Illums Bolighus í Danmörku hefur nú opnað fyrir forpantanir á Quasi-ljósi Ólafs Elíassonar en ljósið hannaði Ólafur í samstarfi við Louis Poulsen.
Loftljósið hannaði Ólafur sem skúlptúr og birtugjafa í senn en er það gert úr áli sem er 90% endurunnið. Frá upphafi hönnunarferlisins var markmiðið að við framleiðslu ljóssins myndi ekki falla til neinn úrgangur og því varð álið fyrir valinu. Ljósið er einnig hannað þannig að auðvelt er að taka það í sundur og endurnýta efnið úr því í aðra nytjahluti síðar meir sé viljinn fyrir hendi.
Quasi kemur aðeins í einni stærð, sem er 90 sentímetrar að þvermáli, en möguleiki er á að það verði framleitt í minni stærðum þegar fram líða stundir samkvæmt forsvarsmönnum fyrirtækisins.
Ljósið fer í almenna sölu þann 1. september næst komandi og kostar stykkið 85.000 danskar krónur eða um 1.570.000 íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Epal, söluaðili Louis Poulsen á Íslandi, mun einnig hefja sölu á Quasi-ljósinu í haust.
Fyrr á árinu var sagt frá hugmynd bæjaryfirvalda á Akureyri að koma upp styttu af myndasöguhetjunni Tinna.
Tillagan er ekki úr lausu lofti gripin, enda liggur leið belgíska blaðamannsins kornunga til Akureyrar í einu af ævintýrum söguhetjunnar og ljóst er að erlendir ferðamenn myndu slást um að fá að mynda sig við hliðina á slíkri styttu. Sá galli kann þó að vera á gjöf Njarðar að erfingjar Hergés, höfundar Tinnabókanna, eru frægir fyrir samningshörku og hætt við að þeir geri kröfur um háa þóknun eigi styttan að verða að veruleika.
En ef til vill er hér leitað langt yfir skammt. Við Íslendingar eigum okkar eigin myndasöguhetjur sem vert væri að halda á lofti og það persónur með víðtækari skírskotunum til íslenskrar sögu og menningar en Tinni, þótt heimsfrægur sé.
Upp í hugann kemur Sigga Vigga, fiskverkakonan æðrulausa sem Gísli J. Ástþórsson skapaði. Þann níunda maí 1959 birti Gísli, þá ritstjóri Alþýðublaðsins, skopmynd af stelpuhnátu í verkamannagalla, með naglaspýtu á lofti, sem grætti breskan flotaforingja. Myndin birtist í miðju Þorskastríði og rataði í erlend stórblöð, þar á meðal London Times.
Þessi litla skopmynd vatt upp á sig og fljótlega varð til fullvaxna fiskverkakonan Sigga Vigga, sem stritar hjá saltfisksvinnslunni Þorski hf. Upp spratt sagnaheimur sem fjallaði um íslenskt fiskvinnslufyrirtæki, verkafólk, verkstjóra og atvinnurekendur með ótal bröndurum sem skírskotuðu til daglegs lífs.
Sögurnar um Siggu Viggu eru magnaðar. Ekki bara vegna þess að þær tilheyra fyrstu kynslóð íslenskra myndasagna, heldur vegna yrkisefnisins. Myndastytta af Siggu Viggu á svæði Reykjavíkurhafnar væri þrungin vísunum í þorskastríð, fiskvinnslu og verkalýðsbaráttu í Reykjavík stóran hluta tuttugustu aldar. Í bókmenntaborginni Reykjavík vantar styttur af bókmenntapersónum, konum og láglaunafólki. Hér yrði flugnager slegið í einu höggi.
Nýlega kom fram í fréttum að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, undirbúi endurskoðun siðareglna fyrir alþingismenn í samvinnu við Helgu Völu Helgadóttur, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins.
Í samtali við Vísi þann 3. ágúst síðastliðinn sagði hann að þau væru búin að kasta á milli sín hugmyndum og hefðu verið að sanka að sér gögnum. „Nú er komin ákveðin reynsla á framkvæmdina og búið að reyna á ýmislegt og það er nú aðallega sú umgjörð sem við erum að skoða og framkvæmd reglnanna,“ sagði hann. Steingrímur sagðist ekki eiga von á því að sjálfar hátternisreglurnar yrðu teknar upp heldur aðallega framkvæmd þeirra og farvegur kvartana.
Ljóst að verklagið gengur ekki upp
Helga Vala staðfestir þetta í samtali við Kjarnann og segir að Steingrímur hafi haft samband við sig síðasta vetur til þess að fara yfir málin. Hún segir að henni hafi strax orðið ljóst að verklagið í kringum siðareglunar gangi ekki upp.
Hún segir að Íslendingar þurfi í raun ekki að finna upp hjólið. „Siðareglur okkar eru byggðar á reglum Evrópuþings sem þó eru nokkuð frábrugðnar og má skoða hvort leita megi meira þangað. Þá hef ég áður nefnt að ÖSE hefur gefið út ítarlegar leiðbeiningar um gerð og framkvæmd siðareglna fyrir þjóðþing aðildarríkjanna og tel ég einboðið að fara vel yfir þær,“ segir hún.
„Við þurfum að kanna aðkomu annarra stjórnmálamanna og forsætisnefndar,“ segir hún en bætir því þó við að þessar samræður um reglurnar séu enn algjörlega óformlegar. „Þetta fer ekki á formlegan stað fyrr en forsætisnefnd fær drög að tillögum um breytingar og þegar drög að þingsályktunartillögu fer til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“
Standa og falla með trúverðugleikanum
Helga Vala bendir á að það að setja viðurlög við broti á siðareglum sé flókið út af pólitískri stöðu. „Það væri hægt að senda fólk í leyfi eða látið það ekki gegna trúnaðarstörfum innan þingsins. Það væri hugmynd til að velta fyrir sér,“ segir hún.
Hún telur að hægt sé að endurskoða siðareglurnar, þrátt fyrir að margt hafi „mistekist hrapallega“ í ferlinu hingað til. En hún bætir því við að ekki sé hægt að byggja upp traust með því einu að breyta siðareglum. „Hvert og eitt okkar stöndum og föllum með trúverðugleikanum.“
Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Hallgrímskirkju, segir bandarískan ferðamann hafa rokið út úr Hallgrímskirkju í gær ósáttur við stuðning kirkjunnar við baráttu hinsegin fólks.
„Amerískur ferðamaður kom í Hallgrímskirkju í dag. Regnbogafáninn lá á kórtröppum og blasti við söfnuði og öllum þeim sem komu í hlið himins. En einn starði á fánann og rauk svo út úr kirkju og fram í Guðbrandsstofu. Þar var kirkjuvörður fyrir svörum,“ skrifar Sigurður áður en hann lýsir samtali kirkjuvarðar og kirkjugestsins.
Ferðamaðurinn mun í fyrstu hafa spurst fyrir um hvort um hvort regnbogafáninn í kirkjunni væri hinn einu sanni regnbogafáni. Eftir að hafa verið svarað játandi mun gesturinn hafa furðað sig á að kirkja flaggi slíkum fána. „Það er vegna þess að við teljum ást guðs öllum tilheyrandi hver svo sem kynhneigð þeirra og bakgrunnur kann að vera,“ var manninum svarað. Samkvæmt lýsingu Sigurðar þótti gestinum þessi skýring ekki nægilega kristin og mun hann hafa bent á að Jesús hefði ekki séð ástæðu til að sætta sig við skilaboð Hallgrímskirkju. „Þetta hefði Jesús aldrei samþykkt.“
Þeirri skoðun mun hafa verið mótmælt af starfsmanni kirkjunnar með þeim afleiðingum að maðurinn gekk á dyr. „Skammist ykkar! Þessi kirkja er ekki kristin,“ sagði hann í kveðjuskyni.
Amerískur ferðamaður kom í Hallgrímskirkju í dag. Regnbogafáninn lá á kórtröppum og blasti við söfnuði og öllum þeim sem…
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út í gærkvöldi sökum þess að leikur manns með flugdreka í Nauthólsvík var sagður trufla flugumferð. Fram kemur í dagbók lögreglu að maðurinn hafi brugðist vel við og lofað að færa sig um stað.
Gærkvöld og nótt virðast þó hafa verið með nokkuð hefðbundnum hætti. Í dagbók lögreglu kemur fram að milli 17.00 í gær fram til fimm í morgun haf 60 mál verið skráð og sex sitja í fangageymslu.
Ung kona var var handtekin grunuð um ofbeldi og hótanir í Laugardal. Konan var vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar. Þá var maður handtekinn í annarlegu ástandi um kvöldmatarleiti í gær. Hann er grunaður um hótanir og var vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Annar maður var handtekin sökum annarlegs ástands og vistaður í fangageymslu og þá var enn einn einstaklingur handtekinn. Hann var mikið ölvaður og til ama.
Ungur maður tilkynnir um líkamsárás í Breiðholti. Drengurinn var sleginn í andlit og var með lausa tönn. Árásaraðilar munu einnig hafa stolið síma hans og veski. Árásarþoli þekkti árásaraðila og er málið í rannsókn.
Bifreið stöðvuð í Breiðholti. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna sem og vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Farþegi í bifreiðinni er grunaður um brot á vopnalögum.
Tilkynnt um innbrot og þjófnað í Sumarhús. Búið var að spenna upp hurð og fara inn. Talið að innbrots aðili eða aðilar hafi notað bústaðinn en eigandinn hafði ekki verið þar síðan um Verslunarmannahelgina. Einhverjar skemmdir og ekki vitað hvort einhverju var stolið.
Birgitta Jónsdóttir segir það vissulega hafa verið áfall að hlusta á fyrrverandi samstarfsfólk úthúða sér á opinberum fundi en hún hafi tekist á við erfiðari hluti í lífinu og hafi ekki áhuga á að munnhöggvast opinberlega. Pólitík sé brútal vinnuumhverfi og þeir sem ekki geti tekið því endist ekki lengi.
Eftir uppþotið á fundinum margumtalaða hefur Birgitta líka fengið mikinn stuðning frá samstarfsfólki og óviðkomandi aðilum og hún segist óendanlega þakklát fyrir það.
„Það hefur verið alveg ótrúlegt,“ segir hún. „Mér þykir vænt um að hafa fengið stuðning frá og heyrt í fólki sem ég hef unnið með miklu lengur en þessu fólki sem þarna er um að ræða. Það streyma til mín fallegar hugsanir og hlýjar kveðjur og ég finn að fólki er dálítið misboðið vegna þess að þetta virðist ekki ætla að taka neinn enda.
Ég hef ítrekað sagt við blaðamenn að ég vilji ekki tala um þetta, ég hef engan áhuga á að fara á þetta plan. Auðvitað hafa allir eitthvert álit á framkomu fólks en þegar maður er í pólitík þá er það ofboðslega brútal vinnuumhverfi og maður verður að vera mjög sterkur til þess að geta náð árangri þar, sérstaklega þar sem ég og nánast allir sem ég var með á þingi voru nýliðar. Maður þarf að læra þetta allt saman jafnóðum og það sem mér finnst bagalegast við það hvernig þingið er orðið núna er hve ofboðslega hröð endurnýjun er þar. Þeir sem eru búnir að vera þar lengst kunna á kerfið þannig að það er afskaplega auðvelt að afvegaleiða nýja fólkið svo að það nær ekki að sinna því sem það brennur fyrir og var kosið til að koma í framkvæmd. Þegar það eru svo komnir átta flokkar inn á þing þá er þetta orðið svo brotakennt að það myndast ekki einu sinni sterk stjórnarandstaða sem nær saman um mál. Það eru engir sammála um neitt og allir fullir af óþoli gagnvart öðrum.
Ég lenti sjálf í því á mínu fyrsta kjörtímabili að vera í stjórnarandstöðu með Bjarna Ben og Sigmundi Davíð sem var auðvitað fáránlegt. Ég man að við í Borgarahreyfingunni móðguðum Sjálfstæðisflokkinn rosalega mikið og ég fékk hótanir um að þetta yrði mér dýrt, þegar við ákváðum að fara í nefndarsamstarf við meirihlutann.
„Ég man að við í Borgarahreyfingunni móðguðum Sjálfstæðisflokkinn rosalega mikið og ég fékk hótanir um að þetta yrði mér dýrt, þegar við ákváðum að fara í nefndarsamstarf við meirihlutann.“
Ég ber sérstaklega litla virðingu fyrir fólki sem hótar mér og það var mjög skrýtið að þurfa að vera í samstarfi við fólk sem maður myndi aldrei tala við annars.
Ég hef reyndar komist að því og finnst það ógeðslega fyndið að bók sem ég þýddi einu sinni og heitir Lífsreglurnar fjórar er bók sem mínir pólitísku andstæðingar vitna mikið í og flestir þeirra virðast ekki vita að ég þýddi hana. Ég held reyndar að þeir þurfi að lesa hana aftur af meiri kostgæfni. Ein reglan er til dæmis sú að vera flekklaus í orðum og gæta að sannleikanum. Það er ekki í miklum heiðri haft.“
Brasilíski gítarleikarinn og söngvarinn Ife Tolentino og tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon kom fram ásamt hljómsveitum í Iðnó á þriðjudag klukkan 21.
Ife Tolentino flytur eigið efni ásamt hans eigin útsetningum af lögum meistara bossa nova, til dæmis Antonio Carlos Jobim og João Gilberto. Teitur gaf út sína aðra sólóplötu í fyrra, Orna, við góðar undirtektir og mun hann flytja eigin lög í bland við íslensk tökulög. Miðaverð á tónleikana er 2.000 krónur og eru miðar seldir við innganginn.
Það er lítið mál að útbúa ýmiskonar kex úr hnetum og fræjum og sleppa þar með hveiti og sykri. Þetta næringarríka kex er stútfullt af hollustu og er tilvalinn valkostur við brauð þegar skera á niður kolvetni í mataræðinu.
Fíkju- og valhnetukex u.þ.b. 25 stk.
Haframjöl telst varla til kolvetnasnauðs fæðis en það er glútenlaust, gríðarlega næringarríkt og hollt fyrir okkur. Haframjöl er talið lækka hættuna á að fá áunna sykursýki, lækka kólesteról, draga úr hættu á hjartasjúkdómum og hjálpa til við þyngdarstjórnun. Það er því góður valkostur fyrir þá sem vilja sleppa hveiti.
