doo Wop-tónlist, sem ég gjörsamlega elska af öllu hjarta. Það var ekki aftur snúið þegar maður heyrði í Elvis og Bítlunum í fyrsta skipti.“
„Þetta er ekkert nýtt fyrir mér, sumt fólk er bara fljótt að gleyma og heldur að maður sé að stíga sín fyrstu spor í þessari tónlistarstefnu.“
Spurður hvort hann sé að færa sig meira út í sveitatónlist, segist hann hafa byrjað að gera kántrískotna kassagítartónlist árið 2001 með Franz Gunnarsyni undir nafninu The Moody Company. „Einnig vil ég nefna hljómsveitina Esju með Daníel Ágústi Haraldssyni sem var starfandi 2007-2009. Þetta er ekkert nýtt fyrir mér, sumt fólk er bara fljótt að gleyma og heldur að maður sé að stíga sín fyrstu spor í þessari tónlistarstefnu,“ útskýrir hann og bætir við að þegar hann setjist niður einn með kassagítarinn þá sé þetta tónlistin sem komi frá honum sjálfum. „Melódíurnar verða að vera byggðar á algjörri einlægni. Hér á ég heima og heima er best.“
Aðspurður segir hann að þungarokkið sé alls ekki komið á hilluna. „Ég elska „heavy“ rokk og þá sérstaklega þungt rokk frá því í gamla daga,“ svarar Krummi en eins og margir vita var hann í þungarokksveitinni Mínus og svo í Legend. „Ég er í hljómsveit sem svalar mínum þorsta fyrir þungt rokk þannig að ég er góður. Krummi og Kórdrengirnir eru svolítið „heavy“.“
„Veganæs heldur mér á jörðinni“
Krummi hefur í nægu að snúast þessa dagana en auk þess að vinna að sinni fyrstu sólóplötu rekur hann ásamt konu sinni veganveitingastaðinn Veganæs. En hvernig er að tvinna þessu öllu saman? „Þetta er mikil vinna og stundum stress en þetta elskar maður að gera. Gerðu það sem gerir þig hamingjusaman. Ég er enn þá að læra að hamingjan er ákvörðun. Hamingjan kemur innan frá og því þarftu að muna að það er enginn annar en þú sem getur gert þig hamingjusaman. Ég reyni að taka helgarnar í að spila og semja og pæla í tónlist. Veganæs heldur mér á jörðinni og tónlistin fer með mig til himnanna. Gott samstarf.“
„Ég er enn þá að læra að hamingjan er ákvörðun. Hamingjan kemur innan frá og því þarftu að muna að það er enginn annar en þú sem getur gert þig hamingjusaman.“
Stefnan er svo sett á að gefa út plötuna í vetur eða byrjun næsta árs en þangað til mun hann senda frá sér eitt og eitt lag. „Þetta er singer/songwriter-plata sem kallar fram allan tilfinningaskalann. Ég er reyndar með þriggja hljómplötuplan því ég er búinn að semja heilan helling af lögum og er ekki hættur. Maður verður að taka við gjöfum listagyðjunnar.“
Spurður hvað sé fram undan og hvort planið sé að fara erlendis, svarar hann að svo sé. „Ég er með nokkur járn í eldinum varðandi það. Sjáum hvað setur,“ útskýrir hann hugsandi. „Við Kórdrengirnir ætlum okkur að spila út um allar trissur. Taka túr um landið á næsta ári og ferðast á vit ævintýranna. Segja sögur í tónlistarlegum skilningi,“ útskýrir hann og vill bæta við að hann vilji þakka öllum innilega fyrir þær frábæru viðtökur sem lagið og myndbandið við það hefur fengið. „Verið góð hvert við annað, dýrin og jörðina, það er lykillinn af farsælu lífi fyrir alla jarðarbúa.“
Heiða Þórðardóttir segir sorgina eftir að bróðir hennar, Gísli Þór Þórarinsson, var skotinn af bróður þeirra, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, hafa verið þá þyngstu sem hún hefur upplifað. Hún trúir þó að þetta hafi verið óviljaverk og er afskaplega ósátt við rangfærslur í fréttaflutningi af málinu.
„Þetta hefur náttúrlega verið alveg svakalega erfiður tími,“ svarar Heiða aðspurð hvernig henni hafi liðið þessa mánuði síðan manndrápið átti sér stað. „Ég er að koma til en þetta hefur verið ansi töff, sér í lagi vegna þess að ég var í svo miklum samskiptum við Gísla alla hans ævi. Ég passaði hann alveg frá því að hann fæddist og við vorum mjög náin alla tíð. Hann trúði mér fyrir öllu í aðdraganda málsins og ég var eiginlega þátttakandi í þessu öllu með honum.“
Aðdragandi málsins var sá að Gísli og fyrrverandi kona Gunnars fóru að draga sig saman á meðan Gunnar og kona hans stóðu í skilnaðarferli. Heiða segir Gísla hafa heimsótt Gunnar nokkrum dögum áður en manndrápið átti sér stað til að segja honum að þau væru saman og myndu hugsanlega fara að búa saman í framtíðinni.
„Gunnar og konan hans skildu að borði og sæng fyrir tveimur árum og í ágúst á síðasta ári fór Gunnar í meðferð til að vinna sínum málum og koma lífi sínu á réttan kjöl. Hann stóð í þeirri meiningu að ef honum tækist það myndu þau hjónin taka saman aftur. Hann er faðir barnanna sem gjarnan eru kölluð stjúpbörn Gísla í fréttum af málinu sem er auðvitað algjör vitleysa. Gísli og fyrrverandi kona Gunnars bjuggu ekki saman og þessi börn voru ekkert á hans vegum. Gísli hringdi í mig 19. apríl, nokkrum dögum áður en þetta gerðist, og sagði mér að hann hefði farið til Gunnars fáeinum dögum fyrr og sagt honum að hann og fyrrverandi kona Gunnars væru að draga sig saman. Gunnar varð auðvitað alveg brjálaður því að hann hélt að þau hjónin væru að vinna að því að taka saman aftur. Þar fyrir utan voru Gísli og Gunnar alltaf góðir og nánir vinir þannig að Gunnar upplifði þetta sem svik frá bæði konunni sinni og besta vini. Í kjölfarið leitaði hann til sálfræðings vegna þess að hann var gjörsamlega niðurbrotinn og var hræddur um að hann myndi fyrirfara sér. Hann lét svo leggja sig inn á geðdeild þar sem hann réði ekkert við aðstæðurnar.“
„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega.“
Í fréttum hefur komið fram að Gunnar hafi hótað því að drepa Gísla eftir að hann komst að sannleikanum en Heiða segist ekki hafa tekið neitt mark á því á þeim tíma, það hafi bara verið marklaus upphrópun eins og fólk láti gjarnan frá sér þegar það er í miklu uppnámi.
„Ég var í miklu sambandi við þá báða á þessum tíma,“ segir hún. „Við Gunnar vorum líka náin, nema auðvitað þegar hann var á kafi í einhverju rugli. Þannig að það má segja að við höfum öll þrjú verið nánir vinir og staðið saman í gegnum lífið enda þurftum við öll hvert á öðru að halda.“
Öll mörkuð af uppeldinu
Komið hefur fram í fréttum af málinu að þau systkinin hafi átt erfitt í æsku vegna alkóhólisma og geðrænna vandamála móður þeirra. Ólust þau öll upp hjá henni?
„Nei, elskan mín góða,“ segir Heiða og hristir höfuðið. „Mamma átti sex börn með fjórum mönnum og pabbi átti fjögur börn með þremur konum og svo áttu allir hinir feður þessara barna fullt af börnum með fullt af konum. Þetta er alveg óskaplega flókið fjölskyldumunstur. En ég, Gísli og alsystir hans ólumst öll upp hjá mömmu. Gunnar ólst hins vegar upp hjá föður sínum, en kom mikið til okkar og sótti mikið í mömmu. Hann var óskaplega orkumikill og ég kallaði hann alltaf villinginn, en mér þótti samt afar vænt um hann og hann er alveg jafnmikill bróðir minn og Gísli var.“
Heiða segir óvíst hvort hafi komið á undan hjá móður þeirra, alkóhólisminn eða geðrænu vandamálin en auðvitað hafi ástand hennar haft mikil áhrif á þau systkinin.
„Mamma byrjaði að taka kvíðastillandi lyf þegar hún var sextán ára,“ útskýrir hún. „Þannig að mögulega var það upphafið. Hún lét viðgangast hluti sem eru algjörlega absúrd og þekkjast ekki á „eðlilegum“ heimilum. Það setti mark sitt á okkur öll systkinin, líka þau sem ólust ekki upp hjá henni. Þar fyrir utan áttum við fleiri fósturpabba en ég get talið á fingrum beggja handa og þeir voru náttúrlega misgóðir, eins og gengur.“
Trúir ekki að þetta hafi verið viljaverk
Spurð hvort hún hafi átt von á því að Gunnar gæti látið verða af þeirri hótun sinni að drepa Gísla, miðað við langa ofbeldissögu hans, svarar Heiða að hún hafi aldrei trúað því og hún trúi því ekki enn að það hafi verið ætlun hans.