3 dl haframjöl
40 g mjúkt smjör
2 greinar ferskt rósmarín, laufin smátt söxuð (eins má nota 2 tsk. af þurrkuðu rósamaríni)
2 msk. hörfræ
½ tsk. salt
3-4 dropar stevía
½ dl rjómi
8 gráfíkjur, skornar smátt
40 g valhnetur, smátt saxaðar
1 egg
Setjið haframjöl í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til það er orðið að fínu mjöli. Bætið smjöri, rósmaríni, hörfræjum, salti, stevíu og rjóma saman við og látið ganga í stutta stund. Setjið gráfíkjur, valhnetur og egg saman við og blandið vel. Látið deigið á bökunarpappír og mótið lengju sem er u.þ.b. 4 cm í þvermál. Vefjið rúlluna inn í bökunarpappírinn og setjið í kæli í a.m.k. 1 klst.
Stillið ofn á 175°C. Skerið rúlluna í u.þ.b. 1 cm þykkar sneiðar og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Bakið í u.þ.b. 20 mín. Látið kólna.
Sítrónukex u.þ.b. 25 stk.
100 g möndlumjöl
50 g kókosmjöl
2 msk. birkifræ
½ tsk. salt
2 msk. kókosolía
2 msk. hunang
safi og börkur af ½ sítrónu
Stillið ofn á 175°C. Blandið saman möndlumjöli, kókosmjöli, birkifræjum og salti. Hitið kókosolíu, hunang, sítrónusafa og sítrónubörk varlega saman í potti og blandið saman við þurrefnin. Fletjið deigið þunnt út á milli tveggja arka af bökunarpappír. Takið efri örkina varlega af og skerið í bita með pítsukera. Bakið í 8-10 mín. Látið kólna alveg.
Tónlistarhátíðin Extreme Chill Festival verður haldin í Reykjavík dagana 12.-15. september 2019, en þetta er tíunda árið sem hún fer fram.
Óhætt er að segja að hátíðin verði með enn stærra sniði en áður og því mun hún eiga sér stað á sjö mismunandi stöðum í miðborginni og kemur fjöldi ólíkra listamanna fram, allt frá tilraunakenndum listamönnum til klassískra listamanna. Þar á meðal Marcus Fischer, Kristín Anna, Stereo Hypnosis, Mixmaster Morris, Hotel Neon, Jana Irmert, Christopher Chaplin, Farao, Special-K, Hoshiko Yamane, Mikael Lind og Tangerine Dream.
Tangerine Dream er ein stærsta hljómsveit raftónlistarsenunnar en hún var stofnuð af Edgar Froese í Þýskalandi árið 1967 og hefur síðan gefið út yfir 100 frumsamdar plötur, samið tónlist við fjölda kvikmynda og tölvuleikja og sjö sinnum verið tilnefnd til Grammy-verðlauna. Eftir andlát Froese árið 2015 hafa eftirlifandi meðlimir sveitarinnar, Thorsten Quaesching, Ulrich Schnauss og Hoshiko Yamane, haldið merkjum sveitarinnar og stofnanda á lofti í náinni samvinnu við Biöncu Froese, ekkju Edgars Froese. Síðasta plata sveitarinnar Quantum Gates kom út árið 2017 og í kjölfarið hafa fylgt tónleikar á stöðum eins og Dekmantel, Flow Festival og Barbican Hall í London.
Extreme Chill er hátíð sem setur markmiðið hærra með hverju ári en hún hefur verið haldin víða um land og eins í Berlín og átt í samstarfi við ýmsar hátíðir bæði hérlendis og erlendis. Markmið hennar er að kynna íslenska og erlenda raftónlistarmenn og tengja saman erlenda og innlenda tónlistar- og vídeó/myndlistarmenn og sköpun þeirra, tengja saman ólík listform, hljóðheim raftónlistarinnar og lifandi myndheim og vekja athygli á rafrænni Reykjavík, raftónlistarhöfuðborg Íslands.
Megintilgangur nýrra siðareglna fyrir alþingismenn er að efla gagnsæi í störfum þingmanna og ábyrgðarskyldu þeirra, og jafnframt að efla tiltrú og traust almennings á Alþingi. Margir hafa þó efast um gildi siðareglna – sérstaklega í ljósi þess að erfitt hefur reynst að fá sátt um siðareglur og þá sérstaklega siðanefndir. Gríðarlega mikil umræða hefur sprottið upp í kjölfar nýlegra niðurstaðna forsætisnefndar þar sem hún féllst á álit siðanefndar í nokkrum umdeildum málum.
Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, hefur skrifað bók og greinar um siðareglur til fjölda ára. Hann segir í samtali við Kjarnann að tilgangurinn með siðareglum sé margvíslegur. Að hans mati er þó mikilvægasti tilgangur skráðra siðareglna sá að bæta menningu innan hópsins sem setur sér reglunar. Það þýði að þessi hópur hagi samskiptum sínum og vinnubrögðum á betri hátt með tilliti til tilgangs hópsins.
Þá sé hægt að spyrja sig hvort „dýnamíkin“ innan hóps hjálpi honum að sinna hlutverki sínu vel og ef svo er ekki þá þurfi að bæta menninguna innan hans. Að setja siðareglur væri þá aðferð til að gera hann betur færan til að sinna sínu hlutverki og gætu þær jafnframt miðlað uppsafnaðri þekkingu. Þá sé hægt að læra af mistökum, til að mynda er varða samskipti og freistnivanda.
Umræðan ætti að verða málefnalegri
„Með því að setja siðareglur er gerður nokkurs konar sáttmáli innan hópsins,“ segir Sigurður. Þá lofi fólk – þegar það gengst við siðareglunum – að standa við þær gegn því að aðrir geri það líka og að taka þær fram yfir sína eigin hagsmuni. Hann bendir á að siðareglur miðli einnig mikilvægum skilaboðum út á við, það er þegar loforð er gefið til skjólstæðinga, eða í tilviki stjórnmálamanna til kjósenda sem síðan dæma gjörðir þeirra á endanum.
„Þegar slíkur sáttmáli er kominn þá verður umræðan málefnalegri,“ segir hann og bætir því við að í þeim tilfellum verði siðareglur hjálpartæki þegar á þarf að halda.
Sigurður segir að tilgangur siðareglna sé að bæta þessa menningu og að þær séu þetta hjálpartæki, meðal annars til að samræma væntingar – frekar en ytra eftirlit. „Lykilatriðið er að þær eru liður í sjálfræði hópsins, sameiginlegar reglur. Þær virka ekki sem ytra valdboð.“ Mikilvægt er, að hans mati, að vandað sé til verka þegar siðareglur eru gerðar. „Ferlið skiptir oft meira máli en útkoman sjálf,“ segir hann. Á endanum sé engin forskrift að siðareglum.
Fara verður varlega í að beita viðurlögum
Þegar talið berst að siðareglum þingmanna segir Sigurður að fara verði varlega í það að beita viðurlögum. „Ef við lítum á siðareglur sem innri og ytri sáttmála þá koma ytri viðurlögin frá kjósendum.“ Þeir ákveði með atkvæði sínu hvort þingmenn hafi staðið við sáttmálann. Hvað varðar innri sáttmála þá væri hægt að líta svo á að ef þingmenn brjóta siðareglur þá njóti þeir ekki trausts innan þingsins. Viðurlög gætu í því tilfelli verið tímabundin, þeir gætu til að mynda ekki verið formenn í nefndum eða sinnt ákveðnum trúnaðarstörfum. Þessi leið er þó vandmeðfarin, að mati Sigurðar.
Hann segir enn fremur að siðareglur geti verið til trafala í erfiðum og flóknum málum á borð við Klaustursmálið. „Það er alltaf sú hætta fyrir hendi að þegar búið er að setja upp siðanefnd sem úrskurðar um brot þá fari málið að snúast um málsmeðferð – eins og fyrir dómstólum.“ Kosturinn við að hafa siðareglur en ekki siðanefnd er sá að þá sé skýrara að hlutverk reglnanna sé að styðja við málefnalega umræðu og ígrundun.
Á hinn bóginn séu ákveðin rök fyrir því að setja á fót sérstaka siðanefnd, til dæmis hjá fagfélögum. Það geti verið liður í að vernda skjólstæðinga og þá gefist fólki jafnframt kostur á að verja sig gegn tilhæfulausum ásökunum. Vandaðir úrskurðir geta búið til gagnleg viðmið.
En hvað þyrfti Alþingi að gera til að öðlast traust almennings og þingheims? Sigurður telur það skynsamlegt að endurskoða siðareglurnar og ferlið í heild sinni á ný, eins og til stendur að gera í vetur. „Mér finnst það vera aðalatriðið að allir þingmennirnir hafi samráð og að úr verði raunverulegur sáttmáli milli þeirra.“ Þá vonar hann að sú endurskoðun verði ekki gerð að pólitísku bitbeini og að áhersla verði lögð á að reglurnar séu fáar og almennar. Með umræðum um siðareglur þokist málin í átt að niðurstöðu sem almenn sátt geti verið um.
Siðanefndir óþarfar í fullkomnum heimi
„Í fullkomnum heimi þarf ekki siðanefndir heldur bara almenn viðmið til að umræðan þokist í einhverja góða átt. Í ófullkomnum heimi þarf stundum siðanefnd,“ segir Sigurður. Hann telur jafnframt að sem flestir þingmenn þurfi að taka þátt í að skapa ferlið – vegna þess að það sé sannarlega samfélagssáttmáli.
„Heppilegast væri að hafa siðanefndina án tengsla við stjórnmálin, þá koma síður upp vanhæfnisspurningar,“ segir hann. Þá sé mikilvægt að forsætisnefnd mati ekki siðanefnd, að hún hafi frjálsara umboð – það er taki við kvörtunum og setji sér sjálf starfsreglur sem þingið staðfesti. „Vonandi skilar hún sér þessi vinna sem fram undan er,“ segir hann að lokum.
Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu Kjarnans sem birtist á kjarninn.is og í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum (LSH) myndi viðbragðsáætlun sem þegar er í gildi og síðast var uppfærð í desember 2018 verða sett í gang ef alvarleg skotárás yrði gerð á Íslandi.
Viðbragðsáætlun Landspítala (LSH) tekur til eitrana, farsótta, geislavár, hópslysa, rýmingar og bilana í klínískum tölvukerfum. Ekki er skilgreint sérstaklega í áætluninni tegund slyss en í tilfelli alvarlegrar skotárásar myndi fjöldi slasaðra ráða viðbragðsstigi. Unnið er eftir verklagsreglum og gátlistum fyrir þessa atburðaflokka til að auðvelda starfsfólki LSH starfið þegar mikið reynir á.
Viðbragðsstig áætlunarinnar eru þrjú og er samræmi á milli nafngifta hjá LSH og Almannavarna. Viðbragðsstigin eru: Óvissustig, hættustig og neyðarstig.
Á óvissustigi eru fáir kallaðir til en treyst á það starfsfólk og þekkingu sem er til staðar á vaktinni hverju sinni. Á hættustigi verður útkallið stærra en samt um mikinn sveigjanleika að ræða. Á neyðarstigi er umfangið svo mikið að nauðsynlegt er að virkja LSH að fullu. Ákvörðun um viðbragðsstig er tekin til hliðsjónar við stærð verkefnis fyrir LSH og ástands innan stofnunar. LSH starfar því oft ekki á sama viðbragðsstigi og aðrir í almannavarnakerfinu.
Viðbragðsstjórn Landspítala ákveður hverju sinni viðbragðsstig Landspítala.
Birgitta Jónsdóttir hefur ekki verið áberandi í umræðunni síðan hún hætti á þingi haustið 2017. Á því varð þó breyting eftir yfirhalningu fyrrum samstarfsmanna á henni á fundi Pírata fyrir skömmu. Hún viðurkennir að þau ummæli hafi verið áfall, en hún vilji ekki fara niður á sama plan og þau með því að svara fyrir sig. Hún hafi lent í mun erfiðari raunum á lífsleiðinni og lært að takast á við sjálfa sig og áföllin.
Að spyrja Birgittu um einkalíf hennar og nánasta fólk er eins og að ganga á vegg. Hún segist alltaf hafa passað vel upp á það að blanda ekki einkamálum sínum í opinbera umræðu.
„Ég er mikill varðhundur friðhelgi einkalífsins,“ segir hún hlæjandi. „En ég hef verið í flóknu sambandi við sjálfa mig alllengi og þegar maður fer í svona brjálæði eins og ég hef verið í er enginn tími fyrir eitthvert tilhugalíf, en ég á þrjú börn sem eru öll orðin meira en átján ára og tókst það sem fáum sem hafa verið áberandi í stjórnmálum hefur tekist að passa vel upp á þau og blanda þeim ekki inn í það drullusvað sem pólitíkin er.
Það er eitt af því sem fólk gleymir þegar það segir ógeðslega ljóta hluti um aðra, oft án þess að hafa nokkurn tíma átt í samskiptum við viðkomandi, að þessir aðilar sem verið er að viðhafa svona stór orð um eiga sitt líf og sínar fjölskyldur.
Það má vera með harða gagnrýni á verk stjórnmálamanna en þegar farið er að sjúkdómsgreina aðra opinberlega má fólk aðeins fara að hugsa sinn gang. Hafi fólk eitthvað út á mann að setja sem manneskju er lágmarkskrafa að það sé tilbúið að segja það við mann augliti til auglitis í einkasamtali. Ef fólk er ekki tilbúið til þess þá blokkera ég það, alveg án þess að hika. Fólk verður að geta staðið undir því sem það segir.“
Birgitta hefur unnið mikið í sjálfri sér og sínum vandamálum í gegnum árin og segir það gjörsamlega hafa bjargað sér.
„Ég var svo heppin að detta inn í prógramm fyrir aðstandendur alkóhólista og það hefur algjörlega bjargað mér,“ útskýrir hún. „Það er erfitt að búa í litla samfélaginu þar sem allir þekkja alla og allir hafa skoðanir á öllum og sú sjálfsvinna sem fylgir því að fara í gegnum 12 spora kerfið hefur hjálpað mér óendanlega mikið.