„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til, datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega,“ segir hún. „Hann sagðist myndu loka á samskipti við mig ef ég tæki afstöðu með Gísla en ég tók enga afstöðu, sagði honum bara að jafna sig, þessi kona væri ekki þess virði að splundra samstöðu okkar þriggja. Varðandi fyrri brot hans þá vil ég taka fram að þau áttu sér alltaf stað þegar hann var í harðri neyslu. Ekki að það sé afsökun, en það er skýring. Eftir að hann kom út af geðdeildinni féll hann og fór heim til Gísla með kunningja sínum og þeim bræðrunum lenti saman sem lauk með því að Gunnar skaut Gísla í lærið, skotið fór í slagæð og honum blæddi út. Sjúkraflutningamennirnir sem komu á vettvang voru með bundnar hendur vegna þess að þeir máttu ekki fara inn á undan lögreglunni og því fór sem fór.“
„Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys.“
Spurð hvort hún sé reið yfir því að Gísli hafi verið látinn liggja einn þar til honum blæddi út tekur Heiða sér örlítinn umhugsunartíma til að svara.
„Jú,“ segir hún svo. „Ég er reið, það hefði verið hægt að bjarga honum. En samt hef ég eiginlega ekki orðið reið í þessu sorgarferli, nema auðvitað við fólkið í kringum mig sem sýndi af sér virkilegan ótuktarskap gagnvart mér vegna þess að ég vildi ekki taka þá afstöðu að kalla Gunnar morðingja. Ég þekki hann ekki sem slíkan. Ég veit auðvitað að hann hefur gert hræðilega hluti, þótt ég hafi ekki lesið öll málsskjöl í þeim málum sem hann hefur verið dæmdur fyrir en mér finnst það ekki vera mitt að dæma hann. Ég get ekki einu sinni verið reið við hann í þessu tilfelli, hann þarf að lifa með því alla sína ævi að hafa drepið bróður sinn og besta vin. Þeir höfðu búið saman, unnið saman og áttu mjög vel saman þegar Gunnar var í toppstandi, sem hann var miklu oftar en í neyslu. Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys. Ég er bara svo ofboðslega sorgmædd. Ég er búin að missa alla þá sem hafa verið mér kærkomnastir, mömmu, pabba, vini og ömmur en þetta er mesta sorg sem ég hef upplifað. Þegar lögreglan kom til að segja mér frá þessu var mér boðin hjálp sem ég afþakkaði með þeim orðum að ég væri vön þessu en málið er að þetta er það svakalegasta högg sem ég hef fengið. Sorgin var svo mikil að ég fann líkamlegan sársauka. Ég svaf ekki, ég borðaði ekki og ég get svarið að ég man ekkert eftir fyrstu dögunum á eftir.“
Atburðurinn hefur tvístrað fjölskyldunni
Þrátt fyrir þessa miklu sorg og vanlíðan segist Heiða ekki hafa leitað sér áfallahjálpar eða sálfræðiaðstoðar, hún hafi haldið að hún kæmist í gegnum þetta hjálparlaust. Það hafi sennilega verið ofmat á eigin getu.
„Það er engan stuðning að fá frá fjölskyldu minni,“ segir hún. „En hins vegar hef ég fengið ótrúlegustu hjálp frá alls konar fólki sem jafnvel þekkir mig ekki neitt. Ég er líka mikið í félagsstörfum, er í stjórn stjórnmálaflokks og þar að auki samfrímúrari og þaðan hef ég fengið mestu hjálpina. Þau komu færandi hendi með blóm og fallegar kveðjur og vilja allt fyrir mig gera. En að öðru leyti hef ég ekki fengið neina hjálp.“
Aðrir í fjölskyldunni hafa tekið harða afstöðu gegn Gunnari og fordæmt hann fyrir verknaðinn, að sögn Heiðu, og atburðurinn hefur tvístrað fjölskyldunni enn frekar.
„Þau fordæma hann og sumir hafa skrifað virkilega ógeðslega hluti um hann á Facebook, meira að segja fólk sem er óvirkir alkóhólistar og ætti að hafa skilning á því að fíkill undir áhrifum alls kyns efna fremur einhvern viðbjóð þegar hann er ekki með sjálfum sér. Mér hafa sárnað þessi ummæli óskaplega. Dómharkan var svo svaðalega mikil án þess að fólk vissi neitt um málið eða tildrög þess. Enginn reyndi að setja sig í spor Gunnars eða reyna að skilja hversu hræðilega illa honum leið eftir að hafa upplifað þessi svik frá konunni sem hann elskaði og bróðurnum sem hann leit á sem besta vin sinn. Mér finnst það ófyrirgefanlegt að dæma svona án þess að hafa neinar forsendur.“
Dómharkan var svo svaðalega mikil án þess að fólk vissi neitt um málið eða tildrög þess.
Lík Gísla var flutt heim, sem olli líka átökum innan fjölskyldunnar, og jarðarförin fór fram hér. Heiða segist hafa barist fyrir því að fá hann heim en ýmsir aðrir innan fjölskyldunnar hafi viljað láta brenna líkið í Noregi og flytja öskuna heim til að spara kostnað. Þegar til kom hafi Icelandair flutt hann ókeypis sem hún sé mjög þakklát fyrir, svo þetta hafi ekki snúist um kostnað þegar upp var staðið. Þessi átök hafi hins vegar kostað það að hún hafi ekki treyst sér til að vera við jarðarförina.
„Ég vildi fá hann heim í heilu lagi svo ástvinir hans gætu kvatt hann,“ útskýrir hún. „Ég hafði það í gegn og hann fékk þá jarðarför sem hann hafði óskað eftir, Liverpool-söngurinn You Never Walk Alone var spilaður og fleira. Síðan var hann brenndur að eigin ósk. Ég hins vegar gat alls ekki fengið mig til að fara í jarðarförina, ég hafði bara ekki heilsu í það, var ekkert búin að borða í marga daga, með svimaköst og stöðugt grátandi. Ég komst líka að því að maður sem tengist fjölskyldunni hafði verið að skrifa alls konar óhróður um mig í Facebook-grúppu sem margir vina minna voru í. Ég ætla ekki að gefa þeim orðum líf með því að endurtaka þau en ég gat bara ekki hugsað mér að láta þetta fólk sjá mig brotna saman. Ég kvaddi bróður minn bara ein með sjálfri mér.“
„Hvað myndi Gísli gera?“
Aðspurð hvernig hægt sé að halda áfram að lifa sínu venjulega lífi eftir slíkt áfall svarar Heiða að hún sé ekki enn búin að finna út úr því.
„Ég bara veit það ekki,“ segir hún döpur. „Ég fór ekki út í margar vikur eftir að þetta gerðist, lét bara senda mér mat, kveikti á kertum og hugsaði. Ég hef svo smám saman náð því með bænum og hugleiðslu að reyna að lifa samkvæmt sannleika Gísla. Hann var alveg ofboðslega góð manneskja. Talaði aldrei illa um neinn, var afskaplega hlýr, traustur og tryggur og hjálpaði öllum sem hann gat. Hann var alveg ótrúlegur. Þeir segja að þeir sem deyja ungir fari til himna en mikið rosalega var þetta ósanngjarnt. Hann átti svo mikið eftir. Var tónlistarmaður með drauma og ofboðslega skemmtilegan húmor. Samt oft þungur, mjög mikill pælari og mjög gaman að tala við hann um alls kyns málefni. Hann verður aldrei gleymdur. Ég finn sterkt fyrir honum og sný upp á máltækið „Hvað myndi Jesús gera?“ með því að spyrja sjálfa mig: „Hvað myndi Gísli gera?“ þegar ég þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Ég er ekki trúuð í skilningi trúarbragðanna en ég trúi á eitthvað okkur æðra. Ef ég gerði það ekki þá myndi ég einfaldlega trúa því að ég sé guð almáttugur og það er ég svo sannarlega ekki,“ segir Heiða og kímir. „En ég reyni vissulega að vera betri með hverjum deginum og oft í gegnum þessar vikur hef ég hugsað með mér að ég verði að hringja í Gísla og spyrja hann um hitt og þetta, eins og ég gerði svo oft þegar ég var í einhverjum vafa. En nú get ég það ekki lengur, þannig að nú reyni ég bara að hugsa um hvernig hann myndi leysa málin. Hann var alltaf svo rólegur og yfirvegaður. Þannig að, já, það er stefnan að reyna að lifa í anda hans og borga illt með góðu, eða ef mér tekst það ekki að leiða það þá hjá mér og láta það ekki særa mig. Fyrstu vikurnar eftir að hann dó var ég það aum að ég tók allt vont sem fólk sagði inn á mig og lét alls konar hluti fjúka á móti, sem er mér ekki eðlislægt. Ég var bara gjörsamlega í sjokki, kannski í allt of langan tíma, ég veit það ekki, en ég bara þurfti þennan tíma til að vinna mig út úr þessu.“
Fyrstu vikurnar eftir að hann dó var ég það aum að ég tók allt vont sem fólk sagði inn á mig og lét alls konar hluti fjúka á móti, sem er mér ekki eðlislægt.