„Eftir að hafa gengið í gegnum Asberger-greiningu með yngsta son minn er ég nokkuð viss um að ég er með Asberger. Ég get ekki logið og trúi alltaf að annað fólk meini það sem það segir.“
Eftir að hafa gengið í gegnum Asberger-greiningu með yngsta son minn er ég nokkuð viss um að ég er með Asberger. Ég get ekki logið og trúi alltaf að annað fólk meini það sem það segir. Verð svo rosalega hissa þegar það stendur ekki við það. Margir hafa sagt að ég sé óskaplega naív, en ég er bara svona og hef ekki áhuga á því breyta því.
Eitt af því sem er erfitt hér á Íslandi er hvað fólk sem er öðruvísi hefur litla möguleika á að blómstra og við sem þjóð þurfum að læra að vera umburðarlyndari gagnvart fjölbreytileikanum. Það eru nefnilega allir öðruvísi, ég hef aldrei hitt venjulega manneskju. Hún er bara mýta.“
Erlendir kaupsýslumenn höfðu ærna ástæða til að gleðjast í vikunni á meðan íslenskur verkfræðingur, sem stóð í málaferlum við HR, reið ekki feitum hesti.
Góð vika
Óhætt er að segja erlendir kaupsýslumenn hafi átt góða viku hér. Greint frá því að breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe áformaði að stækka hrygningarsvæði laxa á Norðausturlandi, m.a. í því skyni að að vernda laxastofna, en Ratcliffe hefur verið mikið sviðsljósinu vegna umdeildra jarðakaupa á Íslandi. Fréttin kom beint í kjölfar þeirra tíðinda að pítsukeðjan vinsæla Domino’s á Íslandi væri komin að fullu í hendur Breta. Óhætt er að segja að landsmenn séu sólgnir í flatbökur því hvorki meira né minna en 25 Dominos-staðir eru reknir á Íslandi svo að fjárfestingin á vafalaust eftir að skila vænni summu í vasann á Bretum, líkt og jarðakaup Ratcliffe.
Slæm vika
Það er mikil ásókn í þetta dálkapláss þessa vikuna. Ferðaþjónustan hefur ekki átt sjö dagana sæla og sælkerar fengu aðsvif þegar í ljós kom að fyrrverandi Michelin-staðnum Dill hafði verið lokað. Fáir hafa þó átt jafnslæma daga og Kristinn Sigurjónsson, fyrrum lektor í verkfræði við HR. Kristinn var rekinn úr starfi fyrir að láta ýmis miður falleg ummæli um konur falla á Facebook og höfðaði í kjölfarið mál gegn HR og krafðist 57 milljóna króna í skaðabætur. Í vikunni sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur skólann af kröfu Kristins og staðfesti þar með að ekki er hægt að níða niður heilu samfélagshópana án afleiðinga og ætlast til að fá bætur þegar maður fær bágt fyrir.
Héraðið, ný íslensk kvikmynd Gríms Hákonarsonar verður frumsýnd næsta miðvikudag í bíóhúsum um allt land. Mannlífi náði tali af leikstjóranum sem viðurkennir að það sé pressa að fylgja eftir hinni margrómuðu mynd Hrútum. Auk þess hafi hann farið langt út fyrir þægindarammann við gerð þessarar nýjustu myndar sinnar sem er hans stærsta verkefni til þessa.
„Ég verð nú að játa að þótt maður hafi gert þetta oftar en einu sinni og alveg verið stressaðri en núna, þá fær maður samt alltaf smáfiðring í magann fyrir frumsýningu. Sérstaklega þegar maður er að fara að frumsýna á Íslandi. Það er bara öðruvísi tilfinning sem fylgir því að sýna myndirnar sínum nánustu en einhverjum blaðamönnum og gagnrýnendum úti í heimi. Álit vina og vandamanna og bara Íslendinga yfirhöfuð vegur einhvern veginn þyngra,“ segir Grímur, þegar hann er spurður að því hvort frumsýningarskjálftinn sé eitthvað farinn að gera vart við sig.
Hann bætir við að það sé auðvitað líka ákveðin pressa að fylgja eftir kvikmynd eins og Hrútum, enda hafi hún notið velgengni þegar hún kom út árið 2015, bæði hlotið góða dóma og rakað til sín verðlaunum um allan heim. Eðlilega séu ákveðnar væntingar í gangi og hann sé meðvitaður um það. „Já já, fólk á klárlega eftir að bera Héraðið saman við Hrúta þrátt fyrir að þessar tvær myndir eigi nú eiginlega fátt sameiginlegt fyrir utan það að þær skuli báðar gerast í sveit og bera mín höfundareinkenni. Hrútar var til dæmis fjölskyldusaga með flókið bræðrasamband í forgrunni, á meðan Héraðið snýst um Ingu, miðaldra kúabónda sem gerir uppreisn gegn kaupfélagi og er því hrein og bein samfélagsádeila. Þetta eru bara mjög ólíkar myndir.“
„Ég skal alveg vera fyrstur manna til að viðurkenna að mínar eigin myndir hafa verið frekar karllægar hingað til. Ástæðan er bara sú að það er auðveldara að skrifa um það sem maður þekkir.“
Fékk innblástur við lestur Heiðu fjalldalabónda
Héraðið segir Grímur enn fremur vera hetjusögu konu sem rís upp gegn karllægu samfélagi en innblásturinn að persónunni hafi meðal annars verið fengin úr Heiðu – fjalldalabónda, sögu Steinunnar Sigurðardóttur um Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur sem valdi að gerast sauðfjárbóndi í stað þess að verða fyrirsæta í New York. „Sú bók sýnir nefnilega svo vel þær breytingar sem hafa orðið á ímynd íslenskra bænda undanfarin ár. Þegar talað var um bændur hér áður fyrr sá maður strax fyrir sér karla en það hefur breyst eftir að konur fóru að ganga í öll störf í sveitinni og halda úti búum. Þar eru karlleg viðhorf og íhaldssöm gildi því ekki lengur allsráðandi. Eiginlega má segja að viss kvennabylting hafi átt sér stað. Mér fannst áhugavert að skoða það þegar ég skrifaði handritið að myndinni.“
Alls ekki barnanna bestur
Grímur segir þó fleira hafa ráðið valinu á viðfangsefni. Aukin umræða um rýrt hlutskipti kvenpersóna í íslenskum kvikmyndum hafi til dæmis haft áhrif. „Ég skal alveg vera fyrstur manna til að viðurkenna að mínar eigin myndir hafa verið frekar karllægar hingað til. Ég er því langt frá því að vera barnanna bestur. Ástæðan er bara sú að það er auðveldara að skrifa um það sem maður þekkir. Ég hugsa að það sé til dæmis ein helsta ástæðan fyrir því að við sjáum svona fáar kvikmyndir um konur á Íslandi. Bransinn hérna er bara svo karllægur. Mikill meirihluti félagsmanna í Samtökum kvikmyndaleikstjóra eru karlar og þeir skrifa frekar út frá eigin reynsluheimi, því sem þeir þekkja vel. Það segir sig einfaldlega sjálft að það er auðveldara.“
Áskorun að gera mynd um konu
Hann segir að sjálfum hafi sér fundist það vera áskorun að bregða út af vananum og gera mynd út frá sjónarhóli konu. Hann hafi þurft að fara ansi langt út fyrir þægindarammann. „Maður verður náttúrlega hræddur um að gera þetta eitthvað vitlaust og útkoman verði eintóm klisja. En sem betur fer held ég að við sem komum að myndinni getum verið sátt við hvernig til tókst með persónuna og hennar sögu, þótt ég segi sjálfur frá. Þær konur sem hafa séð hana eru að minnsta kosti nokkuð ánægðar,“ segir hann og þakkar það ekki síst leikkonunni Arndísi Hrönn Egilsdóttur sem fer með hlutverk bóndans Ingu í myndinni. „Já, það er óhætt að segja að Arndís hafi búið sig gríðarlega vel undir hlutverkið. Dvaldi meðal annars á sveitabæjum í tvær vikur til að læra réttu handtökin svo hún liti ekki út fyrir að vera „leikkona að moka flór“, eins og hún orðaði það sjálf. Hún lagði sig alla fram um að gera persónu Ingu sem trúverðugasta og á hrós skilið.“
Vissi ekki hvort hann myndi gera aðra leikna mynd
Héraðið er stærsta og dýrasta verkefni Gríms til þessa, helmingi dýrari í framleiðslu en Hrútar sem hann segist hafa gert á sínum tíma fyrir lítinn pening, nánast eingöngu fyrir styrk frá Kvikmyndasjóði. Í þetta sinn hafi fengist meira fjármagn, líka erlendis frá sem varð til þess að meiri tími gafst til að gera myndina og það hafi eðlilega kostað sitt. „Já, það er gaman að segja frá því að velgengni Hrúta hjálpaði til við að fá peningana sem er frábært þar sem ég vissi hreinlega ekki hvort ég myndi gera fleiri leiknar myndir. Fyrstu leiknu myndinni minni, Sumarlandinu, var nefnilega ekkert allt of vel tekið og ég vissi að Hrútum þyrfti því að ganga vel svo ég fengi fjármagn til að gera þá næstu. Gott gengi Hrúta breytti því miklu fyrir mig sem kvikmyndagerðarmann og í raun alla sem komu að þeirri mynd. Án hennar hefði Héraðið hugsanlega aldrei orðið að veruleika.“
Þegar seld til yfir 30 landa
Ljóst er að heilmikil eftirvænting er fyrir Héraðinu því myndin hefur þegar verið seld til yfir 30 landa og kemur til með að verða sýnd í kvikmyndahúsum víðsvegar um Evrópu með haustinu. Að mati Gríms segir það ýmislegt um myndina að fyrirtæki um alla Evrópu skuli vilja kaupa hana. „Já, það sýnir einfaldlega að fólk hefur trú á henni,“ segir hann. „Hins vegar á alveg eftir að koma í ljós hvernig áhorfendur og gagnrýnendur taka henni. Það er ekkert sjálfgefið að þeir muni fíla hana þótt fyrirtækin geri það. Og þótt mynd fá til dæmis góða umfjöllun hér heima er ekki þar með sagt að hún fái góða dóma erlendis og öfugt. Hrútum var vel tekið bæði hér heima og erlendis, sem er nokkuð sjaldgæft. Það er í raun alltaf ákveðin óvissa og spenna í kringum myndirnar manns. Maður verður eiginlega bara að krossa fingur og vona það besta.“
Þegar hugsað er til áhættu af alvarlegum skotárásum á Íslandi ber að hafa í huga að rúmlega 72.000 skotvopn eru skráð á Íslandi samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2015. Þar segir jafnframt að þessi vopn séu í eigu 27.249 einstaklinga. Jafnframt er vitað að fjöldi óskráðra vopna er í umferð.
Samkvæmt úttekt sem gefin var út fyrir um ári síðan í tengslum við Small Arms Survey sem er viðamikil rannsókn um fjölda skotvopna í umferð í heiminum kemur fram að Ísland er í 10. sæti yfir fjölda skotvopna í eigu almennings. Í úttektinni kemur fram að á Íslandi eru 31 byssa á hverja 100 íbúa.
„Þetta eru stórhættuleg vopn í höndum óvita.“
Í Mannlífi fyrr sumar var haft eftir Árna Loga Sigurbjörnssyni byssusafnara að hann vissi til þess að um 70-80 þúsund byssur væru skráðar á landinu en aðeins 15-20 þúsund manns með gild skotvopnaleyfi. Árni var gagnrýninn á regluverk um skotvopnaleyfi fyrir skammbyssur á Íslandi. „Þetta eru stórhættuleg vopn í höndum óvita, og það er tilfellið að það eru margir óvitar sem eru að kaupa þetta. Ég bara veit það, ég er að umgangast þessa menn, og er m.a. að gera við byssurnar þeirra. Sumir þeirra og allt of margir eru búnir að fá skammbyssu upp í hendurnar, út á það að vera meðlimir í skotfélagi en jafnframt, sjást þeir aldrei á skotsvæðunum, þeir eru bara í skúmaskotum með skammbyssurnar.“
Reyndur fjallgöngumaður sem villtist í þoku á Hornströndum kallar eftir að fjarskiptasamband þar verði bætt. Ferðamannastraumur hafi aukist á svæðinu og því sé tímaspursmál hvenær stórslys verði.
Benedikt Sigurðsson frá Bolungarvík er þrautreyndur fjallgöngumaður og er að eigin sögn í „brjáluðu formi“. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann lenti í ógöngum í vikunni þegar hann ásamt eiginkonu sinni og vinafólki lagði af stað í göngu frá Hrafnsfirði yfir í Reykjafjörð á norðanverðum Vestfjörðum. „Þetta átti að vera fimm tíma skemmtiganga um Hornstrandir,“ segir hann, en svartaþoka olli því að hópurinn komst í sjálfheldu og kalla þurfti út björgunarsveit til að koma fólkinu til byggða. Í samtali við Mannlíf segir Benedikt að þetta hafi kennt honum að það sé aldrei of varlega farið þrátt fyrir reynslu og þekkingu. „Þegar maður lendir í svona svartaþoku að maður sér ekki nema rétt hendurnar á sér, þá er maður í helvíti vondum málum.“
Benedikt kallar eftir því að komið verði á talstöðvarsambandi á svæði Hornstranda en ferðafólki hefur fjölgað mjög á þessum slóðum undanfarin ár. „Ég fór þrívegis upp á fjöll í kring til þess að reyna að ná talstöðvarsambandi en án árangurs. Þetta er einskismannsland, fólk fer sjóleiðina og gengur svo á milli fjarða, eina leiðin til björgunar er með bátum eða þyrlu,“ útskýrir hann og bætir við að illa hefði getað farið ef einhver í hópnum hefði slasast því ekki var hægt gefa upp nákvæma staðsetningu í gegnum talstöðina. „Í fyrsta lagi hefði ekki verið hægt að koma viðkomandi í öruggt skjól og í öðru lagi hefði þyrlan ekki getað lent vegna þoku. Björgunarfólk hefði þurft að koma á bátum og svo hefði þurft að fara fótgangandi án þess að vita nákvæma staðsetningu. Það gæti tekið fleiri tíma og hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef einhver væri lífshættulega slasaður. Það er hrikalega vont að hafa ekki talstöðvarsamband þarna.“
„Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef einhver væri lífshættulega slasaður. Það er hrikalega vont að hafa ekki talstöðvarsamband þarna.“
Benedikt segir mikilvægt að setja upp endurvarpa á svæðinu til að koma á talstöðvarsambandi enda sé margt ferðafólk þarna og aðstæður hrikalega erfiðar. „Það er stundum rosalega margt erlent ferðafólk þarna, suma daga jafnvel fleiri hundruð manns. Það ætti ekki að vera mikið mál að koma á talstöðvarsambandi á svæðinu.“
Ferðalag hópsins hófst með siglingu frá Bolungarvík yfir í Hrafnsfjörð þar sem ætlunin var að hefja fimm tíma gönguna. „Leiðin yfir í Reykjafjörð er ágætlega merkt nema á einum 5 km kafla þar sem er enginn slóði og við lentum akkúrat í þoku þar og fundum ekki réttu leiðina. Áður en fórum af stað tók ég sem betur fer kompásmið stystu leið til baka frá Reykjafirði ef við skyldum villast, sem betur fer. Við ákváðum að fara þessa leið sem síðan allt of erfið yfirferðar. Þess vegna töfðumst við svona mikið og snerum að lokum við,“ útskýrir Benedikt.
Að sögn Benedikts er byrjað að stýra umferð inn á svæðið í einhverjum mæli. „Áður voru engin takmörk en nú fá ferðaskrifstofur aðeins leyfi til að fara með ákveðið marga í hverjum hópi; 12-15 manns í einu, minnir mig. Þá ber þeim að láta vita af öllum ferðum og gefa upp leiðarlýsingu.“
Guðbrandur Örn Arnarson, verkefnastjóri aðgerðamála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, tekur undir að Hornstrandir séu erfiðar viðureignar þegar kemur að björgunaraðgerðum. „Við höfum séð aukningu á verkefnum á Hornströndum. Þar er um langan veg að fara og aðeins fært sjóleiðina eða þá með þyrlu. Annaðhvort er siglt yfir og síðan þurfa menn að ganga eða það er flogið með þyrlu og reynt að leysa verkefnið þannig en það er ekki alltaf hægt vegna þoku, eins og í þessu tilfelli,“ segir hann.„Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef einhver væri lífshættulega slasaður. Það er hrikalega vont að hafa ekki talstöðvarsamband þarna.“
Tónlistarkonan Linda Hartmanns var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu, Blacklight. Linda segist hafa ákveðið að fara í gegnum þetta ferli algjörlega á eigin vegum eftir að hafa fengi margar synjanir og sáralitlar undirtektir frá aðilum í tónlistarbransanum. Það að gefa út plötuna sjálf hafi vægast sagt verið lærdómsrík reynsla.
„Þetta hefur svo sannarlega verið ævintýri og mikill lærdómur að ganga í gegnum þetta ferli,“ segir hún. „Á þessu litla landi okkar er tónlistarbransinn erfiður þegar kemur að því að ætla að komast að með sína eigin tónlist. Til að koma sér á framfæri þarf maður helst að nýta sér klíkuskap til fulls, þó að það séu auðvitað dæmi um listamenn sem komast að án þess. Ísland státar af óvenju mörgum góðum listamönnum, ekki síst með tilliti til höfðatölu, en engu að síður þykir mér of margar dyr lokaðar fyrir nýjum tónlistarstefnum og nýju tónlistarfólki,“ útskýrir hún.
Spurð hvernig henni líði með að hafa gert allt á eigin vegum, svarar hún að sér finnist svolítið eins og hún hafi verið að útskrifast úr löngu námi. „Í mínum augum er þetta mikið afrek. Ég áttaði mig svo sannarlega ekki á því hvað það er gríðarlega mikil vinna á bakvið heila plötu,“ segir hún og bætir við að ekki hafi hjálpað að vera í upptökum og útgáfuferli samhliða fullri vinnu með fjögur börn á stóru heimili. Eins og gefi að skilja hafi reynt mikið á skipulagshæfileikana.
„Ég hef þurft að staldra við og spyrja sjalfa mig: Fyrir hvern er ég að semja þessa tónlist? Fyrir hvern er ég gefa hana út? Til hvers er ég að gefa hana út? Hvað vil ég fá út úr þessu ferli?“
Hún segir að öll vinnan sem fylgdi plötunni hafi breytt viðhorfi sínu. „Ég hef alltaf verið með ákveðnar hugmyndir um „velgengni“ sem tónlistarkona. Í mínum huga snérist hún um vinsældir, frægð og útlit. Án gríns. En nú er ég hætt að hugsa um „velgengni“ í tónlistinni yfirhöfuð. Mér finnst mestu máli skipta að semja bara mína tónlist, setja hana á tónlistarveitur ef mér hugnast og búa til „beat“ í tónlistarforritinu mínu. Ég reyni að spila og syngja við þau tækifæri sem gefast þar sem þetta er jú mín ástríða í lífinu. Ef eitthvað meira og stærra kemur út úr því er það bara plús.“
Linda segir að markmið sé alls ekki að komast að í útvarpinu, ná einhverjum tilteknum fjölda aðdáenda eða fá alla til að finnast tónlistin hennar vera góð. „Ég hef þurft að staldra við og spyrja sjalfa mig: Fyrir hvern er ég að semja þessa tónlist? Fyrir hvern er ég gefa hana út? Til hvers er ég að gefa hana út? Hvað vil ég fá út úr þessu ferli? Og ég hef komist að nokkru sem margt tónlistarfólk er meðvitað um frá upphafi: Að sumir komast að seinna á tónlistarferlinum og aðrir komast jafnvel aldrei að. Þess vegna sem ég tónlist fyrir sjálfa mig. Engan annan.“
Linda vill miðla reynslu sinni til þeirra sem eru að íhuga að gefa út plötu en á Albumm.is hægt er að lesa um allt ferlið hjá henni, alveg frá því að Linda samdi lögin þar til hún hélt útgáfufupartí.
Hinsegin dagar fagna 20 ára afmæli í ár. Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi og formaður Hinsegin daga, segir að af því tilefni og þess að 50 ár skuli vera liðin frá Stonewall-uppreisninni svokölluðu komi hátíðarhöldin í ár til með að verða umfangsmeiri en áður.
„Í ár erum við að fagna 20 ára afmæli Hinsegin daga, þ.e. samfelldri tveggja áratuga sögu hinsegin hátíða í Reykjavík og minnumst einnig þess að 50 ár eru liðin frá Stonewall-uppreisninni í Kristóferstræti í New York, en upphaf Pride-hátíða er gjarnan tengt við þann atburð,“ segir hann og bætir við að vegna þessara tvöföldu tímamóta verði dagskráin lengri. Þannig standi hún í tíu daga, frá 8.-17. ágúst, og fjölbreyttir viðburðir í boði, dragkeppni, tónleikar, uppistand og margt fleira.
Gunnlaugur segir að á þessum viðburðum verði Stonewall að sjálfsögðu minnst eins og hægt er og horft til þess árangurs sem náðst hefur á síðustu 50 árum en einnig á þeim 20 árum sem Hinsegin dagar hafa verið haldnir í Reykjavík. „Það hefur gríðarlega margt breyst hvað varðar réttindi og sýnileika hinsegin fólks á undanförnum árum, hvort sem við horfum til þeirra 50 ára sem liðin eru frá Stonewall-uppreisninni, frá því að Samtökin ’78 voru stofnuð árið 1978 eða til þeirra 20 ára sem Hinsegin dagar hafa verið haldnir í Reykjavík. Sýnileiki hinsegin fólks hefur stóraukist, umburðarlyndi og frelsi sömuleiðis. Þá hafa fjölmargar lagalegar úrbætur verið gerðar hér á síðustu árum og áratugum, nú síðast með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru fyrr á árinu.“
Stærsta útihátíð landsins
Hann segir að hvað Hinsegin daga varði hafi hátíðin vaxið og dafnað svo um munar. „Árið 1999 var haldin Hinsegin helgi á Ingólfstorgi, ári síðar gengu nokkur þúsund hina fyrstu gleðigöngu en í dag sjáum við margra daga mannréttinda-, menningar- og marbreytileikahátíð sem endar með stærstu útihátíð landsins,“ segir hann glaður í bragði og getur þess að sýnileiki Hinsegin daga og sá mikli gestafjöldi sem hátíðina sæki hafi spurst víða, langt út fyrir landsteinana. Hinsegin dagar séu til að mynda stundum nefndir „the biggest small Pride in the world“ úti í heimi enda þekkist ekki annars staðar að upp undir þriðjungur þjóðar mæti til slíkra hátíðahalda hinsegin fólks.
Einstakt að upplifa alla þessa samstöðu
Sjálfur segist Gunnlaugur hafa séð fyrstu Gleðigönguna árið 2010. Tveimur árum síðar hafi hann gerst sjálfboðaliði á Hinsegin dögum og svo tekið sæti í stjórn Hinsegin daga árið 2013, fyrst sem gjaldkeri til ársins 2018 og formaður eftir það. Það hafi þó ekki verið fyrr en 2015 sem hann gekk sjálfur í fyrsta skipti en það ár tóku fulltrúar stjórnar Hinsegin daga í fyrsta sinn formlega þátt í Gleðigöngunni.
„Stóri dagurinn er svo alltaf ákveðið gæsahúðarmóment en um leið svakalegt spennufall.“
Sú hefð hefur haldist frá þeim tíma og hann því gengið fjórum sinnum hér heima en auk þess í göngunni í Kaupmannahöfn og í New York. Stemningin í Reykjavík í kringum Hinsegin daga og Gleðigönguna sé ansi mögnuð og í raun engu lík.
„Stóri dagurinn er svo alltaf ákveðið gæsahúðarmóment en um leið svakalegt spennufall. Það er bara ólýsanleg tilfinning að ganga um miðborgina, sjá regnbogann á lofti alls staðar og alla þá gleði og samstöðu sem myndast.“
Gleðigangan tímaskekkja?
Gunnlaugur segist reyndar oft vera spurður að því hvort Gleðigangan og Hinsegin dagar skipti enn máli, hvort þetta sé ekki orðið tímaskekkja. Hvort tveggja sé enn mjög mikilvægt því þótt margt hafi áunnist megi margt betur fara. „Í ár ræðum við til dæmis stöðu hinsegin fólks á atvinnumarkaði sem lítið hefur verið rætt hér ólíkt því sem gerist víða í nágrannalöndum okkar. Enn heyrum við af ungu fólki sem fær ekki að vera það sjálft í foreldrahúsum auk þess sem hinsegin ungmenni eru líklegri til sjálfskaða en jafnaldrar þeirra. Enn fáum við fréttir af ofbeldi, mismunun og öráreiti sem hinsegin fólki verður fyrir hérlendis. Það er hlutverk Hinsegin daga og Gleðigöngunnar að benda á það sem betur má fara um leið og við fögnum því sem hefur áunnist.“
Umsjón / Roald Eyvindsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Hérna eru lambalærissneiðarnar teknar upp á næsta stig með bragðgóðum kryddlegi og æðislegu meðlæti.
SS-kryddlegið lambakjöt er í bragðgóðum kryddlegi og hafa lambalærissneiðarnar verið með vinsælasta kjötinu á grill landsmanna í áraraðir.
Lambalærissneiðarnar koma einnig í handhægum umbúðum og þarf aðeins eitt handtak til að opna þær, þægilegra og einfaldara getur það ekki verið.
Með því að kaupa kjötið tilbúið í kryddlegi er hægt að nota tímann sem sparast í eldamennskunni og nostra örlítið meira við meðlætið.
Grillaðar kartöflur með steinselju fyrir 2-4
400 g kartöflur að eigin vali
2-3 msk. ólífuolía
1-2 tsk. sjávarsalt
1 tsk. nýmalaður svartur pipar
½ hnefafylli steinselja, söxuð gróflega
Hitið grill og hafið á háum hita (200°C -240°C). Setjið kartöflurnar beint á grillið en hafið þær ekki beint yfir eldinum. Grillið kartöflurnar í 20-25 mín. og snúið þeim við reglulega. Einnig er hægt að elda kartöflurnar í ofni á 200°C í 30-40 mín. Skerið kartöflurnar gróflega niður og setjið þær í skál með ólífuolíu, sjávarsalti, svörtum pipar og steinselju. Blandið öllu vel saman. Setjið álpappír yfir og setjið til hliðar.
Hrásalat fyrir 2-4
2 msk. ólífuolía
2 msk. nýkreistur límónusafi
½ tsk. fiskisósa
150 g kínakál, fínt saxað
150 g romaine-salat, fínt saxað
½ rauðlaukur, saxaður fínt
3 msk. blaðlaukur skorinn fínt, hvíti og ljósgræni parturinn notaður
3 msk. kóríander, fínt saxað
2 tsk. sesamfræ, ristuð á þurri pönnu
½ tsk. sjávarsalt
Blandið öllum hráefnum saman í skál og bragðbætið með sjávarsalti og límónusafa eftir smekk.
Tómatsalsa fyrir 2-4
230 g kirsuberjatómatar
1 lítill laukur, saxaður fínt
1 msk. ólífuolía
2 msk. maukað chili í krukku, við notuðum frá Santa Maria
1 hvítlauksgeiri, saxaður fínt
1 tsk. fiskisósa
½ -1 tsk. sjávarsalt
Hitið ofn í 200°C með yfirhita. Setjið tómata, lauk og ólífuolíu saman í eldfast mót með álpappír og blandið vel saman. Setjið undir hitann og eldið í 10-15 mín. eða þar til tómatarnir hafa fengið á sig örlítinn lit og laukurinn er orðinn mjúkur. Hrærið í reglulega. Setjið tómatblönduna í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Maukið þar til allt hefur samlagast vel. Setjið í skál og bragðbætið með salti.
Grillaðar lambalærissneiðar fyrir 2-4
700-800 g kryddlegnar lambalærissneiðar frá SS
Takið kjötið úr kælinum og látið það ná stofuhita. Hitið grill og hafið á háum hita. Grillið lærissneiðarnar í 2-3 mín. á hvorri hlið, eða 5-6 mín. fyrir þykkari sneiðar. Takið lærissneiðarnar af grillinu og berið fram með meðlætinu.