Hver næstu skref verði til að ná aftur tökum á lífi sínu segir Heiða að það sé nú ýmislegt í bígerð. „Næstu skref, já,“ segir hún hugsi. „Góð spurning. Nú er ég til dæmis í viðtali við þig, það er mjög stórt skref fyrir mig, og svo tek ég bara á þessu einn dag í einu. Ég hef verið með vefinn spegill.is síðan 2011 og er að skipta um hýsingaraðila þessa dagana til að efla hann. Svo ætla ég að skrifa og er að hugsa um að þýða bókina Allra síðasta eintakið, sem ég gaf út 2011, yfir á ensku og reyna að koma henni á framfæri erlendis. Bókin fjallar um kynferðislega misnotkun og fyrirgefninguna og er voða sæt, þrátt fyrir efniviðinn, hún kemur mér til að gráta og hlæja enn þá og er ekkert svakalegt drama. Þar fyrir utan hef ég verið að taka að mér alls kyns verkefni í skriftum, þýðingar og greinaskrif, en annars hef ég bara verið í slökun. Ég hef verið að reyna að koma mataræðinu í lag aftur því þegar ég er undir álagi þá borða ég ekki, þannig að ég er orðin svo grönn að ég gæti málað ljósastaura að innan, svo maður grínist nú aðeins.“
„Þá á ég ekkert systkini eftir“
Heiðu er reyndar ekki grín í huga, hún segist engan veginn vera búin að vinna úr þessu áfalli, það muni taka mun lengri tíma.
„Þetta ferli hefur verið alveg rosalegt. Kannski var ég bara að taka allt sem á undan er gengið og fara í gegnum það í sambandi við þennan atburð. Ég fylgdist með þessu öllu, færði fréttir á milli þeirra bræðranna og við Gísli vorum alveg komin á þá skoðun að þetta væri bara í kjaftinum á Gunnari, hann myndi ekki gera neitt. Svo hefur verið erfitt að fylgjast með öllum þessum rangfærslum í fréttaflutningi, eins og til dæmis þegar kona Gunnars sagði að hann hefði barið allt húsið að utan þegar ég vissi að hann var inni á geðdeild, ég var nýbúin að tala við hann í síma. Það var líka erfitt að lenda í átökum við fjölskylduna vegna heimflutnings líksins og að treysta mér ekki í jarðarförina og já, þetta hefur bara verið alveg óskaplega erfiður pakki.“
„Ég hef hringt nokkrum sinnum og skilið eftir skilaboð en hann hefur ekki svarað. Hann treystir sér væntanlega ekki til að tala við mig strax.“
Réttarhöldin í máli Gunnars munu hefjast 10. desember og Heiða segist vonast til að þar komi sannleikurinn í ljós. Hún ætli sér að minnsta kosti að trúa því að þetta hafi verið hræðilegt slys þangað til annað komi í ljós. Hefur hún verið í einhverju sambandi við bróður sinn á meðan hann hefur setið í gæsluvarðhaldi?
„Ég hef hringt nokkrum sinnum og skilið eftir skilaboð, en hann hefur ekki svarað,“ segir hún. „Hann treystir sér væntanlega ekki til að tala við mig strax. Ég hins vegar verð til staðar þegar hann er tilbúinn. Ég mun að sjálfsögðu ekki ljúga að honum og segja að mér finnist þetta í lagi, ég mun segja honum sannleikann og ef hann þolir það ekki þá á ég ekkert systkini eftir. Ég vona að til þess komi ekki.“
Myndir/Hallur Karlsson Förðun/Hildur Emilsdóttir förðunarfræðingur Urban Decay á Íslandi
„Beinn vegur fram undan,“ segir Björgvin Jóhannesson ferðaþjónustubóndi í Efstadal II.
Ferðaþjónustubændur að Efstadal II hafa unnið hörðum höndum að því koma starfsemi í eðlilegt form eftir að E. coli-faraldur sem rakinn var til bæjarins braust út. Grunur lék á að smitið hefði komið úr ís sem framleiddur er á staðnum en börnin sem smituðust höfðu öll borðað ís á bænum. Samkvæmt upplýsingum frá MAST er ólíklegt að ísinn hafi verið smitvaldurinn en MAST hefur tekið yfir 40 sýni í samstarfi við rekstraraðila Efstadals II. Sýnin voru tekin af matvælum og ísgerð og 25 sýni af dýrunum og umhverfi þeirra. Sú gerð E. coli (af sermisgerðinni 0026 ) sem fólkið greindist með fannst ekki í ísnum.