Matreiðsla / Folda Guðlaugsdóttir Stílisering og ritstjórn / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir Myndataka/ Hallur Karlsson og Hákon Davíð Björnsson Klipping / Hallur Karlsson
Illums Bolighus í Danmörku hefur nú opnað fyrir forpantanir á Quasi-ljósi Ólafs Elíassonar en ljósið hannaði Ólafur í samstarfi við Louis Poulsen.
Loftljósið hannaði Ólafur sem skúlptúr og birtugjafa í senn en er það gert úr áli sem er 90% endurunnið. Frá upphafi hönnunarferlisins var markmiðið að við framleiðslu ljóssins myndi ekki falla til neinn úrgangur og því varð álið fyrir valinu. Ljósið er einnig hannað þannig að auðvelt er að taka það í sundur og endurnýta efnið úr því í aðra nytjahluti síðar meir sé viljinn fyrir hendi.
Quasi kemur aðeins í einni stærð, sem er 90 sentímetrar að þvermáli, en möguleiki er á að það verði framleitt í minni stærðum þegar fram líða stundir samkvæmt forsvarsmönnum fyrirtækisins.
Ljósið fer í almenna sölu þann 1. september næst komandi og kostar stykkið 85.000 danskar krónur eða um 1.570.000 íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Epal, söluaðili Louis Poulsen á Íslandi, mun einnig hefja sölu á Quasi-ljósinu í haust.
Fyrr á árinu var sagt frá hugmynd bæjaryfirvalda á Akureyri að koma upp styttu af myndasöguhetjunni Tinna.
Tillagan er ekki úr lausu lofti gripin, enda liggur leið belgíska blaðamannsins kornunga til Akureyrar í einu af ævintýrum söguhetjunnar og ljóst er að erlendir ferðamenn myndu slást um að fá að mynda sig við hliðina á slíkri styttu. Sá galli kann þó að vera á gjöf Njarðar að erfingjar Hergés, höfundar Tinnabókanna, eru frægir fyrir samningshörku og hætt við að þeir geri kröfur um háa þóknun eigi styttan að verða að veruleika.
En ef til vill er hér leitað langt yfir skammt. Við Íslendingar eigum okkar eigin myndasöguhetjur sem vert væri að halda á lofti og það persónur með víðtækari skírskotunum til íslenskrar sögu og menningar en Tinni, þótt heimsfrægur sé.
Upp í hugann kemur Sigga Vigga, fiskverkakonan æðrulausa sem Gísli J. Ástþórsson skapaði. Þann níunda maí 1959 birti Gísli, þá ritstjóri Alþýðublaðsins, skopmynd af stelpuhnátu í verkamannagalla, með naglaspýtu á lofti, sem grætti breskan flotaforingja. Myndin birtist í miðju Þorskastríði og rataði í erlend stórblöð, þar á meðal London Times.
Þessi litla skopmynd vatt upp á sig og fljótlega varð til fullvaxna fiskverkakonan Sigga Vigga, sem stritar hjá saltfisksvinnslunni Þorski hf. Upp spratt sagnaheimur sem fjallaði um íslenskt fiskvinnslufyrirtæki, verkafólk, verkstjóra og atvinnurekendur með ótal bröndurum sem skírskotuðu til daglegs lífs.
Sögurnar um Siggu Viggu eru magnaðar. Ekki bara vegna þess að þær tilheyra fyrstu kynslóð íslenskra myndasagna, heldur vegna yrkisefnisins. Myndastytta af Siggu Viggu á svæði Reykjavíkurhafnar væri þrungin vísunum í þorskastríð, fiskvinnslu og verkalýðsbaráttu í Reykjavík stóran hluta tuttugustu aldar. Í bókmenntaborginni Reykjavík vantar styttur af bókmenntapersónum, konum og láglaunafólki. Hér yrði flugnager slegið í einu höggi.
Nýlega kom fram í fréttum að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, undirbúi endurskoðun siðareglna fyrir alþingismenn í samvinnu við Helgu Völu Helgadóttur, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins.
Í samtali við Vísi þann 3. ágúst síðastliðinn sagði hann að þau væru búin að kasta á milli sín hugmyndum og hefðu verið að sanka að sér gögnum. „Nú er komin ákveðin reynsla á framkvæmdina og búið að reyna á ýmislegt og það er nú aðallega sú umgjörð sem við erum að skoða og framkvæmd reglnanna,“ sagði hann. Steingrímur sagðist ekki eiga von á því að sjálfar hátternisreglurnar yrðu teknar upp heldur aðallega framkvæmd þeirra og farvegur kvartana.
Ljóst að verklagið gengur ekki upp
Helga Vala staðfestir þetta í samtali við Kjarnann og segir að Steingrímur hafi haft samband við sig síðasta vetur til þess að fara yfir málin. Hún segir að henni hafi strax orðið ljóst að verklagið í kringum siðareglunar gangi ekki upp.
Hún segir að Íslendingar þurfi í raun ekki að finna upp hjólið. „Siðareglur okkar eru byggðar á reglum Evrópuþings sem þó eru nokkuð frábrugðnar og má skoða hvort leita megi meira þangað. Þá hef ég áður nefnt að ÖSE hefur gefið út ítarlegar leiðbeiningar um gerð og framkvæmd siðareglna fyrir þjóðþing aðildarríkjanna og tel ég einboðið að fara vel yfir þær,“ segir hún.
„Við þurfum að kanna aðkomu annarra stjórnmálamanna og forsætisnefndar,“ segir hún en bætir því þó við að þessar samræður um reglurnar séu enn algjörlega óformlegar. „Þetta fer ekki á formlegan stað fyrr en forsætisnefnd fær drög að tillögum um breytingar og þegar drög að þingsályktunartillögu fer til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“
Standa og falla með trúverðugleikanum
Helga Vala bendir á að það að setja viðurlög við broti á siðareglum sé flókið út af pólitískri stöðu. „Það væri hægt að senda fólk í leyfi eða látið það ekki gegna trúnaðarstörfum innan þingsins. Það væri hugmynd til að velta fyrir sér,“ segir hún.
Hún telur að hægt sé að endurskoða siðareglurnar, þrátt fyrir að margt hafi „mistekist hrapallega“ í ferlinu hingað til. En hún bætir því við að ekki sé hægt að byggja upp traust með því einu að breyta siðareglum. „Hvert og eitt okkar stöndum og föllum með trúverðugleikanum.“
Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Hallgrímskirkju, segir bandarískan ferðamann hafa rokið út úr Hallgrímskirkju í gær ósáttur við stuðning kirkjunnar við baráttu hinsegin fólks.
„Amerískur ferðamaður kom í Hallgrímskirkju í dag. Regnbogafáninn lá á kórtröppum og blasti við söfnuði og öllum þeim sem komu í hlið himins. En einn starði á fánann og rauk svo út úr kirkju og fram í Guðbrandsstofu. Þar var kirkjuvörður fyrir svörum,“ skrifar Sigurður áður en hann lýsir samtali kirkjuvarðar og kirkjugestsins.
Ferðamaðurinn mun í fyrstu hafa spurst fyrir um hvort um hvort regnbogafáninn í kirkjunni væri hinn einu sanni regnbogafáni. Eftir að hafa verið svarað játandi mun gesturinn hafa furðað sig á að kirkja flaggi slíkum fána. „Það er vegna þess að við teljum ást guðs öllum tilheyrandi hver svo sem kynhneigð þeirra og bakgrunnur kann að vera,“ var manninum svarað. Samkvæmt lýsingu Sigurðar þótti gestinum þessi skýring ekki nægilega kristin og mun hann hafa bent á að Jesús hefði ekki séð ástæðu til að sætta sig við skilaboð Hallgrímskirkju. „Þetta hefði Jesús aldrei samþykkt.“
Þeirri skoðun mun hafa verið mótmælt af starfsmanni kirkjunnar með þeim afleiðingum að maðurinn gekk á dyr. „Skammist ykkar! Þessi kirkja er ekki kristin,“ sagði hann í kveðjuskyni.
Amerískur ferðamaður kom í Hallgrímskirkju í dag. Regnbogafáninn lá á kórtröppum og blasti við söfnuði og öllum þeim sem…
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út í gærkvöldi sökum þess að leikur manns með flugdreka í Nauthólsvík var sagður trufla flugumferð. Fram kemur í dagbók lögreglu að maðurinn hafi brugðist vel við og lofað að færa sig um stað.
Gærkvöld og nótt virðast þó hafa verið með nokkuð hefðbundnum hætti. Í dagbók lögreglu kemur fram að milli 17.00 í gær fram til fimm í morgun haf 60 mál verið skráð og sex sitja í fangageymslu.
Ung kona var var handtekin grunuð um ofbeldi og hótanir í Laugardal. Konan var vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar. Þá var maður handtekinn í annarlegu ástandi um kvöldmatarleiti í gær. Hann er grunaður um hótanir og var vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Annar maður var handtekin sökum annarlegs ástands og vistaður í fangageymslu og þá var enn einn einstaklingur handtekinn. Hann var mikið ölvaður og til ama.
Ungur maður tilkynnir um líkamsárás í Breiðholti. Drengurinn var sleginn í andlit og var með lausa tönn. Árásaraðilar munu einnig hafa stolið síma hans og veski. Árásarþoli þekkti árásaraðila og er málið í rannsókn.
Bifreið stöðvuð í Breiðholti. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna sem og vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Farþegi í bifreiðinni er grunaður um brot á vopnalögum.
Tilkynnt um innbrot og þjófnað í Sumarhús. Búið var að spenna upp hurð og fara inn. Talið að innbrots aðili eða aðilar hafi notað bústaðinn en eigandinn hafði ekki verið þar síðan um Verslunarmannahelgina. Einhverjar skemmdir og ekki vitað hvort einhverju var stolið.
Birgitta Jónsdóttir segir það vissulega hafa verið áfall að hlusta á fyrrverandi samstarfsfólk úthúða sér á opinberum fundi en hún hafi tekist á við erfiðari hluti í lífinu og hafi ekki áhuga á að munnhöggvast opinberlega. Pólitík sé brútal vinnuumhverfi og þeir sem ekki geti tekið því endist ekki lengi.
Eftir uppþotið á fundinum margumtalaða hefur Birgitta líka fengið mikinn stuðning frá samstarfsfólki og óviðkomandi aðilum og hún segist óendanlega þakklát fyrir það.
„Það hefur verið alveg ótrúlegt,“ segir hún. „Mér þykir vænt um að hafa fengið stuðning frá og heyrt í fólki sem ég hef unnið með miklu lengur en þessu fólki sem þarna er um að ræða. Það streyma til mín fallegar hugsanir og hlýjar kveðjur og ég finn að fólki er dálítið misboðið vegna þess að þetta virðist ekki ætla að taka neinn enda.
Ég hef ítrekað sagt við blaðamenn að ég vilji ekki tala um þetta, ég hef engan áhuga á að fara á þetta plan. Auðvitað hafa allir eitthvert álit á framkomu fólks en þegar maður er í pólitík þá er það ofboðslega brútal vinnuumhverfi og maður verður að vera mjög sterkur til þess að geta náð árangri þar, sérstaklega þar sem ég og nánast allir sem ég var með á þingi voru nýliðar. Maður þarf að læra þetta allt saman jafnóðum og það sem mér finnst bagalegast við það hvernig þingið er orðið núna er hve ofboðslega hröð endurnýjun er þar. Þeir sem eru búnir að vera þar lengst kunna á kerfið þannig að það er afskaplega auðvelt að afvegaleiða nýja fólkið svo að það nær ekki að sinna því sem það brennur fyrir og var kosið til að koma í framkvæmd. Þegar það eru svo komnir átta flokkar inn á þing þá er þetta orðið svo brotakennt að það myndast ekki einu sinni sterk stjórnarandstaða sem nær saman um mál. Það eru engir sammála um neitt og allir fullir af óþoli gagnvart öðrum.
Ég lenti sjálf í því á mínu fyrsta kjörtímabili að vera í stjórnarandstöðu með Bjarna Ben og Sigmundi Davíð sem var auðvitað fáránlegt. Ég man að við í Borgarahreyfingunni móðguðum Sjálfstæðisflokkinn rosalega mikið og ég fékk hótanir um að þetta yrði mér dýrt, þegar við ákváðum að fara í nefndarsamstarf við meirihlutann.
„Ég man að við í Borgarahreyfingunni móðguðum Sjálfstæðisflokkinn rosalega mikið og ég fékk hótanir um að þetta yrði mér dýrt, þegar við ákváðum að fara í nefndarsamstarf við meirihlutann.“
Ég ber sérstaklega litla virðingu fyrir fólki sem hótar mér og það var mjög skrýtið að þurfa að vera í samstarfi við fólk sem maður myndi aldrei tala við annars.
Ég hef reyndar komist að því og finnst það ógeðslega fyndið að bók sem ég þýddi einu sinni og heitir Lífsreglurnar fjórar er bók sem mínir pólitísku andstæðingar vitna mikið í og flestir þeirra virðast ekki vita að ég þýddi hana. Ég held reyndar að þeir þurfi að lesa hana aftur af meiri kostgæfni. Ein reglan er til dæmis sú að vera flekklaus í orðum og gæta að sannleikanum. Það er ekki í miklum heiðri haft.“
Brasilíski gítarleikarinn og söngvarinn Ife Tolentino og tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon kom fram ásamt hljómsveitum í Iðnó á þriðjudag klukkan 21.
Ife Tolentino flytur eigið efni ásamt hans eigin útsetningum af lögum meistara bossa nova, til dæmis Antonio Carlos Jobim og João Gilberto. Teitur gaf út sína aðra sólóplötu í fyrra, Orna, við góðar undirtektir og mun hann flytja eigin lög í bland við íslensk tökulög. Miðaverð á tónleikana er 2.000 krónur og eru miðar seldir við innganginn.
Það er lítið mál að útbúa ýmiskonar kex úr hnetum og fræjum og sleppa þar með hveiti og sykri. Þetta næringarríka kex er stútfullt af hollustu og er tilvalinn valkostur við brauð þegar skera á niður kolvetni í mataræðinu.
Fíkju- og valhnetukex u.þ.b. 25 stk.
Haframjöl telst varla til kolvetnasnauðs fæðis en það er glútenlaust, gríðarlega næringarríkt og hollt fyrir okkur. Haframjöl er talið lækka hættuna á að fá áunna sykursýki, lækka kólesteról, draga úr hættu á hjartasjúkdómum og hjálpa til við þyngdarstjórnun. Það er því góður valkostur fyrir þá sem vilja sleppa hveiti.
3 dl haframjöl
40 g mjúkt smjör
2 greinar ferskt rósmarín, laufin smátt söxuð (eins má nota 2 tsk. af þurrkuðu rósamaríni)
2 msk. hörfræ
½ tsk. salt
3-4 dropar stevía
½ dl rjómi
8 gráfíkjur, skornar smátt
40 g valhnetur, smátt saxaðar
1 egg
Setjið haframjöl í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til það er orðið að fínu mjöli. Bætið smjöri, rósmaríni, hörfræjum, salti, stevíu og rjóma saman við og látið ganga í stutta stund. Setjið gráfíkjur, valhnetur og egg saman við og blandið vel. Látið deigið á bökunarpappír og mótið lengju sem er u.þ.b. 4 cm í þvermál. Vefjið rúlluna inn í bökunarpappírinn og setjið í kæli í a.m.k. 1 klst.
Stillið ofn á 175°C. Skerið rúlluna í u.þ.b. 1 cm þykkar sneiðar og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Bakið í u.þ.b. 20 mín. Látið kólna.
Sítrónukex u.þ.b. 25 stk.
100 g möndlumjöl
50 g kókosmjöl
2 msk. birkifræ
½ tsk. salt
2 msk. kókosolía
2 msk. hunang
safi og börkur af ½ sítrónu
Stillið ofn á 175°C. Blandið saman möndlumjöli, kókosmjöli, birkifræjum og salti. Hitið kókosolíu, hunang, sítrónusafa og sítrónubörk varlega saman í potti og blandið saman við þurrefnin. Fletjið deigið þunnt út á milli tveggja arka af bökunarpappír. Takið efri örkina varlega af og skerið í bita með pítsukera. Bakið í 8-10 mín. Látið kólna alveg.
Tónlistarhátíðin Extreme Chill Festival verður haldin í Reykjavík dagana 12.-15. september 2019, en þetta er tíunda árið sem hún fer fram.
Óhætt er að segja að hátíðin verði með enn stærra sniði en áður og því mun hún eiga sér stað á sjö mismunandi stöðum í miðborginni og kemur fjöldi ólíkra listamanna fram, allt frá tilraunakenndum listamönnum til klassískra listamanna. Þar á meðal Marcus Fischer, Kristín Anna, Stereo Hypnosis, Mixmaster Morris, Hotel Neon, Jana Irmert, Christopher Chaplin, Farao, Special-K, Hoshiko Yamane, Mikael Lind og Tangerine Dream.
Tangerine Dream er ein stærsta hljómsveit raftónlistarsenunnar en hún var stofnuð af Edgar Froese í Þýskalandi árið 1967 og hefur síðan gefið út yfir 100 frumsamdar plötur, samið tónlist við fjölda kvikmynda og tölvuleikja og sjö sinnum verið tilnefnd til Grammy-verðlauna. Eftir andlát Froese árið 2015 hafa eftirlifandi meðlimir sveitarinnar, Thorsten Quaesching, Ulrich Schnauss og Hoshiko Yamane, haldið merkjum sveitarinnar og stofnanda á lofti í náinni samvinnu við Biöncu Froese, ekkju Edgars Froese. Síðasta plata sveitarinnar Quantum Gates kom út árið 2017 og í kjölfarið hafa fylgt tónleikar á stöðum eins og Dekmantel, Flow Festival og Barbican Hall í London.
Extreme Chill er hátíð sem setur markmiðið hærra með hverju ári en hún hefur verið haldin víða um land og eins í Berlín og átt í samstarfi við ýmsar hátíðir bæði hérlendis og erlendis. Markmið hennar er að kynna íslenska og erlenda raftónlistarmenn og tengja saman erlenda og innlenda tónlistar- og vídeó/myndlistarmenn og sköpun þeirra, tengja saman ólík listform, hljóðheim raftónlistarinnar og lifandi myndheim og vekja athygli á rafrænni Reykjavík, raftónlistarhöfuðborg Íslands.
Megintilgangur nýrra siðareglna fyrir alþingismenn er að efla gagnsæi í störfum þingmanna og ábyrgðarskyldu þeirra, og jafnframt að efla tiltrú og traust almennings á Alþingi. Margir hafa þó efast um gildi siðareglna – sérstaklega í ljósi þess að erfitt hefur reynst að fá sátt um siðareglur og þá sérstaklega siðanefndir. Gríðarlega mikil umræða hefur sprottið upp í kjölfar nýlegra niðurstaðna forsætisnefndar þar sem hún féllst á álit siðanefndar í nokkrum umdeildum málum.
Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, hefur skrifað bók og greinar um siðareglur til fjölda ára. Hann segir í samtali við Kjarnann að tilgangurinn með siðareglum sé margvíslegur. Að hans mati er þó mikilvægasti tilgangur skráðra siðareglna sá að bæta menningu innan hópsins sem setur sér reglunar. Það þýði að þessi hópur hagi samskiptum sínum og vinnubrögðum á betri hátt með tilliti til tilgangs hópsins.
Þá sé hægt að spyrja sig hvort „dýnamíkin“ innan hóps hjálpi honum að sinna hlutverki sínu vel og ef svo er ekki þá þurfi að bæta menninguna innan hans. Að setja siðareglur væri þá aðferð til að gera hann betur færan til að sinna sínu hlutverki og gætu þær jafnframt miðlað uppsafnaðri þekkingu. Þá sé hægt að læra af mistökum, til að mynda er varða samskipti og freistnivanda.
Umræðan ætti að verða málefnalegri
„Með því að setja siðareglur er gerður nokkurs konar sáttmáli innan hópsins,“ segir Sigurður. Þá lofi fólk – þegar það gengst við siðareglunum – að standa við þær gegn því að aðrir geri það líka og að taka þær fram yfir sína eigin hagsmuni. Hann bendir á að siðareglur miðli einnig mikilvægum skilaboðum út á við, það er þegar loforð er gefið til skjólstæðinga, eða í tilviki stjórnmálamanna til kjósenda sem síðan dæma gjörðir þeirra á endanum.
„Þegar slíkur sáttmáli er kominn þá verður umræðan málefnalegri,“ segir hann og bætir því við að í þeim tilfellum verði siðareglur hjálpartæki þegar á þarf að halda.
Sigurður segir að tilgangur siðareglna sé að bæta þessa menningu og að þær séu þetta hjálpartæki, meðal annars til að samræma væntingar – frekar en ytra eftirlit. „Lykilatriðið er að þær eru liður í sjálfræði hópsins, sameiginlegar reglur. Þær virka ekki sem ytra valdboð.“ Mikilvægt er, að hans mati, að vandað sé til verka þegar siðareglur eru gerðar. „Ferlið skiptir oft meira máli en útkoman sjálf,“ segir hann. Á endanum sé engin forskrift að siðareglum.
Fara verður varlega í að beita viðurlögum
Þegar talið berst að siðareglum þingmanna segir Sigurður að fara verði varlega í það að beita viðurlögum. „Ef við lítum á siðareglur sem innri og ytri sáttmála þá koma ytri viðurlögin frá kjósendum.“ Þeir ákveði með atkvæði sínu hvort þingmenn hafi staðið við sáttmálann. Hvað varðar innri sáttmála þá væri hægt að líta svo á að ef þingmenn brjóta siðareglur þá njóti þeir ekki trausts innan þingsins. Viðurlög gætu í því tilfelli verið tímabundin, þeir gætu til að mynda ekki verið formenn í nefndum eða sinnt ákveðnum trúnaðarstörfum. Þessi leið er þó vandmeðfarin, að mati Sigurðar.
Hann segir enn fremur að siðareglur geti verið til trafala í erfiðum og flóknum málum á borð við Klaustursmálið. „Það er alltaf sú hætta fyrir hendi að þegar búið er að setja upp siðanefnd sem úrskurðar um brot þá fari málið að snúast um málsmeðferð – eins og fyrir dómstólum.“ Kosturinn við að hafa siðareglur en ekki siðanefnd er sá að þá sé skýrara að hlutverk reglnanna sé að styðja við málefnalega umræðu og ígrundun.
Á hinn bóginn séu ákveðin rök fyrir því að setja á fót sérstaka siðanefnd, til dæmis hjá fagfélögum. Það geti verið liður í að vernda skjólstæðinga og þá gefist fólki jafnframt kostur á að verja sig gegn tilhæfulausum ásökunum. Vandaðir úrskurðir geta búið til gagnleg viðmið.
En hvað þyrfti Alþingi að gera til að öðlast traust almennings og þingheims? Sigurður telur það skynsamlegt að endurskoða siðareglurnar og ferlið í heild sinni á ný, eins og til stendur að gera í vetur. „Mér finnst það vera aðalatriðið að allir þingmennirnir hafi samráð og að úr verði raunverulegur sáttmáli milli þeirra.“ Þá vonar hann að sú endurskoðun verði ekki gerð að pólitísku bitbeini og að áhersla verði lögð á að reglurnar séu fáar og almennar. Með umræðum um siðareglur þokist málin í átt að niðurstöðu sem almenn sátt geti verið um.
Siðanefndir óþarfar í fullkomnum heimi
„Í fullkomnum heimi þarf ekki siðanefndir heldur bara almenn viðmið til að umræðan þokist í einhverja góða átt. Í ófullkomnum heimi þarf stundum siðanefnd,“ segir Sigurður. Hann telur jafnframt að sem flestir þingmenn þurfi að taka þátt í að skapa ferlið – vegna þess að það sé sannarlega samfélagssáttmáli.
„Heppilegast væri að hafa siðanefndina án tengsla við stjórnmálin, þá koma síður upp vanhæfnisspurningar,“ segir hann. Þá sé mikilvægt að forsætisnefnd mati ekki siðanefnd, að hún hafi frjálsara umboð – það er taki við kvörtunum og setji sér sjálf starfsreglur sem þingið staðfesti. „Vonandi skilar hún sér þessi vinna sem fram undan er,“ segir hann að lokum.
Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu Kjarnans sem birtist á kjarninn.is og í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum (LSH) myndi viðbragðsáætlun sem þegar er í gildi og síðast var uppfærð í desember 2018 verða sett í gang ef alvarleg skotárás yrði gerð á Íslandi.
Viðbragðsáætlun Landspítala (LSH) tekur til eitrana, farsótta, geislavár, hópslysa, rýmingar og bilana í klínískum tölvukerfum. Ekki er skilgreint sérstaklega í áætluninni tegund slyss en í tilfelli alvarlegrar skotárásar myndi fjöldi slasaðra ráða viðbragðsstigi. Unnið er eftir verklagsreglum og gátlistum fyrir þessa atburðaflokka til að auðvelda starfsfólki LSH starfið þegar mikið reynir á.
Viðbragðsstig áætlunarinnar eru þrjú og er samræmi á milli nafngifta hjá LSH og Almannavarna. Viðbragðsstigin eru: Óvissustig, hættustig og neyðarstig.
Á óvissustigi eru fáir kallaðir til en treyst á það starfsfólk og þekkingu sem er til staðar á vaktinni hverju sinni. Á hættustigi verður útkallið stærra en samt um mikinn sveigjanleika að ræða. Á neyðarstigi er umfangið svo mikið að nauðsynlegt er að virkja LSH að fullu. Ákvörðun um viðbragðsstig er tekin til hliðsjónar við stærð verkefnis fyrir LSH og ástands innan stofnunar. LSH starfar því oft ekki á sama viðbragðsstigi og aðrir í almannavarnakerfinu.
Viðbragðsstjórn Landspítala ákveður hverju sinni viðbragðsstig Landspítala.
Birgitta Jónsdóttir hefur ekki verið áberandi í umræðunni síðan hún hætti á þingi haustið 2017. Á því varð þó breyting eftir yfirhalningu fyrrum samstarfsmanna á henni á fundi Pírata fyrir skömmu. Hún viðurkennir að þau ummæli hafi verið áfall, en hún vilji ekki fara niður á sama plan og þau með því að svara fyrir sig. Hún hafi lent í mun erfiðari raunum á lífsleiðinni og lært að takast á við sjálfa sig og áföllin.
Að spyrja Birgittu um einkalíf hennar og nánasta fólk er eins og að ganga á vegg. Hún segist alltaf hafa passað vel upp á það að blanda ekki einkamálum sínum í opinbera umræðu.
„Ég er mikill varðhundur friðhelgi einkalífsins,“ segir hún hlæjandi. „En ég hef verið í flóknu sambandi við sjálfa mig alllengi og þegar maður fer í svona brjálæði eins og ég hef verið í er enginn tími fyrir eitthvert tilhugalíf, en ég á þrjú börn sem eru öll orðin meira en átján ára og tókst það sem fáum sem hafa verið áberandi í stjórnmálum hefur tekist að passa vel upp á þau og blanda þeim ekki inn í það drullusvað sem pólitíkin er.
Það er eitt af því sem fólk gleymir þegar það segir ógeðslega ljóta hluti um aðra, oft án þess að hafa nokkurn tíma átt í samskiptum við viðkomandi, að þessir aðilar sem verið er að viðhafa svona stór orð um eiga sitt líf og sínar fjölskyldur.
Það má vera með harða gagnrýni á verk stjórnmálamanna en þegar farið er að sjúkdómsgreina aðra opinberlega má fólk aðeins fara að hugsa sinn gang. Hafi fólk eitthvað út á mann að setja sem manneskju er lágmarkskrafa að það sé tilbúið að segja það við mann augliti til auglitis í einkasamtali. Ef fólk er ekki tilbúið til þess þá blokkera ég það, alveg án þess að hika. Fólk verður að geta staðið undir því sem það segir.“
Birgitta hefur unnið mikið í sjálfri sér og sínum vandamálum í gegnum árin og segir það gjörsamlega hafa bjargað sér.
„Ég var svo heppin að detta inn í prógramm fyrir aðstandendur alkóhólista og það hefur algjörlega bjargað mér,“ útskýrir hún. „Það er erfitt að búa í litla samfélaginu þar sem allir þekkja alla og allir hafa skoðanir á öllum og sú sjálfsvinna sem fylgir því að fara í gegnum 12 spora kerfið hefur hjálpað mér óendanlega mikið.