Björgvin Jóhannesson, einn af eigendum ferðaþjónustubæjarins, segir í samtali við Mannlíf að faraldurinn hafi verið mikið áfall fyrir alla sem að rekstrinum koma. Hann segir jafnframt að samstarf við eftirlitsaðila hafi gengið vel og nú verði að líta bjart fram á veginn.
„Við erum að fara taka lítil skref í þá átt að koma okkur af stað aftur. Ísbúðin hefur verið tekin í gegn en við gerðum smávegis breytingar á henni,“ segir Björgvin en ísbúðin var opnuð á ný 1. ágúst eftir að grænt ljós fékkst frá eftirlitsaðilum. „Við erum smátt og smátt að koma framleiðslu á okkar ís af stað aftur. Það gengur bara bærilega. Það er ekki hægt að segja annað en það að það sé mjög gott samstarf á milli okkar og þessara stofnana og þær hafa hjálpað okkur í þessu ferli og hvernig við eigum að haga okkur. Vissulega eru þetta aðstæður sem margir þekkja ekki þannig að það eru allir að læra af þessu en samstarfið hefur gengið vel.“
Aðspurður segir Björgvin að hann telji að smitið hafi borist úr kálfastíu á bænum en ekki úr ísnum. „Bakterían sem fannst í þeim sem veiktust fannst hvað sterkust í kálfastíunni hjá okkur en hún hefur aldrei fundist í ís eða öðrum matvælum frá okkur. Það var lengi grunur um að smitið hafi borist úr ísnum, upp í munn og niður í maga en það hefur sýnt sig að ekki þarf stóran snertiflöt til þess að smitast,“ útskýrir hann og bætir við að mikill umgangur gesta hafi verið í kálfastíunni. Þar hafi verið vinsælt að klappa dýrunum og jafnvel að leyfa þeim að sleikja hendur. „Einhverjir klappa dýrum á meðan aðrir snerta einhverja hluti og koma svo við afgreiðsluborð eða annað slíkt. Það þarf ekki meira en það.“
„Okkur er gríðarlega létt að heyra að allir sem veiktust séu að ná heilsu og að börnin eru komin heim af spítala.“
Kálfastíunni hefur verið lokað og verður líklega ekki opnuð á ný í sama formi. „Við erum búin að loka á alla snertingu en það er enn þá hægt að horfa á dýrin í gegnum glugga þannig að það verður meiri sýnileiki en minni snerting,“ segir Björgvin sem telur að nú sé búið að útiloka að smit geti borist út stíunni. Hann segir að það sé mikill léttir að börnin sem veiktust séu á batavegi. „Okkur er gríðarlega létt að heyra að allir sem veiktust eru að ná heilsu og að börnin eru komin heim af spítala. Það er auðvitað aðalatriðið í öllu þessu ferli. Okkar áfall og þær breytingar sem við höfum þurft að gera og aðlaga reksturinn að skiptir minna máli. En þegar við fréttum það að allir væru að ná heilsu þá er þetta bara beinn vegur fram undan.“
Ritstjórn Mannlífs tók saman hverja hún taldi hafa átt góða og slæma síðustu viku.
Góð vika – Sigurður Ingi Jóhansson samgönguráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson er senuþjófur þessarar viku því hann fékk að upplifa blautan draum allra samgönguráðherra í vikunni. Ekki bara fékk hann að klippa á borða í Berufirði heldur fékk að kynna fyrirhuguð jarðgöng á landsbyggðinni. Nánar tiltekið Fjarðaheiðargöng sem yrðu bæði lengstu og dýrustu göng Íslandssögunnar og er ætlað að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar þar sem 673 manns búa. Áætlaður kostnaður er 34 milljarðar króna, eða rúmlega 50 milljónir króna á hvern íbúa Seyðisfjarðar. Ef ráðist yrði í álíka framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu, þar sem kostnaðurinn yrði 50 milljónir á hvern íbúa, yrði heildarkostnaðurinn 11 billjónir króna.
Slæm vika – Íslenski ferðalangurinn
Það hlýtur að vera ákveðinn skellur fyrir hinsegin fólk að fá þær fréttir, nú þegar Hinsegin dagar nálgast hápunktinn, að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, muni heimsækja Ísland í byrjun september. Fáir valdamenn á Vesturlöndum hafa reynt að takmarka réttindi hinsegin fólks eins og Pence og skoðanabræður hans innan Bandaríkjastjórnar. Það er þó hjóm eitt miðað við það verkefni sem íslenskur ferðamaður stóð frammi fyrir þegar hann vaknaði af ölvunarsvefni í Stavanger í Noregi. Það er að sannfæra lögregluyfirvöld um að hátterni hans í flugvél Wizz Air frá Búdapest til Keflavíkur hafi einungis verið almennur flugdólgsháttur en ekki tilraun til flugráns.