„Eftir að hafa gengið í gegnum Asberger-greiningu með yngsta son minn er ég nokkuð viss um að ég er með Asberger. Ég get ekki logið og trúi alltaf að annað fólk meini það sem það segir.“
Eftir að hafa gengið í gegnum Asberger-greiningu með yngsta son minn er ég nokkuð viss um að ég er með Asberger. Ég get ekki logið og trúi alltaf að annað fólk meini það sem það segir. Verð svo rosalega hissa þegar það stendur ekki við það. Margir hafa sagt að ég sé óskaplega naív, en ég er bara svona og hef ekki áhuga á því breyta því.
Eitt af því sem er erfitt hér á Íslandi er hvað fólk sem er öðruvísi hefur litla möguleika á að blómstra og við sem þjóð þurfum að læra að vera umburðarlyndari gagnvart fjölbreytileikanum. Það eru nefnilega allir öðruvísi, ég hef aldrei hitt venjulega manneskju. Hún er bara mýta.“
Erlendir kaupsýslumenn höfðu ærna ástæða til að gleðjast í vikunni á meðan íslenskur verkfræðingur, sem stóð í málaferlum við HR, reið ekki feitum hesti.
Góð vika
Óhætt er að segja erlendir kaupsýslumenn hafi átt góða viku hér. Greint frá því að breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe áformaði að stækka hrygningarsvæði laxa á Norðausturlandi, m.a. í því skyni að að vernda laxastofna, en Ratcliffe hefur verið mikið sviðsljósinu vegna umdeildra jarðakaupa á Íslandi. Fréttin kom beint í kjölfar þeirra tíðinda að pítsukeðjan vinsæla Domino’s á Íslandi væri komin að fullu í hendur Breta. Óhætt er að segja að landsmenn séu sólgnir í flatbökur því hvorki meira né minna en 25 Dominos-staðir eru reknir á Íslandi svo að fjárfestingin á vafalaust eftir að skila vænni summu í vasann á Bretum, líkt og jarðakaup Ratcliffe.
Slæm vika
Það er mikil ásókn í þetta dálkapláss þessa vikuna. Ferðaþjónustan hefur ekki átt sjö dagana sæla og sælkerar fengu aðsvif þegar í ljós kom að fyrrverandi Michelin-staðnum Dill hafði verið lokað. Fáir hafa þó átt jafnslæma daga og Kristinn Sigurjónsson, fyrrum lektor í verkfræði við HR. Kristinn var rekinn úr starfi fyrir að láta ýmis miður falleg ummæli um konur falla á Facebook og höfðaði í kjölfarið mál gegn HR og krafðist 57 milljóna króna í skaðabætur. Í vikunni sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur skólann af kröfu Kristins og staðfesti þar með að ekki er hægt að níða niður heilu samfélagshópana án afleiðinga og ætlast til að fá bætur þegar maður fær bágt fyrir.
Héraðið, ný íslensk kvikmynd Gríms Hákonarsonar verður frumsýnd næsta miðvikudag í bíóhúsum um allt land. Mannlífi náði tali af leikstjóranum sem viðurkennir að það sé pressa að fylgja eftir hinni margrómuðu mynd Hrútum. Auk þess hafi hann farið langt út fyrir þægindarammann við gerð þessarar nýjustu myndar sinnar sem er hans stærsta verkefni til þessa.
„Ég verð nú að játa að þótt maður hafi gert þetta oftar en einu sinni og alveg verið stressaðri en núna, þá fær maður samt alltaf smáfiðring í magann fyrir frumsýningu. Sérstaklega þegar maður er að fara að frumsýna á Íslandi. Það er bara öðruvísi tilfinning sem fylgir því að sýna myndirnar sínum nánustu en einhverjum blaðamönnum og gagnrýnendum úti í heimi. Álit vina og vandamanna og bara Íslendinga yfirhöfuð vegur einhvern veginn þyngra,“ segir Grímur, þegar hann er spurður að því hvort frumsýningarskjálftinn sé eitthvað farinn að gera vart við sig.
Hann bætir við að það sé auðvitað líka ákveðin pressa að fylgja eftir kvikmynd eins og Hrútum, enda hafi hún notið velgengni þegar hún kom út árið 2015, bæði hlotið góða dóma og rakað til sín verðlaunum um allan heim. Eðlilega séu ákveðnar væntingar í gangi og hann sé meðvitaður um það. „Já já, fólk á klárlega eftir að bera Héraðið saman við Hrúta þrátt fyrir að þessar tvær myndir eigi nú eiginlega fátt sameiginlegt fyrir utan það að þær skuli báðar gerast í sveit og bera mín höfundareinkenni. Hrútar var til dæmis fjölskyldusaga með flókið bræðrasamband í forgrunni, á meðan Héraðið snýst um Ingu, miðaldra kúabónda sem gerir uppreisn gegn kaupfélagi og er því hrein og bein samfélagsádeila. Þetta eru bara mjög ólíkar myndir.“
„Ég skal alveg vera fyrstur manna til að viðurkenna að mínar eigin myndir hafa verið frekar karllægar hingað til. Ástæðan er bara sú að það er auðveldara að skrifa um það sem maður þekkir.“
Fékk innblástur við lestur Heiðu fjalldalabónda
Héraðið segir Grímur enn fremur vera hetjusögu konu sem rís upp gegn karllægu samfélagi en innblásturinn að persónunni hafi meðal annars verið fengin úr Heiðu – fjalldalabónda, sögu Steinunnar Sigurðardóttur um Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur sem valdi að gerast sauðfjárbóndi í stað þess að verða fyrirsæta í New York. „Sú bók sýnir nefnilega svo vel þær breytingar sem hafa orðið á ímynd íslenskra bænda undanfarin ár. Þegar talað var um bændur hér áður fyrr sá maður strax fyrir sér karla en það hefur breyst eftir að konur fóru að ganga í öll störf í sveitinni og halda úti búum. Þar eru karlleg viðhorf og íhaldssöm gildi því ekki lengur allsráðandi. Eiginlega má segja að viss kvennabylting hafi átt sér stað. Mér fannst áhugavert að skoða það þegar ég skrifaði handritið að myndinni.“
Alls ekki barnanna bestur
Grímur segir þó fleira hafa ráðið valinu á viðfangsefni. Aukin umræða um rýrt hlutskipti kvenpersóna í íslenskum kvikmyndum hafi til dæmis haft áhrif. „Ég skal alveg vera fyrstur manna til að viðurkenna að mínar eigin myndir hafa verið frekar karllægar hingað til. Ég er því langt frá því að vera barnanna bestur. Ástæðan er bara sú að það er auðveldara að skrifa um það sem maður þekkir. Ég hugsa að það sé til dæmis ein helsta ástæðan fyrir því að við sjáum svona fáar kvikmyndir um konur á Íslandi. Bransinn hérna er bara svo karllægur. Mikill meirihluti félagsmanna í Samtökum kvikmyndaleikstjóra eru karlar og þeir skrifa frekar út frá eigin reynsluheimi, því sem þeir þekkja vel. Það segir sig einfaldlega sjálft að það er auðveldara.“
Áskorun að gera mynd um konu
Hann segir að sjálfum hafi sér fundist það vera áskorun að bregða út af vananum og gera mynd út frá sjónarhóli konu. Hann hafi þurft að fara ansi langt út fyrir þægindarammann. „Maður verður náttúrlega hræddur um að gera þetta eitthvað vitlaust og útkoman verði eintóm klisja. En sem betur fer held ég að við sem komum að myndinni getum verið sátt við hvernig til tókst með persónuna og hennar sögu, þótt ég segi sjálfur frá. Þær konur sem hafa séð hana eru að minnsta kosti nokkuð ánægðar,“ segir hann og þakkar það ekki síst leikkonunni Arndísi Hrönn Egilsdóttur sem fer með hlutverk bóndans Ingu í myndinni. „Já, það er óhætt að segja að Arndís hafi búið sig gríðarlega vel undir hlutverkið. Dvaldi meðal annars á sveitabæjum í tvær vikur til að læra réttu handtökin svo hún liti ekki út fyrir að vera „leikkona að moka flór“, eins og hún orðaði það sjálf. Hún lagði sig alla fram um að gera persónu Ingu sem trúverðugasta og á hrós skilið.“
Vissi ekki hvort hann myndi gera aðra leikna mynd
Héraðið er stærsta og dýrasta verkefni Gríms til þessa, helmingi dýrari í framleiðslu en Hrútar sem hann segist hafa gert á sínum tíma fyrir lítinn pening, nánast eingöngu fyrir styrk frá Kvikmyndasjóði. Í þetta sinn hafi fengist meira fjármagn, líka erlendis frá sem varð til þess að meiri tími gafst til að gera myndina og það hafi eðlilega kostað sitt. „Já, það er gaman að segja frá því að velgengni Hrúta hjálpaði til við að fá peningana sem er frábært þar sem ég vissi hreinlega ekki hvort ég myndi gera fleiri leiknar myndir. Fyrstu leiknu myndinni minni, Sumarlandinu, var nefnilega ekkert allt of vel tekið og ég vissi að Hrútum þyrfti því að ganga vel svo ég fengi fjármagn til að gera þá næstu. Gott gengi Hrúta breytti því miklu fyrir mig sem kvikmyndagerðarmann og í raun alla sem komu að þeirri mynd. Án hennar hefði Héraðið hugsanlega aldrei orðið að veruleika.“
Þegar seld til yfir 30 landa
Ljóst er að heilmikil eftirvænting er fyrir Héraðinu því myndin hefur þegar verið seld til yfir 30 landa og kemur til með að verða sýnd í kvikmyndahúsum víðsvegar um Evrópu með haustinu. Að mati Gríms segir það ýmislegt um myndina að fyrirtæki um alla Evrópu skuli vilja kaupa hana. „Já, það sýnir einfaldlega að fólk hefur trú á henni,“ segir hann. „Hins vegar á alveg eftir að koma í ljós hvernig áhorfendur og gagnrýnendur taka henni. Það er ekkert sjálfgefið að þeir muni fíla hana þótt fyrirtækin geri það. Og þótt mynd fá til dæmis góða umfjöllun hér heima er ekki þar með sagt að hún fái góða dóma erlendis og öfugt. Hrútum var vel tekið bæði hér heima og erlendis, sem er nokkuð sjaldgæft. Það er í raun alltaf ákveðin óvissa og spenna í kringum myndirnar manns. Maður verður eiginlega bara að krossa fingur og vona það besta.“
Þegar hugsað er til áhættu af alvarlegum skotárásum á Íslandi ber að hafa í huga að rúmlega 72.000 skotvopn eru skráð á Íslandi samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2015. Þar segir jafnframt að þessi vopn séu í eigu 27.249 einstaklinga. Jafnframt er vitað að fjöldi óskráðra vopna er í umferð.
Samkvæmt úttekt sem gefin var út fyrir um ári síðan í tengslum við Small Arms Survey sem er viðamikil rannsókn um fjölda skotvopna í umferð í heiminum kemur fram að Ísland er í 10. sæti yfir fjölda skotvopna í eigu almennings. Í úttektinni kemur fram að á Íslandi eru 31 byssa á hverja 100 íbúa.
„Þetta eru stórhættuleg vopn í höndum óvita.“
Í Mannlífi fyrr sumar var haft eftir Árna Loga Sigurbjörnssyni byssusafnara að hann vissi til þess að um 70-80 þúsund byssur væru skráðar á landinu en aðeins 15-20 þúsund manns með gild skotvopnaleyfi. Árni var gagnrýninn á regluverk um skotvopnaleyfi fyrir skammbyssur á Íslandi. „Þetta eru stórhættuleg vopn í höndum óvita, og það er tilfellið að það eru margir óvitar sem eru að kaupa þetta. Ég bara veit það, ég er að umgangast þessa menn, og er m.a. að gera við byssurnar þeirra. Sumir þeirra og allt of margir eru búnir að fá skammbyssu upp í hendurnar, út á það að vera meðlimir í skotfélagi en jafnframt, sjást þeir aldrei á skotsvæðunum, þeir eru bara í skúmaskotum með skammbyssurnar.“
Reyndur fjallgöngumaður sem villtist í þoku á Hornströndum kallar eftir að fjarskiptasamband þar verði bætt. Ferðamannastraumur hafi aukist á svæðinu og því sé tímaspursmál hvenær stórslys verði.
Benedikt Sigurðsson frá Bolungarvík er þrautreyndur fjallgöngumaður og er að eigin sögn í „brjáluðu formi“. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann lenti í ógöngum í vikunni þegar hann ásamt eiginkonu sinni og vinafólki lagði af stað í göngu frá Hrafnsfirði yfir í Reykjafjörð á norðanverðum Vestfjörðum. „Þetta átti að vera fimm tíma skemmtiganga um Hornstrandir,“ segir hann, en svartaþoka olli því að hópurinn komst í sjálfheldu og kalla þurfti út björgunarsveit til að koma fólkinu til byggða. Í samtali við Mannlíf segir Benedikt að þetta hafi kennt honum að það sé aldrei of varlega farið þrátt fyrir reynslu og þekkingu. „Þegar maður lendir í svona svartaþoku að maður sér ekki nema rétt hendurnar á sér, þá er maður í helvíti vondum málum.“
Benedikt kallar eftir því að komið verði á talstöðvarsambandi á svæði Hornstranda en ferðafólki hefur fjölgað mjög á þessum slóðum undanfarin ár. „Ég fór þrívegis upp á fjöll í kring til þess að reyna að ná talstöðvarsambandi en án árangurs. Þetta er einskismannsland, fólk fer sjóleiðina og gengur svo á milli fjarða, eina leiðin til björgunar er með bátum eða þyrlu,“ útskýrir hann og bætir við að illa hefði getað farið ef einhver í hópnum hefði slasast því ekki var hægt gefa upp nákvæma staðsetningu í gegnum talstöðina. „Í fyrsta lagi hefði ekki verið hægt að koma viðkomandi í öruggt skjól og í öðru lagi hefði þyrlan ekki getað lent vegna þoku. Björgunarfólk hefði þurft að koma á bátum og svo hefði þurft að fara fótgangandi án þess að vita nákvæma staðsetningu. Það gæti tekið fleiri tíma og hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef einhver væri lífshættulega slasaður. Það er hrikalega vont að hafa ekki talstöðvarsamband þarna.“
„Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef einhver væri lífshættulega slasaður. Það er hrikalega vont að hafa ekki talstöðvarsamband þarna.“
Benedikt segir mikilvægt að setja upp endurvarpa á svæðinu til að koma á talstöðvarsambandi enda sé margt ferðafólk þarna og aðstæður hrikalega erfiðar. „Það er stundum rosalega margt erlent ferðafólk þarna, suma daga jafnvel fleiri hundruð manns. Það ætti ekki að vera mikið mál að koma á talstöðvarsambandi á svæðinu.“
Ferðalag hópsins hófst með siglingu frá Bolungarvík yfir í Hrafnsfjörð þar sem ætlunin var að hefja fimm tíma gönguna. „Leiðin yfir í Reykjafjörð er ágætlega merkt nema á einum 5 km kafla þar sem er enginn slóði og við lentum akkúrat í þoku þar og fundum ekki réttu leiðina. Áður en fórum af stað tók ég sem betur fer kompásmið stystu leið til baka frá Reykjafirði ef við skyldum villast, sem betur fer. Við ákváðum að fara þessa leið sem síðan allt of erfið yfirferðar. Þess vegna töfðumst við svona mikið og snerum að lokum við,“ útskýrir Benedikt.