Tattústofan Black Kross stendur fyrir sinni fyrstu pop-up-verslun á Akureyri um helgina. Hún verður staðsett á Rakarastofu Akureyrar en flúrararnir Thorbjorn Ink, Julian Carrillo og Kirill Mashlow munu bjóða upp á mismunandi tattústíla svo allir ættu að geta fengið flúr við sitt hæfi.
„Þar sem við höfum ekki gert þetta áður er mikil spenna í loftinu,“ segir Thorbjorn Ink en hugmyndina fengu þau fyrir rúmu ári þar sem margir utan af landi hafa verið að koma í tattú til þeirra og komið hafi í ljós að mikill áhugi er fyrir pop-up-verslunum fyrir viðskiptavini sem búa úti á landi. „Við höfum fengið ótal fyrirspurnir um tímapantanir og hvort við munum halda fleiri pop-up-verslanir sem við stefnum klárlega að.“
Undirbúningurinn gengur vel en Thorbjorn segir að óneitanlega fylgi því smávegis stress að skipuleggja svona viðburð. „Sérstaklega þar sem við fáum Rakarastofuna ekki afhenta fyrr en á föstudagskvöldið og þá á eftir að koma öllu upp.“ Rakarastofan er til húsa í Hafnarstræti 88 á Akureyri og verður opin milli klukkan 12-18 bæði laugardag og sunnudag. Hægt er að bóka tíma fyrir fram með því að hafa samband við Black Kross Tattoo í síma 680-6662 eða senda skilaboð á Facebook eða Instagram.
Fyrirlesturinn Íslenska lesbían verður í Tjarnarbíói í dag milli 17 og 19, í tengslum við Hinsegin daga, þar sem spjallað verður um upphafsár Samtakanna ’78 frá sjónarhóli lesbía en þær voru teljandi á fingrum annarrar handar á fyrstu árunum. Hanna María Karlsdóttir rifjar upp fámennið og fordómana hér áður fyrr en Lana Kolbrún Eddudóttir nefnir spjallið sitt „Kona sem þekkir konu, sem þekkir konu: Tengslanet níunda áratugarins.“
Lana Kolbrún var þrettán ára þegar Samtökin ’78 voru stofnuð og hefur eftir heimildum að konurnar hafi verið afar fáar fyrst um sinn. „Það má fastlega reikna með því að margar af eldri kynslóðum hafi verið búnar að flýja land, hafi þær á annað borð komið úr felum. Íslenskar lesbíur bjuggu gjarnan í gömlu höfuðborginni okkar, Kaupmannahöfn, og fluttu líka til fyrirheitnu borgarinnar San Francisco. Þegar ég gekk í félagið 1987 voru ýmsar konur komnar á vettvang og hlutverk kvenna í félaginu jókst mjög á næstu 10 árum, þar af urðu þrjár konur formenn. Ekki veitti af vöskum konum í félagsstarfið því baráttan gegn alnæmi kostaði okkur öll mikið þrek.“
Hún segir að lesbíur hafi átt nokkuð auðvelt með að „dyljast meðal almennings“, ef svo má segja. „En það var býsna erfitt og þurfti að fara allskonar krókaleiðir til að kynnast öðrum konum á þessum árum. Vissulega hjálpaði félagsmiðstöðin á Lindargötu 49 mikið en samkvæmi í heimahúsum voru lengi vel einn helsti vettvangur félagslífs lesbía á Íslandi. Og þá gilti að þekkja konu, sem þekkti aðra konu og svo framvegis.
„En það var býsna erfitt og þurfti að fara allskonar krókaleiðir til að kynnast öðrum konum á þessum árum.“
Fordómar gegn lesbíum birtust á vinnustöðum, athugasemdum við klæðaburð og hár, meðal leigusala sem vildu ekki leigja samkynhneigðum, á skemmtistöðum þar sem okkur var gjarnan fleygt út fyrir að kyssast og dansa og síðast en ekki síst innan fjölskyldunnar. Þar urðu margir fyrir þungum árásum og djúpum sárum sem oftar en ekki leiddu til þess að fólk sleit algjörlega samskiptum við blóðfjölskyldur sínar. Ég vona heitt og innilega að lesbíur dagsins í dag þurfi ekki að þola sama mótlæti og við eldri kynslóðirnar,“ segir Lana Kolbrún og hvetur fólk til að mæta í dag.