Að sögn Benedikts er byrjað að stýra umferð inn á svæðið í einhverjum mæli. „Áður voru engin takmörk en nú fá ferðaskrifstofur aðeins leyfi til að fara með ákveðið marga í hverjum hópi; 12-15 manns í einu, minnir mig. Þá ber þeim að láta vita af öllum ferðum og gefa upp leiðarlýsingu.“
Guðbrandur Örn Arnarson, verkefnastjóri aðgerðamála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, tekur undir að Hornstrandir séu erfiðar viðureignar þegar kemur að björgunaraðgerðum. „Við höfum séð aukningu á verkefnum á Hornströndum. Þar er um langan veg að fara og aðeins fært sjóleiðina eða þá með þyrlu. Annaðhvort er siglt yfir og síðan þurfa menn að ganga eða það er flogið með þyrlu og reynt að leysa verkefnið þannig en það er ekki alltaf hægt vegna þoku, eins og í þessu tilfelli,“ segir hann.„Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef einhver væri lífshættulega slasaður. Það er hrikalega vont að hafa ekki talstöðvarsamband þarna.“
Tónlistarkonan Linda Hartmanns var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu, Blacklight. Linda segist hafa ákveðið að fara í gegnum þetta ferli algjörlega á eigin vegum eftir að hafa fengi margar synjanir og sáralitlar undirtektir frá aðilum í tónlistarbransanum. Það að gefa út plötuna sjálf hafi vægast sagt verið lærdómsrík reynsla.
„Þetta hefur svo sannarlega verið ævintýri og mikill lærdómur að ganga í gegnum þetta ferli,“ segir hún. „Á þessu litla landi okkar er tónlistarbransinn erfiður þegar kemur að því að ætla að komast að með sína eigin tónlist. Til að koma sér á framfæri þarf maður helst að nýta sér klíkuskap til fulls, þó að það séu auðvitað dæmi um listamenn sem komast að án þess. Ísland státar af óvenju mörgum góðum listamönnum, ekki síst með tilliti til höfðatölu, en engu að síður þykir mér of margar dyr lokaðar fyrir nýjum tónlistarstefnum og nýju tónlistarfólki,“ útskýrir hún.
Spurð hvernig henni líði með að hafa gert allt á eigin vegum, svarar hún að sér finnist svolítið eins og hún hafi verið að útskrifast úr löngu námi. „Í mínum augum er þetta mikið afrek. Ég áttaði mig svo sannarlega ekki á því hvað það er gríðarlega mikil vinna á bakvið heila plötu,“ segir hún og bætir við að ekki hafi hjálpað að vera í upptökum og útgáfuferli samhliða fullri vinnu með fjögur börn á stóru heimili. Eins og gefi að skilja hafi reynt mikið á skipulagshæfileikana.
„Ég hef þurft að staldra við og spyrja sjalfa mig: Fyrir hvern er ég að semja þessa tónlist? Fyrir hvern er ég gefa hana út? Til hvers er ég að gefa hana út? Hvað vil ég fá út úr þessu ferli?“
Hún segir að öll vinnan sem fylgdi plötunni hafi breytt viðhorfi sínu. „Ég hef alltaf verið með ákveðnar hugmyndir um „velgengni“ sem tónlistarkona. Í mínum huga snérist hún um vinsældir, frægð og útlit. Án gríns. En nú er ég hætt að hugsa um „velgengni“ í tónlistinni yfirhöfuð. Mér finnst mestu máli skipta að semja bara mína tónlist, setja hana á tónlistarveitur ef mér hugnast og búa til „beat“ í tónlistarforritinu mínu. Ég reyni að spila og syngja við þau tækifæri sem gefast þar sem þetta er jú mín ástríða í lífinu. Ef eitthvað meira og stærra kemur út úr því er það bara plús.“
Linda segir að markmið sé alls ekki að komast að í útvarpinu, ná einhverjum tilteknum fjölda aðdáenda eða fá alla til að finnast tónlistin hennar vera góð. „Ég hef þurft að staldra við og spyrja sjalfa mig: Fyrir hvern er ég að semja þessa tónlist? Fyrir hvern er ég gefa hana út? Til hvers er ég að gefa hana út? Hvað vil ég fá út úr þessu ferli? Og ég hef komist að nokkru sem margt tónlistarfólk er meðvitað um frá upphafi: Að sumir komast að seinna á tónlistarferlinum og aðrir komast jafnvel aldrei að. Þess vegna sem ég tónlist fyrir sjálfa mig. Engan annan.“
Linda vill miðla reynslu sinni til þeirra sem eru að íhuga að gefa út plötu en á Albumm.is hægt er að lesa um allt ferlið hjá henni, alveg frá því að Linda samdi lögin þar til hún hélt útgáfufupartí.
Hinsegin dagar fagna 20 ára afmæli í ár. Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi og formaður Hinsegin daga, segir að af því tilefni og þess að 50 ár skuli vera liðin frá Stonewall-uppreisninni svokölluðu komi hátíðarhöldin í ár til með að verða umfangsmeiri en áður.
„Í ár erum við að fagna 20 ára afmæli Hinsegin daga, þ.e. samfelldri tveggja áratuga sögu hinsegin hátíða í Reykjavík og minnumst einnig þess að 50 ár eru liðin frá Stonewall-uppreisninni í Kristóferstræti í New York, en upphaf Pride-hátíða er gjarnan tengt við þann atburð,“ segir hann og bætir við að vegna þessara tvöföldu tímamóta verði dagskráin lengri. Þannig standi hún í tíu daga, frá 8.-17. ágúst, og fjölbreyttir viðburðir í boði, dragkeppni, tónleikar, uppistand og margt fleira.
Gunnlaugur segir að á þessum viðburðum verði Stonewall að sjálfsögðu minnst eins og hægt er og horft til þess árangurs sem náðst hefur á síðustu 50 árum en einnig á þeim 20 árum sem Hinsegin dagar hafa verið haldnir í Reykjavík. „Það hefur gríðarlega margt breyst hvað varðar réttindi og sýnileika hinsegin fólks á undanförnum árum, hvort sem við horfum til þeirra 50 ára sem liðin eru frá Stonewall-uppreisninni, frá því að Samtökin ’78 voru stofnuð árið 1978 eða til þeirra 20 ára sem Hinsegin dagar hafa verið haldnir í Reykjavík. Sýnileiki hinsegin fólks hefur stóraukist, umburðarlyndi og frelsi sömuleiðis. Þá hafa fjölmargar lagalegar úrbætur verið gerðar hér á síðustu árum og áratugum, nú síðast með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru fyrr á árinu.“
Stærsta útihátíð landsins
Hann segir að hvað Hinsegin daga varði hafi hátíðin vaxið og dafnað svo um munar. „Árið 1999 var haldin Hinsegin helgi á Ingólfstorgi, ári síðar gengu nokkur þúsund hina fyrstu gleðigöngu en í dag sjáum við margra daga mannréttinda-, menningar- og marbreytileikahátíð sem endar með stærstu útihátíð landsins,“ segir hann glaður í bragði og getur þess að sýnileiki Hinsegin daga og sá mikli gestafjöldi sem hátíðina sæki hafi spurst víða, langt út fyrir landsteinana. Hinsegin dagar séu til að mynda stundum nefndir „the biggest small Pride in the world“ úti í heimi enda þekkist ekki annars staðar að upp undir þriðjungur þjóðar mæti til slíkra hátíðahalda hinsegin fólks.
Einstakt að upplifa alla þessa samstöðu
Sjálfur segist Gunnlaugur hafa séð fyrstu Gleðigönguna árið 2010. Tveimur árum síðar hafi hann gerst sjálfboðaliði á Hinsegin dögum og svo tekið sæti í stjórn Hinsegin daga árið 2013, fyrst sem gjaldkeri til ársins 2018 og formaður eftir það. Það hafi þó ekki verið fyrr en 2015 sem hann gekk sjálfur í fyrsta skipti en það ár tóku fulltrúar stjórnar Hinsegin daga í fyrsta sinn formlega þátt í Gleðigöngunni.
„Stóri dagurinn er svo alltaf ákveðið gæsahúðarmóment en um leið svakalegt spennufall.“
Sú hefð hefur haldist frá þeim tíma og hann því gengið fjórum sinnum hér heima en auk þess í göngunni í Kaupmannahöfn og í New York. Stemningin í Reykjavík í kringum Hinsegin daga og Gleðigönguna sé ansi mögnuð og í raun engu lík.
„Stóri dagurinn er svo alltaf ákveðið gæsahúðarmóment en um leið svakalegt spennufall. Það er bara ólýsanleg tilfinning að ganga um miðborgina, sjá regnbogann á lofti alls staðar og alla þá gleði og samstöðu sem myndast.“
Gleðigangan tímaskekkja?
Gunnlaugur segist reyndar oft vera spurður að því hvort Gleðigangan og Hinsegin dagar skipti enn máli, hvort þetta sé ekki orðið tímaskekkja. Hvort tveggja sé enn mjög mikilvægt því þótt margt hafi áunnist megi margt betur fara. „Í ár ræðum við til dæmis stöðu hinsegin fólks á atvinnumarkaði sem lítið hefur verið rætt hér ólíkt því sem gerist víða í nágrannalöndum okkar. Enn heyrum við af ungu fólki sem fær ekki að vera það sjálft í foreldrahúsum auk þess sem hinsegin ungmenni eru líklegri til sjálfskaða en jafnaldrar þeirra. Enn fáum við fréttir af ofbeldi, mismunun og öráreiti sem hinsegin fólki verður fyrir hérlendis. Það er hlutverk Hinsegin daga og Gleðigöngunnar að benda á það sem betur má fara um leið og við fögnum því sem hefur áunnist.“
Umsjón / Roald Eyvindsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Hérna eru lambalærissneiðarnar teknar upp á næsta stig með bragðgóðum kryddlegi og æðislegu meðlæti.
SS-kryddlegið lambakjöt er í bragðgóðum kryddlegi og hafa lambalærissneiðarnar verið með vinsælasta kjötinu á grill landsmanna í áraraðir.
Lambalærissneiðarnar koma einnig í handhægum umbúðum og þarf aðeins eitt handtak til að opna þær, þægilegra og einfaldara getur það ekki verið.
Með því að kaupa kjötið tilbúið í kryddlegi er hægt að nota tímann sem sparast í eldamennskunni og nostra örlítið meira við meðlætið.
Grillaðar kartöflur með steinselju fyrir 2-4
400 g kartöflur að eigin vali
2-3 msk. ólífuolía
1-2 tsk. sjávarsalt
1 tsk. nýmalaður svartur pipar
½ hnefafylli steinselja, söxuð gróflega
Hitið grill og hafið á háum hita (200°C -240°C). Setjið kartöflurnar beint á grillið en hafið þær ekki beint yfir eldinum. Grillið kartöflurnar í 20-25 mín. og snúið þeim við reglulega. Einnig er hægt að elda kartöflurnar í ofni á 200°C í 30-40 mín. Skerið kartöflurnar gróflega niður og setjið þær í skál með ólífuolíu, sjávarsalti, svörtum pipar og steinselju. Blandið öllu vel saman. Setjið álpappír yfir og setjið til hliðar.
Hrásalat fyrir 2-4
2 msk. ólífuolía
2 msk. nýkreistur límónusafi
½ tsk. fiskisósa
150 g kínakál, fínt saxað
150 g romaine-salat, fínt saxað
½ rauðlaukur, saxaður fínt
3 msk. blaðlaukur skorinn fínt, hvíti og ljósgræni parturinn notaður
3 msk. kóríander, fínt saxað
2 tsk. sesamfræ, ristuð á þurri pönnu
½ tsk. sjávarsalt
Blandið öllum hráefnum saman í skál og bragðbætið með sjávarsalti og límónusafa eftir smekk.
Tómatsalsa fyrir 2-4
230 g kirsuberjatómatar
1 lítill laukur, saxaður fínt
1 msk. ólífuolía
2 msk. maukað chili í krukku, við notuðum frá Santa Maria
1 hvítlauksgeiri, saxaður fínt
1 tsk. fiskisósa
½ -1 tsk. sjávarsalt
Hitið ofn í 200°C með yfirhita. Setjið tómata, lauk og ólífuolíu saman í eldfast mót með álpappír og blandið vel saman. Setjið undir hitann og eldið í 10-15 mín. eða þar til tómatarnir hafa fengið á sig örlítinn lit og laukurinn er orðinn mjúkur. Hrærið í reglulega. Setjið tómatblönduna í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Maukið þar til allt hefur samlagast vel. Setjið í skál og bragðbætið með salti.
Grillaðar lambalærissneiðar fyrir 2-4
700-800 g kryddlegnar lambalærissneiðar frá SS
Takið kjötið úr kælinum og látið það ná stofuhita. Hitið grill og hafið á háum hita. Grillið lærissneiðarnar í 2-3 mín. á hvorri hlið, eða 5-6 mín. fyrir þykkari sneiðar. Takið lærissneiðarnar af grillinu og berið fram með meðlætinu.
Matreiðsla / Folda Guðlaugsdóttir Stílisering og ritstjórn / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir Myndataka/ Hallur Karlsson og Hákon Davíð Björnsson Klipping / Hallur Karlsson