„Það verður hægt að drekka kaffisopa eða hvítvínsglas, hlusta á okkur Hönnu Maríu og bæta eigin sögum í safnið í spjallinu á eftir. Viðburðurinn fer fram á íslensku, ókeypis inn og öll velkomin.“
Þeir sem hafa lagt leið sína til Parísar hafa eflaust tekið eftir því að það þarf ekki að labba lengi um miðborgina til að finna fallegt bakarí sem selur franskar makrónur. Bakaríið Laduré er þar fremst í flokki og hefur séð Parísarbúum fyrir makrónum síðan 1862. Í Frakklandi eru kampavín og makrónur ómissandi við öll tækifæri sem gefast til að halda veislu. Litadýrðin er ómótstæðileg og bragðið … Mmmm … Hvað svo á betur við á Hinsegin dögum en makrónur í öllum regnbogans litum.
Franskar makrónur
15 tilbúnar kökur
2 eggjahvítur, helst dagsgamlar
70 g möndlur
130 g flórsykur
2 msk. sykur
matarlitur eftir smekk
Skiljið eggjarauður og eggjahvítur daginn áður og geymið í kæli. Hitið ofninn í 150°C. Takið eggjahvítur tímanlega úr kæli því þá næst bestur árangur og kökurnar lyfta sér frekar ef þær eru við stofuhita í byrjun.
Malið möndlur í matvinnsluvél, bætið flórsykri út í og malið allt mjög vel saman. Sigtið möndlumjölið á smjörpappírsklædda ofnplötu gegnum frekar gróft sigti, malið það sem eftir verður í sigtinu aftur til að fá það fínt og sigtið aftur á plötuna. Setjið plötuna í ofninn og bakið í 8 mín., látið kólna aðeins.
Þeytið eggjahvítur þar til þær eru aðeins farnar að stífna. Bætið sykri út í, fyrst annarri skeiðinni og svo hinni, og hrærið hvíturnar áfram í 1-2 mín., bætið matarlit út í eftir smekk. Blandið möndlumjölinu saman við með sleikju, ef liturinn er ekki nógu skýr er hægt að bæta í eftir á.
Setjið bökunarpappír með glanshliðina upp eða sílíkonmottur á ofnplötur. Setjið deigið í sprautupoka með sléttri túðu og sprautið út kringlóttar kökur á stærð við tíkall. Látið kökurnar bíða í klukkutíma til að þær fái á sig harða skel.
Hitið ofninn í 150°C. Bakið kökurnar í 12-14 mín. Látið þær bíða aðeins og takið þær síðan varlega af pappírnum með hníf eða spaða. Passið að baka kökurnar það lengi að botn sé farin að myndast undir þeim. Þið getið kíkt undir pappírinn.
Sítrónumakrónur
1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af gulum matarlit
½ uppskrift sítrónumauk (lemon curd, sjá hér að neðan)
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með sítrónumauki á milli.
Sítrónumauk (Lemon-curd)
magn í 2-3 krukkur
Þetta frískandi sítrónumauk má nota ofan á ostakökur eða marenstertur, á milli botna í rjómatertur, setja góða teskeið inn í múffudeig og baka með, nota ofan á pönnukökur og margt fleira.
2 sítrónur
3 egg
200 g sykur
80 g smjör
Þvoið og þerrið sítrónur. Rífið ysta lagið af sítrónuberkinum með rifjárni og setjið í pott ásamt safanum úr sítrónunum. Setjið egg, sykur og smjör í pottinn og sjóðið saman þar til þykknar. Hellið í krukkur. Geymist í viku í kæliskáp.
Karamellumakrónur
1 uppskrift franskar makrónur
gulur matarlitur
2 dl dulce de leche-karamella í krukku
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með karamellu á milli.
1 uppskrift franskar makrónur
rauður matarlitur
jarðarberjasulta til að setja á milli
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með jarðarberjasultu á milli.
Engifermakrónur
1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af appelsínugulum matarlit
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með smjörkremi á milli.
Smjörkrem með engiferrót
1 eggjahvíta
150 g flórsykur
2 tsk. síróp af sultaðri engiferrót
1 msk. sultuð engiferrót, fínt söxuð
Blandið öllu saman og smyrjið á makrónurnar.
Rósamakrónur
1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af rauðum matarlit eða bleikum ef þið fáið hann
Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með bleikum glassúr á milli.
Bleikur glassúr
1 eggjahvíta
150 g flórsykur
smávegis af rauðum eða bleikum matarlit
nokkrir dropar bragðefni (fæst t.d. með brjóstsykursbragði hjá mömmur.is)